Íslandskirkja

Hvað er kirkja? Hvernig er hún og til hvers? Og hvaða stefnu hefur trúmaður í lífinu?

Ólafur Elíasson er orðinn einn frægasti myndlistarmaður heims. Verk hans vekja mikla athygli. Ólafur kom til Íslands í síðustu viku. Tilgangurinn var að opna sýningu í Listasafni Reykjavíkur. Á sýningunni eru jöklaljósmyndir sem sýna dramatískt hop jöklanna á tuttugu árum. Landið, sem kennt er við ís, er að tapa jöklum sínum! Skiptir það einhverju máli? Kemur það Jesú Kristi við? Hefur það eitthvað með trú að gera?

Spurningin varðar tilgang og erindi kirkju í heiminum. Kirkjur eru ekki aðeins athvarf fyrir lífsflóttamenn heldur fremur faðmar fyrir líf. Og Hallgrímskirkja, sem er orðin pílagrímastaður alls heimsins, er nothæf til íhugunar á nútímahlutverki trúmanna. Skipulag guðshússins er merkilegt. Altari í kirkju er staðsett á áhrifaríkasta bletti rýmisins. Þegar fólk kemur að altarinu finnur fólk, að það er statt á „heitum“ reit, sem trúmaðurinn kallar heilagan stað.

Sjónarhornið

Sjónarhorn skipta alltaf máli, alla menn í öllum efnum, líka í kirkjulífi, listum og trú. Hvað sérðu þegar þú situr á kirkjubekknum og horfir inn í kórinn? Þú sérð ekki bíla, hús eða mannlíf heldur himinn, skýjafar og leik ljóssins í skýjabólstrum. Fuglar fljúga stundum fyrir glugga og flugvélar líka. Á sólardögum skín sólin inn um kórgluggana og jafnvel blindar söfnuðinn. Það er eins og að fara inn í ljósríki að ganga að altarinu. Kórinn verður sem upphafinn ljósveröld. Kirkjan er jú forskáli himinsins. Augun leita fram og upp og hlið himins opnast.

En hvað sér maður í kórnum? Sjá þau, sem ganga upp tröppurnar og að altarinu, eitthvað annað en það sem þið sjáið í kirkjunni? Í hvert einasta sinn sem ég fer upp í kórinn og til þjónustunnar undrast ég því útsýn breytist algerlega. Sjónarhornið er allt annað í kórnum en frá bekkjunum. Sjónsvið prestsins er allt annað en sýn safnaðarins. Við altarið leita augun ekki lengur upp í himininn, til skýja, fugla eða himinljósa. Augun leita þvert á móti niður! Upp við altarið sér maður beint út um lága gluggana í bogahring kórsins og niður. Frá altarinu blasa við hús, og allt það sem tilheyrir mannlífinu. Þessa borgarsýn hefur söfnuðurinn ekki og fjöllin eru í fjarska sem sjónarrönd.

Þetta er raunar makalaus áminning fyrir öll, sem eiga erindi í kór og að altari. Þegar komið er í hið allra heilagasta breytist sjónsviðið. Fyrir augliti Guðs sér maður menn og náttúru! Þetta skipulag kirkjunnar má verða okkur öllum til íhugunar hvernig skilja má og túlka Guð, náttúruna, sköpunarverkið, mennina, jökla, dýr og þar með líka kirkju. Þegar við komum næst Guði förum við að sjá með nýjum hætti. Við lærum að sjá með augum Guðs sem er ekki upptekinn af eigin upphöfnu dýrð, heldur tengslum við veröldina og þig.

Þegar menn leita Guðs sem ákafast þá opnar Guð mönnum sýn – ekki inn í himinn og eilífð heldur beint inn í heim tímans, til mannfólks og náttúru. Þegar við sjáum Guð beinir Guð sjónum okkar að veröldinni, sem þarfnast okkar og verka okkar. Við menn erum kölluð til að elska – ekki aðeins að elska Guð – heldur fólk, jökla, lífið – líka Karlakór Reykjavíkur, messuþjónana, Björn Steinar, sem situr við orgelið, og allt fólkið sem er hér í kirkunni.

Nálægur Guð

Textar dagsins beina augum okkar upp en líka niður, að eilífð en líka í tíma. Lexían í Jesajabókinni er upphafið friðarljóð – eða friðarsálmur. Þar er lýst jafnvægi mannlífs og dýra. Þetta er stílfærð vonarveröld þar sem pardus, ljón, kýr, kálfar, nöðrur og börn eru öll vinir. Þegar við tengjum þessa markmiðssýn við raunaðstæður mengunar lífheimsins verður hún enn ágengari. Þetta er sýn Guðs fyrir veröldina. Okkar er að gera allt, sem við getum, til að tryggja heilbrigði umhverfisins. Textar dagsins minna okkur á samhengið. Guð talar við okkur í náttúru, í samfélagi og okkar er að axla ábyrgð og gegna kalli Guðs. Við eigum ekki að þjóna bara sjálfum okkur heldur lífinu.

Að trúa er ekki að fara úr þessum heimi og vakna til annars, heldur er trú tengsl og hefur siðlega vídd, að vera til taks fyrir fólk og veröld. Trú er ekki að skutlast frá jarðlífi til einhverrar geimstöðvar eilífðar. Í öllum bókum Biblíunnar er dregin upp sú mynd af nálægum Guði, að Guð er ástríðuvera sem elskar, grætur, faðmar, syrgir og gleðst. Guð kemur og skapar fólk til frelsis og yfirgefur menn aldrei. Fagnaðarerindi merkir, að lífið er góður gerningur Guðs, Guð leysir, frelsar, hjálpar. Guð elskar og við erum samverkafólk ástariðju Guðs.

Niður er leiðin upp!

Kirkjugangurinn og leiðin að altarinu er til íhugunar. Leiðin fram og upp er jafnframt niður. Leiðin til jóla og leiðin upp í himininn er alltaf í gegnum mannheim. Leið elskunnar til Guðs er vegleysa nema um raunheim mennskunnar. Trú, sem ætlar sér bara að veita mönnum gott símasamband við Guð í hæðum – en tengir fram hjá fólki í vandræðum – er guðlaus og þar með trúleysa.

Guð elskar og kallar okkur til að elska líka. Elska varðar það hugrekki að segja nei við öllu því, sem hemur og kúgar fólk. Við erum kölluð til að elska – jafnvel það, sem okkur hugnast ekki. Þegar þú gengur inn í Hallgrímskirkju horfir þú til himins og þegar þú ferð alla leið að altarinu sérðu veröldina. Að horfa upp til Guðs leiðir til að þú ferð að horfa á veröldina með augum Guðs og með elsku Guðs. Guðsnánd felur í sér mannnánd og náttúrunánd.

Aðventa

Þegar Ólafur Elíasson kom í Hallgrímskirkju fór hann upp í turn til að skoða sig um. Hann fór svo og opnaði sýninguna í Listasafni Reykjavíkur. Myndirnar sýna jöklana að ofan, frá sjónahorni Guðs. Það er trúarlegur blær á þessari myndaröð og þær hvísla til okkar rödd að ofan og handan. Það horft með elskuaugum á þessa hopandi jökla frá sjónarhóli Guðs.

Þeir Andri Snær Magnason Ólafur ræddu saman við sýningaropnunina um náttúru, list og ábyrgð manna. Ólafur sagði í samtalinu, sem er aðgengilegt á vefnum, frá heimsókn sinni í kirkjuna. Hann sagðist hafa verið að þvælast upp í kirkjuturni með Sigga presti! Hann sagði svo, að kirkja væri vettvangur fyrir lífið, opinn staður fyrir fólk til að fjalla um það sem mestu máli skiptir. Við Ólafur erum sammála um hlutverk okkar manna varðandi vernd lífs og þjónustu við umhverfi og fólk. Kristin kirkja beinir ekki sjónum okkar bara til himins heldur til manna. Leiðin upp er leiðin niður í dali manna og ríki lífs.

Af hverju heldur þú að Jesús hafi komið í þennan heim? Af því Guð horfir á heiminn og lætur sig þig varða. Að elska Guð er jafnframt að elska menn – og elska þessa veröld. Hlutverk okkar er að vera augu, hendur og faðmur Guðs í heimi. Gakktu fram til Guðs og þá sérðu heiminn.

Í Jesú nafni – Amen.

For those of you not understanding Icelandic. The biblical texts of the day are striking. The first one depicts a world of global peace. The poetic text celebrates a good and just world. The other texts contextualize the peace. It is God´s peace. God actualizes that which God aims for the world. And it is ours to work with God for the good. I did also tell about Ólafur Elíasson who is one of the outstanding visual artists of the world. He shows his works all over the world and also in Reykjavik. Last week he visited Hallgrimskirkja. At the opening of his exhibition in the Reykjavik Art museum he did tell the audience that he had been hanging around with the priest in the tower of Hallgrimskirkja. Then, with deep apreciation, he talked about the role of the Christian church to make space for people in working for the benefit of the world. That, I think, is a deep understanding of healthy Christianity. Faith is never a jump out of time and life into a heaven of eternal bliss. The road to God and with God is always through a world in time, dealing with people, tasks, responsibility, indeed all the tasks of life. The texts of Bible, the show of Ólafur Elíasson and the structure of this church direct us to face our role as responsible people in our life.

Ljósmynd með þessari íhugun  er tekin af Ólafi Elíassyni. 

Steinar Sigurðsson + minningarorð

Ég sá Helgu og Steinar þegar ég beygði upp að Hallgrímskirkju. Þau stóðu á leigubílastéttinni milli Tækniskólans og kirkjunnar. Það var greinilega gaman hjá þeim og þau hlógu. Svo opnaði Steini faðminn og tók utan um konu sína og kyssti hana af íslenskri ástúð og ítalskri áfergju – og hún tók á móti. Senan var eins og ástríðutangó með dramatískan kirkjubakgrunn. Þeim var alveg sama þótt presturinn snarhemlaði og hlypi út og hrópaði þakkir til þeirra fyrir að gleðja tilsjáendur. Þau bara héldu áfram.

Lífið er stutt – og skemmtilegt. Lífið er til að elska, vera og kyssast. Þetta var í ágúst í fyrra. Og ég hugsaði um Steinar og Helgu flesta daga síðastliðinn vetur þegar ég keyrði í vinnuna og fram hjá kossastaðnum. Síðustu dagana kom ástarsenan enn upp í huga. Eftirsjáin hríslaðist út í taugaenda.  Og allt í einu er annar bragur á veröldinni. Lífsþorstamaðurinn Steini er farinn, kemur aldrei aftur með hraði, vinnur fljótt og vel og dassar kryddi í mat eða lit og gleði í líf okkar og heimsins. Hann þorði að vera. Hann sem var svo lífríkur skilur eftir hjá okkur fyrirmynd um að kyssa og vera.

Upphaf og fjölskylda

13 09 Steinar Sigurðsson fæddist í Reykjavík 13. september árið 1958. Hann var alla tíð meðvitaður um númer fæðingardagsins. Hann fagnaði ákaflega á handboltaleikjum og öðrum íþróttaviðburðum þegar staðan var 13:9 – eins og það væri honum til sérstaks heiðurs. Ættingjarnir og vinir fengu stundum myndir af markatöflum þar sem 13:09 kom fyrir. En þó hann væri oft á klukkunni í ÍR hef ég þó engar fréttir um, að hann hafi breytt niðurstöðum í 13:9. Þó Steini væri grallari kunni hann sig.

For­eldr­ar Steinars voru hjón­in Sigurður Kristófer Árnason og Þorbjörg J. Friðriksdóttir. Pabbinn var skipstjóri. Mamman hafði líka í mörg horn að líta, sá um heimili og strákagengið og vann alla tíð utan heimilis einnig. Hún var hjúkrunarfræðingur og síðar hjúkrunarkennari. En Þorbjörg lést fyrir aldur fram, aðeins 49 ára gömul.

Steinar var annar í röð fimm bræðra. Friðrik er eldri en yngri eru Árni Þór, Þórhallur og Sigurður Páll. Fimm strákar og allir miklir af sjálfum sér. Það þarf ekki mikla veraldarvisku eða þekkingu á einhverjum þeirra bræðra til að skilja, að oft var gaman á heimilinu og talsvert gekk á. Steinar var kátur og uppátækjasamur. Bernskusögurnar af honum eru því litríkar. Þegar fataskápar heimilisins voru málaðir varð að endumála því Steinar fór inn í þá áður en þeir voru fullþurrir. Sagan segir, að skápana hafi orðið að mála níu sinnum! Svo var hveitidallur mömmunnar freistandi því það var svo gaman að hella úr honum og skoða hve víða hveitið gæti dreifst. Silfur heimilisins fór á flakk og sósulitur fór á nýmálað. Einu sinni kveiktu bræðurnir í gardínu heima og þegar byrstur slökkviliðsmaður spurði hvort strákunum þætti sniðugt að leika með eldinn urðu þeir lúpulegir og gengust við verknaðinum. En þeim þótti nú íkveikjan samt dálítið sniðug! Einu sinni sturtuðu eldri strákarnir einum yngri út af svölunum og niður í snjó fyrir neðan. Steinar fékk hugmyndir og framkvæmdi, en kom aldrei sök á aðra. Hann gekkst raunar við fleiru en hann hafði gert því hann taldi sig ábyrgan fyrir bræðrum sínum. Steinar vildi frekar alsaklaus taka við skömmum en að þeir yrðu fyrir aðkasti. Steinar var kjarkmaður og vék sér aldrei undan.

Steinar þoldi breytingar og þorði að breyta. Þegar í bernsku var ljóst, að hann var víðfeðmur og þoldi hið stóra. Hann var af sveitasendingarkynslóðinni. Einu sinni var hann á Böggvistöðum í Svarfaðardal og þá þurfti að draga hann upp úr feni þegar hann var sokkinn upp að geirvörtum. Hann var líka ungur sendur norður í Lómatjörn í Grýtubakkahreppi og var önnur ár á Grund í sama hreppi. Geðslag hans og skaphöfn passaði við Þingeyinga. Steinar var af Skagfirðingum kominn og Snæfellingum, en var líka stórþingeyskur að lífsafstöðu.

MH og arkitektúr

Foreldrar Steinars voru drengjum sínum fyrirmynd um dugnað, vinnusemi og menntun. Ekkert annað en menntun stóð til boða. Steinar fór í Menntaskólann í Hamrahlíð. Þar blómstraði gleðigjafinn og naut vinsælda. Hann spilaði á gítar, heillaðist af pönkinu, spilaði í hljómsveit og var kunnur af nafninu Steini Rotten í anda Johnny Rotten þess tíma. Það var músík í Steinari og á vinnustofunni hans heima hanga gítararnir í röð. Hamrahlíðarárin voru skemmtileg og Steinar varð stúdent frá Menntaskólanum vorið 1978.

Og hvað svo? Steinar var meðvitaður um, að umgjörð mannlífs mætti skipuleggja með ýmsum hætti og var líka drátthagur. Hann hafði verið á sjó, var útsækinn. Hann sagði löngu síðar í viðtali við erlendan fagfjölmiðil, að hann hefði viljað búa erlendis. Því hefði hann lært það, sem skolaði honum til útlanda. Hann skráði sig til náms í arkitektúr í Glasgow og var í Skotlandi veturinn 1978-79. En Thatcher eyðilagði menningardeiglu Bretlands með himinhækkun skólagjalda. Nemendur heimsins – og Steinar þeirra á meðal – höfðu ekki lengur efni á skólaveru á Bretlandseyjum. Steinar fór yfir sundið til Danmerkur og hélt áfram arkitektanámi í Kaupmannahöfn og lauk prófi frá kúnstakademíunni árið 1986. Hann fór svo vestur um haf og lauk mastersnámi í Seattle í Washington árið 1988.  Samhliða námi starfaði Steinar á arkitektastofum í Kaupmannahöfn og Seattle.

Heimsborgarinn

Alla tíð útsækinn – en á þessum árum varð Steini heimsborgari. Hann eldaði með skólafélögum sínum og lærði trixin í kokkhúsinu og á kryddin og kynntist vínum veraldar. Hann ræddi menningu, hlustaði á sögur og var fólki opinn, kátur og náinn. Íslendingurinn ógnaði engum, heldur var virtur af sjálfum sér, hæfni og gæðum og tengdist fólki víða að. Eitt sumarið ók hann bíl fyrir bílaleigu suður alla Evrópu og fór til skólabróður síns í Lígúríu á Norður Ítalíu. Og þar vann hann um sumarið og lærði ítölsku í leiðinni og að meta matargerð Ítala. Íslandsgáski rímaði ágætlega við káta, orðmarga og tilfinningaríka Ítali. Og Steinar varð Miðjarðarhafsmaður. Seinna lærði hann líka bandarískan hressileika vestur við Kyrrahaf. Og það var eins og Steini ætti vini í öllum borgum fyrir utan svo að þekkja alla bestu veitingastaðina.

Samverkafólk og verkefni

Eftir öll ævintýrin var komið að heimför. Steinar var lánssamur með samverkafólk, verkefni og vinnustaði. Hann byrjaði hjá Studio Granda og var með í ævintýrinu að teikna Ráðhúsið. Síðan var hann á Teiknistofu Manfreðs Vilhjálmssonar og stofnaði árið 1996 teiknistofuna Manfreð Vilhjálmsson – Arkitektar ehf og varð síðar meðeigandi VA Arkitekta. Á árunum 2007 -11 var Steinar arkitekt Kaupþings og stofnaði svo eigin arkitektastofu, Teikn arkitektaþjónustu, árið 2011 og rak til dauðadags. Steinar kom að hönnun fjölda aðal-og tákn-bygginga borgar og Íslendinga. Og Steinar var metinn og virtur fyrir verk sín og hlaut margar viðurkenningar fyrir og aðdáun þeirra sem hann vann fyrir.  

Helga og fólkið hans Steinars

Svo var það jólafríið þegar hann kynntist Helgu árið 1983. Steinar fór í partí og svo á ball. Helga var á Opel Kapitan árgerð 1961 og var bílstjóinn. Steinari var starsýnt á þessa konu, sem hann hafði ekki séð áður og sagði skýrt og ákveðið. „Ég fer með þér.“ Helga Siugrjónsdóttir var ekki viss um hvort það var bíllinn eða konan við stýrið sem heillaði. En svo vildi hann nánara samband en bara rúntinn á ball. Og bað hana að koma til sín til Köben. Steinar fékk hugmyndir og viðraði óhræddur við Helgu sína og hún hugsaði og sagði já – eða nei. Hún virti Steinar frá byrjun, hreifst af því, að hann var svo tilfinningaríkur og kallaði upphátt í hrifningarbríma að hann væri svo ástfanginn. Og hvað gat hún gert gagnvart sjarmörnum? Hún sagði upp vinnunni í Kópavogi og þau Sigurjón Árni, sonur Helgu, fluttu til Hafnar. Og við tók litríkur, ástríkur og viðburðaríkur hjúskapur, sem blómstraði allt til enda.

Eftir Hafnarárin fór fjölskyldan svo vestur um haf. Og Kaninn vildi enga lausung í hjúskaparmálum. Þau Steinar og Helga fóru til Íslendingaprestsins Haraldar Sigmar í Seattle, sem ræddi við þau um dýrmæti hjónabandsins en líka skuldbindingar. Þau höfðu orð klerksins að leiðarljósi síðan og gengu í hjónaband 5. desember árið 1987. Vígsluathöfnin var bæði já og fall. Helga datt aftur fyrir sig, en Steinar greip hana áður en hún féll til skaða. Helga hefur síðan stutt Steinar sinn og alla stórfjölskylduna. Helga starfar sem félagsráðgjafi og hefur unnið hjá Reykjavíkurborg. Sigurjón Árni Kristmannsson, sonur Helgu var stjúpsonur Steinars.

Dætur Steinars og Helgu eru Þorbjörg Anna, hjúkrunarfræðingur, sem fæddist í september árið 1991. Maður hennar er Hannes Ólafur Gestsson og þau eiga dótturina Unu Margréti, sem er á fyrsta ári. Og Steinar lagðist á gólfið – og þau hjón bæði – til að tala við þá stuttu á gólfinu. Steinar var tilbúinn til hins nýja hluverks afans.

Kristjana Björk, yngri dóttirin, er hagfræðingur, og fæddist í maí 1995. Maður Kristjönu er Einar Þór Ísfjörð.

Steinar var alla tíð mikill heimilismaður og ástríkur eiginmaður. Hann var natinn og ábyrgur faðir, bonus pater familiae, sinnti dætrum sínum og stjúpsyni, áhugamálum þeirra og uppeldisþörfum. Og svo gætti hann að næringu þeirra og menntun. Það var alltaf líf og fjör á heimilinu. „Vá hvað þau gerðu mikið“ sagði ástvinur um Steinar og fjölskyldu. Þau þorðu að fara í skyndiferðir og líka að gera lífsreisurnar litríkar. Einu sinni tilkynntu Helga og Steinar að þau ætluðu í sumarbústað í Sandgerði í skólafríi stelpnanna. Þeim þótti það ekki sérlega spennandi kostur. En svo fóru þau af stað og á leiðinni var hringt í pabbann. Reyndar var það Helga, sem sat við hlið hans í framsætinu sem lét símann sinn hringja í hann. Og Steinar játaði, þrátt fyrir mótmælin úr aftursætunum, að fara aðeins upp á flugvöll til að sinna smáverkefni. En þegar þangað kom var það ekki arkitektinn, sem reddaði smámáli, heldur alsæll og brosandi pabbi sem afhenti ungviðinu umslög með farseðlum og vegabréfum. Og þá uppgötvaðist að ferðin væri til New York. Menn ættu aldrei að vanmeta sumarbústaðaferðir í Sandgerði, alla vega ekki í boði Helgu og Steinars.

Og Steini fór með Sigurjóni Árna á handbolta- og fótboltaleiki í Danmörku en þau bjuggu einmitt í Danmörku þegar Danir tóku þátt í heimsmeistaramótinu í fótbolta í Mexíkó árið 1986. Og þegar þeir fóru saman á  Seattle Seahawks leiki í Seattle, þá var mikið hrópað og hvatt.

Lífheimur Steinars hverfðist um fólkið hans. Hann talaði mikið um Helgu og börnin við fólkið, sem hann hitti. Hann bjó til brýr tilfinninga og innsæis gagnvart heimi hans. Því fannst mér ég þekkja þau þegar ég loks hitti konurnar og stjúpson hans. Heimur Steinars var opinn öðrum og því er svo mikil félagsgeta og félagsauður í fólkinu hans Steina.

Lífríkur veislumaður

Steinar var veislumaður og elskaði ævintýri. Hann var e.k. karlútgáfa Babette. Og það verður að segja satt og segjast eins og er, að Steinar var ekki og hefði alls ekki getað orðið vegan. Heimili þeirra Helgu varð stórfang fjölskyldu, vina og hverfis. Heimilið var opið, Steinar fór í eldhús og miklar veislur eða naglasúpur galdraði hann fram – oft við furðu Sigurjóns Árna og dætra hans, sem ekkert höfðu séð í ísskápnum, en undrin urðu. Steinar var líka vínspekingur og hafði góða þekkingu, gott nef og líka bragðskyn. Það eru til dásamlegar myndir af ungum Steinari á ferð í Evrópu með mikið safn af flöskum og alla ævi hélt hann áfram að auka þekkingu sína á vínum. Vinirnir nýttu jafnvel facetime í Ríkinu til að fara með rekkunum og fá Steinar til að benda á það, sem best væri að kaupa. Steinar las matreiðslubækur eins og reyfara. Og Helga lærði snemma í tilhugalífinu, að ástmaður hennar lagðist í gúrmetískar rannsóknir þegar í byrjun desember til undirbúnings jólamatnum. Og það voru engin burtflogin hæsni, sem hann eldaði, heldur alvöru matur. Steinar valdi líka vel verkfærin í kokkhúsið, passaði að setja blautt undir skurðarbrettin til að hnífar yllu engum slysum. Þegar hann fór í ferðir og ætlaði að elda tók hann jafnan með sér slíkan lager af kryddi sem meðal-matvöruverslun hefði verið vel sæmd af. Steinar gerði ekki bara sósur heldur var sósufagurkeri. Á stóru matardögunum bárust taktföss skurðarhljóðin gjarnan um húsið þegar að morgni. Þá var Steini byrjaður að efna til sósu, sem nota átti að kvöldi. Maturinn hans Steina var ekki bara veisla fyrir bragðlauka eða afrek yfir pottunum heldur hafði tilgang. Hann eldaði fyrir fólk, vildi að fólk settist niður til að vera saman, eiga samfélag, njóta, deila hugmyndum, sögum, skoðunum og gæti viðrað tilfinningar og svo auðvitað hlegið. Og í þessu húsi, sem er miðjað um borð, er vert að minna á, að Steinar iðkaði guðfræði borðhaldsins. Steinar útdeildi mat við borð, valdi vín við hæfi og til blessunar. Hann gegndi hlutverki manneflingar, sem er heilagt, og útdeildi í þágu samfélags. Og svo hafði hann orð um þetta allt og glettnin skein úr augum: „Så tar man först et sölvfad … “ og svo hafði Steinar platta hjá sér í eldhúsinu í L10: „I love cooking with wine – sometimes I even put it in the food.“ Ég held nú reyndar að sósugerð Steina hafi aldrei liðið fyrir vínskort. Kannski segir það talsvert um hugðarefni hans, að þegar Steinar varð fimmtugur gáfu bræður hans honum dag í eldhúsi Friðriks V – sem hann kunni vel að meta. Alls staðar þar sem Steinar fór var hann kominn í pottana og pönnurnar. Einu sinni var honum boðið að vera með í öflugum Formúlu 1 hópi og meðlimirnir elduðu flestir. Fjörið var mikið, eldamennskan öllum hjartansmál, en í þessum alþjóðlega klúbbi meistara var nýi utangarðsmaðurinn brátt virtur snillingur. Að njóta eldamennsku Steinars var að njóta matarsnilli heimseldhússins og margar máltíðir hans voru umfram það sem margir Michelinkokkar heims myndu afreka. Hið fábrotna varð að undri, kraftaverk verða í borðhúsum.

Eigindir Steinars

Hvernig manstu Steinar? Hann var litríkur hæfileikamaður. Ég kynntist Steinari vegna tengslanna við Halla, bróður hans. Ég fylgdist með þessum geðríku hæfileikamönnum og dáðist að djúpum tengslum þeirra, umhyggju og gagnkvæmri virðingu. Samband þeirra varð mér fyrirmynd um ræktað vinasamband. Og fátítt er það, að faðir nefni son sinn í höfuð bróður. Það segir mikla sögu og Steinar yngri er farinn að elda, baka og spila á gítar.

Já hvernig manstu Steinar? Hann var uppátækjasamur unglingur og kátur menntaskólastrákur, sem þroskaðist í góðan fagmann og heimsborgara. Steinar varð meistari verkefnastjórnunar, var mjög laginn við að sætta andstæðar skoðanir og finna nýjar leiðir. Í huga Steina voru tækifæri aðalmál fremur en hindranir. Í stórfjölskyldunni sem og í arkitektavinnunni var Steinar fljótur að opna festur, finna leiðir, redda, sækja efni og klára mál. Steini var ekki bara lausnamiðaður heldur lausnasnillingur. Hann var því einstaklega vel liðinn af verkkaupendum sínum. Þeir kunnu að meta hve Steinar hlustaði vel, tók athugasemdir gildar, tók upp skissublokkina á fundum, rissaði mögulegar lausnir og gerði tillögur strax. Arkitektinn Steinar mat mikils einfaldleika og stílhreina fegurð í hönnun. Og svo vildi hann, að auðvelt væri framkvæma það, sem hann teiknaði. Og þú mátt gjarnan minnast Steina þegar þú kemur í Gullhamra á eftir eða ferð um Keflavíkurflugvöll.

Steinar var ævintýramaður. Manstu ÍR-inginn sem studdi sitt lið með krafti og einurð. Steinar átti jafnvel til, þegar dómararnir skildu ekki leikinn eða misstu tökin á dómgæslunni, að hoppa ofan af áhorfendapöllum til að ræða við þá og hjálpa þeim í vandastörfum. Hann var ekki bara pabbi sem fylgdi sínu fólki á leiki heldur heilshugar og jafnvel andlitsmálaður stuðningsmaður. Og kappsamur var hann í að afla félagi fjár og sínu fólki farareyris á leiki og viðburði. Steinar var sumpart á undan sinni samtíð sem styðjandi foreldri. ÍR-ingar vottuðu Steinari virðingu og þökk á leik síðastliðinn laugardag.

Það var gaman að vera með Steina á leikjum, ekki bara á Húsvíkurmóti í 6. flokki eða á landsleikjum í Laugardalnum heldur líka erlendis. Hann þorði að láta í sér heyra, naut þess að vera í stemmmingshópum og fagnaði hjartanlega. Hann fylgdi ekki aðeins með í handbolta eða karlaliðinu í fótbolta heldur líka kvennaliðinu. Og Steinar vílaði ekki fyrir sér að fara um langan veg til að styðja okkar fólk. Eftir EM-leikinn á Stade de France 2016 fór Steinar fram og til baka um Evrópu til að komast heim.

Manstu kraftinn í honum? Þegar hann gerði sér grein fyrir einhverjum vanda vina, ættingja eða verktaka gekk hann í málin. Einu gilti hvort vantaði timbur í pall eða málningu til að klára verk. Dugnaðurinn og hugurinn var óbilandi og kraftmikill maður getur líka gert mistök. Stundum gleymdi Steinar stopptakkann. En hann var alltaf maður til að viðurkenna takmarkanir og að eitthvað hefði mátt betur fara. Í því er viska fólgin og viska verður til. Manstu vinnusemi Steinars? Honum hentaði ekki að gaufa og bíða. Hann gekk í málin, tók líka u-beygjur ef þurfti og fór milli landa ef það væri til að efla fólk, klára verk eða bæta veislugæði vina eða ættingja.

Manstu sjávarsókn hans og hve vel honum leið á sjó? Vissir þú að hann hafði skipstjórnarréttindi á skipum undir tólf metrum?

Einn af stóru kostum Steinars var hve gjöfull forystumaður hann var. Hann setti sig aldrei á háan hest og skipaði fyrir úr hæðum. Hann var félagi, stuðningsmaður, veitull, hrósandi, jákvæður, opinskár, hlýr og eflandi. Þau, sem voru óákveðin, gátu treyst á stuðning hans. Hann hafði aldrei þörf fyrir að berja sér á brjóst, hreykja sér, heldur var jafningi. Í honum var slíkur styrkur, að hann varð gjarnan fremstur meðal jafninga. Samferðafólk hans treysti honum, virti hann og naut hans því hann tók ekkert frá öðrum. Það var gott að vera með honum í liði. Hann hafði leiðtogahæfileika af Klopp-taginu.

Steinar í Ljárskógum eilífðar

En nú eru skil. Hann fer ekki framar austur í Mosa á Síðu og dáist að fegurð jarðar. Það breiðist ekki framar ilmur um húsið frá sósugerðinni hans. Hann teiknar ekki fleiri hótel, veitingahús eða hallir. Og kemur ekki hlaupandi með krydd eða sagir. Og hann mun ekki leggjast á gólfið til að horfa í augu barnabarna sinna og sjá í þeim ævintýri framtíðar. Hann er farinn inn í blámann, Ljárskóga eilífðar. Hann signdi dætur sínar þegar hann klæddi þær í nærfötin. Við signum hann á útleið hans. Það eru okkar teikn í hans garð. Hann kyssti Helgu og sitt fólk og kyssir okkur í minngunum. Guð geymi hann, blessi fólkið hans og Guð geymi þig.

Amen.

Bálför. Erfidrykkja í Gullhömrum. Útför í Hallgrímskirkju 3. desember 2019 kl. 13. Kistulagning í kapellunni Fossvogi 2. desember.

Viðtal við Steinar Sigurðsson um arkitektúrinn:

Teikn Architects: Small firm, big architectural magic

Paradísarmissir – Paradísarheimt

Heimur Biblíunnar er dramatískur og litað er með sterku litunum um stærstu mál mannkyns og heims. Á síðari árum hefur mér þótt mengunarmál heimsins væru orðin svo dramatísk að þau væru orðin á biblíuskala. Margt sem skrifað hefur verið um þau efni hefur minnt á heimsendalýsingar Biblíunnar. Biblíutenging kom enn og aftur upp í hugann við bóklestur liðinnar viku. Ég lauk að lesa nýju bók Andra Snæs Magnasonar, Um tímann og vatnið. Það er áleitið rit um stóru málin, um náttúruna, meðferð okkar og ábyrgð á stórheimili okkar, jarðarkringlunni. Andri Snær skrifar ekki aðeins eins raunvísindamaður heldur segir persónulegar og blóðríkar sögur og opnar fyrir lífsviskuna, sem varðveitt er í trúarritum og helgidómum heimsins.

Missir og heimt

Í fyrstu bók Biblíunnar er lýst, að heimurinn var skapaður sem hamingjureitur. Heimurinn var Paradís. Síðan er harmsagan um hvernig menn spilltu heilagleika náttúrunnar og klúðruðu stöðu sinni. Og þessi lýsing er ekki náttúrufræði heldur listræn tjáning, erkiljóð, sem miðlar sársauka mannkyns yfir að hafa ekki staðið sig og skemmt það sem var gott. Sem sé paradísarmissir. Biblían tjáir, að menn hafi æ síðan leitað að paradís. Svo lýsir Biblían líka hamingjutímabilum þegar mannlíf var í jafnvægi, heilbrigði ríkti, allir höfðu í sig og á og friður ríkti.

Í langri sögu hebrea varð Jerúsalem miðja paradísar. Hún var tákn um að allt væri gott og rétt. Stórþjóðir tímanna réðust á smáþjóðina, sem hafði Jerúsalem að höfðuvígi. Saga hennar varð saga paradísarmissis eða paradísarheimtar. Sögurit Gamla testamentsins rekja paradísarleitina, spámannaritin spegla hana og í Sálmunum eru mikil ljóð sem tjá paradísarmissi en líka von. Á tímum herleiðingar og ofbeldis fæddist þráin eftir lausn. Messíasarvonir vöknuðu þegar kaghýddir hebrear þræluðu í hlekkjum. Það er á spennusvæðinu milli paradísarmissis og paradísarheimtar, sem Jesús Kristur kom í heiminn til að leysa úr fjötrum. Guðspjöllin eru um opnun paradísar, öll rit Nýja testamentisins sem og síðan öll helg saga síðan. En mennirnir eru samir við sig. Allir einstaklingar endurtaka frumklúðrið í sköpunarsögunni, allir síðan, í öllum samfélögum og þjóðum allra alda. Við erum börn, sem líðum fyrir missi paradísar en leitum að paradís.

Í Biblíunni er Jerúsalem paradís, ef ekki í raun þá sem táknveruleiki. Og um borgina er skáldlega talað og grafískt um að sjúga af huggunarbrjósti hennar og njóta nægta. Guð veitir Jerúsalem velsæld og færir henni ríkidæmi. Allir njóta, börnin líka. Jerúsalem biblíunar er nothæft tákn um náttúru í samtíð okkar.

Um tímann og vatnið

Bók Andra Snæs Magnasonar er bók um paradísarmissi, en líka um hvað við getum gert til bjargar. Hún er glæsilega skrifuð en líka óumræðilega þungbær. Ég varð að taka mér nokkurra daga hlé á lestrinum því illvirki manna gagnvart jarðarkúlunni eru opinberuð með svo lamandi hætti, að mér varð illt. Sókn okkar manna í gæði hefur skuggahliðar. Neysla, iðnvæðing, landbúnaðarbreytingar, orkunoktun og lífsháttabreytingar hafa breytt paradís jarðarkúlunnar í sjúka lífveru með ofurhita, sjúkling með dauðann í augum og æðum. Loftslagsvá ógnar lífi stórs hluta mannkyns. Risastór gróðursvæði hafa skaddast eða eyðst, vatni hefur verið og er áfram spillt um allan heim. Vegna athafna manna hafa dýrategundir dáið eða eru í hættu og lífríki riða til falls. Fíngert jafvægi hefur brenglast. Hópar og þjóðir fara á vergang, friður spillist, lífið veiklast. Paradísarmissir. Og ef við notum stóru stef Biblíunnar getum við dregið saman allt það, sem Andri Snær útlistar að Jerúsalem sé herleidd og flekkuð og deyji ef ekkert verður að gert.

Erindi kristni og mengun

Hin miklu klassísku rit Biblíunnar, trúarbragðanna og klassíkra bókmennta mannkyns draga upp stórar myndir um merkingu þess að lifa sem manneskja í samfélagi og fangi jarðar. Við kristnir menn höfum endurtúlkað allt sem varðar það líf. Guð er ekki lítill smáguð þjóðar í fjarlægu landi, heldur Guð sem skapaði þessa jarðarkúlu og alla heima geimsins, elskar lífið sem af Guði er komið, liðsinnir og hjálpar. Paradísarmissir og paradísarheimt varða sögu Guðs og er raunar saga Guðs. Nú er svo komið, að kristið fólk veit og skilur, að Jesús Kristur kom ekki aðeins til að frelsa Jóna og Gunnur, þ.e. mannkyn, heldur líka krókódíla, kríur og hvali, vatnsæðar heimsins og himinhvolfið einnig. Við menn – í græðgi okkar og skeytingarleysi – erum dugleg við að skemma lífvefnað jarðarkúlunnar. Nú þurfum við að stoppa, hugsa, dýpka skilning okkar og þora að breyta um kúrs. Við jarðarbúar, við Íslendingar líka, höfum seilst í alla ávexti aldingarðsins, höfum breytt skipulaginu og klúðrað málum svo harkalega, að við höfum tapað paradís.

Þegar Jerúsalem féll í fornöld, sem var reyndar nokkuð reglulega, komu fram spámenn til að vara við, setja í samhengi, vekja til samvisku, hvöttu til að snúa við, taka sinnaskiptum, iðrast. Alltaf var Guð með í för þegar rætt var um lífið. Bók Andra Snæs er ekki klassískt spámannsrit heldur nútímalegt, eftir-biblíulegt viskurit um, að mengun er mál okkar allra. Við erum kölluð til verka. Við höfum ekki lengur þann kost að búa um okkur innan múra afneitunar. Við getum í afneitun varið okkur sem erum komin á eldri ár en við megum ekki og eigum ekki að taka þátt í að eitra fyrir börn okkar og afkomendur. Vandinn er svo stór, að börnum okkar er ógnað. Við getum vissulega ekki bjargað heiminum ein en við getum öll gert margt smátt. Paradísarmissir er ekki eitthvað sem varðar hina – en ekki okkur. Missirinn er okkar allra. Við erum heimsborgarar og hlutverk okkar er paradísarheimt.

Framtíðin kallar. Ungt fólk um allan heim gegnir kallinu og stendur vörð um líf, heilbrigði og ábyrgð. Það eru ekki aðeins Greta Thunberg sem beitir sér, heldur milljónir ungs fólks um allan heim, líka Íslendingar. Í þessari viku verður æskuþing haldið um aðalmál íslenskra unglinga. Og miðað við viðtöl liðinna daga við unglingana munu þau ræða um hvernig megi bregaðst við mengunarmálum. Ég er djúpt snortinn af elsku og heilindum framtíðarfólksins. Í boðskap þeirra – og Andra Snæs einnig – heyri ég vonarboskap sem varðar lífið. Guð kallar til starfa að við njótum og verndum Jerúsalem náttúrunnar – verndum lífmóður okkar. Jesús býður ekki aðeins okkur að koma til sín heldur kemur til okkar og er með okkur. Guð stendur með lífinu og erindi kristninnar er paradísarheimt.

Jürgen Klopp – Allt í botn

Hvernig verður þjálfari til? Hver er saga áhugaverðasta knattspyrnuþjálfara heimsins? Ég las bókina um knattspyrnumanninn Klopp. Bókin kom fyrst út á ensku árið 2017, en svo var bætt við efni um tvö síðustu árin, þ.e. til 2019.

Höfundurinn, Rap­hael Honig­stein, flétt­ar sam­an frá­sagn­ir ým­issa aðila, sem hafa kynnst Klopp á ferlinum. Sagt er frá fjöskyldu Jürgens í Þýskalandi. Faðir hans var íþróttafrömuður og fjölskyldulífið gleðiríkt. Klopp var opinskár um upphaf sitt og vinirnir voru örlátir á skemmtilegar frásagnir af bernskubrekum, skólalífi og unglingsárum. Síðan er sagt frá hvar Klopp spilaði, hvaða stöðum hann gengdi, bæði í sókn og vörn, og löngun hans til að verða atvinnumaður og hvernig til tókst. Að lokum varð hann leikmaður knattspyrnuliðsins Mainz og var hávær og glaðvær leiðtogi leikmanna.

Klopp lauk BA námi í íþróttafræðum (skrifaði um göngur!) og aflaði sér dýrmætrar þekkingar á þjálfun, ekki síst liðsheildar- og hápressu-aðferð Franks. Þegar þjálfari Mainz fór skyndilega var Kloppo, bráðungur, kallaður til aukinnar ábyrgðar sem þjálfari. Síðan gekk allt upp á við í Mainz og Klopp stýrði liði sínu til sigurs í næst efstu deild og upp í Bundesliguna. Klopp tók síðar við liði Dormund og gerði að stórliði að nýju. Hann varð svo þjálfari Liverpool 2015 og gerði miðlungslið að Evrópumeisturum og einu besta félagsliði í heimi. Bókin segir þá sögu vel og nákvæmlega. 

Klopp: Allt í botn, hinn eini sanni Jürgen Klopp er ekki æfisaga. Hún segir ekkert um lífsskoðanir hans, hvernig trúmaðurinn Klopp þroskaðist, sem næst ekkert um fjölskyldulíf hans eftir fimm ára aldurinn og ekkert um stjórnmálaskoðanir, áhugamál, sorgir og litríkar víddir persónusögunnar. En bókin segir þeim mun meira um ýmsa kima þýskrar knattspyrnu og helstu þátta enskrar knattspyrnu síðustu árin. Þetta er nördabók, sem telur nákvæmlega upp leiki og úrslit, stöðu og átök í næstefstu deild þýsku knattspyrnunnar og síðan Bundeslígunnar. Einna mikilvægasti þáttur bókarinnar er að saga hápressuleikstíls Klopp er skýrð og hvernig hann hefur þróað þessa öflugu en vandmeðförnu aðferð knattspyrnunnar. Tengslin við knattspyrnuþróun á Ítalíu eru skýrð, þróun í Þýskalandi og hvernig Klopp hefur rutt braut nýjum áherslum í iðkun fótboltans. Eftir lesturinn skil ég betur hvernig aðferðin er hugsuð, útfærð og tilgang hennar. Um hápressustíl er bókin gjafmild.

Lyndiseinkun, tengslahæfni, örlæti, húmor og þróun knattspyrnustjórans er lýst ágætlega í bókinni. Samferðamenn Klopps og leikmenn hafa talað um hann, hvernig hann fer að, hvernig hann hefur orðið leiðtogi, sem dregur menn áfram á erfiðleikastundum, drifið áfram í baráttu og lifir sig með ástríðu í hvern leik sem spilaður er. Ástríðarn og keppnisskapið er alltaf virkt í Klopp, líka í fótbolta í fríum og með áhugamönnum. Klopp er allur þar sem hann er af lífsgleði og ástríðu. Og mér þótti merkilegt að lesa hvernig hann höndlar mótlæti og dregur sinn flokk áfram og upp úr vonbrigðapollum. 

Bókin er ljómandi yfirlitsrit um knattspyrnuferil Jürgen Klopp og um þróun þjálfarans, en varla um nokkuð annað. Bókin er einkum skrifuð fyrir þýskan markað og ég lærði því heilmikið um þýska knattspyrnu, en eiginlega ekkert um enska. Stóru spurningum mínum um lífsskoðanir Klopps, sem ég hef áhuga á, er enn ósvarað. En maður lifandi, sjarmerandi er hann Kloppo, klókur, útsjórnarsamur, heillyndur og merkilegur hugsuður á sínu sviði. Ljómandi vel þýdd bók, sem fær þrjár stjörnur af fimm.

Bókaútgáfan Krummi, 2019. Þýðing Ingunn Snædal. 

Smálúða eða rauðspretta

Á unglingaheimili er stöðugt viðfangsefni að koma fiski í ungviðið. Og þá er listin að bragðbreyta. Ég eldaði þennan flatfiskrétt í vikunni og þá sagði annar drengurinn. „Þetta er fínn matur. Höfum svona oftar. Mér finnst lax ekkert góður!“ Þessi matur er góður og reyndar góður lax líka. 

Fyrir fjóra:

800 gr. lúðu eða rauðsprettuflök

150 gr ferskir sveppir

1 gulur laukur

1 1/2 msk smjör

1 dós niðursoðnir tómatar

grænmetiskraftur

2 dl þurrt hvítvín

1 dl vatn

1 1/4 tsk salt

2 msk mjúkt smjör

2 tsk. estragon

1 1/2 msk mjúkt smjör

1 dl rjómi

2 msk fínhökkuð steinselja

Fínskera sveppina og laukinn. Látið renna af tómötunum.

Bræða smjörið í víðum, grunnum potti eða pönnu. Brúna sveppina og laukinn hægt.

Láta tómatana og grænmetiskraftinn út í ásamt víni og vatni. Sjóða undir loki í ca. 10 mín.

Breiða úr fiskflökunum á bretti og strá salti yfir. Blanda smjöri og estragoni saman og láta eina smjörlíkpu á hvert fiskflak. Rúlla þeim síðan saman eða leggja saman. Festið þau síðan saman með tannstöngli.

Blanda smjöri og rjóma í sósuna.

Leggið fiskinn síðan í sósuna og láta malla í í ca. 5. mín. undir loki, en án þess að sjóði.

Strá steinselju yfir þegar rétturinn er borinn fram.

Berið fram með hrísgrjónum eða byggi og salati.