Greinasafn fyrir merki: Reykjavíkurmaraþon

Opna

Á þessari afmælishelgi Reykjavíkur iðar borgin af lífi. Margt er á dagskrá hér í kirkjunni, m.a. Sálmafoss í gær sem þúsundir sóttu. Í gærkvöldi horfði ég svo á flugeldasýninguna ofan úr kirkjuturni. Það var áhrifaríkt.

Reykjavíkurmaraþonið er dásamlegt og þúsundir hlupu. Þegar ég fylgdist með manngrúanum hlaupa í gær hríslaðist um mig sterk tilfinning – það var tilfinning fyrir lífinu. Allt þetta fólk var að hlaupa af því lífið er mikilvægt, gott, eftirsóknarvert. Það var gleði í augum hlauparanna og þúsundir stóðu við göturnar til að hvetja áfram, gefa þreyttum fótum aukinn kraft, lemja búsáhöld og nýta alls konar hljóðgjafa til að skapa hvatningarhávaða. Fæst af þessum sem hlupu voru að hlaupa til að vinna í sinni grein. Flest hlupu vegna einhvers fallegs markmiðs; til að hlaupa fyrir góðan málstað, til að gleðjast eða fagna einhverjum fallegum persónulegum áföngum eða markmiðum. Og kannski er ástæða fyrir hlaupum flestra að þakka fyrir líf eða lífsgjöf, hlaupa fyrir lífið, halda upp á lífið, fagna lífinu.

Gjörningur lífsins

Ástæða þess að ég segi þetta er að ég þekki svo mörg sem hlupu vegna þess að þau hafa verið veik en fengið nýjan styrk, bata eða bót meina sinna. Ég þekki fólk í hlaupinu, sem fékk krabbamein en hefur notið endurbata. Og nú hlaupa þau vegna þess að þau meta og þakka fyrir lífið. Ég þekki fólk á hlaupum sem er með gangráð fyrir hjarta og þess vegna gat þetta fólk hlaupið, notið og glaðst yfir lífi og heilsu. Ég þekki fólk í þessu hlaupi, sem hefur verið mikið veikt, verið illa farið, orðið fyrir skelfilegum áföllum en hefur notið stuðnings, hjálpar og lækningar svo það getur tók þátt í hlaupinu í ár. Og svo eru öll áheitin til að efla líf annrra, koma þeim til aðstoðar – líklega á annað hundrað milljónir!

Reykjavíkurmaraþonið er gjörningur lífsins, eiginlega risavaxið þakkarritúal til að tjá gleði og þökk fyrir líf og heilsu. Og líf og þakklæti er aldrei innhverft og sjálfhverft heldur leitar út og til annrra, að verða öðrum til góðs. Margir njóta því beins stuðnings sem er hvatning og peningastuðningur.

Hlaup til lífs

Og þá er það guðspjall dagsins. Þar er líka hlaup til lífs og þakkar. Hópur af vinum fór langa leið til að tryggja að maður í vanda næði fundi Jesú. Hann hafði liðið fyrir heyrnarleysi og þar með málleysi. Svo endaði gjörningur Jesú með því að maðurinn fékk bót meina sinna. Frá því er sagt að Jesús framkvæmdi læknisaðgerð á manninum og sagði við hann lykilorðið Effaþa. Við þetta orð og með læknandi atferli Jesú varð breyting – maðurinn heyrði hljóð lífsins og  fékk mál. Allt gerði Jesús vel og fólk talaði um það sem hann gerði.

Þetta er jákvæður og skemmtilegur texti. Við megum gjarnan nálgast hann með persónulegu móti. Ef við erum opin gagnvart sérstökum kraftaverkum getum við glaðst. Ef við efumst um kraftaverkasögur er hægt að sjá í þessari sögu öflugan lækni sem gat meira en aðrir. Og svo er þessi saga auðvitað táknsaga um um að lífið hefur tilhneigingu til að fara vel.

Effaþa

Effaþa– er eitt af þessum stóru orðum í sögu heimsins. Og merkingin er einföld en stórkostleg. Effaþaþýðir: Opnist þú. Jesús hefur notað orðið oft því það varðveittist sem máttarorð. Opnist þú – hefur hann sagt við það mörg að frumkirkjan mundi það og varðveitti sem lykilorð sem opnaði skrár og kerfi lífsins. Opnist þú. Maðurinn var í vanda rétt eins og krabbameinssjúkur, hjartveikur, sinnisveikur eða fastur í neti fátæktar eða félagslegs vanda. Opnist þú var sagt, læknirinn tók til starfa og lausnin fannst. Maðurinn fékk hjálp og nýtt líf.

Að baki einstaklingnum og frásögn dagsins er dýpri merking. Öll lendum við í þeim aðstæðum að við erum lokuð og fjötruð. Fjölskyldur lenda í vandkvæðum, samfélög líka, þjóðir eru haldnar af einhverjum vondum mönnum eða meinum sem leiða til ills. Og þá er ljóst að lausnar er þörf. Segja þarf lausnarorðin – einhver þurfa að ganga erinda lífsins, hvort sem það eru sálfræðingar, stjórnmálajöfrar, hugsuðir, aktívistar eða aðrir hugsjónamenn sem þurfa að segja orðið effaþaog framkvæma það sem þarf til að losa fjötrana. Vandi mengunar í veröldinni er slíkur að himneskt og jarðneskt effaþaer nauðsyn.

Jesútexti dagsins varðar ekki bara þau sem finnst þau vera sjúk. Hann varðar okkur öll og er okkur boðskapur. Við sem einstaklingar erum í ýmsum aðstæðum lífsins og á ýmsum skeiðum fjötruð eða í vandræðum. Við erum jafnvel stundum í þeim aðstæðum að skilja ekki að við þurfum hjálp. Fíklar heimsins vilja ekki þiggja hjálp eða heyra lausnarorðin, heldur þarfnast þess að vinir styðji þá til hjálpar eða komast í hjáparaðstæður – eins og í textanum. Flóttamenn heimsins þarfnast máttarorða og aðgerða. Og á þeim tíma sem ofstæki vex í pólítík vesturlanda verða æ fleiri læstir í fjötra einfeldni, einhæfni og falsfrétta. Þá er þörf á máttarorðum, leysandi visku og fólki sem þorir.

Mannvirðing

Jesús Kristur er í sögunni sá sem virðir og viðurkennir vanda. Hann afskrifar ekki fatlaðan mann heldur virðir mennsku hans, talar heyrnarleysið til heyrnar og málleysið til málgetu. Sagan er því mannvirðingarsaga. Jesús Kristur virti og virðir fólk, afskrifa ekki heldur kemur til hjálpar. Kristnin, hreyfing Jesú, hefur fylgt fordæmi hans, metur manninn mikils, elur á mannvirðingu óháð hæfni og getu, reynir að koma fólki til hjálpar og sjálfshjálpar og eflir til lífs. Jesús Kristur efldi lífsgæði fólks og þannig vill kristin kirkja vera. Styðja og efla. Því hafa mannréttindi sprottið fram í kristnu, vestrænu samhengi, og um allan heim þar sem kristnin hefur verið heyrð og tungur hafa talað máttarorð. Textinn er því rammpólitískur. Jesús stóð alltaf með lífinu og gegn fjötrum.

Opnun eilífðar

En svo er texti dagsins ekki aðeins um pólitík, góða læknisfræði eða aðgerðir í þágu mengaðrar og þjáðrar náttúru. Lífið hefur tilhneigingu til að fara vel vegna þess að Guð vakir yfir og leysir fjötra. Vandi manna – okkar – er ekki aðeins líkamlegir og andlegir kvillar sem geta dregið okkur til dauða, félagslegar festur eða náttúruvá heldur líka leiðsögn um leiðir dauðans og tímans. Við erum dauðleg, við deyjum öll. Og þar er líka sagt enn og aftur effaþa– opnist þú. Við mörk lífs og dauða, tíma og eilífðar, kemur Jesús Kristur líka við sögu. Máttarorð Jesú veldur að lífi lýkur ekki við dauðastund og tveimur metrum undir grænni torfu. Við erum ekki aðeins dauðlegar verur haldnar af fjötrum og sjúkleika, heldur eru við verur lífsins, sem megum hlaupa okkar lífshlaup en halda því hlaupi áfram hinum megin við endamark lífs. Kristindómur er átrúnaður opnunar. Við megum hitta Jesús Krist alla daga, en hann heldur áfram að vera með okkur líka í dauðanum. Hann opnar fjötra dauðans, opnar tímann í eilífð sinni. Kristur segir effaþa– opnist þú og það merkir að ekkert í þínu lífi megnar að fjötra þig alltaf.

Þótt allir séu dauðlegir hleypur samt fólkið í Reykjavíkurmaraþoni fyrir lífið. Þótt allir séu dauðlegir hleypur Jesús Kristur fyrir okkur og opnar líf í tíma og eilífð. Það þarf trú til að sá veruleiki opnist. Við getum ákveðið og neitað að trúa því að lífið sé opnað en Jesús stendur álengdar og bíður okkar. Tilboð hans er skýrt: Opnist þú. Ekkert er svo erfitt að þú getir ekki losnað við fjötra þína og við lok tímans er opnað fyrir veröld eilífðar. Lífið hefur tilhneigingu til að fara vel af því Guð elskar þig og allt fólk, alla sköpun sína.

Amen.

Prédikun 19. ágúst, 12. sunnudag eftir þrenningarhátíð. Hallgrímskirkja. Menningarnótt og Reykjavíkurmaraþon voru 18. ágúst. Myndirnar tók ég þann dag. Kapparnir eru Tómas Magnús, Ísak og Jón Kristján. Flugeldamyndina yfir sundin – er sjónarhorn okkar sem stóðum í Hallgrímskirkjuturni. 

Textaröð: A

Lexía: Jes 29.18-24
Á þeim degi munu daufir heyra orð lesin af bók
og augu blindra sjá þrátt fyrir skugga og myrkur.
Þá mun gleði auðmjúkra aukast yfir Drottni
og hinir fátækustu meðal manna
munu fagna yfir Hinum heilaga Ísraels.
Kúgarinn verður ekki lengur til,
skrumarinn líður undir lok,
öllum, sem hyggja á illt, verður tortímt
og þeim sem sakfella menn fyrir rétti,
þeim sem leggja snörur fyrir þann sem áminnir í hliðinu
og vísa hinum saklausa frá með innantómu hjali.
Þess vegna segir Drottinn,
sem endurleysti Abraham, við ættbálk Jakobs:
Nú þarf Jakob ekki að blygðast sín lengur
og andlit hans ekki framar að fölna
því að þegar þjóðin sér börn sín,
verk handa minna, sín á meðal
mun hún helga nafn mitt,
helga Hinn heilaga Jakobs
og óttast Guð Ísraels
og þeir sem eru villuráfandi í anda
munu öðlast skilning
og þeir sem mögla láta sér segjast.

Pistill: 2Kor 3.4-9
Það er vegna Krists sem ég er svo öruggur frammi fyrir Guði. Ekki svo að skilja að ég sé sjálfur hæfur og geti eitthvað sjálfur heldur er hæfileiki minn frá Guði. Guð hefur gert mig hæfan til að vera þjónn nýs sáttmála sem ekki er ritaður á bók heldur er hann andlegur. Því að bókstafurinn deyðir en andinn lífgar. Lögmálið var skráð með bókstöfum og höggvið á steina. Þó að þeir sem þjónuðu því dæju var dýrð þess slík að Ísraelsmenn gátu ekki horft framan í Móse vegna ljómans af ásýnd hans sem þó varð að engu. Hversu dýrlegri mun þá sú þjónusta vera sem fram fer í anda? Ef þjónustan sem sakfellir var dýrleg þá er þjónustan sem réttlætir enn þá auðugri að dýrð.

Guðspjall: Mrk 7.31-37
Síðan hélt Jesús úr Týrusarbyggðum, um Sídon og yfir Dekapólisbyggðir miðjar til Galíleuvatns. Þá færa menn til hans daufan og málhaltan mann og biðja hann að leggja hönd sína yfir hann. Jesús leiddi hann afsíðis frá fólkinu, stakk fingrum sínum í eyru honum og vætti tungu hans með munnvatni sínu. Þá leit hann upp til himins, andvarpaði og sagði við hann: „Effaþa,“ það er: Opnist þú. Og eyru hans opnuðust og haft tungu hans losnaði og hann talaði skýrt. Jesús bannaði þeim að segja þetta neinum en svo mjög sem hann bannaði þeim því frekar sögðu þeir frá því. Menn undruðust mjög og sögðu: „Allt gerir hann vel, daufa lætur hann heyra og mállausa mæla.“

Þú ert frábær

Ég stóð við Lynghagann og fagnaði hlaupafólkinu í Reykjavíkurmaraþoninu. Rúmlega fjórtán þúsund manns hlupu mislangar vegalengdir. Stemmingin var stórkostleg. Bros voru á flestum andlitum, gleðin hríslaðist um hlauparahópinn. Hvatningarköll hljómuðu frá þeim sem stóðu á gangstéttum og hlátrar ómuðu. Tónlistarfólk spilaði og kröftug, taktþung músík hljómaði úr hátölurum. Krafturinn var mikill. Gaman alla leið, áfram.

Ég hef farið niður á Lynghaga í mörg ár til að hvetja ættingja mína og vini. Það er gaman að vera með í þessum samheldna gleðihópi. Og svo var sérstaklega gaman í gær því drengirnir mínir – ellefu ára – hlupu 10 kílómetra í fyrsta sinn. Við foreldrarnir fögnuðum þegar þeir komu hlaupandi, léttstígir. Svo hjóluðum við vestur á Grandaveg til að hvetja þá áfram þar og furðuðum okkur á hve fjaðurmagnaðir þeir voru eftir átta kílómetra. Svo urðum við hjóla hratt til að komast á undan þeim í Lækjargötuna. Þetta var dásamlegt að taka þátt í þessari miklu hlaupagleði. Reykjavíkurmaraþon er uppskeruhátíð æfinga sem hafa staðið vikur, mánuði og jafnvel mörg ár. Mörg sem voru hlaupa tóku ákvörðun í vetur að vinna að hlaupinu. Árangur í lífinu sprettur ekki af sjálfu sér heldur er ávöxtur vilja og vinnu. Hamingjan í lífinu er líka árangur ástundunar.

Þegar við hjóluðum í átt að Grandanum sá ég stórt skilti. Við það var hvetjandi hópur sem aldeilis lagði sitt til. „Áfram, áfram“ kölluðu þau. Þetta var áheitahópur og það sem stóð á skiltinu þeirra var fallegt: Þú ert frábær. Þegar ég hjólaði svo í gegnum gamla vesturbæinn hugsaði ég um hve góð skilaboð þetta eru: Þú ert frábær. Þetta voru auðvitað skilaboð til allra þeirra sem hlupu, þau væru dýrmæt, frábær. En þetta er líka boðskapur af himnum til okkar manna. Við erum frábær, dýrmæt og öll einstök.

Áheitin

Og allir vita sem hafa kynnt sér Reykjavíkurmaraþonið að mörg hlaupa í áheitaskyni – til að láta gott af sér leiða. Þúsundir hlaupa til að styðja Ljósið, Píeta, Hjálparstarf kirkjunnar, Krabbameinsfélagið eða önnur mannræktarmálefni. Svo er safnað fyrir fólki sem hefur veikst eða slasast. Mörg voru að safna fyrir unga konu sem lenti í alvarlegu hjólaslysi á dögunum og lamaðist. Stuðingurinn er á grundvelli þess að allir eru mikilvægir og við megum og þurfum að standa saman.

Þú ert frábær. Það eru mikilvæg skilaboð sem allir þurfa að heyra margoft í lífinu, þarfnast þess að finna fyrir þeim jákvæðnisanda í uppeldi og fjölskyldulífi. Enginn kemst til manns nema hafa notið þess að einhverjum þyki hann eða hún frábær. Og þau sem hafa ekki mikinn stuðning heima fá stundum að heyra þetta mikilvæga hjá kennaranum í skólanum, í kirkjunni eða vinunum sem kunna að hrósa. Þú ert frábær.

Við þurfum hvatningu, jákvæða nálgun, hrós. En við höfum ekki gagn af því að fá aldrei gagnrýni eða jákvæða greiningu á veikleikum. Einfeldningslegt „þú ert æðisleg eða sjúklega flottur“ er ekki það sem skapar hamingjusamt fólk heldur fremur sjálfhverft og vanrækt fólk. Við þörfnumst þess að heyra og finna að við séum metin og svo mikið elskuð að við erum alin upp með aga, vinnu, hlýrri gagnrýni, kennt að reyna á okkur, þekkja mörkin, hvenær við særum aðra og hvernig við getum verið sjálfstæð en samt ábyrg gagnvart öðru fólki. Í textum dagsins eru tjáðar skuggahliðar mannlífs og við þurfum að temja okkur raunsæji Ritningarinnar. Þar sem er ljós verða skuggar. Enginn er fullkominn þó köllun okkar sé að nýta alla okkar hæfni og gáfur til góðs og hamingju. Stefnumark manna verður ekki til af engu heldur við þjálfun og ræktun hið innra og ytra.

Ekki ástandsskoðun heldur ást

Þú ert frábær. Svo var það sálmafossinn í kirkjunni í gær. Á þriðja tímanum var fjöldi kominn í kirkjuna til að njóta söngs nýrra sálma, hrífandi tónlistar, dásemda Klaisorgelsins og almenns sálmasöngs. Sex kórar sungu, á annað hundrað manns veitti okkur af sönggleði sinni. Fjöldi tónlistarmanna lék á hljóðfæri sín, sex nýir sálmar, lög og ljóð, voru frumfluttir. Þúsundir komu í kirkjuna til að njóta, syngja og úr varð fyssandi dásemd tilbeiðslu og lífs.

Þú ert frábær. Það voru skilaboðin sem ég kom með úr Reyjavíkurmaraþoni inn í sálmafossinn. Hinn mikli boðskapur sem ég greindi í textum, hljómum, undrum tónlistarinnar var hinn djúpi boðskapur Jesú Krists: Þú ert frábær. Guð kristninnar er ekki smáguð heldur Guð hins stærsta og mesta. Allt sem Guð gerir er af því að sá Guð er jákvæð elska, sem kallar fram efni af hreinni ást, kallar fram greinar lífsins í gleði skapandi iðju. Og þegar áföllin dynja yfir, reiðhjólaslys, óðir menn keyra í morðæði inn í hópa saklauss fólks eða stinga hnífum sínum í grandalausa vegfarendur er Guð ekki áhorfandi. Guð er þar. Guð kom, kemur og mun koma. Guð birtist í setningu á Grandavegi: Þú ert frábær. Og Guð kom og kemur í Jesú Kristi og öllum þeim sem gera gott. Sá Guð sem ég trúi á og þekki var í miðju hópsins á hlaupum í dag. Sá Guð á sér samverkafólk í lífinu sem safnar fé til góðs og tjáir að það er frábært. Og sá Guð talar til okkar allra í helgum textum og sálmum lífsins: Þú ert frábær og ég vil að þú fáir að njóta hamingju.

En sá Guð segir líka: Það er margt í þessari veröld sem er hræðilegt og spillir lífi, geði, freistar og afvegaleiðir. Eins frábærir og mennirnir eru læðist sýkin, syndin, tortýmingin líka meðal okkar og smeygir sér inn í okkur. Og því er vei líka tjáð í öllum heilbrigðum átrúnaði. Við erum ekki frábær af okkur sjálfum heldur af því Guð hefur skapað okkur sem frábær og vill styrkja okkur að vera slík. Við erum ekki frábær af því að það sé niðurstaðan á ástandsskoðun á okkur. Við erum frábær af því Guð metur okkur mikils þrátt fyrir vitleysur okkar og klúður. Okkur tekst að óhreinka okkur og gera margt sem miður fer. Við erum kölluð til að vera frábær og erum það þegar við lifum í raunsæi um okkur sjálf, veröldina, mannfólkið, lífið og Guð.

Þú ert frábær. Það er yfirlýsingin sem Guð gaf þér í fæðingargjöf. Við erum öll svo elskuð að þegar við hlaupum lífshlaup okkar er Guð nærri, hleypur við hlið okkar, hvetur okkur áfram, já og ber áfram þegar við dettum. Það er söngur lífsins. Viltu vera frábær?

Hugvekja í Hallgrímskirkju, 20. ágúst, 2017, sunnudag eftir menningarnótt. 10. sunnudag eftir þrenningarhátíð. B.