Jóhann Þorsteinsson – minningarorð

Jóhann hafði gaman tækjum og gerði sér grein fyrir möguleikum tækninýjunga og hann nýtti þær. Jóhann var ágætlega hæfur í notkun á tölvum og gat jafnvel tekið sundur bilaða tölvu til að laga. Engin hræðsla eða ótti við sýndarheima og tækniveröld. Það var gaman að hlusta á fólkið hans Jóhann segja frá getu hans til að fanga nýungar. „Þú hefðir átt að vinna við tölvur“ var sagt við hann þegar hann var í Boston og tjáði getu hans til skapandi vinnu á tæknisviðinu.

Svo hlustaði ég á dætur hans segja frá myndasmiðnum Jóhanni. „Merkilegt“ hugsaði ég. Jóhann hafði auga fyrir hinu sérstaka og vildi fanga augnablikið. Hann fór því að taka myndir, tók myndir á súper 8 filmu, síðan vídeómyndir og svo kom tölvufærnin honum til góða og hann færði gömlu myndirnar yfir á vídeospólur og síðan yfir á DVD-form. Gömlu myndirnar voru uppfærðar, myndir og myndskeið af fólkinu hans voru endurnýjaðar á því sniði sem notað var á hverjum tíma. Og breytingarnar hafa verið hraðar eins og þau vita sem fylgst hafa með byltingunni, sem hefur orðið í myndageiranum, frá tímum filmu til starfrænnar töku og vinnslu. Og Jóhann tók myndir af mörgum ykkar og náði að vera skrásetjari stórfjöskyldunnar, sem hefur líklega ekki verið upphaflegt markmið hans. Myndasafnið hans er dýrmætt og ber að varðveita og endurnýja ef hægt er – taka afrit af því og helst setja á vefinn og þar með að smella myndskeiðunum á youtube!

Mynd af Jóhanni myndasmið varð mér áleitin. Hann tók ekki aðeins myndir af skýjum, fjöllum eða viðburðum í þjóðfélaginu. Hann var ekki fréttaljósmyndari eða landslagsljósmyndari. Hann tók myndir af fólkinu sínu, heima og heiman, í fjölskylduboðum og á ferðalögum. Hvernig er ljósmyndari? Jafnan aftan við tækið, stendur oftast utan sjónsviðs myndavélarinnar, beinir linsunni að viðfangsefni og myndefni. Kannski var það sjálfvalin staða Jóhanns að taka af öðrum eða öðru og vinna síðan með það efni. Stundum fór Jóhann einförum, fáir sáu hann allan eðu þekktu djúp sálar hans. Hann fór sinna ferða og kynntist mörgum, en fáir urðu honum nánir eða náðu til hans að baki linsu lífsins. En hann beindi sjónum og sjónglerjum sínum til þín, til fjölskyldunnar, hafði það mikinn áhuga á ykkur að hann vildi taka af ykkur myndir. Og þessar myndir eru síðan erfðagjöf hans til ykkar, til fólksins sem lifir hann. Hann þjónaði ákveðnu hlutverki í lífi ykkar og svo skilar hann af sér.

Hver skyldi vera mesti myndasmiður þessarar veraldar. Það er ekki einher ljósmyndari í sögu sjónlista. Heldur hver? Guð – sem sér þessa veröld, skugga og ljós. Er ljósgjafinn sem lýsir upp myndsviðið allt, sér alla leikarana og beinir sjónglerjum sínum að lífinu. Ekki til að sjá misfellur, bresti og áföll, heldur til að gefa líf. Guð skannar ekki aðeins, tekur ekki aðeins mynd af fólki og veröldinni. Guð sá allt og kom svo sjálfur í rammann til að tryggja að allt færi vel.

Við sjáum í Jóhanni mynd manns sem gat svo margt og m.a. sá fólk en var líka mennskur í því að hann náði aldrei að leysa alla hnúta. En svo er hann farinn inn í stóran himinn og þar er Guð sem leysir allt, sér allt og tekur nýja mynd af heiminum sem er betri en allar aðrar.

Og nú er komið að því að við lyftum upp nokkrum mynd af Jóhanni Þorsteinssyni, lífi hans, ferli og upplifunum þínum af honum.

Upphaf og samhengi

Jóhann Þorsteinsson fæddist í Stykkishólmi 5. nóvember árið 1935. Þetta var tíminn milli stríða. Stykkið var á sínum stað og hæðir og hólar Hólmsins urðu skjól til lífs og leikja. Svo var stutt í töfrastaðinn Helgafell. Það var gaman að vaxa úr grasi í Stykkishólmi og mannlífið var fjölbreytilegt, myndríkt og gott.

Foreldrar Jóhanns voru Veronika Konráðsdóttir (1909) og Þorsteinn G. Þorsteinsson (1906). Hún var úr Ólafsvík, en ólst upp í Hólminum hjá Jósafat Hjaltalín og Ingveldi Jónsdóttur. Þorsteinn var úr Hafnarfirði. Veronika og Þorsteinn kynntust fyrir sunnan en þegar Ingveldur, fósturmóðir Veroniku, lést bað Jósafat, fóstri hennar, unga fólkið að koma og það varð úr. Þau tóku sig upp og fóru í Stykkishólm.

Pétur var elstur þeirra systkina og fæddist árið 1929, og síðan kom María í heiminn tæpum tveimur árum síðar. Jóhann var þriðji í röðinni en yngstur var Sveinn sem kom í heiminn árið 1937. Þau eru nú öll farin inn í himininn. Jóhann var síðastur í röðinni.

Foreldrarnir vildu að börnin þeirra nytu skólagöngu og menntuðust. Jóhann gekkst við þeirra þrá. Hann gekk fyrst í skóla fyrir vestan. En svo var komið að því að Pétur færi í skóla fyrir sunnan og þá voru góð ráð dýr. Þau Þorsteinn og Veronika seldu eignir sínar á Snæfellsnesi og keyptu sér hús í Efstasundi. En tíminn var erfiður og vegna atvinnuleysis sáu þau á bak húsi sínu í Sundunum. Þá bar auðnan þau hingað vestur í bæ og í þann sögufræga Camp Knox. Jóhann fór í Melaskóla. Síðan flutti fjölskyldan inn í Hlíðar og Bogahlíð 18 varð eins konar fjölskyldumiðstöð allt þar til Þorsteinn og Verónika létust.

Þegar Jóhann hafði lokið grunnnámi voru ýmsir kostir í stöðunni en niðurstaðan var að hann fór vestur í Núp við Dýrafjörð og var þar tvo vetur, frá 1949-51. Á Núpi lauk hann landsprófi. Síðan fór hann strax í Samvinnuskólann í Reykjavík og starfaði síðan í Ríkisbókhaldi til ársins 1956. Þaðan lá leiðin vestur í Ólafsvík en þar var kaupfélagið Dagsbrún og varð starfsstöð Jóhanns í tvö ár. Þá tók við sjósókn sem síðan leiddi til náms í Sjómannaskólanum.

Vegna þessarar breiðu menntunar og starfsreynslu voru Jóhanni margir vegir færir. Hann hafði stýrimannsréttindi og var því á sjó og stýrði bátum. Hann vann líka á landi og við verslunarstörf.

Dætur hans Jóhanns

Pétur, bróðir Jóhanns, var kaupfélagsstjóri vestur á Bíldudal. Það varð úr að Jóhann fór til bróður síns og vann við kaupfélagið á virkum dögum. En svo var það hinn músiklipri Jóhann sem spilaði á harmónikuna um helgar og lék fyrir dansi. Og líf Jóhanns var ekki aðeins fjölbreytilegt hvað vinnu varðar heldur hafði áhrif á líf hans með margvíslegum hætti. Hann kynntist færeyskri stúlku á Bíldudal. Hún heitir Nicolina Susanna og er Bjarnason Hojgård og þau eignuðust dóttur 4. febrúar árið 1958. Hún fæddist í Færeyjum og heitir Sólrit og býr í Þórshöfn. Bjarni Berg er maður hennar. Sólrit er hjúkrunarfræðingur og hann tónlistarmaður. Þau eiga fjögur börn. Þau eru Runa, Ingmar, Björk og Tóki.

Nicolina og Jóhann bjuggu ekki saman og hún fór til Færeyja áður en dóttir þeirra fæddist og því varð langt milli Sólrit og föður hennar og samband komst ekki á fyrr en á fullorðinsárum hennar. Jóhann sendi Sólrit skeyti þegar hún var átján ára og sendandinn var pabbinn á Íslandi. Þaðan í frá uxu tengsl og með auknum samskiptum.

Jóhann tók saman við Halldóru Sveinbjörgu Gunnarsdóttur. Hún var frá Bíldudal. Þau hófu hjúskap og gengu í hjónaband á þjóðhátíðardeginum 1964. Þau Halldóra og Jóhann eignuðust eina dóttur. Hún heitir Arnbjörg Linda og fæddist 27. september árið 1959. Linda er nálastungu- og grasalæknir og kennari í þeim fræðum. Börn hennar eru Halldóra, Yvonne og Irene. Halldóra og Jóhann skildu eftir liðlega tuttugu ára hjúskap.

Atvinna og störf

Jóhann var fjölhæfur og gat margt. Með Samvinnuskólapróf stóðu honum margar dyr opnar. Hann starfaði ekki aðeins við kaupfélagið á Bíldudal. Um tíma var hann kaupfélagsstjóri í Vestannaeyjum. Jóhann var oft á vertíðum á yngri árum, m.a. í Grindavík. Og útgerðin heillaði þá bræður Pétur og Jóhann svo að þeir gerðust útgerðarmenn og Jóhann var oft við stjórnvölinn á bátunum sem þeir gerðu út, 40-60 tonna bátum.

Svo fór Jóhann í land og rak frystihús um tíma við Súðavogi. Og Jóhann lærði þar með á alla þætti fiskveiða og fiskvinnslu og varð verðmætur starfsmaður með yfirlit og tækniþekkingu í útgerðar- og vinnslugeiranum. Jóhanni bauðst vinna í frystihúsi í Masachusetts í Bandaríkjunum. Hann fór utan árið 1979 til að miðla íslensku fiskvinnsluviti. Og vestra saug hann í sig það sem efst var á baugi, kynnti sér viðmið í menningu og nýjungar í tækni. Meðal annars hreifst hann af bílaþvottaaðferðum í Bandaríkjunum.

Þegar Jóhann kom heim um 1984 slitu þau Halldóra samvistir.

Jóhann flutti í fjölskylduhúsið í Bogahlíðinni. Þá var þar í húsinu Björg Björgvinsdóttir, jafnaldra Jóhanns. Þau vissu af hvoru öðru frá æsku og kynntust að nýju, hófu sambúð og gengu síðar í hjónaband.

Þau stofnuðu saman og byggðu Bílaþvottastöðina “Laugina” við Vatnagarða (Holtagarða) árið 1985 og ráku hana til ársins 1995. Eftir að þau seldu þá stöð stofnuðu þau fyrirtæki sem seldi “heita potta.” Fyrirtækið hét Laugin ehf. og voru þau Björg brautryðjendur á sínu sviði hér á landi. Í þrjú ár bjuggu þau Jóhann í Danmörk, Þýskalandi og Englandi vegna hins fjölþjóðlega fyrirtækjareksturs þeirra, en fluttu síðan heim fyrir aldamótin og héldu áfram rekstri til 2005 er þau seldu reksturinn. Árið 2006 greindist Björg með krabbamein, náði heilsu um tíma en svo tók mein sig upp að nýju og ekki var við neitt ráðið. Björg lést árið 2012.

Myndirnar

Þetta eru nokkrar myndir úr lífi Jóhanns. Hvaða myndir lifa í huga þér og hvaða myndir hefur þú tekið af honum og vilt varðveita?

Manstu tímaskyn hans? Jóhann gat sprottið upp seint að kvöldi og farið í bíltúr!

Hann var ákveðinn og stefnufastur. Einu sinni varð eftir hjá honum bók sem hann gluggaði í: The easy way to stop smoking. Og hann tók efnið til sín og steinhætti að reykja, og hafði þó reykt mikið áður.

Manstu hvernig hann leit út? Fötin hans. Tengslin við hann? Manstu áherslu hans á frelsi manna og pólitískar skoðanir hans? Manstu eftir bókunum hans og um hvað hann talaði? Manstu eftir ferðum hans niður að höfn? Manstu eftir bílstjóranum, sem keyrði hratt og hve lipur hann var þrátt fyrir hraðann? Manstu tengsl hans við systkini hans og fjölskyldustíllinn?

Og manstu eftir ljósmyndaranum Jóhanni að beina linsu að þér? Nú beinir þú þinni lífslinsu að Jóhanni og skoðar myndirnar á þessum tímamótum. Hverjar eru góðar og hugnast þér? Þú heldur í þær, hinar sem eru síðri falla í gleymsku tímans. Farðu vel með myndasafnið og lærðu að vinna með það, ekki bara myndasafn í tölvum og albúmum – heldur myndasafn tilfinninga, afstöðu og innri manns. Lærðu að halda í það sem er gott og mikilvægt en gerðu upp við hitt. Í því er viskan fólgin. Hvað lærðir þú af Jóhanni sem var gott og getur dugað þér til lífs með öðrum?

Jóhann tekur ekki fleiri myndir, skoðar enga tölvu og færir ekkert á milli tækniveralda lengur. Hann er farinn inn í vinnsluminni himinsins – sem á sér engin takmörk og þar verður aldrei kerfishrun.

Svo er besti myndasmiðurinn Guð. Guð beinir allri sinni athygli að mönnunum og þar með Jóhanni, sér hann allan og vinnur með mynd hans. Og Guð horfir alltaf með elsku. Linsur hans eru linsur kærleikans. Og Guð beinir sjónum sínum að þér og horfir á þig með kærleiksaugum og yfirgefur þig aldrei.

Guð geymi Jóhann og Guð geymi þig.

Amen.

Bálför. Erfidrykkja hjá Veroniku og Ólafi í Urriðakvísl 4.

Flott hjá þér

IMG_1006Góðan daginn kæru hlustendur. Við fjölskylda mín fórum einu sinni til Ameríku. Við lentum í Seattle og ég átti von á hefðbundinni stórflugvallafýlu starfsmanna, sem tækju út pirring sinn á okkur ferðalöngum. Nei, ónei. Elskulegt fólk mætti þreyttum útlendingum. Einn sagði með hlýju í augum “verið velkomin” og annar sagði “njótið verunnar í Bandaríkjunum.” Takk, þetta var óvænt móttaka. Smáfólkið fékk líka sinn skammt af elskulegum viðbrögðum: “Fínn hattur” og “falleg peysa.” Jákvæðnin var skýr og almenn.

Svo héldum við áfram og enduðum suður við landamæri Mexíkó og bleyttum tærnar í Kyrrahafinu. Herra Fúll og frú Fýla virtust gersamlega týnd. Var eitthvað að? Fólk hafði getu til að sjá, virða og hrósa. Jafnvel í atinu í Disneylandi og Legolandi tjáðu vandalausir ef eitthvað hreif. Svo vorum við boðin inn á heimili vina okkar og eflingarorðin flugu.

Þessi áberandi jákvæðni og hrós urðu mér íhugunarefni. Fúll og Fýla lauma sér ótrúlega oft og fljótt í umræðu fólks. En þó margt sé okkur mótdrægt er óþarfi að temja sér neikvæðni í tengslum við fólk. Börnin hafa þörf fyrir að við sjáum þau og við bregðumst við þegar þau gera vel og vinna sigra í smáu eða stóru. Nábíturinn á ekki heldur að stjórna atvinnulífi, stofnunum og þmt. fjölmiðlum. Við megum og þurfum að tjá fólki, að það og verk þess veki hrifningu og gleði. Maki þinn þarfnast að þú sjáir hann og bregðist við með jákvæðum hætti. Fólk við búðarkassa tekur jafnan vel við þegar hlý orð falla í þess garð.

Hrós varðar ekki málæði og yfirborðstjáningu, heldur að temja sér ákveðna afstöðu til annarra og lífsins. Fólk er dýrmæti og þannig skapað. Allir þarfnast orða. Við lifum í krafti tengsla, höfum þörf fyrir að vera séð, að lífshættir, hæfileikar, eigindir og verk séu færð í tal með jákvæðum hætti. Öllum verður gott af því, sem hefur verið kallað H-vítamín – hrós. Það er trúverðug lífsleikni að næra aðra með orðum þegar vert er og ástæða til. Jesús kenndi okkur þessa mannvinsamlegu nálgun. Hann hafði alltaf áhuga á fólki og sá í öllum eilíft gildi og gæði. Við þig segir hann með jákvæðum hætti og eins og satt er. „Þú ert frábær!“

Er einhver nálægt þér, sem þarfnast þess að heyra það líka? Blóm dagsins er hrós.

Bænir…

Guð gefi þér yndislegan dag og gleðiríka helgi.

Morgunorð og morgunbæn RÚV 3. október, 2014.

Undur lífsins

IMG_4139Kæri hlustandi – góðan dag. Hvernig ætlar þú nú að vera og lifa í dag? Má bjóða þér meðal gegn öldrun? Ég er búin að uppgötva það. Hvað skyldi það vera? Jú, að umgangast börn. Vísast er öflugasta meðalið til lífsgæða að eignast líka börn seint og á efri árum! Öldrun er ekki aðeins það að missa heilsuna. Fyrir slíku geta allir orðið á öllum aldursskeiðum. Nei, verst er þegar heilsugott fólk hrynur inn í sjálft sig, verður svo upptekið af sínu, að það sér vart út yfir smáhring eigin þarfa og aðstæðna. Sögurnar verða nærsýnar og harmhneigðar. Með ellinni veikjast varnir og hverfa jafnvel. Gallar koma í ljós, sálarsprungur stækka og gleypa lífsgæðin. Þá fjarar lífið út en grjótið verður eftir í fólki.

Börn eru dásamlegir afréttarar og hvatar til lífs og gleði. Afstaða og tilraunir barna þjóna þroska þeirra. Leikjasókn þeirra er ekki aðeins í þeirra þágu, heldur megum við læra af þeim og efla spuna í lífi okkar, sem eldri erum. Leikur í hjónalífi þeirra, sem hafa verið gift lengi, er meðmælanlegur. Prufið bara og aldrei of seint. Og það er afar fátýtt að fólk deyji af undrun og fögnuði, en gáski í tjáskiptum gerir oft kraftaverk. Fróðleikssókn er í anda lífssóknar barna. Verkefni hvers manns er vinna að hamingjunni. Okkar eldri er að setja mörk og markmið, en börnin kenna okkur líka stórkostlegar kúnstir og sýna okkur aðferðir lífsleikninnar.

Jesús Kristur miðlaði trausti, hann var barnavinur. Hann hafði ekki aðeins þá afstöðu að börn væru leir til að móta, heldur benti á hæfni og skapandi leit sem væri til eftirbreytni. Temjum okkur því opna og einlæga sókn þeirra. Hvernig er himnaríki? Það birtist í gleðileik barnanna.

Börn og ástvinir eru flestum mestu dýrmæti lífsins. Þau gefa lífi okkar lit, sögur, ævintýri og auðvitað líka vandkvæði. Líf án skugga er blekking. Brandarar, spenningur yfir veðri og náttúru, tilraunir, spurnargleði, vilji til að skoða og þroskast eru einkenni bernskunnar. Við megum gjarnan temja okkur undrun. Börn eru hæfir kennarar í símenntun hinna eldri. Að vera með börnum skerpir okkur til lífs. Til að vera nálægur börnum og tengjast þeim verðum við að þola hið bernska, að hrífast, gleðjast, gráta og hlægja. Þetta varðar fólk á öllum aldri, líka þig. Leikur er list lífsins. Börn opinbera undur lífsins.

Bænir

Guð gefi þér leikandi lífsgleði og góðan dag.

Morgunorð – morgunbæn RÚV 2. október 2014.

Ótti og von

KanósiglingHvaða tilfiningar vakna í þér með dagin framundan? Er þetta dagur tækifæranna og framkvæmda? Eða dagur óttans? Eða dagur vona?

Einu sinni var ég í sænska skerjagarðinum í fríi. Við fjölskyldan sigldum með systur og mági á skútu milli eyjanna. Það var skemmtilegt að setjast við stýrið og venda, vinna með vindi og upplifa krafta náttúrunnar. Við syntum í sjónum og bjuggum vel. Það var dekrað við okkur.

Ég á tvíburastráka og þeir voru sjö ára á þessum tíma. Eitt kvöldið var þeim boðið í kanósiglingu. Veðrið var undursamlegt, sjórinn spegilsléttur, fuglarnir sungu, smáfiskurinn kom upp í yfirborðið og gáraði lítillega speglun himins í vatni.

Kanóbáturinn sveif sem á skýjum í vatninu. Svo hurfu bátsverjar sjónum mínum og ég vissi hvaða leið þeir ætluðu. Og ég treysti skippernum vel til ferðar með drengina mína. Svo leið tíminn og bátsferðin varð lengri en ég hafði átt von á og svo tók að rökkva og ég fór að verða órólegur. Hafði eitthvað komið fyrir, hafði þeim hlekkst á. Óttinn læddist að með húminu og ég gekk á ströndinnni og skimaði eftir þeim. En ég sá engin merki um þá, heyrði ekki til þeirra – það var eins og sjórinn hefði gleypt þá. Og óttinn læddist inn í mig með fullum krafti. Hafði bátnum hvolft? Ég kallaði upp í himininn og bað um hjálp.

Þegar óttinn kemur finnur maður hvað skiptir máli og ástin hamast. Ég mátti ekki til þess hugsa að nokkuð kæmi fyrir þá, að þeir hyrfu í hafið. Þegar drengirnir mínir týndust í sænsku kvöldhúmi í skerjagarðinum fann ég hve ég elskaði drengina mína hamslaust og heitt. Mér til mikils léttis hafði ekkert hættulegt hent þá, bænin hafði verið heyrð. Þeir höfðu breytt um kúrs og lent í ævintýrum. Þeir voru í góðum höndum, vel var fyrir öllu séð, lífið hafði bara breyst á ferðinni. Allt fór vel.

Byrjar þú þennan dag í von eða ótta? Þú mátt vita að þessi dagur verður merkilegur dagur. Og svo er vinur á himnum sem elskar og vill að þú skiljir og vitir að þú ert stórkostlegur eða stórkostleg. Sá vinur heyrir vel, er nærri og allir eiga í honum góðan stuðning fyrir siglingar daganna.

Bæn – Faðir vor

Guð gefi þér óttalausan og góðan dag.

Morgunorð og bæn Rúv 29. september 201

Vistspor

Umhverfisspor í GautaborgVið vorum á ferð erlendis – fjölskylda mín – og heimsóttum stórt náttúrufræðisafn. Í einum sýningarbásnum voru vistspor þjóða sýnd. Og hvað er vistspor? Það er hver neysla hóps eða þjóðar og hvernig auðlindir eru nýttar. Vistspor er eiginlega sú náttúruafstaða sem birtist í nýtingu auðlinda náttúrunnar.

Í safninu voru vistspor nokkurra þjóða borin saman og sýnd með misstórum skóförum, sem voru máluð á gólf safnsins. Þjóðanöfn voru skrifuð við sporin til að sýna hve ólík neysla og auðlindanotkun þjóða væri. Drengjum mínum varð starsýnt á þessi spor, mátuðu fætur við þau og fannst sum þeirra vera stór. Sum sporin voru smá en önnur risastór. Hvað ætla þeir drengir að gera í neyslunni og málum lífsins? Bera þeir einhverja ábyrgð og berum við ábyrgð gagnvart lífi framtíðar?

Iðnaður, vélanotkun, eldsneytisnotkun, ferðalög, tækjakaup og fleira hafa áhrif á umhverfið. Vistsporin á safninu voru ólík. Spor íbúa í Bangladesh var mjög lítið en spor Svía var hins vegar mjög stórt – nærri tíu sinnum stærra. Vistspor Bandaríkjamanna var enn stærra.

Neysla skiptir máli og við berum ábyrgð á hvað við kaupum, hvers konar landbúnað við styðjum og hvernig pólitík okkar er. Hver sem afstaða okkar er í stjórnmálum – eða hvort við hugsum um efnahagsmál og auðlindamál eða ekki – hafa lífshættir okkar áhrif á heiminn. Við höfum áhrif.

Enginn getur gert allt en allir geta gert eitthvað – líka varðandi umhverfismál og notkun gæðanna sem Guð gefur okkur í þessum heimi.

Neysla margra er umfram getu jarðar til að næra og blessa. Reiknað hefur verið að ef allir jarðarbúar myndu lifa með svipuðum hætti og Norðmenn, Svíar og Finnar þyrfti mannkynið meira en 3 jarðir til að framfleyta sér. Danir eru enn þurftarfrekari því ef jarðarbúar neyttu jafn mikils og þeir þyrfti 4 jarðarkúlur til að standa undir neyslunni. Við Íslendingar erum neyslutröll og einhver þurftarfrekasta þjóð í heimi. Neysla okkar er slík að ef allir væru eins og við þyrfti líklega 5 eða 6 jarðir til að framfleyta mannkyninu (til eru útreikningar sem sýna mun verri útkomu okkar Íslendinga). Þetta neyslusukk setur okkur á bekk með Sameinuðu arabísku furstadæmunum sem er ein neyslufrekasta þjóð heims.

Loftið er dýrmætt

Í liðinni viku voru mikilvægar samkomur haldnar í New York um loftslagsmál.

Trúarleiðtogar ýmissa trúarbragða hittust í borginni til að ræða ábyrgð trúmanna á atferli, lífshætti og siðferði fólks – og hvernig trú gæti stuðlað að ábyrgara lífi og minna álagi á vef lífsins. Kristnir, gyðingar, múslimar, hindúar, búddistar og ýmsir fulltrúar trúarhreyfinga og þjóðarbrota hittust til að hvetja pólitíska leiðtoga heimsins til að horfast í augu við ástand lífríkisins og taka ákveðið á málum.

Auka – en minnka

Á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í New York þann 23. september skuldbundu nokkrir þjóðarleiðtogar og fyrirtæki heims sig til að breyta landbúnaði á heimasvæðum sínum – draga úr kolefnislosun og auka þó framleiðslu matvæla. Á hverju ári fjölgar mannkyni um 70 milljónir og áætlað er að íbúar jarðarinnar verði nærri níu milljarðar eftir 25 ár. Því er ljóst að vegna fjölgunar fólks verður að auka matvælaframleiðslu heimsins.

Á ráðstefnu SÞ hétu tveir tugir ríkisstjórna og fjöldi fyrirtækja stuðningi við umhverfisvæna landbúnaðarstefnu, sem hefur m.a. að markmiði að gera 500 milljón bændum mögulegt að stunda umhverfisvænni landbúnað en nú er mögulegt. Ýmis samtök skuldbundu sig til að vernda fátækustu bændurna sem eru berskjaldaðir gagnvart loftslagsbreytingum.

Útþensluaðferðin

Umræðuefnin á þessum tveimur þingum eru mikilvæg og varða trú, guðfræði og erindi kirkjunnar. Því er ærin ástæða til að íhuga erindi þeirra. Hvernig getum við að brugðist við loftslagskreppu og auðlindakreppu? Hvað ættum við að gera þegar okkur berast þær fréttir að lífríkinu er ógnað og mannfjöldaþróun knýr á um miklar breytingar varðandi afstöðu og aðgerðir?

Fyrr á öldum virtust loft, vatn, lífríki og orka vera sjálfsögð og óþrjótandi gæði. Auðlindir virtust sem næst ótæmandi. Á liðnum öldum hafa menn yfirleitt brugðist við kreppum með því að yfirvinna takmörk, fara yfir mæri, fara út fyrir mörkin, nýta meira og fara lengra. Kreppan var sigruð með útþenslu. Þegar landnæði Evrópu var fullnýtt var farið til Ameríku eða annarra álfa. Þegar auðlindir hinna ríku voru fullnýttar var farið að nýta auðlindir fátækari þjóða. Þegar heimafengin orka var ekki nægileg lengur hófst kapphlaup um orku annars staðar og aðgang að henni tryggður með valdi og “eign” slegið á orkuna. Lífsstíllinn í ríka hluta heimsins – okkar hluta – var og hefur verið að belgja okkur út úr kreppunum – sprengja kreppuna með því að útvíkka og þenja út. En nú höfum við uppgötvað mörk og mæri á öllum sviðum. Við getum ekki haldið áfram með sama lífsmynstri belgingsins.

Kreppan í fólki

Viðbrögð einstaklinga í kreppuaðstæðum geta hjálpað okkur að skýra viðbrögð hópa, þjóða og heimsbyggðar gagnvart loftlagsbreytingum og umhverfisvá sem eru stundum furðuleg. Kreppuviðbrögðin má yfirfæra og nokkur þeirra eru þessi: 1. Afneitun, 2. flótti, 3. reiði, 4. depurð, 5. einföldun og 6. grafa vandann með því að láta gott heita.

Viðbrögð til góðs

Hvað getum við gert? Í stað afneitunar og neikvæðni getum við brugðist með skapandi móti.

  1. Í fyrsta lagi horfst í augu við og viðurkennt vandann. Gagnvart loftslagsbreytingum er mikilvægt að játa að við erum samábyrg og viðurkenna neysla okkar þarf að breytast.
  2. Ábyrgð: Það eru ekki aðeins einhverjir “aðrir” sem bera sök og eiga því að bæta úr. Bandaríkjamenn og Kínverkjar blása vissulega mestri eiturgufu út í andrúmsloftið – en við getum margt gert þó við séum ekki aðalspellvirkjarnir. Við getum gengist við ábyrgð með því að huga vel að eigin innkaupum, eigin heimilislífi og beita okkur með jákvæðum hætti við stefnu og stjórn hins íslenska samfélags. Við getum brugðist við náttúrvá í anda frelsis og réttlætis.
  3. Til að nýta reiði jákvætt þarf að tengja hana kærleika. Reiði vegna mengunar er skiljanleg en getur orðið til góðs ef hún er samferða og samtaka kærleiksríkri systur sem heitir ást. Kærleikur þarf að stjórna reiði til að vel fari bæði í einkalífi og opinberu einnig.
  4. Það er engin ástæða til að leyfa depurð, fjórða kreppuviðbragðinu, að mála skrattann á veginn og draga þar með úr fólki allan matt til átaka. Við ættum fremur að temja okkur hið guðlega viðbragð, að mæta vanda með því að bæta heiminn – greina stórt og smátt til farsældar sem hægt væri að gera í eigin lífi og samfélagi okkar.
  5. Í nútíð og kreppum er alltaf tækifæri til vaxtar og möguleikar til lífs og engin ástæða til annars en horfa fram á veginn. Guð kallar úr framtíðinni.
  6. Gagnvart mengun, misnotkun auðlinda og manngerðum loftslagsbreytingum megum við gjarnan opna augu, eyru, hjarta og huga.

Verkefni okkar er ekki að bjarga heiminum heldur gera það sem við getum gert. Það er bæði mannleg og trúarleg köllun okkar sem einstaklinga. Og það er líka á ábyrgð okkar sem kirkju að bregðast við með einurð, óttaleysi og hugrekki. Okkur ber að gæta systra okkar og bræðra. En það er líka dásamlegt verkefni okkar að gæta móður okkar einnig. Náttúran er móðir sem er á okkar ábyrgð.

Við getum endurskoðað neysluhætti okkar – bæði á heimilum og í samfélagi. Við getum hvatt stjórnvöld til að láta náttúruna njóta vafans og lágmarka skaða í opinberum framkvæmdum. Við ættum að auka pólitísk afskipti varðandi meðferð náttúru. Raunar ættum við Íslendingar ekki að sætta okkur við neitt annað en að vera til fyrirmyndar í notkun orku og auðlinda.

Guð er ástæðan

Skiptir trú lífríkið máli? Já, trú hvetur ekki til lífsflótta heldur lífsræktar. Trú er ekki það að flýja inn í óraunsæi eða annan heim – heldur að samþætta elsku til Guðs elskunni til alls þess sem Guð hefur búið til, náttúru og þar með fólks líka. Lífið er dýrmæt gjöf sem okkur er gefið og líf heimsins er gjöf Guðs. Okkur ber að virða afstöðu Guðs sem elskar sköpunarverkið og þar með varðveita náttúruna og vernda.

Enginn getur gert allt en allir geta gert eitthvað – og líka varðandi umhverfismál og notkun gæðanna sem Guð gefur okkur í þessum heimi.

Hugleiðing í Neskirkju 28. september 2014