Greinasafn fyrir merki: kristindómur

Tekex og ansjósur

Í vetur barst fjölskyldu minni beiðni um húsaskipti. Hjón á norður-Spáni vildu gjarnan fá húsið okkar lánað í júlí og bílinn okkar líka. Það hefur verið meginregla okkar að fara ekki utan sumarmánuðina – vegna dásemdar hins íslenska sumars. En húsið, sem okkur stóð til boða ytra, var svo stórkostlegt og Cantabriu-svæðið það áhugavert að við slógum til og skiptumst á húsum og bílum. Íbúðarhúsið og Norður Spánn voru umfram allar okkar vonir. Þessi hluti Spánar er grænn og menningin á svæðinu er gömul, þykk og hrífandi. Aðbúnaður okkar var dásamlegur og við nutum sólar, birtu og blessunar. Við lifðum að hætti innfæddra og fórum oft út að borða. Fjölbreytilegt sjávarfang, kjöt og maturinn á norður Spáni hugnaðist okkur sælkerunum.

Einn daginn fórum við á veitingastað frægasta hótels Santanderborgar, sem hefur löngum hefur verið sumardvalarsvæði spænsku konungsfjölskyldunnar. Hótelið heitir Hótel Real og það merkir konungshótel. Og það er eiginlega hótel Borg þeirra í Santander, virðulegt og fínt. Svo er það einnig kennileiti í borginni, sést langt að og ber við himin eins og Hallgrímskirkja. Drengjunum mínum þótti hótelið minna á Titanic – með gömlum yfirstéttarstíll. Við höfðum lesið í veitingahúsayfirliti að matreiðslan væri góð og vissum ekki betur en matargerðin væri nútímaleg. Svo renndum við yfir matseðlana og pöntuðum. Meðan við biðum nutum við útsýnis yfir Santanderflóa, sem hefur verið mikilvæg skipahöfn allt frá tíð Rómverja. Og enn eru skip á ferð, stór og smá, seglskip og risafraktarar.

Svo kom fyrsti réttur og við undruðumst. Allir við borðið fengu tekex og smjör. Hvorki fyrr né síðar hef ég fengið tekex í forrétt í kvöldmat. Tekex fær maður helst í Englandi og þá fremur í morgunmat. Við smurðum hlýðin okkar kex og bárum að munni. Venjulegt tekexbragð og smjörið var venjulegt einnig og án nokkurrar bagðkúnstar. Jæja, mig fór að gruna að máltíðin gæti orðið með öðru móti en ég hafði ímyndað mér. Svo kom næsti réttur. Virðulegur þjónninn -uppáklæddur og hefði sómt sér vel í öllum betri hótelum heimsins – stikaði inn í salinn með disk á lofti. „Hvað kemur nú?“ spurði ég sjálfan mig. Undrunarhljóð hljómuðu frá okkur borðfélögum, sumir brostu og aðrir hlógu. Á fallegum diskinum, sem var lagður fyrir framan mig, var grá sardínudós á saltbing. Nakin sardínudós, enginn miði límdur á hana, sem upplýsti nokkuð um innihaldið. En ljóst var að lokið var laust og hægt að kippa því af dósinni. Og ég lyfti því og allir biðu spenntir eftir innihaldinu. Þar voru ekki sardínur í olíu eins og við þekkjum heldur ein flökuð og maríneruð ansjósa, sem synti í ólífuolíu. Þetta var mjög fyndið, borðfélagarnir hlógu og ég var hissa en naut matarins. Svo hélt máltíðin áfram, við vissum að þetta yrði furðumatur og ákváðum að njóta og upplifa. Og furðumatur var þetta, retróveisla og ártalið hefði allt eins getað verið 1935.

Hvað gerir gott?

Matarstíllinn var óvæntur og matargerð tengd öðrum tíma. Því varð þetta sérstæð reynsla. Í stað þess að fara í miðaldaveislu eins og í Skálholti, Tallin eða í Noregi, lentum við óvænt í tímatengdri máltíð, sem var allt öðru vísi en við áttum von á, eiginlega millistríðsáramatur. Það var sérstætt, eftirminnilegt og öðru vísi og varð mér til íhugunar og hefur haldið áfram að vekja mér þanka. Hvað er nútímamatur, hvað er gamaldags, hvað úreldist og hvað er skapandi? Af hverju nærist þú svo þú opnir, undrist, breytist og eflist? Hvað gerir þér gott?

Og dýpsta spurningin er: Hvað gefur líf og er til lífs?

Till lífs fyrir alla

Þá erum við komin að íhugun dagsins í guðspjallinu. Hópur af fólki samankominn og matarþurfi. Svo var borin fram máltíð sem varð eftirminnileg.

Íhugunarefni biblíunnar eru fremur um hvað viðburður merki fremur en um hvernig hlutir gerist eða hvaða aðferð sé notuð. Hvernig hægt var að metta mannfjölda er ekki það sem texti dagsins fjallar um heldur hvað máltíðin merkti. Hér er það sem endranær í biblíunni að hug er beint að merkingu fremur en aðferð, inntaki fremur en hinu ytra.

Brauð var brotið og Jesús notaði tækifærið til að minna nærstadda á hver gæfi brauð, hvaðan það kæmi og hvað það merkti. Í palestínsku samhengi var hveitiræktin mál lífsins og brauð tákn um lífsgæði. Þegar kornuppsprettan brást var vá fyrir dyrum og allir sultu. En þegar kornakrar náðu þroska var víst að allir myndu njóta næringar og lífið lifði. Því var gestrisni svo mikils metin, samfélagssamtaðan svo mikilvæg. Jesús reisti sér ekki minnisvarða af grjóti eða með hernaðarsigrum, heldur vildi að fólkið hans nyti matar – og gæfi öðrum með sér. Því eru ölturu í kirkjum og þau minna á að allir þarfnast næringar, ekki aðeins andlegrar heldur líkamlegrar einnig, venjulegrar fæðu, t.d. brauðs, fisks sem og annars sem gerir manninum gott. Að allir njóti gæða er hinn kristni boðskapur inn í aðstæður stríðs og átaka fyrir botni Miðjarðarhafs. Allir eiga að njóta brauðs, líka börn á Gasa. Og það merkir að þau eiga að njóta friðar, öryggis, gæsku og lands. Svo róttækur er boðskapur kristninnar og svo árangurstengt er það líf sem okkur er boðið að lifa.

Hvað gerir þér gott? Alveg áreiðanlega fjölbreytilegt fæði og í hæfilegum skömmtum – jafnvel líka tekex og ansjósa úr dós. Svo er það hin fæðan, t.d. tengsl við fólk, tilfinninganæring, líkamleg hreyfing, gæfa í tengslum og vinnu, að einhver sjái þig og meti, brosi við þér og segi þér að þú sért mikils virði, nýt eða nýtur. Hvað gerir þér gott? Hvers þarfnast þú?

Breyting til góðs

Reynslan í konungshótelinu í Santander var reynsla hins óvænta. Öðru vísi matur en við áttum von á. Og það minnti mig á að við megum gjarnan opna fyrir hið óvænta. Við getum skipulagt lífið svo algerlega að ekkert nýtt komist að og þá erum við byrjuð að deyja. En líf verður ekki gjöfult ef það er lokað í kerfi og fryst í ferla. Líf þitt má vera stöðug verðandi og opnun til framtíðar. Þannig er lífið, sem Guð gefur. Hvað gerir þér gott? Eru það nýjar hugsanir? Máttu leyfa þér að breytast? Getur þú breyst til góðs? Er eitthvað sem þú mátt hætta og úskrifa úr þínu lífi? Einhver löstur og eitthvað, sem þú vilt eða þarft að sleppa? Sorg, harmur, glötuð tengsl, horfin ást, samband, efni, vinna, hlutir, upplifanir – eitthvað sem þú dregur á eftir þér og verður þér lífshemill? Hvað geir þér gott og verður þér til næringar?

Gerir þú gott?

Svo er það hin víddin sem er hin hlið sama máls. Hvað getur þú gert til að aðrir njóti upplifunnar til lífs? Hvað getur þú gert öðrum svo fólk vakni til lífs og gæða? Getur þú sagt eitthvað jákvætt og nærandi við samferðafólk þitt og ástvini? Getur þú bakað brauð og fært einhverjum syrgjandi, einmana eða þurfandi? Getur þú umlukið einhver með kærleiksríkum bænum? Þú verður aldrei lífgjafi fólks og þarft ekki að gera kraftaverk sem Guð getur. En öll erum við farvegir lífsins gagnvart öðrum. Öll getum við fært öðrum eitthvað sem verður þeim til góðs, næringar, jákvæðar tilfinningar og hlýju. Við getum öll tamið okkur að segja eitthvað jákvætt við samferðafólk okkar í stað þess að kvarta og nöldra. Það eru líka fiskar og brauð fyrir fólk, körfur sem við erum send með til fólks heimsins.

Þessi dagur, þessi helgi og þessi mánuður er tími fyrir veislu himinsins. Þér er ekki aðeins boðið til þjóðhátíðar heldur veislu himinsins sem þú mátt njóta og miðla. Og vittu til: Þér er boðið að breytast, eflast og stækka. Af hverju? Þannig er Guð, sem elskar að magna lífið og smitar anda elskunnar til allra.

Neskirkja, verslunarmannahelgi, 3. ágúst, 2014.

Textaröð: A

Lexía: Slm 147.1-11


Hallelúja.
 Gott er að syngja Guði vorum lof.
 Það er yndislegt, honum hæfir lofsöngur.
 Drottinn endurreisir Jerúsalem,
safnar saman hinum tvístruðu Ísraels. 
Hann græðir þá sem hafa sundurkramið hjarta 
og bindur um benjar þeirra.
 Hann ákveður tölu stjarnanna, 
nefnir þær allar með nafni. 
Mikill er Drottinn vor og voldugur í mætti sínum,
speki hans ómælanleg.
 Drottinn styður hjálparlausa
 en óguðlega fellir hann til jarðar. 
Syngið Drottni þakkargjörð, 
leikið fyrir Guði vorum á gígju.
 Hann hylur himininn skýjum, 
sér jörðinni fyrir regni,
 lætur gras spretta á fjöllunum, 
gefur skepnunum fóður þeirra, 
hrafnsungunum þegar þeir krunka.
 Hann hefur ekki mætur á styrk hestsins,
 hrífst ekki af fráum fótum mannsins.
 Drottinn hefur þóknun á þeim sem óttast hann,
 þeim sem setja von sína á miskunn hans.

Pistill: 2Kor 9.8-12


Guð er þess megnugur að veita ykkur ríkulega allar góðar gjafir til þess að þið í öllu og ávallt hafið allt sem þið þarfnist og getið sjálf veitt ríkulega til allra góðra verka. Eins og ritað er: Hann miðlaði mildilega, gaf hinum snauðu, réttlæti hans varir að eilífu.

Guð sem gefur sáðmanninum sæði og brauð til fæðu mun og gefa ykkur sáð og margfalda það og auka ávöxt réttlætis ykkar. Guð mun auðga ykkur í öllu svo að þið getið jafnan sýnt örlæti. Þá munu margir þakka Guði fyrir gjafirnar sem við komum með frá ykkur. Því að þessi þjónusta, sem þið innið af hendi, bætir ekki aðeins úr skorti hinna heilögu heldur leiðir hún einnig til þess að margir menn þakka Guði.

Guðspjall: Mrk 8.1-9


Um þessar mundir bar enn svo við að mikill mannfjöldi var saman kominn og hafði ekkert til matar. Jesús kallar þá til sín lærisveinana og segir við þá: „Ég kenni í brjósti um mannfjöldann. Menn hafa nú verið hjá mér þrjá daga og hafa ekkert til matar. Láti ég þá fara fastandi heim til sín örmagnast þeir á leiðinni en sumir þeirra eru langt að. “
Þá svöruðu lærisveinarnir: „Hvar er hægt að fá brauð til að metta þetta fólk hér í óbyggðum?“
 Hann spurði þá: „Hve mörg brauð hafið þið?“ 
Þeir sögðu: „Sjö. “
Þá bauð Jesús fólkinu að setjast á jörðina, tók brauðin sjö, gerði þakkir og braut þau og gaf lærisveinum sínum að þeir bæru þau fram. En þeir báru þau fram fyrir fólkið. Þeir höfðu og fáeina smáfiska. Hann bað Guð að blessa þá og bauð að einnig þeir skyldu bornir fram. Menn neyttu og urðu mettir. Síðan tóku lærisveinarnir saman leifarnar, sjö körfur. En þar voru um fjögur þúsund manns. Síðan lét hann fólkið fara.