Greinasafn fyrir merki: heilagt rými

Heilagt rými og heilagleiki

Heimsfaraldur teygir kerfi og kremur fólk. Margir hafa misst vinnu. Fjárhagsáhyggjur reyna á. Því lengur sem fárið geisar vex spenna og sprungur koma í ljós. Veilur einstaklinga og brotakerfi menningarinnar sjást. Veilurnar eru mennskar, það sem við mennirnir erum líka. Þegar mennirnir sýna sínar verstu hliðar hríslast ótti um bæði sálir einstaklinga og samfélög.

En hið vonda er ekki hið eina. Við megum gjarnan hugsa um hina hliðina, velta öllu á hvolf og íhuga það sem er handan hins hræðilega og sefar óttann. Þetta sem er æðra, handan hins skerta eða vonda. Það getum við kallað hið heilaga. Hið heilaga samtvinnar hið besta í þessum heimi, líka manneskjurnar. Heilagleikinn er í náttúrunni, í umhyggju og gæsku mannanna, í listinni og líka í helgidómum. Kirkjurnar eru dásamlegir kyrrðarreitir á ferð okkar um menningu og land. Og hið heilaga er nær okkur en lífið sjálft.

Íhugun dagsins. Mynd SÁÞ af innri kirkjudyrum Hallgrímskirju. Glerverkið: Leifur Breiðfjörð.