Greinasafn fyrir merki: mennska

Fagmennska og mennska

Ég fór í frí en lenti í skóla. Og það sem ég lærði varðar fagmennsku og manndóm. Við fjöskyldan erum í sumarleyfi á Krít. Tilgangur ferðarinnar er að vera saman og kynna drengjunum okkar gríska menningu og skemmtilega eyju, sem við heimsóttum fyrir sautján árum. Nú var komið að því að drengirnir fengju líka að kynnast Miðjarðarhafsmenningu og jafnvel grísku eyjastolti. Það þarf mikið til að við förum á sama hótelið tvisvar, en í þetta skipti vorum við ekki í vafa. Við vildum aftur á sama hótelið. Svo góð hafði þjónustan þar verið á hinum dramatísku septemberdögum 2001 þegar ráðist var á tvíburaturnana. Við vorum að vísu smeyk um að hótelið hefði elst og þjónustan líka. En niðurstaðan er, að hótelið hefur batnað og þjónustan sé stórkostleg. Við hjónin erum bæði í þjónustustörfum og við tökum eftir hvernig unnið er.

Fagmennskan

Flest okkar viljum, að fólk sé fagmannlegt í því sem það gerir. Að það sinni störfum sínum í samræmi við eðli þeirra. Að það kunni sitt starf, beiti tækjum og tólum af þekkingu og í samræmi við reglur og staðla starfans. Og skili verki sínu óaðfinnanlegu. Það er metnaður okkar, að vera góð í því sem við höfum menntað okkur til og störfum við. Fagmaðurinn vill rísa undir væntingum og ljúka verki svo, að þau sem njóta eða kaupa þjónustuna séu ánægð og störfin séu helst umfram vætningar. En hvað er nóg? Getum við gert kröfu um að fagmennirnir séu skemmtilegir, fyndnir, hlýlegir og nærgætnir? Getum við gert kröfu um að auk góðrar vinnu sé fagmaðurinn líka nálægur og tillitssamur? Eiginlega ekki. Vissulega ætlumst við til að góður fagmaður sé ekki neikvæður, tuði ekki eða víbri af neikvæðni. Við væntum þess að fagmaður gæti að blanda ekki persónu sinni, heimilisvanda eða sérvisku inn í fagvinnu sína. Við viljum að mörk séu virt.

Nálægð – mennska

Og þá erum við aftur komin að hótelinu og starfsfólkinu þar. Öll eru þau einstaklega fagleg í þjónustu. Þau kunna verk sín, vinna af alúð, vanda sig og skila sínu. En hið einstæða er að þau eru ekki aðeins fagmannleg og hlutlaus, heldur nálæg og jákvæð. Öguð mennska er fléttuð í fagmennskuna. Langir vinnudagar breyta ekki nálgun þeirra. Þó ég hafi séð þau glöð að verki snemma dags kem ég að þeim að kvöldi jafn faglega einbeitt en líka nálæg og mennsk. Alltaf jafn örugg í starfi, vakandi yfir velferð fólksins sem þau þjóna, alltaf mild, til í glens, kunnáttusöm um mörk, aldrei ágeng, en þó föst fyrir þegar kemur að þjónustuþáttum og hlutverkum. Þetta eru hinir stórkostlegu plúsar í fagmennsku þessa fólks. Mikill lærdómur. Þau hafa dýpkað skilning minn á fagmennsku. Mennskan er eins mikilvæg og fagið í fagmennsku. Hús skipta máli, en fólkið í þeim er alltaf mikilvægast.

Fyrirmynd

Ég fór í frí en ég lærði mikið. Flest störf okkar í nútímasamfélagi eru þjónustustörf. Hvort sem við erum píparar, kennarar, ráðherrar eða þjónar störfum við fyrir fólk með beinum eða óbeinum hætti. Það er metnaðarmál fagmannsins að gera sem best, en það er hins vegar stórkostlegt þegar mennskan verður aðall fagmannsins. Þá er lengst náð. Þannig er það á hótelinu okkar. Og þannig vil ég helst vera í mínu þjónustustarfi sem prestur. Ég fór í frí og lærði mikið um mennskuna. Krítverjarnir eru mér skínandi fyrirmyndir um fagmennsku. Takk fyrir.

Hugleiðing 10. júní 2018.

Mynd hér að ofan er af nokkrum sem þjónuðu við matreiðslunámskeið einn daginn, kokkur, yfirkokkur og sommelier hótelsins. Allt skemmtilegir karlar, en konan sem stjórnaði var farin þegar náði mynd. Myndin af konum í viðburðastjórnun. Blómamyndin: Alla daga eru blóm sett í herbergi, aldrei eins svo það er alltaf einhver framvinda, enda mikill blómgróður á hótelsvæðinu.

Þú ert frábær

Ég stóð við Lynghagann og fagnaði hlaupafólkinu í Reykjavíkurmaraþoninu. Rúmlega fjórtán þúsund manns hlupu mislangar vegalengdir. Stemmingin var stórkostleg. Bros voru á flestum andlitum, gleðin hríslaðist um hlauparahópinn. Hvatningarköll hljómuðu frá þeim sem stóðu á gangstéttum og hlátrar ómuðu. Tónlistarfólk spilaði og kröftug, taktþung músík hljómaði úr hátölurum. Krafturinn var mikill. Gaman alla leið, áfram.

Ég hef farið niður á Lynghaga í mörg ár til að hvetja ættingja mína og vini. Það er gaman að vera með í þessum samheldna gleðihópi. Og svo var sérstaklega gaman í gær því drengirnir mínir – ellefu ára – hlupu 10 kílómetra í fyrsta sinn. Við foreldrarnir fögnuðum þegar þeir komu hlaupandi, léttstígir. Svo hjóluðum við vestur á Grandaveg til að hvetja þá áfram þar og furðuðum okkur á hve fjaðurmagnaðir þeir voru eftir átta kílómetra. Svo urðum við hjóla hratt til að komast á undan þeim í Lækjargötuna. Þetta var dásamlegt að taka þátt í þessari miklu hlaupagleði. Reykjavíkurmaraþon er uppskeruhátíð æfinga sem hafa staðið vikur, mánuði og jafnvel mörg ár. Mörg sem voru hlaupa tóku ákvörðun í vetur að vinna að hlaupinu. Árangur í lífinu sprettur ekki af sjálfu sér heldur er ávöxtur vilja og vinnu. Hamingjan í lífinu er líka árangur ástundunar.

Þegar við hjóluðum í átt að Grandanum sá ég stórt skilti. Við það var hvetjandi hópur sem aldeilis lagði sitt til. „Áfram, áfram“ kölluðu þau. Þetta var áheitahópur og það sem stóð á skiltinu þeirra var fallegt: Þú ert frábær. Þegar ég hjólaði svo í gegnum gamla vesturbæinn hugsaði ég um hve góð skilaboð þetta eru: Þú ert frábær. Þetta voru auðvitað skilaboð til allra þeirra sem hlupu, þau væru dýrmæt, frábær. En þetta er líka boðskapur af himnum til okkar manna. Við erum frábær, dýrmæt og öll einstök.

Áheitin

Og allir vita sem hafa kynnt sér Reykjavíkurmaraþonið að mörg hlaupa í áheitaskyni – til að láta gott af sér leiða. Þúsundir hlaupa til að styðja Ljósið, Píeta, Hjálparstarf kirkjunnar, Krabbameinsfélagið eða önnur mannræktarmálefni. Svo er safnað fyrir fólki sem hefur veikst eða slasast. Mörg voru að safna fyrir unga konu sem lenti í alvarlegu hjólaslysi á dögunum og lamaðist. Stuðingurinn er á grundvelli þess að allir eru mikilvægir og við megum og þurfum að standa saman.

Þú ert frábær. Það eru mikilvæg skilaboð sem allir þurfa að heyra margoft í lífinu, þarfnast þess að finna fyrir þeim jákvæðnisanda í uppeldi og fjölskyldulífi. Enginn kemst til manns nema hafa notið þess að einhverjum þyki hann eða hún frábær. Og þau sem hafa ekki mikinn stuðning heima fá stundum að heyra þetta mikilvæga hjá kennaranum í skólanum, í kirkjunni eða vinunum sem kunna að hrósa. Þú ert frábær.

Við þurfum hvatningu, jákvæða nálgun, hrós. En við höfum ekki gagn af því að fá aldrei gagnrýni eða jákvæða greiningu á veikleikum. Einfeldningslegt „þú ert æðisleg eða sjúklega flottur“ er ekki það sem skapar hamingjusamt fólk heldur fremur sjálfhverft og vanrækt fólk. Við þörfnumst þess að heyra og finna að við séum metin og svo mikið elskuð að við erum alin upp með aga, vinnu, hlýrri gagnrýni, kennt að reyna á okkur, þekkja mörkin, hvenær við særum aðra og hvernig við getum verið sjálfstæð en samt ábyrg gagnvart öðru fólki. Í textum dagsins eru tjáðar skuggahliðar mannlífs og við þurfum að temja okkur raunsæji Ritningarinnar. Þar sem er ljós verða skuggar. Enginn er fullkominn þó köllun okkar sé að nýta alla okkar hæfni og gáfur til góðs og hamingju. Stefnumark manna verður ekki til af engu heldur við þjálfun og ræktun hið innra og ytra.

Ekki ástandsskoðun heldur ást

Þú ert frábær. Svo var það sálmafossinn í kirkjunni í gær. Á þriðja tímanum var fjöldi kominn í kirkjuna til að njóta söngs nýrra sálma, hrífandi tónlistar, dásemda Klaisorgelsins og almenns sálmasöngs. Sex kórar sungu, á annað hundrað manns veitti okkur af sönggleði sinni. Fjöldi tónlistarmanna lék á hljóðfæri sín, sex nýir sálmar, lög og ljóð, voru frumfluttir. Þúsundir komu í kirkjuna til að njóta, syngja og úr varð fyssandi dásemd tilbeiðslu og lífs.

Þú ert frábær. Það voru skilaboðin sem ég kom með úr Reyjavíkurmaraþoni inn í sálmafossinn. Hinn mikli boðskapur sem ég greindi í textum, hljómum, undrum tónlistarinnar var hinn djúpi boðskapur Jesú Krists: Þú ert frábær. Guð kristninnar er ekki smáguð heldur Guð hins stærsta og mesta. Allt sem Guð gerir er af því að sá Guð er jákvæð elska, sem kallar fram efni af hreinni ást, kallar fram greinar lífsins í gleði skapandi iðju. Og þegar áföllin dynja yfir, reiðhjólaslys, óðir menn keyra í morðæði inn í hópa saklauss fólks eða stinga hnífum sínum í grandalausa vegfarendur er Guð ekki áhorfandi. Guð er þar. Guð kom, kemur og mun koma. Guð birtist í setningu á Grandavegi: Þú ert frábær. Og Guð kom og kemur í Jesú Kristi og öllum þeim sem gera gott. Sá Guð sem ég trúi á og þekki var í miðju hópsins á hlaupum í dag. Sá Guð á sér samverkafólk í lífinu sem safnar fé til góðs og tjáir að það er frábært. Og sá Guð talar til okkar allra í helgum textum og sálmum lífsins: Þú ert frábær og ég vil að þú fáir að njóta hamingju.

En sá Guð segir líka: Það er margt í þessari veröld sem er hræðilegt og spillir lífi, geði, freistar og afvegaleiðir. Eins frábærir og mennirnir eru læðist sýkin, syndin, tortýmingin líka meðal okkar og smeygir sér inn í okkur. Og því er vei líka tjáð í öllum heilbrigðum átrúnaði. Við erum ekki frábær af okkur sjálfum heldur af því Guð hefur skapað okkur sem frábær og vill styrkja okkur að vera slík. Við erum ekki frábær af því að það sé niðurstaðan á ástandsskoðun á okkur. Við erum frábær af því Guð metur okkur mikils þrátt fyrir vitleysur okkar og klúður. Okkur tekst að óhreinka okkur og gera margt sem miður fer. Við erum kölluð til að vera frábær og erum það þegar við lifum í raunsæi um okkur sjálf, veröldina, mannfólkið, lífið og Guð.

Þú ert frábær. Það er yfirlýsingin sem Guð gaf þér í fæðingargjöf. Við erum öll svo elskuð að þegar við hlaupum lífshlaup okkar er Guð nærri, hleypur við hlið okkar, hvetur okkur áfram, já og ber áfram þegar við dettum. Það er söngur lífsins. Viltu vera frábær?

Hugvekja í Hallgrímskirkju, 20. ágúst, 2017, sunnudag eftir menningarnótt. 10. sunnudag eftir þrenningarhátíð. B.

Mennskan og bernskan

Eitt af bestu og litríkustu ævintýrum lífsins er að fylgjast með þroskaferli barna. Það er ekki aðeins skemmtilegt að vera með þeim heldur getum við lært margt af þeim því þau eru fundvís á aðalatriðin. Og börnin nærast af samskiptum, þau þrá samtöl og nánd og gefa mikið af sér. Það staðfesta væntanlega foreldrar og ástvinir fermingarungmennanna sem sögðu já áðan. Og flest hér í kirkjunni í dag hafa einhvern tíma hlegið með börnum og furðað sig á skerpu þeirra.

Spurningar og niðurstöður barna hafa löngum orðið mér íhugnarefni. Texti dagsins minnti mig á samtöl við drengina mína fyrir nokkrum árum. Þó ungir séu hafa þeir lengi fylgst með íþróttum og ofurhetjum íþróttanna. Fyrir nokkrum árum hófu þeir nákvæmar rannsóknir á öllum helstu hetjum knattspyrnuheimsins. Þegar þeir voru búnir að skoða boltatækni og youtube-klippurnar af Messi og Ronaldo vildu þeir ræða um hvernig þeir væru og hvað væri innan í þeim líka. Þeir spurðu mikilla spurninga: „Pabbi, er Messi góður maður?“ „Er Ronaldo góður maður?“ Og þar sem pabbinn var og er bæði hrifinn af fóbolta og stóru lífsspurningunum urðu umræðurnar fjörlegar. Við ræddum um hvað það væri að vera góður maður og um félagsþroska, hjúskaparstöðu og barnamál fótboltakarlanna. Hafa þeir bara töfra í tánum eða hafa þeir líka orðið góðir í samskiptum við annað fólk og sjálfa sig. Kunna þeir að nýta fjármuni fyrir fleira en spilakassa og dót? Í samtölunum kom fram að mínir drengir voru að máta sig, reyna að móta sér skoðanir um hvað væri eftirsóknarvert. Fyrirmyndin var metin til að móta eigið sjálf og markmið.

Hlutverk allra manna er að þroskast og verða að manni. Og siðfræðin er ekki aðeins fag nörda í heimspekideild og guðfræðideildum háskólanna heldur kemur við sögu snemma í bernsku flestra. Góður maður? hvað er það og til hvers? Er þetta mál og spurning sem varðar þig og þitt líf? Hefur þú þörf fyrir að íhuga stöðu þína og hvað þú ert og hvað þig langar til?

Lið Jesú
Lærisveinar voru fyrirmyndir frumkirkjunnar. Rit Nýja testamentisins veita innsýn í veröld þeirra. Á öllum öldum hafa síðan komið fram einstaklingar, konur og karlar, sem hafa þótt skara framúr í rækt og iðju trúarinnar. Þessir einstaklingar hafa verið fyrirmyndir. Um þau hafa verið sagðar sögur til að veita öðrum hugmynd um hvernig eigi og megi lifa og til að vel sé lifað. En dýrlingamyndir helgisóknar fyrri alda hafa misst samhengi. Og ef ofurhratt er farið í menningarsögu vesturlanda á tuttugustu öld þá féllu “heilagir sérvitringar“ úr tísku en aðrir tóku við. 

Á öllum tímum verða einhverjir í úrvali athyglinnar. Hetjurnar þjóna einhverju hlutverki, ef ekki siðferðilegu, þá þjóðernislegu eða peningalegu. Þegar ég var barn voru leikaramyndir algengar og við krakkarnir skiptumst á myndum af Brigitte Bardot, Roy Rodgers og Sophiu Loren rétt eins og síðar var skipst á myndum af knattspyrnugoðum. Dýrlingarmyndir miðalda fengu framhald í leikaramyndum og myndum af popgoðum. Íkónar samtímans eru fótboltakappar og aðrar ofurhetjur. Þegar íkónar himins hverfa verða til nýir himnar en þó innan þessa heims.

Í leit að mennsku

Börn leita þroska og við erum svo innréttuð að við leitum að merkingu og meiningu með lífinu. Allir krakkar og á öllum aldri þurfa eitthvað meira en ofurþjálfaða fótboltafætur. Allir leita hamingju og lífsfyllingar. Og hjörtun eru söm hvort sem er í Súdan eða Grímsnesinu – hjörtu okkar eru óró þar til þau hafa fundið hina dýpstu sælu sem seður sál og líf. Það er alveg sama hvað menn puða við að blekkja sig með ytri nautnum, ytri velsæld, völdum, sjálfsdýrkun og hossun eigin gildis. Allir leita merkingar og tilgangs í lífinu. Og fermingarungmennin sem sögðu já í dag vinna að hamingju sinni. Og við erum öll í sömu sporum og þau – alla daga.

Guðspjallið
Inntak guðspjalls dagsins varðar það mikla mál að vera manneskja. Jesús sagði snilldarsögur til að skerpa vitund fólks um hlutverk í lífinu. Og sagan er um að einn er skipaður fyrirliði og fær stjórnunarhlutverk. Og svo þegar viðkomandi eru orðinn stjóri þá vakna siðferðisspurningar og ýmsir möguleikar gefast til að misnota aðstöðu sína og stöðu. Hvernig er innrætið? Misnotar ekki fólk yfirleitt stöðu sína og vald? Alla vega þau, sem aldrei hafa fengið önnur skilaboð en þau, að markmið lífsins sé að afla sér mestra peninga, sinna hvötum þegar færi gefst og reyna að koma sér sem best fyrir án þess að vera gómaður. 

Jesús Kristur var mannþekkjari og sagði stundum sögur um sjálfhverfvert fólk. En Jesús þráði að við yrðum öll þroskaðir einstaklingar sem værum  ekki bara upptekin af sjálfum okkur heldur því að efla lífið í kringum okkur.  

Gildi einstaklinga er ekki einskorðað við innangildi heldur tengslagildi. Manneskjan er dásamleg sem einstaklingur en verður þó ekki til nema í tengslum. Þau tensl varða jafnvægistengsl hins andlega og líkamlega, einstaklings og hóps, manneskjulífs og lífs í náttúrunni. Og enginn verður alheill – skv. túlkun kristninnar – nema í heilum tengslum við lífgjafann sjálfan, Guð. Þetta er inntak lífslistarinnar. Guð elskar og við klúðrum öllu nema við lifum í því ljósi. Við græðum ekkert með því að hugsa aðeins um eigin hag heldur sjá okkur í heild, gegna stöðu okkar með stæl og njóta þess að þjóna. Og endanlega erum við tengd lífinu, gegnum ábyrgð og eigum ekki að drottna heldur vera í tengslum. Það er skikkanin og þannig fer best. Allt hitt eru misnotkun, ofbeldi, vonska. 

Aðalmálið er að vera góð manneskja. Það eru ekki aðeins litlir drengir sem spyrja stóru spurninganna. Hvað viltu? Hlutverk þitt er að hætta að lifa í sjálfhverfu núi, læra að njóta hins mikilvæga og axla ábyrgð og iðka lífsholla og lífseflandi ráðsmennsku. Í allri lífsreynslu og átökum hljóma spurningar sem þú mátt heyra og taka mark á: Ertu góð kona? Ertu góður karl? Þetta er sú spurning sem bæði fermingarungmenni og við hin líka þurfum að svara með einhverju móti alla daga ævi okkar. Og Guð heyrir og gleðst þegar við segjum já og tjáum fegurð í lífi okkar í tengslum.

Amen.  

Tekex og ansjósur

Í vetur barst fjölskyldu minni beiðni um húsaskipti. Hjón á norður-Spáni vildu gjarnan fá húsið okkar lánað í júlí og bílinn okkar líka. Það hefur verið meginregla okkar að fara ekki utan sumarmánuðina – vegna dásemdar hins íslenska sumars. En húsið, sem okkur stóð til boða ytra, var svo stórkostlegt og Cantabriu-svæðið það áhugavert að við slógum til og skiptumst á húsum og bílum. Íbúðarhúsið og Norður Spánn voru umfram allar okkar vonir. Þessi hluti Spánar er grænn og menningin á svæðinu er gömul, þykk og hrífandi. Aðbúnaður okkar var dásamlegur og við nutum sólar, birtu og blessunar. Við lifðum að hætti innfæddra og fórum oft út að borða. Fjölbreytilegt sjávarfang, kjöt og maturinn á norður Spáni hugnaðist okkur sælkerunum.

Einn daginn fórum við á veitingastað frægasta hótels Santanderborgar, sem hefur löngum hefur verið sumardvalarsvæði spænsku konungsfjölskyldunnar. Hótelið heitir Hótel Real og það merkir konungshótel. Og það er eiginlega hótel Borg þeirra í Santander, virðulegt og fínt. Svo er það einnig kennileiti í borginni, sést langt að og ber við himin eins og Hallgrímskirkja. Drengjunum mínum þótti hótelið minna á Titanic – með gömlum yfirstéttarstíll. Við höfðum lesið í veitingahúsayfirliti að matreiðslan væri góð og vissum ekki betur en matargerðin væri nútímaleg. Svo renndum við yfir matseðlana og pöntuðum. Meðan við biðum nutum við útsýnis yfir Santanderflóa, sem hefur verið mikilvæg skipahöfn allt frá tíð Rómverja. Og enn eru skip á ferð, stór og smá, seglskip og risafraktarar.

Svo kom fyrsti réttur og við undruðumst. Allir við borðið fengu tekex og smjör. Hvorki fyrr né síðar hef ég fengið tekex í forrétt í kvöldmat. Tekex fær maður helst í Englandi og þá fremur í morgunmat. Við smurðum hlýðin okkar kex og bárum að munni. Venjulegt tekexbragð og smjörið var venjulegt einnig og án nokkurrar bagðkúnstar. Jæja, mig fór að gruna að máltíðin gæti orðið með öðru móti en ég hafði ímyndað mér. Svo kom næsti réttur. Virðulegur þjónninn -uppáklæddur og hefði sómt sér vel í öllum betri hótelum heimsins – stikaði inn í salinn með disk á lofti. „Hvað kemur nú?“ spurði ég sjálfan mig. Undrunarhljóð hljómuðu frá okkur borðfélögum, sumir brostu og aðrir hlógu. Á fallegum diskinum, sem var lagður fyrir framan mig, var grá sardínudós á saltbing. Nakin sardínudós, enginn miði límdur á hana, sem upplýsti nokkuð um innihaldið. En ljóst var að lokið var laust og hægt að kippa því af dósinni. Og ég lyfti því og allir biðu spenntir eftir innihaldinu. Þar voru ekki sardínur í olíu eins og við þekkjum heldur ein flökuð og maríneruð ansjósa, sem synti í ólífuolíu. Þetta var mjög fyndið, borðfélagarnir hlógu og ég var hissa en naut matarins. Svo hélt máltíðin áfram, við vissum að þetta yrði furðumatur og ákváðum að njóta og upplifa. Og furðumatur var þetta, retróveisla og ártalið hefði allt eins getað verið 1935.

Hvað gerir gott?

Matarstíllinn var óvæntur og matargerð tengd öðrum tíma. Því varð þetta sérstæð reynsla. Í stað þess að fara í miðaldaveislu eins og í Skálholti, Tallin eða í Noregi, lentum við óvænt í tímatengdri máltíð, sem var allt öðru vísi en við áttum von á, eiginlega millistríðsáramatur. Það var sérstætt, eftirminnilegt og öðru vísi og varð mér til íhugunar og hefur haldið áfram að vekja mér þanka. Hvað er nútímamatur, hvað er gamaldags, hvað úreldist og hvað er skapandi? Af hverju nærist þú svo þú opnir, undrist, breytist og eflist? Hvað gerir þér gott?

Og dýpsta spurningin er: Hvað gefur líf og er til lífs?

Till lífs fyrir alla

Þá erum við komin að íhugun dagsins í guðspjallinu. Hópur af fólki samankominn og matarþurfi. Svo var borin fram máltíð sem varð eftirminnileg.

Íhugunarefni biblíunnar eru fremur um hvað viðburður merki fremur en um hvernig hlutir gerist eða hvaða aðferð sé notuð. Hvernig hægt var að metta mannfjölda er ekki það sem texti dagsins fjallar um heldur hvað máltíðin merkti. Hér er það sem endranær í biblíunni að hug er beint að merkingu fremur en aðferð, inntaki fremur en hinu ytra.

Brauð var brotið og Jesús notaði tækifærið til að minna nærstadda á hver gæfi brauð, hvaðan það kæmi og hvað það merkti. Í palestínsku samhengi var hveitiræktin mál lífsins og brauð tákn um lífsgæði. Þegar kornuppsprettan brást var vá fyrir dyrum og allir sultu. En þegar kornakrar náðu þroska var víst að allir myndu njóta næringar og lífið lifði. Því var gestrisni svo mikils metin, samfélagssamtaðan svo mikilvæg. Jesús reisti sér ekki minnisvarða af grjóti eða með hernaðarsigrum, heldur vildi að fólkið hans nyti matar – og gæfi öðrum með sér. Því eru ölturu í kirkjum og þau minna á að allir þarfnast næringar, ekki aðeins andlegrar heldur líkamlegrar einnig, venjulegrar fæðu, t.d. brauðs, fisks sem og annars sem gerir manninum gott. Að allir njóti gæða er hinn kristni boðskapur inn í aðstæður stríðs og átaka fyrir botni Miðjarðarhafs. Allir eiga að njóta brauðs, líka börn á Gasa. Og það merkir að þau eiga að njóta friðar, öryggis, gæsku og lands. Svo róttækur er boðskapur kristninnar og svo árangurstengt er það líf sem okkur er boðið að lifa.

Hvað gerir þér gott? Alveg áreiðanlega fjölbreytilegt fæði og í hæfilegum skömmtum – jafnvel líka tekex og ansjósa úr dós. Svo er það hin fæðan, t.d. tengsl við fólk, tilfinninganæring, líkamleg hreyfing, gæfa í tengslum og vinnu, að einhver sjái þig og meti, brosi við þér og segi þér að þú sért mikils virði, nýt eða nýtur. Hvað gerir þér gott? Hvers þarfnast þú?

Breyting til góðs

Reynslan í konungshótelinu í Santander var reynsla hins óvænta. Öðru vísi matur en við áttum von á. Og það minnti mig á að við megum gjarnan opna fyrir hið óvænta. Við getum skipulagt lífið svo algerlega að ekkert nýtt komist að og þá erum við byrjuð að deyja. En líf verður ekki gjöfult ef það er lokað í kerfi og fryst í ferla. Líf þitt má vera stöðug verðandi og opnun til framtíðar. Þannig er lífið, sem Guð gefur. Hvað gerir þér gott? Eru það nýjar hugsanir? Máttu leyfa þér að breytast? Getur þú breyst til góðs? Er eitthvað sem þú mátt hætta og úskrifa úr þínu lífi? Einhver löstur og eitthvað, sem þú vilt eða þarft að sleppa? Sorg, harmur, glötuð tengsl, horfin ást, samband, efni, vinna, hlutir, upplifanir – eitthvað sem þú dregur á eftir þér og verður þér lífshemill? Hvað geir þér gott og verður þér til næringar?

Gerir þú gott?

Svo er það hin víddin sem er hin hlið sama máls. Hvað getur þú gert til að aðrir njóti upplifunnar til lífs? Hvað getur þú gert öðrum svo fólk vakni til lífs og gæða? Getur þú sagt eitthvað jákvætt og nærandi við samferðafólk þitt og ástvini? Getur þú bakað brauð og fært einhverjum syrgjandi, einmana eða þurfandi? Getur þú umlukið einhver með kærleiksríkum bænum? Þú verður aldrei lífgjafi fólks og þarft ekki að gera kraftaverk sem Guð getur. En öll erum við farvegir lífsins gagnvart öðrum. Öll getum við fært öðrum eitthvað sem verður þeim til góðs, næringar, jákvæðar tilfinningar og hlýju. Við getum öll tamið okkur að segja eitthvað jákvætt við samferðafólk okkar í stað þess að kvarta og nöldra. Það eru líka fiskar og brauð fyrir fólk, körfur sem við erum send með til fólks heimsins.

Þessi dagur, þessi helgi og þessi mánuður er tími fyrir veislu himinsins. Þér er ekki aðeins boðið til þjóðhátíðar heldur veislu himinsins sem þú mátt njóta og miðla. Og vittu til: Þér er boðið að breytast, eflast og stækka. Af hverju? Þannig er Guð, sem elskar að magna lífið og smitar anda elskunnar til allra.

Neskirkja, verslunarmannahelgi, 3. ágúst, 2014.

Textaröð: A

Lexía: Slm 147.1-11


Hallelúja.
 Gott er að syngja Guði vorum lof.
 Það er yndislegt, honum hæfir lofsöngur.
 Drottinn endurreisir Jerúsalem,
safnar saman hinum tvístruðu Ísraels. 
Hann græðir þá sem hafa sundurkramið hjarta 
og bindur um benjar þeirra.
 Hann ákveður tölu stjarnanna, 
nefnir þær allar með nafni. 
Mikill er Drottinn vor og voldugur í mætti sínum,
speki hans ómælanleg.
 Drottinn styður hjálparlausa
 en óguðlega fellir hann til jarðar. 
Syngið Drottni þakkargjörð, 
leikið fyrir Guði vorum á gígju.
 Hann hylur himininn skýjum, 
sér jörðinni fyrir regni,
 lætur gras spretta á fjöllunum, 
gefur skepnunum fóður þeirra, 
hrafnsungunum þegar þeir krunka.
 Hann hefur ekki mætur á styrk hestsins,
 hrífst ekki af fráum fótum mannsins.
 Drottinn hefur þóknun á þeim sem óttast hann,
 þeim sem setja von sína á miskunn hans.

Pistill: 2Kor 9.8-12


Guð er þess megnugur að veita ykkur ríkulega allar góðar gjafir til þess að þið í öllu og ávallt hafið allt sem þið þarfnist og getið sjálf veitt ríkulega til allra góðra verka. Eins og ritað er: Hann miðlaði mildilega, gaf hinum snauðu, réttlæti hans varir að eilífu.

Guð sem gefur sáðmanninum sæði og brauð til fæðu mun og gefa ykkur sáð og margfalda það og auka ávöxt réttlætis ykkar. Guð mun auðga ykkur í öllu svo að þið getið jafnan sýnt örlæti. Þá munu margir þakka Guði fyrir gjafirnar sem við komum með frá ykkur. Því að þessi þjónusta, sem þið innið af hendi, bætir ekki aðeins úr skorti hinna heilögu heldur leiðir hún einnig til þess að margir menn þakka Guði.

Guðspjall: Mrk 8.1-9


Um þessar mundir bar enn svo við að mikill mannfjöldi var saman kominn og hafði ekkert til matar. Jesús kallar þá til sín lærisveinana og segir við þá: „Ég kenni í brjósti um mannfjöldann. Menn hafa nú verið hjá mér þrjá daga og hafa ekkert til matar. Láti ég þá fara fastandi heim til sín örmagnast þeir á leiðinni en sumir þeirra eru langt að. “
Þá svöruðu lærisveinarnir: „Hvar er hægt að fá brauð til að metta þetta fólk hér í óbyggðum?“
 Hann spurði þá: „Hve mörg brauð hafið þið?“ 
Þeir sögðu: „Sjö. “
Þá bauð Jesús fólkinu að setjast á jörðina, tók brauðin sjö, gerði þakkir og braut þau og gaf lærisveinum sínum að þeir bæru þau fram. En þeir báru þau fram fyrir fólkið. Þeir höfðu og fáeina smáfiska. Hann bað Guð að blessa þá og bauð að einnig þeir skyldu bornir fram. Menn neyttu og urðu mettir. Síðan tóku lærisveinarnir saman leifarnar, sjö körfur. En þar voru um fjögur þúsund manns. Síðan lét hann fólkið fara.

Gína á stalli?

EvrópufániAf hverju er fáni Evrópu blár? Og af hverju er stjörnuhringur á þeim fána? Á hvað minnir þessi geislabaugur stjarnanna? Hvað minnir fáninn á og af hverju lítur hann svo kunnuglega út? Er einhver saga og minni að baki? Já svo sannarlega, fáninn á sér forsögu og merkilegt myndlistar- og menningarsamhengi.

Evrópufáninn er eiginlega skilgetið afkvæmi Maríumynda aldanna, myndverka af Maríu móður Jesú Krists. Evrópufáninnn er líkist fjölda Maríumynda – en mínus María. Blár litur fánans kemur eiginlega frá lit Maríumöttulsins og þeim blálitaða himni sem hún ríkir yfir, en Maríu hefur verið sleppt, henni hefur verið kippt út úr myndinni.

Fáninn varð til á sama tíma og kaþólska kirkjan ræddi um óflekkaðan getnað Maríu á sjötta áratug tuttugustu aldar. Fáninn og ný kenning um þá merku konu voru afgreidd og ákveðin á sama tíma. Síðan hafa tólf stjörnurnar úr geislabaug Maríu verið sem tákn fyrir heild Evrópu á fánanum. Og Maríutáknin hafa birtst á öllum peningaseðlum Evrópusambandsþjóða. Meira að segja skráningarnúmer á bílum þessara þjóða bera þessi tákn Maríu.

Guðskoman boðuð

Í dag er boðunardagur Maríu, ofurkonu í menningarsögu Vesturlanda. María hefur verið kölluð guðsmóðir, heilög María, himnadrottning, móðir María, stjarna hafsins og móðir kirkjunnar og fleira. Hún hefur verið lofuð og líka tilbeðin. María gegnir einnig merku hlutverki meðal múslima. Margar Maríur hafa borið nafn hennar og María er eitt algengasta aðalnafn íslenskra kvenna. Áhrifasaga Maríu er margþætt og margslungin.

Guðspjallstexti dagsins segir sögu af unglingsstúlku og reynslu hennar, sem er túlkuð svo að engill birtist og upplýsti, að hún hefði verið valin til að verða farvegur fyrir hjálp Guðs í heimi. Hvernig lítur engill út? Var hann með lilju í höndum eins og miðaldamálverkin sýna eða er blómið tákn til að tengja huga við trúartúlkunina? Var María í bláum klæðum – litur Maríu er jú blár? Var himininn blár eins og sumar myndirnar sýna?

Skiptir María máli? Siðbótarmenn tóku hana út af dagskrá vegna þess, að Rómarkirkjan hafði glennt guðfræði Maríu of rausnarlega. Maríu hafði eiginlega verið stolið úr mannlífinu og gerð að gínu uppi á tilbeiðslustalli. Hið kvenlega, mannlega, hafði þar með verið læst í fjötra, sem jafnframt urðu fjötrar kvenna og brengluðu líf fólks. Maríu hefur aldrei liðið vel á stalli. Við höfum heldur engan hag af henni þar, ofurhetju handan mannlífs. María ætti að vera í miðri hringiðu lífsins.

Maríuhlutverkin

Hver er og jafnvel hvað er María? Eitt er hver hún var og annað hvaða hlutverki hún gegndi eða gegnir. Hún var móðir og átti fleiri börn en Jesú Krist. Fjórir bræður Jesú eru t.d nefndir í Mattheusarguðspjalli. Og kannski átti hann systur líka? María var eiginkona trésmiðs, húsmóðir og Gyðingur í Rómaveldi. Hún hefur væntanlega gegnt hlutverkum sínum í samræmi við venjur, siði og væntingar.

Gyðingar áttu ekki í neinum erfiðleikum með barnsgetnað og hvernig undur lífsins verður og hverjir koma við sögu. Það voru og eru ekki tvö heldur alltaf þrír aðilar: Kona og karl – en líka hinn þriðji – Guð. Alltaf þrjú. Samkvæmt hebreskri hugsun er Guð tengdur öllu lífi, líka nánasta fjölskyldulífi. En í tvíhyggjusamhengi í hinum grísk-helleníska heimi voru áherslur aðrar en hinum hebresk-gyðinglega. Hið líkamlega var sett skör lægra en hið andlega. Ástalífið, hneigðir og hið líkamlega var talið lægra sett en hið háleita-andlega. Gat Guð verið á því sviði? Gyðingar sögðu já – já, en Grikkir sögðu nei – varla.

Var María einhvers konar staðgöngumóðir fornaldar? Væntanlega lagði hún sitt egg til, en svo sagði sagan – eða jafnvel krafðist – að barnið yrði til án aðkomu Jósefs, festarmanns hennar. Lúkasarguðspjall tjáir t.d. föðurlausn getnað og meyfæðingu.

Út fyrir endimörk alheimsins

Við hrífumst og getum innlifast helgisögunni um Maríu, en ættum þó að skilja hana í samhengi hennar, sem er tilbeiðsla og lofsöngur safnaðar, trú á vængjum ljóðsins. Við megum líka muna, að menn hafa tilhneigingu til að endurhanna sögu mikilmenna. Það er eins og endurskrifa þurfi eftirá og eðlisbreyta verði aðdragandasögu stórmennis. Þar er ein skýringin á upphafssögu Jesú. Fleiri atriði koma til skoðunar einnig. Í goðsögum fornþjóða eru til sögur um meyfæðingar goða. Tilhneigingin var alltaf í tvíhyggjusamhengi að reyna að hreinsa móður guðsins sem mest og gera úr henni flekklausa veru.

Saga er alltaf áhrifasaga, viðmið og stýringar laumast yfir alla þröskulda tímans, lifa og hafa afleiðingar. Þegar Maríudýrkun óx á fyrstu öldum kristninnar varð hún fyrir áhrifum frá kvenskilgreiningum umhverfisins, t.d. frá Artemisdýrkun, frá Vestalíum Rómar, frá Isisdýrkun. Menningarlegar og þar með trúarbragðastýringar höfðu áhrif á og stjórnuðu eiginlega hvernig María var skilgreind og tilbeðin. María varð ekki lengur Gyðingakonan María heldur var henni lyft upp úr heimi hins venjulega lífs manna og upp í heim tilbeiðslunnar. Móðirin varð að meyju ofar tíma og lífi. Maríudýrkun óx stöðugt þegar leið á fyrsta árþúsundið og kenningaflækjan þróaðist og gildnaði. Löng saga trúarhugsunar endaði síðan með, að kaþólska kirkjan fékk yfir sig ákvörðun um að María hefði líka verið flekklaust getin eins og Jesús. Hin duldu stýrikerfi upphafningar og hreinsunar upphafssögu Jesú náði hámarki – María var ekki lengur mensk heldur utan við söguna. Hún var eiginlega komin út fyrir endimörk alheimsins!

Andleg tiltekt – María meðal manna

Hver er þörf nútímatrúmanna fyrir hugmyndafræði upphafningar og sögubreytingar? Við ættum að ganga hljóðlega um og með kyrru í návist Maríu og ættum alls ekki þrengja lífi hennar og veruleika inn líkamshrædda fordóma. Við höfum enga þörf fyrir tvíhyggjuaðgreiningu milli raunveruleika okkar annars vegar og trúar hins vegar.

Eins og við þurfum að gera hreint á heimilum okkar ættum við reglulega að gera hreint í hugarheimi og hreinsa kenningakerfin. Það varðar m.a. að leyfa Maríu að koma til sjáfrar sín og án allra kvaða margra alda efnishræðslu. María á ekki að vera á stalli ofar mannlífi. Kristnir menn eiga ekki að rugla saman ólíkum þáttum þótt tengdir séu, frelsun og mannhugmyndum, kristsfræði (Jesús frelsar) og uppeldisfræði (María sem fyrirmynd). María er ekki frelsari mannkyns heldur mikilvæg ímynd mannlífs og kirkju.

María er merkileg fyrirmynd og vinkona. Og nú er komið að því að María megi stíga af stalli og taka þátt í hreingerningunni. María er í menningunni, minningunni, söngvum og tónlistinni, myndlist og sögu. María er á fánanum, peningaseðlunum og blámanum. Ofurhetjur utan við endimörk alheimsins eru góðar fyrir ákveðið skeið bernskunnar. María þarf ekki að vera þar og í því hlutverki – heldur fremur sem ein af fyrirmyndum og þannig eru dýrlingar, vinir sem þjóna fyrirmyndarhlutverki. Gínan María er ekki góð en konan María, móðir Jesú Krists, er stórkostleg. María er eins og við og við erum eins og María. Það er vitnisburður versanna sem lesin voru úr Passíuálmunum áðan. “María, drottins móðir kær, 
merkir guðs kristni sanna.” Til hennar lítur Jesús Kristur með augum elskunnar.

Amen

Boðunardagur Maríu, 5. sd. í föstu, 17. mars, 2013

Lexía:  1. Sam 2.1-10

Hanna bað og sagði:
Hjarta mitt fagnar í Drottni.
Horn mitt er upphafið af Drottni.
Ég hlæ að fjandmönnum mínum
því að ég gleðst yfir hjálp þinni.
Enginn er heilagur sem Drottinn,
enginn er til nema þú,
enginn er klettur sem Guð vor.
Hreykið yður ekki í orðum,
sleppið engum stóryrðum af vörum
því að Drottinn er vitur Guð,
hann metur verkin.
Bogi kappanna er brotinn
en örmagna menn gyrðast styrkleika.
Saddir selja sig fyrir brauð
en hungraðir þurfa þess ekki.
Óbyrja elur sjö börn
en barnmörg móðir visnar.
Drottinn deyðir og lífgar,
sendir menn til heljar
og leiðir þá upp þaðan.
Drottinn sviptir menn eigum og auðgar þá,
hann niðurlægir og upphefur.
Hann lyftir hinum auma úr duftinu
og hefur hinn snauða úr skarninu,
leiðir hann til sætis hjá höfðingjum
og skipar honum í öndvegi.
Stoðir jarðar eru eign Drottins,
á þeim reisti hann heiminn.
Hann ver fætur sinna réttlátu
en ranglátir þagna í myrkrinu
því að enginn er máttugur af eigin afli.
Drottinn kremur þá sem rísa gegn honum,
Hinn hæsti sendir þrumur af himni gegn þeim.
Drottinn dæmir alla jörðina.
Hann eflir konung sinn að mætti
og hefur upp horn síns smurða.

Pistill:  Róm 8.38-39

Því að ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum.

Guðspjall:  Lúk 1.46-56

Og María sagði:
Önd mín miklar Drottin
og andi minn gleðst í Guði, frelsara mínum.
Því að hann hefur litið til ambáttar sinnar í smæð hennar,
héðan af munu allar kynslóðir mig sæla segja.
Því að mikla hluti hefur Hinn voldugi við mig gert
og heilagt er nafn hans.
Miskunn hans við þá er óttast hann varir frá kyni til kyns.
Máttarverk hefur hann unnið með armi sínum
og drembilátum í hug og hjarta hefur hann tvístrað.
Valdhöfum hefur hann steypt af stóli
og upp hafið smælingja,
hungraða hefur hann fyllt gæðum
en látið ríka tómhenta frá sér fara.
Hann hefur minnst miskunnar sinnar
og tekið að sér Ísrael, þjón sinn,
eins og hann hét feðrum vorum,
Abraham og niðjum hans, eilíflega.

 

María, drottins móðir kær,

merkir guðs kristni sanna:

Undir krossinum oftast nær

angur og sorg má kanna.

Til hennar lítur þar herrann hýrt,

huggunarorðið sendir dýrt

og forsjón frómra manna.

HP-PSS 37,6