Hilda, drottningin í strandhöllinni

Ragnhildur Jóna Magnúsdóttir – minningarorð.

Lambhóll vekur athygli allra sem fara um Ægiussíðuna, hvort sem er akandi eða gangandi á göngugötunni með ströndinni. Strandhöllin er heillandi. Hvaða mannlíf var og er þar? Reglulega sést Lambhóll í dagblaðsmyndum frá Ægissíðu. Meira að segja í síðasta þætti Verbúðarinnar, sl. sunnudagskvöld (4. febrúar), sást Lambhóll, sem er ekki bara í nútíð, heldur tengir við fortíð líka.

Lamhólshöllin var reist í tveimur áföngum, sá fyrri fyrir hundrað árum og svo seinni hlutinn á sjötta áratugnum, eða fyrir 70 árum. Þvílíkur stórhugur. Okkur, sem ólumst upp í hverfinu, fannst að þetta væri ekki bara höll á landi heldur líka sjávarhöll. Úr þessu húsi kom áhugavert og kraftmikið fólk og okkur nágrönnum var ekki alveg ljóst af hverju þau voru svona mögnuð? Var það sjórinn, ströndin eða stíll fjölskyldnanna eða fléttaðist það allt saman? Á Grímsstaðaholtinu spáðu krakkarnir í hól lamba. Þau sem höfðu skilning á landbúnaði töldu að það hlyti hafa verið þarna lambakofi frá einhverju býlinu. Löng hefð var fyrir húsum í dreifbýlinu vestan og sunnan miðbæjarins. Verksmiðjurekstur Alliance, lifrarbræðsla og fiskþurrkun styrkti byggðina í kringum Lambhól og við Starhagann. Heillandi saga sem dýpkaði þegar ég fór að skoða sögu Lambhóls, lesa sagnaþátt Guðfinnu S. Ragnarsdóttur og skoða rit um þau hjón, Ragnhildi og Kristján, sem Trausti Björnsson tók saman. Þá varð ljóst að Lambhóll hafði ekki aðeins verið höll á hjara veraldar á tuttugustu öld, heldur átti sér langa og þykka sögu, sem er eins og lykilsaga Íslands, tákn um baráttu fólks við að lifa, afla sér viðurværis, koma börnum til manns, vera í tengslum við fólk, rækta menningu, stunda sjóróðra og sækja björg í bú, ferja fólk á næsta nes, halda tengslum, sækja vinnu til höfuðstaðarins, sem stundum gekk og stundum ekki, taka þátt í verkalýðsbaráttu, lúta alls konar valdi, verða fyrir sjúkdómum, sækja í menntun og fegurð – og lifa. Lambhóll er eins Íslandssagan í hnotskurn, með öllu litríki Íslands, öllu því dásamlegasta sem lífið gefur en líka skuggunum, sem gefa djúpa dekkingu að baki hinu bjarta.

Þú hefur verið oss athvarf frá kyni til kyns.

Áður en fjöllin fæddust

og jörðin og heimurinn urðu til,

frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.

Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins

og segir: „Hverfið aftur, þér mannanna börn.“

Því að þúsund ár eru í þínum augum

sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn,

já, eins og næturvaka…

Kenn oss að telja daga vora,

að vér megum öðlast viturt hjarta.

Þessi orð urðu Matthíasi Jochumssyni innblástur þegar kóngurinn kom í heimsókn árið 1874 og þá var fyrsti Lambhólsbærinn þegar orðinn til. Kannastu við þessi stef? Getur verið að þau séu til í söng sem þú hefur heyrt eða sungið? Já, versin í Davíðssálminum nr. 90 urðu skáldinu til eflingar og hann fékk frá þeim andagift, til að semja lofsöng, sem var sunginn í Dómkirkjunni í konungsmessunni árið 1874. Síðar varð svo þessi óður að þjóðsöng Íslendinga. Hann á við Lambhól og fólkið sem bjó þar. Verkefni þeirra og hinna í öllum húsum Íslands var og er að vinna að lífinu, stunda lífsleikni og virða mörk og gildi til að öðlast viturt hjarta. Mér sýnist að Ragnhildur Jóna Magnúsdóttir sé okkur öflug fyrirmynd. Hún var kannski ekki fjallkona heldur fremur stranddrottning. Ekkert var mulið undir hana. Hún fékk enga forgjöf í lífinu, þurfti að taka stórar ákvarðanir um öll helstu mál en stóðst, þroskaði með sér getu og lífsfærni sem er til eftirbreytni. Hún vissi um sitt samhengi og gerði það alltaf betra. Hún þekkti skugga lífsins, en varpaði ljósi á þá og gerði gott úr og efldi fólk. Hún þekkti samhengi sitt og átti Guð að vini. Þið megið virða hana, sögu hennar, hæfni hennar og verk. Lofleg og fádæma öflug fyrirmynd hún Hilda, drottningin í strandhöllinni.

Upphafið
Ragnhildur Jóna Magnúsdóttir fæddist í nýja Lambhólshúsinu föstudaginn, 1. ágúst, árið 1924. Hún var dóttir sæmdarhjónanna Sigurlínu Ebenezersdóttur og Magnúsar Helga Jónssonar. Mamman var fædd árið 1893 og uppalin við Lindargötu. Magnús, faðir Ragnhildar, var fæddur á Lambhóli og var tveimur árum yngri en kona hans. Þau áttu fjórar dætur og árið var á milli þeirra elstu svo fjör var í bænum í uppvexti þeirra. Ingibjörg Ebba var elst og fæddist árið 1923. Hilda var næstelst. Unnur var sú þriðja og Helga kom í heiminn árið 1931. Nú eru þær systur allar farnar inn í lambhól himinsins. Lát Hildu lokar því mikilli sögu og lífið heldur áfram.

Ragnhildur Jóna fékk nafn frá föðurömmu sinni og föðurafa. Hún hét Ragnhildur og hann Jón. Lambóll hafði verið kot, en þegar Hilda kom í heiminn höfðu orðið umskipti í lífi fólksins á Lambhóli. Útgerðarumsvif við Skerjafjörð höfðu aukið atvinnu og tekjur fólksins á svæðinu. Alliance rak fiskverkun nærri Lamhólshúsinu og lifur var brædd í lýsi í stóru brennsluhúsi, svokölluðu brenneríi. Hagur fólks fór batnandi eftir fyrri heimsstyrjöld og faðir Hildu var forystumaður prentara í Reykjavík, var raunar lengst allra formaður Prentarafélagsins. Amma og mamma Hildu stunduðu saltfiskverkun á stakkstæði við Lambhól og þar voru líka miklir kartöflugarðar. Fólkið var dugmikið.

Á uppvaxtartíma var enginn Melaskóli né Hagaskóli. Hilda fór í miðbæinn til að sækja sér menntun. Hún var alla tíð námfús, áhugasöm, fróðleiksfús, bóksækin og afar minnug. Fyrst sótti hún forskóla Ragnheiðar Jónsdóttur og síðan Miðbæjarskóla. Eftir það lá leiðin í Ingimarsskóla, sem var gagnfræðaskóli og varð að Gagnfræðaskóla Austurbæjar.

Þótt Hilda væri mikil Reykjavíkurkona átti hún líka ættmenni á landsbyggðinni. Nokkur sumur var hún í sveit hjá frændfólki vestur á Mýrum og lærði að meta og skilja sveitaveruna og menninguna. Svo giftist Ingibjörg eldri systir hennar austur í Árnessýslu. Neðra Apavatn varð mikilvægt tengslaheimili Lambhólsfjölskyldunnar. Hilda lærði ung að vinna og fór snemma að bjarga sér. Hún stundaði barnagæslu og húshjálp bæði í Reykjavík og í Hveragerði.

Hæfni og vinna

Listfengi hefur lifað í ættum Hildu. Dugnaður og hönnunargeta komu snemma fram hjá henni. Það var í frásögur fært í fjölskyldunni að sjálf teiknaði og saumaði Hilda fermingarkjólinn sinn, glæsilegan, hvítan kjól. Hún fermdist í Dómkirkjunni fimmtán ára og hafði beðið í eitt ár eftir Unni systur sinni, en slík systkinabið var algeng um miðja öldina og ástæðan var að einfalda fjölskyldum veisluhaldið. Ragnhildur svaraði listhneigð sinni og sótti í að efla færni sína. Hún sótti námskeið í teikningu árið 1943 og sótti líka námskeið í útsaumi. Á merkilegri mynd af þátttakendum á þessu saumanámskeiði sést að allir þáttakendur voru konur en aðeins tvær þeirra hlutu þann heiður að hafa myndir sínar fyrir framan sig. Hilda var önnur þeirra, enda mikið saumalistaverk sem hún vann.

Magnús faðir Ragnhildar var prentari og þau feðginin voru samrýmd. Eftir fermingu fór Hilda að svipast um eftir atvinnu og prentaradóttirin fór til starfa í bókbandi í Gutenberg. Þetta var um það leyti sem seinni heimsstyrjöldin hófst og bærinn fylltist af hermönnum. Bókaútgáfa á Íslandi jókst þegar vöruúrval minnkaði almennt. Þá seldust bækur betur og ekkert var bertra til jólagjafa en lesefnið. Þá var lagður grunnur að jólabókaflóðum seinni tíma. Síðar fór Hilda svo til afgreiðslustarfa í versluninni Edinborg.

Hjúskapurinn, Kristján og Sorö

Svo var það ástin. Glæsimennið Kristján Kristjánsson vakti athygli stúlknanna á Hótel Borg, líka Hildu. Hann var ekki bara fallegur, heldur líka glaðsinna og ljómandi dansherra. Glæsimennið hæfði glæsilegri Hildu. Kristján gat líka komið henni heilli heim á mótorhjólinu sínu þó bærinn væri fullur af stríði og hermönnum. Þegar þau létu æ betur að hvort öðru fóru þau svo að fara ferðir saman út á land á farskjótanum góða og fóru t.d. sumarið 1943 norður í land. Þau voru bæði ferðaflugur og höfðu gaman af reisunum saman. Kristján var kjötiðnaðarmaður og var verslunarstjóri í verslun Klein við Hrísateig. Stjúpfaðir hans, Klein, hafði vaxandi umsvif á stríðsárunum. Klein og þar með Kristján og annað starfsfólk þjónaði áhöfnum skipa sem komu í mataröflun eða þurftu vistir. Þessi viðskipti lögðu grunn að útþenslu Kleinveldisins. Svo varð líka útþensla heimilis þeirra Hildu og Kristjáns. Elsta barn þeirra, Sigurlín Sjöfn, fæddist á verkalýðsdeginum 1. maí, foreldrunum, verkalýðsforingjanum Magnúsi, og öllum hinum til mikillar ánægju. Hilda var alla tíð stefnuföst. Hún var búin að ákveða að fara til náms í Danmörk og safna fyrir dvölinni. Hún stóð við það þótt flestir hefðu gugnað miðað við aðstæður með kornabarn á armi. Amma í Lambhóli, Sigurlína, tók að sér nöfnu sína og Ragnhildur sigldi utan og fór alla leið til Sorö í Danmörku. Þar var framúrskarandi hússtjórnarskóli stofnaður í lok 19. aldar. Fyrsta bygging skólans líktist mjög Alþingishúsinu í miðbæ Reykjavíkur og Ragnhildi leið vel ytra og fann sig heima.

Þessi för Hildu segir raunar mikla sögu um getu og persónufestu hennar að fara frá ungbarni en líka um samheldni og trausti fjölskyldunnar sem axlaði ábyrgð og stóð saman um stór mál og smá, eins og hún hefur alla tíð gert. Hilda var engin gunga og opin. Sorönámið og árið ytra hafði mikil áhrif á hana. Hilda lærði margt sem varð að gagni, kynntist danskri menningu, sem var ekki aðeins góð, almenn menntun heldur líka hagnýt vegna hjúskaparins við dansk-uppalinn Kristján, mann hennar. Svo var Hilda svo lánssöm að fara ferð frá Danmörku og suður til Parísar, ferðast um vestur Evrópu skömmu eftir stríð og verða vitni að fátækt, svengd, örbirgð og rústum borganna og skilja voða hildarleiksins. Hún hafði jú séð umstang hersins á Íslandi og þmt. Camp Thornhill við Lambhól. Það var mótandi og stælandi fyrir unga konu að sjá allar mannlífsvíddirnar og hún gerði sér grein fyrir ljósi og skuggum, dauða og lífi og hvað væri mikilvægt að standa vörð um.

Stór barnahópur

Já, svo kom hún heim, þroskuð, sigld og tilbúinn til allra lífsmálanna. Byggt var við Lambhól árið 1952 og Stjáni og Hilda fengu íbúðina á annarri hæðinni í höllinni. Þegar húsnæðið var komið, íbúðin og Sylvía Hrönn í gerðinni gengu þau í hjónaband 31. maí 1952. Sulla fæddist svo 11. september sama ár. Kristján fæddist 1. apríl 1954. Ári síðar fæddist Magnús Helgi, 3. maí 1955. Barnaríkidæmið var mikið. Jóhannes Bragi fæddist 7. janúar 1960, Auður Gróa 22. júlí 1963 og síðastur var Unnar Jón 12. maí 1966. Hilda stóð eins og klettur í hafinu í látum, fjöri og viðfangsefnum og var akkeri síns fólks. Hún var glögg og hagsýn og reyndi t.d. ekki að venja pela af þeim eldri þegar pelar voru notaðir hjá þeim yngri. Hún vandi því þrjú sytkinanna af pela á sama tíma. Þrír fyrir einn. Börnin voru dugmikil og döfnuðu, fóru í Melaskóla og Hagaskóla og áfram í nám og störf. Þau áttu miðstöð í Lambhóli og hjá foreldrum sínum.

Atvinnumál og missir

Breytingar urðu hjá Hildu og Sjána þegar kjörbúðafyrirkomulagið hóf innreið í íslenskt samfélag. Verslunin, sem Kristján veitti forstöðu, var lögð niður árið 1967. Kristjáni bauðst eftir það starf á Seyðisfirði og þeir Kiddi fóru austur og síðan öll fjölskyldan og voru eystra liðlega ár. Svo komu þau suður að nýju. Kristján fór að vinna í Síld og fisk og síðan hjá Sláturfélagi Suðurlands og var þar til starfsloka hans. Þegar börnin voru komin fyrir vind og orðin sjálfstæð fór Hilda að vinna utan heimilis. Auk fiskvinnunnar á stakkstæðunum við Lambhól starfaði hún hjá Granda og síðan hjá Nóa-Síríusi og lét þar af störfum þegar hún var sjötug. Mannauðsdeildin reyndi talsvert til að fá hana til að halda áfram en Hilda hafði þörf fyrir að ráða sínum tíma sjálf. Kristján varð fyrir heilsubresti fyrir aldur fram og lést árið 1998. Löngum hefur verið sagt að ekki eigi að leggja á nokkurt foreldri að sjá á eftir börnum sínum. En Ragnhildur hefur séð á eftir þremur. Sigurlína, Magnús og Unnar eru öll látin.

Eigindir og gáfur

Hvernig var Hilda? Í glímu við áföll opinberast styrkur fólks. Missir er þungbær en missir barna er djúpáfall. Þrátt fyrir sársaukann sýndi Hilda fádæma styrk. Hún féll flöt við missinn, en reis svo upp og klofaði yfir áföllin eins og fólkið hennar orðaði svo myndrænt. Hilda var einstaklega ræktarsöm við fólk og áhugasöm um líf allra sem hún kynntist. Hún hafði samband við börn sín, frændfólk, vini og kunningja og spurði um líðan, velferð, áföll, þroska og vöxt. Meira að segja fólk, sem vitjaði hennar í heimahjúkrun, talaði um hve áhugasöm hún hefði verið um fjölskyldur þeirra sem hún tengdist. Hún var afar minnug, kunni mikið af ljóðum, mundi símanúmer og afmælisdaga. Hún vissi hvað hún kunni og hafði húmor til að segja fólkinu sínu að hún hefði nú próf í barnauppeldi, hefði tekið extrakursus i börnpleje. Uppeldismál væru því hennar sérsvið! Svo var Hildu fullkunnugt um hvernig átti að raða hnífapörum á borð og hafði lag á að kenna sínu fólki góða danska borðsiði. Hún þáði fjölskyldurækt í arf frá foreldrum sínum og miðlaði áfram til barna sinna og ástvina. Hún stóð með sínu fólki, dæmdi ekki mistök eða veikleika, en lagði sitt til að bæta úr því sem aflaga fór. Hún skammaðist ekki í uppeldi, en taldi að góð fyrirmynd væri skilvirkari uppeldisaðferð. Hún miðlaði upplýsingum fúslega um líf og viðburði fólks, hélt trúnað um allt sem hljótt mátti fara, spaugaði um skemmtilegheitin, gat verið snögg til, hafði leikni í íslensku í bland við húmor og sneri upp á tungumálið ef hún vildi og notaði dönskuslettur með smekkvísi. Hilda hafði skýrar skoðanir í flestum málum, var upplýst um mjög margt og átti ekki í neinum vandræðum að tjá sig um flest mál, en jafnan með hlýju. Hún hafði lag á að tjá hug sinn með þokka og húmor svo fólk fyrtist ekki við þó það væri annarrar skoðunar en hún. Hilda hafði pólitískar skoðanir. Alþýðuflokkurinn punktur, en þau hjón kusu oftast sitt hvorn flokkinn og varð ekki af ágreiningur á heimilinu. Hilda var vel að sér á mörgum sviðum og hefði getað haldið fyrirlestur um heppilegar heimilislækningar á læknadögum, enda hafði hún búið um marga putta, hreinsað sár og vaktað veik börn. Hilda hafði á langri æfi lært að temja sér æðruleysi. Hún kenndi börnum sínum og ástvinum að varast hættur eins og við sjóinn. Hún hafði þá skynsamlegu afstöðu að miðla þekkingu á nátturunni, kenna ungviðinu að varast hætturnar og þekkja mörk. En hún vissi að aðkomubörnin væru ekki eins kunnáttusöm og þau heimaöldu. Hún hafði getu til að tala við fólk og líka kippa þeim upp sem voru langt niðri með því að ydda einhverjar sögur svo fólk kom úr kafinu. Hilda hafði dásamlega getu til að bæta í, afla sér þekkingar, opna tilveru sína, virða fólk, safna litum, myndum, fingurbjörgum, steinum, viskumolum og staðreyndum um samferðafólk. En hún hafði í sér líka elskudjúp sem umvafði fólk, efldi, nærði, tosaði upp og kætti og skilaði til umhverfis dýrmætum sikringum lífsins.

Lambóll eilífðar

Nú er Hilda farin inn í sumarlandið. Þar er engin hætta við ströndina, engin dauðsföll, aðeins fögnuður, skemmtilegir rúntar, engar áhyggjur, stór ættboginn sem kann að hlægja, segja sögur, gleðjast og njóta. Og svo Guð sem hefur verið athvarf frá kyni til kyns, blessar, gleðst og skilur sitt fólk. Hilda dregur ekki lengur fólk upp úr depurð, segir ekki fleiri sögur með tilþrifum eða reisir sig við þegar hún snertir danska flík. Nú er drottningin úr strandhöllinni komin í Lambhól eilífðar og þar er gott líf fyrir Hildu og þau öll hin sem hún elskaði svo heitt. Þau fara ekki síðust því gleðin verður endalaus, mikið talað og hlegið. Guð geymi Hildu og Guð styrki ykkur ástvini. Amen.

Guðfinna og Magnús biðja fyrir kveðjur, Adda frænka og fjölskylda biðja fyrir kveðjur sömuleiðis, Rabbi frændi í Noregi og fjölskylda sem og Rabbi í Danmörk og fjölskylda.

Kistulagning og útför í Neskirkju 10. feb. 2022. Erfi í safnaðarheimili Neskirkju. Síðan ekin Ægissíða og hjá Lambhóli í sólinni. Jarðsett í fjölskyldureitnum í Gufuneskirkjugarði. ÚRG. Schola cantorum. TG.