Ótti og von

KanósiglingHvaða tilfiningar vakna í þér með dagin framundan? Er þetta dagur tækifæranna og framkvæmda? Eða dagur óttans? Eða dagur vona?

Einu sinni var ég í sænska skerjagarðinum í fríi. Við fjölskyldan sigldum með systur og mági á skútu milli eyjanna. Það var skemmtilegt að setjast við stýrið og venda, vinna með vindi og upplifa krafta náttúrunnar. Við syntum í sjónum og bjuggum vel. Það var dekrað við okkur.

Ég á tvíburastráka og þeir voru sjö ára á þessum tíma. Eitt kvöldið var þeim boðið í kanósiglingu. Veðrið var undursamlegt, sjórinn spegilsléttur, fuglarnir sungu, smáfiskurinn kom upp í yfirborðið og gáraði lítillega speglun himins í vatni.

Kanóbáturinn sveif sem á skýjum í vatninu. Svo hurfu bátsverjar sjónum mínum og ég vissi hvaða leið þeir ætluðu. Og ég treysti skippernum vel til ferðar með drengina mína. Svo leið tíminn og bátsferðin varð lengri en ég hafði átt von á og svo tók að rökkva og ég fór að verða órólegur. Hafði eitthvað komið fyrir, hafði þeim hlekkst á. Óttinn læddist að með húminu og ég gekk á ströndinnni og skimaði eftir þeim. En ég sá engin merki um þá, heyrði ekki til þeirra – það var eins og sjórinn hefði gleypt þá. Og óttinn læddist inn í mig með fullum krafti. Hafði bátnum hvolft? Ég kallaði upp í himininn og bað um hjálp.

Þegar óttinn kemur finnur maður hvað skiptir máli og ástin hamast. Ég mátti ekki til þess hugsa að nokkuð kæmi fyrir þá, að þeir hyrfu í hafið. Þegar drengirnir mínir týndust í sænsku kvöldhúmi í skerjagarðinum fann ég hve ég elskaði drengina mína hamslaust og heitt. Mér til mikils léttis hafði ekkert hættulegt hent þá, bænin hafði verið heyrð. Þeir höfðu breytt um kúrs og lent í ævintýrum. Þeir voru í góðum höndum, vel var fyrir öllu séð, lífið hafði bara breyst á ferðinni. Allt fór vel.

Byrjar þú þennan dag í von eða ótta? Þú mátt vita að þessi dagur verður merkilegur dagur. Og svo er vinur á himnum sem elskar og vill að þú skiljir og vitir að þú ert stórkostlegur eða stórkostleg. Sá vinur heyrir vel, er nærri og allir eiga í honum góðan stuðning fyrir siglingar daganna.

Bæn – Faðir vor

Guð gefi þér óttalausan og góðan dag.

Morgunorð og bæn Rúv 29. september 201