Lambakjöt – kúla með ítalskri fyllingu

Ísland-Ítalía í algerum toppklassa. Það var gaman að draga fram íbjúga fótboltaviðgerðarnál bernskunnar, þræða hana með seglgarni og sauma úrbeinað læri upp í kúlu. Lærisvöðvinn umbreyttur í stóra kúlu er mikið augnayndi og svo er bragðið kraftaverk.

1 lambalæri, má vera smátt
50 g hráskinka, skorin í ræmur
6-8 sólþurrkaðir tómatar, saxaðir
2-3 hvítlauksgeirar, saxaðir
1 msk pestósósa
2 tsk ítölsk kryddjurtablanda, gríska kryddjurtablandan frá Pottagöldrum er ágæt líka
pipar, nýmalaður
salt
2 msk olía
800 ml lambasoð (sjá hér á eftir)

Í sósuna fer td. gorganzolaostur, sulta rifs eða bláberja og maísmjöl til þykkingar. 

Lærið úrbeinað, skorið með beittum hníf hringin með beini báðum megin. Beini smokrað úr (Melabúðarmenn úrbeina líka). Skinku, tómötum, hvítlauk, pestósósu, 1 teskeið af kryddjurtablöndu og pipar blandað saman í skál, blöndunni dreift á kjötið, það vafið utan um og saumað með seglgarni. Það er flott. Ef engin er fótboltanálin er hægt að binda allt saman, en það er ekki flott. Afganginum af kryddjurtablöndunn nuddað utan á lærið ásamt pipar og salti. Látið liggja við stofuhita í tvær klst. Á meðan er tilvalið að sjóða soð af beinunum. Ofninn er svo hitaður í 225 gráður.

Olíunni hellt í steikarfat eða ofnskúffu, lærið lagt í hana og sett í ofninn í um 20 mínútur. Þá er helmingnum af soðinu hellt í fatið, hitinn lækkaður í 170 gráður og kjötið steikt áfram í 45-60 mínútur. Soði bætt í skúffuna einu sinni eða tvisvar á steikingartímanum en ekki ausið yfir kjötið. Kjötið er svo tekið út og látið standa í a.m.k. 15 mínútur áður en það er borið fram og á meðan er steikarsoðinu hellt í pott, það hitað að suðu, smakkað til og sósan síðan þykkt með maísmjöli hrærðu út í svolitlu köldu vatni.

Einfalt lambasoð má gera með því að setja beinin úr lærinu í pott ásamt 1-2 söxuðum gulrótum, 1 lauk, skornum í bita (óþarfi að afhýða hann), e.t.v. sellerístöngli, lárviðarlaufi, timíani, piparkornum og ögn af salti, hella yfir köldu vatni svo að vel fljóti yfir, hita að suðu og láta malla í opnum potti í um 2 klst. Þá er soðið síað.

Það er líka ljómandi að steikja sveppi í smjöri, kanski svolítið af lauk með og hella soðinu svo yfir og láta sjóða í nokkrar mínútur, bæta út í klípu af gorganzolaosti, rjómaslettu eða kókosmjólk, rauðvíni fyrir þau sem það vilja, ribssultu eða hlaupi og þykkja sósuna.

Meðlæti t.d. kúskús eða perlubygg, raða því í kring um kúluna og skreyta með með einhverju rauðu, t.d. skornum paprikum! Bara til að fá hátíðablæinn!