Hvers virði ertu?

Eru sumir dýrmætari en aðrir? Er verðmiðinn mismunandi? Eru einhverjir dreggjar samfélagsins og verðminni en hin sem eru mikils metnir borgarar. Fólk er vissulega flokkað í hópa eftir stöðu, efnahag, menntun og samkvæmt ýmsum stöðlum. En getur verið að við þurfum að gera okkur grein fyrir að manngildi er allt annað en verðgildi. Þú ert svo dýrmætur og dýrmæt að gildi þitt verður ekki metið til fjár. Gildi hjá Guði eru ofar peningagildi manna.

Samtalið

Jesú var boðið í mat. Símon gestgjafi var líklega góður karl, sem vildi tala um pólitíkina og trúmálin við Jesú Krist. Þetta var opið boð, svipað hádegisfyrirlestri og allir voru velkomnir. Fólk í nágrenninu mátti koma og hlusta á það, sem gesturinn hafði að segja.

Fundarstíllinn var af því tagi, sem Sókrates var kunnur fyrir. Þetta var algengur samkomuháttur í þessum heimshluta á þessum tíma, ekki aðeins meðal grískra menntamanna heldur líka gyðinglegra. Gestgjafinn og pallborðsfólk spurði og meistarinn svaraði. Síðan var rökrætt, dæmi tilfærð eða gátur lagðar fyrir. Sögur voru sagðar og gagnspurningar flugu og það sagt sem gæti þjónað málstað eða glætt skilning.

Hið einkennilega var að Jesús brá út af öllum venjum og siðum samfélagsins. Hann leyfði mellu að koma nærri sér, sem þótti ekki bara illt afspurnar, heldur siðferðilega og samfélagslega rangt. Hann leyfði henni líka að þrífa fætur sína, smyrja og nudda. Símon hefur örugglega orðið pirraður yfir að Jesús skyldi leyfa þessari borgarskömm að þjónusta sig og varpa þar með skugga á samkvæmið. Vegna tilfinningaviðbragðanna sagði Jesús Símoni sögu um tvo skulduga menn, sem fengu skuldaniðurfellingu. Annar fékk niðurfelldar “fimm milljónir” en hinn “fimmtíu.” Hvor ætli hafi verið þakklátari? Símon kunni hlutfallsreikning og svaraði því augljósu dæminu.

Í svona sögum af Jesú er oftast dramatískur viðsnúningur. Í þessari sögu beinir Jesús athyglinni að partískandalnum, að konunni alræmdu og byrjar að tala um mál hennar og stöðu, að hún hafi verið stórskuldug við Guð en hún iðrist einlæglega. Henni sé því fyrirgefið. Því sé hún þakklát og bregðist við með svona látum og yfirfljótandi þakklæti í fótanuddinu. Jesús gengur lengra og bendir Símoni veislustjóra á, að hann hafi lítið þakkað, gert lítið fyrir boðbera himins, lítils vænst, verið algerlega innan marka hins venjulega. Hann sé því ekki auðmjúkur gagnvart gjöfum lífsins og Guðs.

Auðvitað var þetta hastarlegt og rosalegt af Jesú. Símoni var vorkun. Hann var bara venjulegur maður sem vildi gera vel, efna til settlegra viðræðna sem gætu orðið til að bæta og efla fólk. Hann vildi siðsemi og vildi forðast að alræmd kona flekkaði heimili hans og blettaði æru hans. En Jesús bar hann saman við konuna á botni samfélagsins og hún fékk betri dóm! Hvers konar réttlæti er það? Og að baki er spurningin um manngildi og mannsýn.

Að tortryggja og endurmeta

Við getum haft alls konar skoðanir á að heimili sé flekkað af liði sem kemur utan af götunni óboðið? En aðalmálið er hvort við erum tilbúin að endurmeta hið mikilvæga og verðmæta.  

Jesús þorði að spyrja erfiðra spurninga og fór stundum út fyrir hefðbundin mörk til að fá menn til að opna augu, eyru, hjörtu og líf gagnvart hinu mikilvæga. Og spámenn og skapandi hugsuðir þjóna hinu sama. Uppskurður fordóma er eitt, en hvað kemur svo í kjölfarið er annað og líka mikilvægt. Paul Ricoeur, franski heimspekingurinn, minnti á að meistarar tortryggninnar kenndu okkur að sjá fólk og málefni með nýjum hætti. Meistarar tortryggninnar eru þau, sem þora að efast um viðtekin sannindi, andmæla því, sem ekki stenst skoðun og leggja til aðrar log betri túlkunarleiðir en hinar hefðbundnu. Í trúarefnum eigum við beita tortryggni með fullri einurð. En aðgátar er þörf, hvort sem verið er að túlka goðsögur, Biblíu, trúarbragðaefni eða heimspeki, veraldarsýn og mannhugmyndir aldanna. Tortryggjum en látum ekki þar við sitja, hugsum til enda – og elskum til loka og lykta. Hið mikilvæga er ekki aðeins að velta um og grafa grunn heldur endurbyggja og endurheimta dýptarviskuna. Góð guðfræði fagnar tortryggjandi afstöðu og lífssókn spekinnar.

Fólk í plús og fólk í mínus 

Og þá aftur til hórunnar, Símonar og Jesú á tali um afstöðu og fólk. Í samtali gestgjafans og Jesú opinberar meistarinn, að Símon er á villigötum í afstöðu sinni því hann skilur ekki að jafnvel bersyndug kona er heilög. Símon var háður ákveðnum hugmyndum um hvernig tilveran ætti að vera og hvernig ekki. Kona, sem væri á kafi í sukkinu og saurlifnaðinum væri einfaldlega ekki þess verð að vera í samfélagi heiðarlegs og venjulegs fólks. Hún átti sér engrar bjargar von í þjóðfélaginu. Konan væri fyrir neðan mennskuna, ekki þess verð að vera boðið og allra síst þess verð að fá að nálgast þá félaga, trúarleiðtogana og guðsmennina. Þar kom í ljós að Símon aðhylltist mínus-mannskilning.

Jesús bendir hins vegar á að einmitt vegna þess, að konan hefði verið í hræðilegum málum og iðraðist væri hún meðtekin – henni væri fyrirgefið mikið af því hun hefði iðrast gerða sinna. Í þessari afstöðu Jesús kemur plús-mannskilningur Jesú berlega fram. Í hans huga, í afstöðu hans og ræðu kemur í ljós að manneskjan er heilög og á alltaf möguleika ef hún vill vaxa og breytast. Engu máli skipti hvað konan hafi gert ljótt af sér, hún eigi séns gagnvart Guði. Manngildið er grunnatriði og ef fólk tengir sig við líf og Guð sé mál þess endurskoðað og fólkið náðað, sem heitir réttlætt á máli Biblíunnar. Og það er þessi mannsýn í plús, sem er afgerandi. Fólk er guðdómlegt og hefur eilíft gildi. Manneskjur eru stórkostlegar, líka þau sem hafa hrapað á botninn, þau sem eru lítilsvirt, hötuð og hræðileg. Af því að fólk er heilagt á það alltaf að eiga séns og við eigum að skipa málum svo það geti fengið að rísa upp og ná að gera sín mál upp.

Þegar við förum að skoða með augum trúarinnar, með augum Jesú breytist sýn. Við megum gjarnan vera tortryggin um samfélag og tískur þess en við verðum framar öllu að halda í markmið og leiðir ástar Guðs. Öll, sem þú mætir, eru guðlegar verur, sem tala til þín og biðla til hins guðlega í þér, handan við fordóma og grillur. Allar mannverur eru ásjóna Guðs í þessum heimi. Manneskjan er heilög og við þurfum alltaf að æfa okkur í þessu partíi, sem mannlífið er, að sjá Guð birtast á óvæntan hátt.

Guð sér þig og elskar. Hvernig horfir þú á fólk – er það með mínus eða í plús? Eigum við að setja verðmiða á fólk eða sjá strikamerki Guðs í sál allra manna?

Amen.

Textaröð:  B

Lexía:  Slm 32.1-7 (-11)

Davíðsmaskíl. Sæll er sá er afbrotin eru fyrirgefin, synd hans hulin. Sæll er sá maður sem Drottinn tilreiknar ekki misgjörð og ekki geymir svik í anda. Meðan ég þagði tærðust bein mín, allan daginn stundi ég því að dag og nótt lá hönd þín þungt á mér, lífsþróttur minn þvarr sem í sumarbreyskju. (Sela) Þá játaði ég synd mína fyrir þér og duldi ekki sekt mína en sagði: „Ég vil játa afbrot mín fyrir Drottni.“ Og þú afmáðir syndasekt mína. (Sela) Biðji þig þess vegna sérhver trúaður meðan þig er að finna. Þótt vatnsflóðið komi nær það honum eigi. Þú ert skjól mitt, verndar mig í þrengingum, bjargar mér, umlykur mig fögnuði.

(Ég vil fræða þig, vísa þér veginn sem þú átt að ganga,
ég vil gefa þér ráð, vaka yfir þér. Verið eigi sem skynlausar skepnur, hestar og múldýr; með beisli og taumi þarf að temja þær, annars koma þær ekki til þín. Miklar eru þjáningar óguðlegs manns en þann sem treystir Drottni umlykur hann elsku. Gleðjist yfir Drottni og fagnið, þér réttlátir, allir hjartahreinir menn hrópi af gleði.)

Pistill:  1Jóh 1.5-10

Og þetta er boðskapurinn sem við höfum heyrt af honum og boðum ykkur: „Guð er ljós og myrkur er alls ekki í honum.“ Ef við segjum: „Við höfum samfélag við hann,“ og göngum þó í myrkrinu, þá ljúgum við og iðkum ekki sannleikann. En ef við göngum í ljósinu, eins og hann sjálfur er í ljósinu, þá höfum við samfélag hvert við annað og blóð Jesú, sonar hans, hreinsar okkur af allri synd. Ef við segjum: „Við höfum ekki synd,“ þá blekkjum við sjálf okkur og sannleikurinn er ekki í okkur. Ef við játum syndir okkar, þá er hann trúr og réttlátur svo að hann fyrirgefur okkur syndirnar og hreinsar okkur af öllu ranglæti. Ef við segjum: „Við höfum ekki syndgað,“ þá gerum við hann að lygara og orð hans er ekki í okkur.

Guðspjall:  Lúk 7.36-50

Farísei nokkur bauð Jesú til máltíðar og hann fór inn í hús faríseans og settist til borðs. En kona ein í bænum, sem var bersyndug, varð þess vís að hann sat að borði í húsi faríseans. Kom hún þá með alabastursbuðk með smyrslum, nam staðar að baki Jesú til fóta hans grátandi, tók að væta fætur hans með tárum sínum, þerraði þá með höfuðhári sínu, kyssti þá og smurði með smyrslunum. Þegar faríseinn, sem hafði boðið honum, sá þetta sagði hann með sjálfum sér: „Væri þetta spámaður mundi hann vita hver og hvílík sú kona er sem snertir hann, að hún er bersyndug.“
Jesús sagði þá við hann: „Símon, ég hef nokkuð að segja þér.“
Hann svaraði: „Seg þú það, meistari.“ „Tveir menn voru skuldugir lánveitanda nokkrum. Annar skuldaði honum fimm hundruð denara en hinn fimmtíu. Nú gátu þeir ekkert borgað og þá gaf hann báðum upp skuldina. Hvor þeirra skyldi nú elska hann meira?“ Símon svaraði: „Sá hygg ég sem hann gaf meira upp.“ Jesús sagði við hann: „Þú ályktaðir rétt.“ Síðan sneri hann sér að konunni og sagði við Símon: „Sér þú konu þessa? Ég kom í hús þitt og þú gafst mér ekki vatn á fætur mína en hún vætti fætur mína tárum sínum og þerraði með hári sínu. Ekki gafst þú mér koss en hún hefur ekki látið af að kyssa fætur mína allt frá því ég kom. Ekki smurðir þú höfuð mitt olíu en hún hefur smurt fætur mína með smyrslum. Þess vegna segi ég þér: Hinar mörgu syndir hennar eru fyrirgefnar enda elskar hún mikið en sá elskar lítið sem lítið er fyrirgefið.“ Síðan sagði hann við hana: „Syndir þínar eru fyrirgefnar.“ Þá tóku þeir sem til borðs voru með honum að segja með sjálfum sér: „Hver er sá er fyrirgefur syndir?“
En Jesús sagði við konuna: „Trú þín hefur frelsað þig, far þú í friði.“

Þú ert frábær

Ég stóð við Lynghagann og fagnaði hlaupafólkinu í Reykjavíkurmaraþoninu. Rúmlega fjórtán þúsund manns hlupu mislangar vegalengdir. Stemmingin var stórkostleg. Bros voru á flestum andlitum, gleðin hríslaðist um hlauparahópinn. Hvatningarköll hljómuðu frá þeim sem stóðu á gangstéttum og hlátrar ómuðu. Tónlistarfólk spilaði og kröftug, taktþung músík hljómaði úr hátölurum. Krafturinn var mikill. Gaman alla leið, áfram.

Ég hef farið niður á Lynghaga í mörg ár til að hvetja ættingja mína og vini. Það er gaman að vera með í þessum samheldna gleðihópi. Og svo var sérstaklega gaman í gær því drengirnir mínir – ellefu ára – hlupu 10 kílómetra í fyrsta sinn. Við foreldrarnir fögnuðum þegar þeir komu hlaupandi, léttstígir. Svo hjóluðum við vestur á Grandaveg til að hvetja þá áfram þar og furðuðum okkur á hve fjaðurmagnaðir þeir voru eftir átta kílómetra. Svo urðum við hjóla hratt til að komast á undan þeim í Lækjargötuna. Þetta var dásamlegt að taka þátt í þessari miklu hlaupagleði. Reykjavíkurmaraþon er uppskeruhátíð æfinga sem hafa staðið vikur, mánuði og jafnvel mörg ár. Mörg sem voru hlaupa tóku ákvörðun í vetur að vinna að hlaupinu. Árangur í lífinu sprettur ekki af sjálfu sér heldur er ávöxtur vilja og vinnu. Hamingjan í lífinu er líka árangur ástundunar.

Þegar við hjóluðum í átt að Grandanum sá ég stórt skilti. Við það var hvetjandi hópur sem aldeilis lagði sitt til. „Áfram, áfram“ kölluðu þau. Þetta var áheitahópur og það sem stóð á skiltinu þeirra var fallegt: Þú ert frábær. Þegar ég hjólaði svo í gegnum gamla vesturbæinn hugsaði ég um hve góð skilaboð þetta eru: Þú ert frábær. Þetta voru auðvitað skilaboð til allra þeirra sem hlupu, þau væru dýrmæt, frábær. En þetta er líka boðskapur af himnum til okkar manna. Við erum frábær, dýrmæt og öll einstök.

Áheitin

Og allir vita sem hafa kynnt sér Reykjavíkurmaraþonið að mörg hlaupa í áheitaskyni – til að láta gott af sér leiða. Þúsundir hlaupa til að styðja Ljósið, Píeta, Hjálparstarf kirkjunnar, Krabbameinsfélagið eða önnur mannræktarmálefni. Svo er safnað fyrir fólki sem hefur veikst eða slasast. Mörg voru að safna fyrir unga konu sem lenti í alvarlegu hjólaslysi á dögunum og lamaðist. Stuðingurinn er á grundvelli þess að allir eru mikilvægir og við megum og þurfum að standa saman.

Þú ert frábær. Það eru mikilvæg skilaboð sem allir þurfa að heyra margoft í lífinu, þarfnast þess að finna fyrir þeim jákvæðnisanda í uppeldi og fjölskyldulífi. Enginn kemst til manns nema hafa notið þess að einhverjum þyki hann eða hún frábær. Og þau sem hafa ekki mikinn stuðning heima fá stundum að heyra þetta mikilvæga hjá kennaranum í skólanum, í kirkjunni eða vinunum sem kunna að hrósa. Þú ert frábær.

Við þurfum hvatningu, jákvæða nálgun, hrós. En við höfum ekki gagn af því að fá aldrei gagnrýni eða jákvæða greiningu á veikleikum. Einfeldningslegt „þú ert æðisleg eða sjúklega flottur“ er ekki það sem skapar hamingjusamt fólk heldur fremur sjálfhverft og vanrækt fólk. Við þörfnumst þess að heyra og finna að við séum metin og svo mikið elskuð að við erum alin upp með aga, vinnu, hlýrri gagnrýni, kennt að reyna á okkur, þekkja mörkin, hvenær við særum aðra og hvernig við getum verið sjálfstæð en samt ábyrg gagnvart öðru fólki. Í textum dagsins eru tjáðar skuggahliðar mannlífs og við þurfum að temja okkur raunsæji Ritningarinnar. Þar sem er ljós verða skuggar. Enginn er fullkominn þó köllun okkar sé að nýta alla okkar hæfni og gáfur til góðs og hamingju. Stefnumark manna verður ekki til af engu heldur við þjálfun og ræktun hið innra og ytra.

Ekki ástandsskoðun heldur ást

Þú ert frábær. Svo var það sálmafossinn í kirkjunni í gær. Á þriðja tímanum var fjöldi kominn í kirkjuna til að njóta söngs nýrra sálma, hrífandi tónlistar, dásemda Klaisorgelsins og almenns sálmasöngs. Sex kórar sungu, á annað hundrað manns veitti okkur af sönggleði sinni. Fjöldi tónlistarmanna lék á hljóðfæri sín, sex nýir sálmar, lög og ljóð, voru frumfluttir. Þúsundir komu í kirkjuna til að njóta, syngja og úr varð fyssandi dásemd tilbeiðslu og lífs.

Þú ert frábær. Það voru skilaboðin sem ég kom með úr Reyjavíkurmaraþoni inn í sálmafossinn. Hinn mikli boðskapur sem ég greindi í textum, hljómum, undrum tónlistarinnar var hinn djúpi boðskapur Jesú Krists: Þú ert frábær. Guð kristninnar er ekki smáguð heldur Guð hins stærsta og mesta. Allt sem Guð gerir er af því að sá Guð er jákvæð elska, sem kallar fram efni af hreinni ást, kallar fram greinar lífsins í gleði skapandi iðju. Og þegar áföllin dynja yfir, reiðhjólaslys, óðir menn keyra í morðæði inn í hópa saklauss fólks eða stinga hnífum sínum í grandalausa vegfarendur er Guð ekki áhorfandi. Guð er þar. Guð kom, kemur og mun koma. Guð birtist í setningu á Grandavegi: Þú ert frábær. Og Guð kom og kemur í Jesú Kristi og öllum þeim sem gera gott. Sá Guð sem ég trúi á og þekki var í miðju hópsins á hlaupum í dag. Sá Guð á sér samverkafólk í lífinu sem safnar fé til góðs og tjáir að það er frábært. Og sá Guð talar til okkar allra í helgum textum og sálmum lífsins: Þú ert frábær og ég vil að þú fáir að njóta hamingju.

En sá Guð segir líka: Það er margt í þessari veröld sem er hræðilegt og spillir lífi, geði, freistar og afvegaleiðir. Eins frábærir og mennirnir eru læðist sýkin, syndin, tortýmingin líka meðal okkar og smeygir sér inn í okkur. Og því er vei líka tjáð í öllum heilbrigðum átrúnaði. Við erum ekki frábær af okkur sjálfum heldur af því Guð hefur skapað okkur sem frábær og vill styrkja okkur að vera slík. Við erum ekki frábær af því að það sé niðurstaðan á ástandsskoðun á okkur. Við erum frábær af því Guð metur okkur mikils þrátt fyrir vitleysur okkar og klúður. Okkur tekst að óhreinka okkur og gera margt sem miður fer. Við erum kölluð til að vera frábær og erum það þegar við lifum í raunsæi um okkur sjálf, veröldina, mannfólkið, lífið og Guð.

Þú ert frábær. Það er yfirlýsingin sem Guð gaf þér í fæðingargjöf. Við erum öll svo elskuð að þegar við hlaupum lífshlaup okkar er Guð nærri, hleypur við hlið okkar, hvetur okkur áfram, já og ber áfram þegar við dettum. Það er söngur lífsins. Viltu vera frábær?

Hugvekja í Hallgrímskirkju, 20. ágúst, 2017, sunnudag eftir menningarnótt. 10. sunnudag eftir þrenningarhátíð. B.

Mennskan og bernskan

Eitt af bestu og litríkustu ævintýrum lífsins er að fylgjast með þroskaferli barna. Það er ekki aðeins skemmtilegt að vera með þeim heldur getum við lært margt af þeim því þau eru fundvís á aðalatriðin. Og börnin nærast af samskiptum, þau þrá samtöl og nánd og gefa mikið af sér. Það staðfesta væntanlega foreldrar og ástvinir fermingarungmennanna sem sögðu já áðan. Og flest hér í kirkjunni í dag hafa einhvern tíma hlegið með börnum og furðað sig á skerpu þeirra.

Spurningar og niðurstöður barna hafa löngum orðið mér íhugnarefni. Texti dagsins minnti mig á samtöl við drengina mína fyrir nokkrum árum. Þó ungir séu hafa þeir lengi fylgst með íþróttum og ofurhetjum íþróttanna. Fyrir nokkrum árum hófu þeir nákvæmar rannsóknir á öllum helstu hetjum knattspyrnuheimsins. Þegar þeir voru búnir að skoða boltatækni og youtube-klippurnar af Messi og Ronaldo vildu þeir ræða um hvernig þeir væru og hvað væri innan í þeim líka. Þeir spurðu mikilla spurninga: „Pabbi, er Messi góður maður?“ „Er Ronaldo góður maður?“ Og þar sem pabbinn var og er bæði hrifinn af fóbolta og stóru lífsspurningunum urðu umræðurnar fjörlegar. Við ræddum um hvað það væri að vera góður maður og um félagsþroska, hjúskaparstöðu og barnamál fótboltakarlanna. Hafa þeir bara töfra í tánum eða hafa þeir líka orðið góðir í samskiptum við annað fólk og sjálfa sig. Kunna þeir að nýta fjármuni fyrir fleira en spilakassa og dót? Í samtölunum kom fram að mínir drengir voru að máta sig, reyna að móta sér skoðanir um hvað væri eftirsóknarvert. Fyrirmyndin var metin til að móta eigið sjálf og markmið.

Hlutverk allra manna er að þroskast og verða að manni. Og siðfræðin er ekki aðeins fag nörda í heimspekideild og guðfræðideildum háskólanna heldur kemur við sögu snemma í bernsku flestra. Góður maður? hvað er það og til hvers? Er þetta mál og spurning sem varðar þig og þitt líf? Hefur þú þörf fyrir að íhuga stöðu þína og hvað þú ert og hvað þig langar til?

Lið Jesú
Lærisveinar voru fyrirmyndir frumkirkjunnar. Rit Nýja testamentisins veita innsýn í veröld þeirra. Á öllum öldum hafa síðan komið fram einstaklingar, konur og karlar, sem hafa þótt skara framúr í rækt og iðju trúarinnar. Þessir einstaklingar hafa verið fyrirmyndir. Um þau hafa verið sagðar sögur til að veita öðrum hugmynd um hvernig eigi og megi lifa og til að vel sé lifað. En dýrlingamyndir helgisóknar fyrri alda hafa misst samhengi. Og ef ofurhratt er farið í menningarsögu vesturlanda á tuttugustu öld þá féllu “heilagir sérvitringar“ úr tísku en aðrir tóku við. 

Á öllum tímum verða einhverjir í úrvali athyglinnar. Hetjurnar þjóna einhverju hlutverki, ef ekki siðferðilegu, þá þjóðernislegu eða peningalegu. Þegar ég var barn voru leikaramyndir algengar og við krakkarnir skiptumst á myndum af Brigitte Bardot, Roy Rodgers og Sophiu Loren rétt eins og síðar var skipst á myndum af knattspyrnugoðum. Dýrlingarmyndir miðalda fengu framhald í leikaramyndum og myndum af popgoðum. Íkónar samtímans eru fótboltakappar og aðrar ofurhetjur. Þegar íkónar himins hverfa verða til nýir himnar en þó innan þessa heims.

Í leit að mennsku

Börn leita þroska og við erum svo innréttuð að við leitum að merkingu og meiningu með lífinu. Allir krakkar og á öllum aldri þurfa eitthvað meira en ofurþjálfaða fótboltafætur. Allir leita hamingju og lífsfyllingar. Og hjörtun eru söm hvort sem er í Súdan eða Grímsnesinu – hjörtu okkar eru óró þar til þau hafa fundið hina dýpstu sælu sem seður sál og líf. Það er alveg sama hvað menn puða við að blekkja sig með ytri nautnum, ytri velsæld, völdum, sjálfsdýrkun og hossun eigin gildis. Allir leita merkingar og tilgangs í lífinu. Og fermingarungmennin sem sögðu já í dag vinna að hamingju sinni. Og við erum öll í sömu sporum og þau – alla daga.

Guðspjallið
Inntak guðspjalls dagsins varðar það mikla mál að vera manneskja. Jesús sagði snilldarsögur til að skerpa vitund fólks um hlutverk í lífinu. Og sagan er um að einn er skipaður fyrirliði og fær stjórnunarhlutverk. Og svo þegar viðkomandi eru orðinn stjóri þá vakna siðferðisspurningar og ýmsir möguleikar gefast til að misnota aðstöðu sína og stöðu. Hvernig er innrætið? Misnotar ekki fólk yfirleitt stöðu sína og vald? Alla vega þau, sem aldrei hafa fengið önnur skilaboð en þau, að markmið lífsins sé að afla sér mestra peninga, sinna hvötum þegar færi gefst og reyna að koma sér sem best fyrir án þess að vera gómaður. 

Jesús Kristur var mannþekkjari og sagði stundum sögur um sjálfhverfvert fólk. En Jesús þráði að við yrðum öll þroskaðir einstaklingar sem værum  ekki bara upptekin af sjálfum okkur heldur því að efla lífið í kringum okkur.  

Gildi einstaklinga er ekki einskorðað við innangildi heldur tengslagildi. Manneskjan er dásamleg sem einstaklingur en verður þó ekki til nema í tengslum. Þau tensl varða jafnvægistengsl hins andlega og líkamlega, einstaklings og hóps, manneskjulífs og lífs í náttúrunni. Og enginn verður alheill – skv. túlkun kristninnar – nema í heilum tengslum við lífgjafann sjálfan, Guð. Þetta er inntak lífslistarinnar. Guð elskar og við klúðrum öllu nema við lifum í því ljósi. Við græðum ekkert með því að hugsa aðeins um eigin hag heldur sjá okkur í heild, gegna stöðu okkar með stæl og njóta þess að þjóna. Og endanlega erum við tengd lífinu, gegnum ábyrgð og eigum ekki að drottna heldur vera í tengslum. Það er skikkanin og þannig fer best. Allt hitt eru misnotkun, ofbeldi, vonska. 

Aðalmálið er að vera góð manneskja. Það eru ekki aðeins litlir drengir sem spyrja stóru spurninganna. Hvað viltu? Hlutverk þitt er að hætta að lifa í sjálfhverfu núi, læra að njóta hins mikilvæga og axla ábyrgð og iðka lífsholla og lífseflandi ráðsmennsku. Í allri lífsreynslu og átökum hljóma spurningar sem þú mátt heyra og taka mark á: Ertu góð kona? Ertu góður karl? Þetta er sú spurning sem bæði fermingarungmenni og við hin líka þurfum að svara með einhverju móti alla daga ævi okkar. Og Guð heyrir og gleðst þegar við segjum já og tjáum fegurð í lífi okkar í tengslum.

Amen.  

We live in peace

Some years ago a muslim was brutally killed in Glasgow, Scotland. His name was Ashad Shag. According to the police he was an Ahmadyian-muslim. It was also revealed that he was murdered because of his religion. As an Ahmadyian muslim his belief were not in line with the “orthodoxy” of some other muslim communities in Glasgow. This man was murdered not for something he did but rather for what he believed. The police arrested muslims of other traditions of interpretation and the case was processed as a murder.

How to react to evil?

In this awful series of events there was one and a most beautiful dimension. Faith-communities in Glasgow decided to fight against fanaticism, narrow-minded religious approaches and use of violence in settling differing opinions and views. Representatives from the big faith communites decided to attend the meeting. And they talked and shared their prayers and emotions – just as we do this evening. Representatives of all the major faith communities announced that they would participate in a gathering of faith-representatives and by that to show solidarity to the family and community of the victim and also make clear that violence is not the means for peace nor method of religion or religious people.

But in the last minutes prior to the event representatives for two important muslim communities sent their apologies. They did not come and they were not represented by others in the event. The sheer lack of representation added to the awfulness of the slaying. The communities of the killer did not stick to peace but rather to a stand-by over against violence. The murder was horrible and the aftermath even more so. But majority of the religious communities in Glasgow were responsible, their voices against violence were clear. The Church of Scotland was represented and other Christian churches as well.

Does this tragedy in Glasgow concern us? How is the situation in Iceland? Are some people in Iceland willing to kill people of other faith? No Christian has the right to kill people of other faith for religious beliefs. If they would they would be departing from the Christian path. Are any muslims in Iceland willing to kill an Ahmadyian muslim? Killing a person is not only an offence to our society, it is illegal, it is immoral and it is – in our Icelandic views – an offence to religion, dignity of all humans and our type of society. We do not kill people because of their religious views nor do we kill or act violently over against people who think differently or practice other types of religion.

Love

I was asked to talk about Christianity and peace. It should be stated and spelled out as clearly as possible: Christianity is a religion of love. The Christian God is essentially love. According to Jesus’ message: Love is that which charachterizes how humans understand the internal life of the Godhead. That which is the style or bond within God is caring love. That love also embraces that which is the world. This embracing love is what we Christians believe to be the reason for God’s coming into the world in Jesus Christ and empowering all people to that which is good and life-giving. This is no simple-minded dream of children but a stubborn approach and style of life of those who have faith in God of love. And how does this apply to faith relations: According to Christianity an Ahmadyian muslim is also a as much a child of God as all other humans in the world. To meet a Sunni muslim is to meet a sister or brother of Jesus Christ. To meet a member of the Asatrú-community is to meet a member of God´s humanity. So the basic approach is a positive one. But a strain of this type of approach is a realistic awareness that no-one is perfect and we need to work on our creeds, faith-systems, interpretations and morals in order to nurture togetherness and healthy relationships. It is never acceptable that a person kills others or retreats to violence over against other thinking people.

Always striving for peace is a highly practical matter for us here in Iceland. We have a job to do together. We have – as representatives of faith communities – a duty to make sure that violence is never just, right or moral. The members of our communities have to be aware of that and also in practical agreement with that too. Fanaticism of any sort, social, ideological or religious should not be tolerated and we should stick together on working on that. The task of the religious communities in Iceland is to be non-violent communities, proponents of just peace and practicing moral communities.

Respecting and accepting the other

Are we willing to work on just peace, work on eradicating hate speech from our communities, degrading other beliefs and creeds? Are we willing to work on changes in ourselves and our groups to mature for something new and important? Are we willing to change views if good arguments are stressed against old views and practices? I think our task for working for local peace and sharing is of basic importance, not only for stabilizing society but because this is the way of being humans, accepting differences and never retreat to violence of any sort.

In the world of football – EUFA – there is a program on respect – a program of accepting the full human dignity of the other. In religion there should be a similar love-program – a nurturing and educating program of respecting and accepting the other. For fully respecting the other we need to know each other, discuss the limits of belief, creeds and social rules and reactions. We need to know the traditions and culture of the others. I call all of us to work on love-programs that will make clear to all faith-communities and all people in Iceland that murdering, violence and fanaticism is the opposite of all true faith – the absolute enemy of God and religious people.

Working on peace – just peace – is a task for all Christians – and truly for people of faith. God bless you and keep you in peace.

Address of Sigurdur Arni Thordarson in a meeting of religions. April 2016. Hotel Plaza, Reykjavík. 

http://www.theguardian.com/uk-news/2016/apr/18/scottish-muslim-groups-ahmadi-anti-extremism-campaign-launch-glasgow?utm_source=esp&utm_medium=Email&utm_campaign=GU+Today+main+NEW+H&utm_term=167804&subid=9798877&CMP=EMCNEWEML6619I2

Grafinn lax með sítrónumajónes og steiktu brauði

Elín Sigrún Jónsdóttir sér á færi uppskriftir sem henni hugnast. Oft kemur hún með þær áhugaverðu til mín og segir með bliki í augum: „Ég gæti hugsað mér þessa.“ Og svo blikkar hún kokkhúskarlinn.

Þannig kom þessi uppskrift til mín. Hún er upprunalega frá því góða veitingahúsi Rok á Skólavörðuholti og var birt í Morgunblaðinu. Ég útbjó þetta ágæti fyrir afmæli konu minnar. Vinkonurnar sögðu nokkrum sinnum: „Get ég fengið uppskriftina?“ Þá kætist kokkurinn.

Grafinn lax

F4

1 laxaflak, beinhreinsað og roðflett

100 gr. sykur

100 gr gróft salt (ekki Maldon)

2 msk þurrkað dill

1 stk appelsína

1 stk límóna

1 stk sítróna

geitostur

Ecospíra

ferskt dill 

kapers

Sykri, salti og dilli blandað saman í botn á eldföstu móti. Laxinn settur yfir og afganginum af blöndunni yfir laxinn og látinn þekja fiskinn. Plasta fatið og láta standa í kæli í sólarhring. Flakið skolað vel úr köldu vatni og þerrað síðan. Börkur af appelsínu, sítrónu og límónu (helst lífrænum) rifinn niður með rifjárni og flakið þakið með. Standa í klukkustund. Laxinn síðann skorinn sneiðar og síðan borinn fram. 

Gott viðbit og skraut er sítrónumajones, brauð, geitostur, Ecospíra, ferskt dill, kapers og fínlega skornar súrsaðar agúrkur.

Sítrónumajónes

2 stk eggjarauða

1 tsk dijonsinnep

3-400 ml grænmetisolía (Wesson í þetta sinn)

börkur af einni sítrónu og safi úr helmingi hennar

½ tsk salt

Trixið er að byrja að þeyta eggjarauðurnar. Ég þeyti reyndar stundum sinnepið (sem var þetta með hunanginu) með rauðunum. Þegar þeytingurinn er orðinn þéttur helli ég grænmetisolíunni í mjórri bunu út í til að þeytingurin ekki skiljist. Í lokin set ég börk og smakka til með safa og salti. Sjá, majonesið hvarf eins og dögg fyrir sólu í samkvæminu.

Mörgum reynist erfitt að búa til majonesið og þá má auðvitað fara styttri leiðina, nota tilbúið majones frá Gunnari eða Heinz og bæta út því það sítrónuleginum, berki, salti og jafnvel einhverju kryddi. Svo er hægt að bragðbæta með ofurlitlu hunangi. 

Steikt brauð

Ég nota gróft súrdeigsbrauð. Það hentar vel í steikingu. Brauðið skorð í liðlega eins cm-þykkar sneiðar. Steikti þær svo á pönnu – báðar hliðar – með góðri ólífuolíu. Setti svo á pappír til að leyfa olíunni að setjast og muldi pipar yfir. Skar svo sneiðarnar í helminga til að þær hentuðu fíngerðu hráefninu.

Ecospírur eru undursamlegar sem krydd- og skrautgjafi.

Réttur frá Rok – í eigin útfærslu – sem hentar veislufólki.

Guð laun.