Greinasafn fyrir merki: gera

Gera eða vera

Hugleiðing í hádegisbænum 18. apríl 2020 er hér að neðan. Upptaka er að baki þessari smellu

Ekki snerta, ekki taka í hendur, halda sér langt frá öðrum. Þetta sem er svo langt frá því sem okkur hefur verið kennt og þykir svo mikilvægt. Okkur er gert erfitt fyrir að gera það sem við vildum svo gjarnan, knúsa fólkið okkar, fara í sund eða á fundina sem gera okkur gott eða sækja menningarlíf sem er okkur til eflingar. Hvað getum við gert? Við megum ekki eða getum ekki gert það, sem við erum vön að gera. Við neyðumst til að hægja á okkur. Á þessum tíma þegar kerfi mannanna brenglast neyðumst við til að staldra við. Og hvað getum við þá gert?

Já, við vitum auðvitað að hamingjan er ekki í hasarnum. Hamingjan er handan við atið. Hún kemur þegar við erum. Þegar við hömumst við að gera gleymum við gjarnan að vera. En hvernig getum við þá verið? Lífið færir okkur svo dásamlega margt, sem við megum taka eftir í rólegheitunum. Við getum opnað vitund gagnvart puttum okkar, hárinu eða heilsunni. Við getum strokið nefið, dregið að okkur andann til að finna lungun fyllast og lyktina í umhverfi okkar. Við getum andað djúpt og hugsað um fólkið í krinum okkur og það besta sem við höfum notið í lífinu. Við getum leyft myndum af þeim sem við elskum – eða höfum elskað – að koma fram í huganum. Og hvað er það merkilegasta sem við höfum heyrt eða gildi sem eru okkur dýrmætust? Og við getum hugsað um það sem okkur finnst best. Um hverja þykir þér vænst um?

Að vera er að sækja í visku og frið sem hinir fornu Hebrear kölluðu jafnvægi kraftanna. Að vera á sér trúarlega dýpt. Jesús hvatti fólk til að fylgja honum, trúa honum. Að vera er að virða dýptir lífsins sem við köllum Guð? Viljum við það?

Gera eða vera. Þetta er viðfangsefni allra alda og niðurstaða spekinga aldanna og trúarbragðanna, að lífsleiknin er ekki fólgin í puði og hasar. Þetta var það sem siðbót Lúthers snerist um og Hallgrímur Pétursson túlkaði vel í Passíusálmunum. Menn þurfa ekki að afreka neitt til að ná prófi Guðs. Það er Guð, sem afrekar og við megum lifa, anda og vera í því ástarríki. En skiptir þá engu hvað við gerum? Jú svo sannarlega. Hið fyrsta er að vera Guðs og hið annað er svo að gera vel. Að gera gott blíðkar ekki Guð heldur er það algerlega nauðsynlegur þáttur lifandi Guðstrúar. Guð árangurstengir ekki heldur elskutengir. En af því Guð elskutengir árangurstengir trúmaðurinn. Gerið svo vel að vera.

Hugleiðing í hádegisbæn í Hallgrímskirkju laugardaginn 18. apríl, 2020. Myndskreytti upptöku íhugunarinnar. Ég tók allar myndirnar nema þá síðustu – af kirkjuturningum. Saga, dóttir mín, tók hana.