#Metoo

Myllumerki og metoo er tákn fyrir þær sögur, sem sagðar eru um kynferðilega áreitni og ofbeldi. Miklar umræður urðu um ofbeldi gegn konum í forsetakosningum í Bandaríkjunum árið 2016 og skerptu athygli fólks og fjölmiðla á víðtækum vanda. Og svo var það Harvey Weinstein, trölli í kvennaheimum Hollywood. Fæstir töldu mögulegt að snúast gegn kvikmyndapáfanum því hann var svo valdamikill og stýrði að auki her spæjara og stjörnulögmanna. En upplýsingarnar um dólginn söfnuðust upp og New York Times var tilbúið að sýna sorann. Fréttirnar voru svo rosalegar að það var eins hamfarir hefðu orðið. Valdakerfið og þagnarmúrinn í kringum þetta kynferðislega rándýr féll. Upplýsingarnar um atferli mannsins, aðstoðarmenn hans og rotinn menningarkima voru hörmulegar. Í ljós kom að í kringum Weinstein var fjöldi fólks sem þagði. Þau vildu ekki eða þorðu ekki að mótmæla ofbeldinu sem allir vissu þó um. Gerendur eru sekir, en hvað um hin? Eru þau, sem þegja saklaus eða meðsek?

Dólgurinn féll og bylgja reis. 15. október síðastliðinn hvatti Alyssa Milano konur á twitter til að segja frá ofbeldi og nota #metoo. Á nokkrum dögum varð til heimshreyfing. Allt í einu fengu konur vettvang til að tala og segja reynslusögur sínar. Þær gátu allt í einu sagt frá káfi, orðasora, áreitni og kynferðisofbeldi. Þessar sögur um er stærsti sagnabálkur ársins. Sannar sögur samtímans og samfélagsmiðlarnir loguðu. Konurnar sem byrjuðu #metoo eru persónur Time þetta árið og stíliseruð myndin á forsíðu tímaritisins er táknræn.

Um allan vestrænan heim hafa hryllingssögur úr raunheimum verið sagðar, sögur um rándýr í stjórnmálum, vísindasamfélaginu, réttargæslukerfinu, listaheiminum, íþróttahreyfingunni og öðrum menningarhópum. Vargarnir, margir karlkyns en líka kvenkyns, eru alls staðar, í líka í góðgerðarfélögum og trúfélögum. Þolendur eru konur, börn, líka karlar, þau sem standa höllum fæti gagnvart einhvers konar valdi, sem gerendur notfæra sér. Hver á sökina: Gerendur eða þolendur? Og hvað svo?

Réttlæti er mál trúar

Á aðventu er skoðað hvað er gott og hvað vont. Aðventa er að vænta þess sem Guð er og Guð megnar. Það er fagnarefnið – dásemdin. Við væntum hins góða og því er aðventan hreinsunartími – undirbúningstími. Það kemur fram í textum kirkjunnar á þessum tíma. Jesús minnir okkur á að huga að breytingu í tíma, vorkomunni. Og þessi texti er lesinn um miðjan vetur. Í lexíu dagsins er minnt á, að gott mannfélag virðir réttlæti. Réttlæti og friður eru systur. Þegar þær dafna ríkir jafnvægi kraftanna. Börnin leika sér við holu nöðrunnar og stinga hendi inn í bæli höggormsins. Enginn gerir illt því að allt landið verður fullt af þekkingu á Drottni“ segir þar.

Hvernig er samfélag okkar? Eru engin stungin af nöðrum og höggormum? Jú, mörg eru áreitt, misnotuð og verða fyrir yfirgangi eða ofbeldi. Og það varðar trú og gott mannlíf. Margir karlkyns prestar og djáknar í þjóðkirkjunni hafa sent frá sér yfirlýsingu gegn áreitni og ofbeldisseggjum. Konur í hugbúnaðar- og auglýsingageiranum eru sama sinnis. Á fimmtudaginn síðasta birtu 333 konur í Kítón, félagi kvenna í tónlist yfirlýsingu um að þær vilji fá að vinna vinnu sína án áreitni, ofbeldis eða mismununar. Um liðna helgi tjáði Steinunn Valdís Óskarsdóttir, að nafgreindir Íslendingar hefðu hvatt til að henni yrði nauðgað. Ekkert var gert í málinu á sínum tíma, dólgarnir voru ekki dregnir til ábyrgðar en hún og fjölskylda hennar urðu þolendur.

Flestum þykir áreitni og ofbeldi vera alvörumál, sem sporna verði við. En spyrja má: Hvernig tengist það trú, kirkju og aðventu? Og svarið er einfalt: Trú og kirkja standa með þolendum. Það er skilgreiningaratriði kristninnar, að Guð sér þolendur, kemur og hjálpar. Fólk, sem játar kristna trú, lætur sig alltaf varða heill og hamingju fólks. Trú er ekki og má aldrei vera flótti frá lífinu. Trú er og á að vera stefna til lífs og fyrir líf. Trú, sem ekki lætur sig fórnarlömb varða, er sjúk trú og á flótta bæði frá Guði og mönnum.

Spámenn gamla testamentisins voru óþreytandi að benda á, að heill samfélagsins væri mál trúar. Trú skv. þeirra boðskap var samfélagsmál. Jesús Kristur sá alltaf einstaklinga og beitti sér í þágu barna og kvenna – allra. Hann tók sér stöðu með þeim, sem hallað var á. Ef þú ert efins skaltu lesa sögu hans um miskunnsama Samverjann. Trúin á Jesú Krist leitar þolenda og stendur með þeim gegn ofbeldismönnum. Ef þú efast skaltu lesa Nýja testamentið.

Skuggaverur í mannheimum

#Metoo leitar á huga margra okkar þessa aðventu. Já, við sem trúum á Guð eigum að standa með þolendum. Og hvað svo? Dólgarnir þykjast saklausir og axla sjaldnast ábyrgð. Þeir ljúga og halda áfram káfi, áreitni og sóðakjafti. En við viljum betra mannlíf. #Metoohreyfingin hefur ekki breytt heiminum enn, en hún hefur vakið athygli okkar allra á, að við verðum að standa gegn tröllunum. Dólgarnir eiga aldrei að vera óhultir í valdakerfum sínum og skúmaskotum. Eflum með okkur virðingu fyrir frelsi og gildi fólks. Þorum að ganga gegn fólki í valdastöðum sem brýtur af sér. Sviftum álögum af menningu okkar og samfélagi.

Hvers konar karlar virða ekki mörk kvenna og brjóta á þeim? Það eru ekki raunverulegir karlmenn heldur veikir menn, skuggamenn. Káf gegn vilja og kynferðisleg áreitni er merki um karlmennsku á villigötum. Dólgar eru ekki karlmenn heldur tröll. Jesús Kristur er fyrirmyndarkarl, sem virti konur, karla og börn. Hlutverk okkar í samtíð okkar er að hafna þeirri skuggakarlmennsku sem virðir ekki mennsku kvenna og mörk. Og við erum kölluð til að ala upp drengina okkar til ábyrgrar karlmennsku sem virðir mörk fólks.

Dólgshátturinn fer ekki í manngreinarálit. Það eru auðvitað til margar konur líka sem níðast á öðrum, konur í valdastöðu sem nota í eigin þágu hrædda og þjónustulipra. Slíkir vargar eru ekki heilar heldur skuggaverur.

Þessa síðustu mánuði þessa árs hefur #meeto orðið heimshreyfing, sem við eigum að taka alvarlega. Á aðventu er góður tími til að staldra við og hlusta og taka sögurnar alvarlega. Hvað svo: Það er mikilvægt að taka ákvörðun um hvort við ætlum framvegis að standa með Jesú og þolendum eða með dólgum, þöggun og meðvirkni. Í guðspjallinu minnir Jesú okkur á að gæta að lífsmerkjum. Guð kallar okkur til að standa með lífinu. Metoo-hreyfingin er hreyfing til lífs og í þágu lífs. Hvers væntum við? Aðventan minnir á að Guð kemur og kallar til lífs – hið innra – en líka í samfélagi okkar.

Amen.

Hugleiðing í Hallgrímskirkju, 10. desember, 2017. 2. sunnudag í aðventu. A-textaröð.

Til hvers aðventa?

Sex ára drengur sat í kirkju. Söngvar aðventunnar og jólaundirbúnings seitluðu inn í vitund hans. Og minnið brást honum ekki, textarnir frá því í fyrra komu úr sálargeymslunni og hann söng með. Barnakórarnir heilluðu líka alla í kirkjunni. Augu drengsins ljómuðu þegar hann sneri sér að mömmu sinni og sagði með barnslegri einlægni: “Mikið er gaman að lifa.” Mamman sagði mér svo frá þessari jákvæðu upplifun barnsins.

Aðventan er komin. Þessi tími sem er “bæði og” en líka “hvorki né.” Aðventan er samsettur tími, sem krefst ákvörðunar um hvað skal vera í forgangi. Álagið getur verið mikið og margt sem þarf að framkvæma fyrir jólin. Kröfur, sem fólk gerir til sjálfs sín og sinna á þessum tíma, geta verið miklar og úr hófi. Áður en þú druknar í verkum er ráð að þú staldrir við og spyrjir: “Til hvers? Má ekki sumt af þessu bíða? Er ekki allt í lagi að fresta því, sem er ekki alveg aðkallandi?” Á aðventu er ráð að muna eftir tvennunni: Að vera eða gera. Hvort er mikilvægara að lifa eða strita, klára verk eða njóta lífs, upplifa eða puða? Við prestar heyrum oft á fólki tala um við ævilok að dótið og eignirnar hafi ekki fært þeim djúptæka lífshamingju. Dýrmæti lífsins væri fólkið þeirra, maki, börn, barnabörn og vinir. Getur verið að á aðventu sé mikilvægast að vera með sjálfum sér, fólkinu sínu og vænta hins guðlega?

Veistu hvað aðventa þýðir? Orðið er komið af latneska orðinu adventus. Það merkir koma, að eitthvað kemur. Við, menn megum leyfa okkur að hlakka til og vona. Það er einn af undraþáttum lífsins að við megum í læstum aðstæðum vinna að því mál leysist, vænta að lausnin komi. Í aðkrepptum aðstæðum megum við vona að úr rætist, að inn í myrkar aðstæður nái ljós að skína.

Aðventan þarf ekki að vera puðtími heldur getur verið tími hins innri manns. Aðventan má vera tími eftirvæntingar þess að lífið verði undursamlegt. Boðskapur jólanna er um þá dásemd að allt verður gott. Og á aðventunni megum við undirbúa innri mann, skúra út hið óþarfa og vænta komu hins fagnaðarríka. Aðventan er tími til að núllstilla lífið til að við getum tekið við undri lífsins, að hið guðlega verði. Og við getum sagt við fólkið okkar, sem við elskum. Mikið er gaman að lifa.”

Helga Guðmundsdóttir +

„Og svo dönsum við dátt þá er gaman meðan dagur í austrinu rís. Og svo leiðumst við syngjandi saman út í sumarsins paradís.“

Þeir eru fallegir verðlaunaskildirnir sem Helga fékk fyrir dans. Og hún var góður og alhliða dansari. Hún kunni vel samkvæmisdansa og fékk verðlaun fyrir. Og svo voru suður-amerísku dansarnir. Hún kunni cha cha cha, rúmbu, samba og salsa. En svo kunni Helga líka tango sem er ekki á allra færi að útfæra með stæl. En hún fór yfir dansgólfið með þokka og lagði sitt til dansstjórnarinnar. Það þarf fimi, tilfinningu, góða líkamsvitund og vilja til að dansa vel. Helga hafði í sér getuna til að æfa sporin, þola æfingarnar og opna tilveruna fyrir takti, sveiflum, hljómum og öllum hinum sem voru á gólfinu. Og hún hélt áfram að bæta við og hafði gaman af ýmsum dansstílum, líka línudans, dansinum sem gengur víða undir nafninu square dance. Helga var m.a.s. í hópi sem dansaði þennan skemmtilega dans í kvikmyndinni Fúsi. Hún á sér því líka framhaldslíf í heimi kvikmynda.

Dans í lífinu. Líf með hreyfingu, líkamsfærni, fegurð hreyfingar, samstilling margra á stóru sviði fótmenntarinnar. Dans er eins og tákn fyrir allt hið fjölþætta sem við menn gerum. Við erum einstaklingar í hóp. Við verðum að taka tillit til annarra svo við hvorki rekumst á eða stígum ofan á tær eða fætur annarra. Það er eittvað heillandi við hinar öguðu hreyfingar og samhæfingu allrar manneskjunnar í flæði fjöldans. Við erum ekki aðeins stór efnishlunkur heldur verur margra vídda, með heyrn, sjón, tilfinningar og útlimi sem þarfnast samhæfingar. En svo eru alltaf einhver mörk á takti, rými, möguleikum, skynjun og færni. Hvað svo? Hvað er meira, hver er merking alls þess sem við gerum, erum, iðjum og hugsum? Þar mætum við stóru spurningum lífsins.

Jesús svaraði spurningum Tómasar um veginn og lífsferðina: „Ég er vegurinn sannleikurinn og lífið.“ Þar var taktur lífsins skilgreindur, samhengi og hvernig má vera og lifa. Vegurinn, sannleikurinn og lífið.

Ævistiklur

Helga var fædd í Reykjavík 23. febrúar árið 1942. Hún var eina barn hjónanna Guðrúnar Guðmundsdóttur (1920 – 2003) og Guðmundar Gestssonar (1914-93). Mamman var af Snæfellsnesi, frá Efri-Hlíð í Helgafellssveit, en pabbinn frá Miðdalskoti í Kjós. Móðir Helgu var heimavinnandi og Guðmundur var bifreiðastjóri. Helga átti annað nafn framan við Helgunafnið. Hún var nefnd og skírð Sigríður Helga en notaði Helgunafnið.

Helga var Reykjavíkurdama. Hún ólst upp í foreldrahúsum í Skipasundi, sem þá var líflegt og barnmargt úthverfi Reykjavíkur. Síðar fluttu þau í Hlíðargerði í Smáíbúðahverfi og þar var Helga á unglingsárunum. Helga bjó í foreldrahúsum við skýran og ákveðinn aga. Helgu gekk vel í skóla enda vel gerð, vel gefin, iðjusöm og ákveðin. Þegar hún hafði lokið skólagöngu fór hún að svipast um eftir vinnu. Að ráði varð að hún réðist til Mjölkursamsölunnar. Hún vissi að þar væri góður vinnumórall því faðir hennar vann hjá fyrirtækinu. Helgu leið vel á vinnustað og Mjólkursamsalan var vinnustaður hennar í mörg ár. Vinnufélagarnir voru glaðværir og gott samstarfsfólk. En svo langaði Helgu að breyta til og fór til sælgætisgerðarinnar Nóa-Síríus. Þar vann hún síðan í nokkur ár. Eftir það lá leið hennar aftur til baka til Mjólkursamsölunnar og vann m.a. lengi í ísgerð Samsölunnar. Helga vann svo á síðari árum einnig við þrif á skólahúsnæði Framtíðarinnar sem heitir Framvegis, miðstöð símenntunar.

Svo kom Guðmundur Vilbergsson hlaupandi inn í líf Helgu. Hún hafði farið með Þóru, vinkonu sinni á ball í bænum og þær voru á leið heim. Þær ætluðu að ná í leigubíl og sáu bíl álengdar í miðbænum. En svo vildi til að Guðmundur og Eggert Ólafsson, vinur hans, höfðu líka verið á balli og voru á heimleið. Og Guðmundur tók á rás til að ná leigubílnum og Eggert kom skokkandi á eftir. Svo þegar Guðmundur var búinn að festa sér bílinn komu stúlkurnar  – fremur brúnaþungar yfir þessum skorti á herramensku þeirra félaga. En á henni var þó enginn þurrð því þeir buðu dömunum að láta aka þeim heim. Og bílferðin var skemmtileg, þær heilluðust og létti reiðin yfir Guðmundarhlaupinu. Þær gerðu sér grein fyrir að þessum körlum var ekki alls varnað. Og svo urðu þau vinir, síðan pör og svo hjón.

Guðmundur var glæsilegur tveggja metra maður. Þau Helga voru flott par, bæði hávaxin og vel að manni. Þau gengu í hjónaband 11. apríl árið 1970. Guðmundur var rafvélavirkjameistari og rak með bræðrum sínum fyrirtækin Segul og Skipaljós. Þau Helga og Guðmundur bjuggu fyrstu árin í Vesturbænum, á Kaplaskjólsvegi og héldu svo enn vestar og keyptu hús á Bollagörðum á Seltjarnarnesi. Helga bjó þeim Guðmundi stílhreint og fagurt heimili. Síðar, þegar Helga var orðin ekkja, flutti hún í Tjarnarmýri, sem er líka á Nesinu. Og síðustu árin bjó hún við Dalbraut. Þeim Helgu og Guðmundi varð ekki barna auðið, en fyrir hjónaband átti Guðmundur einn son, Hans Vilberg.

Þau Helga og Guðmundur studdu hvort annað, fóru víða, höfðu ánægju af ferðalögum innan lands sem utan. Þau nutu samvistanna við fólkið þeirra. Helga hafði samband við ættmenni sín. Og svo fór hún með Guðmundi sínum í margar ferðir norður á Skaga. Þar áttu Guðmundur og bræður hans jörðina Foss í Skefilsstaðahreppi, stunduðu þar veiðar og nutu unaðar norðlenskrar sumarbirtu og fagnaðar stórfjölskyldunnar. Bræður Guðmundar og fjölskyldur þeirra urðu Helgu mikilvægir. Þökk sé þeim, frænkum og ættmennum Helgu, sem og vinum þeirra fyrir alúð þeirra í garð Helgu fyrr og síðar – ekki síst þegar hún var orðin ekkja. Guðmundur var vinamargur og Helgu lét vel að vera með vinum hans og taka þátt í félagslífinu sem þeim tengdist. Guðmundur varð fyrir heilablóðfalli á miðjum aldri og féll frá fyrir 23 árum, eftir alvarleg veikindi. Fráfall hans var æviskuggi Helgu síðan. Ljósið féll aldrei yfir allan skuggann. 

Minningarnar um Helgu

Og svo eru minningarnar. Hvernig manstu Helgu? Sástu hana dansa? Manstu fatastílinn hennar Helgu? Manstu að hún hugsaði vel um móður sína sem bjó hjá henni síðustu árin? Og vissir þú að hún var náin föður sínum? Manstu hve umtalsfróm Helga var? En hún gat líka alveg sagt skoðun sína? Hún hafði skýrar hugmyndir um margt og sagði óhikað hug sinn ef sá gállinn var á henni: „Ég hefði nú haft þetta öðru vísi.“ Helga hafði áhuga á fólki og spurði um hagi þess og hvað væri að frétta ef hún átti tal við ættingja. Hún fylgdist vel með og hafði jafnan góða yfirsýn varðandi ættfólk sitt. En svo var Helga einnig hlédræg um eigin líðan og hugsanir og fáir áttu greiða leið að innstu tilfinningum hennar eða þönkum. Hún var tengd en líka utan seilingar. Það kom einnig fram í félagstengslum hennar. Hún vildi ekki lokast inni eða vera lengi á hverjum stað. Best lét henni að stjórna eigin ferðum, geta verið ef henni þótti svo, en geta líka farið af stað ef hún fékk útþrá. Helga var sjálfstæð, gat alveg dansað í takt við alla í kringum sig. En hún vildi líka geta ákveðið sinn eigin danstakt, farið sinna eigin ferða, verið eins og hún vildi. Hún var sjálfstæð, þorði, gat og vildi.

Manstu spilakonuna Helgu? Hún hafði mikla ánægju af spilamennsku. Hún var öflugur vistspilari og sótti gjarnan þangað sem fólk kom saman til að spila. Og félagsvistin var góð félagsleg viðbót við dansinn og reyndi vel á heilann. Það þarf útsjónarsemi, félagslegt innsæi og snerpu til að vera leikinn vistspilari.

Og manstu að hún vildi hafa líf sitt og fjármál á hreinu og í góðri reglu? Og manstu hvað hún gat hlustað vel? Manstu hve Helga hafði gaman af að klæða sig upp?

Himininn

En nú er Helga farin. Hún fær sér ekki framar nýjan bíl sem örugglega hefur varadekk. Hún ekur ekki hingað og þangað til að hitta sitt fólk. Hún dansar ekki línudans í kvikmynd og gerir enga slemmu framar. 23 ára aðskilnaði þeirra Guðmundar er lokið. Vegurinn, sannleikurinn og lífið – og himininn er opinn. Nú hefur Helga dansað veginn inn í eilífðina – til fundar við fólkið sem hún elskaði. Henni er fagnað og boðið strax á stóra dansgólf himinsins. Nú sveiflast hún í tangó eilífðar með Guðmundi sínum. Og það er gott. „Og svo leiðumst við syngjandi saman út í sumarsins paradís.“

Guð geymi Helgu og Guð geymi þig.

Amen.

Björk og Jón Arnar geta ekki verið við þessa útför og hafa beðið fyrir kveðjur til ykkar sem hér eruð í dag og kveðjið Helgu.

Minningarorð við útför Helgu í Fossvogskirkju 8. desember, 2017. Kistulagning og útför sama dag. Erfidrykkja í Perlunni. Jarðsett í Gufuneskirkjugarði.

Forseti Eistlands í Hallgrímskirkju

Kersti Kaljulaid, forseti Eistlands er á Íslandi á þingi stjórnmálakvenna. Hún hefur áður komið til Íslands og þekkir Reykjavík. Svo sagði hún Íslendingunum í gærkvöldi að hana langaði að heimsækja Hallgrímskirkju. Ragnar Þorsteinsson, starfsmaður utanríkisráðuneytisins, hafði samband og þar sem við þjónum fólki sagði ég að sjálfsagt væri að taka á móti henni. Nokkrum mínútum eftir  settan tíma kom forsetinn gangandi, í fylgd starfsfólks og öryggisvarða. Hún vildi fremur ganga frá Hörpunni en aka.

Kersti Kaljulaid brosti þegar hún kom að kirkjunni. „Ég hef verið hér áður,“ sagði hún og við gengum inn. Það var margmenni í kirkjunni. „Það er dásamlegt að upplifa ljósið“ bætti hún við og gekk rösklega fram að kórtröppum. Fylgdarfólkið stoppaði við fremstu bekki. Það varð enginn fyrirlestur yfir hópi heldur töluðum við, fjarri hinum, um söng og frelsi, kirkju og mannlíf. Ég hreifst af því á sínum tíma að Eistar sungu sig til frelsis og gaf forsetanum frelsissöngva íslensku þjóðarinnar, Passíusálmana. „Takk, takk“ og hún skoðaði bókina með áhuga. Svo fórum við yfir sameiginlega reynslu af Rússum. „Það herti okkur að þurfa að glíma við þá.“ Þegar við vorum búin að ræða um ljós og birtu arkitektúrs, dást að orgelhljómi kirkjunnar vildi hún fara upp í turninn. “Hálfa leið til himins og til baka?“spurði ég. „Já, og endilega til baka líka.“ Svo hleypti amerískt par okkur fremst í röðina og fylgdarfólk og tveir íslenskir öryggisverðir fórum í lyftunni upp. Eistarnir voru kátir, voru þakklátir fyrir að móttakan var afslöppuð, hlógu hjartanlega í lyftunni enda tekur svolítinn tíma að fara hálfa leið til himins. Forsetinn leit yfir borgina og dáðist að útsýninu. „En gaman að sjá borgina frá þessum sjónarhól.“ Svo var farið niður að nýju. Ekki hægt að láta forseta Íslands bíða.“ Kvaddi með virktum. „Þetta var gaman, en allt of stutt heimsókn,“ sagði hún. „En þá kemur þú aftur“ svarði ég. „Já, svo sannarlega. Þið Íslendingar eigið svo mikið í okkur, það er svo gott á milli þjóða okkar. Og takk fyrir að taka svona vel á móti okkur,“ sagði Kersti Kaljulaid. Opinberar heimsóknir eru oftast ánægjulegar en þessi var sérlega skemmtileg. Stíft form er stundum til hjálpar en  Eistar og Íslendingar þora oftast að fara út fyrir rammann. Takk fyrir mig líka. 

Jólin á leið inn í breytingarskeið

Þórdís Lilja Gunnarsdóttir tók viðtal við mig fyrir jólablað Fréttablaðsins. Það kom út 28. nóvember, 2017. Viðtalið er hér að neðan. Þórdís hafði fyrst og fremst áhuga á að ræða tengsl fjölmenningar og kristni og hvaða afleiðingar samfélagsbreytingar hefðu fyrir kristna hátíð jólanna. Það er stefið og mál viðtalsins.

Um hvað snúast jólin hjá nútímamanninum?

Almennur tilgangur undirbúnings og jólahalds fólks á Íslandi er að bæta líf, heimili og samfélag. Innkaupin, atið, tónleikarnir, hlaðborðin, gjafirnar og boðin eru til að gera lífið betra. Jólin eru tími hinnar opnu jákvæðni, vonar og vilja til að gott gerist. Hið sértæka er svo að trúin er opin fyrir að tími og eilífð kyssast.

Er ekki út úr korti að halda jól og tjalda öllu til fyrir háheilagt aðfangadagskvöld ef maður segist ekki trúa/trúir ekki á Guð og hans einkason, Jesú Krist?

Nei. Öllum er sameiginlegt að vilja hið góða fyrir sig, ástvini sína og samfélag. Jól hafa ytri ramma sem er almennur en síðan setur fólk inntak í þann ramma. Jólin geta verið hátíð allra á miðjum vetri hvort sem fólk trúir á Guð eða ekki. En trú og lífsskoðanir notum við svo til að leggja okkar eigin merkingu í viðburði og æviskeið. Við þörfnust gleðigjafa á mesta myrkurtímanum, óháð lífsskoðunum. Hvernig svo sem við skilgreinum líf og tilgang þess geta jólin hresst upp á lífsgleðina.

Sem kristin þjóð halda Íslendingar einkar svipmikil og hátíðleg jól, en hvað verður um blessuð jólin ef æ fleiri ganga af trúnni?

Ég hef ekki áhyggjur af jólunum. Hefðir eru slitsterkar og og það er frumþáttur mennskunnar að sækja í ljós og gleði. Fólk heldur áfram að halda hátíðir, en viðhorf breyta að einhverju leyti inntaki þeirra og réttlætingum. Jólin eru ekki á útleið heldur á leið inn í breytingaskeið. Fjölmenningin hefur áhrif á okkur en ætti ekki að eyðileggja gleðiefni þjóðarinnar, s.s. jólin. Það eru ótrúlega margar skoðanir í samfélagi okkar um hefðir og venjur, en við þurfum að koma okkur saman um lykilhátíðir. Jólin eru ein þeirra.

Jólin eru mörgum uppáhaldstími ársins og flestir hætta seint að finna til barnslegrar tilhlökkunar fyrir jólahaldinu. Missum við ekki mikilvægan hluta af ævigöngunni ef allt í einu yrðu engin jól, sem er einmitt sá brunnur kærra minninga sem flestallir sækja í með trega og söknuði?

Það verða væntanlega jól flestra áfram, tilhlökkun og upprifin stemming, hvernig svo sem þjóðfélag Íslendinga þróast. En kristnir menn, hindúar, múslimar, efasemdarmenn og fólk flestra lífsskoðana gætu sameinast um að á Íslandi séu jólin hátíð og í þágu flestra. Jólin gegna mikilvægu þjóðarsálarhlutverki. Það er því að illa gert að ráðast á jólahald. En það er hins vegar þarft að gagnrýna allt sem er óhóflegt og falskt. Jólin eiga ekki að vera yfirborðsleg heldur gleðileg.  

Kristnir menn fá fjölmarga frídaga út á kristna trú, bæði á stórhátíðum kirkjunnar og sennilega mætti telja helgidaginn sunnudag með, 52 sunnudaga á ári. Er réttlætanlegt að veita frí frá vinnu út á Jesú Krist ef maður þvertekur fyrir tilvist Guðs og það að vera kristinnar trúar?

Hvíldardagurinn varð til fyrir þúsundum ára af því fólk þarfnast hvíldar. Og var réttlætur með gilda- og trúartengingum. Vinnutími er þó í samtíð okkar samningamál aðila vinnumarkaðarins og hátíðir  kristninnar eru enn mikilvægar í þeim samningum. Trú og þar með kirkjan leggja áherslu á gott mannlíf og umhyggju gagnvart fólki, hafna þrældómi og hvetja samfélag og einstaklinga til að nota frí til lífsbóta. Breyttar þarfir mismunandi lífsskoðana þarf að ræða. Kristnir menn vilja halda í sínar hátíðir, en það er hins vegar ekki sjálfgefð að þær séu þríheilagar.

Jól tróna hæst í einlægum hjörtum barnanna, en hvað segjum við börnunum um ástæður þess að við skreytum, þrífum, bökum, gefum jólagjafir og höldum hátíð, ef ekki er fyrir fæðingu Jesúbarnsins?

Það á alltaf að segja börnum satt. Þau sem aðhyllast kristni minna á fæðingu Jesúbarnsins og skýra út merkingu þess að Guð elskar náttúruna og þar með mennina. Þau sem eru guðlaus segja börnum frá sinni lífsskoðun en geta samt haldið friðarhátíð. Öll ættum við að skýra út fyrir börnum okkar að fólk hefur mismunandi skoðanir og að við þurfum að rækta með okkur virðingu fyrir mismunandi siðum.

Er hræsni að halda jól ef maður er ekki kristinnar trúar?

Nei, það er hægt að halda jól á mismunandi forsendum. Allt fólk þarfnast hátíða um mikilvægustu gildi lífsins. Og jólin eru það fangvíð að þau geta faðmað eða spannað það sem flestir vilja og þarfnast.

Hvaða skilaboð senda þeir út í samfélagið sem setja jólaljós í glugga og skreyta allt hátt og lágt á aðventunni og um jól, ef þeir segja Guð ekki vera til?

Skilaboðin til forna voru að ljós hjálpaði fólki að rata til byggða. Í nútímanum eru ljósin tjáning um að við menn erum eitt þó við séum ekki eins. Okkar hlutverk er að bera ljós og frið á milli. Og kristinn maður trúir að Guð sé sama sinnis.

Fæddist Jesúbarnið á jólum, er frásagan örugglega sönn?

Jól eru haldin á mismunandi tíma í mismunandi heimshlutum. Orþódoksa kirkjan, í gríska og rússneska heiminum, heldur t.d. jól síðar en við í okkar heimshluta. Enginn veit nákvæmlega hvenær Jesús fæddist og ég efast um að hann hafi fæðst aðfaranótt 24. desember árið 0. Fæðingartíminn skipti raunar litlu máli meðal fólks í fornöld. Hátíðartími miðvetrarins var notaður til að minnast fæðingar ljóssveins himinsins. Þegar tíma fer að lengja er góður tími til að gleðjast og táknmálið virkar.

Hvers vegna eigum við að varðveita og halda jól um aldur og ævi?

Meðan við þráum gott líf virka jólin sem vonarhátíð, að dauðinn deyji og lífið lifi. Ég á afmæli á Þorláksmessu og það er gaman að fagna hverju árinu sem líður – og fagna svo jólunum og opna fyrir að allur heimur er gefinn ljósinu en ekki myrkrinu. Ég trúi ekki að veröldin sé í tröllahöndum heldur góðum höndum Guðs og að framtíðin sé raunverulega opin.

Viðtal við Þórdísi Lilju Gunnarsdóttir. Fréttablaðið – jólablað 28. nóvember, 2017.