Greinasafn fyrir merki: kyn og guðfræði

Málnotkun og kynjað málfar

“Sex inclusive language – Guidelines.” Talsverður bunki af blöðum, námsskrám, upplýsingum og leiðbeiningum var lagður í hendur nýnemanna í guðfræðideild Vanderbiltháskóla haustið 1979. Þetta var eitthvað á skjön við allt hitt: “Sex-inclusive language – Guidelines.” Hvað er nú það?

Að baki kynbundu máli

Ég man eftir að ritið olli nokkrum heilabrotum og var ljóst að þetta var alls ekki einhver klámbæklingur! Formlegur og virðulegur frágangur skjalsins, sem bar skjaldarmerki háskólans og nafn sómakærrar guðfræðideildar á forsíðunni, tók af allan vafa um að þetta skyldi íhuga og taka alvarlega. Við nánari skoðun kom í ljós að um var að ræða leiðbeiningar fyrir nemendur og alla starfsmenn um mál og tengsl þess við kyn og kynferði.

Þannig var það í mínum gamla skóla í Suðurríkjum Bandaríkjanna á níunda áratug síðustu aldar. Þá var þessi guðfræðideild búin að ræða málnotkun guðfræði og kirkjumállýskur í mörg ár, búin að taka á fordómum, vinna með varnir kennara og nemenda og ræða kosti og óskosti. Ákveðið hafði verið með fullum stuðningi flestra kennara og starfsmanna deildarinnar að kynniðrandi mál skyldi ekki nota í skólanum. Einu gilti hvort það var í samræðum skólastofunnar, tímaritgerðum, prófum, kappræðum, deildarfundum eða fyrirlestrum.

Þetta var á þeim árum þegar Mary Daly var varla þekkt nema í þröngum faghópum, kvennguðfræði var í fósturlíki og í miðri meðgöngu. En þarna var einfaldlega öflugur hópur kennara, karla og kvenna, sem slátraði mörgum heilögum kúm, var tilbúinn að hugsa ný mál og frá nýjum forsendum. Svo var ekki verra að deildarforseti þá var Sallie McFague, sem síðar varð einn kunnasti málgreinir kvennaguðfræðinnar.

Að læra nýtt mál og skapa nýjan heim

Mér fannst ekki erfitt að aðlagast þessum leiðbeiningum. Ég var að læra að lifa í nýju tungumáli, enskunni. Þetta var bara eins og reglur um greini eða viðtengingarhátt, eitthvað til að æfa sig á, gera mistök, prufa nýtt og innlifast síðan. Þannig var um fleiri, sem kunnu sex-exclusive mál, höfðu lært að segja bræður þegar átt var við systkin, hann um einstakling þegar ekki var vitað um kyn og hann um Guð þegar ekkert var verið að ýja að kyni Guðs eða hlut kynferðis í trúarlegri upplifun. Umræður urðu vissulega um kynjatungu, málið handa kynja og mál beggja eða allra kynja. Plaggið “Sex-inclusive language – guidelines” hafði áhrif og breytti orðfæri, gerði fólki mögulegt að hugsa á nýjan máta og prufa nýjar brautir og hugmyndatengingar.

Hin spámannlega rödd kennaranna varð til að efla þor til nýsköpunar á engi andans. Hún hefur enn áhrif, því ég reyndi að innræta mér að nota mál kynja á íslensku líka og gildir einu að orðið Guð er skv. hefðinni karlkyns. Umorðun er möguleg. Við verðum ekki, erum ekki nauðbeygð, að segja hann um Guð, þegar Guð hefur verið nefndur einu sinni. Ég varð upptekinn af hinni spámannlegu vídd á sínum tíma og gerði mér grein fyrir hvað Vanderbilt-guðfræðideildin var á undan sinni samtíð, kirkjum og skólum um öll Bandaríkin og er reyndar enn.

Til góðs að heyra spámannsrödd

Æ síðan hef ég litið svo á að mikilvægt væri að leggja ekki stein í götu þeirra, sem vilja að mál kirkjunnar og guðfræðinnar á Íslandi sé meira mál en karla. Rödd þeirra er spámannleg og mætti hlusta á og hvetja okkur til að íhuga, hvort við erum hamin af andlegum höftum, með þunga andlega bakpoka óþarfra fordóma úr málinu um Guð og þar með okkur menn. Vissulega er eðlilegt að nota tungumálið vel, en það er óþarfi á láta kyn orða eyðileggja guðfræði og öfluga trúartúlkun. Ég geri mér grein fyrir muninum á málfræðilegu kyni og öðrum notkunarmöguleikum tungumálsins en málfræðilegt kyn á ekki að stjórna hvernig handankynsmál eru skilin og túlkuð. 

Þegar ég heyri sterk viðbrögð við endurskoðun máls kynja spyr ég mig: Er þarna á ferð forherðing í trúarefnum, skortur á vilja til að heyra rödd hrópanda í eyðimörkinni, andóf gegn iðrunarferlinu í sinninu? Ef svo er þá er alvara á ferð og nauðsynlegt að skrifa ritið: „Mál kynja í íslensku þjóðkirkjunni – leiðbeiningar“ og setja svo merki þjóðkirkjunnar á forsíðuna, afhenda guðfræðinemum á fyrsta ári, prestum við vígslu, próföstum við innsetningu og sóknarnefndarmönnum um allt land. Og kannsku setja í starfsreglur kirkjunnar? Gæti verið að dýrkun Guðs myndi eflast og skilningur á fjölbreytni mannlífsins og dýrmæti hverrar mannveru einnig?

Ávarp SÁÞ á þingi um kynjað málfar.