Söngur þjóðar

IMG_5363Árið 1874 heimsótti konungur Dana Ísland til að fagna með Íslendingum á afmæli þúsund ára byggðar í landinu og til að afhenda frelsisskrá. Þá var haldin þjóðhátíð á Íslandi. Innblásin af skilum tímans orktu skáldin ljóð og hátíðakvæði.

En skáldprestinum Matthíasi Jochumssyni var ekki gleði í huga þegar kóngur kom. Honum og þjóð hans var margt mótdrægt. Hann hafði misst mikið í einkalífi sínu og var dapur raunamaður. Í lægingunn leitaði hann að einhverju til að lyfta sér upp á vængi morgunroðans, upp til trúar á land og framtíð. Þjóð hans var á tímamótum og leit til baka við þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar og einnig fram á veg. Hvaða stef gætu hjálpað og orðið til eflingar? Matthías fletti Biblíunni sinni og las enn einu sinni í sálmasafninu í hjarta Gamla testamentisins sem kennt er við Davíð konung. Í 90. sálmi fann hann bæn guðsmannsins Móse. Og bænin tók hug hans. Í þessum gullsálmi segir:

Drottinn, þú hefur verið oss athvarf

frá kyni til kyns.

Áður en fjöllin fæddust

og jörðin og heimurinn urðu til,

frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.

Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins

og segir: „Hverfið aftur, þér mannanna börn.“

Því að þúsund ár eru í þínum augum

sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn,

já, eins og næturvaka…

Kenn oss að telja daga vora,

að vér megum öðlast viturt hjarta.

Kannastu við þessi stef? Getur verið að þau séu til í söng sem þú hefur heyrt eða sungið? Já, því versin urðu skáldinu til hressingar og eflingar og hann fékk frá þeim innblástur, andagift, til að semja sálm, Lofsöng, sem var svo sunginn í Dómkirkjunni í konungsmessunni árið 1874. Sveinbjörn Sveinbjörnsson samdi lagið sem er raunar tónverk. Síðar varð svo þessi lofsöngurað hinum rismikla þjóðsöng Íslendinga.

Samhengið

Matthías vissi vel að trúarlegt samhengi allrar sögu þjóðar, hópa og einstaklinga væri aðeins eitt, frumuppsprettan sjálf og takmark allrar sögu. “Drottinn, þú hefur verið oss athvarf frá kyni til kyns. Áður en fjöllin fæddust og jörðin og heimurinn urðu til … ert þú, ó Guð.” Þetta eru ekki glamuryrði fyrir hátíðarstund, heldur niðurstaða lífsreynslu einstaklinga og kynslóða. Hvert er haldreipið í myrkri og flókinni sögu, hvar hjálpin í hallæri, hvar sorgarléttir við dánarbeð og hvar skjól í lífsbyljunum? Hvar annars staðar en hjá gjafara allra gæða, sem réttir fram hendur áður en kreppir að.

“Frá eilífð til eilífðar ertu þú, ó Guð.” Guð hefur gefið þér – okkur öllum – fortíð, samhengi, áa og eddur, sögu til að lifa við og af, uppbyggingu kynslóða, heimaslóðir, uppvaxtaraðstæður en síðan óslökkvandi lífsþorsta, sem hefur orðið til að einstaklingar og fólk í þessu landi hafa fundið leið í gegnum kreppur.

Gjafir tímans og lífs

Það er Guð, sem gefur þér ástina til maka og barna, umhyggju, jarðargróða og viðurværi. “…þú hefur verið oss athvarf frá kyni til kyns.” Það er stórt samhengi og uppteiknað með fjöllum, heimi, þúsundum ára og afturhvarfi mannabarna í duftdyngju árþúsunda.

Þegar einstaklingshyggja vex, hið stóra samhengi menningar, þjóða og ættboga rofnar og fátt er annað eftir en hinn eini í einstaklingsleit í smáheimi sínum hljómar þessi texti hins stóra samhengis. Boðskapurinn er að þú ert ekki einn eða ein heldur hluti heildar. Þú ert ekki einn þinnar gerðar heldur hlekkur í stórri keðju ættar og kynslóða. Líf þitt er ekki aðeins þitt eigið heldur í tengslum og samhengi. Gegn sjálfhverfingu einstaklingsins talar hið víða sjónarhorn og stóra samhengi Guðs og eilífðarinnar.

Aðhaldið, stuðningur menningarinnar og félagsmótun kynslóðanna er ekki lengur sjálfsagt og einhlýtt samhengi uppvaxandi kynslóða. Ísland er ekki lengur eyland í menningarlegu tilliti, ekki lengur afkimi meðal þjóðanna. Nú erum við beintengd og nettengd inn í viðburði og vef veraldar.

Viskan

Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta. Hvernig getur þú öðlast viturt hjarta? Hvað er að vera vitur? Þú mátt vita að þú hefur mikilvægu hlutverki að gegna í sögu og samtíð. Þú ert mikilvægur og mikilvæg gagnvart fólkinu þínu. Þú hefur hlutverki að gegna við uppeldi og við að gæta réttlætis í samfélaginu. Þú hefur mótttöku- og gestgjafahlutverki gagnvart nýbúum samfélags okkar. Þú ert vökumaður náttúrunnar og gagnvart stjórnum og þjónum samfélags. Guð kallar til réttlætis, til samfélags, til eðlilegrar dreifingar lífsgæða.

Og trúin

En hið stærsta samhengi og hið dýpsta einnig er samhengi trúarinnar. Ágústínus kirkjufaðir minnti á, að hjarta mannsins væri órótt uns það hvíldi í friði Guðs. Þú getur hlaupið í lífinu og unnið allan heiminn, en þó verið manna fátækastur og örmust ef þú ekki tekur mark á dýptum þínum. Svo er um þjóð okkar einnig. Hún getur átt “allan heiminn” en verið skínandi fátæk ef innri auður er rýr.

Þú ert ekki einn eða ein, þú ert í stóru samhengi, hlekkur í risakeðju kynslóða. Og samhengi alls er Guð sem færir allt til betri vegar. Guð gefur allt, gefur þér gáfur, eignir, forsendur og samhengi. Guð getur líka gefur frið. Guð þínn sem er athvarf frá kyni til kyns.

Íhugun í Hallgrímskirkju, 17. júní, 2015, kl. 16.

Trúir þú á Guð?

trúHvað áttu mörg andartök eftir af þessu lífi? Andartökin eru vegna lífsins, nauðsynleg lífi manna og þegar lífi lýkur verða síðustu andartökin. Í prestsstarfinu hef ég kynnst fólki sem hefur kviðið þeirri stundu að finnast það vera kafna. Sum hafa sagt mér að þau óttist meira tilfinningu andnauðarinnar en því að lífið fjari út. Hvaða afstöðu hefur þú gagnvart dauða og málum eilífðar og trúar?

Jerúsalemferðin

Jesús var á leið til loka. För hans til Jersúalem er erindi dagsins. Síðustu andartök hans. Hann glímdi við erindi sitt, hlutverk í lífinu og trú sína. Við förum okkar ferðir. Jerúsalemgöngur eru okkar líka. Og ekkert okkar víkur sér undan lífslokum. Hvað gerist þegar þú tekur síðustu andartök þín? Er lífið þér þá búið? Áttu þér framhald eftir dauða eða trúir þú ekki að til sé framhaldslíf, eilíft líf?

Hljóðgangann og 640

Á listahátíð í ár var merkilegt leikverk flutt, Engram, sem var svonefnd hljóðganga um Hallgrímskirkju. Ég var svo lánsamur að njóta þeirrar áhrifaríku hljóðgöngu. Þau sem sóttu sýninguna fóru ekki í leikhús heldur komu í anddyri kirkjunnar. Þar fengum við heyrnartól og vorum beðin að setjast aftast í kirkjunni sunnanmegin og bíða raddar í heyrnartólunum. Við settumst öll niður innan um alla ferðalanga veraldar. Við vorum einn hópur af mörgum. Svo var þarna líka stór hópur stúdentsefna Kvennaskólans sem voru að æfa skólaslit. Við biðum átekta í sætum okkar, drógum djúpt andann, fundum til kyrrðar í kirkjunni en líka eftirvæntingar. Við vissum að við myndum verða leikendur í þessari sýningu og óvíst hvað við ættum gera, vera inni eða úti, upp í turni eða segja eitthvað frammi fyrir öðrum.

Svo byrjaði rödd að tala, blíð og hlý. Við fengum strax að vita að við tækjum þátt í ferðalagi – engu venjulegu ferðalagi heldur síðusta hluta æfinnar. Svo drógumst við inn í sögu sem varð brátt okkar saga og gerðum okkur grein fyrir að við ættum stuttan tíma eftir ólifaðan. Og ónotatilfinning hríslaðist um mörg okkar þegar okkur var sagt að við værum að deyja. Við ættum aðeins 640 andardrætti eftir. Hvað er það langur tími? Hjartað fór að slá hraðar. Síðan var áleitin saga sögð og við urðum hluti þeirrar sögu og höfðum hlutverkum að gegna í framvindunni.

Handritið var algerlega aðlagað kirkjuhúsinu og kirkjunni var vel lýst. Okkur var vísað út um neyðardyrnar á suðurveggnum í miðju kirkjuskipinu. Við fórum öll út og tókum þátt í gjörningi sunnan kirkjunnar. Svo var okkur boðið að fara út á Hallgrímstorg. Sögumaður hljóðleiksins lýsti fyrir okkur ferðamönnunum umhverfis okkur og við fengum að vita að andartökum okkar fækkaði. Saga sem sögð var grópaðist í sálina og við fundum til djúprar samsemdar með söguhetjunum sem við fylgdumst með. Tvö hundruð andardrættir eftir.

Við héldum áfram þessari undarlegu för mót endi og dauða, fórum á steinasvæðið norðan við Leifsstyttuna og þar áttum við aðeins þrjátíu andardrætti eftir. Svo var komið að lokum. Þegar við áttum eftir nokkra andardrætti vorum við beðin að snúa okkur að kirkjunni. Þegar við tókum síðustu andartökin skein sólin við okkur vinstra megin við turnspíruna. Við fundum fyrir hlýju sólarglennunnar, fyrir síðustu lífsmörkunum og svo tókum við síðasta andartak lífsins. Þar með var öllu lokið.

Þeirri reynslu verður ekki lýst og ekki heldur framvindu og fléttu sögunnar. En ég – og mörg önnur – upplifðum dauða og síðan upprisu. Reynslan var mögnuð – og ég gekk inn í kirkjuna þakklátur fyrir lífið og dýrmæti þess, undur og blessun. Ég var þakklátur fyrir að líf mitt er líf með Guði. Ég trúi á Guð sem umfaðmar okkur menn á lífsgöngu, gefur okkur andartök og er inntak lífs í lofti og loftleysi. Hvað gerir þú við andartökin sem þú átt eftir af lífinu? Hvernig leið þér þegar ástvinur þinn lést og þú heyrði síðasta andartakið?

Trúir þú?

Þegar dauðinn sækir að fólki opnast oft sálargáttir. Vitund fólks opnast gjarnan og vert er að virða hugsanir og tilfinningar gagnvart dauða. Samtöl við syrgjandi fólk rista oft djúpt og sum eru á himindýptina og alltaf lærdómsrík. Mörg eftirminnileg samtöl hef ég átt við fólk sem þoldi og þorði að glíma við eigin ótta, virti vonir sínar og spurði stórra spurninga. Eitt sinn ræddi ég við konu sem í skugga vinarmissis talaði um trú sína, sorg og líf. Allt í einu beindi hún orðum sínum að mér og spurði: „Trúir þú á Guð?“

Þegar ég er spurður þessarar spurningar lít ég svo á að fólk sýni mér tiltrú og traust til að tala um dýpstu hjartans mál. Trúarspurningin er eðlileg og flestir fara einhvern tíma á æfinni yfir eða meta guðstrú sína, tengsl eða tengslaleysi við Guð. Þegar fólk hugsar um afdrif látinna ástvina og vill tala við prestinn um þau mál er ekki einkennilegt að spurningin hljómi. En hvort ég, presturinn, trúi á Guð kemur mér þó samt alltaf svolítið á óvart. Svarið er margmetið og margyfirfarið já. En ekkert er sjálfgefið í málum átúnaðar. Trú er gjöf, trú varðar tengsl og trú er traust. Menn geta bilað og brotnað og ég get líka tapað trausti og tengslum við Guð. En ég get ekki verið prestur kristinnar kirkju ef ég tapa trúnni, tengingu við Guð. Ég myndi segja af mér prestsþjónustu ef ég missti trúna. Guðssamband er ekki fasteign eða fasti heldur lifandi samband.

Ástarsamband

Ég skýrði út fyrir konunni að trú væri í mínu lífi ástarsamband, ástalíf og kærleikssamskipti. Ást getur dvínað og trú getur horfið rétt eins en ást í tengslum getur líka dafnað og trú getur styrkst. Trúin er samband lifandi aðila við annan rétt eins og ástin er lífssamband. Og konan spurði: En biður þú? Svarið var og er að ég bið. Ég gæti ekki hugsað mér orðalaust ástarsamband. Mér þykir t.d. óhugsandi að tala ekki við konuna mína. Bæn er tjáning elskunnar, hlý og óttalaus. Og þannig lifi ég trú sem hin dýpstu tengsl lífsins, að Guð er mér nær en meðvitund mín, nær en andartök mín eða hjartsláttur. Guð er inntak vitundar minnar, en líka máttur efnahvarfa og líkamsstarfsemi minnar. Anda Guðs upplifi ég alls staðar, ekki aðeins í ferlum náttúrunnar heldur líka í tækni, veraldarvefnum, lífspúlsum menningar og öllu því sem verður í veröldinni.

Svona upplifi ég og túlka veruleika Guðs – og það er ekkert ódýrt í þeirri nálgun. Ég glími stöðugt við efasemdir mínar. Og efinn og trúin eru í mér nánar systur og vinir. Efinn, kraftmikil gagnrýni og háskólanám urðu mér veganesti til að gera upp það sem mér sýnist úrelt í trúarefnum. Forn heimsmynd er að mínu viti ekki mál og því síður vandamál trúarinnar. Trúmenn nútíma fagna nútímavísindum, ekki til að trúa blint heldur trúa vitlega. Hlutverk Biblíunnar er ekki að færa okkur til baka í tíma heldur opna okkur framtíð með Guði. Biblíuna þarf að lesa með köldum en frjálsum huga og trúarlærdóma þarf að skoða og skilja í sögulegu samhengi. Kirkjustofnun er ekki óbreytanleg og verk mannanna eru skilyrt og stundum afar sjálfhverf. Því á að skoða allt sem tengist trú og trúariðkun með gagnrýnum og opnum huga. Ég dreg ekki á eftir mér gömul og úrelt fyrirmæli Biblíunnar. Ég er frjáls undan hvers konar kúgandi valdi því ég tek mark á Jesú Kristi. Ég trúi honum og fylgi honum. Guð er upphaf mitt, tjáir mér elsku sína í hjartslætti mínum, frumum líkamans, hrifningu daganna – faðmlögum ástvina minna og furðum heimsins. En Guð stressar sig örugglega ekki yfir óvitaskap okkar manna – held ég – þegar við gerum okkur rangar hugmyndir um Guð.

Til lífs
Konan spurði mig um trú mína. Jesús Kristur stefnir til Jerúsalem. Ferðamennirnir og sóknarfólkið í Hallgrímskirkju vill góðar ferðir í lífinu og spyr um tilgang lífsins. Allir anda en mæta að lokum dauða. Og mig langar til að spyrja þig um trú þína á þinni vegferð. Hvernig er trú þín eða vantrú? Þegar þú missir ástvin þinn, hvernig túlkar þú för hans eða hennar? Er allt búið þegar síðasti andardrátturinn hverfur? Nú áttu nokkur andartök eftir af lífi þínu. Og mátt æfa þig í að taka síðasta andartakið. Hver ertu? Trúir þú að einhvern tíma ljúki lífi þínu? Hver verður þú þá? Hverju trúir þú? Trúir þú á Guð?

Hallgrímskirkja, 2. sunnudagur eftir þrenningarhátíð, 14. júní, 2015, B-röð.

  1. sd. e trin. Textaröð: B

Lexía: Okv 9.10-12
Að óttast Drottin er upphaf spekinnar
og að þekkja hinn heilaga er hyggindi.
Með mínu fulltingi verða dagar þínir margir
og árum lífs þíns fjölgar.
Sértu vitur verður vitið þér til góðs
en sértu spottari þá mun það bitna á þér einum.

Pistill: 1Kor 1.26-31

Minnist þess, systkin, hvernig þið voruð þegar Guð kallaði ykkur: Mörg ykkar voru ekki vitur að manna dómi, ekki voldug eða ættstór. En Guð hefur útvalið það sem heimurinn telur heimsku til að gera hinum vitru kinnroða og hið veika í heiminum til þess að gera hinu volduga kinnroða. Og hið lítilmótlega í heiminum, það sem heimurinn telur einskis virði, hefur Guð útvalið til þess að gera að engu það sem er í metum. Enginn maður skyldi hrósa sér fyrir Guði. Honum er það að þakka að þið eruð í samfélagi við Krist Jesú. Hann er orðinn okkur vísdómur frá Guði, bæði réttlæti, helgun og endurlausn. Eins og ritað er: „Sá sem vill hrósa sér hrósi sér í Drottni.“

Guðspjall: Lúk 9.51-62

Nú fullnaðist brátt sá tími er Jesús skyldi upp numinn verða. Beindi hann þá augum til Jerúsalem, einráðinn að fara þangað. Og hann lét sendiboða fara á undan sér. Þeir fóru og komu í Samverjaþorp nokkurt til að búa honum gistingu. En menn tóku ekki við honum því að hann var á leið til Jerúsalem. Þegar lærisveinar hans, þeir Jakob og Jóhannes, sáu það sögðu þeir: „Drottinn, eigum við að bjóða að eldur falli af himni og tortími þeim?“
En Jesús sneri sér við og ávítaði þá [og sagði: „Ekki vitið þið hvaða andi býr í ykkur. Mannssonurinn er ekki kominn til að tortíma mannslífum heldur til að frelsa.“] Og þeir fóru í annað þorp.
Á leiðinni sagði maður nokkur við Jesú: „Ég vil fylgja þér hvert sem þú ferð.“
Jesús sagði við hann: „Refar eiga greni og fuglar himins hreiður en Mannssonurinn á hvergi höfði sínu að að halla.“
Við annan sagði hann: „Fylg þú mér!“
Sá mælti: „Drottinn, leyf mér fyrst að fara og jarða föður minn.“
Jesús svaraði: „Lát hina dauðu jarða sína dauðu en far þú og boða Guðs ríki.“
Enn annar sagði: „Ég vil fylgja þér, Drottinn, en leyf mér fyrst að kveðja fólk mitt heima.“
En Jesús sagði við hann: „Enginn sem leggur hönd á plóginn og horfir aftur er hæfur í Guðs ríki.

Tuttugasta og þyrsta öldin

plaststrendurFyrir viku síðan var ég í Stavanger í Noregi. Margir fiskibátar voru í höfninni rétt eins og í okkar borg og sjávarplássum um allt land. Sjávarfuglarnir voru alls staðar sýnilegir og heyranlegir. Í Stavanger hafa síðustu ár verið mikil útgerðarumsvif vegna olíuvinnslu. Stavanger er Texas norðursins. Stórir prammar, risa-dráttarbátar og stór þyrlufloti þjóna þeirri útgerð.

Í veislu, sem mér var boðið í, var ég settur niður við hlið framkvæmdastýru samtaka atvinnulífsins í Noregi. Þegar hún heyrði að sessunauturinn væri frá Íslandi vildi hún ræða um þá Íslendinga sem hún þekkti og hvað þjóðir okkar ættu sameiginlegt í atvinnumálum og þróun sjávarbyggða. Hún sagði mér að sjávarútvegur í Noregi nyti að bæði framleiðendur og kaupendur væru meðvitaðir um ýtrasta hreinlæti í framleiðsluháttum. Því mætti hvergi slaka á varðandi umhverfismálin. Gæðaeftirlitið tæki líka til umhverfisstaðlanna. „Við vöndum okkur í umhverfismálunum, kaupendur virða það og við seljum því á góðu verði“ sagði hún og bætti svo við: „Það gerið þið Íslendingar líka. Þið passið vatnið, umhverfisþættina og vandið ykkur í kvótamálunum.“ Og svo minnti hún á að það væri ekkert einfalt að halda jafnvægi í byggðamálum, framleiðslu, iðnaði og ábyrgri umhverfisstefnu. „Við verðum að gera okkar besta í að varðveita hreinleika náttúrunnar. Annars hrynur allt“ sagði hún.

Vatnið

Umhverfimálin eru stórmál sjávarútvegsins og þjóðlífs okkar og ástæða er til að nefna á sjómannadegi. Engin sækir sjó án þess að til sé vatn – lifandi og lífgefandi vatn. Á hátíðsdegi garpa hafsins minnum við okkur á stofna sjómennskunnar. Ég leiði því huga að náttúrunni og ræði um vatn í hugleiðingu dagsins. 
Alexía Ósk var skírð áðan. Hún var borinn að skírnarfontinum, hinum stórkostlega skírnarsá sem er hér í Hallgrímskirkju (ver Leifs Breiðfjörð). Hún var ausinn vatni og vatnið lék um hár hennar. Vitundin um blessandi vatnsbaðið og sjávarsókn Íslendinga um aldir hafa orðið mér til íhugunar um lífsbjörg en einnig lífsógn. Vatn getur verið lifandi vatn en líka mengað og deyðandi.

Ég er – eins og margir – heillaður af vatni, rennandi, streymandi, hreyfanlegu og lifandi vatni en síður að frosnu, fúlu vatni. Mér þykir skemmtilegt að ganga með lækjum frá uppsprettu til ósa, horfa í iðuna og leyfa vitundinni að flæða með straumnum og köstum. Vatnið er til lífs og við getum ekki lifað án vatns. Við erum að mestu leyti vatn og ef vatnið er ekki heilsusamlegt veldur það tjóni og jafnvel dauða. Hreint vatn er forsenda lífs en þó er mengun vatns heimsins skelfilega mikil og vaxandi svo æ minna er af hreinu vatni. Þess vegna er loflegt að Hjálparstarf kirkjunnar beitir sér fyrir að fólk hafi aðgang að hreinu vatni í Afríku og íslensk fermingarungmennin safna á hverju ári fyrir brunnum á því svæði.

Til að minna okkur á mikilvægi ábyrgðar manna gagnvart vatni – og einkum sjó – er á vegum Sameinuðu þjóðanna haldinn 8. júní á hverju ári alþjóðlegur dagur hafsins. Margt er gert til að brýna fólk til ábyrgðar og hvetja til heillavænlegra aðgerða. Á morgun verður t.d. sýnd á vegum Íslandsdeildar félags Sameinuðu þjóðanna – í Bíó Paradís á Hverfisgötunni – kvikmyndin Plaststrendur sem sýnir þá óhugnanlegu plastmengun sem orðin er í sjónum. Plastið brotnar seint niður og veldur gríðarlegum skaða. Viljum við að sjófuglarnir séu með plastbrot í gogginum eða hálffullan maga af plastúrgangi, deyji kvalafullum dauða? Viljum við að fiskarnir séu veiklaðir af plastáti og spendýrin margvíslega hamin af plastmengun? Plast er gott á sínum stað en plast á villigötum veldur dauða.

Og svo er vatnsbúskapur veraldar. Það er raunverulegt áhyggjuefni að æ minna er af hreinu vatni í veröldinni. Hvernig verður framtíð lífs á jörðinni ef hreint vatn er takmarkað? Mark Twain sagði hnyttilega fyrir löngu síðan að viskí væri til að drekka en menn berðust um og dræpu vegna vatns! Þegar hreint vatn er orðið dýrmætara en olía fara einstaklingar, hópar og þjóðir í stríð vegna vatns. Tuttugasta og fyrsta öldin er og verður tuttugusta og þyrsta öldin. Lífið lifir ekki án vatns. Við erum ekki aðeins kölluð til að hemja sókn í fiskstofna, heldur kölluð til heildrænnar ráðsmennsku.

Sjómennska heimsins og einnig okkar þjóðar er háð því að vatn og sjór njóti umhyggju okkar. Einstaka mengunarslys eru hættuleg en stærsti og mesti vandi okkar er áframhaldandi mengun sem hinn ríki hluti heimsins veldur, okkar hluti jarðarinnar. Við viljum vera ábyrg í sjósókn okkar og samfara því verðum við að vera ábyrg í sjóvernd okkar og lífsafstöðu.

Áhrif á náttúru

Í guðspjalli dagsins fer Jesús á sjó með lærisveinum sínum. Þeir félagar hrepptu versta veður og voru í lífsháska. Og þegar Jesús vaknaði bjargaði hann. Hann hafði góð áhrif á náttúrukraftana og mennina sem hann var með. Jesús Kristur vill að við höfum góð áhrif á krafta náttúrunnar og mannfólkið. Við höfum hlutverkum að gegna.
Hvað eiga þau sameiginlegt kirkja, börn, samfélag, fiskur og heimsbyggð. Þau þarfnast öll að Guð elski og veiti þeim líf og heilsu. Og við erum farvegir elsku Guðs í veröldinni. Við getum skemmt en við getum líka hlúð að lífinu, í nærumhverfi okkar en einnig fjarumhverfi. Kristin trú varðar ekki aðeins innri mann heldur allt líf okkar. Við erum ekki vegna trúar okkar á leið út úr heiminum heldur vegna trúar á leið inn í heiminn til að lægja öldur, minnka hættu, stoppa stormviðri mengunar og þess hluta iðnaðar og ómenningar manna sem spillir.

Blauta Biblían

Og vatn og sjór er elskaður af Guði og þeim mönnum sem vilja ganga erinda Guðs. Blóm og dýr eru ekki aðeins vatnssósa, heldur mennirnir einnig. Jafnvel Biblían er rennandi blaut. Vatn er nefnt – að því er mér telst til – um sjö hundruð sinnum í þeirri helgu bók.

Kristnir menn hafa um aldir talið að vatn væri helgað vegna þess að Jesús helgaði vötn heimsins í ánni Jórdan. Við menn erum hluti þess vatnsbúskapar. Við erum ekki geimgenglar á ferð um vetrarbrautina sem koma við á jörðinni, svona svipað eins og við stoppum í vegasjoppu á leið frá himni til himins. Við erum ekki heimsfjarlægir Guðstúristar heldur er líf okkar fólgið í að lifa á jörðu og lifa með ábyrgð. Við berum ábyrgð á bláu plánetunni. Já, við berum ábyrgð á fiskunum í sjónum, fuglunum, ströndum sem við viljum varna að verða plastinu að bráð. Jesús axlaði ábyrgð á hættu og beitti kröftum til góðs. Við njótum hans fyrirmyndar og að við erum kölluð til að beita mætti okkar til lífs.

Hver er náungi okkar?

Hver er náungi minn var spurt einu sinni. Foreldrar sem báru fallegu stúlkuna sína til vatnsbaðsins í dag óska henni gæfu og góðs lífs í framtíðinni. Þau vilja leggja allt það besta til sem þau mega. Alexía Ósk er eins og annað fólk okkur falin til verndar og eflingar. En svo er það náungi okkar – náttúran. Hvað ætlum við að gera til að líf samfélags okkar verði heilnæmt, að náttturuauðlindir okkar allar verði vel nýttar og með ábyrgð? Við höfum öll mikilvægum hlutverkum að gegna í þeim efnum. Heimurinn er ekki klofinn heldur einn. Einn er skaparinn og einn er lausnarinn og öll höfum við hlutverkum að gegna til góðs. Tuttugustu og þyrsta öldin þráir hreint vatn og þarfnast náttúruvæns Jesúfólks.

Amen.

Sjómannadagurinn, 7. júní, 2015.

Textaröð: B, 1. sd. eftir þrenningarhátíð.

Lexía: Slm 107.1-2, 20-31


Þakkið Drottni því að hann er góður,
því að miskunn hans varir að eilífu. 
Svo skulu hinir endurleystu Drottins segja,
þeir er hann hefur leyst úr nauðum
sendi orð sitt og læknaði þá
og bjargaði þeim frá gröfinni.
Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans
og dásemdarverk hans við mannanna börn, 
færa honum þakkarfórnir
og segja frá verkum hans með fögnuði.
 Þeir sem fóru um hafið á skipum
 og ráku verslun á hinum miklu höfum
sáu verk Drottins
og dásemdarverk hans á djúpinu.
 Því að hann bauð og þá kom stormviðri 
sem hóf upp öldur hafsins. 
Þeir hófust til himins, hnigu í djúpið,
og þeim féllst hugur í háskanum.
 Þeir skjögruðu og reikuðu eins og drukkinn maður
og kunnátta þeirra kom að engu haldi.
 Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni 
og hann bjargaði þeim úr þrengingum þeirra. 
Hann breytti storminum í blíðan blæ
 og öldur hafsins lægði. 
Þeir glöddust þegar þær kyrrðust
 og hann leiddi þá til þeirrar hafnar sem þeir þráðu. 
Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans
og dásemdarverk hans við mannanna born.

Pistill: Post 27.21-25


Nú höfðu menn lengi einskis matar neytt. Þá stóð Páll upp meðal þeirra og mælti: „Góðir menn, þið hefðuð átt að hlíta mínu ráði og leggja ekki út frá Krít. Þá hefðuð þið komist hjá hrakningum þessum og tjóni. En nú hvet ég ykkur til að vera vonglaðir því enginn ykkar mun lífi týna en skipið mun farast. Því að á þessari nóttu stóð hjá mér engill þess Guðs sem ég heyri til og þjóna og mælti: Óttast þú eigi, Páll, fyrir keisarann átt þú að koma. Guð hefur gefið þér alla þá sem þér eru samskipa. Verið því vonglaðir, góðir menn. Ég treysti Guði, að svo muni fara sem við mig hefur verið mælt.

Guðspjall: Matt 8.23-27


Nú fór Jesús í bátinn og lærisveinar hans fylgdu honum. Þá gerði svo mikið veður á vatninu að bylgjurnar gengu yfir bátinn. En Jesús svaf. Þeir fara til, vekja hann og segja: „Drottinn, bjarga okkur, við förumst.“
Hann sagði við þá: „Hví eruð þið hræddir, þið trúlitlir?“ Síðan reis hann upp, hastaði á vindinn og vatnið og varð stillilogn. 
Mennirnir undruðust og sögðu: „Hvílíkur maður er þetta? Jafnvel vindar og vatn hlýða honum.“

Lilja Sólveig Kristjánsdóttir – minningarorð

Lilja 2Fólkið hennar Lilju Sólveigar, Brautarhólsfólkið, sótti kirkju á Völlum í Svarfaðardal. Barnahópurinn fór með foreldrunum Kristjáni og Kristínu. Lilja Sólveig settist á suðurbekk við hlið mömmunnar. Sá merki prestur Stefán Kristinsson steig í stólinn eftir guðspjallssálm og hóf predikun sína. Þriggja ára stelpuskottið fylgdist með flugum í gluggakistunni. Augnalokin þyngdust og kirkja, helgihald og fólk urðu eitt. Enginn svefn er sætari en kirkjusvefninn. En draumurinn gisnaði allt í einu þegar farið var að syngja sálminn “Á hendur fel þú honum…” Lilja Sólveig glaðvaknaði. Þetta kunni hún og tók undir sem mest hún mátti. Þegar fyrsta erindinu lauk beið hún ekki eftir lokum kúnstpásu organistans, heldur rauk af stað í annað erindið. Áður en nokkur annar kirkjugestur byrjaði sinn söng hljómaði skær barnsröddin og um alla kirkju: “Ef vel þú vilt þér líði…” En þegar hún gerði sér grein fyrir að hún var á undan öllum hinum steinþagnaði hún, fylltist svo skelfingu og leið illa! Hún hélt að hún hefði eyðilagt messuna fyrir prestinum og söfnuðinum! Boðskapur sálmsins hafði engin áhrif á smásöngvarann: “Hann styrkir þig í stríði og stjórnar öllu best!” Að guðsþjónustu lokinni faldi hún sig í pilsi mömmu og hélt að fólkið, sem talaði um fallegu röddina hennar og sönginn, væri að stríða sér.

Sálmasöngvarinn Lilja Sólveig hætti þó ekki eftir þetta fyrsta vers í lífinu, heldur orti eigin ljóð um Guð og menn á efnisskrá safnaðarins. Undir þau vers tóku margir síðar. Líf hennar sjálfrar varð lofsöngur um Guð.

Elskið

Eftir páska er tímabil kirkjuársins sem nefnt er gleðidagar. Textar gleðidaga færa kristnum lýð texta um hið góða líf. Í guðspjalli síðasta sunnudags talar Jesús um hlutverk manna og ástina í afstöðu og þjónustu: „Þér hafið ekki útvalið mig heldur hef ég útvalið yður. Ég hef ákvarðað yður til að fara og bera ávöxt, ávöxt sem varir svo að faðirinn veiti yður sérhvað það sem þér biðjið hann um í mínu nafni. Þetta býð ég yður, að þér elskið hvert annað.“

Útvalin – til hvers? Til lífs. Bera ávöxt – af hverju? Til blessunar fyrir aðra og Guði til dýrðar. Hvernig? Með því að elska.

Stíll þeirra, sem fylgja Jesú Kristi er að elska – því þannig var hann, elskaði alla, fórnaði jafnvel öllu vegna þeirrar elskuafstöðu. “Þetta býð ég, að þér elskið hvert annað.

Lilja lærði í bernsku að Guð elskaði. Hún reyndi í lífinu að hún nyti elsku og hún tók til sín að hún væri kölluð til að elska. Erindi Guðs skildi hún vítt og elskuboðið einnig. Lilja tamdi sér að elska fólk, smátt og stórt – og allra lita og gerðar, en líka alla sköpun Guðs, náttúruna, litbrigði himins og jarðar, syngjandi lækjarbunu og drynjandi fossa, orð og allar gjafir himins í heimi. Því var hún elskuð sjálf.

Lífið og skrefin

Lilja Sólveig Kristjánsdóttir fæddist á Brautarhóli í Svarfaðardal 11. maí árið 1923. Hún var sjötta í röðinni og yngst systkinanna. Elstur var Gísli og síðan komu Filippía, Sigurjón, Svanfríður og næstyngstur var Sigurður, karlar og konur til skiptis. Saga fjölskyldunnar var árangursrík baslsaga, sem lituð var heimiliselsku, vinnusemi, menntasókn, söng og trúrækni. Um hana bera vitni hin almennu, kristilegu mót, sem haldin voru á Brautarhóli á árunum 1940-48.

Lilja tveggja áraLilju var eins árs að aldri komið fyrir í rúmi hjá Svanfríði, móður okkar Kristínar, og var með þeim systrum óflekkaður og hrífandi kærleikur alla tíð, sem síðar var yfirfærður á ungviðið. Systkini Lilju veittu henni athygli, örvun, umhyggju og kenndu henni líka. Þó þau væru sum laus við komu þau heim til lengri eða skemmri dvalar. Munnhörpur og orgel voru til á heimilinu. Heimilisfólkið söng í rökkrinu, ekki síst ættjarðarljóð. Sálmar voru sungnir á undan og eftir húslestri kvöldsins og svo á sunnudögum ef ekki var farið til kirkju. Fjölskyldan var söngelsk, mamman var fljót að læra lög og pabbinn var kunnur kvæðamaður. Systkinin lærðu fjölradda söng í kirkjunni og höfðu gaman af. Á stilltum haustkvöldum fóru þau jafnvel í söng-gönguferðir. Raddirnar hljómuðu vel saman þó tenór væri enginn. Björt sópranrödd Lilju naut sín í þessum fjölradda kór. Söngur systkinanna barst um dalinn og einu sinni hélt heimilisfólkið á næsta bæ að ekki væri lengur hægt að slökkva á útvarpinu, þegar söngurinn hætti ekki! Vísnagerð var eðlileg heimilisiðja, sem öll fjölskyldan tók þátt í og nýttist til að búa til jólagjöf eða verða gleðigjafi á tímamótum. Þetta fólk ljóðaði hvert annað og lagði tilfinningar í.

Skólar og menntun

Bernskuheimili Lilju Sólveigar var menntunarsækið. Heimilisfaðirinn seldi bækur og gætti bókasafns. Flestar útgefnar bækur á Íslandi á þessum tíma komu því í Brautarhól og voru lesnar. Lilja Sólveig sótti unglingaskóla í heimadal sínum. Hún fór síðan til náms í Menntaskólanum á Akureyri og tók próf beint í annan bekk og varð stúdent árið 1945.

Lilja nýstúdent og hópur fólks á Brautarhólströppunum

Á menntaskólaárunum stríddi Lilja við veikindi. Hún var nærri dauða þegar hún var skorin eða öllu heldur brotin upp á Landakoti haustið 1941. Var hér upphaf veikinda, sem Lilja glímdi við síðan. Vegna heilsubrestsins ráðlögðu læknar Lilju að fara ekki í það háskólanám, læknisfræði, sem hún hafði hug til. “Læknarnir vildu mig ekki” sagði hún og varð henni áfall.

Eftir stúdentspróf kenndi hún svarfdælsku ungviði einn vetur frammi í dölum. Síðan fór hún í hannyrðaskóla í Kaupmannahöfn, Håndarbejdets Fremme, eftir lok heimstyrjaldar og stundaði jafnframt nám í listasögu við Kaupmannahafnarháskóla. Hún kom svo heim og kenndi unglingum á Dalvík. Síðan vann hún á skattstofunni á Akureyri en þá fékk hún hina illvígu Akureyrarveiki – árið 1948 – og lá rúmföst í marga mánuði. Eftir að hafa náð þokkalegri heilsu að nýju kenndi Lilja Sólveig við gagnfræðaskólann við Lindargötu frá 1949 og til ársloka 1951.

Predikarinn í Noregi

Sigurður, skólameistari á Akureyri, mat Lilju að verðleikum því hann þekkti námsgetu hennar, persónu- og trúar-þroska. Hann vildi konur í prestastétt og hvatti Lilju mjög til að læra guðfræði og verða fyrsti kvenpresturinn á Íslandi! En þá var hvorki til siðs eða í tísku að konur væru prestar. En þótt Lilja settist ekki við fótskör kennara guðfræðideildar rannsakaði hún ritningarnar og sat við fótskör hins eina meistara. Lilja fór til Noregs í ársbyrjun 1952 og hóf nám á biblíuskóla norska heimatrúboðsins eins og Svanfríður, systir hennar áður. Í skólanum, sem er rétt norðan við kóngshöllina í miðborg Osló, undi hún vel hag sínum í eitt og hálft ár. Lilja var þrítug þegar hér var komið sögu og hún sló í gegn. Útlendingurinn var svo öflugur leiðtogi að henni var falið að verða umreikandi predikari og æskulýðsfulltrúi norska heimatrúboðsins. Gerðar voru miklar kröfur til þess fólks, sem þeim störfum gengdu og tjáir vel hver staða Lilju var. Hún ferðaðist víða og predikaði á samkomum. Hún sálusorgaði fólk í sálarnauð, reyndi að greiða úr lífsgátum yngri sem eldri og var öllum engill og prestur hins góða málstaðar Guðs. Hún bjó á heimilum fólks þar sem hún fór og bast mörgum sterkum vinaböndum, sem ekki trosnuðu. Bréf og kort hennar í meira en sextíu ár eru vitnisburðir um tengslahæfni og ræktarsemi Lilju. Mörgum árum síðar bjó ég í Noregi og hitti fólk sem sagði mér sögur af hve Lilja hefði verið hrífandi og hve elska hennar hefði verið ávaxtasöm: „Ég hef ákvarðað yður til að fara og bera ávöt, ávöxt sem varir… – elskið…” sagði Jesús Kristur.

Heim

Svo kom kallið að heiman. Lilja hefði dvalið lengur í Noregi ef Sigurður, bróðir hennar, hefði ekki sent henni bréf árið 1955. Faðir þeirra var þá fallinn frá, eldri bróðirinn, Sigurjón, hafði hætt búskap vegna heilsubrests og Kristín, móðir þeirra, var komin á áttræðisaldur. Einhver varð að sjá um móður og búrekstur. Lilja brást ekki kallinu og varð bústjóri á Brautarhóli.

IMG_7593

Fjórum árum síðar kallaði sami bróðirinn aftur til hennar, en nú til kennslustarfa á Laugum í Reykjadal. Þar var Lilja Sólveig á árunum 1959-62. Síðan varð hún skólastjóri á húsmæðraskólanum á Löngumýri. En þjónusta Lilju í Skagafirði varð styttri en áætlað hafði verið. Enn hindruðu veikindi hana í starfi. Hún fór aftur heim í Svarfaðardal og starfaði sem gjaldkeri Dalvíkurhrepps á árunum 1963-64. Þá fór hún suður og bjó síðan í Reykjavík. Fyrst starfaði hún á rannsóknarstofu Borgarspítalans, en vorið 1971 varð Lilja safnvörður í Listasafni Einars Jónssonar og starfaði þar í tuttugu og þrjú ár. Lilju Sólveigu var einkar lagið að opna tákn- og trúarheim Einars. Margir muna leiftrandi og grípandi leiðsögn hennar og sóttust eftir að fara í safnið þegar Lilja var á vakt til að fá hana til að skýra hin torræðu tákn í verkum Einars.

Kveðjur

Þessum fyrri hluta minningarorðanna lýkur með kveðjum frá frændfólki og vinum sem ekki geta verið við þessa athöfn. Kristín Þórðardóttir, sem er bundin heima í Noregi vegna nýlegrar aðgerðar, þakkar að Lilja varð henni sem önnur móðir og okkur systkinum. Öyvind Kjelsvik, maður Kristínar biður fyrir kveðjur. Það gera Helgi Jónsson og Hanney Árnadóttir á Akureyri. Frá Hollandi koma kveðjur frá Jóni Þorsteinssyni og að norðan frá Sigrúnu Lovísu Sigurjónsdóttur, Eddý og Alexander Antoni. Rósa Magnúsdóttir og Jegvan Purkhús biðja fyrir kveðjur.

Nú verður sungið „Lát mér Drottinn lof á tungu vera“ – Þetta er lífsstefna Lilju Sólveigar. Hún bað frænda sinn, Þórð, að semja lagið við lofsönginn til Guðs.

—-

Seinni hluti

Siguringi, heimilislíf og þjónusta

Siguringi og Lilja Sólveig
Siguringi og Lilja Sólveig

Myndlistarsýning í Bogasalnum árið 1965 varð Lilju Sólveigu afdrifarík. Hún féll fyrir fallegri mynd af Hrafnabjörgum í Þingvallasveit, sem Siguringi E. Hjörleifsson hafði málað. Hún keypti myndina og svo hreifst hún líka af listamanninum fjölhæfa – og hann af henni. Siguringi og Lilja gengu í hjónaband árið 1967. Þau voru bæði fullþroska þegar þau kynntust og áttu hamingjurík ár saman. Heimili þeirra á Sóleyjargötu 15 var hús sumarsins í lífi beggja enda máluðu þau það glöðum og björtum litum. Heimili þeirra var fullt af tónlist, hljóðfærum, tónsmíðum, kveðskap, blómum, myndum og glaðværð. Siguringi ljóðaði til konu sinnar á fjölbreytilegan hátt. Jafnvel uppvask eftir matinn varð ævintýri líkast og það var gaman að vera nærri þeim í ham. Bæði voru hraðyrkjandi og Siguringi mátti hafa sig allan við, svo snögg var Lilja að yrkja og gjarnan með hnyttni sem illt var að svara, botna eða toppa. Svo hlógu þau og skrifuðu niður bestu stökurnar. Svo kom jafnvel lagstúfur í framhaldinu.

Í öllum verkum voru þau samhent. Líka í þjónustunni við Guð og menn. Lilja – með stuðningi Siguringa – hlúði að fjölda stúlkna sem sóttu “telpnastarfið í Betaníu” sem Lilja sá um og varð um tíma á heimili þeirra á Sóleyjargötu. Margar konur koma hingað til að kveðja í dag vegna þess að Lilju Sólveigu þótti vænt um þær og sinnti þeim af elskusemi og alúð.

Þau Siguringi voru bæði ræktunarfólk, sköpuðu litskrúðugan blómagarð, sáðu til og uppskáru ríkulega af grænmeti og potuðu furuskinnum og birkihríslum í jörð þeirra, Hamraborg, í Árnessýslu. Tími þeirra saman var ríkulegur en allt of skammur, aðeins rúm átta ár. Siguringi féll frá í júlí 1975. Nokkur af rismestu sorgarkvæðum Lilju urðu til við fráfall hans þegar sorgin vitjaði hennar. Og eitt þeirra hljómaði áðan í þessari athöfn.

Félagsstörf Lilju Sólveigar voru margvísleg. Auk þess sem áður er nefnt tók hún þátt í starfi Kristniboðsfélags kvenna í Reykjavík í áratugi og allt til heilsu- og lífsloka eins og systur hennar. Hún var lengi í stjórn félagsins. Svanfríður var formaðurinn, Lilja Sólveig gjaldkerinn og Filippía gleðigjafinn.

Þá var Lilja félagi í KFUK og var í stjórn í þrjú ár. Hún starfaði í sumarbúðunum í Vindáshlíð í nokkur ár og hafði mikil áhrif á margar stúlkur á mótunartíma.

Lilja Sólveig orkti ekki aðeins, heldur skrifaði greinar í blöð og tímarit og kom oft fram í þáttum RÚV. Hún var eftirsóttur ræðumaður í kristilegum og kirkjulegum félögum. Og svo gaf hún út heillandi barnabók Dýrin í dalnum (1968) um lífið í Svarfaðardal. Þar kemur berlega fram hversu næm og natin Lilja var í samskiptum við málleysingjana.

Aftari f.v. Thora, Gísli, Sigurjón, Þórður, Svanfríður, Fremri f.v. Filippía, Kristín Kristjánsdóttir afmælisbarn, Lilja Sólveig, Sigríður
Thora, Gísli, Sigurjón, Þórður, Svanfríður, Filippía, Kristín afmælisbarn, Lilja Sólveig, Sigríður

Ljóð og stíll

Ljóðasafnið Liljuljóð, kom út árið 2003. Ljóð og sálmar Lilju Sólveigar tjá bjarta lífssýn trúar og traust til elskandi Guðs, sem frelsar, gætir, styður og eflir. Náttúruljóðin sem Lilja samdi eiga sér samsvörun og efnislegt innrím við sálma. Náttúran í Liljuljóðum er vitnisburður um skapara, sem gleðst yfir fjölbreytni, fegurð, árstíðum, smáblómi í klaka og lækjarbunu. Jafnvel frostrósir eru líking um líf manna. Ljósið, sem bræðir frerann og rósir frostsins, er frá Guði.

Rithönd Lilju

Krossferill

Mörg ljóð Lilju meitlaði sorg. Lilja orkti sér til léttis og ljóðin urðu hennar sorgarlyftur eða höfuðlausnir. Lilja missti heilsu á unga aldri og ljóðaði um sársauka heilsumissis. Vegna eigin veikindasögu gerði Lilja Sólveig sér snemma grein fyrir þjáningardjúpi og einsemdarbaráttu Jesú Krists og gat því túlkað krossferill hans. Í honum átti hún lifandi samfylgdarmann, sem ekki vék frá henni heldur verndaði og blessaði. Og svo túlkaði Lilja Sólveig skýrt og ákveðið fagnaðarerindið um sigur lífsins sem á erindi við fólk. Lilja tjáði oft í ljóðum sínum sterkar tilfinningar, kvíða, friðleysi, ótta, öryggisleysi og lausn.

Lilja var svo lánsöm að eiga góða foreldra, sterka móður og blíðlyndan föður. Guðsmynd Lilju var því heil og ósprungin. Áberandi í ljóðum Lilju er traust til að Guð geri gott úr vanda, leiði á betri veg, bæti úr, bræði hjarn mannlífsins og gefi gróanda í lífi hennar og annarra. Liljuljóðin sem virðast almenn ljóð í hinu ytra eru þó bænir hvað varðar inntak.

Inn í himin Guðs

Lilja var næm á póesíu heimsins. Hún hreifst af sköpun Guðs, ljóðmáli lífsins í náttúrunni og mannlífinu. Hún tók alvarlega boð Jesú að elska. Því umvafði hún alla sem tengdust henni elskusemi og vandaði sig í samskiptum. Saga hennar var brot ástarsögu Jesú Krists í heiminum. Jesú sagði „…elskið hvert annað.“ Lilja Sólveig iðkaði það ljóðamál í lífinu.

IMG_0857

Jesús sagði: „En ég kalla yður vini … Þér hafið ekki útvalið mig heldur hef ég útvalið yður… … Þetta býð ég yður, að þér elskið hvert annað.“ Það gerði Lilja Sólveig Kristjánsdóttir. Hún var og er útvalin og nú er hún farin í Brautarhól elskunnar – í öndvegi guðsríkisdala – og mér þykir líklegast að þau systkin – og ástvinir með þeim – séu á kvöldssönggöngu í páskaljóma eilífðar. Þar er hrein dýrð og gleði – þar er Jesús Kristur í miðjum hóp. Þar eru stjörnur og sól, blómstur og börn, já vindur og vötn – þar er lífið sem Guð gefur.

Guð geymi Lilju Sólveigu Kristjánsdóttur og Guð geymi þig.

IMG_7661 (1)

Amen.

 

Minningarorð í útför Lilju Sólveigar Kristjánsdóttur, Hallgrímskirkju 6. maí, 2015. Jarðsett í Fossvogskirkjugarði G 14-100. Erfidrykkja í Kristniboðssalnum Háaleitisbraut 58-60.

Æviágrip

Lilja Sólveig Kristjánsdóttir fæddist 11. maí árið 1923 á Brautarhóli í Svarfaðardal. Foreldrar hennar voru hjónin Kristín Sigfúsína Kristjánsdóttir (1880-1973) og Kristján Tryggvi Sigurjónsson (1870-44). Lilja var yngst sex systkina. Hin eru Gísli Björgvin (1904-85), Filippía Sigurlaug (1905-96), Sigurjón Kristján (1907-82), Svanfríður Guðný (1910-2004) og Sigurður Marinó (1914-2009).

Lilja Sólveig lauk stúdentsprófi frá M.A. árið 1945 og kenndi síðan við farskóla í Svarfaðardal 1945-46. Hún stundaði nám við Håndarbejdets Fremme í Kaupmannahöfn 1946-47 og stundaði jafnframt nám í listasögu við Kaupmannahafnarháskóla. Lilja var kennari við Unglingaskólann á Dalvík 1947-48 og vann síðan á skattstofu Akureyrar 1948-49. Hún kenndi við Lindargötuskóla í Reykjavík á árunum 1949-51. Þá fór hún til Noregs til náms á biblíuskóla Indremisjonsselskabet í Staffeldtsgate í miðborg Oslo. Lilja Sólveig starfaði á vegum þeirra samtaka 1952-55, m.a. sem prédikari og kennari. Á árunum 1955-59 var hún á Brautarhóli og lagði búi og móður sinni lið. Kennari við héraðsskólann á Laugum í S-Þing. á árunum 1959-62, skólastjóri Húsmæðraskólans á Löngumýri í Skagafirði 1962-63 og gjaldkeri Dalvíkurhrepps 1963-64. Vann skrifstofustörf í Reykjavík 1964-67. Gæslumaður á Listasafni Einars Jónssonar í Reykjavík í 23 ár, frá 1971.

Maki frá 1. júlí. 1967: Siguringi E. Hjörleifsson (1902-75), kennari, lengstum í Austurbæjarskóla í Reykjavík, tónskáld, málari og ljóðskáld. Þau voru barnlaus.

Lilja Sólveig tók þátt í starfi Kristniboðsfélags kvenna í Reykjavík og var lengi í stjórn félagsins, sá um barna- og unglingastarf félagsins í Betaníu og heimili sínu og varð vinur og fræðari fjölda fólks vegna þeirra starfa. Þá var hún félagi í KFUK og var í stjórn í þrjú ár.

Lilja Sólveig orkti sálma og ljóð, skrifaði greinar í blöð og tímarit og kom oft fram í þáttum RÚV. Hún var eftirsóttur ræðumaður í kristilegum, kirkjulegum, félögum. Lilja Sólveig gaf út tvær bækur, barnabókina Dýrin í dalnum (1968) og ljóðasafnið Liljuljóð (2003). Ekki hafa verið birtir fleiri sálmar eftir nokkra konu í sálmabókum þjóðkirkjunnar en eftir Lilju Sólveigu. Meðal sálma hennar eru aðventusálmurinn “Við kveikjum einu kerti á…” og trúarjátningarsálmurinn “Stjörnur og sól.” Lilja Sólveig lést á Grund að kvöldi sumardagsins fyrsta, 23. apríl.

Guð söngsins

endurnýjunGef að við mættum syngja þér nýjan söng.
Þú hefur gert dásemdarverk – gef okkur rödd, mál og söng í lífi okkar.
Gef að söngur um ást þína megi hljóma í öllu því sem við iðjum. Þökk fyrir öll þau sem hjálpa okkur að syngja um þig og til eflingar gleði í heimi.

Blessa samfélag okkar Íslendinga.
Legg þú verndarhendi á forseta, ráðherra, þingmenn og dómara.
Gef þeim réttlæti og þjónustuanda og vit til að greina milli eigin hags og almannahags.

Fyrir Jesú Krist, Drottinn vorn. Drotinn heyr vora bæn

Guð frelsis og lækningar
Þökk fyrir páska – fyrir að lífið lifir – að þú lifir.
Vitja allra þeirra er þjást og syrgja, sakna og gráta.
Styrk þau öll og veit þeim von.
Gef þeim trú, traust, björg og blessun.

Við biðjum fyrir öllum þeims sem eiga um sárt að binda í Nepal.
Vitja allra þeirra sem eru ofsóttir fyrir trú á þig í þessum heimi.

Fyrir Jesú Krist, Drottinn vorn. Drotinn heyr vora bæn

Góði Guð
Blessa þú heimili okkar.
Gef okkur vit til að viðurkenna mistök okkar
og kraft til að biðjast fyrirgefningar þegar við höfum brotið af okkur,
mátt til að styðja heimilisfólk okkar til góðra starfa.

Gef að heimili okkar mættu vera vaxtarreitir til hamingju,
iðkunarstaðir góðra gilda og glaðvær vettvangur fyrir fólk.
Opnir staðir söngsins og faðmar fyrir hina grátandi.

Gef að við mættum lifa með þér og vera farvegir þínir.

Gef að við megum lifa í ástarsögu þinni og miðla henni í lífi okkar.

Fyrir Jesú Krist, Drottinn vorn. Drotinn heyr vora bæn

Amen.

Bæn á söngdegi, cantate, 4. sd. eftir páska, 3. maí, 2015