Gunnlaugur Kristjánsson – minningarorð

Gunnlaugur Kristjánsson
Gunnlaugur Kristjánsson

„Það væri þröngsýni að halda því fram, að í óravíddum himingeimsins séu ekki fögur veiðivötn og full af fiski. … Ég vona, að ég finni þennan elskulega mann aftur í löndum eilífðarinnar og þá helzt með stöng í hönd.” Þessa merkilegu himinsýn skráði veiðijöfurinn Björn J. Blöndal og á vel við þegar við kveðjum Gunnlaug Kristjánsson. Gulli kunni að veiða, veiddi með ákafa og gleði, eldaði bráðina, kryddaði með smjöri og góðum sögum og svo – eins og hendi sé veifað er hann farinn inn í himininn. Farinn hvert og á hvaða árbakka? Hvernig getur þú hugsað um hið ósegjanlega – Gulla í eilífðinni? Kemur ekkert veiðisumar eftir dimman og myrkan vetur? Óhugsandi. Okkur sem elskum vatn, líf í straumnum og fögnum geislum í gárum þykir eðlilegt að vænta þess að lífsins vatn sé veiðistöð, að við fáum að standa við strauminn og kasta á sporðamettaða strengi. Á þeim árbakka himinfljóts má Gulli vera. Skaparinn hefur gaman af lífi og ljósi. Lausanarinn hvatti fólk til að hyggja að dásemdum vallar og vatns og Andinn hefur húmor í bland við elsku.

Uppruni og ævistiklur

Gunnlaugur Kristjánsson fæddist á Akureyri 14. janúar árið 1956. Foreldrar hans voru hjónin Kristján Bjarnason (27. 8. 1911, – 5. 2. 1992) og Mekkín Guðnadóttir (4. 5. 1920) bændur í Sigtúnum í Eyjafirði. Gunnlaugur var yngstur systkinanna. Eldri eru Bjarni Benedikt, sem fæddist árið 1944, Gunnar Árni kom svo í heiminn árið 1947 og Jón Guðni 1949. Sigrún fæddist árið 1954 og svo var Gulli síðastur í röðinni. Mekkín lifir og býr á Akureyri en Kristján lést árið 1992. Gunnlaugur, hinn yngsti, er nú látinn en systkinin lifa.

Bernskuheimilið var sveitaheimili og búskapurinn blandaður – um hundrað fjár í húsi og í fjósi voru milli tuttugu og þrjátíu gripir. Gulli lærði snemma að gera gagn. Hann var tápmikill, harðduglegur og vinnusamur. Hann var velkominn í heiminn og naut mikillar elsku í uppeldi. Gulli hóf skólagöngu í heimabyggð var snarpur og glöggur og fór fram fyrir jafnaldra í námi. Hann hleypti snemma heimdraganum og fór í héraðsskólann í Reykholti í Borgarfirði. Þar var hann í tvö ár. Svo lá leiðin norður aftur og hann fór beint í fjórða bekk Menntaskólans á Akureyri. Lífið í MA var ævintýralegt og Gulli eignaðist vini og líka aðdáendur í skólanum. Hann var hrókur fagnaðar, uppátækjasamur, skemmtilegur og hrífandi. Hann var þá veislusækinn leiðtogi og æ síðan. Gulli lauk stúdentsprófi árið 1976. Svo skráði hann sig í Tækniskólann og lauk prófi í byggingatæknifræði árið 1981.

Fólkið hans Gulla

Gunnlaugur Kristjánsson eignaðist soninn Loga með skólasystur sinni Huld Ingimarsdóttur árið 1975. Þau hófu hjúskap og gengu í hjónaband árið 1984. Leiðir þeirra skildu árið 1998. Logi er kvæntur Elísabetu Guðjónsdóttur og á með henni tvo syni, Daða og Sölva, sem er á fyrsta ári. Gunnlaugur eignaðist Halldór, yngri soninn, með Rósu Emilíu Óladóttur árið 1981. Hann eignaðist fjögur börn. Þau eru Ágúst Freyr, Elín Helga, Sölvi Thor og Emilía Ósk. Halldór lést árið 2012.

Seinni kona Gulla er Helga Sigrún Harðardóttur. Þau gengu í hjónaband árið 2005. Gulli gekk Írisi, dóttur Helgu Sigrúnar, í föðurstað og börnum hennar í afastað. Sambýlismaður Írisar er Ómar Freyr Sigurbjörnsson. Börn þeirra eru Helga Vala, Dagur og Lóa Björk.

Mér var falið að bera ykkur fjölskyldu Gulla, vinum og þessum söfnuði kveðjur. Skólafélagar í Reykholtsskóla og MA biðja fyrir samúðarkveðjur sínar til fjölskyldu og ættingja Gulla. Þá biðja Lísa og Kiddi fyrir kveðjur, en þau eru erlendis og geta ekki verið við þessa útför. Þórný Linda Haraldsdóttir biður fyrir kveðjur og sömuleiðis Jakob Sævar Stefánsson.

Vinnan

Gunnlaugur Kristjánsson var dugmikill vinnuþjarkur. Ósérhlífni, áræðni, framsýni og óbilandi áhugi á skipulagsmálum, arkitektúr og byggingatækni gerði Gulla að eftirsóknarverðum stjórnanda í byggingabransanum. Hann starfaði hjá Ármannsfelli hf. og Aseta á árunum 1982 – 1987. Hann kom sér alls staðar vel í starfi, axlaði ábyrgð, var virtur fyrir getu og var treyst til stórræða. Gulli var tæknilegur framkvæmdstjóri hjá Álftarósi ehf. á árunum 1987 – 1999. Þá hóf hann störf sem framkvæmdastjóri þróunarsviðs Íslenskra aðalverktaka og gegndi því starfi til ársins 2007. Þá tók hann við stjórnartaumunum í Björgun og hefur m.a. stýrt námavinnslu félagsins úr sjó og vinnslu byggingarefnis auk hafnadýpkunum. Björgun hefur m.a. gegnt því Heraklesarverkefni að dýpka Landeyjahöfnina. Síðustu árin var Gunnlaugur einnig forstjóri eignarhaldsfélagsins Hornsteins, BM Vallár og Sementsverksmiðjunnar.

Gulli kom með einum eða öðrum hætti að skipulagsþróun byggingarreita og uppbyggingu ýmissa stórbygginga s.s. Kjarnanum í Mosfellsbæ og Sundlauginni í Árbæ auk fjölmargra íbúðarhúsa. Hæst ber Hörpuna en sem framkvæmdastjóri þróunarsviðs ÍAV dró Gulli vagninn í Portus Group og stýrði hópi fagaðila sem í sameiningu unnu samkeppni um hönnun Hörpunnar, þess mikla djásns höfuðborgarinnar. Gunnlaugur hönnunarstýrði Hörpuframkvæmdunum til ársins 2007. Við eigum honum þökk að gjalda og hann var sjálfur stoltur af framlagi sínu við verðlaunahönnun Hörpunnar.

Gulli var skarpgreindur og sem farsæll leiðtogi lánaðist honum oftast að fá samstarfsaðila til samfylgdar – fólk með ólíkar hugmyndir og náði oftast skapandi sátt þó fyrirfram þætti mörgum óhugsandi. Ómögulegt var ekki til í orðabók Gulla. Hann fann yfirleitt leið til að láta mál ganga og hluti virka með áræðni, mikilli vinnu og framsýni.

Gulli var liðtækur bridgespilari á árum áður og mikill keppnismaður á þeim vettvangi. Tefldi hann gjarnan á tæpasta vað sem makker hans hafði getu til að meta og nýta.

Gulli var ástríðukokkur. Hann keypti alltaf besta hráefnið og gat í skyndi slegið upp veislu. Hann gantaðist með að hafa farið í veiði með gömlu vinunum í Laxárdal í Þingeyjarsýslu og í stað þess að skrifað væri um afrek þeirra í tímaritið Veiðimanninn var skrifað um þau í tímaritið Gestgjafann. Hann hafði gaman af að elda með skemmtilegu fólki, veiddi það besta úr matargerðarlist heimsins, skildi að smjör hefur aldrei skemmt mat heldur bætt og skellti svo ótrúlegum nöfnum á réttina sína. Ég sá t.d. afar áhugaverða uppskrift hans í tímaritinu Vikunni undir hinu ógvænlega heiti: Lamb Al-Quaida – fyrir 4!

Matargerð Gulla var eins og tákn um líf hans. Gulli var veislusækinn dugmaður sem veitti samferðafólki sínu vel, bjó þeim það besta sem hann átti. Hann vildi öllum vel, þjónaði eins og hann gat og Gullagleðin hreif.

Helga Sigrún og Gulli

Gunnlaugur Kristjánsson - á hjónavígsludaginn.
Gunnlaugur Kristjánsson – á hjónavígsludaginn.

Helga Sigrún og Gulli hittust á nýársballi árið 2004 þar sem Helga Sigrún var veislustjóri. Gulli kom með útsjónarsemi úrinu sínu svo fyrir að Helga Sigrún fór óvart með það heim. Daginn eftir fékk hún sms skilaboð frá honum. Í þeim stóð: „Hæ, ég heiti Gulli. Geturðu nokkuð sagt mér hvað klukkan er?“ Þá vissi Helga Sigrún hvað klukkan sló og hve skarpur hann var. Hálfu ári síðar höfðu þau keypt saman íbúð, innréttað hana og flutt inn. Ári síðar gengu þau í hjónaband. Þau áttu síðan tíu undraár saman. Hann dáðist að konu sinni og umvafði hana, fór með henni um heiminn og naut sín í vinnu og einkalífi.

Gulli fékk heilsufarsaðvörun á síðasta ári og síðan þungt högg á þessu. Gulli greindist með krabbamein í febrúar 2015: „Föstudagurinn þrettándi, það hlaut að vera!“ lét hann hafa eftir sér. Svo tók við slagur við dauðann og sókn í líf. Hann komst í stutta veiðiferð í Norðurá sem varaði í nokkra tíma og brosti alla leið í bæinn, vindbarinn, lúinn, lerkaður og með mikla verki. Helga Sigrún vaktaði hann og studdi og Logi hlúði að föður sínum. Gulli sat gjarnan hljóður úti, hugsaði sitt og naut birtu í auga og vinds á kinn. Geðprýði og yfirvegun hans snart þau sem áttu við hann samskipti á þessu tímabili en símtöl, heimsóknir og kveðjur frá vinum og vandamönnum voru honum styrkur í baráttunni. Hann mat mjög hve systkini hans og vinir stóðu þétt með honum í veikindunum og var þakklátur fyrir stuðninginn.

Minningar og lífið

Nú eru skil. Hvers minnistu þegar þú hugsar um Gulla? Manstu ósérhlífni, glaðværð, kraftinn, húmorinn, greindina? Manstu umhyggju hans og vilja til að efla alla? Manstu áhugann á framkvæmdum og hinn skapandi huga hans? Manstu hve frjór hann var og marksækinn? Manstu getuna til að greina að aðalatriði og aukaatriði? Og hugsaðu alltaf um Gulla héðan í frá þegar þú ekur fram hjá Hörpunni eða ferð á tónleika. Þá nýtur þú hans, hugsjóna og verka.

Og nú er hann farinn. Hann er ekki á Sigtúnum heldur Guðstúnum. Hann ekur ekki lengur hratt og multitaskar á meðan. Hann vegsamar ekki lengur íslenskan landbúnað með því að löðra smjöri á pönnu og steikja ofursteik. Hann ávann sér tuttugupundaramerkið en þeir verða ekki fleiri silfurhreistraðir á bakkanum hjá honum heldur einhverjir ofurfiskar skv. húmor himsins eins og sést á baksíðu sálmarskrárinnar. Á himnum brotna engar stangir. Það er hörmulegt að Gulli skuli vera dáinn og farinn en það er heimsins hjálparráð að Guð opnar veröld himinsins og þú, ég og Gulli megum öll njóta. Guð dassar heilmiklum húmor yfir okkur, elskar og bjargar. Heimurinn er eins og Harpan – stórkostleg hönnun en himininn fullkominn. Gulla var ríkulega gefið í lífinu og er elskaður í eilífðinni.

Guð geymi Gunnlaug Kristjánsson og Guð geymi þig.

Minningarorð í útför Gunnlaugs í Hallgrímskirkju föstudaginn 11. september kl. 13. Jarðsett í Kópavogskirkjugarði. Erfidrykkja í Hörpunni.

Trúir þú á Guð? Fyrir skömmu var hópur fólks að ræða um trú og trúariðkun. Nokkur börn voru nærstödd og tóku þátt í umræðunni. Einn drengjanna spurði: „Trúir þú á Guð?“ Svarið var: „Nei, ég trúi bara á sjálfa mig. Ég trúi ekki á neitt sem er meira en ég sjálf.“ Og barnið hugsaði um þessa afstöðu og hafði þörf fyrir – þegar heim var komið – að ræða þessa nálgun. Að trúa bara á sjálfan sig útilokar veruleika Guðs og lífs eftir dauða. Þetta er merkilega skýrt svar þeirrar menningar sem kalla má ég-menningu. Ekkert er einstaklingnum æðra, engin gildi til sem þarf að taka mið af og ekki varða “mig” eða “mitt”. Ég-menning er vefur einstaklingshyggju og er skeytingarlaus um stórgildi sögu eða þarfa annarra. Guð er ég-menningarfólki dauður, trúin óþörf sem og allt hitt sem einstaklingurinn kann ekki við.

<strong>Sjálfurnar</strong>
Fyrir nokkrun áratugun voru þau talin fáfengileg eða vanþroskuð sem voru upptekin af sjálfum sér. Að taka myndir af sér var skrítið. En nú eru selfie-stangirnar að verða staðalbúnaður ferðafólks. Það sjáum við vel í og við Hallgrímskirkju. Sjálfufólkið tekur myndir af sér með kirkju, orgel eða altari í baksýn. Ferð sumra þessara er ferð sjálfsins og umhverfið er fremur bakgrunnur en meginmyndefnið. Myndasmiðurinn er ekki lengur á bak við vélina heldur framan við og fremstur á myndinni. Ljósmyndarinn er í fókus.

Í textagerð er hliðstæð þróun. Þegar fólk skrifaði greinar í blöð eða tjáði sig opinberlega fyrir hálfri öld var sjaldgæft að fólk bæri einkamál á torg. Orðið ég kom mun sjaldnar fyrir en fleirtölumyndin við. En nú er það ég einstaklinganna sem lætur gamminn geysa á samfélagssíðunum, í fjölmiðlum og í opinberri orðræðu. Spegill, spegill herm þú mér – er ég ekki flottur – er ég ekki smart?

Þau sem eru illa haldin af sjálfusóttinni hafa svipuð einkenni og fíklar – þurfa að fá sitt skot hvort sem það varðar aðdáun, föt, dót eða efni. Sjálfusóttin getur verið jafn skefjalaus og fíkn og hefur líka skelfilegar afleiðingar í fjölskyldum þeirra sem eru kengbogin inn í sjálf sig. Engin bót verður nema fólk breytist, fái nýtt líf.

Grikkir sögðu sögu um Narcissus sem tákngerving sjálfsástarfólks heimsins. Örlög hans voru að elska aðeins sjálfan sig og engan annan eða aðra. Hann var svo hrifinn af spegilmynd sinni að hann gat ekki slitið sig frá henni, heldur veslaðist upp og dó. Vissulega hafa egóistarnir alltaf verið til, fólk sem þjónar helst eigin duttlungum og hagsmunum. Hin siðblindu eru verstu fulltrúar sjálfhverfunnar.

Þegar menning Vesturlanda tekur sjálfhverfa u-beygju veiklast samfélagsgildin. Ég-menningin setur viðmið. Aukinn stuðningur við pólitíska öfgaflokka er einn liður þessarar þróunar. Guðstrú og trúarafstaða fólks breytist einnig. Það sem ekki þjónar sjálfinu og uppfyllir einkaþarfir er látið gossa. Trúarstofnanir og menningarstofnanir lenda í svelg og týnast í glatkistu sögunnar.

<strong>Ekki fyrirgefið?</strong>
Guðspjall dagsins varðar sjálfusótt einstaklinga og ég-menninguna. Jesús Kristur segir að allt sé fyrirgefið í þessum heimi og allt geti Guð umborið. Bara eitt er ekki fyrirgefið og það er að mæla gegn Heilögum Anda. Hvað merkir slíkt? Ef fólk er úr tengslum við Guð er hætt við rugli og einstaklingarnir ala með sér ranghugmyndir um sjálfa sig, veröldina og lífið. Að hallmæla Heilögum anda er einfaldlega það að trúa ekki á neitt meira og æðra en eigið sjálf. Það er trúleysi að hafna að Guð sé Guð. Að vera trúlaus er ekki það að efast, vera veikur í trúnni eða reiður Guði, þegar sorgin nístir og allt virðist mótdrægt. Nei, það er afstaðan að maður sé sjálfur nafli heimsins. Broddurinn í ræðu Jesú er: “Hverju trúir þú? Heldur þú framhjá Guði, með því að dýrka þig?”

Guðspjall dagsins varðar eins konar trúarlegt milliuppgjör. Hvar stendur þú og hvert stefnir þú? Trúin er ekki aðeins mál framtíðar eða elliára heldur varðar núið. Guð er hér, innan í þér, í messunni, í náttúrunni, í listinni og í veröldinni. Fyrir framan öll sem horfa í spegla heimsins, dýrka eigið sjálf er Guð sem horfir og elskar fólk. En Guð neyðir engan til gæfuríks lífs, opnar ekki framtíð og eilífð nema fólk virði að lífið er meira en eigin nafli – og opni eigið sjálf. Maður sem er kengboginn inn í sjálfan sig, fókuserar bara sjálfan sig sér ekki samhengi lífsins. Ég-menningin er menning andlegrar fátæktar og samfélagslegrar upplausnar.

<strong>Draumar fermingarungmennanna</strong>
Liðna daga hefur stórkostleg kirkjulistahátíð hefur verið haldin hér í Hallgrímskirkju og svo hafa fermingarungmenni sótt sumarnámskeið á sama tíma. Hópurinn er skemmtilegur og það hefur verið gaman að vinna með þeim. Meðal verkefna þeirra var að skrifa um drauma sína og framtíð. Þessi draumablöð vonanna eru núna á altarinu í kirkjunni og við biðjum fyrir óskum unglinganna. Kirkja er ekki ég-menning heldur við-menning sem axlar ábyrð á einstaklingum. Því eru bænir fermingarungmennanna okkar bænir. Við berum þau sameiginlega fram fyrir Guð.

Í bænum unga fólksins kemur vel í ljós að þau hafa sterkar hugmyndir um framtíðarstörf sín og ég gladdist mjög yfir að þau leita ekki bara síns eigin. Þau eru ekki illa haldin af sjálfusóttinni heldur eru samfélagslega ábyrg. Þau leita jafnvægis sjálfs og samfélags. Þau vilja gjarnan velja sér framtíðarstörf til að verða öðrum til eflingar og gagns í samfélagi manna. Það var hrífandi að lesa hversu þroskaða sýn þau hafa varðandi hamingjuríkt fjölskyldulíf. Flest vilja þau eignast fjölskyldu. Mikill meirihluti vill eignast maka, 1-3 börn. Og á einu draumablaðin stóð: Ég vil eignast strák, stelpu og “æðislegan” eiginmann! Við getum væntanlega verið sammála um að svona ósk er góð!

<strong>Hið góða líf</strong>
Hver er mennskan og hvert er einkenni allra manna? Að þrá hamingju. Við leitum öll hins góða lífs. Þess leita fermingarungmenni, en þau líka sem stara á spegilmynd sína. Þú og ég – við viljum og þráum að fá að njóta lífsins.

Öll verðum við að sjá okkur sjálf til að þroskast, ekki bara dást heldur gera okkur grein fyrir kostum og göllum til að við öðlumst heilbrigða sjálfsmynd. Jesús minnir á við erum kölluð til að hugsa um meira en eigin þarfir og hann sýndi sjálfur hvað mennskan merkir og Guðstengslin. Tilveran er stærri en spegilgláp. Því starfar kirkjan, til að gefa okkur öllum tækifæri til að spegla okkur í himinspeglinum. Guð horfir á okkur og vill okkur vel, gefur gildi og samhengi, list og fegurð til að njóta og samfélag til að lifa í og þjóna. Stærstu og glæsilegustu draumarnir eru í vitund Guðs, sem dreymir þessa veröld, dreymir þig án afláts, dreymir ský og regn, hjartslátt þinn, líf þitt, að þú og allur þessi söfnuður fólks verði hamingjusöm og njóti lífsins.

<strong>Guðs-appið</strong>
Ég-menningin hrynur því hún er sjálfhverf fíknarmenning. En veröld trúarinnar varðar sannleika lífsins. Ég-app sjálfusóttarinnar virkar illa. En Guðs-appið virkar frábærlega og veitir heilbrigði. Í veröld trúarinnar færðu að taka þátt í hinum raunverulega draumi Guðs um elskuna, um hamingjuna, vonina og trúna. Þar ertu til.
Amen.

Prédikun í Hallgrímskirkju við lok kirkjulistahátíðar, 23. ágúst 2015. 12. sd. eftir þrenningarhátíð.

<strong>Textaröð: B
Lexía: Slm 40.2-6</strong>
Stöðugt vonaði ég á Drottin
og hann laut niður að mér og heyrði ákall mitt.
Hann dró mig upp úr glötunargröfinni,
upp úr fúafeni,
veitti mér fótfestu á kletti
og gerði mig styrkan í gangi.
Hann lagði mér ný ljóð í munn,
lofsöng til Guðs vors.
Margir sjá það og óttast
og treysta Drottni.
Sæll er sá maður sem gerir Drottin að athvarfi sínu
og snýr sér ekki til dramblátra
eða þeirra sem fylgja falsguðum.
Drottinn, Guð minn, mörg eru máttarverk þín
og áform þín oss til handa,
ekkert jafnast á við þig.
Ég vil segja frá þeim, kunngjöra þau,
en þau eru fleiri en tölu verði á komið.

<strong>Pistill: Jak 3.8-12</strong>
…en tunguna getur enginn maður tamið, þessa óhemju sem er full af banvænu eitri. Með henni vegsömum við Drottin okkar og föður og með henni formælum við mönnum sem skapaðir eru í líkingu Guðs. Af sama munni gengur fram blessun og bölvun. Þetta má ekki svo vera, bræður mínir og systur. Gefur sama lindin bæði ferskt og beiskt vatn? Mun fíkjutré, bræður mínir og systur, geta gefið af sér ólífur eða vínviður fíkjur? Eigi getur heldur saltur brunnur gefið ferskt vatn.

<strong>Guðspjall: Matt 12.31-37</strong>
Þess vegna segi ég yður: Hver synd og guðlöstun verður mönnum fyrirgefin en guðlast gegn andanum verður ekki fyrirgefið. Hverjum sem mælir gegn Mannssyninum verður það fyrirgefið en þeim sem mælir gegn heilögum anda verður ekki fyrirgefið, hvorki í þessum heimi né í hinum komanda. Annaðhvort er tréð gott og ávöxturinn góður eða tréð vont og ávöxturinn vondur. Því af ávextinum þekkist tréð. Þér nöðrukyn, hvernig getið þér, sem eruð vond, talað gott? Af gnægð hjartans mælir munnurinn. Góður maður ber gott fram úr góðum sjóði en vondur maður ber vont fram úr vondum sjóði. En ég segi yður: Á dómsdegi munu menn verða að svara fyrir hvert ónytjuorð sem þeir mæla. Því af orðum þínum muntu sýknaður og af orðum þínum muntu sakfelldur verða.

Forseti Ítalíu – Porchetta Italiana

IMG_1952Fjölskyldan fór í vikuferð til Noregs og Svíþjóðar – til Kristínar systur og karlanna hennar, Öyvinds og Baldurs. Daginn áður en við fórum duttum við Ísak, níu ára sonur minn, niður á matarmyndband Ragnars Freys, þess ágæta “kokklæknis.” Ragnar eldaði m.a. Porchettu – samansaumaðan svínasíðupoka um svínalund. Við horfðum á bandið andaktugir og hétum hvor öðrum því að við skyldum nú elda þetta góðgæti fyrir stórfjölskylduna þegar allir væru komnir í sumarparadísina – Kristínarskjól – í Strömstad. Vegna flaums Norðmanna til Strömstad eru matarkisturnar þar á heimsmælikvarða og í Strömstad Mat fundum við allt sem Ragnar Freyr mælti með í sinni uppskrift. Kjötmeistarinn skar fyrir mig rifin úr og hló að mér þegar ég vildi fá svínasíðuna heldur jafn-ferkantaðri en sú var sem hann átti í borðinu. En svona eru svínasíðurnar sagði hann en ég var nú á því að hún væri heldur stutt á anan kantinn. Svo ræddum við málin og ég sagði honum að ég ætlaði að ofurkrydda síðuna og setja svínalundina á hana miðja og vefja síðuna utan um allt gúmmulaðið. Og helst hefði ég vilja sauma síðuna saman. Þegar hann gerði sér grein fyrir að íbjúga fótboltanálin mín (rúllupyslunálin) væri heima á Íslandi hjóp hann til og náði í kjötsmokk og gaf mér. Við klæddum súperpylsuna í hann og hann hélt vel allan þriggja klukkutíma steikingartímann.

Hráefnið er þetta:

3 kg svínasíða

1/2 kg svínalund

börkur af einni sítrónu

3 msk jómfrúarolía

3 msk marsala-vín

1 msk fennelfræ

2 msk hökkuð salvía

2 msk hakkað rósmarín

salt og pipar

2 greinar rósmarín

Mirepoix (laukur, sellerí og gulrætur)

3 fennelhausar

Hægt er að nálgast eldunarleiðbeiningar t.d. á slóðinni: http://www.mbl.is/smartland/pistlar/ragnarfreyr/1353916/

IMG_1950

Á vefnum – undir gúglinu porchetta – eru margar aðrar og skemmtilegar útgáfur sem hægt er að nota. Ég bætti við einum lauk og helling af hvítlauk og ekki síðra að mylja ofurlítið af einiberjum með því þau vaxa í breiðum á Nöthomen við Strömstad. Notaði reyndar ofurlítið sherry líka en eitthvað rautt vín færi betur. Rósmarínið kom úr blómabeði heimilismanna, heilbrigt og fallegt. Svo var gaman að elda í sumarhitanum, svuntan var toppurinn. Kláraði kokkaríið fyrripart og smellti í ofninn og steikti meðan fólkið gekk út eða fór að sigla. Þegar allir komu heim var yndislegur ilmur í húsi og lagði út yfir síkið við morgunverðarpallinn.

IMG_1954

Sonur minn var búinn að gleyma ítalska nafninu og íslenskaði það. Með lyktina svona lokkandi spurði hann: Hvenær verður búið að steikja forseta Ítalíu? Öllum var skemmt og síðan gengur þessi réttur undir nafninu forsetinn eða forseti Ítalíu. Porchetta er orðin að forseta – það er við hæfi.

Kjötæturnar í fjölskyldunni borðuðu með bestu lyst en grænhneigða fólkið var ekki eins hrifið af forsetanum – kýs hann ekki aftur og steikir hann ekki heldur. En kokkurinn var kátur með allt ferlið, margir borðuðu mikið. Ég kýs forsetann.

 

Ég held ellefta boðorðið

Ríkur maðurSigurður Árni Þórðarson tók nýlega við starfi sóknarprests við Hallgrímskirkju. Áður gegndi hann preststarfi við Neskirkju í rúmlega tíu ár. Sigurður Árni hefur þjónað sem prestur í sveit og borg og starfað við kirkjulega stjórnsýslu. Hann hefur einnig sinnt kennslustörfum. Hann var rektor Skálholtsskóla á þeim tíma sem starfsemi hans var breytt í að verða menningarmiðstöð kirkjunnar. Sigurður Árni er Vesturbæingur og ættaður af Grímsstaðaholtinu en á einnig ættir að rekja norður í Svarfaðardal. Hann ólst upp á Tómasarhaga. Þar býr hann í steinbæ afa síns og ömmu og með konu sinni Elínu Sigrúnu Jónsdóttur, lögfræðingi og framkvæmdastjóra Útfararstofu kirkjugarðanna. Sigurður Árni spjallar við Vesturbæjarblaðið að þessu sinni.

Ingi skólastjóri og siðferðið

Það var undursamlegt að alast upp í Vesturbænum, margt brallað og krakkarnir í hverfinu bjuggu við mikið frelsi. Minningarnar um skólaveru og bernsku vöknuðu við að kveðja Inga Kristinsson, skólastjóra Melaskóla, sem lést í janúar. Ingi var dásamlegur skólastjóri, natinn, nálægður, umhyggjusamur en röggsamur skólamaður og leiðtogi. Þegar ég var ellefu ára gekk hark- og púkkæði yfir Reykjavík og við komum í skólann með fimmeyringa til að leggja undir. Ingi hafði veður af að ég væri að verða búinn að græða allan fimmeyringalagerinn í Vesturbænum og kom út á skólalóð þar sem nú er nýi boltavöllurinn. Hann bað alla að fara en mig að ræða við sig. Svo spurði hann mig erfiðra spurninga um fjárhættuspilamennskuna, benti mér á að stundum yrði maður, af tillitssemi við aðra, að takmarka eigið frelsi. Og svo skýrði hann út fyrir mér merkingu gullnu reglu Jesú í Fjallræðunni, að það sem maður væntir af öðrum sé það sem vert sé að gera öðrum. Og í því ljósi fékk Ingi mig til að lofa sér að græða aldrei framar á öðrum. Við það hef ég staðið – og því aðeins stundað venjulega launavinnu sem opinber starfsmaður!

Flugbrautin og sjórinn

Það var ekki aðeins ævintýri að leika sér í götuleikjunum á Tómasarhaganum, sumar sem vetur. Lynghagaróló heillaði og alltaf einhverjir í fótbolta sem ég stundaði stíft. Tómasarhagagengi stóð upp í hárinu á Fálkagötuflokkum og stundum geisuðu stríð milli okkar á Holtinu og krakka í Skerjó eða jafnvel upp í Þingholtum. Við fengum lausan taum til leikja. Einu sinni vorum við félagar teknir af flugvallarlögreglunni þar sem við vorum að leika okkur við að hjóla yfir flugbrautina milli flugferða. Það var æsilegur leikur en löggan hafði engan skilning á eðli þess leiks. Einu sinni fékk ég gamlan dekkjalager frá Landleiðaverkstæðinu þar sem nú eru hjónagarðarnir við Suðurgötu, bætti, pumpaði upp, batt saman stórar slöngur og fór svo á sjó við Bjarnastaðavörina. Ég meira að segja veiddi af flekanum sem ég stýrði með langri bambusstöng. Stundum fórum við í mikla fiskleiðangra til að veiða ufsa út á Granda, en mamma hafði aldrei löngun til að matreiða fisk sem við veiddum úr klóakinu. Ég skildi það seinna!

Gott fólk

Það var mikið af mjög áhugaverðu fólki í hverfinu sem lét sig unga fólkið varða og varð okkur fyrirmyndir. Árni í Árnabúð, sá frábæri verslunarmaður, réð mig í vinnu þegar ég var tólf ára. Hrefna Tynes var skemmtilegur æskulýðsleiðtogi sem m.a. beitti sér í starfi Neskirkju. Þar voru prestarnir öflugir og sr. Frank sem lagði gott til okkar krökkanna. Ég hef alltaf verið honum þakklátur síðan. Magnea Þorkelsdóttir og Sigurbjörn Einarsson, biskupshjónin, bjuggu hinum megin Tómasarhagans og höfðu tíma fyrir okkur smáfólkið við götuna. Dóri, fisksali á Dunhaganum, var elskulegur og hvatti ungviðið til góðs m.a. í Þrótti. Björn Guðjónsson var til í að leyfa mé að fara á sjó með sér. KR varð sem annað heimili og ég sótti Neskirkju og eignaðiset marga félaga þar. Svo var nokkur hópur sem fór niður í KFUM á Amtmannsstíg og í bíó á eftir. Ég varð eiginlega kristilegur KR-ingur og er enn.

Melaskólaárin og Hagaskólaárin voru skemmtileg ár og þetta voru undraverðar menntastofnanir. Ég met eftir á hve kennararnir lögðu sig í líma við að þjóna okkur. Jóna Hansen þreyttist ekki viðað að auka orðaforða í dönskunni. Björn Jónsson, skólastjóri, spilaði við mig borðtennis vikulega. Stórkostlegt fólk, björt bernska, fjölskrúðugt mannlíf. Ég var heppinn að alast upp í Vesturbænum. Ég á fimm börn og þeir yngstu eru níu ára drengir sem eru í Melaskóla. Þeir eru fjórði liður í beinan karllegg sem býr í sama húsinu, Litlabæ, Tómasarhaga 16b. Það er nú dálítið sérstakt í Reykjavík.

Skólarnir

Ég fór í MR eins og margir úr Hagaskóla. Eftir stúdentspróf fór ég til Noregs í eitt ár. Sumarið eftir stúdentspróf var ég í Oslo, veiktist og var skotið inn á krabbameinssjúkrahús, skorinn með hraði. Í þrjár vikur fannst mér ég vera deyjandi en svo fékk ég lífsdóm. En þessi reynsla fjarri heimahögum og heimavarnaliðinu breytti mér. Ég hafði fyrst ætlað í líffræði í háskólanum og sérhæfa mig í vatni. En kynnin af krabbanum varð til að ég gerði upp við Guð og fór í guðfræðina. Ég naut frábærra kennarra sem opnuðu heim fræðanna og tengdu vel við samtímann. Heimspekin heillaði mig líka. Ég var hvattur til að halda áfram námi og fékk styrki beggja megin Atlantshafsins og valdi að lokum að fara í doktorsnám í Vanderbiltháskóla í Nashville. Það var gott því guðfræðideildin þar var meðal þeirra tíu bestu í Ameríku. Mér bauðst kennslustaða vestra en valdi að fara heim. Og núna þegar maður horfir í afturspegilinn sé ég betur hve möguleikarnir eru margir og hvernig eitt leiðir af öðru. Ég held að ég hefði ekki orðið hamingjusamari í fræðaturni í Ameríku.

Presturinn

Svo vígðist ég til þjónustu við Skaftfellinga og upplifði dulmagn náttúru og fjölmargar víddir tilverunnar sem nýja Ófeigsbókin Öræfi tjáir vel. Ég lærði að elska skaftfellska náttúru og menningu, er alltaf með heimþrá austur. Svo fór ég norður og glímdi við þingeyskt kristnilíf sem var mjög skemmtilegt. Þingeyingar voru mjög fyndnir og höfðu gaman af að reyna prestinn. Í Bárðardal gengu nokkrir karlar ekki til altaris en þar sem jafnan var vel í bikarnum í messulok bað ég þá að hjálpa mér að tæma svo ég lenti ekki í vandræðum við akstur á heimleiðinni. Þeir kunnu að meta húmorinn og lærðu að meta gildi altarissakramentisins. En ég var stutt fyrir norðan. Pétur biskup bað mig að taka að mér rektorsstarf við Skálholtsskóla. Þar bjuggum við í fimm ár og síðan á Þingvöllum. Ég er lukkuhrólfur að hafa fengið að búa með börnum mínum og fjölskyldu á eða í þessum helgidómum íslenskrar menningar og börnin mín eru bæði mótuð og þakklát fyrir þessi ár í faðmi Íslands, inni í náttúru og sögu.

Svo fór ég í bæinn, stundaði fræðastörf og þjónaði á biskupsstofu, leysti af um tíma öðlinginn og vitringinn dr. Sigurð Pálsson í Hallgrímskirkju. En svo var ég valinn til prestsstarfs í Neskirkju frá vori 2004.

Þorpið okkar

Mér kom svolítið á óvart hvað Vesturbærinn hafði þróast yfir í að vera þorp í borginni. Skólarnir, kirkjan, KR, verslanirnar og sundlaugin hafa mótað þétta og öfluga einingu. Við stöndum saman um að vernda hverfið okkar og það er samhugur og döngun í þessu samfélagi. Fólk lætur sig hvert annað varða og það finnum við t.d. í nágrænnagæslu í mínum hverfishluta. Við þurfum að halda vökunni, gæta að stofnunum okkar, eins og kirkju og skólunum. Og ég aðhyllist þéttingu byggðar í Vesturbænum til að vega á móti umbreytingu margra íbúða í hverfi okkar í orlofsíbúðir Íslendinga erlendis.

 

Lærisveinninn

Já, ég lít nú reyndar svo á að Þingholtin sé systurhverfi, sumir segja úthverfi Vesturbæjarins! Og einhverjir töldu að með því að ég færi í prestsþjónustu á Skólavörðuholti væru Vesturbæingarnir að gera tilraun til að innlima Hallgrímssókn í Nessókn. En ég held að við eigum að auka samvinnu milli Hallgrímssóknar, Dómkirkjusóknar og Nessóknar og líka Seltjarnarnessókn líka. Þetta er eitt svæði og þó við sameinum ekki sóknir er hægt að auka samstarfið og samnýta mannafla og mannauð. Það er margt líkt í kirkjustarfinu í Neskirkju og Hallgrímskirkju en þó margt sem er ólíkt. Ferðamennskan í Hallgrímskirkju er mikil. Nú í febrúar eru jafn margir ferðamenn og í júlímánuði fyrir fimm árum. Það er merkilegt viðfangsefni að þjóna yfir hálfri milljón ferðamanna vel og útvíkka hina kirkjulegu þjónustu við þetta fólk. Hallgrímskirkja er orðin pílagrímakirkja, fólk sækir til hennar vegna þess að hún er fræg sem ein af áhugaverðustu kirkjum í heimi og er á ýmsum “must see” listum ferðamennskunnar. Hún er tákn Reykjavíkur og útlína borgar- og menningarlandslags þjóðarinnar. Kirkjan gegnir hlutverki sem musteri sálmaskáldsins og kirkjulistar, ekki síst tónlistar. Mér hefur verið tekið ótrúlega vel og hefur komið á óvart hin mikla vinsemd sem ég hef mætt. Ég sagði við vin minn í Vegamótafiskbúðinni um daginn að mér hefði ekki verið tekið betur þó ég hefði verið einn af lærisveinum Jesú. Og hann horfði á mig og sagði: „Nú, þú ert lærisveinn Jesú“ sem er rétt. Það er margt nýtt í Hallgrímskirkju. Irma Sjöfn Óskarsdóttir, afar öflugur prestur var ráðin um leið og ég og starfsmannateymið er samstætt og reiðubúið að sækja fram.

Þó ég sé ekki daglega lengur í Neskirkju og fermi ekki í vor, sem ég sé eftir, held ég áfram að þjóna fólki í hverfinu. Ég er ekki farinn úr Vesturbænum, sæki kaffihúsið, sundlaugina, versla í Melabúðinni og Bónus, rölti um hverfið, æpi í KR-stúkunni á leikjum, fylgi strákunum mínum í þeirra skóla- og tómstundastarfi og leiði konuna mína áfram í rómantískum göngum á stígnum inn í Nauthólsvík. Ég held áfram að birta prédikanir og pistla á vefnum eins og áður og margir Vesturbæingar lesa. Svo held ég áfram að rækta minn stóra matjurtagarð og sinna ávaxtatrjánum mínum í garðinum. Ég aðhyllist lífið og held að ellefta boðorðið sé: Þér skuluð ekki vera leiðinleg!

Viðtal sem biritist í Vesturbæjarblaðinu í mars 2015, s. 4-5

Framtíðin í núinu

Lexía dagsins er úr seinni hluta Jesabókarinnar. Lestur þessa rismikla texta dró fram í huga mér minningar frá námstíma mínum í guðfræðideild Háskóla Íslands. Þar naut ég kennslu merkra lærimeistara og dr. Þórir Kr. Þórðarson var einn þeirra. Hann var frumlegur fræðimaður, listamaður, merkilegur forystumaður í borgarmálum Reykjavíkur og snilldarkennari. Tímar Þóris Kr. í fræðum Gamla testamentisins voru áhrifaríkir. Stundum var Þórir Kr. í svo miklu stuði að þegar tíma lauk gengu nemendur út úr tíma í uppnámi eða í leiðslu, en með kollana fulla af nýjum hugmyndum. Mér er sérlega eftirminnilegt þegar farið varið í gegnum Jesajabókina.

Lærifaðirinn kallaði mig einu sinni til sín og sagði að nú hefði hann verkefni: „Þú átt að halda tveggja tíma fyrirlestur um hugmyndir og túlkun Gerhards von Rad.“ Ég hóf undirbúning af kappi og las hina merkilegu bók Gerhard von Rad um boðskap spámannanna Die Botschaft der Propheten, sem til er á mörgum tungumálum því höfundurinn var sem páfi gamlatestamentisfræða á 20. öld. Og ég lærði meira en tilheyrendurnir. Það var – held ég – tilgangur Þóris Kr. að ég næði að orða með mínum hætti og miðla áfram glæsilegum hugmyndum von Rads.

Hverjar voru þær? Með einföldun má segja að von Rad lýsi að á tímum Jesaja hafi Ísraelsþjóðin bakkað inn í framtíðina. Hún hafi lifað í eftirsjá, syrgt fornan glæsitíma þegar þjóðin var sigursælt herveldi, byggði upp glæsilega aðstöðu trúardýrkunar og öfluga stjórnsýslu í Jerúsalem. En svo hafði öllu farið aftur, þjóðin hafði verið illa leikinn af erlendum herjum. Í stað þess að bregðast við hafi þjóðin helst horft til baka, verið upptekin af fornri frægð, glæstri fortíð – og hún bakkaði. En þá komu fram vonarmenn Guðs sem ekki héldu við þessari fortíðarþrá heldur sungu nýja söngva og boðuðu framtíð. Í spádómsbók Jesaja heyrast þeir söngvar. Þessum vonarmönnum framtíðar var trúað og þjóðin byrjaði að snúa sér við, hætti að bakka og tók að opna fyrir framvindu og von. Þar með fékk nútíðin frelsi úr viðjum fortíðarþrár. Guðsvitundin breyttist. Guð var ekki aðeins vald í fortíð. Guð lifði í öllum víddum tímans, kallaði úr framtíð og væri með í nútíð. Allt breyttist þar með.

Lífmagn lexíunnar

Það er þessi vitund og skilningur sem speglast í dýptarorðum lexíu dagsins. Guð er ekki smár heldur mikill. Guð er ekki aðeins goð fornaldar heldur Guð tímans. Guð er ekki innilokað skurðgoð í húsi heldur skapar heiminn, breiðir út land eins og brauð, þenur út himinhvelfinguna og leikur sér í sköpun heims og þar með tilveru manna. Guð kallar fólk til að verða ljós fyrir aðra, vill að hans fólk lækni sjón hið innra sem ytra og leiði þau til frelsis sem eru lægð og heft. Það er lífsmáttur í lexíunni.

Hvað viljum við með slíkan boðskap? Sem þjóð og einstaklingar? Snúum við aftur eða fram? Snýrðu baki og bossa í framtíðina? Fólk, sem hefur lent í lífsháska eða upplifað eitthvað sérstakt, nær stundum ekki að sleppa og halda lífinu áfram. Það er klossfast í fortíð og ferðafélagar þess eru bakþankar, eftirsjá og kvíði. Viljum við ganga afturábak inn í framtíðina eða snúa okkur og opna fyrir nýja möguleika?

Fortíð er mikilvæg og enginn ætti að slíta sig algerlega frá sið og sögu, hvorki menningarlega né persónulega. Það væri afstaða hroka og einfeldni. En ógagnrýnin fortíðardýrkun verður jafnan til að draga úr lífsgæðum og hamingju í nútíð og framtíð. Öll ættum við að æfa okkur – temja okkur – að lifa í augnablikinu, njóta alls þess sem okkur er gefið, hvers annars, tækifæra, litbrigða, orða og upplifana. En þau, sem lifa bara í núinu og án nokkurra tengsla við fortíð eða framtíð, munu örugglega stranda á einhverju skeri og slasast illa. Skýjaglópar, sem eru bara uppteknir af draumum og framtíðinni, brotlenda líka. Öfgar meiða.

Bæði gamalt og nýtt


Flest erum við smeyk gagnvart hinu óþekkta en megum þó opna. Flest dröslumst við líka með einhver áföll úr fortíðinni, sem við megum gjarnan sleppa og losna við. Mörg okkar eru hamin af verkum eða vitleysu, sem við ættum að segja upp og láta gossa. Að bakka inn í framtíð og horfa aðeins til baka skerðir lífsgæði og fer illa með gleði.

Velferð okkar byggist á að okkur auðnist að læra af fortíð og reynslunni og draga lærdóminn til framtíðar. Fortíð – aftur – framtíð – opnun og nýjung. Það er spennan, sem við einstaklingar sem og kristin kirkja erum kölluð til að lifa við. Ætlum við að vera bara í fortíðinni, hefðinni, gera það alltaf hefur verið gert eða ætlum við að breyta svo róttækt að það verði engin fortíð heldur bara framtíð, reyna að vera algerlega á fullu í framtíðinni?

Guð í fortíð – Guð í framtíð


Kristnin tekur mið af hefð og sögu en hlustar á hvað Guð kallar til. Okkar viðbrögð verða heil og til farsældar þegar fortíð og framtíð lifa í fléttu.

Jesús var opinn og þorði. Því erum við hér í dag af því hann lifði ekki bara af fortíð, heldur opnaði gagnvart framtíðinni. Hann kom ekki til að brjóta niður fortíð heldur uppfylla hana, ekki til að eyðileggja það sem gert hafði verið heldur til að bera elsku Guðs inn í veröldina, gefa líf þar sem dauði var, hleypa lífsmætti í sið og samfélag. Aftur en líka fram. Til að þú getir lifið í núinu með hamingju og gleði þarftu að vera í góðum tengslum við fortíð en líka framtíð sem Guð kallar þig og aðra menn til. Gott líf er fléttað úr fortíð og framtíð. Söguguðfræði varðar gott jafnvægi tíðanna.

Lífið færir okkur verkefni og þau eru misjöfn og persónuleg. Hver er þín áskorun? Hverju máttu sleppa? Hverju máttu losna frá? Til hvers ertu kölluð eða kallaður?

Hvernig væri að hugsa framþanka í stað bakþanka, vona í stað kvíða? Það stórkostlega er að framtíðin finnur þig ekki í fortíð heldur aðeins í núinu. Jesús Kristur opnaði, þorði og uppfyllti.

Amen

Íhugun í Hallgrímskirkju 12. júlí, 2015

2015 sjötti sunnudagur eftir þrenningarhátíð – textaröð: B

Lexía: Jes 42.5-7


Svo segir Drottinn Guð
sem skapaði himininn og þandi hann út,
sem breiddi út jörðina með öllu sem á henni vex, 
sá er andardrátt gaf jarðarbúum og lífsanda þeim sem á jörðinni ganga:
 Ég, Drottinn, kallaði þig í réttlæti
og held í hönd þína.
 Ég móta þig,
geri þig að sáttmála fyrir þjóðirnar og að ljósi fyrir lýðina 
til að opna hin blindu augu, leiða fanga úr varðhaldi
 og úr dýflissu þá sem í myrkri sitja.

Pistill: Gal 3.26-29

Með því að trúa á Krist Jesú eruð þið öll Guðs börn. Þið öll, sem eruð skírð til samfélags við Krist, hafið íklæðst Kristi. Hér er hvorki Gyðingur né annarrar þjóðar maður, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þið eruð öll eitt í Kristi Jesú. Ef þið eruð í samfélagi við Krist þá eruð þið niðjar Abrahams og erfið það sem honum var heitið.

Guðspjall: Matt 5.17-19


Ætlið ekki að ég sé kominn til að afnema lögmálið eða spámennina. Ég kom ekki til að afnema heldur uppfylla. Sannlega segi ég yður: Þar til himinn og jörð líða undir lok mun ekki einn smástafur eða stafkrókur falla úr lögmálinu uns allt er komið fram. Hver sem því brýtur eitt af þessum minnstu boðum og kennir öðrum það mun kallast minnstur í himnaríki en sá sem heldur þau og kennir mun mikill kallast í himnaríki.