Lífið lifir

Kristur er upprisinn – Kristur er sannarlega upprisinn. Þetta er hin forna páskakveðja um, að dauðinn dó og lífið lifir. Kveðjan þarf að berast sem víðast, heyrast sem best og ná inn í grunn lífs okkar. Fréttin varðar okkur öll, mennina, en líka allt líf, líka lífið í hreiðrum fugla, í moldinni, sjónum, ám og slímhúð mannanna.

Fyrir tæpu ári síðan stóðum við nokkur við leiði neðst í Fossvogskirkjugarði. Fallegt duftker ástvinar var þegar komið að gröfinni. Sólin skein og geislar hennar þrengdu sér milli greina og umvöfðu kerið. Þröstur sat á steini og fylgdist með okkur. Ástarsöngvar annarra fugla heyrðust úr trjánum umhverfis. Til okkar barst líkaflugvélahljóð og bílaniður. Vorflugur voru komnar á kreik. Ástvinirnir færðu sig að gröfinni. Þegar við ætluðum að byrja athöfnina var allt í einu hækkað í útvarpi í bíl, sem var við gröf nálægt okkur. Mannlegi þátturinn var að byrja á RÚV og fjörleg músík hljómaði. „Þetta er forspilið“ sagði ég og ástvinirnir kinnkuðu kolli brosandi. Útfararstjórinn hljóp af stað til bílstjórans og bað um að fjörið yrði dempað. Svo var hægt að halda áfram. Öll voru tilbúin til síðustu kveðju. Ég las úr sálmabók Jesú, Davíðssálmunum, sem tjá allar mannlegar tilfinningar. Kerið fór í jörð og ég mokaði fyrstu skóflufyllunum. Síðan komu synir hins látna og molduðu. Hin líkamlega kveðja.

Þegar grafarholan var nánast full kom þrösturinn fljúgandi. Hann settist við fætur mér og leitaði að möðkum í moldinni. Það var undursamlegt, að sjá þennan fiðraða vin, fullkomlega rólegan og óhræddan. Var þetta teikn, kannski engill? Fleiri ástvinir komu og mokuðu. Fuglinn veik ávallt til hliðar þegar moldin féll, en smeygði sér svo niður í holuna á milli mokstra. Ég beygði mig og setti nokkra maðka til hliðar og þrösturinn þakkaði fyrir sig með höfuðhneigingu. Svo fullmokuðum við. Þrösturinn þjappaði og maðkhreinsaði. Þá blessuðum við og krossuðum, komum fyrir blómum, horfðum hvert á annað, síðan upp í himininn og táruðumst svolítið. Sólin kyssti okkur öll.

Þrösturinn leitaði að fæðu fyrir ungviði sitt á gröfinni. Dauðinn er hluti af lífinu og líf sprettur af gröf. Orðin í 104. Davíðssálmi leituðu á mig: „Öll vona þau á þig að þú gefir þeim fæðu þeirra á réttum tíma. Þú gefur þeim og þau tína, þú lýkur upp hendi þinni og þau mettast gæðum.“ Ég prédikaði ekki yfir fuglunum þennan daginn, en fuglinn prédikaði stórkostlega um Guð og dýrmæti lífsins. Jarðsetning duftkers varð stund upprisunnar. Þrösturinn velti steinum frá tilfinningalegum grafarmunnum. Já, dauðinn dó og lífið lifir.

Á þessum páskum er hugur okkar með öllum þeim, sem eru veik, af kórónaveirunni eða öðrum sjúkdómum. Þeim eru margir dagar langir föstudagar. Margir standa álengdar fjær og hafa áhyggjur af þeim sem eru sóttsjúkir og berjast við veikindi. Og blessað veri allt það fólk sem sinnir hinum veiku. Hin örsmáa kórónaveira hefur kastað álagaham á heimsbyggðina, veiklað kerfi, opinberað vit og mikilvægi þekkingar og fagemennsku en líka vitgrannt vald, sem ekki lætur stjórnast af mannúð, kærleika og umhyggju. Liðið ár og þessi sóttartími hefur dýpkað vitund margra um, að mannkyn og náttúra eru eitt. Menn geta valdið miklum spjöllum og eyðilagt líf og lítil veira getur sett mannlíf þúsunda milljóna úr skorðum. Við menn og lífvefnaður heimsins erum eitt og verðum ekki slitin í sundur. Okkur ber að virða betur hið fíngerða samspil lífheimsins og vera ábyrg.

Kristur er upprisinn er erindi dagsins. Það fagnaðarerindi á erindi við líkamlega sjúkt en líka heilbrigt fólk, en einnig veirur og bakteríur, lofthjúp og sjó, jökla og ár, fiska og fugla. Dauðinn dó en lífið lifir er boðskapur um að föstudagurinn langi er ekki niðurstaða tilraunar um líf á jarðarkúlu okkar. Lífið lifir er erindi páskanna og varðar allt og alla. Líf okkar manna er ekki tilvera til dauða heldur lífs. Fuglinn í dauðaholunni prédikaði um lífið, að öllu er vel fyrir séð og að við erum blessuð.

Kristur er upprisinn – Kristur er sannarlega upprisinn. Guð gefi þér gleðilega páska.

Meðfylgjandi mynd tók ég af þrestinum við matarleit á gröfinni. Sigurður Árni Þórðarson

 

Nakið altari

Af hverju er allt tekið af altarinu í Hallgrímskirkju á skírdagskvöldi? Af hverju er altarið nakið allt fram á páskamorgun? Ljós kirkjunnar eru slökkt og prestur afskrýðist hökli. Bæn Jesú í Getsemane er íhuguð og slökkt er á altarisljósum. Síðan eru ljósastjakar, bækur, vasar, þerrur og dúkur borin fram, undanfarin ár undir söng en í ár í þögn kirkjuhússins.

Þessi gjörningur í kirkjunni, svonefnd Getsemanestund, er tjáning lífsafstöðu og trúarjátning. Þegar við játum hið góða og trú til Guðs er hið næsta að horfast í augu við, að líf í þessum heimi hefur skuggahliðar, sekt, misgerðir, sjúkdóma, ofbeldi og dauða – þetta sem við viljum ekki en er samt. Þegar við afklæðum altarið tjáum við líka, að í okkur lifi ekki aðeins Guðsneistin, trúin og samstaða með öllu góðu, heldur búi líka í okkur möguleikar til ills. Að vera mennskur er ekki aðeins að gera gott heldur líka að gera eitthvað sem særir. Þegar við berum allt af altarinu táknum við fyrir sjálfum okkur, að við erum ekki aðeins vinir Jesú, heldur líka andstæðingar hins góða.

Þegar altarið hefur verið afklætt er í Hallgrímskirkju borið fram pelíkanaklæði Unnar Ólafsdóttur. Myndin tjáir forna sögu um pelikana, sem gaf ungum blóð sitt til lífs. Þá sögu túlkuðu trúmenn aldanna sem líkingasögu um fórn Jesú Krists til að bjarga mönnum og heimi. Pelíkanaklæðinu er komið fyrir við altarið og blasir við þeim sem koma í Hallgrímskirkju allt til páskamorguns. Snemma þann dag er pelikanaklæðið borið út, en dúkur og altarismunir eru bornir í kirkju. Helgidómurinn, munir, listaverk og lifandi fólk fagna að dauðinn dó en lífið lifir.

Altarið er tákn um lífið og það er heilagt. Altarið er miðjan í kirkjunni, borð sem okkur er boðið til. Altarið er staður veislunnar, en þegar táknin hafa verið borin burt, eru fimm rauðar rósir lagðar á nakið borðið. Blómin eru tákn um síðusár Jesú Krists. Rósir á altari eru mál elskunnar. Þær eru tákn meina heims og manna.

Nakið altari, grípandi pelikanamynd, myrk kirkja og rauðar rósir. Langur föstudagur og síðan laugardagur. Verða páskar?

Sigurður Árni Þórðarson

 

Nær en lífsneistinn

Skírdagur, dagur hreinsunar. Orðið að skíra merkir að hreinsa. Fólk hreinsaði híbýli sín á þesum degi. Í kirkjum voru ölturun þvegin og hreinsuð. Allt á þetta rætur í, að Jesús þvoði fætur lærisveinanna og bjó þá til máltíðar.

Á þessum sérkennilegu dögum í apríl 2020 er tími endurmats. Þegar þrengir að okkur leita stóru spurningarnar í hugann. Af hverju? Til hvers? Hvernig? Og þegar við spyrjum stórt læðast að spurningar um ofurmálin líka. Hvaða máli skiptir dauði og þjáning Jesú? Hvernig getur krossfesting manns orðið að gagni? Hvernig geta afbrot verið bætt með aftöku? Hvernig getur sátt við Guð grundvallast á hinu mesta ranglæti? Var Jesús maður eða var hann meira en maður? Hvað þýðir að hann hafi verið Guð? Á föstunni og í kyrruviku verðum við vitni að sögugjörningi Jesú. Með því að fylgja Jesú eftir með íhugun megum við endursjá heiminn. Saga Jesú er saga Guðs um okkur mannfólkið og líka allan heiminn. Og sú saga verður líklega best skilin sem ástarsaga.

Með Jesú

Að nálgast Guð er ekki að skilja heldur ummyndast. Að fylgja Kristi er ekki að greina þjáningu hans fræðilega, heldur fara með honum. Líf Jesú einnkenndist ekki af uppgjöf. Allur ferill hans markaðist af vilja hans til lífs og umsköpunar. Jesúfylgdin er virk og starfarík afstaða, sem kallar vini hans til  að horfast með hugrekki í augu við lífið eins og það er og vilja til að breyta þeim óréttlátum og illum aðstæðum. Kristnir menn kalla þetta fagnaðarerindi. Það eru gleðifréttirnar um frelsi allra, hinna fátæku, lausn hinna kúguðu og örvæntingarfullu, lækningu hinna sjúku, frelsun hinna pyntuðu og styrkingu hinna hrelldu. Þessi boðskapur getur svipt hulu af lygavefum, sem þrengja að okkur – á vinnustöðum, í heimi stjórnmála, í mengun, plágum, arðráni og kúgun. En einnig í heimilislífinu og inn í sjálfum okkur. Það er mörgum erfiðast að viðurkenna og opinbera eigin sjálfsblekkingu.

Frá dauða til lífs

Föstutími COVID-plágunnar er mannkyni andleg raun og jafnvel hreinsunartími. Mörgum er þetta skelfingartími og föstudagurinn langi táknmynd um raunörlög fólks. Erum við fólk og heimur bara sprikl til endanlegs dauða? Er coronaveiran staðfesting, að heimur okkar er dæmdur til brenglunar og að veikjast vegna mengunar? Skírdagur og föstudagurinn langi eru tákndagar fyrir baráttu, en líka að mannkyn og heimurinn eru ekki ofurseldir sjúkdómum, þjáningu og dauða, heldur að Guð elskar. Guð yfirgefur ekki heldur er okkur nær en lífsneistinn sjálfur í okkur. Við erum ekki yfirgefin heldur tekur Jesús Kristur þátt í öllu því sem við reynum, erum og verðum.

Líf manna er stöðug barátta milli nætur og dags. Enginn maður er sendur til að tilkynna okkur einhver sorgartíðindi heldur kemur Guð, lifir allar plágur mannkyns og fléttar eilífð í þá sögu tímans og heilbrigði þar sem sjúdómar geisa. Dagur hreinsunar. Ástarsaga.

Biðjum:

Kom Jesús Kristur. Ver hjá okkur.

Við biðjum fyrir öllum þeim, sem eru okkur bundin kærleiksböndum,

Hjálpa þeim og gæt þeirra á lífsveginum.

Ver með öllum þeim sem eru sjúk og hrædd.

Styrk öll er syrgja og sakna, allar stundir nætur þar til dagur rennur og ljós þitt kemur.

Ver með öllum þeim sem eru sjúk og í hættu.

Varðveit oss undir skugga vængja þinna.

„Í þínar hendur Drottinn Guð vil ég nú fela anda minn. Þú hefur endurleyst mig Drottinn, þú trúfasti Guð. Gæt vor Drottinn eins og sjáaldurs augans. Frelsa oss Drottinn meðan vér vökum, varðveit þú oss er vér sofum svo að vér vökum með Kristi og megum hvíla í friði.”

Þú knýrð á, gengur í hús heimsins, þrífur, hreinsar og sest svo niður og seilist í brauðið og blessar.

Brýtur brauð fyrir veika veröld, sem hungrar og þyrstir eftir heilbrigði, réttlæti, lífsins orði – góðu lífi.

Þú kemur til allra manna. Kenn okkur að þiggja brauð þitt og iggja svikalausa fyrirgefninu – vera þín börn. Amen

Meðfylgjandi myndir: Kennimyndin er mynd Salvador Dali af síðustu kvöldmáltíð Jesú. Myndin er næsta dulúðug og áhugavert að sjá að baksviðsfjöllin eru snævi þakin. Hina myndina tók ég af legsteini í Fossvogskirkjugarði. Sigurður Árni.

Jesús og síðasta kvöldmáltíðin

Síðasta kvöldmáltíð, sem Jesús efndi til, hafði afgerandi áhrif á mótun kristninnar og atferli kristinna manna æ síðan. Skírdagur, dagur þeirrar máltíðar, er mikill tákndagur. Listaverkin og kirkjulegt atferli, sem tengjast deginum, eru táknrík.  

Myndin af Jesú í sóttkví, sbr. netmyndin hér að ofan, nýtir myndhefðir kristninnar. Myndlistamennirnir hafa um aldir túlkað veru og starf Jesú og með ólíkum áherslum, stundum kreist og jafnvel misþyrmt til að vekja fólk til vitundar. Myndir getum við skoðað til að vitja okkar eigin innri mynda og þar með afstöðu.

Skírdagur og da Vinci

Flest eigum við í huga okkar einhverja mynd af síðustu kvöldmáltíðinni. Og mynd Leonardo da Vinci hefur orðið sem erkimynd og áhrifavaldur síðari máltíðarmynda.

Myndin var gerð fyrir dóminíska klaustrið Santa Maria delle Grazie í Mílanó á Ítalíu. Da Vinci málaði myndina í þeim tilgangi að hún stækkaði salinn og að Jesús og lærisveinarnir væru nærverandi við enda rýmisins. Svipuð hugmynd er að baki hinum miklu myndverkum Baltasars í Víðistaðakirkju í Hafnarfirði og Ólafsvallakirkju á Skeiðum. Mílanómynd da Vinci virkjaði áhorfendur. Munkarnir tóku eiginlega þátt í máltíð Jesú, hlýddu á orð hans, heyrðu um svik mannsins og baráttu lærisveinanna. Þeir urðu hluttakandi í sögu og lausnarverki frelsarans.

Myndirnar af máltíðinni

Mörg listaverk eru til af síðustu máltíð Jesú. Myndirnar túlka afstöðu, trúarskilning og líka myndlistarstefnur hverrar tíðar. Jesús hafði undirbúið komu til Jerúsalem vel, sent sveina sína til að taka frá loftsal fyrir samveru og máltíð að hætti Gyðinga þess tíma. Máltíðin var táknmáltíð, minningarsamvera, til að innlífast framhjágöngu engilsins í Egyptalandi, undursamlegri björgun Ísraela úr þrældómi og lausn úr prísund. Og Jesús notaði svo táknmálið til að búa til nýtt táknmál, til að undirbúa sig og vinahóp sinn undir framvindu og átök næstu daga, atburða sem sköpuðu nýjan heim, nýtt líf og nýtt táknkerfi, sem heimsbyggðin hefur aðlagast og endurunnið kynslóð eftir kynslóð.

Þessi mynd Andrea del Castagno frá 1447er eldri en mynd da Vinci. Á henni sést hátignarleg, “ítölsk” bygging. Lærisveinarnir og Jesús eru öðrum megin borðs og geislabaugar eru við höfuð þeirra. En Júdas er hinum megin borðsins með hugann við svik og peninga. Þetta er formföst og frosin mynd og tilgangurinn er að greina hinn vonda frá hinum góðu. 

Svo er hér önnur mynd og er uppbyggð í hring. Sveigjur eru í allri myndinni og líkamstjáningu, sem rímar líka við geislabaugana. En Júdas rýfur hringinn, er án baugs og með pyngjuna á lofti. Þessar myndir draga fram illsku hins eina en helgi hinna, sem ekki svíkja. My

Kirkjur tjá með lagi og innri skipan borðsamfélagið sem Jesús stofnaði og bauð að yrði iðkað í samfélagi hans. Að borða saman er mikilvægt, að vilja vera saman um lífsbjörg hefur verið tákn um samfélag og tengsl. Svo er borðsamfélag kirkjunnar, altarisgangan, tákngjörningur á mærum tíma og eilífðar, manna og engla, sköpunar og Skapara, myrkurs og ljóss, dauða og lífs. Borðsamfélag Jesú Krists er brú milli veraldar og himins, leið úr ringulreið syndar inn í fang elsku Guðs.

Táknmál hefur ytri og innri hlið

Kvöldmátíðarmynd Leonardo da Vinci varð táknmynd um skírdagsmáltíð Jesú í Evrópu og norður-Ameríku. En tákn breytast og táknmyndir líka. Tákn geta veiklast innan frá og tæmst og að lokum orðið form án inntaks. Þegar svo er komið taka menn sig oft til og fylla þau jafnvel nýju inntaki. Í miðju da Vinci myndarinnar er Jesús að kveðja vini sína, undirbúa þá, skilgreina inntak siðarins sem borðátrúnaðar. Spenna er í myndinni. Lærisveinarnir eru skelfdir vegna orða Jesú, að einhver þeirra muni svíkja hann. Málarinn undirbjó kvöldmáltíðarmynd sína vel eins og vinnuskissurnar sýna glögglega. Hann reyndi að draga fram spennu milli hins trúarlega og persónulega.

Kvöldmáltíðarmyndin endurunnin

Da Vinci-myndin hefur orðið fyrirmynd síðari mynda.  Hér að neðan eru nokkur dæmi um endurnýtingu.

Börn teikna gjarnan myndir af síðustu kvöldmáltíðinni og altarisgöngumyndir í stíl da Vinci. Þær eru oft gleðiríkar, opnar, litríkar og elskulegar. Formið skiptir mestu en ekki hið spennuþrungna inntak frummyndarinnar.   

Margir hafa látið tattóvera trúarleg tákn á líkama sína. Leikarinn Brad Pitt var með eftirmynd da Vinci á bakinu þegar síðast var vitað. Hér er dæmi um hvernig mynd da Vinci hefur ratað á handlegg manns. Kannski er þetta eins og hvert annað trúarlegt tákn í þágu íhugunar. Kirkjan er samfélag um máltíð og líf. Hvaða hlutverki þjóna svona myndir? Eru þær skraut eða ásýnd inntaks handareigandans? Handareigandinn getur notað myndina til að minna sig á að Guð er nærri í hverri máltíð.

Mynd Salvador Dali af hinum upphafna, handantímalega Jesú Kristi er ein kunnasta og áhrifaríkasta trúarmynd í myndlist tuttugustu aldar.

 Myndin heldur grunnsniði da Vinci-myndarinnar en er með ýmsar viðbætur eins og vænta mátti af Dali.  Skipan við borðið er önnur en í Mílanómyndinni. Sá Jesús, sem þarna talar, er einhvers konar hippalegur gúrú, sem lærisveinarnir lúta. Þarna er borðsamfélagið upphafið, himneskt og rennur inn í ofurjarðneskt landslag. Þessi Jesús er ekki að kveðja vini sína eða á leið í hryllilega aftöku á krossi. Í þessari kvöldmáltíðarmynd er kyrra þjáningarleysis, stilla visku og traust blessunar og myndin er algyðisleg. Þarna eru engin svik, engin spenna, aðeins himnesk upplýsing fræðarans. Þarna ríkir fegurðin ein og ofar allri þjáningu. Þetta er því allt annar Jesús Kristur en í Mílanómyndinni.

Margar pólitískar myndir hafa verið gerðar eftir kvöldmáltíðarmyndinni. Jesús hefur þá orðið, sem tákn um einhverja þjóðmálastefnu. Í einni myndinni hefur Maó komið í stað Jesú. Hann er þá lausnari og ef menn eru hallir undir maóismann eða pólítíska túlkun Jesú er hægt að sætta sig við þennan snúning. Hið trúarlega hefur um aldir verið notað í pólitískum tilgangi. Slík notkun er alltaf á kostnað hins trúarlega. Og þar með einnig pólitíkina og verst fer fyrir þolendum pólískrar trúarnauðungar. 

Svo er til mikill fjöldi mynda, sem sýna Jesúgerving sem venjulegan mann meðal venjulegs fólks.

Hér er ein sem sýnir fólk í hvunndagsklæðum, fólk markað lífsbáráttu, við borð, með vín á borði og tvo fiska. Það er reyndar lið úr the Sopranos sem kemur hér við sögu.

Alls ekki síðasta kvöldmáltíðin. 

Lærisveinarnir voru karlar og þótt einhverjir hafi viljað sjá konu í mynd da Vinci er ólíklegt að svo hafi verið frá málarans hálfu (þó ýmsar kenningar þar um hafi verið á sveimi). En á þessari mynd eru konur og aðeins einn karlmaður. Hér hefur kvöldmáltíðarmyndin verið kvengerð. Myndin er menningarpólitísk, tjáir að konur eigi að hafa aðgang að hinu djúpa og trúarlega. Í miðju er kona og gegnir þar með lykilstöðu. Konan er hér orðin Jesútýpa.  

Svo er Battleship Galactica. Öndvert hinum dökkklæddu, sem eru á myndinni, er konan í Jesúmiðjunni í rauðum kjól. Hún sker sig úr og það eru átök á milli kvenna, fólksins. Hér er að baki í hefðinni form altarisgöngumyndar da Vinci þó lífsskerandi spenna sé allt önnur en í upprunamyndinni. 

Margar kvöldmáltíðarmyndir taka á neyslu og afþreyingarmenningu samtíðar og sumar myndanna er gagnrýnar. Þetta eru áhugaverðar myndir og stinga sumar og spyrja hvaða hlutverki trú gegni í samfélagi okkar og hvaða hlutverki Jesús Kristur hefur í lífi okkar og menningu. Er einhver kominn í hans stað? Getur einhver komið í hans stað?

Í fyrsta lagi er mynd, sem tjáir teiknimynda- og neyslusamfélag Bandaríkjanna. Þarna eru lærisveinarnir og Jesús orðnir teiknimyndahetjur. Hvaða hlutverki gegna þessar fígúrur í samfélaginu? Börnin okkar hafa horft á þessar ofurhetjur í sjóvarpinu og séð þær í teiknimyndablöðum. Þetta eru fyrirmyndir og ekki síst drengjanna. Hvað borðar hópurinn annað en bandarískan neyslukost. Þarna er búið að umbylta hinu trúarlega og umhverfa í sjónræna og efnislega neyslu.

Hér er da Vincimyndin notuð í Star Wars samhengi. Lærisveinarnir eru Jediriddarar. Þeir, sem horft hafa á kvikmyndirnar vita að gott og illt eiga þar í stríði.  En í þessu samhengi eru það ekki sverð andans heldur ljósasverð sem notuð eru.

Er Jesús Kristur lausnari, vegur til himins, sonur Guðs, leiðtogi og sínálægur? Eða er hann í lífi okkar lítið annað en pakkapési á jólum, góðlátlegur gæji með skegg, sem dregur upp pinkla samkvæmt pöntun ástvina okkar? Hér er mynd sem snýr upp á kvöldmáltíðarmyndina og ýtir við. 

Enska landsliðið í fótbolta átti í miklum erfiðleikum um árabil og gekk illa í alþjóðakeppnum og tapaði m.a. fyrir Íslendingum í síðustu Evrópukeppni. Einn teiknarinn sá ástæðu til að minna á fallvaltleika liðsins með því að mála miklar fótboltahetjur í da Vincískt samhengi. Myndin var gerð þegar David Beckham kunni enn að sparka í bolta. Hann er settur í miðju og í stað Jesú. Rooney, Rio Ferdinand, Gerrard og jafnvel Sven Göran Eriksson, hinn sænski þjálfari liðsins, sem þá var.  Myndin vakti viðbrögð og var jafnvel birt í íslensku blaði. Áhrifasaga Milanómyndarinnar er skýr.

Síðasta kvöldmáltíðin kemur oft fyrir í myndlist neyslunnar. Hér hefur inntaksríkri máltíð á lengdina verið umhverft í máltíð skyndibitans. Fyrir miðju er “the Colonel,” stofnandi KFC, Kentucky Fried Chicken. Ýmsar kunnar verur úr kvikmynda og teiknimyndabransanum eru þarna með honum. 

Hvenær er máltíð trúarleg máltíð? Er hinn trúarlegi kostur samtíma okkar skyndibiti og til lítils gagns? Þegar dýpst er skoðað megum við gjarnan spyrja okkur um okkar afstöðu til hins trúarlega, líka máltíðar Drottins. Þar er komið að inntakinu. Hvarvetna þar sem kristnir menn eru – íhuga þeir líf sitt og sækja í máltíðina sem tjáir Jesú sem gjafara samfélags og lífs.

En hefðir kristninnar eru endurunnar og endurnýjaðar. Síðasta kvöldmáltíðin er endurtúlkuð um allan heim og myndirnar vitna um það. 

Þessi mynd hér að ofan er frá Kína, sett í kínverskt byggingarsahengi, rýmisskilgreiningu, fata- og hárgreiðslulínu. Mynd er gerð af Qian Zhu Sheng Tryck.

Þessi mynd er úr kaþólsku, indónesísku samhengi og myndin hefur da Vinci-myndina að baki en höfundurinn er frjáls innan síns menningarramma. Málarinn er Komang Wahyu Sukayasa og nýtir hring og ferning og fjölmörg biblíuleg tákn. Í myndinn er sterk tenging borðs, fólks og sköpunar. Þessi gerð af trúarlegri myndlist tjáir samsemd manna og náttúru í veröld Guðs. 

Samfélag og máltíð

Leonardo da Vinci skipulagði mynd sína svo hún væri ávirk og vekjandi. Jesús segir lærisveinum sínum þau ógnvænlegu tíðindi, að einn muni svíkja hann. Lærisveinarnir tjá með viðbrögðum sínum hrylling, ógn, hræðslu og íhugun. Er það ég? Getur það verið ég? Nei, ég vil ekki og get ekki svikið þig, er það sem við getum skynjað í viðbrögðum og máli þeirra.

 Hver er okkar kvöldmáltíðarmynd?  Hvaða mynd viljum við hafa af Jesú Kristi? Svíkjum við hann eða eru við tilbúin að taka við þeim veruleika sem hann býður okkur, treysta honum?

Guð hefur mynd af okkur og þess vegna kom Jesús Kristur í þennan heim, til að hreinsa mynd mennskunnar, bjóða okkur til samfélags við sig. Viltu þiggja það boð?

Hvar varstu?

Til er helgisaga um mann, sem við ævilok leit til baka og sá lífsgöngu sína alla. Hann sá öll ævispor sín. Víða var hægt að greina tvenn spor – og hann gerði sér grein fyrir að önnur sporin voru fótspor Jesú. Hann sá einnig að á erfiðleikatímum hans voru sporin aðeins ein. Maðurinn dró þá ályktun, að Jesús hefði brugðist honum á örlagastundum og sárnaði. Þegar hann hitti meistarann í eilífðinni var honum efst í huga að fá skýringu á þessum einu sporum. „Hvar varstu á erfiðu stundunum? Yfirgafstu mig?“ Jesús svaraði: „Nei, þegar þú sérð aðeins ein spor varstu svo vanmáttugur að ég bar þig.”

Sigurbjörn Einarson ljóðaði út af þessari helgisögu og dró saman í síðasta versi afstöðu og ummæli Jesú:

Hann las minn hug. Hann leit til mín 

og lét mig horfa í augu sér: 

Þá varstu sjúkur, blessað barn, 

þá bar ég þig á herðum mér.

(Nr 910 í sálmabókinni)

Stundum virðist Guð fjarri. Við skiljum ekki plágur lífsins og spyrjum af hverju við verðum fyrir sjúkdómum, depurð og missi. Áföll hefta og hafa áhrif á tengslin við Guð. Ef Guð virðist hafa yfirgefið okkur fyllist vitundin ugg. Er Guð jafnvel dáinn? Þegar guðstengslin rofna verðum við einmana í róttækasta skilningi þess orðs. 

Í 139. Davíðssálmi segir: „Þú umlykur mig á bak og brjóst, og hönd þína hefur þú lagt á mig. Þekking þín er undursamlegri en svo, að ég fái skilið, of háleit, ég er henni eigi vaxinn. Hvert get ég farið…? Þó ég stigi upp í himininnn, þá ertu þar, þótt ég gjörði undirheima að hvílu minni, sjá þú ert þar. Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans og settist við hið ysta haf, einnig þar mundi hönd þín leiða mig og hægri hönd þín halda mér.“

Ferðir okkar eru margvíslegar í plágum lífsins, í undirheima, upp í himininn eða í dýptir viskunnar. Alls staðar er Guð. Þó við lyftumst í roða dagrenningar – þá er Guð líka þar.