+ 24 og sjón Guðs

Ég heyrði undursamlega sögu – fyrr í mánuðinum – hjá gleraugnasnillingnum, sem ég fer til þegar mig vantar spangir eða ný gler. Hann sagði mér, að hann hafi einu sinni verið kallaður til að útbúa gleraugu handa ungum dreng, sem var með svo brenglaða sjón, að hann hafði aldrei séð neitt nema í þoku. Í augum hans rann allt út í eitt, í óljósa, ófókuseraða litasúpu. Hann hafði aldrei getað beint sjónum sínum að neinu sérstöku, ekki séð puttana sína, hlutina í kringum sig eða brosandi andlit foreldra sinna. Augnlæknirinn og sjóntækjasérfræðingurinn ræddu um hvernig gler þyrfti til svo einhver bót yrði á sjón drengsins og niðurstaðan var að það þyrfti að vera gler í plús 24! Þegar gleraugun voru tilbúin fór vinur minn með þau til drengsins, sem lá vakandi og starði í óreiðu lita og forma. Augu hans hvörfluðu til og tilveran var úr fókus. Svo setti hann gleraugun varlega á drenginn. Honum varð greinilega mikið um því hann stirnaði upp, starði stjarfur fram fyrir sig og svo – allt í einu – breiddist stórkostlegt bros yfir allt andlit hans. Tilveran hafði allt í einu fengið form, litirnir aðgreindust og umhverfið birtist honum. Hann sá. Kraftaverkið hafði orðið og líf hans breyttist. Gleraugun breyttu öllu – einfalt tæki en afgerandi fyrir þroska, líðan og hamingju.

Jól og síðan áramót. Hvernig verður tíminn og lífið? Óskiljanleg litasúpa eða tími til vaxtar og gleði? Engir fræðingar munu færa okkur hamingju. Við kaupum ekki frið og fögnuð. En við getum kallað hann fram og skapað. Við getum gefið af okkur og orðið öðrum til lífsbóta. Vaxandi hlutahyggja veldur tilfinningadoða fólks varðandi hamingjuleiðir. Sjálfhverft fólk hlutgerir ástvini sína og hættir að sjá þá sem undur lífs. Við þurfum að sjá, meta, virða og rækta. Hamingjan er alltaf heimafengin og vex við góð samskipti, athygli, nánd, hlustun og góða sjón.

Helgisaga jólanna varðar ekki að við trúum hinu ótrúlega, sögum um vitringa, himindansandi engla og glimmersögu úr fjárhúsi, heldur að við sjáum með hjartanu og virðum vonir okkar og djúpþrá. Hvaða hugmyndir sem við höfum um Guð og trúarefni þráum við samt öll hið djúpmennska í boðskap jólanna. Tákn jóla vísa til dýpta, speki og gilda, sem veröldinni eru lífsnauðsyn. Þegar við leyfum okkur að vera sem ljóssækin börn eða horfum með hrifningu í augu ástvina erum við á hamingjuleiðinni. Sömuleiðis þegar við vitjum drauma okkar, sem við höfum lært að kæfa, með raunsæi. Jólin eru tími gjafa, en stærsta gjöfin sem við getum öðlast og opnað er lífsundrið, að tilveran er ekki leiksoppur myrkra afla og tilvera til endanlegs dauða, heldur þvert á móti, að nóttin er rofin barnsgráti Guðsbarnsins, sem er merkingarvaki allrar veraldar. Þegar lita- og formsúpa lífsins skerpist muntu uppgötva að alla tíð var það, sem persónudjúp þitt þráði.

„Maður sér ekki vel nema með hjartanu. Það mikilvægasta er ósýnilegt augunum” sagði refurinn í spekibókinni Litla prinsinum. Við þurfum ekki að horfa á hið yfirborðslega í jólasögunni og alls ekki taka hana bókstaflega. Við megum frekar leggja okkur eftir inntaki en umbúnaði, merkingu en ekki ásýnd.

Drengurinn, sem fékk sjónina, er nú orðinn fullorðinn. Honum hefur farnast vel. Hann var séður af góðum foreldrum og góðum fagmönnum. Það er mikilvægt að sjá og vera séður. Og í hinu stærsta samhengi skiptir aðalmáli að sjón Guðs er í góðu lagi. Við erum ekki týnd í litasúpu milljarða manna eða sólkerfasúpu geimsins heldur erum við séð hvert og eitt. Við erum metin, skilin og virt. Guð sér okkur og kemur til okkar til að setja allt í fókus í veröldinni, náttúrunni og lífi fólks. Guð sér þig skýrt, í öllum litum, allar víddir þínar og brosir við þér.