Hjálp – hjálpaðu mér!

IMG_0231Hvað bregst fólk við þegar það lendir í lífsháska, t.d. fellur í ískaldan sjó og enginn bátur eða bjarghringur nærri? Ég hef hlustað á fólk lýsa viðbrögðum sínum. Og svo er líka æpt upp í himininn um hjálp.

Lífsópin

Hvað gerir flughrætt fólk þegar það lendir í flugdýfum í óveðri. Ég lenti einu sinni í rosalegu þrumuveðri yfir New York. Eldingar skáru myrk skýin og skruggurnar voru skelfileg nornaöskur. Um tíma var þögn farþeganna alger, nánast eins og í grafhýsi. Engar vélar lentu vegna óveðursins og flugvélin varð að bíða í risastórum flugstrokk yfir borginni. Allar vélarnar hringsóluðu og hentust til og tóku dýfur í öskrandi veðrinu. Þá ærðust nokkur af skelfingu og æptu í verstu kviðunum. Lífsþorstinn, lífsþráin spratt fram með miklum krafti.

Hvað gerir fólk þegar börnin veikjast og eru við dauðans dyr? Ég átti einu sinni dreng á vökudeild sem barðist fyrir lífi sínu. Og nokkur önnur voru á deildinni sem ekki var vitað hvernig reiddi af. Við, foreldrarnir, gengum um stjörf af ótta og bænirnir hrísluðust upp í hvelfingu himinsins. „Guð minn góður gefðu drengnum mínum líf.“ „Guð minn góður hjálpaðu stelpunni minni – ekki taka hana.“

Hvað gerir þegar þú þegar erfiðleikar steðja að þér og þú lendir í óskaplegum aðstæðum sem reyna á þrek, aðstæður, vit, þolinmæði og þrautsegju. Stundum verður álagið lamandi og fólk biður um að þessu megi linna og það geti komist út úr vandanum.

Hvað gerir þú þegar heilsan bilar? Ég hef horft í augu margra sem berjast við krabbamein. Ég bið fyrir mörgum sem eiga við skelfilegan heilsufarsvanda að etja. Hér í kirkjunni er m.a.s. bænastund í hverri viku – á þriðjudögum – þar sem beðið er fyrir veiku fólki. Á ögurstundum reynir á þroska fólks og hver er andleg festa þess. Og um hvað biður fólk? Lækningu, að verkir, mein læknist og að sjúkdómar víki. Fólk vill heilsu, gott líf.

Í hvaða aðstæðum leið þér verst? Hvenær var mest reynt á þig? Hvað gerðir þú þá? Hvernig brástu við? Baðstu annað fólk um hjálp? Hrópaðir þú til guðlegra máttarvalda? Trúir þú að frá Guði sé einhverja hjálp að fá?

Miskunna þú oss

Þessar spurningar, hugleiðingar og minningar eru til að ramma texta dagsins. Jesús var á ferð. Hann var við n.k. endimörk heimsins, þ.e. við samversku landamærin þar sem sómakærir fóru helst ekki. Og við þessi lífsmörk voru menn í lífshættu, tíu líkþráir menn alsettir sárum. Þeir voru menn sem allir forðuðust því sjúkdómur þeirra var hryllilegur og smitandi. Og líkþrá dró menn til dauða. Sjúkir menn rotnuðu eiginlega lifandi. Þeir voru því stórhættulegir, eins og geislavirkir. Fólk óttaðist þá og forðaðist þá fremur en að koma til þeirra. Þessi dauðasveit æpti til Jesú og bað hann að miskunna sér. Líkþráir menn eru sem tákn um allan vanda okkar og heimsins. Þeir æpa á hjálp af því þeir voru í lífsháska. Ekkert gat hjálpað þeim úr þessum nágreipum sem héldu fast og drógu þá niður í grafirnar hægt og örugglega. Hróp þeirra var einfalt en skýrt: „Jesús, meistari, miskunna þú oss!“ Í flestum mesum heimsins er þessi sama bæn beðin. Hún kemur frá þessum mönnum og öðrum sem kölluðu til Jesú: „… miskunna þú oss.“

Ranveruleg bæn?

Heyrum við þessi hróp? Skiljum við þau? Er þetta sem við segjum eða syngjum í upphafi messunnar bara orðagjálfur fólks sem nennir að fara á fætur á sunnudagsmorgni til að fara í kirkju? Er þetta merkingarlaus þula án blóðs, svita og tára? Þurfum við að taka glanspappírinn utan af messusetningunum? Þurfum við að þvo af okkur svolítið af slepju vanans, helgislepjunni líka? Getur verið að það gagnist okkur í vanda og lífi? Já, því allt sem er sagt og tjáð í messunni er um raunverulegt líf, um atburði í þínu lífi, tengist því sem þú ert og því sem þú upplifir. Við megum gjarnan skilja að orðin eru ekki himneska, utan við heiminn og í einhverju dauðhreinsuðu helgirými, heldur varða okkar innri mann, heilsu, samskipti, mat, hreyfingu, hlátur, áföll, flugslys, giftingar, börn – lífið í margbreytileika sínum.

Tíu líkþráir menn stóðu ekki í verklausri pásu við veginn og biðu eftir einhverri skemmtun. Þeir æptu vegna þess að lífi þeirra var ógnað, innan frá, utan frá, félagslega og trúarlega. Þó þeir stæðu þarna lifandi voru þeir samt dauðadæmdir menn. Og þeir tjáðu sín hjartans mál með orðunum: „Miskunna þú oss.“ „Kyrie elison“ eru þessi orð á grísku og til í þúsundum tónverka, kirkjutexta, bókmenntum og menningarefni. Í þessari setningu er orðuð þrá lífsins í landi dauðans. Í Biblíunni hefur miskunn verið heiti yfir hjálp sem fólki veitist til að það geti lifað. Miskunn er ekki eitthvað á himnum heldur á jörðu; varðar mat, hjálp gegn óttaefnum, hjálp í stríðum, náttúruhamförum og þegar börnin deyja, maki ferst, þegar sjúkdómar æða eða villidýr bíta. Að njóta miskunnar er að njóta lífs. Beiðnin um að verða miskunnað merkir að fólk fái heilsu, verði bjargað, fái svalað svengd maga og sálar.

Þakkarleysið

Hinir líkþráu voru á leiðarenda og hrópuðu út úr dauðadeildinni. Og þeir báðu Jesú Krist, um hjálp. Sagan er ekki um hvað eða hvernig Jesús fór að. Sagan er fremur um til hvers lífið er, möguleika í aðkrepptum aðstæðum. Sagan tjáir að Guð heyrir köll, bregst við, svarar fólki og styður það sem er gott og verndar líf. Og mennirnir fóru og í ljós kom við rannsókn að sjúkdómur þeirra var rénandi, sárin voru að gróa, þeir voru heilir. En sagan á sér skuggahlið. Við fáum við líka að vita að 90% gleymdu að þakka fyrir sig. Þeir voru svo fljótir að gleyma að aðeins 10% hópsins kom til að segja takk við Jesú Krist, sem gaf þeim lífið að nýju. Og þakklæti varðar lífsafstöðu.

Hvernig tengir þú?

Miskunna þú mér – hjálp. Það var kall dagsins. Og nú erum við búin að biðja hjálparbænina í messunni í dag. Ef þú hefur lent í lífsháska eða verulega aðkrepptum aðstæðum veistu að þú hefur þurft hjálp. Við túlkum í algeru og róttæku frelsi hvort hjálpin er smá eða stór. Ef við höfum enga trú á guðlegum mætti búumst við ekki við neinum svörum við hjálparbeiðnum. En ef við erum trúarlega músíkölsk getum við séð Guð að verki alls staðar. Mér hugnast slík nálgun betur en hin. Á sjúkrahúsum, í skólum, í samskiptum fólks, í flugvélum, í stríðum og erfiðum aðstæðum er Guð nærri. Miskunna þú – hjálp. Og Guð heyrir og við megum trúa að Guð bregðist við.

Hvernig líður þér? Hefur þú hrópað á hjálp í lífsháska? Hefur þú fengið hjálp þegar ástvinir þínir börðust við sjúkdóma og dauða? Er hjálpin sem þú fékkst sjálfsögð eða guðsgjöf?

Amen.

Hallgrímskirkja 28. ágúst.

Textaröð: A

Lexía: Slm 146

Hallelúja.

Lofa þú Drottin, sála mín.

Ég vil lofa Drottin á meðan ég lifi,

lofsyngja Guði mínum meðan ég er til.

Treystið eigi tignarmönnum,

mönnum sem enga hjálp geta veitt.

Þegar öndin skilur við þá

verða þeir aftur að moldu

og áform þeirra verða að engu.

Sæll er sá sem á Jakobs Guð sér til hjálpar

og setur von sína á Drottin, Guð sinn,

hann sem skapaði himin og jörð,

hafið og allt sem í því er,

hann sem er ævinlega trúfastur.

Hann rekur réttar kúgaðra,

gefur hungruðum brauð.

Drottinn leysir bandingja,

Drottinn opnar augu blindra,

Drottinn reisir upp niðurbeygða,

Drottinn elskar réttláta,

Drottinn verndar útlendinga,

hann annast ekkjur og munaðarlausa

en óguðlega lætur hann fara villa vegar.

Drottinn er konungur að eilífu,

Guð þinn, Síon, frá kyni til kyns.

Hallelúja.

 

Pistill: Gal 5.16-24

En ég segi: Lifið í andanum og þá fullnægið þið alls ekki girnd holdsins. Holdið girnist gegn andanum og andinn gegn holdinu. Þau standa hvort gegn öðru til þess að þið gerið ekki það sem þið viljið. En ef þið leiðist af andanum þá eruð þið ekki undir lögmáli.

Holdsins verk eru augljós: frillulífi, óhreinleiki, saurlífi, skurðgoðadýrkun, fjölkynngi, fjandskapur, deilur, metingur, reiði, eigingirni, tvídrægni, flokkadráttur, öfund, ofdrykkja, svall og annað þessu líkt. Og það segi ég ykkur fyrir, eins og ég hef áður sagt, að þeir sem slíkt gera munu ekki erfa Guðs ríki.

En ávöxtur andans er: kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og sjálfsagi. Gegn slíku er lögmálið ekki. En þeir sem trúa á Krist hafa krossfest holdið með ástríðum þess og girndum.

 

Guðspjall: Lúk 17.11-19

Svo bar við á ferð Jesú til Jerúsalem að leið hans lá á mörkum Samaríu og Galíleu. Og er hann kom inn í þorp nokkurt mættu honum tíu líkþráir menn. Þeir stóðu álengdar, hófu upp raust sína og kölluðu: „Jesús, meistari, miskunna þú oss!“ Jesús sá þá og sagði við þá: „Farið og sýnið yður prestunum.“ Þeir héldu af stað og nú brá svo við að þeir urðu hreinir. En einn þeirra sneri aftur er hann sá að hann var heill orðinn og lofaði Guð hárri raustu. Hann féll fram að fótum Jesú og þakkaði honum. En hann var Samverji. Jesús sagði: „Urðu ekki allir tíu hreinir? Hvar eru hinir níu? Urðu engir til þess að snúa aftur að gefa Guði dýrðina nema þessi útlendingur?“ Síðan mælti Jesús við hann: „Statt upp og far leiðar þinnar. Trú þín hefur bjargað þér.“

 

Trú, vísindi og túlkun

pláneturnarÞað voru skrítnar myndir, sem allt í einu birtust við Skerjafjarðarströndina í Reykjavík. Einkennileg spjöld voru á prikum hér og þar. Þau, sem hjá fóru, hugleiddu og jafnvel deildu um hvað þetta væri. Lítið samhengi virtist vera í þessum uppsetningum. Svo opinberaði Morgunblaðið sannleikann. Þetta var ekki nýlistaverk heldur líkan. Á stærðfræðidegi reiknuðu krakkar í sjötta bekk Melaskóla fjarlægðir í sólkerfinu og innbyrðis afstöðu himintunglanna. Líkanið var túlkun þeirra a niðurstöðunum. Auðvitað varð að hafa hnettina í einhverjum viðráðanlegum stærðum. Þvermál stjörnueftirlíkinga var minnkað milljarðafallt. Sólin varð í þessari útgáfu 140 cm að þvermáli og Plútó aðeins 2 millimetrar. Með þessari smækkun var hægt að búa til viðráðanlega smækkun af sólkerfi og koma fyrir við Ægisíðu. Það var hægt að skoða og ganga inn í það, fá tilfinningu fyrir vegalengdum og innbyrðis afstöðu. Þetta var skemmtilegt verkefni og ágætt dæmi um hvernig farið er að í leit að skilningi á flóknum veruleika.

Módel og mál

Til að nálgast hið illskiljanlega er gjarnan búin til einhvers konar mynd til að finna samnefnara, sem dregur saman, tengir mikilvæga þætti og sýnir veruleika þess sem vísað er til. Það, sem skólabörnin gerðu, var að búa til myndræna túlkun á hlutföllum sólkerfisins. Við getum ekki ímyndað okkur skipan þess hluta vetrarbrautarinnar, sem við gistum, með því einu að horfa á stjörnur og sól. Sjónarhóll okkar brenglar og er alltaf ákveðin aðstaða og afstaða túlkunar. Stjörnuskoðarinn Immanuel Kant minnti á, að menn sæju ekki kjarna hlutanna. Sem sé við rýnum í gegnum litað gler fordóma, fyrirframgefinna skoðana og túlkana. Veruleikinn er ekki beinn og aðgengilegur. Til að skilja flókin fyrirbæri þurfum við hjálp eða milliliði til skilnings. Til þess eru sett upp líkön? Á mörgum heimilum eru til jarðarkúlur, sem hægt er að snúa og benda á hvar löndin eru og í hvaða afstöðu til annarra landa. Þessir hnettir hafa orðið mörgum til hjálpar. Hvað er svarthol? Hvernig er hægt að skýra út fyrir leikmanni gen eða DNA? Við léttum okkur skilningsferlið með því að búa til myndir, kenningar og skýringar af ólíku tagi. Þetta er það sem almennt er kallað módel. Þau eru eiginlega milliliðir til skilningsauka. Börnin úr Melaskólanum bjuggu til líkan af sólkerfi til að veita skynjun eða tilfinningu fyrir stærðum og víddum, afstöðu og skipan. Módelgerð er iðkuð í öllum greinum fræða, einnig í mannvísindum. Þótt trúmaðurinn lifi ríkulegu trúarlífi og eigi náið samband við Guð veit hann mætavel að margt er í Guði og á vegum Guðs, sem ekki liggur á lausu og ekki er skiljanlegt nema með einhvers konar millinálgun. Þeir þættir eru viðfang þessar greinar og varða eðli og mörk hins trúarlega tungumáls og þar með skilnings.

Vísindamódel

Það skiptir máli að gera sér grein fyrir hlutverki líkana, sem hér verða einnig nefnd módel. Í mörgum greinum, ekki síst raunvísindum gegna þau lýsingarhlutverki. Mörg þeirra eru smækkanir og gegna oft hlutverki útskýringa. Aðrar smækkanir þjóna forspárhlutverki. Þegar Siglingmálastofnun hannar nýja höfn er útbúinn botn og sjávarsíða og eftirlíking umhverfisins. Svo er öldugangi komið af stað. Hægt er að fylgjast með sandburði, álagi, öldufalli og straumum. Líkanið er ekki aðeins skýring eða lýsing í þessu tilviki, heldur vinnutæki til að skoða ferli. Reyndar er oft hægt að reikna nákvæmlega án líkans, en sitthvað getur komið í ljós, sem vert er að sjá með mannlegum augum. Auðvitað er hægt að reikna flesta ferla en líkan getur vakið huga, aukið innsæi og skilning og bent á þætti, sem annars hefðu ekki komið eins vel fram.

Líkön vísindanna vísa oftast til þess, sem er hægt að meta og mæla. Þeim er ekki ætlað að setja okkur leikreglur í lífinu. Þau segja okkur ekki hvernig menn eigi að hegða sér, hvað þeir eigi að gera og hvers þeir megi vona, eins og segir í meðhjálparabæn þjóðkirkjunnar. Kosningalíkön segja ekkert um gæði stjórnmála eða stefnuskrár flokka. Þau geta hugsanlega lýst því hvað fólk muni kjósa, en þeim er ekki ætlað að skera úr um hvað kjósendur eigi að velja á kjördag.

Líkön í vísindum geta mótað hvernig viðkomandi vísindagrein þróast og hvernig og hvaða skýringar eru tækar. Allar greinar fræða eiga sér túlkunarhefðir, almennt viðurkenndar skýringar og kenningar. Ef kenningar ná ekki að skýra öll dæmi eða flest atriði, sem viðkomandi kenning eða módel spannar, þarf að endurskýra eða aðlaga skýringarnar. Alla vega er nauðsynlegt að skýra undantekningar. Eftir því sem fleiri frávik koma í ljós verður í viðkomandi fræðasamfélagi aukinn, innri þrýstingur, áhugi eða vilji til að skoða nýjar leiðir og túlkanir. Stundum tekur langan tíma fyrir fræðimennina að viðurkenna, að um frávik sé að ræða. Svo getur farið að grunnhugmynd sé hent út og ný komi í staðinn.

Mismunandi túlkarnir og hlutverk

Tungumál takmarkar og mótar heim manna, opnar eða hindrar skilning og þekkingu. Mæri máls eru mæri heims og varðar allar greinar fræða og trúartúlkun einnig. Ef hið trúarlega tungumál er illskiljanlegt og bundið stirðnuðu líkingamáli, nær það ekki að snerta hjörtu mannanna.

Líkön eru notuð í vísindum almennt til skilningsuaka. Í  orðræðu trúarinnar eru þau hins vegar notuð í víðara samhengi, ekki aðeins til að auka skilning heldur einnig til að vekja vitund og móta atferli og gefa stefnu í lífi og gagnvart málum dauða og hins eilífa lífs. Vísindamódelin eru gjarnan lýsandi, “deskriptíf” en í kristninni og öðrum átrúnaði varða módel gæði þessa heims og annars. Þau eru því kvalitatíf.”Vísindaleg líkön og kenningar eiga að hafa forspárgildi. Hlutverk trúarlegra módela er ekki af því taginu. Þau flokka og greina fremur reynslu fólks en að  uppgötva nýja. Vísindamódelum er yfirleitt ekki ætlað að höfða til tilfinninga eða siðferðis manna, en það er trúarlegum módelum hins vegar ætlað. Líkönum í átrúnaði má raða upp í forgangs- eða mikilvægisröð en svo er ekki um raunvísindamódel.[1] Í ljósi munarins skiptir því öllu máli að ruglast ekki á mismunandi forsendum mismunandi fræðagreina, orðræðu þeirra og tilgangi. Fræðaforsendur eru mismunandi. Við endann skyldi upphafið skoða!

Sólkerfislíkan trúmanna

Frumlægasta og eðlilegasta málfar trúarinnar er myndmálið, sem t.d. Jesús notaði óhikað og frábærlega vel. En myndmál trúarinnar leitar ávallt túlkunar og krefst hennar raunar, alveg eins og í öðrum greinum fræða. Enginn átrúnaður, ekki frekar en aðrar greinar mannlífsins, getur reitt sig algerlega og aðeins á myndmál. Myndmálið leitar ávallt skilnings og skynsemi. Það er langur vegur túlkunar frá yrðingu Jesú um, að hann sé “vegurinn, sannleikurinn og lífið” til kenningakerfis um hvernig maðurinn frelsast. Það er langur vegur frá líkingarsögu (dæmisögu) um miskunnsama Samverjann til siðfræðikenninga um samábyrgð og mannhelgi.

Þegar trúarlíf og trúarlegt málfar er skoðað kemur í ljós, að á milli myndmáls annars vegar og hugtaka og kerfis þeirra hins vegar eru gjarnan eins konar tengjandi stýrikerfi. Þessar tengingar eru í raun módel. Hér eru þessi þau nefnd túlkar vegna vinsandi hlutverks þeirra og að þeir velja hvaða þýðingu mál fá, hvaða efni er lyft og hvað er vinsað út í túlkuninni.[2] Túlkarnir halda mörgum einkennum mynda og myndmáls, en vísa jafnframt til hugtaka og kalla raunar á kerfismyndun og röklega útfærslu. Allar hefðir og ekki síst trúarhefðir festa myndmál í sessi og kalla fram túlkun. En mikill hugsuður trúarhefðar getur valið forsendur sínar, módel eða túlka sína og hugtök. Hugsuðirnir breyta hefðunum, þegar þeir halda fram nýjum túlkum, sem hrífa og skapa nýtt inntak þar með. Þegar þeir breyta grunnlíkingum og frumforsendum hefða hafa þeir fundið upp eða haldið fram frumlegum túlk, sem er svo sannfærandi, öflugur og víðfeðmur, að hann getur komið í stað þess eða þeirra sem fyrir eru. Slíkir túlkar eru eiginlega erkitúlkar. Þegar svo öflug módel koma í stað hinna fyrri verða breytingar innan trúarhefða. Jesús Kristur bylti Gyðingdómi innan frá með því að breyta módelkerfinu eða túlkunum. Siðbreytingarmenn gera hið sama og allir miklir mótendur og hugsuðir, sem hlustað hefur verið á og fylgt.

Líking með varanlegt og kerfisbundið vald

Einfaldasta skilgreining túlks í átrúnaði er, að hann sé áhrifarík og langlíf líking. Túlkur er í raun líking, sem nær því að verða miðill myndmáls og hugtaka og miðlar jafnframt í millum þessara merkingarlaga. Túlkarnir eru n.k. kenningar um skipan mála. Þeir lýsa á skiljanlegan hátt því sem erfitt eða ómögulegt er að skilja með því að nota þau atriði eða myndir. sem menn tengjast og skynja. Túlkarnir eru þannig hjálp við skilning á hinu ósegjanlega, sem ekki verður rætt án líkingamáls.

Eins og í góðum brandara eða ljóði er stefnt saman í líkinu tveimur merkingarsviðum eða tveimur veröldum. Við samsláttinn verður til ný merking. Skilningur eða ákveðin skynjun skapast svo fremi sem túlkur er lifandi og merkingarskapandi. Orðræðan er því augljóslega hliðstæðumál, það sem kallað er “analógísk” ræða.[3] Tengslin og skilningurinn skapast, þegar túlkurinn lifir gagnvart notendum og þiggjendum sínum. Skilningur skapast að einhverju leyti í opnun og spennu, en þó ekki algerlega. Orðræðan er ekki bókstafleg eða hlutlæg, en engu að síður getur hún verið mikilvæg í tilvísun sinni.

Fyrst og fremst eru túlkar skýringartæki, farvegir fyrir skilning á ótta og gleði, hrifningu og lotningu, siðferðilegri breytni, falli og uppreisn, skipan og sköpun, sögulegum atburðum o.s.frv. Túlkarnir gefa mönnum áherslu, kalla fram ákveðna þætti en úthýsa einnig öðrum. Þeir eru, eins og Ian Barbour hefur sagt:  “Ákvarðandi ímyndir, sem túlka sértæka reynslu og benda til vegar með því að velja út atriði, skýra veruleikann og hjálpa okkur að taka eftir ákveðnum veraldarþáttum.”[4]

Túlkarnir eru eiginlega miðlar okkar eða skjáir. Þeir sía merkingu, stjórna því á hvern hátt við skiljum og meðtökum þann veruleika sem túlkurinn tjáir. Módelin, túlkarnir, eru því eins og skilvindur, sem skilja merkingu sem er mikilvæg frá annarri, sem fellur frá og jafnvel eyðist í meðförum.

Túlkarnir eru hvorki algildir eða tæmandi. Þeir kalla á nánari eftirgrenslan og ítarlegri hugsun. Þeir vísa út fyrir sig og nánast beiðast kerfismyndunar. En þar sem túlkarnir lita boðskap sinn stjórna þeir einnig eða hafa mótandi áhrif á hvernig um mál og atriði er hugsað í kjöfar miðlunarinnar. Túlkurinn gefur því málheim eða málklasa og ákveður hvaða hugtök spretta fram, eru möguleg og hvernig útfært er og bundið í kerfi.

Annars vegar hafa túlkarnir skýrleik og vísa til smáatriða. En að auki marka þeir reynslu leið og hafa ákveðnu flokkunarhlutverki að gegna varðandi alla framvinu og hugsun. Þeir gefa ekki vitsmunalega skýringu, heldur hafa lífernisafleiðingar. Þeir kalla á siðfræði og siðferði. Lifandi túlkar eru það róttækar myndir, að atferli manna, sem ganga á vit þessa veruleika, tekur einnig mið af.[5] Túlkarnir eru hagnýtir vegna þess hve víðtækir og innbyrðandi þeir eru. Þeir gefa mönnum skýringu á tilveru sinni, sjálfsímynd og stefnu í lífinu. Siðferði er því eðlileg afleiðing merkingarkerfis, sem maðurinn innlífast í ljósi túlkanna.[6]

Erkitúlkarnir

Í raunvísindum er leitast við að nota fá en skýr líkön. Í mannvísindum og trúarhefðum er hins vegar eðlilegt og nauðsynlegt að nota marga túlka. Hið sama gildir varðandi kenningar og hugmyndir einstakra guðfræðinga. Guðfræðitúlkar eru ekki hlutlægir heldur hjálp við túlkun og þýðingu merkingar. Frumlægastir og jafnframt víðtækastir eru þeir túlkar sem nefna mætti erkitúlka (root metaphors, root models), sem ákvarða stefnu allrar túlkunar og útfærslu trúarkerfisins. Erkitúlkarnir setja mörk um fjölda líkinga og hjálpartúlka, sem notuð eru og hvaða myndmál dæmist gilt og verður notað. Stjórnleysi og ruglingslegt myndmál fær vegna þessa nauðsynlega flokkun.[7]

Þessir túlkar eru frumforsendur átrúnaðarhefðarinnar. Í kristninni eru nokkrir túlkar, sem tengjast og mynda kjarna trúarhefðarinnar, t.d. líkingin af Guði föður, konunginum, dómaranum, persónunni o.fl. Þessar líkingar hafa hlotið svo miklæga stöðu, að breyting á þeim og notkun þeirra hefur afdrifaríkar afleiðingar fyrir alla trúarhugsunina. Það sem mestu skiptir er þó breyting á erkitúlk eða erkitúlkum. Stuðningstúlkar og stjórnartúlkar breytast. Jafnan eru þessir síðastnefndu túlkar nánari útfærsla og skýring á rótarlíkingu eða erkitúlk. En stuðnings- eða stjórnartúlkarnir geta einnig skapað spennu vegna rótfestu í myndmáli og verið í enhverju ósamhljóma erkitúlknum. Í því er nokkur sannleikur fólginn, að frumspekikerfi sé kerfisbundin útfærsla á frumlíkingu.

Til stuðnings

Erkitúlkarnir eru víðfeðmastir. Þeir eru tjáning á djúptækri og mikilvægri reynslu. Líkingin af persónulegum Guði er t.d. grundvallandi erkitúlkur í kristnum átrúnaði. En til stuðnings er þörf á millisstýringum, sem hér verða kallaðir stjórnartúlkar og stuðningstúlkar. Þeir hafa mismikið vægi og áhrif, en stýra hvað í trúarhefðinni verður fyrirferðarmikið og hvað minna virði. Stjórnartúlkarnir þjóna hlutverki styrkingar eða veikingar.[8] Dæmi um stjórnartúlk er líkingin af Guði sem föður, sem er síðan útfærð í sonartúlknumn. Drottinlíkingin er útfærð í líkingunni af þjóni, sem er útlistuð með ýmsu móti í kristninni og varðar skilning og túlkun á eðli og hlutverki manna. Móðurlíkingin á sér stuðningstúlk í barnslíkingunni; ástmögur á sér túlk í hinu elskaða, húsbóndi í eiginkonulíkingu, húsbóndi í stuðningstúlknum þræll o.s.frv.

Erkitúlkarnir eru ávallt víðfeðmastir og stærstir í sniðum. Þeir hafa í sér fólgna mesta túlkunarmöguleika. Þessir túlkar eru takmarkalausir og í raun óhrekjandi varðandi innsta kjarna. Ef breytt er um erkitúlk í átrúnaði er búið að stofna nýjan átrúnað. Ef menn ætla t.d. að skera burt boðskapinn um persónulegan Guð úr kristninni er botninn dottinn úr allri túlkun, allt trúarvitið farið og menn detta úr kristninni. Hins vegar er túlkunarfjölbreytni og breyting möguleg vegna breytinga á stjórnartúlkum og stuðningstúlkum. Breyttar aðstæður og gildaþróun samfélagsins hafa áhrif á hvort fólk skilur og samþykkir grunnatriði átrúnaðar. Jafnréttisáherslur hafa t.d. haft mikil áhrif á notkun stjórnartúlka og stuðningstúlka í kristninni. Ef menn hafa ímigust á feðraveldi og híerarkískri röðun er ljóst, að stjórnartúlkarnir um Guð sem konung, Guð sem herstjóra, Guð sem heimsstjóra, Guð sem dómara og föður eiga undir högg að sækja og veikjast. Þegar vegið er einhverjum túlk hefðarinnar er ekki vænlegt að vega að gagnrýnendum, heldur er eina ráðið að bregðast við með skapandi guðfræði. Trúarviska er ekki fólgin í herkænsku heldur fremur næmi á möguleika vanmetinna túlka. Til að endurskýra og endurlífga guðfræðitúlkun verða burðarmiklir túlkar að koma í stað þeirra sem hafa lifað sinn blómatíma. Í því er fólginn vandi allra þeirra sem vilja tefla fram “betri” eða “réttari” guðfræði, að túlkarnir verða að vera nægilega öflugir og vísa til almennrar reynslu fólks. Ef aðeins er vísað til sértækrar reynslu verður túlkunin vart annað en skoðun sértæks hóps.

Stjórnartúlkarnir og stuðningstúlkarnir eru ekki eins víðtækir og erkitúlkarnir og eiga við eða vísa til takmarkaðri og ákveðnari merkingarsviða. Því skapast túlkunarfjölbreytni í mismunandi hefðum og innan sjálfra hefðanna.[9] Erkitúkarnir eru megintilraunir til að umfaðma veröld og reynslu í mynd og orðum. Þeir eru nánast verundarviðbragð, sem er fólgið í að skoða allt með sem víðastan hring í huga, í ljósi ákveðins hugtaks eða líkingar.

Síðast á merkingarferli átrúnaðar eru hugtök.[10] Hugtakavinnsla hneigist til skýrrar og klárrar merkingar. Myndmálið er hins vegar flóknara og spennufylltara. Bæði myndmál og hugtök eru nauðsynleg í lífi og hugsun kirkjunnar. Sallie McFague segir á einum stað: “Myndmál elur hugtök, en hugtök aga myndmál. Ímyndir án hugtaka eru blind, hugtök án myndmáls eru geld.[11]

Nokkrum dögum eftir að sólkerfislíkanið á Ægissíðu var sett upp fauk sólin um koll og síðar út í buskan og aðrir hlutar fóru líka á flakk. Líkön breytast, ef ekki af völdum vinda veraldar þá af mönnum þegar ný hugsun eða þekking myndast. Svo verður í vísindunum og guðfræðin er ekki óumbreytanleg fremur en önnur fræði mannanna. Túlkun á guðsreynslunni þarf að endurskoða og skilgreina á hverri nýrri tíð.

Heimildir

Barbour, Ian. 1974. Myths, Models and Paradigms: A Comparative Study in Science and Religion. New York: Harper & Row.

Geertz, Clifford. 1973. Interpretation of Cultures. New York: Basic Books.

McFague, Sallie. 1982. Metaphorical Theology: Models of God in Religious Pluralism. Philapdelphia: Fortress Press.

[1] Sallie McFague 1982:107.

[2] Vel væri hægt að nefna þessi módel miðla eða greina, en ég vel fremur að nefna þau túlka, vegna þess að módelin túlka, þ.e. vinsa, sniðla og greina að. Að þýða frá einu máli yfir á annað er túlkun og frá einu merkingarsviði yfir á annað er túlkun sömuleiðis.

[3] Ian Barbour 1974:49

[4] Ian Barbour 1974:6,16.

[5] Mannfræðingurinn Clifford Geertz hefur ágætlega fjallað um hvernig siðferði tekur mið af táknveruleika, hvernig “mood” og “motivation” tengjast. Clifford Geertz 1973:90, 97, 194-230, 126-27.

[6] Ian Barbour 1974:6,14.

[7] Sallie McFague 1982:28,105.

[8] Um afstöðu Paul Ricoeur, sja Sallie McFague 1982:110.

[9] Ian Barbour 1974:84.

[10] “…abstract notion, ideal or thought… …Speculative, systematic statement of relationships underlying certain phenomena, organizing ideas into an explanatory structure.” Sallie McFague 1982:25.

[11] Sallie McFague 1982:25.

+ Arthur Morthens +

HArthurver var eftirminnilegasta minningin um Arthur? Eitt svarið er: „Það var þegar hann kom í Kjósina frá Danmörku.“ Arthur var tvisvar á bernskuárum sendur til Danmerkur til lækninga. Þegar hann var tíu ára var hann ytra í marga mánuði. Hvorugt foreldranna gat verið hjá honum, en hann hafði stuðning af vænu dönsku hjúkrunarfólki og ættingjum í Höfn, sem töldu kjark í litla manninn. Allt varð Arthuri til náms og þroska. Ríkisspítalinn var honum ekki aðeins hjartalækningarstöð heldur fékk hann þar „krasskúrs“ í dönsku og varð að bjarga sér – engir túlkar voru á vakt. Loks var ferðalangsins að vænta heim eftir vel heppnaða dvöl. Foreldrarnir og strákarnir biðu í ofvæni eftir komu hans með betrumbætt hjarta. Hann átti að koma með áætlunarbílnum í Kjósina. Einn bræðranna hlakkaði svo til endurfundanna að hann hljóp á móti rútunni, sem stoppaði og sá stutti fékk að fara inn. Og hann sá Arthur eins og í upphöfnum ljóma – nálgaðist hann og fagnaði. En viti menn, Arthur var orðinn svo umbreyttur að hann talaði bara dönsku við bróður sinn. Reynslan var svo yfirþyrmandi að þetta var minningin sem hentist upp í vitundina þegar ég spurði um hvað væri eftirminnilegasta upplifunin um Arthur bróður. Það var þegar Arthur kom í Kjósina. Þetta er eiginlega himinmynd, Arthur farinn og kominn, umbreyttur, íslenskan farin en danskan komin, einhvers konar himneska sem hann talaði.

Í klassískum heimi var talað um hið mennska þroskaferli – exitus og reditus. Að fara – til að koma til baka með hið nýja, stóra og viskuna. Og nú er Arthur farinn, en kominn aftur með einhvers konar himnesku til okkar. Farinn inn í eilífðina – eins og af glettinni stríðni – undir dönskum himni en kominn með nýja skynjun til eflingar lífs okkar sem störum á bak honum. Til hvers lifir þú og hvernig?

Ævistiklur

Og þá er gott að rifja upp. Hvernig manstu Arthur? Hvað var hann, hvernig og af hverju? Hann var reykvískur – en líka danskur. Hann stundaði einnig nám í Noregi, var heimsborgari og fulltrúi mennskunnar í heiminum. Hann var nálægur en líka óræður, með sterkar festur en líka hreyfanlegur. Saga hans var margbrotin og í veru hans voru margir strengir ofnir.

Arthur fæddist í Reykjavík 27. janúar 1948 en lést í Fåborg í Danmörku 27. júlí síðastliðinn. Móðir hans hét Grethe Skotte. Hún hafði yfirgefið stríðshrjáða Danmörku strax eftir að hernáminu lauk – ung kona sem heillaðist af því Íslandi sem Gunnar Gunnarsson hafði með bókum sínum kynnt á meginlandi Evrópu. Hún yfirgaf Láland, Kaupmannahöfn og stríðsgrafirnar og lagði upp í lífsferð sína og leit aldrei til baka. Hún blikkaði Guðbrand Kristinn Morthens í Alþýðuhúskjallaranum og þau urðu ástríðupar og lifðu stormasömu en ávaxtaríku lífi. Kristinn var ellefu árum eldri en kona hans og lifði meira en tveimur áratugum lengur en hún. Hún var dönsk, hann var hálfnorskur. Í sögu þeirra og sögu drengjanna speglast  eftirstríðsárasaga Íslands. Í upphafi voru þau á húsnæðisflakki en risíbúð á Barónsstíg varð upphafsreitur Arthurs. Þar var fjölskyldan þröngbýl þéttbýlisfjölskylda og stutt á milli fjölskyldumeðlimanna. Svo lá leiðin upp í Gnoðarvog, mikla mannlífshöll sem varð heimili Arthurs á unglingsárum.

Arthur var elstur í albræðrahópnum en Kristinn átti þrjú börn fyrir. Hjördís Emma fæddist árið 1936, Ágúst Rósmann kom í heiminn árið 1942 og Ævar síðan 1946. Sveinn Allan fæddist tveimur og hálfu ári á eftir Arthuri, árið 1951. Tolli kom í heiminn 1953 og Bubbi fæddist árið 1956. Bergþór rak svo á happafjörur fjölskyldunnar 1961 en hann fæddist árið 1959. Hann var bróðursonur Kristins og þau Grethe tóku honum opnum örmum þegar hann þarfnaðist fjöskyldu.

Íslandseign

Strákahópurinn varð í fyllingu tímans eign Íslendinga, almenningseign – svo dugmiklir, gjöfulir, lit- og tónríkir hafa þeir verið. Við höfum fylgst með þeim, heyrt sögur þeirra, söngva og mál, hrifist af þeim, hræðst angist þeirra, grátið með þeim og dáðst að krafti þeirra. Af hverju urðu þeir svona máttugir? Þeir bjuggu við kröpp kjör og stundum ófrið. Hrammur áfengis varð löngum lamandi. Pabbinn var oft fjarverandi. Mamman mátti hafa sig alla við, seldi Lálandsdjásnin og sneri saumavélinni hratt til að fæða og klæða hópinn. Og af því þeir voru algerlega utan við ætta- og klíkusamfélag Íslands gengu þeir ekki að neinu gefnu, áttu engar silfur- eða gullskeiðar í munni og fengu ekkert ókeypis. En það var ekkert verra að vita að ættmenni þeirra erlendis voru ekki lyddur. Og Arthur og Morthens-strákarnir urðu stólpar í þjóðlífi Íslendinga. Þjóðareign er margvísleg.

Þú ert stór maður

Arthur var fyrirburi og heilsuveill alla tíð. Hann varð sjálfur að ákveða sig til lífs og beita sig n.k. Munchausentrixum, stundum að draga sig upp á hárinu. Mamman sagði við son sinn, fíngerðan, nettan og lágvaxinn: „Þú ert stór maður. Þú ert ekki lítill maður – þú ert stór maður.“ Það var brýningin, veganestið allt frá bernsku. Þessi smái maður borinn til stórvirkja. Og til loka lífs lifði hann þannig. Engir erfiðleikar voru of miklir að ekki mætti sigrast á þeim. Kröpp kjör eða fötlun neitaði hann ekki leyfa að hamla. Arthur neitaði að óréttlæti sigraði réttlæti, mennskan skyldi ekki lúta fyrir ómennskunni og ómenningunni. Erfiðleikar urðu honum tækifæri fremur en óyfirstíganleg hindrun og reglan var einföld að ef sverðið væri stutt skyldi ganga skrefinu lengra.

Arthur gerði ýmsar tilraunir í námi og lífi. Sumt var óvænt. Hann þótti ekki líklegur til hamars og nagla en svo skráði hann sig í smíðanám hér næsta húsi á Skólavörðuholtinu og þrælaðist m.a. í bryggjusmíði við Snæfjallaströnd – og kvartaði aldrei.

Fólkið hans studdi Arthur með magvíslegu móti. Bræður hans, Allan og Tolli, gáfu honum nýru sem björguðu honum og bættu lífskjörin. Þökk sé þeim.

Ég veit að Steinunn tryggði að Arthur nyti alls þess sem heilsa hans leyfði. Þökk sé henni. Og vert er að nefna „strákana“ – hóp kærleikskarla – sem sóttu Arthur í hádegismat og óku honum heim í hverri viku – og jafnvel oft í viku. Í þeim öfluga og glaðsinna hópi, sem var einn af þeim kátustu í bænum, naut Arthur sín. Þökk sé ykkur vinum Arthurs.

Sá elsti og fyrirmyndin

Sem elsti sonurinn í stórum strákahópi – og stundum pabbalausum – var hann oft í hlutverki fræðarans. Hann miðlaði músík, hafði áhrif á hvernig fyrstu gítargripin hans Bubba urðu, túlkaði átök, gæði, og skyldur fyrir strákunum, varð fyrirmynd á flestum sviðum, aðstoðarmaður mömmunnar, fulltrúi menningardeiglunnar, hippinn, pólitíkus og stríðsmaður réttlætisins. Hann gerði sér grein fyrir að hann ætlaði ekki að saga allt lífið eða moka á Miklubrautinni og kveikti á andans perum sínum í Kennaraskólanum. Þar kom hann til sjálfs sín og naut hæfileika sinna og náms. Lífið var litríkt innan sem utan skóla. Hann kynntist ástinni, lífsbaráttu og eignaðist félaga. Einn Þorláksmessudag kom hann heim alblóðugur og hafði lent í götubardaga þegar hann mótmælti framgöngu Kanans í Víetnam. Mamman bað hann blessaðan að vera heima, en hann rauk upp og niður í bæ aftur þegar tekist hafði að hreinsa sár og binda um. Byltingin og baráttan yrði ekki að honum fjarverandi. Litli maðurinn var stór og hikaði ekki að hjóla í risana í veröldinni.

Grethe fór til Danmerkur til náms og unglingurin Arthur var allt í einu alábyrgur fyrir eldri bræðrunum. Saman urðu þeir að afla fjár til matar og lífs. Það var ekkert mulið undir þá.

Arthur útskrifaðist frá Kennaraskólanum árið 1973. Hann langaði að fara í Háskólann en svo var hnippt í hann og hann var beðinn að kenna í Keflavík. Þar starfaði hann sem kennari til 1978. Hann bryddaði upp á nýungum, hikaði ekki við kennslufræðilegar tilraunir og sló í gegn. Ýmsir undruðust hvað hann væri að fletja sig út fyrir krakkana í Keflavík. Arthur var spurður af hverju hann væri að hafa fyrir þessu pakki! En hann raðaði ekki fólki í undir- og yfirflokka. Fólkið sem hann þjónaði var einfaldlega alls konar en þó jafngilt – og þyrfti alls konar aðstoð og líka fjölbreytilegar aðstæður. Hann stóð með mennskunni og vissi að hann gæti stutt þau sem voru smá en þó stór. Það er mikill Jesús í sögunum um Arthur frá þessum tíma. Svo sneri hann til baka í bæinn. Arthur fékk kennarastöðu í Árbæjarskóla og naut sín í kraftmiklum og samheldnum kennarahópi. Í Árbænum starfaði hann frá 1978 til 84.

Með kennslustörfum í áratug aflaði Arthur sér dýrmætrar reynslu og náði yfirsýn sem hann vann úr allar götur síðan. Hann gekkst við köllun sinni og hélt til náms í Osló í sérkennslufræðum. Arthur lauk sérkennaraprófi frá Statens Spesiallærerhøgskole í Ósló árið 1985 og kandídatsprófi frá sama skóla árið 1987. Með þroska og menntun var hann síðan ráðinn til skrifstofu fræðslumála í Reykjavík. Hann var sérkennslufulltrúi á árunum 1988 til 1991 og síðan forstöðumaður kennsludeildar til 1996. Þá voru málefni grunnskólans flutt til sveitarfélaganna og Arthur var ráðinn forstöðumaður þjónustusviðs Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur. Því starfi gegndi hann næstu tíu árin og var síðan ráðgjafi á Menntasviði Reykjavíkurborgar frá 2006 til 2012. Þau sem nutu þjónustu Arthurs muna og þakka lipurð, natni, áhuga og skapandi velvilja hans í störfum.

Vert er og að minna á og þakka fyrir félagsstörf Arthurs. Hann var einn af stofnendum Barnaheilla 1989 og var við stjórnvöl samtakanna árum saman. Hann hafði alla tíð sterkar skoðanir varðandi stjórnmál og þróun íslensks samfélags. Hann gegndi trúnaðarstörfum fyrir stétt sína í Kennarafélaginu, var virkur í Alþýðubandalaginu, varaborgarfulltrúi fyrir Reykjavíkurlistann og um tíma formaður stjórnar Strætisvagna Reykjavíkur.

Hjúskapur

Fyrri kona Arthurs var Sigríður Elín Ólafsdóttir, kennari. Þau kynntust í Kennaraskólnum, hófu hjúskap saman í Keflavík og gengu í gegnum súrt og sætt, í námi, störfum og lífi í meira en tvo áratugi. Þau skildu. Sigríður býr í Svíþjóð. Hún kvaddi Arthur í Danmörk í útförinni í Svendborg og biður fyrir kveðju til þessa safnaðar. Sonur þeirra Sigríðar og Arthurs er Ólafur Arnar. Hann starfar sem tölvunarfræðingur. Kona Ólafs er Halldóra Sigtryggsdóttir, leikskólakennari. Þau eiga þrjú börn: Petru Ósk, Harald Inga og Örnu Sigríði.

Eftirlifandi eiginkona Arthurs er Steinunn Stefánsdóttir, blaðamaður. Þau hófu sambúð árið 1997 og Arthur varð þremur dætrum hennar natinn stjúpi. Dæturnar eru Helga, Anna og Halla Tryggvadætur. Dætur Helgu og Jóns Þórs Péturssonar eru Rán og Saga. Synir Önnu eru Arnlaugur og Hallgrímur Guðmundarsynir. Halla á soninn Johann með sambýlismanni sínum, Frederik Anthonisen. Jón Þór, Pétur tengdafaðir Helgu, sem og Fredrik geta ekki verið við þessa athöfn. Þeir eru gæta smáfólksins erlendis en bera ykkur kveðjur sínar.

Arthur hafði alla tíð áhuga fólki. Hann fylgdist vel með ástvinum sínum, fagnaði með þeim, sótti skólaviðburði þeirra, vakti yfir lífi þeirra og framvindu fjölskyldunnar, lék við ungviðið, ræddi mál sem brunnu á þeim, datt í alls konar hlutverk skv. þörfum þeirra, hikaði ekki við leik og að spinna furðusögur, breytti jafnvel rúmi sínu í leiksvið ef kátínusækið barn hafði löngun til. Hann settist á gólf ef lítinn kút vantaði leikfélaga. Jafnvel máttfarinn afi hikaði ekki þegar líf smáfólksins krafði.

Ástvinirnir hafa misst mikið. Guð geymi þau í sorg þeirra og eftirsjá og styrki þau til að leyfa stórvirkjum Arthurs að lifa, til að lífið verði ríkulegt og stórt.

Mörgum hefur Arthur kynnst um æfina og mörg kveðja. Ég hef verið beðinn um að bera ykkur kveðju frá Hildi Ellertsdóttur í Svíþjóð.

Eilífðin

Nú Arthur er farinn inní eilífðina. Hann skilur eftir miklar sögur. Hann fór einn í skipi frá Íslandi til Danmerkur þegar hann var á fimmta ári. Hvernig var slík ferð tilfinningaríku barni? Stór, lítill maður. Fram fram um víða veröld. Hann ólst upp í þeytivindu Reykjavíkur og fjölskyldu Kristins og Grethe. Verkefnin voru mörg, að brotna ekki, halda stefnu, glíma við Bakkus, þora að setja tappann í. Þora að halda í festurnar, gildin, standa með því rétta til að sveigja kerfi í þágu fólks og gefa öllum möguleika. Aldrei á niðurleið. Arthur var alltaf á uppleið. Æfingar, heyrn, sjón, gleði – alltaf í plús jafnvel þótt fokið væri í flest skjól. Borinn til stórvirkja eins og allt hans fólk. Og við segjum takk. Takk Arthur fyrir að vera svona stór, glaður, kíminn, hugmyndaríkur, elskulegur og áhugasamur.

Hann er horfinn inní eilífðina. Já, kynslóðirnar koma og fara líka – við erum öll pílagrímar. Hvernig ætlar þú að verja lífinu? Hvað var það sem Arthur kenndi þér? Þitt hlutverk er að lifa vel – og lifa með öðrum og í þágu annarra – iðka hið góða líf. Það er gleðihljómur í grunni tilverunnar – sagan er saga til friðar. Boðskapur óspilltrar kristni er að við erum öll börn friðar og til þroska. Stór.

Guð geymi Arthur og Guð geymi þig.

Amen.

Minningarorð í Hallgrímskirkju 18. ágúst, 2016. Bálför. Duftker jarðsett í Sóllandi, Fossvogskirkjugarði. Erfidrykkja á Kjarvalsstöðum.

Arthur Morthens fæddist í Reykjavík 27. janúar 1948. Hann lést í Faaborg í Danmörku 27. júlí 2016. Foreldrar Arthurs voru þau Grethe Skotte Morthens, f. 18.3. 1928 á Lálandi í Danmörku, d. 30.1. 1982 og Guðbrandur Kristinn Morthens, f. 18.10. 1917 í Reykjavík, d. 4. desember 2002. Systkini Arthurs eru Hjördís Emma Morthens, f. 26.10. 1936, Ágúst Rósmann Morthens, f. 7.1. 1942, Ævar Guðbrandsson, f. 28.9. 1946, Sveinn Allan Morthens, f. 10.6. 1951, Tolli Morthens, f. 3.10. 1953, Bubbi Morthens, f. 6.6. 1956 og Bergþór Morthens, f. 24.8. 1959.

Fyrri kona Arthurs var Sigríður Elín Ólafsdóttir kennari, f. 20.11. 1952. Sonur þeirra er Ólafur Arnar tölvunarfræðingur, f. 26.2. 1974. Kona hans er Halldóra Sigtryggsdóttir leikskólakennari, f. 28. 8. 1975. Þeirra börn eru Petra Ósk, f. 27.1. 1999, Haraldur Ingi, f. 4.6. 2003 og Arna Sigríður, f. 20.1 2006.

Eftirlifandi eiginkona Arthurs er Steinunn Stefánsdóttir blaðamaður, f. 26.5. 1961. Hennar dætur og fósturdætur Arthurs eru Helga Tryggvadóttir læknir, f. 21.7. 1982, gift Jóni Þór Péturssyni þjóðfræðingi, f. 27.11. 1979. Þeirra dætur eru Rán og Saga, f. 9.8. 2015. Anna Tryggvadóttir lögfræðingur, f. 24.11. 1984. Synir hennar og Guðmundar Arnlaugssonar eru Arnlaugur, f. 17.1. 2009 og Hallgrímur, f. 25.4. 2012. Halla Tryggvadóttir hjúkrunarfræðingur, f. 6.2. 1988, í sambúð með Frederik Anthonisen sjúkraflutningamanni, f. 28.12. 1986. Sonur þeirra er Johann, f. 6.10. 2015.

Arthur ólst upp í Reykjavík, fyrst á Barónsstíg og svo í Vogahverfinu. Hann lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1973, sérkennaraprófi frá Statens Spesiallærerhøgskole í Ósló 1985 og Cand. Paed. Spes. frá sama skóla 1987.

Arthur kenndi við Barnaskóla Keflavíkur 1973 til 1978 og Árbæjarskóla 1978 til 1984. Hann var sérkennslufulltrúi á Fræðsluskrifstofu Reykjavíkur 1988 til 1991 og forstöðumaður kennsludeildar frá 1991 til 1996. Þegar málefni grunnskólans fluttust til sveitarfélaga árið 1996 varð Arthur forstöðumaður þjónustusviðs Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur. Því starfi gegndi hann í tíu ár. Síðustu starfsárin var hann ráðgjafi á Menntasviði Reykjavíkurborgar eða frá 2006 til 2012.

Arthur var einn af stofnendum Barnaheilla 1989, varaformaður samtakanna 1989 til 1991 og formaður frá 1991 til XXXX. Arthur var varaborgarfulltrúi fyrir Reykjavíkurlistann og formaður stjórnar SVR frá 1994 til 1996. Þá gegndi hann trúnaðarstörfum fyrir Kennarasamband Íslands og Alþýðubandalagið.

Bálför Arthurs fór fram í Svendborg í Danmörku 2. ágúst og útför hans var gerð frá Hallgrímskirkju 18. ágúst, 2016.

Þriggja alda hús – Litlibær

 

LItlibær 1Keðja kynslóðanna er löng og gott þegar maður er rækilega minntur á hana með eigin íbúðarhúsi og umhverfi. Við njótum þeirrar einstöku blessunar að búa í húsi með sál og sögu. Það heitir Litlibær og er á Grímstaðaholti, Tómasarhaga 16b. Húsið var byggt í nokkrum áföngum. Fyrsti hlutinn, 10×8 álna steinbær, var reistur 1893 af Einari Gamalíelssyni. Þá reif hann torfbæ sem áður stóð á þessum stað. Í júní árið 1896 seldi Einar afa mínum, Halldóri Jónssyni, bæinn og hét hann þá Litlibær. Meðfylgjandi var lóð og kálgarður og einnig erfðafestuland, “þar hjáliggjandi.”“ Halldór og Guðbjörg amma, fengu síðan leyfi 26. júní 1909 til að byggja fjós og heyhús á lóðinni, 9×6 álnir. Hlaðan stendur enn og lifum við með bændastíl og anda í miðri Reykjavík. Leyfi fyrir viðbyggingu inngönguskúrs fengu gömlu hjónin 7.12. 1927. Þetta var bíslag, samtals 5,51 ferm.

Litlabæjarlandið var tekið eignarnámi á sjötta áratugnum. Lítill skiki fylgdi Litlabæ, liðlega 400 m2, enda var ætlunin að rífa húsið. Nú er land Litlabæjarbænda um 1400 fermetrar, sem er með því mesta í gamla hluta Reykjavíkur. Amma, síðan foreldrar mínir og við systkin höfum plantað trjám í tímans rás. Þau urðu skógur en af tillitssemi við nágranna hefur skógurinn verið grisjaður hressilega. Fjöldinn breytist á hverju ári, sum árin fellí ég mörg tré. Viðurinn sem til fellur nægir okkur, við kaupum aldrei arinvið og kveikjum þó oft upp.

Litlibær 2Bíslag Litlabæjar var rifið sumarið 1986 þegar nýbygging var reist. Kristín, systir mín, er mikil framkvæmdakona. Eftir japl, jaml og fuður tókst henni að fá borgaryfirvöld til að samþykkja að byggja mætti við steinbæinn, sem hún og gerði. Gunnar Bjarnason, völundur og smiður allra helstu tilgátuhúsa í landinu, var aðalsmiður og faðir hans, Bjarni Ólafsson, meistarinn. Með þeim var hópur af góðum mönnum að vinnu. Kristín bjó um tíma í húsinu ein. Skaftfellingar segja að tóftin afli trjánna og þegar húsið var komið kom prinsinn, Öyvind Kjelsvik. Þau hófu búskap og fyrr en varði voru þau flutt til hans heimalands, Noregs. Við Elín keyptum síðan húsið af þeim og bættum enn við það sumarið 2002. Enn var Gunnar yfirsmiður og synir fyrri smiða komu einnig við sögu. Litlibær er því þriggja alda hús, frá 19. 20. og 21. öldinni. Það hefur stækkað með nýjum kynslóðum. Um tíma bjuggu tólf í steinbænum! Þá var þröngt en nú er rúmt. En alltaf hefur öllum liðið vel í Litlabæ. Hér gott að vera og gott að búa.

Litlibær er friðað hús hið ytra og eigiendur hafa reyndar ákveðna stefnu að ekkert brjóti á góðri minjaverndarstefnu og allar lagfæringar eru unnar í samráði við yfirvöld þeirra mála.

+ Vilhjálmur Eyjólfsson, Hnausum +

Á bakka Eldvatns í Meðallandi bjó Vilhjálmur Eyjólfsson á Hnausum. Við fljótið kynntist ég honum árið 1983. Ég var nýfluttur í Ása í Skaftártungu og Vilhjálmur hafði samband og spurði hvort ég kynni að veiða. Hann vildi kynna mér dásemdir Eldvantsins. Svo ók ég í morgunsólinni í hlað á Hnausum þar sem tíminn er lygn. Í asaleysi var sest við eldhúsborðið og Vilhjálmur byrjaði að fræða um hraunið, sem blasti við út um eldhúsgluggann, sandöldur og mýrar Meðallands, Kötlu, gossögu ofurfjallanna og svo kryddaði hann náttúrufræðina með nokkrum mergjuðum draugasögum. Á þessum tíma fræða og furðu urðum við Vilhjálmur vinir. Hann erfði ekki við mig að ég gat ekki hugsað mér að drekka koníak kl. 8 að morgni. En svo fórum við að veiða og Vilhjálmur sannfærði mig um að Eldvatnsbirtingurinn væri eitt af undrum heimsins.

Eftir upphafskynnin kom Vilhjálmur og húsvitjaði reglulega. Svo voru heimsóknir hans endurgoldnar. Vináttan var ræktuð og samgangur hélst þótt fjölskyldan flytti í aðra landsfjórðunga. Þar sem Vilhjálmur kom til nokkurra daga dvalar gat ég fylgst með því sem hann vann að. Honum var í mun að varðveita fróðleik, munnmæli, sögur, atburði og hóf skriftir á fullorðinsaldri. Meðal þess, sem Vilhjálmur setti á blað, voru minningar Einars Einarssonar, djákna. Vilhjálmur kom efninu á blöð sem hann setti í mínar hendur til að slá inn og koma á tölvutækt form. Ég varð því ritari Vilhjálms og fékk innsýn ekki aðeins í heim djáknans heldur líka Hnausabóndans, vinar míns. Ritsmíðin var prentuð í héraðsritinu Dynskógum.

Vilhjálmur á Hnausum 2

Vilhjálmur Eyjólfsson var andlega og fræðilega fangvíður. Hann var víðlesinn fjölfræðingur og því gefandi að ræða álitamál við hann. Alla ævi íhugaði hann skaftfellska náttúru og sögu og miðlaði til þeirra sem vildu við taka. Einu gilti hvort rætt var um jarðfræði, guðfræði, heimspeki, landafræði, líffræði, dulræn efni eða kirkjusögu. Eldfjallafræði var honum sérlega hugleikin, en einnig byggðasaga, landamerkjamál, verndun fiskjar og ábyrg nýting. Svo sá Vilhjálmur fleira en við hin og í sumu einnig lengra. Í þeim efnum var ekki komið að tómum kofum. Veröld Villa á Hnausum var stór. Hann lifði lífinu í fagurri lotningu gagnvart undri veraldar. Hann var gjöfull samfylgdarmaður.

Fyrir hönd barna minna og fjölskyldu þakka ég vináttu, fræðslu, umhyggju og elskusemi Vilhjálms á Hnausum. Guð geymi hann í lygnu eilífðar.

Minningargrein í Morgunblaðinu.

Dánartilkynning í Morgunblaðinu var þessi: Vil­hjálm­ur Eyj­ólfs­son, bóndi, frétta­rit­ari og fyrr­ver­andi hrepp­stjóri, lést á hjúkr­un­ar- og dval­ar­heim­il­inu Klaust­ur­hól­um 21. júlí sl., 93 ára að aldri. Vil­hjálm­ur fædd­ist 5. júní 1923 í Meðallandi í Skafta­fells­sýslu, einka­son­ur hjón­anna Sig­ur­lín­ar Sig­urðardótt­ur (f. 1891, d. 1985), hús­móður og Eyj­ólfs Eyj­ólfs­son­ar (f. 1889, d. 1983), hrepp­stjóra. Vil­hjálm­ur ólst upp á bæn­um Hnaus­um í Meðallandi í Vest­ur-Skafta­fells­sýslu og var gjarn­an kallaður Villi á Hnaus­um. Vil­hjálm­ur var síðasti maður­inn til að gegna starfi hrepp­stjóra í hrepp sín­um, auk þess sem hann var með bú­skap á jörð sinni. Vil­hjálm­ur gegndi einnig starfi frétta­rit­ara Morg­un­blaðsins um langt skeið. Þegar Vil­hjálm­ur var sjö­tug­ur lauk hann leiðsögu­manna­námi en hann gegndi lengi starfi leiðsögu­manns um Kirkju­bæj­arklaust­ur og ná­grenni. Vil­hjálm­ur var einnig mik­ill söngmaður og söng með kór­un­um í sveit­inni. Vil­hjálm­ur hætti bú­skap árið 1987 en á Hnaus­um til árs­ins 2014 þegar hann flutti á hjúkr­un­ar- og dval­ar­heim­ilið Klaust­ur­hóla. Vil­hjálm­ur var ókvænt­ur og barn­laus. Útför hans frá Lang­holts­kirkju 28. júlí 2016.