Lofsöngvar Lilju

IMG_0857Lilja samdi „Stjörnur og sól“ og „Ég kveiki einu kerti á.“ Engin kona á fleiri sálma í sálmabókum þjóðkirkjunnar. Í Liljuguðsþjónustu á Grund voru undur himins og Liljuljóðin íhuguð. Hugleiðingin á 12. sunnudegi eftir þrenningarhátíð er hér á eftir.

Grund er Guðsgrund – það er niðurstaða mín af umsögnum þeirra sem hér búa. Lilja Sólveig Kristjánsdóttir er til heimilis hér á Grund og talar svo fallega um starfsfólk og þau sem hún hefur eignast af vinum. Nú hafa vinir hennar meðal starfsfólks boðað til þessar guðsþjónustu og aðeins sálmar Lilju eru sungnir. Reyndar hefur hún samið marga sálma sem hafa verið sungnir af mörgum. Engar aðrar konur eiga fleiri sálma í sálmabókum þjóðkirkjunnar en Lilja. Við syngjum nokkra þessara sálma og íhugum erindi þeirra og samhengi.

Lilja frænka

Lilja er móðursystir mín og hún og móðir mín voru mjög nánar. Þegar ég fæddist starfaði Lilja í Noregi. Svo kom hún til landsins um nótt og gisti í stofunni á heimili mínu. Um morgunin fór móðir mín með systur mína í leikskólann og skildi mig eftir heima. Ég varð hræddur við einveruna því ég vissi ekki af þessari norsku Lilju sofandi inn í stofu. Þegar hún heyrði hljóðin í smásveininum kallaði hún til mín: „Siggi Árni minn – ég er hér.“ Og ég fór til hennar, horfði á þessa konu, skreið svo upp í hjá henni, hallaði mér aftur – og steinsofnaði. Síðan höfum við Lilja verið vinir. „Guð hefur stund, gleymir ei mér, Guð heyrir bænir allar. Tárum í bros, breytir hann hér, barnið sitt mig hann kallar.“ Það sungum við áðan. Og Lilja hefur alltaf opnað og verið fulltrúi Guðs, hefur allaf haft stund og breytt tárum í bros – ef ekki svefn.

Kirkjusvefn og sálmasöngur Sálmar verða ekki til úr engu. Hymni verður til í lofsyngjandi sálu. Lilja hefur alla ævi opnað fyrir ljónrænu himinsins og sjálf sungið sálma.

Til er skemmtileg saga af sálmasöng Lilju frá bernsku hennar. Hún og fjölskylda hennar voru í kirkju á Völlum í Svarfaðardal. Sú stutta kom sér fyrir á suðurbekk við hlið mömmu sinnar. Presturinn, sr. Stefán Kristinsson, steig í stólinn eftir guðspjallssálm og hóf predikun sína. Þriggja ára stelpuskottið fylgdist með flugum í gluggakistunni. Augnalokin þyngdust og kirkja, helgihald og fólk urðu eitt. Kirkjusvefninn hefur löngum verið sætur. En draumur hennar leystist allt í einu þegar farið var að syngja sálminn „Á hendur fel þú honum…” Þá glaðvaknaði Lilja og spratt upp. Þennan sálm kunni hún og tók undir sem mest hún mátti…„ sem himna stýrir borg,
það allt, er áttu’ í vonum,
og allt, er veldur sorg.“ Þegar fyrsta erindinu lauk beið hún ekki eftir lokum kúnstpásu organistans, heldur rauk af stað í annað erindið. Mjó barnsröddin hljómaði um kirkjuna áður en nokkur annar kirkjugestur byrjaði sinn söng. “Ef vel þú vilt þér líði…” Hún gerði sér skynilega grein fyrir að hún söng ein og steinþagnaði, fylltist svo skelfinu og hélt að hún hefði eyðilagt messuna! Eftir athöfnina faldi hún sig í pilsi mömmunnar og hélt að fólkið, sem talaði um sönginn hennar, væri að stríða sér. Sálmasöngvarinn Lilja Sólveig hætti þó ekki eftir þetta fyrsta vers í lífinu, heldur söng áfram og orti eigin ljóð um Guð og menn. Undir þau vers tóku margir síðar.

Blómin við ævigötuna

Að yrkja hefur verið Lilju dægradvöl og hugsvölun alla tíð. Að ljóða er að opna eyru og tala. Lilja hefur einnig þýtt mikinn fjölda sálma. Hvert tímabil ævinnar á sér eigin stef og viðfang. Þótt Lilja færi leynt með gáfu sína varð æ fleirum ljóst að hún gat sett saman nothæfa sálma til söngs. Því leituðu margir til hennar með þýðingar. Lilja hefur aldrei kunnað vel að segja nei og þegar ég kom til hennar á unglingsárum voru gjarnan einhverjir erlendir sálmar á borðinu. Og þar sem kór eða söngvari beið eftir þýðingunni til flutnings eftir nokkra daga mátti Lilja því oft beisla skáldafákinn með hraði og þýða. Hún var því stundum undir nokkru álagi en skáld hafa aldrei verið sjálfsalar. Svo kvakaði Lilja lítillega, að það sem hún setti á blað hafi ekki verið nógu gott, sumt eiginlega ónothæft! En kröfurnar sem hún gerði voru miklar.

Sum ljóðin hennar Lilju eru n.k. dagbókarskrif í bundnu máli. Hún hefur ritað gleðiefni sín, sorgarefni, vonir, drauma og skref daganna. Það er samhengi í öllu, sem hún hefur skrifað og Lilja veitir okkur innsýn í ljóðunum í sál sína og hugarheim.

Góði Jesú, gefðu mér,

að geta sofnað rótt í þér,

Meðan heilög höndin þín,

heldur vörð og gætir mín.

Þessa kvöldbæn samdi Lilja, þegar hún var tíu ára. Bænin vísar með efni og tökum fram á þann veg sem Lilja fór. Sami boðskapur trausts og trúar blasir við í ljóðum hennar – um góðan og umhyggjusaman Guð sem ekki bregst. Með árunum og lífsreynslu dýpkuðu sálmar og ljóð og skuggarnir urðu jafnframt skarpari. Lilja fékk í arf tilbeiðslu Passíusálma og innlifaðist þeirri lífsafstöðu sem þar er boðuð. Fólkið hennar á Brautarhóli, þar sem hún fæddist og ólst upp, tengdist Guði persónulegum böndum. Trú þess var ekki ópersónulegur siður eða formlegur rammi, heldur náið og elskulegt samband við Guð. Lífsafstaða þessa fólks var jákvæð og traust, að öll veröldin sé Guðs og fyrir Guð. Hlutverk manna í heiminum væri að lifa í Guði og í því er einnig fólgið að laða og leiða aðra til Guðs.

Lilja hefur samið mikið af ljóðum með náttúrskírskotun. Þau ljóð eiga sér samsvörun og efnislegt innrím við sálmana. Náttúran í ljóðum Lilju er ekki aðeins falleg, stórkostleg og hrífandi heldur musteri Guðs, vitnisburður um skapara, sem gleðst yfir fjölbreytni, fegurð, árstíðum, smáblómi í klaka og lækjarbunu. Allt verður Lilju tilefni íhugunar og lærdóms. Sólargeislinn er í augum hennar geisli frá Guði – og skugginn í náttúru og mannlífi á sér einnig sama upphaf. Jafnvel frostrósir eru líking um líf manna og ljósið, sem bræðir frerann og rósir frostsins. Frostrósirnar eru listaverk frá Guði.

Oft notar Lilja jurtalíkingar til að ræða um manninn. Hún talar um rósir og græna sprota. En það vakti athygli mína þegar ég vann við útgáfu verka hennar að Lilja yrkir aldrei um liljur. Kannski er hún of hógvær til að fara svo beina leið. Líkingar og myndir hennar úr jurtaheimi eru því almennt um fólk og hún er ein af mörgum í þeim stóra hópi, frammi fyrir Guði með opin eyru og tilbúin að tala um það sem hún upplifir.

Krossferill

Sum ljóð Lilju hefur sorgin meitlað eða mótað. Lilja hefur ort sér til léttis. Ljóðin hafa orðið henni farvegir fyrir tilfinningar og sum eru jafnvel sorgarlausnir. Af ljóðunum má skynja að Lilja átti erfitt með að sætta sig við að missa heilsuna á unga aldri og stara í sjó brostinna vona. Ljóst er af því hvernig Lilja yrkir um Jesú Krist að hún lifir sig í feril hans. Vegna langrar veikindasögu hefur hún, kannski betur en margir, gert sér grein fyrir þjáningardjúpi og einsemdarbaráttu Jesú. Hún fylgir Jesú eftir á píslargöngunni. Þegar hún líður kemur Jesús til hennar: „Þá kemur Jesús Kristur inn og kveikri ljósið bjart. Þá hverfur allur ótti minn og efamyrkrið svart.“ Í Jesú á Lilja vin, sem aldrei svíkur. Nokkur verndarkvæði um engla hefur Lilja einnig samið. Þau ljóð túlka návist Guðs og að við menn erum aldrei yfirgefnir í erfiðleikum okkar.

Vitund um mannlegan breiskleika, brot og kvíða koma víða fyrir í Liljuljóðum. Hún hefur í veikindum alla tíð verið sér meðvituð um að Guð leysir fjötra, styrkir vilja og réttir fólk við. Upprisuboðskapurinn – boðskapurinn um lífið – á erindi við sjúkt fólk. Lilja speglar vel að maðurinn er flekkaður. Og Lilja ljóðar óhikað um tilfinningar, friðleysi, ótta og öryggisleysi. Lilja sópar ekki yfir tilfinningarnar heldur gefur þeim túlkunarramma. Þá talar Lilja víða í ljóðum og sálmum um einstaka hluta líkamans til að ræða um Guðstengslin. Er það vegna þess að heilsubrestur Lilju hefur vakið með henni skynjun um mikilvægi þess að allur líkaminn og allar sálargáfur séu tengdar? Er hún sér meðvituð um að allt getur þetta horfið manninum og því mikilvægt að allt sé Guði helgað?

Guð og barnslegt traust

Í ljóðum og sálmum Lilju er Guð vinur, góður og umhyggjusamur. Lilja var lánsöm að eiga öfluga og heillynda foreldra, sterka móður og hlýjan föður. Svo var Siguringi E. Hjörleifsson, eiginmaður Lilju, elskuríkur maður. Því er enga föðurkomplexa og karlabresti að finna í kveðskap Lilju. Guðsmyndin er heil og ósprungin föðurímynd og í samræmi við reynslu af umvefjandi móður og hlýjum föður. Áberandi í ljóðum Lilju er traust til að Guð geri gott úr vanda, leiði á betri veg, bæti úr, bræði hjarn mannlífsins og gefi gróanda í lífi hennar og annarra. Einu gildir frá hvaða æviskeiði ljóðin eru, ávallt hefur Lilja talað sem barn við Guð. Hvað erum við menn annað en þiggjendur allra gæða, börn hins himneska föður? Lilja hefur alla tíð tjáð að heimurinn sé fagur og lífið stórkostlegt. En hún hefur líka átt sína vonarhöfn á himnum. Heima er ekki aðeins í húsi norður í Svarfaðardal eða í Reykjavík. Himinninn er ávallt hinn mikli faðmur sem allt leitar til, allt stefnir að.

En kærust verður koma þín

er kvöldar hinsta sinn.

Þú leggur aftur augun mín

og opnar himin þinn.

Lilja notar gjarnan ljóslíkingar í tengslum við Guð. Í því nýtur hún skáldskaparhefðarinnar. Hún biður stundum til stjörnu á himni. Einhver myndi sjá í þeim ljóðum kaþólsk áhrif. En þegar Liljuljóðin eru skoðuð í heild kemur í ljós, að eðlilegast er að túlka stjörnuljóðin guðmiðlægt, þ.e. að stjarnan sé Guð fremur en María, dýrlingur, maður eða engill. Liljurnar Á miðaldamálverkum heldur Gabríel erkiengill gjarnan á lilju þegar hann boðar Maríu tíðindin um þunga hennar. Hlutverk Lilju Sólveigar hefur verið að boða gleðiboðskapinn og vera boðberi himins. Jesús sneri sér að manninum í sögu dagsins og sagði: Effaþa,“ Opnist þú. Og eyru hans opnuðust og haft tungu hans losnaði og hann talaði skýrt. Svo varð í lífi og starfi Lilju. Eyru hennar opnuðust og tungan talaði skýrt. Hlutverk hennar hefur verið að lifa og miðla boðskap gleðinnar og opna himininn. Lilja hefur miðlað ljóðlist himinsins í heimi tímans. Það hlutverk er okkar allra líka. Hún hefur notað sínar talentur og við megum nota okkar.

Amen.

Ég vil þakka fyrir þessa Liljuguðsþjónustu í dag, þakka starfsfólkinu á Grund fyrir áhugann, umhyggju þeirra gagnvart Lilju, vinsemd og hlýja afstöðu. Það er sú afstaða sem er dýrmæti Grundar. Þakka Guðbjörgu Guðmundsdóttur, sr. Auði Ingu Einarsdóttur, Kristínu Waage, organista, þessum fína kór sem syngur. Guð laun.

Hulda Heiðrún Eyjólfsdóttir – minningarorð

DillaÚtfarardagur Huldu Heiðrúnar var bjartur og fagur. Litadýrð á altarisvegg Neskirkju og sólargeisli fann leið að kistunni hennar og lýsti hana upp og blómin brostu. Minningarorðin fara hér á eftir.

Hulda Heiðrún Eyjólfsdóttir ólst upp í húsi sem bar sólarnafn og við útför hennar nú skín sólin á kistuna hennar. Ég hlustaði á allar sögurnar um Dillu, um eiginkonuna, mömmuna, ömmuna, tengdamóðurina – sögur um ósérhlífna og elskuríka konu sem var málsvari birtu og elskusemi. Hún var ljósberi í lífinu, öllum mönnum og öllu lífi. Sólvangur – það er gott heiti á seyðfirska húsinu hennar Dillu, húsi birtu sem var sólarblettur í tilverunni. Og Seyðisfjörður var og er stórt sólfang og þar var Sólvangur. Þar naut Hulda Heiðrún góðs uppvaxtar, þaðan fór hún með birtu í sinni, þangað leitaði hún í huga þegar hún þarfnaðist leiðarljóss og þangað hvarflaði hugur hennar æ oftar þegar dró að lokum.

Þegar á fyrstu blaðsíðu Biblíunnar er fjallað um ljósið og lífið. Verði ljós var máttarorð Guðs gegn myrkri þá og svo öllu myrkri síðar. Og heimsljósið kviknaði og hefur ekki slokknað síðan. Ljósminnið birtist oft í hinni heilögu bók. Og Jóhannesarguðspjall er guðspjall ljóssins. Þar er sagt frá að ljósið kom í myrkur heimsins. Og Jesús tók af öll tvímæli um hvers eðlis ljósið væri og sagði: „Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér, mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins.“ Og svo eru kristnir menn börn ljóssins og er ætlað að halda sér við ljósið, vera farvegir birtunnar öðrum mönnum, speglar Guðs í veröldinni. Sólvangur var hluti þess ríkis birtunnar og Dilla ljósberi.

Æviágrip

Hulda Heiðrún Eyjólfsdóttir fæddist inn í vorbirtuna þann 30. maí 1919. Foreldrar hennar voru bæði menntuð sem ljósmyndarar. Faðirinn var Eyjólfur Jónsson og starfaði auk myndatöku einnig sem klæðskeri, verslunarmaður og bankastjóri Íslandsbanka á Seyðisfirði (f.31.10.1869, d. 29.6. 1944). Hann var tvíkvæntur. Sigríður Jensdóttir, móðir Dillu, var seinni kona hans. Hún kom til Eyjólfs fyrst sem vinnukona og Eyjólfur sá í henni hæfileikana og hvatti hana og studdi til náms. Sigríður fór til Danmerkur og lærði ljósmyndun og hafði atvinnu af iðn sinni. Á Sólvangsreitnum ráku þau hjón ljósmyndastofu og tóku myndir af Austfirðingum og öllum þeim sem vildu góðar myndir. Og það er gaman að sjá gæðin í myndum fjölskyldunnar og þær bera fagmennsku þeirra hjóna gott vitni. Þær eru mikilvægt framlag þeirra til sögu, ekki aðeins seyðfirskrar heldur einnig austfirskrar. Sigríður (f. 9. 6. 1881, d. 4.5. 1956) sá um heimilið og bar eflaust aðallega ábyrgð á ljósmyndavinnunni og redúseríngunni – sem var photsjoppvinna þess tíma. Svo rak Eyjólfur líka verslun eins og bróðir hans og var sænskur konsúll. Heimilislífið var fjölskrúðugt og litríkt.

Hulda Heiðrún átti fimm systkini og eru þau öll látin. Þau voru Svava, dóttir Eyjólfs af fyrra hjónabandi, Haukur, Axel, Ólöf Hrefna og Garðar. Og Dilla var þriðja í röðinni.

Seyðisfjörður var á uppvaxtartíma Huldu Heiðrúnar – eins og löngum síðar – kraftmikið samfélag. Erlend útgerð hafði tengt mannlífið við hinn stóra heim, ekki aðeins við Noreg heldur líka við Ameríku. Svo kom síminn áður en Dilla fæddist og orðin til og frá Íslandi fóru um Seyðisfjörð. Áin var stífluð, fyrsta orkubú Íslands var gert og ljós nútímans kviknuðu eitt af öðru. Heimilið á Sólvangi iðaði af lífi, mikið var umleikis en það var alltaf tími til að gleðjast. Myndirnar af garðveislum stórfjölskyldunnar sýna okkur glaðværan og framsækinn heim, geislandi af lífsþrótti. Karlarnir voru með flotta, ljósa sumarhatta, konurnar prúðbúnar og börnin frjálsleg og smekkleg. Og þessar gömlu myndir sýna velsæld og glæsileika og gætu allt eins verið af betri borgurum í Reykjavík, Oslo, London eða Vín nema vegna austfirskra fjalla og húsa.

Baksíða1Hulda Heiðrún gekk í góðan skóla á Seyðisfirði. Hún var bóksækin og hafði á heimilinu möguleika til að sökkva sér í bækur. Alla tíð síðan sótti hún í að lesa og þótti miður undir lokin þegar hún gat ekki lengur leitað í heim hins ritaða máls. Hún sá um garðinn á Sólvangi og svo var hún snör í snúningum og stóð sig vel í íþróttum, m.a. hlaupum. Og þið – afkomendur hennar – megið alveg reyna að sjá hana fyrir ykkur á spretti í hlaupakeppni á Seyðisfirði. Og hún vann – og var stolt af en hún gortaði ekki af afrekum sínum. Eftir nám fékk Hulda Heiðrún vinnu í lyfjabúð hjá Ellerup á Seyðisfirði. Svo togaði Reykjavík í. Um tvítugt fór Hulda Heiðrún til höfuðborgarinnar og starfaði hjá Friðrik Bertelsen og Kristjáni G. Gíslasyni.

Unga fólkið fór á Borgina. Og Hulda Heiðrún heyrði um unga glæsimennið Halldór B. Ólason frá Ísafirði. Samstarfskonur hennar voru systur hans og Dilla hafði alla tíð góðan smekk og kunni að meta glæsileikann, gáskann og snerpuna. Hún kom að austan og hann að vestan og svo mættust þau syðra – ástin kviknaði og þau gengu í hjónaband 12. september árið 1942. Síðan héldust þau í hendur, lifðu í ástríku hjónabandi og þó skuggar féllu á götu þeirra var Hulda Heiðrún alltaf skotin í karlinum sínum. Og hann hafði gjarnan á orði að þau væru glæsileg, sem þau voru. Halldór var sjálfstætt starfandi rafverktaki og rak eigið fyrirtæki, Rafvélaverkstæði Halldórs B. Ólasonar, nær allan sinn starfsferil. Hann var snillingur í sinni grein og flutti m.a. inn lyftur af gerðinni Hiro og þau Hulda Heiðrún göntuðust með að hinar lyftarnar væru nú ekki neinar Híró! Þau stóðu alltaf saman.

Lengstum bjuggu þau Hulda Heiðrún á Framnesvegi og voru gjarnan á síðari árum kölluð afi og amma á Frammó. Raunar bjuggu þau á tveimur stöðum við Framnesveg, fyrst á nr. 55 og fluttu svo yfir í rauðu blokkina nr. 62. Þar bjuggu þau frá miðjum níunda áratugnum. Þar var Halldór til enda og Hulda Heiðrún þar til hún fór á Grund fyrir um fjórum árum. Á Grund var hún síðan og naut góðrar aðhlynningar allt til enda þar til hún hvarf inn í bjart sumarið 6. ágúst. Og það er við hæfi að útfarardagur hennar skuli vera dagur birtu og fegurðar.

Eftir að þau Halldór hófu búskap og börnin fæddust var Hulda Heiðrún heimavinnandi húsmóðir en stundaði saumaskap meðfram húshaldinu. Eftir að börnin voru uppkominn starfaði hún m.a. hjá Efnalauginni Hraða í um 20 ár og stóð sig frábærlega var mér sagt í forkirkjunni áðan.

Kveðjur

Ég hef verið beðinn um að bera ykkur kveðju Hauks Hallsonar og fjölskyldu hans. Sömuleiðis frá Daða Frey Ólasyni og Lillían Rakel Óladóttur en öll eru þau erlendis.

Börnin og afkomendur

Þau Hulda Heiðrún og Halldór bjuggu við barnalán og eignuðust fjögur börn. Elstur var Eyjólfur Rafn, en hann er nú látinn. Hin börnin eru Valgerður, Sigríður og Óli Friðgeir.

Kona Eyjólfs Rafns hét Bjarnveig Borg Pétursdóttir en hún er einnig látin. Þá áttu synina Pétur Bergmann, sem er látinn, Garðar Rafn og Þorra Frey.

Valgerður er næstelsta barn Huldu Heiðrúnar. Hennar maður er Helgi H. Steingrímsson. Þau eiga fimm börn, Halldór, Margréti Gróu, Heiðrúnu, Steingrím og Friðrik.

Þriðja í röðinni er Sigríður. Hennar maður er Gylfi Þorkelsson og þau eiga dótturina Ástu Heiðrúnu.

Fjórði og yngstur barna Huldu Heiðrúnar og Halldórs er Óli Friðgeir. Kona hans er María Björk Daðadóttir. Þau eiga þrjú börn og þau eru: Daði Freyr, Halldór Skjöldur og Bára Björk. Og fyrir átti Óli dæturnar Lilían Rakel og Huldu Heiðrúnu.

Langömmubörn Huldu Heiðrúnar eru 14 á fæti og 2 í kvið. Það er mikið ríkidæmi.

Eigindir

Öllu þessu fólki var Hulda Heiðrún klettur, stoð og stytta. Hún hvatti þau til dáða, hafði áhuga á námi og velferð, hafði skoðun á hvort gular buxur væru við hæfi í selskap eða ekki. Hún gerði kröfur um að börnin hennar kynnu mannasiði og kynnu sig félagslega. Uppeldi hennar var helgað trausti en ekki ógn og viðurlögum. Því var hún ekki hrædd um börnin sín. Hún naut virðingar sinna og miðlaði jákvæðri mannsýn til afkomenda sinna. Öll vissu þau að hún var tilbúin að leggja mikið á sig fyrir bónda sinn og ástvini. Í því var hún skýr fyrimynd og ljósberi. Og svo barst henni líka staðfesting að henni hafði tekist vel. Einhverju sinni misbauð nágrannakonu Huldu Heiðrúnar ólæti í börnunum í blokkinni og það hvein í. En hún lét Huldu Heiðrúnu jafnframt vita að kvörtunin ætti ekki við hennar börn, þau væru vel upp alin! Þetta þótti henni gott að heyra.

Og hvernig var þessi kona birtunnar, Hulda Heiðrún Eyjólfsdóttir? Hvernig manstu hana?

Hún var hetja sem ekkert haggaði. Hún var ljúf, hógvær, stillt og hlý. En hún var líka stolt og í henni bjó öguð, slípuð reisn. Hún sá fólk, styrk þess og veikleika en skipti sér ekki af málum annarra ef henni komu þau ekki við. Hún kunni því að virða mörk. Og hún ræktaði vel fólkið sitt, var alltaf stór faðmur fyrir fjölskyldu og afkomendur hennar hafa sagt margar sögur um hve hún og afinn tóku á móti litlu fólki og juku gleði þeirra og fjölskyldna þeirra.

Svo var hún jákvæð og kvartaði alls ekki. Eitt sinn lenti Hulda Heiðrún í alvarlegu bílslysi og slasaðist mjög illa. Þegar hún var spurð um bílstjórann sem keyrði yfir hana bar hún blak af honum og sagði að þetta hefði verið óviljaverk. Aumingja maðurinn – sagði hún – og var eiginlega helst á henni að skilja að þetta væri bara yndislegur maður sem olli henni þessum líka kvölum! Og ekki vildi hún að skuggi félli á hann.

Á spítalanum var hún illa haldinn af meinum sínum. Læknirinn spurði varfærnislega hvernig henni liði og átti von á að hún segði frá verkjum hér og sársauka þar. Nei, nei, henni Huldu Heiðrúnu leið bara bærilega! Og lækninn setti hljóðan – sú slasaða var svalari en hann hafði átt von á.

Svo spilaði hún. Þegar í bernsku læri hún að spila á píanó og varð svo snjöll að hún spilaði m.a.s. undir á sýningum á þöglu myndunum í bíó fyrir austan. Og það þarf færni og spunagetu að spila ómþýtt undir kossasenur og sveifla sér svo yfir í hasar og læti í miklum taktbreytingum þessa myndaflokks. Halldór gaf henni píanó og alla tíð varð tónlistin henni vinur í gleði og sorg. Hún spilaði þegar hún var glöð og hún spilaði þegar hún var leið. Hún spilaði sér til hugarhægðar og hvatningar, spilaði sig til birtunnar. Og það var gott.

Hulda Heiðrún fékk góða dómgreind í vöggu- og uppeldisgjöf og svo agaði hún sjálf fegurðarskyn. Það kom fram í saumaskap hennar og heimilsrekstri. Hulda Heiðrún gat saumað smart kjóla og flott föt sem fjölskylda hennar og ástvinir nutu.

Inn í Sólvang himinsins

O nú eru skil. Amma og afi á Frammó eru bæði farin inn í birtuna. Þau fara ekki lengur ferðir vestur, austur eða á sólarströnd. Þau taka ekki á móti ungviðinu og skemmta þeim og sjálfum sér. Nú eru þau farin inn í stóra heim Guðs og það er Guð sem tekur myndirnar og redúserar. Jesús sagði „Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér, mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins.“ Ekkert ljós lýsir betur. Heimur Huldu Heiðrúnar er ljósaslóð. Þú mátt treysta að henni líður vel, hún er sæl, hún er hamingjusöm, þarf ekki að leggja kapal eða spila en kannski sest hún við einhvert himneskt piano og leikur í gleði sinni um suðrið sem andar, um sumarið, um lífið og um þig. Guð geymi Huldu Heiðrúnu í Sólvangi himinsins og Guð geymi þig og framkalli til lífs.

Minningarorð við útför í Neskirkju 13. ágúst 2014 kl. 15. Jarðsett í Gufuneskirkjugarði.

Menn lyginnar

GosiFyrir nokkrum árum var upplýsingafulltrúa íslensks fyrirtækis sagt upp rétt áður en það var gjaldþrota. Af hverju? Vegna þess að hann vildi ekki ljúga um hag fyrirtækisins og því varð hann að taka pokann sinn. Manninum var sagt upp vegna þess að hann vildi segja satt! Hann var enginn Gosi.

Lygin laumast

Í dag er komið að lyginni! Lyginni í samfélaginu, pólitíkinni, einkalífi og einnig trú. Alla liðna viku hefur presturinn hugsað um lygina! Á sama tíma hef ég heyrt margar sögur og sumar þeirra eru aðeins hálfur sannleikur. Ég hef talað um lygina við syni mína og puðað við að innræta þeim hvað er rétt og hvað rangt eins og við foreldrar reynum að gera. Á föstudaginn heyrði ég í búningsklefa sundlaugar sögu sem var 80% lygi. Ég þekki málavexti sögunnar og gat upplýst áhyggjufullan sögumann um að málið væri með allt öðru móti en hann hélt. En af hverju tala um lygina í kirkjunni? Jú, vegna þess að íhugunarefni texta dagsins beinir sjónum að falsspámönnum – og þeir eru menn lyginnar – Gosar. Lygin er alls staðar, hún laumar sér í samtöl og samskipti, spinnur vefi sína og flækir fólki, stofnunum og heilu þjóðunum í fjötra. Viljum við það?

Furstinn

Ég hef oft furðað mig á klókindum fólks, hversu útsjónarsamt það er við að pota sér áfram, sjá atburði fyrir, flétta leikfléttur, gogga sig áfram og ná sínu fram með undirferli. Lygin er systir undirferlisins og blandar sér alltaf í laumugang lævísinnar og valdabaráttunnar. Machiavelli ráðlagði mönnum í því slæga riti Furstanum að beita aldrei valdi ef hægt væri að ná sama markmiði með svikum. Hann taldi að menn væru eigingjarnir, fégráðugir og grimmir. Mörg eru sammála og temja sér slægð og undirferli til að reyna að tryggja eigin hag og stöðu. Mörg telja það stjórnkænsku að segja aðeins hálfsannleik ef allur sannleikurinn er óþægilegur. Dæmin eru mörg úr gamalli og nýrri pólítík. Ef þörf er á þá beri að ljúga og hægt að réttlæta lygina með því að tilgangurinn helgi meðalið. Og ef tilgangurinn er einstaklingnum þarfur og hagkvæmur er hægt að nota margt og marga sem tæki í þágu markmiðsins. Það er þessi skelfilega mannsýn, þjóðfélagssýn og gervisiðfræði, sem hefur komið einstaklingum, hópum og þjóðum í mikil vandkvæði, magnað spillingu og valdið óréttlæti, hryllingi og stríðum.

Við höfum síðustu áratugi eiginlega lifað Machiavellískan tíma en ættum að læra að bregðast við eigingjörnu fólki og gera upp við lygina. Grunnreglur, megindyggðir, eru nauðsyn heilbrigðs samfélags. Gott og farsælt mannlíf verður ekki byggt á lygi. Við eigum að láta af hálfsannleika, berjast gegn slægum mönnum og loddurum. Og við ættum að gjalda varhug við öllum sölumönnum glansveraldar, hvort sem þeir ætla að selja okkur vöru, pólitíska stefnu eða trú.

Tilraun um sannleikann

Heimsbyggðin hefur síðustu hundrað ár lifað einkennilegan tíma tilraunar með að teygja sannleika. Gerðar hafa verið hryllilegar tilraunir með eðli mannsins, eðli stjórnmála, eðli hins sanna, góða, fagra og gagnlega. Styrjaldir síðustu aldar voru hluti gjaldsins sem greiða varð fyrir mistök og rangan mannskilning. Ein síðasta tilraunin hefur varðað eðli hins sanna. Post-modernísk afstaða, sem litað hefur margt í menningu vesturlanda síðustu ár, hefur kennt að sannleikurinn væri brotkenndur og afstæður. Ekki væri til neitt sem væri algilt og því væru forsendur skilnings og lífs fremur að leita í einstaklingum og upplifunum þeirra en því sem væri handan tímans og sammannlegt. Þessi afstaða hefur síðan komið fram í neysluhyggju og sjálfshyggju, hve fólk er upptekið af eigin þörfum, upplifunum og algildi eigin langana. Í þessari brotkenndu afstöðu til veraldar, sjálfs og sannleika hefur orðið hliðrun í veruleikaafstöðu fólks miðað við það sem áður var kennt. Það eitt hefur orðið mikilvægt sem “mér” þóknast. Sannleikurinn, dyggðir og gildi hafa því mátt liggja í þagnargildi og verið hunsuð. Þetta má greina í þöggun í pólitík, í menningarmálum og bisniss.

Sannleikans megin

Carlo Collodi bjó til barnasöguna um Gosa. Nefið á honum lengdist þegar hann sagði ósatt. Börnin skilja vel að menn ummyndast þegar logið er. Þegar lygin kemst inn ummyndar hún menn. Erum við gjörn til lygi? Tökum við þátt í henni, vafasömum söguburði, slefum við með í rökkursögum, sem ekki þola ljós sannleikans? Ertu Gosi?

Í upphafi var orðið og orðið var hjá Guði, segir í fyrsta versi Jóhannesarguðspjalls. Þetta er jafnan lesið á jólum í kirkjum landsins, boðskapurinn um birtuna og lífið sem kemur inn í heiminn og til góðs. Þar segir ekki að lygin hafi verið hjá Guði, heldur orðið. Og orð Guðs er samkvæmt hugsun Biblíunnar lind, uppspretta, allrar ræðu heims, allra orða manna. En það er okkar að nota þessa lind lífsins til góðs og bera ávexti í lífinu. Orð Guðs vökvar líf heimsins, leggur visku í brjóst manna og orð elskunnar á varir. Í trú kristins manns er fólgið að reyna að nema hið guðlega í veröldinni og iðka sannleika í orði og verki. Hvernig vill Guð að við tölum? Hvernig vill Guð að við ræðum um náunga okkar og við hegðum okkur í veröldinni?

Hið jákvæða og rétta

Það er lærdómsríkt að skoða hvernig Jesús brást við fólki og lífsmálum. Hann faldi aldrei sannleikann, dró aldrei undan og sagði satt. Því var hann elskaður af þeim sem þekktu hann sem sannleikurinn sjálfur. Í samskiptum við fólk hafði Jesús alltaf gagnsemi fólks í huga, fegurð þess, frelsi og reisn. Erindi Jesú var ekki að banna heldur opna. Erindi Jesú var ekki að benda á hið neikvæða, heldur beindi hann alltaf sjónum að hinu mikilvæga, því sem er forsenda, ástæða, samhengi og markmið lífsins og Guðs. Og Jesús minnir á að sum þeirra sem þykjast vera hans vinir, boðberar og málsvarar eru svikarar. Spyrjið um gæði og árangur er ráð Jesú.

Verslunin Silli og Valdi notaði slagorðið úr fjallræðunni og texta dagsins: Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá. Og Jesús var ekki að tala um epli, appelsínur, krækiber og bláber – heldur um tengslin við Guð, ástina til Guðs, kærleika til manna og trúmennsku til gilda. Þar greinir á milli þeirra sem segja satt og lygaranna. Falsspámenn eru öll þau sem smækka sannleikann og brengla veröldina. Og þegar dýpst er skoðað búa falsspámenn í okkur öllum.

Traust krefst sannleika

Hvernig líður þér með þeim sem segja satt? Líður þér ekki betur, ertu ekki öruggari og heilli þegar þú ert innan um fólk sem þú þekkir að segir satt? Skapast ekki traust þegar þú veist að allt er heilt og þú ert ekki leiksoppur eða fólk reynir að nota þig? Getur traust lifað þar sem lygin dafnar? Nei, aðeins þar sem sannleikurinn ríkir, heilindin. Gosa nei takk. Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá – þekkja mig og þig.

Amen

Neskirkja 10. ágúst, 2014

Textaröð: A

Lexía: Jer 23.16-18, 20-21


Svo segir Drottinn hersveitanna:
 Hlustið ekki á orð spámannanna.
 Þeir flytja yður boðskap
en þeir blekkja yður,
 þeir flytja uppspunnar sýnir
og ekki af vörum Drottins.
 Þeir segja sífellt við þá sem fyrirlíta orð Drottins: 
„Þér hljótið heill.“ 
Og við hvern sem fylgir þverúð eigin hugar segja þeir: 
„Engin ógæfa kemur yfir yður.“ 
En hver hefur staðið í ráði Drottins, 
séð hann og heyrt orð hans? 
Hver hefur hlýtt á orð hans og boðað það?

Reiði Drottins slotar ekki
 fyrr en hann hefur framkvæmt og fullkomnað
 fyrirætlanir hjarta síns.
 Síðar meir munuð þér skilja það.
 Ég sendi ekki þessa spámenn,
 samt hlaupa þeir,
 ég talaði ekki til þeirra,
 samt spá þeir.

Pistill: Róm 8.12-17

Þannig erum við, systkin,
í skuld, ekki við eigin hyggju
 að við skyldum lúta henni því að ef þið gerið það munuð þið deyja. En ef þið látið anda Guðs deyða gjörðir sjálfshyggjunnar
 munuð þið lifa. Allir sem leiðast af anda Guðs eru Guðs börn. Þið hafið ekki fengið anda sem hneppir í þrældóm og leiðir aftur til hræðslu. Þið hafið fengið þann anda sem gerir mann að barni Guðs. Í þeim anda áköllum við: „Abba, faðir.“ Sjálfur andinn vitnar með anda okkar að við erum Guðs börn. En ef við erum börn erum við líka erfingjar og það erfingjar Guðs en samarfar Krists því að við líðum með honum til þess að við verðum einnig vegsamleg með honum.

Guðspjall: Matt 7.15-23

Varist falsspámenn. Þeir koma til yðar í sauðaklæðum en innra eru þeir gráðugir vargar. Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá. Hvort lesa menn vínber af þyrnum eða fíkjur af þistlum? Þannig ber sérhvert gott tré góða ávöxtu en slæmt tré vonda. Gott tré getur ekki borið vonda ávöxtu, ekki heldur slæmt tré góða ávöxtu. Hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og því í eld kastað. Af ávöxtum þeirra skuluð þér því þekkja þá.

Ekki mun hver sá sem segir við mig: Drottinn, Drottinn, ganga inn í himnaríki heldur sá einn er gerir vilja föður míns sem er á himnum.

Margir munu segja við mig á þeim degi: Drottinn, Drottinn, höfum vér ekki í þínu nafni flutt orð Guðs, rekið út illa anda og gert mörg kraftaverk? Þá mun ég votta þetta: Aldrei þekkti ég yður. Farið frá mér, illgjörðamenn.

Tekex og ansjósur

Í vetur barst fjölskyldu minni beiðni um húsaskipti. Hjón á norður-Spáni vildu gjarnan fá húsið okkar lánað í júlí og bílinn okkar líka. Það hefur verið meginregla okkar að fara ekki utan sumarmánuðina – vegna dásemdar hins íslenska sumars. En húsið, sem okkur stóð til boða ytra, var svo stórkostlegt og Cantabriu-svæðið það áhugavert að við slógum til og skiptumst á húsum og bílum. Íbúðarhúsið og Norður Spánn voru umfram allar okkar vonir. Þessi hluti Spánar er grænn og menningin á svæðinu er gömul, þykk og hrífandi. Aðbúnaður okkar var dásamlegur og við nutum sólar, birtu og blessunar. Við lifðum að hætti innfæddra og fórum oft út að borða. Fjölbreytilegt sjávarfang, kjöt og maturinn á norður Spáni hugnaðist okkur sælkerunum.

Einn daginn fórum við á veitingastað frægasta hótels Santanderborgar, sem hefur löngum hefur verið sumardvalarsvæði spænsku konungsfjölskyldunnar. Hótelið heitir Hótel Real og það merkir konungshótel. Og það er eiginlega hótel Borg þeirra í Santander, virðulegt og fínt. Svo er það einnig kennileiti í borginni, sést langt að og ber við himin eins og Hallgrímskirkja. Drengjunum mínum þótti hótelið minna á Titanic – með gömlum yfirstéttarstíll. Við höfðum lesið í veitingahúsayfirliti að matreiðslan væri góð og vissum ekki betur en matargerðin væri nútímaleg. Svo renndum við yfir matseðlana og pöntuðum. Meðan við biðum nutum við útsýnis yfir Santanderflóa, sem hefur verið mikilvæg skipahöfn allt frá tíð Rómverja. Og enn eru skip á ferð, stór og smá, seglskip og risafraktarar.

Svo kom fyrsti réttur og við undruðumst. Allir við borðið fengu tekex og smjör. Hvorki fyrr né síðar hef ég fengið tekex í forrétt í kvöldmat. Tekex fær maður helst í Englandi og þá fremur í morgunmat. Við smurðum hlýðin okkar kex og bárum að munni. Venjulegt tekexbragð og smjörið var venjulegt einnig og án nokkurrar bagðkúnstar. Jæja, mig fór að gruna að máltíðin gæti orðið með öðru móti en ég hafði ímyndað mér. Svo kom næsti réttur. Virðulegur þjónninn -uppáklæddur og hefði sómt sér vel í öllum betri hótelum heimsins – stikaði inn í salinn með disk á lofti. „Hvað kemur nú?“ spurði ég sjálfan mig. Undrunarhljóð hljómuðu frá okkur borðfélögum, sumir brostu og aðrir hlógu. Á fallegum diskinum, sem var lagður fyrir framan mig, var grá sardínudós á saltbing. Nakin sardínudós, enginn miði límdur á hana, sem upplýsti nokkuð um innihaldið. En ljóst var að lokið var laust og hægt að kippa því af dósinni. Og ég lyfti því og allir biðu spenntir eftir innihaldinu. Þar voru ekki sardínur í olíu eins og við þekkjum heldur ein flökuð og maríneruð ansjósa, sem synti í ólífuolíu. Þetta var mjög fyndið, borðfélagarnir hlógu og ég var hissa en naut matarins. Svo hélt máltíðin áfram, við vissum að þetta yrði furðumatur og ákváðum að njóta og upplifa. Og furðumatur var þetta, retróveisla og ártalið hefði allt eins getað verið 1935.

Hvað gerir gott?

Matarstíllinn var óvæntur og matargerð tengd öðrum tíma. Því varð þetta sérstæð reynsla. Í stað þess að fara í miðaldaveislu eins og í Skálholti, Tallin eða í Noregi, lentum við óvænt í tímatengdri máltíð, sem var allt öðru vísi en við áttum von á, eiginlega millistríðsáramatur. Það var sérstætt, eftirminnilegt og öðru vísi og varð mér til íhugunar og hefur haldið áfram að vekja mér þanka. Hvað er nútímamatur, hvað er gamaldags, hvað úreldist og hvað er skapandi? Af hverju nærist þú svo þú opnir, undrist, breytist og eflist? Hvað gerir þér gott?

Og dýpsta spurningin er: Hvað gefur líf og er til lífs?

Till lífs fyrir alla

Þá erum við komin að íhugun dagsins í guðspjallinu. Hópur af fólki samankominn og matarþurfi. Svo var borin fram máltíð sem varð eftirminnileg.

Íhugunarefni biblíunnar eru fremur um hvað viðburður merki fremur en um hvernig hlutir gerist eða hvaða aðferð sé notuð. Hvernig hægt var að metta mannfjölda er ekki það sem texti dagsins fjallar um heldur hvað máltíðin merkti. Hér er það sem endranær í biblíunni að hug er beint að merkingu fremur en aðferð, inntaki fremur en hinu ytra.

Brauð var brotið og Jesús notaði tækifærið til að minna nærstadda á hver gæfi brauð, hvaðan það kæmi og hvað það merkti. Í palestínsku samhengi var hveitiræktin mál lífsins og brauð tákn um lífsgæði. Þegar kornuppsprettan brást var vá fyrir dyrum og allir sultu. En þegar kornakrar náðu þroska var víst að allir myndu njóta næringar og lífið lifði. Því var gestrisni svo mikils metin, samfélagssamtaðan svo mikilvæg. Jesús reisti sér ekki minnisvarða af grjóti eða með hernaðarsigrum, heldur vildi að fólkið hans nyti matar – og gæfi öðrum með sér. Því eru ölturu í kirkjum og þau minna á að allir þarfnast næringar, ekki aðeins andlegrar heldur líkamlegrar einnig, venjulegrar fæðu, t.d. brauðs, fisks sem og annars sem gerir manninum gott. Að allir njóti gæða er hinn kristni boðskapur inn í aðstæður stríðs og átaka fyrir botni Miðjarðarhafs. Allir eiga að njóta brauðs, líka börn á Gasa. Og það merkir að þau eiga að njóta friðar, öryggis, gæsku og lands. Svo róttækur er boðskapur kristninnar og svo árangurstengt er það líf sem okkur er boðið að lifa.

Hvað gerir þér gott? Alveg áreiðanlega fjölbreytilegt fæði og í hæfilegum skömmtum – jafnvel líka tekex og ansjósa úr dós. Svo er það hin fæðan, t.d. tengsl við fólk, tilfinninganæring, líkamleg hreyfing, gæfa í tengslum og vinnu, að einhver sjái þig og meti, brosi við þér og segi þér að þú sért mikils virði, nýt eða nýtur. Hvað gerir þér gott? Hvers þarfnast þú?

Breyting til góðs

Reynslan í konungshótelinu í Santander var reynsla hins óvænta. Öðru vísi matur en við áttum von á. Og það minnti mig á að við megum gjarnan opna fyrir hið óvænta. Við getum skipulagt lífið svo algerlega að ekkert nýtt komist að og þá erum við byrjuð að deyja. En líf verður ekki gjöfult ef það er lokað í kerfi og fryst í ferla. Líf þitt má vera stöðug verðandi og opnun til framtíðar. Þannig er lífið, sem Guð gefur. Hvað gerir þér gott? Eru það nýjar hugsanir? Máttu leyfa þér að breytast? Getur þú breyst til góðs? Er eitthvað sem þú mátt hætta og úskrifa úr þínu lífi? Einhver löstur og eitthvað, sem þú vilt eða þarft að sleppa? Sorg, harmur, glötuð tengsl, horfin ást, samband, efni, vinna, hlutir, upplifanir – eitthvað sem þú dregur á eftir þér og verður þér lífshemill? Hvað geir þér gott og verður þér til næringar?

Gerir þú gott?

Svo er það hin víddin sem er hin hlið sama máls. Hvað getur þú gert til að aðrir njóti upplifunnar til lífs? Hvað getur þú gert öðrum svo fólk vakni til lífs og gæða? Getur þú sagt eitthvað jákvætt og nærandi við samferðafólk þitt og ástvini? Getur þú bakað brauð og fært einhverjum syrgjandi, einmana eða þurfandi? Getur þú umlukið einhver með kærleiksríkum bænum? Þú verður aldrei lífgjafi fólks og þarft ekki að gera kraftaverk sem Guð getur. En öll erum við farvegir lífsins gagnvart öðrum. Öll getum við fært öðrum eitthvað sem verður þeim til góðs, næringar, jákvæðar tilfinningar og hlýju. Við getum öll tamið okkur að segja eitthvað jákvætt við samferðafólk okkar í stað þess að kvarta og nöldra. Það eru líka fiskar og brauð fyrir fólk, körfur sem við erum send með til fólks heimsins.

Þessi dagur, þessi helgi og þessi mánuður er tími fyrir veislu himinsins. Þér er ekki aðeins boðið til þjóðhátíðar heldur veislu himinsins sem þú mátt njóta og miðla. Og vittu til: Þér er boðið að breytast, eflast og stækka. Af hverju? Þannig er Guð, sem elskar að magna lífið og smitar anda elskunnar til allra.

Neskirkja, verslunarmannahelgi, 3. ágúst, 2014.

Textaröð: A

Lexía: Slm 147.1-11


Hallelúja.
 Gott er að syngja Guði vorum lof.
 Það er yndislegt, honum hæfir lofsöngur.
 Drottinn endurreisir Jerúsalem,
safnar saman hinum tvístruðu Ísraels. 
Hann græðir þá sem hafa sundurkramið hjarta 
og bindur um benjar þeirra.
 Hann ákveður tölu stjarnanna, 
nefnir þær allar með nafni. 
Mikill er Drottinn vor og voldugur í mætti sínum,
speki hans ómælanleg.
 Drottinn styður hjálparlausa
 en óguðlega fellir hann til jarðar. 
Syngið Drottni þakkargjörð, 
leikið fyrir Guði vorum á gígju.
 Hann hylur himininn skýjum, 
sér jörðinni fyrir regni,
 lætur gras spretta á fjöllunum, 
gefur skepnunum fóður þeirra, 
hrafnsungunum þegar þeir krunka.
 Hann hefur ekki mætur á styrk hestsins,
 hrífst ekki af fráum fótum mannsins.
 Drottinn hefur þóknun á þeim sem óttast hann,
 þeim sem setja von sína á miskunn hans.

Pistill: 2Kor 9.8-12


Guð er þess megnugur að veita ykkur ríkulega allar góðar gjafir til þess að þið í öllu og ávallt hafið allt sem þið þarfnist og getið sjálf veitt ríkulega til allra góðra verka. Eins og ritað er: Hann miðlaði mildilega, gaf hinum snauðu, réttlæti hans varir að eilífu.

Guð sem gefur sáðmanninum sæði og brauð til fæðu mun og gefa ykkur sáð og margfalda það og auka ávöxt réttlætis ykkar. Guð mun auðga ykkur í öllu svo að þið getið jafnan sýnt örlæti. Þá munu margir þakka Guði fyrir gjafirnar sem við komum með frá ykkur. Því að þessi þjónusta, sem þið innið af hendi, bætir ekki aðeins úr skorti hinna heilögu heldur leiðir hún einnig til þess að margir menn þakka Guði.

Guðspjall: Mrk 8.1-9


Um þessar mundir bar enn svo við að mikill mannfjöldi var saman kominn og hafði ekkert til matar. Jesús kallar þá til sín lærisveinana og segir við þá: „Ég kenni í brjósti um mannfjöldann. Menn hafa nú verið hjá mér þrjá daga og hafa ekkert til matar. Láti ég þá fara fastandi heim til sín örmagnast þeir á leiðinni en sumir þeirra eru langt að. “
Þá svöruðu lærisveinarnir: „Hvar er hægt að fá brauð til að metta þetta fólk hér í óbyggðum?“
 Hann spurði þá: „Hve mörg brauð hafið þið?“ 
Þeir sögðu: „Sjö. “
Þá bauð Jesús fólkinu að setjast á jörðina, tók brauðin sjö, gerði þakkir og braut þau og gaf lærisveinum sínum að þeir bæru þau fram. En þeir báru þau fram fyrir fólkið. Þeir höfðu og fáeina smáfiska. Hann bað Guð að blessa þá og bauð að einnig þeir skyldu bornir fram. Menn neyttu og urðu mettir. Síðan tóku lærisveinarnir saman leifarnar, sjö körfur. En þar voru um fjögur þúsund manns. Síðan lét hann fólkið fara.

Í ofsa og ógn

Páll og strandHvað tekur kórfélagi með sér í upphitun fyrir messu? Í morgun sá ég að einn tók með sér bangsann sinn. Það hef ég ekki séð fyrr! En þau sem syngja í Neskirkju í dag eru ung að árum – sum mjög ung. Tveir barnakórar syngja, annar er Barnakór Neskirkju en hinn er frá Friðriksbergskirkjunni í miðborg Kaupmannahafnar. Danski kórinn er komin hingað vegna þess að Selma bjó einu sinni á Tómasarhaga og mikill samgangur var milli hennar fjölskyldu og minnar. En nú býr hún og fjölskylda hennar í Kaupmannahöfn og Selma syngur í Fredriksbergkirke Juniorkor. Þegar við, fjölskylda mín, vorum á ferð í Kaupmannahöfn, var okkur boðið að hlusta á kórinn syngja í kirkjunni. Þá kviknaði hugmyndin að hópurinn heimsækti Ísland. Nú eru þau komin, gista í kjallara Neskirkju, syngja í messu og á nokkrum stöðum höfuðborgarsvæðinu. Þau syngja um lífið, eilífðina og fegurðina. Bangsinn fær að vera með – á æfingu – og okkar eigin kór svarar með söngvum af sama tagi.

Það er dásamlegt að söngvar unga fólksins – raddir framtíðar – hljómi á sjómannadegi eftir kosningar – söngur um líf og von. Lítil stúlka með bangsann sinn á leið inn í kirkju er tákn um mannkyn í þörf fyrir öryggi. Dramatískir biblíutextar dagsins minna á að í lífi er Guð er alltaf nærri.

Guð – líka á kantinum

Í pistli sjómannadagsins er sagt frá viðburðaríkri ferð Páls postula. Hann var á ferð við eyjuna Krít. Hann hafði reyndar illan bifur á íbúum hennar. Fram kemur t.d. í fyrra bréfi hans til Tímótesuar þessi óskaplega umsögn: „Krítarmenn eru síljúgandi, óargadýr og letimagar!“ Og gott fólk – þetta stendur í Biblíunni! En Páll átti ekki sökótt við Kríteyinga í þetta sinn. Hann var fangi Rómverja og um borð í rómversku skipi. Páll var vanur að fara beint á torgin til að tala um Jesú Krist, mesta kraftaverk heimsins. Þess vegna var honum oft kastað í fangelsi. Enn á ný var hann dreginn fyrir dóm, en vegna stöðu sinnar sem rómverskur borgari átti að senda hann til Rómar. Veðurofsi skall á, magnaður af krítverskum snæfjöllum. Allt virtist stefna á versta veg. En Páll var draumamaður, svefnmyndirnar voru farvegur í boðmiðlun milli himins og hans. Hann hóf upp raust sína að morgni, talaði spádóms- og huggunarorð, talaði kjark í áhöfn og lagði til góð ráð og stefnu. Mark var tekið á orðum hans og því fórst enginn þegar skipið strandaði.

Þessi magnþrungna saga í 27. og 28. kafla Postulasögunnar er merkileg og inntaksrík. Þetta er lítil saga af stóru skipi, fjölmennri áhöfn og úr öllum heimshornum hins þekkta heims þeirrar tíðar. Skip á siglingu frá útkjálka og á leið til miðjunnar í Róm. Sagan er smámynd um stóran heim. Í hættunni hljómar boðskapurinn um björgun.

Hver biblíutexti á sér eigin rök og eigin merkingu. En síðan hefur hver lesari möguleika á að lesa með nýjum augum, frá öðrum sjónarhól, með nýjum gleraugum, ekki til að afskræma merkingu textans, heldur til að nýta hann til andlegs fóðurs. Biblíutextar eru máltíð með dásamlegum desert – bónus til lífs. Hægt er að sjá í mynd Páls kristniboðann, sem má verða okkur fyrirmynd um siðferðisstyrk og siðvit. Hann er fordæmi um samskipti kristins manns og samfélagsábyrgð. En við getum dregið lærdóminn lengra og séð allan heim speglast í þessu sögulega og biblíulega sjávarlöðri.

Einstaklingar og samfélög lenda í raunum. Enginn maður hefur lifað án átaka. Í sögunni um Pál kemur fram að í sjávarháskanum hafi mönnum fyrst dottið í hug að drepa fangana. En það er þó einn fanganna sem sér lausnina, leysir vandann og talar máli lífsins. Þannig er það oft. Í háska bregðast valdsmenn oft og björgun verður með óvæntu móti – að neðan. Í sögu dagsins – pistlinum – eru það fangarnir sem bjarga þeim sem gæta þeirra. Þannig starfar Guð gjarnan. Guð starfar ekki aðeins með viðurkenndum lögum og kerfistækni heldur opnar lífið, hjálpar með óvæntu móti og með hjálp hinna vanmetnu. Guð er líka neðst, á kantinum og meðal hinna fyrirlitnu. Hjálpin er að handan og verður til góðs ef menn opna í auðmýkt og virða heilagleika fólks og lífs. Sagan er þrungin merkingu og er til íhugunar.

Sjórinn

Já, í dag er sjómannadagur – merkilegur dagur sem minnir okkur á upphaf okkar Íslendinga, lífsbaráttu fólksins okkar og þjóðar. Við erum flest komin af sjósóknurum. Sjávarútvegur hefur verið Íslendingum mikilvægur og mun verða meðan menn spilla ekki lífríkinu. Hafið gaf og hafið tók – fæstar þjóðir í veröldinni hafa tapað eins mörgum hlutfallslega í stríðum og Íslendingar í glímunni við sjóinn. Neskirkjuglugginn – Stóribláinn – sem varpar lit á kórvegginn á sólardögum minnir á lífsbaráttu fólk við sjávarsíðuna, sjósóknina, lífsbjörgina og stóran himinn sem umlykur allt, allan heiminn og lífið.

Úrslitin

Svo er þetta dagurinn eftir kosningar. Margir hafa stundað atkvæðaveiðar síðustu vikurnar, reynt að skýra mál sín til að afla atkvæða til stuðnings. Stjórnmál er ein tegund útgerðar. Pólitíkin er mikilvæg og á að þjóna því göfuga markmiði að stýra málum samfélags til réttlætis og farsældar. Nú er dómur fallinn – hvort sem hann hugnast mönnum eða ekki. Síðan er að vinna úr og stýra vel og vinna úr aflanum til lífs.

Skip kirkjunnar

Í kirkjum eru oft skipstákn og við tölum um kirkjuskip. Í mörgum kirkjum heimsins eru skip hengd upp til að minna á að við erum fólk á ferð, við erum á siglingu frá tíma og inn í eilífð. Við erum á ferð – með bangsann okkar – þrána eftir öryggi og blessun sem Guð einn getur í raun gefið. Jesús Kristur lét sig fólk varða, kallaði til lífs og gleði og lofaði að vera með hvað sem kæmi fyrir. Pólitík, óveður, sjómennska, söngur og samskipti eru mál sem varða Guð. Hann vill vera með og býður alltaf til veislu.

Þegar Páll lenti í sjávarháska við Krít bauð hann til máltíðar, gerði sjálfur þakkir og braut brauðið. Þekkir þú orðalagið – þekkir þú aðferðina og gjöfina? Og þá erum við í skyndi komin heim, að altarinu, að borði Drottins, hingað. Við erum komin með þrá okkar um velferð, vináttu og öryggi. Um allan heim brjóta menn brauð, í snarvitlausu umhverfi, óskaplegum aðstæðum – undir góðri stjórn eða vondri og tjá með þessari táknathöfn að Guð kemur til manna, blessar og bjargar.

Textaröð: A

Lexía: Slm 107.1-2, 20-31

Þakkið Drottni því að hann er góður,
 því að miskunn hans varir að eilífu.
 Svo skulu hinir endurleystu Drottins segja,
 þeir er hann hefur leyst úr nauðum sendi orð sitt og læknaði þá
og bjargaði þeim frá gröfinni. 
Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans 
og dásemdarverk hans við mannanna börn,
 færa honum þakkarfórnir
og segja frá verkum hans með fögnuði. 
Þeir sem fóru um hafið á skipum 
og ráku verslun á hinum miklu höfum
 sáu verk Drottins 
og dásemdarverk hans á djúpinu.
 Því að hann bauð og þá kom stormviðri 
sem hóf upp öldur hafsins. 
Þeir hófust til himins, hnigu í djúpið,
 og þeim féllst hugur í háskanum. 
Þeir skjögruðu og reikuðu eins og drukkinn maður 
og kunnátta þeirra kom að engu haldi. 
Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni
 og hann bjargaði þeim úr þrengingum þeirra.
 Hann breytti storminum í blíðan blæ 
og öldur hafsins lægði. 
Þeir glöddust þegar þær kyrrðust 
og hann leiddi þá til þeirrar hafnar sem þeir þráðu.
 Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans 
og dásemdarverk hans við mannanna börn,

Pistill: Post 27.13-15, 20-25


Nú rann á hægur sunnanvindur. Hugðust þeir þá hafa ráð þetta í hendi sér, léttu akkerum og sigldu fram með Krít nærri landi. En áður en langt leið skall á af landi ofan fárviðri, hinn illræmdi landnyrðingur. Skipið hrakti og varð því ekki beitt upp í vindinn. Slógum við undan og létum reka.

Dögum saman sá hvorki til sólar né stjarna og ekkert lát varð á ofviðrinu. Tók þá að þrjóta öll von um að við kæmumst af. 
Nú höfðu menn lengi einskis matar neytt. Þá stóð Páll upp meðal þeirra og mælti: „Góðir menn, þið hefðuð átt að hlíta mínu ráði og leggja ekki út frá Krít. Þá hefðuð þið komist hjá hrakningum þessum og tjóni. En nú hvet ég ykkur til að vera vonglaðir því enginn ykkar mun lífi týna en skipið mun farast. Því að á þessari nóttu stóð hjá mér engill þess Guðs sem ég heyri til og þjóna og mælti: Óttast þú eigi, Páll, fyrir keisarann átt þú að koma. Guð hefur gefið þér alla þá sem þér eru samskipa. Verið því vonglaðir, góðir menn. Ég treysti Guði, að svo muni fara sem við mig hefur verið mælt.

Guðspjall: Matt 8.23-27


Nú fór Jesús í bátinn og lærisveinar hans fylgdu honum. Þá gerði svo mikið veður á vatninu að bylgjurnar gengu yfir bátinn. En Jesús svaf. Þeir fara til, vekja hann og segja: „Drottinn, bjarga okkur, við förumst.“
Hann sagði við þá: „Hví eruð þið hræddir, þið trúlitlir?“ Síðan reis hann upp, hastaði á vindinn og vatnið og varð stillilogn.
Mennirnir undruðust og sögðu: „Hvílíkur maður er þetta? Jafnvel vindar og vatn hlýða honum.“