Besta baðströnd í heimi?

Hver er besta baðströnd í heimi? Ég hef sótt í sjóinn víða. Synt í Kyrrahafinu, Dauðahafinu, víða í Miðjarðarhafi, Eystrasalti og Atlantshafi. Og hef hrifist af góðum ströndum og góðri baðaðstöðu. En tvær strendur eru í uppáhaldi. Í dag kom ég og mitt fólk á baðströnd sem er kannski ein sú besta í heimi. Hún er nærri Sidari á Corfu.

Grísku eyjarnar eru flestar dásamlegar og tvisvar hef ég verið á Krít, sem ég er hrifinn af. En Corfu er græn, líklega grænust grísku eyjanna. Og margar strendur eyjarinnar eru heillandi. Baðströndin við Daphnilla-flóa er afar fjölskylduvæn, hættulaus, hvít og sjaldan nokkur alda, enda sundið milli eyjarinnar og Albaníu fremur þröngt. En Aþena, ráðgjafinn okkar á hótelinu, sagði að ef við færum í ökuferð um norðurhluta Corfu væri eiginlega skylda að fara á sólarlagsströndina við 7th. Heaven Café. Og þangað fórum við m.a. í dag. Dásamlegt veður, stillt, hlýtt, sjórinn tær og heitur, fáir ferðamenn og kyrrð og ró yfir öllu. Gróðurinn fagur, kalk- og sandsteinsklettarnir glæsilegir, svölurnar heilluðu, bátar liðu hjá eins og í draumhemi og mitt fólk lék sér í tæru vatninu. Og við vorum mun lengur en við höfðum skipulagt. Niðurstaðan var: Þetta er besta baðströnd í heimi!

Ef þú ferð með fólkið þitt um Corfu er ráð að fara til Sidari og alla leið út á strönd, taka baðfötin með, fara í sjóinn, njóta og heimsækja svo kokkana í kaffihúsinu sem kennt er við sjöunda himin. Og ströndin var áttundi himininn.