Greinasafn fyrir merki: sjá

+ 24 og sjón Guðs

Ég heyrði undursamlega sögu – fyrr í mánuðinum – hjá gleraugnasnillingnum, sem ég fer til þegar mig vantar spangir eða ný gler. Hann sagði mér, að hann hafi einu sinni verið kallaður til að útbúa gleraugu handa ungum dreng, sem var með svo brenglaða sjón, að hann hafði aldrei séð neitt nema í þoku. Í augum hans rann allt út í eitt, í óljósa, ófókuseraða litasúpu. Hann hafði aldrei getað beint sjónum sínum að neinu sérstöku, ekki séð puttana sína, hlutina í kringum sig eða brosandi andlit foreldra sinna. Augnlæknirinn og sjóntækjasérfræðingurinn ræddu um hvernig gler þyrfti til svo einhver bót yrði á sjón drengsins og niðurstaðan var að það þyrfti að vera gler í plús 24! Þegar gleraugun voru tilbúin fór vinur minn með þau til drengsins, sem lá vakandi og starði í óreiðu lita og forma. Augu hans hvörfluðu til og tilveran var úr fókus. Svo setti hann gleraugun varlega á drenginn. Honum varð greinilega mikið um því hann stirnaði upp, starði stjarfur fram fyrir sig og svo – allt í einu – breiddist stórkostlegt bros yfir allt andlit hans. Tilveran hafði allt í einu fengið form, litirnir aðgreindust og umhverfið birtist honum. Hann sá. Kraftaverkið hafði orðið og líf hans breyttist. Gleraugun breyttu öllu – einfalt tæki en afgerandi fyrir þroska, líðan og hamingju.

Jól og síðan áramót. Hvernig verður tíminn og lífið? Óskiljanleg litasúpa eða tími til vaxtar og gleði? Engir fræðingar munu færa okkur hamingju. Við kaupum ekki frið og fögnuð. En við getum kallað hann fram og skapað. Við getum gefið af okkur og orðið öðrum til lífsbóta. Vaxandi hlutahyggja veldur tilfinningadoða fólks varðandi hamingjuleiðir. Sjálfhverft fólk hlutgerir ástvini sína og hættir að sjá þá sem undur lífs. Við þurfum að sjá, meta, virða og rækta. Hamingjan er alltaf heimafengin og vex við góð samskipti, athygli, nánd, hlustun og góða sjón.

Helgisaga jólanna varðar ekki að við trúum hinu ótrúlega, sögum um vitringa, himindansandi engla og glimmersögu úr fjárhúsi, heldur að við sjáum með hjartanu og virðum vonir okkar og djúpþrá. Hvaða hugmyndir sem við höfum um Guð og trúarefni þráum við samt öll hið djúpmennska í boðskap jólanna. Tákn jóla vísa til dýpta, speki og gilda, sem veröldinni eru lífsnauðsyn. Þegar við leyfum okkur að vera sem ljóssækin börn eða horfum með hrifningu í augu ástvina erum við á hamingjuleiðinni. Sömuleiðis þegar við vitjum drauma okkar, sem við höfum lært að kæfa, með raunsæi. Jólin eru tími gjafa, en stærsta gjöfin sem við getum öðlast og opnað er lífsundrið, að tilveran er ekki leiksoppur myrkra afla og tilvera til endanlegs dauða, heldur þvert á móti, að nóttin er rofin barnsgráti Guðsbarnsins, sem er merkingarvaki allrar veraldar. Þegar lita- og formsúpa lífsins skerpist muntu uppgötva að alla tíð var það, sem persónudjúp þitt þráði.

„Maður sér ekki vel nema með hjartanu. Það mikilvægasta er ósýnilegt augunum” sagði refurinn í spekibókinni Litla prinsinum. Við þurfum ekki að horfa á hið yfirborðslega í jólasögunni og alls ekki taka hana bókstaflega. Við megum frekar leggja okkur eftir inntaki en umbúnaði, merkingu en ekki ásýnd.

Drengurinn, sem fékk sjónina, er nú orðinn fullorðinn. Honum hefur farnast vel. Hann var séður af góðum foreldrum og góðum fagmönnum. Það er mikilvægt að sjá og vera séður. Og í hinu stærsta samhengi skiptir aðalmáli að sjón Guðs er í góðu lagi. Við erum ekki týnd í litasúpu milljarða manna eða sólkerfasúpu geimsins heldur erum við séð hvert og eitt. Við erum metin, skilin og virt. Guð sér okkur og kemur til okkar til að setja allt í fókus í veröldinni, náttúrunni og lífi fólks. Guð sér þig skýrt, í öllum litum, allar víddir þínar og brosir við þér.

Kletturinn Alcatraz

 

Hvenær erum við innan hrings mennskunnar og hvenær utan hans? Hvenær erum við tengd öðrum og hvenær ekki? Hvernig líður manni, sem er greindur frá mannfélagi, kippt út úr menningunni og færður nauðugur út í eyju, sem enginn má heimsækja nema með sérstöku leyfi og undir ströngu eftirliti? Hvernig líður manni, sem fjölskylda hans segir skilið við vegna glæpa og er síðan einagraður með siðlausum morðingjum? 

Alcatraz-eyja er í San Francisco-flóa, einangruð en er þó fyrir allra augum. Eyjan blasir við af öllu flóasvæðinu. Hún sést vel frá austurlandinu, t.d. Berkeley. Þegar gengið er um hafnarsvæðið í San Francisco sést hún vel, enda aðeins um tveggja kílómetra fjarlægð frá landi. Og þegar maður röltir yfir Golden Gate-brúna – eða ekur yfir – horfir maður niður á hana. Fyrrum var eyjan fuglaparadís. Vegna einangrunar var svo farið að nota klettinn til að hýsa fanga. Á fjórða áratug tuttugustu aldar var byggt rammgert öryggisfangelsi til að hýsa hættulegustu fanga Bandaríkjanna. Reglan í bandarískum fangelsum var einföld: „Hegðaðu þér vel annars verðurðu sendur á Alcatraz.“ Þar var endastöðin, sem ekki var hægt að flýja (hugsanlega hafa þó þrír sloppið). Á sjöunda áratugnum ákvað Robert Kennedy að leggja fangelsið af.

Ég heimsótti Klettinn með þremur sonum mínum og konu minni. Við höfðum séð hasarkvikmyndir, sem áttu að gerast þar eða lesið um fjöldamorðingjana sem þar voru vistaðir. Við fórum frá bryggju 33 San Francisco-megin. Og það var eins og að fara um borð í flóabátinn Baldur. Það gustaði á leiðinni yfir sundið og hrollurinn leitaði í kroppinn. Þungur straumur var og er í sundinu og hann var ein af ástæðunum fyrir að setja fangelsi í eyjuna. Það var og er yfirmannleg þrekraun að synda til lands vegna strauma.

Við gengum upp í eyjuna. Mannvirkin voru stór en skemmd vegna viðhaldsleysis. Við heyrðum leiðsögumenn segja sögu þrenginga, sem var allt öðru vísi en saga lífseyja eins og Flateyjar, Hríseyjar eða Vestmannaeyja. Á Alcatraz var líf fólks í bið. Kletturinn var ekki fyrir mannlíf, heldur til að vernda mannlíf fyrir ólánsmönnum, sem voru færðir út úr lífinu af tillitssemi við hina. Þarna voru þeir úti, með byssur á sér, undir eftirliti og fjarri lífinu.

Þjóðgarðastofnun Bandaríkjanna stýrir heimsóknum í eyjuna og gerir vel. Eins og aðrir gestir fengum við heyrnartól fyrir leiðsögn og stýrðum sjálf hversu hratt eða hægt við fórum. Sögurnar um fanga og tilfinningar þeirra voru sterkastar. Við komumst að því að á hátíðadögum barst ómur frá skemmtunum frá landi. En þegar veröldin hló varð harmur fanganna þungur. Þegar glaumurinn í landi barst út og í eyrun skar í hjarta og einsemdin varð stingsár.

Einn fanginn sagði frá því, að fjölskyldan hafði algerlega snúið baki við honum. Hann hafði komið óorði á fókið sitt. Honum var útskúfað, hann var náðarlaust úrhrak. Hann var morðingi í versta fangelsi Bandaríkjanna. Hann var utan hrings mennskunnar. Öll tengsl við hann voru rofin, engin bréf bárust, engin símtöl heldur og engin kom. Náðarlaus maður vænti einskis en beið aðeins endisins. Honum brá því þegar honum var tilkynnt, að hann hefði fengið heimsókn og ætti að fara að glerinu. Þar var komin systir hans. Yfirgefinn maður og ósýnilegur sem enginn yrti á nema sem fanga til frambúðar. En allt í einu var honum kippt inn í hringinn. Systir kom út úr dimmu fjölskylduútskúfunnar, fór yfir sund, upp á klett, virti lánalausan bróður viðlits, sá hann og yrti á hann. Að einhver skyldi vitja hins útskúfaða var honum djúp upplifun og breytti lífi hans. Maðurinn var uppreistur í kröm sinni. Hans var vitjað. Náðin var ekki ekki horfin.

Hvnær ertu í sambandi og hvenær ertu einmana? Hvenær ertu innan hrings og hvenær utan? Við höfum þörf fyrir tengsl, að vera séð, heyrð og virt. Mennska okkar varðar tengsl við fólk. Við þörfnust frelsis, inn á við, meðal fólks og upp á við – andlega.

Kletturinn og öll fangelsi heimsins eru tákn um menn á nöfinni. Hvað er maðurinn og hver er mennskan. Ertu séð ertu virt? Sér þig einhver, metur þig og jafnvel elskar?

„Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna,
tunglið og stjörnurnar, sem þú settir þar,
hvað er þá maðurinn þess að þú minnist hans,
og mannsins barn að þú vitjir þess?
Þú gerðir hann litlu minni en Guð,
krýndir hann hátign og heiðri … “

Við erum á rófi einsemdarinnar. Við erum sandkorn á strönd eyjar í tíma. En þó við séum einmana, óséð og enginn mannvera hlusti – erum við samt dýrmæti, sem Guð man eftir, virðir og metur. Aldrei utan Guðshringsins.