Greinasafn fyrir merki: óflekkaður getnaður

Gína á stalli?

EvrópufániAf hverju er fáni Evrópu blár? Og af hverju er stjörnuhringur á þeim fána? Á hvað minnir þessi geislabaugur stjarnanna? Hvað minnir fáninn á og af hverju lítur hann svo kunnuglega út? Er einhver saga og minni að baki? Já svo sannarlega, fáninn á sér forsögu og merkilegt myndlistar- og menningarsamhengi.

Evrópufáninn er eiginlega skilgetið afkvæmi Maríumynda aldanna, myndverka af Maríu móður Jesú Krists. Evrópufáninnn er líkist fjölda Maríumynda – en mínus María. Blár litur fánans kemur eiginlega frá lit Maríumöttulsins og þeim blálitaða himni sem hún ríkir yfir, en Maríu hefur verið sleppt, henni hefur verið kippt út úr myndinni.

Fáninn varð til á sama tíma og kaþólska kirkjan ræddi um óflekkaðan getnað Maríu á sjötta áratug tuttugustu aldar. Fáninn og ný kenning um þá merku konu voru afgreidd og ákveðin á sama tíma. Síðan hafa tólf stjörnurnar úr geislabaug Maríu verið sem tákn fyrir heild Evrópu á fánanum. Og Maríutáknin hafa birtst á öllum peningaseðlum Evrópusambandsþjóða. Meira að segja skráningarnúmer á bílum þessara þjóða bera þessi tákn Maríu.

Guðskoman boðuð

Í dag er boðunardagur Maríu, ofurkonu í menningarsögu Vesturlanda. María hefur verið kölluð guðsmóðir, heilög María, himnadrottning, móðir María, stjarna hafsins og móðir kirkjunnar og fleira. Hún hefur verið lofuð og líka tilbeðin. María gegnir einnig merku hlutverki meðal múslima. Margar Maríur hafa borið nafn hennar og María er eitt algengasta aðalnafn íslenskra kvenna. Áhrifasaga Maríu er margþætt og margslungin.

Guðspjallstexti dagsins segir sögu af unglingsstúlku og reynslu hennar, sem er túlkuð svo að engill birtist og upplýsti, að hún hefði verið valin til að verða farvegur fyrir hjálp Guðs í heimi. Hvernig lítur engill út? Var hann með lilju í höndum eins og miðaldamálverkin sýna eða er blómið tákn til að tengja huga við trúartúlkunina? Var María í bláum klæðum – litur Maríu er jú blár? Var himininn blár eins og sumar myndirnar sýna?

Skiptir María máli? Siðbótarmenn tóku hana út af dagskrá vegna þess, að Rómarkirkjan hafði glennt guðfræði Maríu of rausnarlega. Maríu hafði eiginlega verið stolið úr mannlífinu og gerð að gínu uppi á tilbeiðslustalli. Hið kvenlega, mannlega, hafði þar með verið læst í fjötra, sem jafnframt urðu fjötrar kvenna og brengluðu líf fólks. Maríu hefur aldrei liðið vel á stalli. Við höfum heldur engan hag af henni þar, ofurhetju handan mannlífs. María ætti að vera í miðri hringiðu lífsins.

Maríuhlutverkin

Hver er og jafnvel hvað er María? Eitt er hver hún var og annað hvaða hlutverki hún gegndi eða gegnir. Hún var móðir og átti fleiri börn en Jesú Krist. Fjórir bræður Jesú eru t.d nefndir í Mattheusarguðspjalli. Og kannski átti hann systur líka? María var eiginkona trésmiðs, húsmóðir og Gyðingur í Rómaveldi. Hún hefur væntanlega gegnt hlutverkum sínum í samræmi við venjur, siði og væntingar.

Gyðingar áttu ekki í neinum erfiðleikum með barnsgetnað og hvernig undur lífsins verður og hverjir koma við sögu. Það voru og eru ekki tvö heldur alltaf þrír aðilar: Kona og karl – en líka hinn þriðji – Guð. Alltaf þrjú. Samkvæmt hebreskri hugsun er Guð tengdur öllu lífi, líka nánasta fjölskyldulífi. En í tvíhyggjusamhengi í hinum grísk-helleníska heimi voru áherslur aðrar en hinum hebresk-gyðinglega. Hið líkamlega var sett skör lægra en hið andlega. Ástalífið, hneigðir og hið líkamlega var talið lægra sett en hið háleita-andlega. Gat Guð verið á því sviði? Gyðingar sögðu já – já, en Grikkir sögðu nei – varla.

Var María einhvers konar staðgöngumóðir fornaldar? Væntanlega lagði hún sitt egg til, en svo sagði sagan – eða jafnvel krafðist – að barnið yrði til án aðkomu Jósefs, festarmanns hennar. Lúkasarguðspjall tjáir t.d. föðurlausn getnað og meyfæðingu.

Út fyrir endimörk alheimsins

Við hrífumst og getum innlifast helgisögunni um Maríu, en ættum þó að skilja hana í samhengi hennar, sem er tilbeiðsla og lofsöngur safnaðar, trú á vængjum ljóðsins. Við megum líka muna, að menn hafa tilhneigingu til að endurhanna sögu mikilmenna. Það er eins og endurskrifa þurfi eftirá og eðlisbreyta verði aðdragandasögu stórmennis. Þar er ein skýringin á upphafssögu Jesú. Fleiri atriði koma til skoðunar einnig. Í goðsögum fornþjóða eru til sögur um meyfæðingar goða. Tilhneigingin var alltaf í tvíhyggjusamhengi að reyna að hreinsa móður guðsins sem mest og gera úr henni flekklausa veru.

Saga er alltaf áhrifasaga, viðmið og stýringar laumast yfir alla þröskulda tímans, lifa og hafa afleiðingar. Þegar Maríudýrkun óx á fyrstu öldum kristninnar varð hún fyrir áhrifum frá kvenskilgreiningum umhverfisins, t.d. frá Artemisdýrkun, frá Vestalíum Rómar, frá Isisdýrkun. Menningarlegar og þar með trúarbragðastýringar höfðu áhrif á og stjórnuðu eiginlega hvernig María var skilgreind og tilbeðin. María varð ekki lengur Gyðingakonan María heldur var henni lyft upp úr heimi hins venjulega lífs manna og upp í heim tilbeiðslunnar. Móðirin varð að meyju ofar tíma og lífi. Maríudýrkun óx stöðugt þegar leið á fyrsta árþúsundið og kenningaflækjan þróaðist og gildnaði. Löng saga trúarhugsunar endaði síðan með, að kaþólska kirkjan fékk yfir sig ákvörðun um að María hefði líka verið flekklaust getin eins og Jesús. Hin duldu stýrikerfi upphafningar og hreinsunar upphafssögu Jesú náði hámarki – María var ekki lengur mensk heldur utan við söguna. Hún var eiginlega komin út fyrir endimörk alheimsins!

Andleg tiltekt – María meðal manna

Hver er þörf nútímatrúmanna fyrir hugmyndafræði upphafningar og sögubreytingar? Við ættum að ganga hljóðlega um og með kyrru í návist Maríu og ættum alls ekki þrengja lífi hennar og veruleika inn líkamshrædda fordóma. Við höfum enga þörf fyrir tvíhyggjuaðgreiningu milli raunveruleika okkar annars vegar og trúar hins vegar.

Eins og við þurfum að gera hreint á heimilum okkar ættum við reglulega að gera hreint í hugarheimi og hreinsa kenningakerfin. Það varðar m.a. að leyfa Maríu að koma til sjáfrar sín og án allra kvaða margra alda efnishræðslu. María á ekki að vera á stalli ofar mannlífi. Kristnir menn eiga ekki að rugla saman ólíkum þáttum þótt tengdir séu, frelsun og mannhugmyndum, kristsfræði (Jesús frelsar) og uppeldisfræði (María sem fyrirmynd). María er ekki frelsari mannkyns heldur mikilvæg ímynd mannlífs og kirkju.

María er merkileg fyrirmynd og vinkona. Og nú er komið að því að María megi stíga af stalli og taka þátt í hreingerningunni. María er í menningunni, minningunni, söngvum og tónlistinni, myndlist og sögu. María er á fánanum, peningaseðlunum og blámanum. Ofurhetjur utan við endimörk alheimsins eru góðar fyrir ákveðið skeið bernskunnar. María þarf ekki að vera þar og í því hlutverki – heldur fremur sem ein af fyrirmyndum og þannig eru dýrlingar, vinir sem þjóna fyrirmyndarhlutverki. Gínan María er ekki góð en konan María, móðir Jesú Krists, er stórkostleg. María er eins og við og við erum eins og María. Það er vitnisburður versanna sem lesin voru úr Passíuálmunum áðan. “María, drottins móðir kær, 
merkir guðs kristni sanna.” Til hennar lítur Jesús Kristur með augum elskunnar.

Amen

Boðunardagur Maríu, 5. sd. í föstu, 17. mars, 2013

Lexía:  1. Sam 2.1-10

Hanna bað og sagði:
Hjarta mitt fagnar í Drottni.
Horn mitt er upphafið af Drottni.
Ég hlæ að fjandmönnum mínum
því að ég gleðst yfir hjálp þinni.
Enginn er heilagur sem Drottinn,
enginn er til nema þú,
enginn er klettur sem Guð vor.
Hreykið yður ekki í orðum,
sleppið engum stóryrðum af vörum
því að Drottinn er vitur Guð,
hann metur verkin.
Bogi kappanna er brotinn
en örmagna menn gyrðast styrkleika.
Saddir selja sig fyrir brauð
en hungraðir þurfa þess ekki.
Óbyrja elur sjö börn
en barnmörg móðir visnar.
Drottinn deyðir og lífgar,
sendir menn til heljar
og leiðir þá upp þaðan.
Drottinn sviptir menn eigum og auðgar þá,
hann niðurlægir og upphefur.
Hann lyftir hinum auma úr duftinu
og hefur hinn snauða úr skarninu,
leiðir hann til sætis hjá höfðingjum
og skipar honum í öndvegi.
Stoðir jarðar eru eign Drottins,
á þeim reisti hann heiminn.
Hann ver fætur sinna réttlátu
en ranglátir þagna í myrkrinu
því að enginn er máttugur af eigin afli.
Drottinn kremur þá sem rísa gegn honum,
Hinn hæsti sendir þrumur af himni gegn þeim.
Drottinn dæmir alla jörðina.
Hann eflir konung sinn að mætti
og hefur upp horn síns smurða.

Pistill:  Róm 8.38-39

Því að ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum.

Guðspjall:  Lúk 1.46-56

Og María sagði:
Önd mín miklar Drottin
og andi minn gleðst í Guði, frelsara mínum.
Því að hann hefur litið til ambáttar sinnar í smæð hennar,
héðan af munu allar kynslóðir mig sæla segja.
Því að mikla hluti hefur Hinn voldugi við mig gert
og heilagt er nafn hans.
Miskunn hans við þá er óttast hann varir frá kyni til kyns.
Máttarverk hefur hann unnið með armi sínum
og drembilátum í hug og hjarta hefur hann tvístrað.
Valdhöfum hefur hann steypt af stóli
og upp hafið smælingja,
hungraða hefur hann fyllt gæðum
en látið ríka tómhenta frá sér fara.
Hann hefur minnst miskunnar sinnar
og tekið að sér Ísrael, þjón sinn,
eins og hann hét feðrum vorum,
Abraham og niðjum hans, eilíflega.

 

María, drottins móðir kær,

merkir guðs kristni sanna:

Undir krossinum oftast nær

angur og sorg má kanna.

Til hennar lítur þar herrann hýrt,

huggunarorðið sendir dýrt

og forsjón frómra manna.

HP-PSS 37,6