Flýja eða mæta – Trevor Noah og frelsið

Hvað gerum við þegar við verðum fyrir áfalli? Kostirnir eru oftast tveir og báðir erfiðir: Að fara eða vera. Við annað hvort flýjum eða mætum áfallinu. Þegar við flýjum reynum við að losna undan afleiðingunum, tilfinningum, sorg, missi, því sem ekki varð eða rættist, öllu þessu skelfilega eða óþægilega, sem áfallið olli eða opinberaði. En ef við mætum skelfingunni erum við færari um að vinna úr, eflast af eða styrkjast – af því að glímt er við meinið, talað um það, rætt um það og reynt að greina hvað er hægt að læra af því. Við erum aldrei algerlega strand í grískum harmleik. Áfalli getum við mætt í frelsi. 

Í liðinni viku sat ég á grískri strönd. Kliðmjúkur söngur smáöldunnar leið í eyru, birta sótti í sál og ég las bók í skugga ólífutrjánna á ströndinni. Forlagið Angústúra gefur út þrungnar bækur í nýrri ritröð og Elín mín hafði tekið með tvær úr röðinni. Ég fór að lesa uppvaxtarbók Trevor Noah, Glæpur við fæðingu, sem ég vissi ekkert um áður. Bókin er grípandi. Höfundur teiknar vel aðskilnaðarstefnu S-Afríku í framkvæmd. Hann er sonur s-afrískrar, þeldökkrar konu og hvíts, svissnesks föður. Og slíkur blendingur var brot á lögum og drengurinn lenti utan hópa, kerfa og menningarkima og fór líka á mis við nánd föðurins. Og þvílíkur rússíbani stórmála, áfalla og tilfinninga. Höfundur miðlar okkur sýn til fólks og lífsbaráttu þess á breytingartíma í S-Afríku. Honum tekst líka að miðla okkur lokunum, heftingum, tabúum, niðurþrykkingum og fjölda glerþaka. Hvað er til ráða? Og þar er komið að viskunni í þessari fjörmiklu lífsleiknibók.

Trevor Noah lenti í rosalegum málum, en hann var elskaður og það er besta vegarnestið. Hann átti lífsviljandi móður, sem var honum fyrirmynd um frelsi, sjálfstæði, hugrekki, einbeitni og húmor líka. Og Trevor Noah lærði, að maður þarf ekki að draga áföll á eftir sér, er ekki skuldbundinn til að láta sektarkennd og eftirsjá eða afbrot annarra verða aðalmál eigin framtíðar. Hlutverk okkar er að vinna úr áföllum okkar og lifa í frelsi.

Áfallaflóttin býr bara til vælupúka, fórnlömb. En þegar fólk mætir og glímir við er hægt að taka ákvörðun um að sleppa. Það er alltaf val þeirra, sem lenda í áfalli, að sleppa reiðinni gagnvart þeim sem brjóta á manni, hafa skaðað eða kerfum og hópum sem níðast á öðrum. Það er líka hægt að fyrirgefa gungunum sem ekki þora að standa með sannleika eða réttlæti og hlaupa í burtu frá líðendum og þolendum til að bjarga eigin skinni. Frelsi eða fangelsi, skilyrðingar eða opnun.

„Ég hef hlustað á þennan gaur,“ sagði annar sonur minn. „Hann er stjarna í Ameríku og á Youtube.“ Og þá komst ég að því að Trevor Noah hafði ekki bara lifað af og iðkað lífsleikni, heldur líka slegið í gegn sem uppistandari og þáttastjóri. Svo unglingurinn fór að lesa bókina – bókin er alltaf betri!

Mér þótti efnið kjarnmikið veganesti fyrir okkur öll því ekkert okkar sleppur. Við lendum öll í stórum og smáum áföllum. Við líðum margt og mikið en við erum þó aldrei fórnarlömb nema við ákveðum það sjálf. Annað hvort flýjum við eða mætum áfallinu. Við þurfum að viðurkenna og tala um sorgarefni okkar. Trevor Noah og mamma hans sýna, að enginn neyðir okkur til að leika hlutverk fórnarlambsins. Við erum frjáls – jafnvel í ómögulegum aðstæðum og fangelsum anda, menningar og líkama. 

Takk Angústúra fyrir að koma þessari bók út.

Þýðing Helgu Soffíu er góð og ég hikstaði sjaldan í hraðlestrinum. Kynning forlagsins á bók Trevor Noah er á þessari slóð:

https://www.angustura.is/glaepur-vid-faedingu

Glæpur við fæðingu

Stórmerkileg saga uppistandarans og stjórnmálaskýrandans Trevor Noah sem ólst upp í skugga aðskilnaðarstefunnar í Suður-Afríku: Sjálf tilvist hans var glæpur, því samband móður hans og föður af ólíkum hörundslit var refsivert á þeim tíma. Trevor segir á heillandi hátt frá æsku sinni og unglingsárum í samfélagi sem enn er í sárum, fyrstu skrefunum í skemmtanabransanum og trúrækinni móður sem opnaði fyrir honum heiminn.

Trevor Noah (f. 1984) hefur vakið mikla athygli fyrir hárbeitta þjóðfélagsrýni í þættinum The Daily Show í Bandaríkjunum sem hann hefur stýrt frá árinu 2015. Hann er vinsæll uppistandari og má nálgast heimildarmyndir um hann á Netflix. Glæpur við fæðingu var valin ein besta bók ársins af helstu fréttamiðlum Bandaríkjanna þegar hún kom út. Kvikmynd er í bígerð.

„Ástarbréf til einstakrar móður höfundarins.“ – The New York Times

„Lykilrit… því það afhjúpar aðskilnaðarstefnuna… fremur en aðrir nýlegir fræðitextar.“ – The Guardian 

Trevor NoahHelga Soffía Einarsdóttir þýddi

Saumuð kilja 110 x 180 mm 368 blaðsíður.