Greinasafn fyrir merki: minta

Bökuð hrísgrjón, minta, granatepli, feta og ólífusalsa

Hrísgrjón eru jafnan betri bökuð en soðin og hrísgrjónabökun heppnast oftast.  Bragðið er fíngert en fágað og því er réttara að velja sósu með af vandvirkni. Ég eldaði þennan rétt um síðustu jól og hann var dásamlegur og svo aftur nú eftir páska og þá var Jón Kristján, dugmikill hjálparkokkur. Rétturinn, sem er frá Ottolenghi, er fagur og hægt að bera fram með alls konar meðlæti, grænmeti, kjötrétttum eða fiski.

Fyrir sex.

Hráefni

400 gr basmatihrísgjón

50 gr smjör

800 ml sjóðandi vatn

40 gr minta

150 gr fetaostur – skorinn í 1 cm bita

Salt og pipar

Salsa

50 gr grænar ólífur, þunnt skornar

1 granatepli – fræ úr einum ávexti – ca 90 gr

50 gr valhnetur, saxaðar og þurrristaðar lítillega á pönnu

3 msk ólífuolía

1 tsk sæta (t.d. stevía eða hunang)

10 gr minta

2 hvítlauksrif – marin

Matreiðslan

1 Forhita ofninn í 230°C

2 Setja hrísgrjónin í fat með háum köntum. Krydda með ca 1 tsk af maldonsalti og pipar. Hella vatninu yfir og koma smjörinu fyrir líka. Raðið mintunni yfir og lokið með álpappír (eða loki fatsins ef það er til). Setja í ofninn og baka í 25 mínútur eða þar til hrísgrjónin eru fullbökuð og vökvinn að mestu horfinn úr botninum.

3 Útbúa salsað – en bíða með að setja mintuna yfir.

4 Taka hrísgrjónin úr ofninum fullbökuð. Taka burt álþynnuna (lokið). Taka mintuna af, henda stilkunum en nota mintublöðin og setja yfir réttinn. Smella fetaostinum yfir hríusgrjónin og salsað þar yfir. Svo er afgangnum af mintunni dreift yfir.

Bera fram heitt og ráð að njóta þessa augnayndis og bragðgæðanna – og vert að þakka fyrir.

Borðbænina samdi Sigurður Ægisson, Siglufjarðarprestur:

Þökk fyrir matinn, Guð minn góður.

Gefðu að hverri systur, bróður,

sem að hér gengur út og inn

ávallt hann bendi’ á kærleik þinn.

Verði ykkur að góðu.

Myntuhlaup

Við ræktum myntu í garðinum. Hún vex frábærlega vel, skýtur öngum í allar áttir og er fjölær. Það var því eins gott að finna einhverja aðra notkun en tilfallandi kryddun og te-uppáhellingu. Myntuhlaup er ljómandi gott t.d. með steiktu lambakjöti eða ofan á brauð. Það er líka gaman að vinna hlaupið, setja það í litlar krukkur og gæða sér á því með lambinu. Myntuhlaup er tilvalið til gjafa og þmt. jólagjafa!

1 kg græn epli eða 6 stykki

1 dl vatn

1/2 bolli sítrónusafi

2  1/2 bolli myntublöð

1/2 bolli fínsöxuð myntublöð

2/3 bolli sykur á móti hverjum bolla safa

Þvoðið eplin og skerið í sneiðar. Merjið stærstu eplabitana. Setjið eplin, vatnið, sítrónusafann  og heilu myntulaufin í stóran þykkbotna pott. Látið suðuna koma upp, minnkið hitan og setjið lok á og sjóðið 10  – 15 mín.

Hellið blöndunni í gegnum sigti í skál og náið safanum úr blöndunni. Geymið í kæli yfir nótt. Hendið hratinu. 

Mælið síaða safann  og setjið aftur í pott. Fyrir hvern bolla af safa setjið 2/3 bolla sykur. Hræra skal í blöndunni við vægan hita án þess að láta suðuna koma upp þar til sykurinn er allveg uppleystur. Látið þá suðuna koma upp og sjóðið í 20 mín við vægan hita.

Bætið fínt söxuðu myntunni út í og hrærið vel. Taka pottinn af hellunni og látið standa í 5 mínútur. Hellið í sótthreinsaðar, volgar litlar krukkur og loka skal vel þegar vökvinn er farinn að kólna. Njóta á köldum vetrarhelgum með vel hvítlauksstungnu lambakjöti!