Greinasafn fyrir merki: harissa

Ísraelskur flugfiskur að hætti El AL

Ísrael er orðinn kandídat í keppninni hvert sé besta matarland í heimi. Það er ekki einkennilegt því Ísraelar komu úr öllum heimshornum og tóku matarmenninguna með sér til nýja landsins. Þar hefur svo orðið sambræðsla og besta kokkhúsfólkið lærir hvert af öðru. Svo er Ísrael undraland ræktunar ávaxta og grænmetis og allt er ferskt. Kryddið á mörkuðunum – maður minn – betra verður það ekki. Þessi uppskrift var í flugblaði EL AL þegar ég fór heim. Yfirkokkurinn hjá ísralelska flugfélaginu vinnur stöðugt að nýjum uppskriftum fyrir matinn í háloftunum. Þegar ég vaknaði eftir næturheimkomu skaust ég í Krónuna og keypti í réttinn og eldaði svo fyrir mitt fólk í kvöldmatinn. Þetta er uppskrift frá Ísrael en fyrirmyndin kom upprunalega frá Marokkó. Ljómandi flugfiskur fyrir heimamat.

Fyrir fjóra

700-800 gr. þorskflök – eða annar uppáhaldsfiskur

Tómatdós – vökvinn síaður af

5 hvítlaukrif – skorin

1 chilli – fræhreinsað og niðursaxað

Kóríanderbúnt – niðursaxað

Kjúklingabaunir – dós af niðursoðnum baunum og vökvinn síaður frá

Ein lítil krukka af grilluðum paprikum – saxaðar

Sítrónusafi af einni sítrónu

1/2 tsk cummin

1 tsk reykt þ.e. sætt paprikuduft

1/2 tsk möluð kóríanderfræ

15 gr harissa

10 söxuð hvítlauksrif eða sletta úr krukku með hvítlauksmauki

Salt og pipar 

Mareiðsla

Steikingarolía sett í pönnu. Átti reyndar að vera harissaolía en ég átti hana ekki svo ég notaði góða olíu. Söxuðu hvítlauksrifin setti ég út í olíuna og chilli líka. Steikti lítillega og setti svo allt hitt gumsið á pönnuna og hrærði saman og sauð þar til megnið af vökvanum var gufaður upp. Skildi eftir ofurlítið af sítrónusafa og kóríander til að setja á í lokin áður en rétturinn var borinn fram. Smakkaði til og saltaði og piprði. Þorskinn skar ég í falleg stykki og setti síðan yfir blönduna á pönnunni, saltaði lítillega og pipraði og jós síðan pönnublöndunni yfir fiskstykkin. Sauð síðan fiskinn á pönnunni í 5-8 mín eða þar til fullsoðið var (ekki of lengi). Setti síðan sítrónusafann og skorna kóríander yfir og bar fram.

Ljómandi að bera fram með ristuðu nanbrauði eða súrdeigsbrauði og jógurtsósu. Nú svo vilja aðrir hafa með bygg, hrísgrjón eða bara karftöflur. Vatnsmelónurnar voru víða í Ísrael síðustu vikurnar svo ég saxaði niður helming með. Vatnsmelóna er ekki aðeins bragðgóð heldur poppar upp rétti. Best er að borða svona mat í Ísrael en næstbest að elda heima og borða með fólkinu sínu.

Þökkum Drottni því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu. Amen.

Harissa nautasteik með papriku, tómata og sítrónu-viðbiti

Á mínu heimili var orðin uppsöfnuð nautasteikurþörf og kona mín benti á áhugaverða uppskrift í Simple -bók Ottolenghi (bls 224-5). Hægt að vinna eldhúsverkin með góðum fyrirvara. Hægt að gera viðbitið daginn áður! Má gjarnan marinera kjötið í marga klukkutíma og yfir nótt. Með góðri fyrirhyggju og forvinnu tekur ekki nema 20 mínútur að koma mat tilbúnum á borð frá því kveikt er á eldavélinni þar til allt er komið á borð. Því hentugur matur fyrir vinaboð – þeirra sem enn borða kjöt. 

Fyrir fjóra

Nautakjöt 800 gr (mjaðmabiti – sirloin – eða lund)

Harissa rautt 1 ½ matsk (fæst í Melabúðinni)

Paprikur 3 rauðar og/eða gular (ca 400 gr).

Ólífuolía 2 matsk

Hvítlaukur 3 geirar – pressaðir

Tómatar – maukaðir – 1 400 gr niðursuðudós

Chiliflögur ½ tsk

Paprika ½ tsk

Niðursoðin (preserved) sítróna fínsöxuð. Fleygja steinunum

Steinselja – ein lúka niðursöxuð – ca 15 gr

Sítróna – eitt stykki skorin langsum í fjóra hluta

Saltflögur (Maldon eða álíka) og svartur pipar.

1 Setjið rautt harissa í skál, ½ tsk af saltflögum og malið pipar í. Slettu af olíu til að þynna út. Smyrjið kjötið og leyfið því að marinerast amk klukkutíma og helst lengur. Ef kjötið hefur verið sett í kæli leyfið því að ná innihita áður en það er steikt.

2 Þá er komið að paprikunum. Forhitið ofninn og setjið á grillstillingu. Steikið paprikurnar í miðjum ofni í 20-25 mínútur og snúið oft til að þær brenni ekki heldur bakist allar. Smellið paprikunum í skál og setjið matarfilmu yfir skálina og leyfið að kólna það mikið að hægt sé að fara höndum um paprikurnar og rífa af þeim húðina, sem á að losna. Hendið húðinni. Skerið paprikurnar niður í ca cm-breiða strimla. Hendið einnig kjarnanum og þmt fræunum.

3 Setjið olíu á steikarpönnu og meðalhitið. Bæta við pressaða hvítlauknum og brúnið í ca 1 mín. Bæta við hökkuðu tómötunum, chilliflögunum, paprikunni og slettu af salti (ca 1 tsk) og malið svartan pipar í. Sjóðið í 6-7 mínútur. Þá er paprikunum bætt út í og líka söxuðu sítrónunni (þessari niðursoðnu – preserved) og söxuðu steinseljunni. Sjóða í 7 mínútur. Setjið til hliðar og leyfið að kólna aðeins.

4 Steikarpanna snarphituð. Og síðan kjötið steikt og snúið reglulega. Tímalengdin fer eftir hvort bitinn er óskorinn eða ekki. Sett til hliðar á disk og maldonsalti stráð yfir og látið bíða í nokkrar mínútur.

5 Bera fram kjötið í ca cm þykkum bitum og komið litfögru viðbitinu fyrir við hliðina. Og sítrónubátur fer vel á disknum líka.

Svo má auðvitað bæta meiru á diskinn, þ.e. meira viðbit. Einhverjir vildu kúskús með, bakaðar sætar kartöflur eða Vallanesbygg. 

Geturðu steikt aftur svona kjöt? Það var það sem mitt fólk sagði eftir þessa máltíð. Harissa kom sekmmtilega á óvart og papriku, tómat og sítrónuþykknið er skemmtilegt og varðveitir vel skapandi andstæður afrísks og austur-miðjarðarhafsmatar. Ef notaðar eru líka gular með rauðu paprikunum fjölgar litum á disknum. 

Þökkum Drottni, því að hann er góur – og miskunn hans varir að eilífu.

Verði ykkur að góðu.