Greinasafn fyrir merki: Angústúra

Hnitmiðuð kínversk-ensk orðabók fyrir elskendur

Foreldrar mínir keyptu bækur Menningar og fræðslusambands alþýðu og Helgafellsbækurnar voru eins sjálfsagður kostur og mjólkin úr Dunhagamjólkurbúðinni og niðursuðudósirnar úr KRON. Forlagið Angústúra sendir þessi árin heim til okkar heimsbókemenntir samtíðar og heldur uppi merki metnaðarfullra, íslenskra forlaga 20. aldarinnar. Það er vel. Takk Angústúra.

Hnitmiðuð kínversk-ensk orðabók fyrir elskendur er önnur bók Xiaolu Guo sem ég hef lesið. Sú fyrri var stórsagan Einu sinni var í austri. Metnaðarforlagið Angústúra gefur báðar bækurnar út og í afbrgaðsþýðingu Ingunnar Snædal.

Zhuang er aðalpersóna sögunnar. Hún er send af foreldrunum til London til að læra ensku. Og til að læra mál þarf hún að læra að nota orðabækur en kemst fljótt að því, að orðabækur eru menningarskilyrtar. Foreldrar Zhuang voru skóframleiðendur og dótturinni er gert að læra þetta vestræna tungumál til að geta séð um samningamálin. Aðlögun Zhuang að vestrænum hugsunarhætti er lýst af nærfærni og húmor, skólagöngu hennar, dugnaði og einbeitni.

Zhuang hrífst af sér eldri og enskumælandi manni. Hún flytur inn til hans og þau verða elskendur, sbr. nafn bókarinnar. Þróun sambands þeirra er burðarás bókarinnar, sem er nútímaballaða um austur og vestur. Hvernig slípast saman kínversk kona og velskur karl? Menntakerfið kínverska lýtur ákveðnni stjórn og stefnu og menningarmótunin byggir á slitsterkri menningu þúsunda kynslóða. Ung kínversk kona, hin austræna draumadís, er mótuð af hefð og væntingum. Og draumakarlinn, sem flýði úr búskaparpuðið í Wales, er líka ríkulega mótaður af hefð og hugmyndum um sjálf og menningu.

Við lestur bókarinnar leitaði á mig setning Rudyard Kipling í ballöðunni um austrið: „Austur er austur og vestur er vestur og það tvennt getur aldrei mæst.“ Bæði hafa þarfir í sambandinu og koma til móts við hvort annað. Samskiptin breyta báðum. En það er eins og ástarbál austurs og vesturs sé dæmt til að mistakast. Einstaklingarnir breytast vissulega en verða síðan sem táknmyndir um menningarþróun næstu áratuga. Sá breski gafst upp en sú kínverska dregur með sér nýjar hugmyndir og nær að draga margt úr breskri menningu inn í stórmenningu sína og Kína. Hann er heldur aumkunarverður í ráðleysi sínu, en í henni er ekki aðeins nútíð heldur kraftmikil framtíð. Menningarhefðir eru ekki bara spurning um góða túlkun eða þýðingu. Sumt týnist ekki aðeins í þýðingu heldur verður ekki þýtt heldur lifað, jafnvel þótt það sé í mikilli togstreitu. 

Eins og í fyrri bók höfundar er margir gluggar opnaðir. Lesandinn fær innsýn í mun vestræns og kínversks hugsunarháttar, menningar og sjálfsskilnings. Kínverskur hugsunarháttur er skýrður með fjörmiklum hætti, málfræði og áherslum kínverskunnar. Svo er húmorinn aldrei langt undan þrátt fyrir sársauka aðalpersónanna. Það er því ekki aðeins áhugavert eða skemmtilegt að lesa bækur Xiaolu Guo heldur líka menntandi.

Bókin er skrifuð skringilegri ensku innflytjandans og Ingunni Snædal hefur lánast að miðla orðfærinu vel í þýðingu. Það tók mig nokkurn tíma að komast inn í Hnitmiðaða kínversk-ensk orðabók fyrir elskendur. Hún kveikir ekki strax í lesandanum. En ég mæli með að fólk fleygi henni ekki frá sér eftir tuttugu blaðsíður. Bókin vinnur á og sagan grípur. 

Um Einu sinni var í austri sjá umsögn mína að baki þessari smellu.

 

Einu sinni var í austri

Hvernig var að alast upp í Kína eftir að Maó komst til valda? Hvernig var líf venjulegs fólks? Hvað gerðist í þorpunum? Hvernig var skipulag aldanna endurstokkað og siðum riðlað með stjórnmálalegum breytingum? Hvað gerði fólk við trú sína? Hversu djúpt ristu breytingarnar út í héruðunum? Hvernig voru fulltrúar kommúnismans og hvernig var tekið á skoðunum fólks sem voru alls konar? 

Uppvaxtarsaga Xiaolu Guo, Einu sinni var í austri, er eiginlega saga Kína síðustu áratugina. Xiaolu fæddist árið 1973. Mamman var í baráttusveit kommúnismans og pabbinn listamaður. Og þar sem Xiaolu var óvelkomið annað barn var hún gefin til fátækra barnlausra bændahjóna. En lífsbarátta þeirra var það hörð að þau gátu ekki séð sér farborða. Í stað þess að bera stúlkuna út fóru þau með hana til föðurforeldra Xiaolu. Afinn og amman bjuggu í sjávarþorpi og þar ólst hún upp fyrstu árin. Afinn drakk, barði ömmuna og var á skjön við samfélagið og tímann. Amman grét, eldaði, fór með sútrurnar sínar og reyndi að verja barnið í hörðum heimi.

Bókin lýsir vel litríkum en erfiðum uppvaxtaraðstæðum. Xiaolu gekk ekki í skóla, en varð snjöll í skóla lífsins þar sem þau náðu lengst sem voru útsjónarsömust. Afinn gafst upp og fargaði sér með því að hella skordýraeitri í búsið sitt. Og þá var komið að því að taka ákvörðun um framtíð stúlkubarnsins. Blóðforeldrarnir komu og náðu í dóttur sína. En þær náðu aldrei neinum tilfinningatakti blóðmóðirin og dóttirin. Meir pabbinn, þó fjarlægur væri flestum, var nær dóttur sinni. Við tók líf í bæ, sem var að breytast úr landbúnaðarþorpi í iðnaðarstórborg.

Xiaolu lifði af í menningarflaumi, námi, kynferðisofbeldi, heimiliskulda, fóstureyðingu, einsemd og eftirsjá. Hún átti í sér persónukjölfestu og einurð, sem fleytti henni alltaf áfram. Svo tók hún ákvörðun um að læra kvikmyndagerð. Og keppti við þúsundir um örfáar námsstöður í kvikmyndaskóla ríkisins. Eftir mikla dramatík komst hún inn og þá lauk bernskunni. Nýtt skeið í lífi Xiaolu Guo hófst í fjölbreytni menningarlífs borgarinnar og áhrifin að vestan heilluðu. Þar á eftir voru svo starfsár hennar í Kína og Englandi, sem er seinni hluti bókarinnar. Sú blóðríka saga verður ekki rakin hér. Það er sagan um austrið í vestrinu.

Einu sinni var í austri er listilega vel skrifuð bók. Hún er laðandi lestrargripur. Bókin gefur innsýn í menningarbreytingar í Kína, veitir skilning á fjölbreytileika mannlífsins, mismunandi þörfum mismunandi héraða, kjörum og kjarabreytingum, áhrifum að utan á kínverska menningu og hópa, vinnubreytingar og baráttu einstaklinganna innan sinna menningarkima. Þessi persónusaga gefur fréttum um Kína mennska ásjónu. Og það er kona sem segir þessa sögu Kína, gefur innsýn í kjör og aðstæður kvenna sem karla, baráttu þeirra, tilfinningar og aðstæður sem voru alls konar. Þessi kvennavinkill gefur sjónarhól að lífi fólks og kjörum þess. Saga um  ást og ástleysi, frelsi og ófrelsi, samskipti og einsemd, áföll, von og sigra. Sagan er sögð af djúpum heilindum og einurð, ást og hugrekki sem ekki hvikar þrátt fyrir sviftingar og ægileg áföll.

Frábær, læsileg og hrífandi bók um lífsbaráttu í Kína á hraðbraut breytinganna. Og bók um að allt er fólki fært, sem tekur stefnu. Jafnvel stórveldið Kína kremur ekki vilja til lífs og frelsis. Fjórar og hálf stjarna af fimm.

Ingunn Snædal þýddi og gerði afar vel. Ég rakst aðeins á tvo frágangshnökra í allri bókinni. Bókaútgáfan Angústúra gefur út. Lof sé útgáfunni, sem hefur metnað að gefa út frábærar bækur um efni utan vestræns samhengis. Angústúra er að verða nútímaútgáfa menningarsjóðs, færir okkur heimsbókmenntirnar heim í hlað. Fimm stjörnur til Angústúru. Og dásamlegt er að njóta sumarfrís líka með því að lesa miklar bækur.

Flýja eða mæta – Trevor Noah og frelsið

Hvað gerum við þegar við verðum fyrir áfalli? Kostirnir eru oftast tveir og báðir erfiðir: Að fara eða vera. Við annað hvort flýjum eða mætum áfallinu. Þegar við flýjum reynum við að losna undan afleiðingunum, tilfinningum, sorg, missi, því sem ekki varð eða rættist, öllu þessu skelfilega eða óþægilega, sem áfallið olli eða opinberaði. En ef við mætum skelfingunni erum við færari um að vinna úr, eflast af eða styrkjast – af því að glímt er við meinið, talað um það, rætt um það og reynt að greina hvað er hægt að læra af því. Við erum aldrei algerlega strand í grískum harmleik. Áfalli getum við mætt í frelsi. 

Í liðinni viku sat ég á grískri strönd. Kliðmjúkur söngur smáöldunnar leið í eyru, birta sótti í sál og ég las bók í skugga ólífutrjánna á ströndinni. Forlagið Angústúra gefur út þrungnar bækur í nýrri ritröð og Elín mín hafði tekið með tvær úr röðinni. Ég fór að lesa uppvaxtarbók Trevor Noah, Glæpur við fæðingu, sem ég vissi ekkert um áður. Bókin er grípandi. Höfundur teiknar vel aðskilnaðarstefnu S-Afríku í framkvæmd. Hann er sonur s-afrískrar, þeldökkrar konu og hvíts, svissnesks föður. Og slíkur blendingur var brot á lögum og drengurinn lenti utan hópa, kerfa og menningarkima og fór líka á mis við nánd föðurins. Og þvílíkur rússíbani stórmála, áfalla og tilfinninga. Höfundur miðlar okkur sýn til fólks og lífsbaráttu þess á breytingartíma í S-Afríku. Honum tekst líka að miðla okkur lokunum, heftingum, tabúum, niðurþrykkingum og fjölda glerþaka. Hvað er til ráða? Og þar er komið að viskunni í þessari fjörmiklu lífsleiknibók.

Trevor Noah lenti í rosalegum málum, en hann var elskaður og það er besta vegarnestið. Hann átti lífsviljandi móður, sem var honum fyrirmynd um frelsi, sjálfstæði, hugrekki, einbeitni og húmor líka. Og Trevor Noah lærði, að maður þarf ekki að draga áföll á eftir sér, er ekki skuldbundinn til að láta sektarkennd og eftirsjá eða afbrot annarra verða aðalmál eigin framtíðar. Hlutverk okkar er að vinna úr áföllum okkar og lifa í frelsi.

Áfallaflóttin býr bara til vælupúka, fórnlömb. En þegar fólk mætir og glímir við er hægt að taka ákvörðun um að sleppa. Það er alltaf val þeirra, sem lenda í áfalli, að sleppa reiðinni gagnvart þeim sem brjóta á manni, hafa skaðað eða kerfum og hópum sem níðast á öðrum. Það er líka hægt að fyrirgefa gungunum sem ekki þora að standa með sannleika eða réttlæti og hlaupa í burtu frá líðendum og þolendum til að bjarga eigin skinni. Frelsi eða fangelsi, skilyrðingar eða opnun.

„Ég hef hlustað á þennan gaur,“ sagði annar sonur minn. „Hann er stjarna í Ameríku og á Youtube.“ Og þá komst ég að því að Trevor Noah hafði ekki bara lifað af og iðkað lífsleikni, heldur líka slegið í gegn sem uppistandari og þáttastjóri. Svo unglingurinn fór að lesa bókina – bókin er alltaf betri!

Mér þótti efnið kjarnmikið veganesti fyrir okkur öll því ekkert okkar sleppur. Við lendum öll í stórum og smáum áföllum. Við líðum margt og mikið en við erum þó aldrei fórnarlömb nema við ákveðum það sjálf. Annað hvort flýjum við eða mætum áfallinu. Við þurfum að viðurkenna og tala um sorgarefni okkar. Trevor Noah og mamma hans sýna, að enginn neyðir okkur til að leika hlutverk fórnarlambsins. Við erum frjáls – jafnvel í ómögulegum aðstæðum og fangelsum anda, menningar og líkama. 

Takk Angústúra fyrir að koma þessari bók út.

Þýðing Helgu Soffíu er góð og ég hikstaði sjaldan í hraðlestrinum. Kynning forlagsins á bók Trevor Noah er á þessari slóð:

https://www.angustura.is/glaepur-vid-faedingu

Glæpur við fæðingu

Stórmerkileg saga uppistandarans og stjórnmálaskýrandans Trevor Noah sem ólst upp í skugga aðskilnaðarstefunnar í Suður-Afríku: Sjálf tilvist hans var glæpur, því samband móður hans og föður af ólíkum hörundslit var refsivert á þeim tíma. Trevor segir á heillandi hátt frá æsku sinni og unglingsárum í samfélagi sem enn er í sárum, fyrstu skrefunum í skemmtanabransanum og trúrækinni móður sem opnaði fyrir honum heiminn.

Trevor Noah (f. 1984) hefur vakið mikla athygli fyrir hárbeitta þjóðfélagsrýni í þættinum The Daily Show í Bandaríkjunum sem hann hefur stýrt frá árinu 2015. Hann er vinsæll uppistandari og má nálgast heimildarmyndir um hann á Netflix. Glæpur við fæðingu var valin ein besta bók ársins af helstu fréttamiðlum Bandaríkjanna þegar hún kom út. Kvikmynd er í bígerð.

„Ástarbréf til einstakrar móður höfundarins.“ – The New York Times

„Lykilrit… því það afhjúpar aðskilnaðarstefnuna… fremur en aðrir nýlegir fræðitextar.“ – The Guardian 

Trevor NoahHelga Soffía Einarsdóttir þýddi

Saumuð kilja 110 x 180 mm 368 blaðsíður.