Greinasafn fyrir merki: Xiaoli Guo

Hnitmiðuð kínversk-ensk orðabók fyrir elskendur

Foreldrar mínir keyptu bækur Menningar og fræðslusambands alþýðu og Helgafellsbækurnar voru eins sjálfsagður kostur og mjólkin úr Dunhagamjólkurbúðinni og niðursuðudósirnar úr KRON. Forlagið Angústúra sendir þessi árin heim til okkar heimsbókemenntir samtíðar og heldur uppi merki metnaðarfullra, íslenskra forlaga 20. aldarinnar. Það er vel. Takk Angústúra.

Hnitmiðuð kínversk-ensk orðabók fyrir elskendur er önnur bók Xiaolu Guo sem ég hef lesið. Sú fyrri var stórsagan Einu sinni var í austri. Metnaðarforlagið Angústúra gefur báðar bækurnar út og í afbrgaðsþýðingu Ingunnar Snædal.

Zhuang er aðalpersóna sögunnar. Hún er send af foreldrunum til London til að læra ensku. Og til að læra mál þarf hún að læra að nota orðabækur en kemst fljótt að því, að orðabækur eru menningarskilyrtar. Foreldrar Zhuang voru skóframleiðendur og dótturinni er gert að læra þetta vestræna tungumál til að geta séð um samningamálin. Aðlögun Zhuang að vestrænum hugsunarhætti er lýst af nærfærni og húmor, skólagöngu hennar, dugnaði og einbeitni.

Zhuang hrífst af sér eldri og enskumælandi manni. Hún flytur inn til hans og þau verða elskendur, sbr. nafn bókarinnar. Þróun sambands þeirra er burðarás bókarinnar, sem er nútímaballaða um austur og vestur. Hvernig slípast saman kínversk kona og velskur karl? Menntakerfið kínverska lýtur ákveðnni stjórn og stefnu og menningarmótunin byggir á slitsterkri menningu þúsunda kynslóða. Ung kínversk kona, hin austræna draumadís, er mótuð af hefð og væntingum. Og draumakarlinn, sem flýði úr búskaparpuðið í Wales, er líka ríkulega mótaður af hefð og hugmyndum um sjálf og menningu.

Við lestur bókarinnar leitaði á mig setning Rudyard Kipling í ballöðunni um austrið: „Austur er austur og vestur er vestur og það tvennt getur aldrei mæst.“ Bæði hafa þarfir í sambandinu og koma til móts við hvort annað. Samskiptin breyta báðum. En það er eins og ástarbál austurs og vesturs sé dæmt til að mistakast. Einstaklingarnir breytast vissulega en verða síðan sem táknmyndir um menningarþróun næstu áratuga. Sá breski gafst upp en sú kínverska dregur með sér nýjar hugmyndir og nær að draga margt úr breskri menningu inn í stórmenningu sína og Kína. Hann er heldur aumkunarverður í ráðleysi sínu, en í henni er ekki aðeins nútíð heldur kraftmikil framtíð. Menningarhefðir eru ekki bara spurning um góða túlkun eða þýðingu. Sumt týnist ekki aðeins í þýðingu heldur verður ekki þýtt heldur lifað, jafnvel þótt það sé í mikilli togstreitu. 

Eins og í fyrri bók höfundar er margir gluggar opnaðir. Lesandinn fær innsýn í mun vestræns og kínversks hugsunarháttar, menningar og sjálfsskilnings. Kínverskur hugsunarháttur er skýrður með fjörmiklum hætti, málfræði og áherslum kínverskunnar. Svo er húmorinn aldrei langt undan þrátt fyrir sársauka aðalpersónanna. Það er því ekki aðeins áhugavert eða skemmtilegt að lesa bækur Xiaolu Guo heldur líka menntandi.

Bókin er skrifuð skringilegri ensku innflytjandans og Ingunni Snædal hefur lánast að miðla orðfærinu vel í þýðingu. Það tók mig nokkurn tíma að komast inn í Hnitmiðaða kínversk-ensk orðabók fyrir elskendur. Hún kveikir ekki strax í lesandanum. En ég mæli með að fólk fleygi henni ekki frá sér eftir tuttugu blaðsíður. Bókin vinnur á og sagan grípur. 

Um Einu sinni var í austri sjá umsögn mína að baki þessari smellu.