Melstaður, Skagaströnd, Löngumýri, Vestmannsvatn og Akureyrarkirkja!

Fundir framundan á Norðurlandi. Biskup Íslands verður kosinn í næsta mánuði. Nú er ráð að þau sem hafa kosningarétt komi saman til að tala um málefnin í því kjöri. Stuðningsfólk mitt býður til funda norðan heiða 16. – 19. febrúar.

Hverjir koma á svona fundi? Það er fólk, sem vill ræða um biskupskjör, stöðu kirkjunnar og framtíð. Fundarboðendur eru vissulega stuðningsfólk mitt og ég mun ræða um stefnu og áherslur mínar. En auk þess er tilgangur fundarins samtal um kirkjuna. Því eru allir velkomnir til fundar hvaða stefnu eða afstöðu sem menn hafa í biskupskjöri. Að sækja svona fund er ekki yfirlýsing um stuðning við biskupsefni heldur yfirlýsing um stuðning við kirkjuna.

Fundarstaðir eru fjórir þess daga.

Melstaður í Miðfirði, fimmtudaginn 16. febrúar kl. 17.

Skagaströnd – Hólaneskirkja – föstudaginn 17. febrúar kl. 12.

Löngumýri, föstudaginn 17. febrúar kl. 17.

Vestmannsvatn, laugardaginn 18. febrúar, kl. 13.

Akureyrarkirkja – safnaðarheimili, sunnudaginn 19. febrúar, kl. 13.

Ég mun prédika um hið lifandi vatn og skírn Jesú í Akureyrarkirkju þennan sunnudagsmorgun. Messan hefst kl. 11 og fundurinn verður kl. 13.

Stóru kirkjuvíddirnar

Á annadögum er mikilvægt að setjast niður, draga djúpt andann og lyfta sjónum. Það er líka gott að njóta samfélags viturs fólks. Þessa nýt ég í dag því ég tek þátt í ársfundi samkirkjunefndar og þar er mörgu miðlað sem varðar kirkjuna, starf hennar, hlutverk og sýn.

Kirknasamtök eru perlubönd kristninnar. Íslenska þjóðkirkjan er t.d. aðili að Heimsráði kirkna, Lútherska heimssambandinu, Kirknasambandi Evrópu og Porvoo-sambandinu. Þetta samstarf er mikilvægt fyrir kirkjuna því samskiptin eru gagnvirk og veita hugmyndum yfir mörk og mæri. Þær verða til hvatningar um starf, nýjar áherslur og þjónustu kirkjunnar. Afstaða okkar til hlutverks kirkju og kirkjusýnar verður fyrir áhrifum frá systurkirkjum og eflir sjálfsmynd kirkjunnar og þjóna hennar.

Það er magnað að hlusta á frásagnir um líf og starf þeirra kirkna og kirknahreyfinga, sem Íslendingar tengjast. Kirkjurnar í Afríku eru á fleygiferð og breytingaskeiði sem og samfélög þeirra. Smákirkjurnar í múslímska heiminum hafa margar misst vernd sína þegar ríkisstjórnum er steypt og arabíska vorið “skellur” á. Sagðar voru fréttir frá kirknasamtökum, hvernig kirkjur bregðast við breytingum, hvernig prests- og djáknaþjónustan er að breytast.

Erum við rík kirkja eða fátæk kirkja? Hvað eigum við að þiggja erlendis frá? Við höfum notið velvilja og alls konar stuðnings. En þrátt fyrir fjáreklu þjóðkirkjunnar þurfum ekki fé frá útlöndum. Miðlun hins djúptæka og óefnislega er mikilvægara. Mannauðurinn og andlegu dýrmætin eru mikilvægust. Þjóðkirkjan tók á fjárvana tímum ákvörðun um að vera grein á tré heimskirkjunnar. Og nú er kirkjan ekki rík en þó ekki svo snauð að fjármunum að hún geti ekki staðið við skuldbindingar sínar erlendis, t.d. að greiða árgjöld sín til kirknasamtakanna.

Oikoumene er grískt orð og merkti mannheimur í rómversku samhengi og hefur á síðari árum verið samheiti um heim kristinnar kirkju. Kristin kirkja varðar menn í nærsamfélagi og fjarsamfélagi. Að rækta tengsl við systur og bræður – fjölskyldukirkjur – er til bóta. Gott fjölskyldulíf er mikilvægt og þjóðkirkjan nýtur stórfjölskyldu kristninnar. Eflum samkirkjustarfið og allir styrkjast.

Úrsúla Árnadóttir, sóknarprestur Skagaströnd.

Við Sigurður Árni vorum vinnufélagar í tæp þrjú ár.  Ég fékk tækifæri til að kynnast honum vel og fylgjast með daglegum verkefnum hans. Ég speglaði sjálfa mig í störfum hans því í mér blundaði draumur um sama starfsvettvang.  Störf hans hafa verið mér ómetanlegur og lærdómsríkur skóli.  Viðmót hans við sóknarbörn sín og skjólstæðinga sína verður mér ævarandi fyrirmynd.  Djúp virðing og umvefjandi kærleikur gagnvart öllum manneskjum lýsir þeim samskiptum best.

Sigurður Árni hefur einstaklega góða nærveru.  Hann hefur einstakan hæfileika til að vinna traust fólks og fá það til að leggja sig fram.  Ég sá það marg oft að hann býr yfir mikilli tilfinningagreind sem geri honum kleift að stjórna við erfiðar aðstæður, hann á gott með að tjá sig, hafa áhrif og njóta virðingar.  Ég tel hann, vegna aldurs og ævisögu, búa yfir það mikilli lífsreynslu að hann þekki sjálfan sig vel, eigin tilfinningar og viðbrög við álagi.  Þess vegna hefur hann góða stjórn á sjálfum sér og aðstæðum t.d. í erfiðum og viðkvæmum viðræðum.

Í daglegu amstri sem og erfiðum aðstæðum er Sigurður Árni alltaf jákvæður, hvetjandi, styrkjandi og styðjandi.  Hann mun bæta sambönd og samskipti innan þess stóra samfélags sem hann býðst til að leiða.  Ég tel að það muni verða til mikillar gæfu að þiggja það boð.

sr. Ursula Árnadóttir sóknarprestur Skagaströnd.

Inga Rún Ólafsdóttir, formaður sóknarnefndar Breiðholtssóknar og kirkjuþingsmaður

Leiðir okkar Sigurðar Árna hafa legið saman af og til síðustu 8 árin, fyrst við fermingarundirbúning dóttur okkar hjóna og síðar í gegnum góða og trausta vini. Síðustu tvö árin höfum við setið saman á kirkjuþingi og átt þar gott samstarf.

Maður þarf ekki að umgangast Sigurð Árna lengi til að sjá að þar fer maður með afburða gáfur sem óhræddur er að fylgja sannfæringu sinni. Hann býr einnig yfir þeim góða eiginleika að hlusta af virðingu á skoðanir annara og taka tillit til þeirra.

Ég styð biskupskjör Sigurðar Árna vegna þess að ég treysti því að hann hafi burði til að leiða kirkjuna í því mikilvæga hlutverki að sætta þjóð og kirkju og jafnframt til að leiða stærstu fjöldahreifingu landsins út úr því sjálfskipaða hlutverki að vera best geymda leyndarmál Íslands.

Inga Rún Ólafsdóttir, formaður sóknarnefndar Breiðholtssóknar og kirkjuþingsmaður

Helga Brá Árnadóttir, verkefnisstjóri hjá HÍ

Við Sigurður Árni kynntumst í Mótettukórnum fyrir allmörgum árum en kórinn og allt það góða fólk sem þar hefur sungið, undir stjórn Harðar Áskelssonar, hefur lengi verið stór hluti af mínu lífi. Þegar ég eignaðist mitt fyrsta barn, Margréti Láru, fyrir rúmum sex árum kom því ekki annað til greina en að fá Sigurð Árna til að skíra. Hann var þá orðinn prestur í Neskirkju, kirkjunni okkar hér í Vesturbænum. Ég vildi skíra heima og Sigurður Árni tók að sjálfsögðu vel í það, enda alltaf boðinn og til þjónustu reiðubúinn. Athöfnin var afslöppuð og falleg undir hans handleiðslu með undirleik og söng fyrrum kórfélaga.

Ég kynntist svo Sigurði Árna enn betur fyrir nokkrum árum þegar ég leitaði til hans eftir erfið veikindi sem nú eru að baki. Hann var mér ekki bara sálusorgari, heldur traustur og sannur vinur. Hann var alltaf til staðar þegar ég þurfti á honum að halda, tók mér svo sannarlega opnum örmum og gerir enn. Hann hlustaði með athygli og áhuga – og leiddi mig með umhyggju sinni og hlýju í gegnum óttann og sársaukann. Og takið eftir – hann hlustaði – og það er afar dýrmætur kostur fyrir mann í hans stöðu! Það sem mér þótti líka afar vænt um var hvernig hann fylgdist með mér úr fjarlægð  og þannig kom svo augljóslega í ljós einlægur áhugi hans á öðru fólki – honum  er ekki sama um náungann.

Fyrir rétt tæpum mánuði skírði Sigurður Árni yngri dóttur mína, Þórunni Helenu. Athöfnin fór sem fyrr fram hér heima – alveg dásamleg sem og þegar frumburðurinn var skírður enda á Sigurður Árni  auðvelt með að láta fólki líða vel í kringum sig. Hann er afslappaður, yfirvegaður, hlýr, glaðlegur og glettinn. Útgeislun hans og kímnigáfa fær fólk, jafnt trúaða sem ótrúaða, til að hrífast með svo ég tali nú ekki um ánægju hans af og þátttöku í flutningi fallegrar tónlistar. Þrátt fyrir að Sigurður Árni væri ekki búinn að bjóða sig fram til biskups voru langömmurnar, aldursforsetarnir í skírnarveislunni, vissar um eitt: Þessi ljúfi, röggsami og brosmildi prestur ætti að verða biskup!

Sigurður Árni er maður trúarinnar en hann er jafnframt maður efans – og það gerir hann svo skilningsríkan og umburðarlyndan gagnvart skoðunum, hugmyndum og pælingum annarra um lífsins fílósófí.  Í spjalli okkar um allt milli himins og jarðar, svo ekki sé talað um tilveru og tilvist mannsins, tilfinningar hans og samskipti, fann ég hversu fordómalaus hann er og  tilbúinn að skilja og virða afstöðu annarra. Sá eiginleiki nýtist vel í biskupsþjónustu.
Sigurður Árni er líka að vissu leyti róttækur eins og sjá má í pistlum hans í Fréttablaðinu. Hann nálgast menn og málefni á heimspekilegan hátt og telur kirkjuna langt í frá yfir  gagnrýni hafna. Það er án vafa góður eiginleiki og þannig sjónarmið skipta sköpum fyrir framtíð kirkjunnar hér á landi, svo ekki sé talað um embætti biskups.

Þjóðkirkjan stendur á tímamótum og samfélagið krefst breytinga. Framtíðarkirkjan er Sigurði Árna efst í huga og hann vill beita sér fyrir breytingum og eflingu þjóðkirkjunnar. Það þarf að endurnýja hugmyndafræði og áherslur kirkjunnar í samræmi við nútímasamfélag. Ef kirkjan ætlar að halda velli þarf að styrkja tengslin við þjóðina og í forystu þarf að vera maður, eins og Sigurður Árni, sem er tilbúinn og þorir að horfast í augu við gagnrýni og hlusta á gagnrýnisraddir undanfarinna ára og  áratuga með opnu hugarfari.

Sigurður Árni er  lipur og hæfur í mannlegum samskiptum. Það ásamt menntun hans, reynslu og síðast en ekki síst fordómaleysi og kímnigáfu, er gott veganesti í embættisstól biskups Íslands. Hver veit nema langömmurnar hafi haft rétt fyrir sér í skírninni á fögrum sunnudegi þann 15. janúar síðastliðinn – allavega á Sigurður Árni erindi í embætti biskups Íslands. Þar tel ég að yrði svo sannarlega réttur maður á réttum stað!