Efndir – mögnuð þroskasaga

Í skáldsögunni Efndir eftir Þórhildi Ólafsdóttur kemur Elísabet til baka úr lífsreisum sínum um skóla og menningarstofnanir Íslands og fjarlægðanna. Hún vitjar heimahaga, kemur heim í mannlausan og yfirgefinn bæ á norðlensku nesi, sem gæti verið Vatnsnes. Elísabet segir fjölskyldu og vinum að hún ætli að vera einhvern tíma á ættaróðalinu til að jafna sig á áföllum og kannski eiginlega lífinu. Svo fara svipir fortíðar að mæta henni, formæður og forfeður. Elísabet segir sögu þeirra af listfengi og elsku og andar fara á kreik. Söguhetjan vitjar sjálfrar sín, leitar að bernskugötum og tilfinningum liðinna daga þegar hún var að alast upp í stórfjölskyldu á hjara veraldar. Við fylgjumst með Elísabetu fara í nám, ferðast um heiminn, eignast erlendan mann, eignast dóttur sem varð ekkja og vinna og lifa. Svo kemur hún til baka úr lífsferðinni þegar skil eru orðin og vinnulífinu er lokið. Hvað er að koma heim? Hvað er heima og hvenær? Getur maður einhvern tíma fundið sjálfan sig, barnið í sér og veru sjálfs sín? Fann Elísabet sjálfa sig eða þarf maður bara að sætta sig við skuggamyndir dýpri sannleika eða veruleika?

Efndir er afar vel skrifuð bók. Textinn túlkar og umvefur vel. Framvinda bókarinnar er sem djúpt og breitt fljót fremur en léttskoppandi lækur af hæðum og niður hlíðar tímaleysisins. Þetta er bók um lífsbaráttu, hve lífið er stutt, hve fljótt fennir í sporin, um flæði lífsins, verpingu tímans, hve liðnar kynslóðir eru fljótar að gleymast þótt grafirnar þeirra séu merktar og aðgengilegar í kirkjugörðunum. Þetta er bók mikilla tilfinninga, djúpköfunar og eftirsjár. Framtíðin er sem næst lokuð. Það er engin opinberunarkafli helgiritasafns í lokin heldur fremur æðruleysi endisins. Stefjavinnsla er dásamleg og öguð. Táknin eru nostursamlega valin, uppteiknuð og túlkuð.

Dómar um málfar og málbreytingar íslenskunnar eru hnyttnir og stundum fyndnir. Náttúrulýsingar hinnar heimkomnu heimskonu eru laðandi. Lýsingarnar tjá í bókinni vaxandi náttúrunánd, sem er tákn þess að færast nær sjálfum sér en áður var. Mér þótti áhugavert að beygur og óttaefni lífsins voru fremur tengd hinu yfirskilvitlega og dulræna en náttúrunni. Náttúran í öllum sínum myndum er vettvangur til að lifa í og með og auðvitað virða til að komast af.

Sálgreiningartímar er sérmál. Frásagnir af þeim læða að grun um að hjá sálgreininum hafi verið meira létt á en að sálarflækjur hafi verið greiddar eins og net voru greidd við Miðfjörð í bernsku höfundar. Tæknileg samtöl verða aldrei til að færa fólki líf en góðir spyrjendur geta auðvitað hjálpað til. Sálgreiningar bókarinnar tjá firringu fólks inn á við, í samskiptum og úrvinnslu lífsbaráttu. Þróun tilfinningatúlkunar kemur vel fram og því er bókin merkileg sem þroskasaga einstaklings.

Mikið er af alls konar merkilegu þjóðfræðiefni í þessari bók, hvernig fólk lifði, hver voru störf þess, tengsl kynja og hlutverk og samskipti. Mat og matarafstöðu er lýst og hvernig var að læra að lesa með bandprjónaðferð. Stiklað er á hugmyndum um karlmennsku og hvernig konur verða fyrir eða bregðast við í sögu og samtíð. Einelti í sláturhúsi á sjöunda áratugnum er nístandi vel lýst. Bókmenntir og ýmsir höfundar koma við sögu. Innsýn er veitt í mun á hugmyndum fólks til lífsgæða, annars vegar frá Austur-Evrópu og hins vegar Íslandi kalda-stríðstímans. Hugmyndir fólks eru menningarskilyrtar og því ekki auðvelt að breyta hömruðum skoðunum. Í ljós kemur að velviljaði franski strákurinn sem vill fá innsýn í landbúnaðarmenningu var ófær um að skilja og tengja. Fólk er fullt af fordómum sem lita og því skilur það ekki aðra eða framandi menningu. Tónlistarnotkun og innlifun var merkileg í bóikinni. Bach-notkunin breyttist. Svo var Lúther túlkaður eins og hann væri Calvin en áherslum siðbótarmannanna hefur jú oft verið víxlað.

Mikið er fjallað um sorg og missi. Bókin hverfist um þann möndul. Sorgin heggur stykki úr fólki segir á einum stað og bókin fjallar um ýmsa kosti sorgarinnar. Atferli og viðbrögð Elísabetar varða áföll og úrvinnslu og að missir varpar ekki aðeins skuggum yfir líf heldur verður sem net sem ekki sleppir. Samskipti við ástvini og kunningja eru um margt tjáning á getu eða getuleysi fólks gagnvart þeim sem eru djúpt niðri af hvaða ástæðum sem það er, missi eða geðlægð.

Elísabet gengur um land bernsku sinnar eins og til að rifja upp spor sín og fólksins hennar. Til að nálgast landið og söguna sameinast hún jörðinni í tjaldútilegum sem vekja grunsemdir nágranna og sveitunga um að þessi íslenska einsetukonu úr útlandinu sé ekki heil. Elísabet fer að laga gömul mannvirki liðinnar tíðar eins og til að vitja þeirra sem farin eru. Hún fer í gamla kartöflugarð bernskunnar og við fáum innsýn í að amma réð meiru en mamma hennar í garðinum enda mamma aðkomukona. Garðurinn var sem sé tákn um vald og skipulag þess. Oft er vikið að goggunarröðum í bókinni, í lífi fólks, samskiptum kynja, mismunandi aldri og meðal dýranna.

Vinur minn gaf mér bókina Efndir. Ég hafði jarðsungið báða foreldra höfundar bókarinnar, Halldóru og Ólaf. Ég hafði kynnst þeim og tengst þeim og þótti vænt um þau. Ég hafði hlustað á sögur þeirra frá Vatnsnesinu og hafði því tilfinningu fyrir mannlífi, lífsbaráttu og staðháttum þar nyrðra við hið ysta haf. En þessi baktenging vék fljótt þegar ég byrjaði að lesa. Bókin er sjálftætt listaverk, skáldsaga, sem krefst nýrrar nálgunar og persónulegri. Mér þótti líka heillandi að lesa þessa bók vegna tilfinningavinnu gagnvart eigin uppvexti. Hvar er heima og hvernig? Spírall er betri lýsing á lífsreisum okkar en hringur eða lína. Við verðum fyrir reynslu í uppvexti og mótun sem er mismikið unnin og afgreidd og fer með okkur út í at lífsins. Við förum um dali og fjöll lífsins en komum til baka, þó ekki eins áður heldur með alls konar pinkla, túlkun, þroska, gildi og lesti í farteskinu. Ferð Elísabetar heim og norður á nesið er ekki endurkoma barnsins eða endurfundir við barnið. Hún fann margt úr bernsku sinni, veiddi úr minni sínu, hafði gert upp við sumt og annað ekki. En hún var á nýjum stað. Að vitja sjálfs sín, virða sögu sína og gera upp er verkefni okkar allra. Að lifa vel er ekki að lifa átakalausu lífi, heldur að lifa með alúð, virða sjálf, aðra, sögu, menningu, náttúru og trú og bregðast við þeim og lífsáföllum með einurð. Flóttlaus heimför er besti lífsmátinn. Það eru bestu efndirnar.

Bókin er sérstæð og fallega unnin. Skriða gaf út. Snæfríð Þorsteins braut um og með áhugaverðum hætti. Síðurnar eru ekki hvítar heldur litaðar. Svartur borði er handhægur til að smella í opnu þegar hlé verður á lestrinum. Ég rakst ekki á neina ásláttarvillu sem er fátítt í bókum og segir mikið um vandvirkni og nostrið sem þessi bók hefur notið. Hún hefur fengið að hvíla í öruggu fangi höfundar áður en hún hélt út í heiminn.

Takk Þórhildur Ólafsdóttir.

Minningarorð um Ólaf Þórð Þórhallson:

https://www.sigurdurarni.is/2013/08/30/olafur-thordur-thorhallsson-minningarord/

og Halldóru Kristinsdóttur:

https://www.sigurdurarni.is/2013/02/08/halldora-kristinsdottir-minningarord/