Greinasafn fyrir merki: trú

Heimþrá sálar – og málningarveður

Heimkoma og heimþrá hafa blundað í mér liðna daga og merkingarsvið hugtakanna orðið til íhugunar. Ég ætlaði reyndar að drífa mig út í morgun til að mála húsveggina heima en morgunskúrirnar hindruðu þann ásetning. Í mér var óþreyja og mér til sefunar rifjaði ég upp dýptaróþreyju Ágústínusar í Játningum hans, þessa heimþrá hjartans, til þess sem var, er og verður.

„Þú skapaðir okkur til þín og hjarta okkar er órótt þar til það finnur hvíld í þér.“

Það er gaman að skoða merkingu orða og grískan er okkur guðfræðingum bæði heimahagar og almenningur. Orðið nostalgía er samsett úr nostos – heimkoma – og algos – sársauki. Það er sársaukafull löngun eftir heimkynnum, þrá eftir því að komast aftur til einhvers sem var. Nostalgía varðar það sem við misstum, eitthvað sem við skynjum í fjarska.

En trúarþrá er annað og meira en einföld heimþrá sálar. Hún er ekki nostalgía vegna fortíðar. Hún er líka framtíðartengd von. Hún er elpis – sú von sem væntir hins góða, t.d. lausnar, réttlætis, endurfunda og friðar. Hún býr í djúpum þess sem trúir að til sé sannleikur sem lýsir, kærleikur sem læknar og Guð sem kallar heim. Trú, von og kærleikur – πίστις, ἐλπίς, ἀγάπη – 1Kor 13:13.

Trúarþráin er líka tilvistarþrá – þörf fyrir samhengi, tilgang og tengsl við það sem er meira en sjálf og heimur. Hún er ekki aðeins hugsun heldur jafnvel fremur hungur eftir því sem sefar, nærir og mótar lífið. Hún birtist sem óþreyja í sálardjúpum og kemur fram í von og vilja að veröldin hafi merkingu. Hún væntir heilinda þrátt fyrir brotinn heim, bölvun ofbeldis og hryllings manna. Hún bregst við tómhyggju og uppgjöf, líka hlutasókn í neysluæði og skeytingarleysi manna. Hún leitar lausna, réttláts friðar og sáttar. Og gleðidansins líka!

Trúarþráin virðist bæði nostos – heimþrá en líka elpis – von. Trúin snýr bæði aftur og fram, hefur rætur til fortíðar en opnar þó til framtíðar. Á blautum degi er skemmtilegt að vitja grískra hugtaka en vænta þurrksins samt. Já, dagurinn er opinn og lífið líka – og ég trúi að það sé þrungið merkingu, fegurð og tilhlökkunarefnum. Ég dansa “vonandi” með pensla og rúllur við húsveggi í dag og gleðst svo með mínu fólki í kvöld – og ævi mig þar með í himnaríkisvistinni.

  1. júlí 2025.

 

Trú að hverfa?

Liðna áratugi hafa orðið djúptækar breytingar í menningu vestrænna samfélaga. Andúð á stofnunum hefur aukist, sérstaklega þeim sem eru svifaseinar gagnvart hraða samfélagsins, tæknibreytingum og samskiptaháttum. Þær liggja vel við höggi og greinar ríkisvaldsins eru þar með taldar. Gamlar menningarstofnanir hafa ekki sjálfkrafa gildi eða hlutverk fyrir fjöldann. Fólk sýnir svo afstöðu með fótum og puttum sem slá á takka og skjái og melda sig út. En stofnanir sem hreyfa sig hægt tapa stuðningi fólks sem er á fleygiferð.

Á árunum 2011 til 2015 var gerð rannsókn á trú og trúarviðhorfum ungs fólks í íslenskum framhaldsskólum. Liðlega níu hundruð ungmenna 18 og eldri voru spurð um hvaða afstöðu þau hefðu til mála og álitaefna sem varða trú, aukinn fjölbreytileika lífsskoðana í samfélaginu og gildi átrúnaðar. Niðurstaðan var að meirihlutinn taldi að trú væri ekki samfélagslega mikilvæg og hefði ekki mikla þýðingu fyrir þau persónulega. Er trúin að hverfa? Eða er hún kannski að breytast í íslensku samfélagi? Ég held að svo sé. En breytingar í íslenskum kirkjumálum er eitt og annað staða kristni í veröldinni. Kristnum mönnum fjölgar í heiminum og trúin lifir þvert á trú þeirra sem halda að trúin sé að hverfa.

Trú á breytingaskeiði?

Hvað er trú? Fólk hefur ólíkar hugmyndir um eðli hennar og hlutverk. Sumir telja í einfeldni sinni að trú sé forvísindalegar hugmyndir um líf, vísindi og veröldina og því sé trúin dæmd til að gufa upp í ljóma nýrrar þekkingar. Það er röng túlkun. Sum sem hafa litla dýptarsýn telja að hún sé grunnfærin bókstafstrú. Trúað fólk sé þröngsýnislið. En slík túlkun á trú getur átt við um ofbeldishópa af ISIS-taginu en ekki eiginlega trú. Síðan eru þau sem telja að trú sé einhvers konar rétttrúnaður af sannfæringartaginu.

En trúað fólk sér sig ekki í þessum nálgunum. Þetta eru afbakanir, smættanir sem byrja á röngum stað og ná aldrei aðalatriðinu. Svona einfaldanir byrja allar með því að einblína á fólk og hið smáa, hvernig menn bindi sig á einhvern klafa hugmynda, samfélagsafstöðu eða heimafenginnar speki. En trú er allt annað og mun róttækara fyrirbæri. Trú er dýpri og stærri. Trú er ekki fasteign eða staða sem menn ávinna sér með því að vera meðlimir í kirkjudeild eða stofnun. Trú finnur sér vissulega farveg í kirkjum og samfélagi en lifir þó breytingar verði í þjóðfélagi og menningu. Trú er ekki háð kirkjustofnunum en kirkjur eru háðar trú. Er þá trúin ekki á útleið? Nei. Þó þjóðfélag og stofnanir breytist hverfur trúin ekki heldur aðeins hugmyndir fólks. Trú getur blómstrað þótt kirkja tapi öllum meðlimum sínum og hverfi. Heilbrigð gagnrýni og aukin þekking grisjar burt úreltar hugmyndir um heim, fólk og líka trúarkenningar. En trúin hverfur ekki þótt í ljós hafi komið fyrir löngu að sköpunarsagan er ekki náttúrufræði heldur ljóð um tilgang lífsins og merkilega helgisiði. Nei, trúin þolir ágætlega að fólk segir skilið við manngerða trú og kirkjulegar stofnanir.

Lífsfestan sjálf

Hvað er þá trú? Trú er undur sem Guð kallar fram. Trú er aldrei til án Guðs. Trú lifir ekki án þess að tengjast Guði. Öll þau sem hafa verið upplýst af ljósi trúar fara að sjá veröldina sem mikinn veraldarvef sem er ofinn af Guði. Veröldin er samsett af efni og anda. Geimi og grösum er gefin skipan og lögmál sem trúin kennir við Guð. Hver maður er undur sem Guð gefur. Og einu gildir hvort viðkomandi þakkar Guði tilveru sína eða þykist vera aðeins af sjálfum sér og skýrir tilveru sína af efnisrökunum einum. Í öllu lífi glitrar fegurð, máttur og mikilleiki. Okkar er valið. Við getum sjálf ákveðið að sjá í undri veraldar aðeins tilviljun eða farið leið hinnar stóru nálgunar að nema undur nálægðar Guðs.

Trú er ekki yfirborðslegt fyrirbæri, yfirborðslegar skoðanir og allra síst forvísindaleg lífssýn. Trú er mun fremur það djúptækasta sem til er, lífsfestan sjálf. Það er eðlilegt að fólk hafni gamaldags trú. Guði er ekki þar með ógnað. Guð er dýpt lífsins, okkur nánari en maki, foreldrar eða börn. Guð er okkur nánari en vitund okkar og sjálfsskilningur. Guð er allt það sem skapar tilveru lífs og einstaklionga. Guð er hið hinsta viðmið hvort sem menn trúa Guði eða ekki. Trúarkenningar mega breytast því samfélag, skilningur fólks og viðmið hafa breyst. Og guðstengslin, trúartengslin þarf að skilja með nýjum hætti. Trúin er ekki að hverfa en er að breytast. Við sem trúarsamfélag megum opna fyrir róttækari skilning, breytta skynjun og dýpri nálgun. Það verkefni skynsemi okkar að endurtúlka og nýtúlka trú. Auk okkur trú er forn bón. Hún er líka ný því við megum opna allar gáttir, brjóta hlekki huga og anda og nema í öllu nánd Guðs og endurtúlka. Auk okkur trú og vinurinn Guð svarar.

Jerúsalem – kvikmynd Billie August

Kvikmyndin Jerúsalem byggir á samnefndri sögu sænsku skáldkonunnar Selmu Lagerlöf sem kom út í tveim bindum á árunum 1901-1902. Sagan fjallar um raunverulega atburði og segir frá því þegar hópur bændafólks frá Nås í sænsku Dölunum fluttist til Jerúsalem árið 1896 til að mæta Kristi þegar hann kæmi aftur. Lítil frétt í blaði um þennan atburð vakti áhuga Selmu Lagerlöf og hún fór bæði til Nås og Jerúsalem til að kynna sér aðstæður og leita svara við því hvað fékk bændur úr Dölunum til að rífa sig upp með rótum og halda á vit óvissunnar suður í Palestínu..

Söguþráður

Í upphafi myndar Billie August er dregin upp mynd af fábrotnu bændasamfélagi, sem tekst á við erfiða lífsbaráttuna. Undir niðri ríkir upplausn því þetta litla samfélag vantar bæði andlegan og veraldlegan leiðtoga eftir að foringi þess fórst við að bjarga börnum á fleka á beljandi fljóti. Dag einn kemur Hellgum, sænsk-amerískur predikari til sögunnar, leikinn af þeim magnaða Sven Bertil Taube. Með mælsku sinni hefur hann mikil áhrif á einstaklinga sem og bændasamfélagið í heild og fær að lokum hóp fólks til að selja eigur sínar og fylgja sér til Jeúsalem í von um frelsun þegar Jesús kemur aftur.

Inn í myndina fléttast ástarsaga tveggja aðalpersónanna, Ingmars, sem leikinn er af Ulf Friberg, og Gertrud, sem Maria Bonnevie leikur. Þau alast upp saman eftir að Ingmar hefur misst foreldra sína. Þegar ástin kviknar milli þeirra ákeður Ingmar að fara í skógarhöggsvinnu til að vinna sér inn peninga svo hann geti tekið við ættaróðali fjölskyldunnar og orðið leiðtogi í sveitarsamfélaginu líkt og faðir hans hafði verið og sveitungar hans reiknuðu með. Á meðan bíður Gertrud þolinmóð. Framtíðin virðist björt. Allt fer þó á annan veg. Karina eldri systir Ingmars, sem leikin er af eiginkonu leikstjórans Pernillu August, hefur búið á ættaróðalinu allt frá dauða föður þeirra. Hún verður fyrir sterkum áhrifum af predikun Hellgum og ákveður að selja óðalið og halda til Jerúsalem með fjölskyldu sína. Kaupandinn er bóndinn Persson. Í örvæntingu sinni svíkur Ingmar Gertrud og ákveður að giftast Barbro, dóttur Perssons (Lena Endre), til að bjarga óðalinu. Niðurbrotin er Gertrud auðveld bráð fyrir Hellgum og slæst í för með honum til Jerúsalem eftir að hafa séð Jesú í sýn.

Sveitarsamfélagið í Nås er nú enn sundraðra en fyrr og pílagrímanna í Jerúsalem beið allt annað en þeir höfðu vænst. Umhverfið var framandi og við tók erfið barátta með vonbrigðum og efasemdum. Barbro gerir sér hins vegar smám saman grein fyrir því að hún hafði farið illa með annað fólk og brotið á þeim. Hún vill reyna að bæta fyrir það og hvetur Ingmar til að fara til Jerúsalem og sækja Gertrud.

Trúarstef

Bille August sagði að kvikmyndin Jerúsalem væri í hans huga ekki trúarleg mynd heldur ljóðræn ástarsaga. Þó að rétt sé að myndin sýni ástarsögu þá fjallar hún ekki síður um mátt trúar og vonar í lífi fólks. Hún vekur einnig upp ýmsar spurningar um heimsslitavæntingar, endurkomu Krists, eðli guðsríkisins ásamt því að fjalla um mikilvæg guðfræðileg stef, s.s. synd og frelsun, ósætti og sátt, glötun og eilíft líf. Myndin segir frá venjulegu fólki, aðstæðum þess, samskiptum og örlögum. Hún dregur fram meginstef manlegrar tilveru og fjallar um trú og efa, kærleika og svik, von og örvæntingu, sekt og fyrirgefningu. Styrkur myndarinnar er m.a. sá að hún lýsir því hvernig þessir þættir koma fyrir í lífi og samskiptum fólks án þess að fella dóma um verk þess. Áhorfendur geta því dregið lærdóm af reynslu og viðbrögðum ólíkra einstaklinga.

Sálfræðileg efnistök myndarinnar eru ekki síður sannfærandi. Góður leikur dregur þá hlið vel fram. Sálarástand og tilfinningaglíma aðalpersónanna skilar sér vel. Þunglyndi Gertrud eftir að henni var hafnað er þrúgandi. Ólæknuð sár Karin skína í gegn þrátt fyrir að hún reyni að halda yfirborðinu sléttu og felldu. Barbro þarf að horfast í augu við sjálfa sig, gjörðir sínar og þjáningu og togstreitu Ingmars og það kostar innri átök. Hellgum nær sálrænum tökum á ráðvilltum einstaklingum með sefjunarmætti sínum. Þótt úrvinnslan sé sálfræðileg er hún einnig trúarleg og kemur m.a. fram í því þegar Jesús birtist Gertrud við vatnið og Karin virðist loks finna frið í Jerúsalem þótt hún hafi misst allt sem henni var kærast. Viðbrögð Ingmars þegar þjáningu hans er létt og Barbro hafði fætt honum son sýna hið sama.

Myndin fjallar þó ekki bara um sálarástand og samskipti fólks og afleiðingar þeirra heldur sýnir hún jafnframt hvernig ytri aðstæður þess hafa áhrif á líf þess og örlög og hve auðvelt það getur verið fyrir sterka persónuleika að misnota trú og traust fólks. Undir niðri býr þó spurningin sem Ingmar spyr systur sína þegar hann er kominn til Jerúsalem: Hver er það sem stjórnar lífi hvers? Það er áhugaverð tilvistarspurning sem á bæði við efni kvikmyndarinnar Jerúsalem og líf okkar flestra.

Í mynd Augusts er mikill fjöldi fólks sem áhorfandinn sér en kynnist ekki nógu vel til að geta skilið orð þess og athafnir. Nokkrar persónur eru þó eftirminnilegar og setja sterkan svip á myndina enda leikur flestra leikaranna afbragðsgóður. Hellgum, predikarinn gustmikli, er sterk persóna enda nær hann tökum á mörgum í sveitinni og fær fólkið með sér í Jerúsalemreisuna. Einhverjum kann að finnast að verið sé að gera lítið úr eða hæðast að vakningapredikurum og guðlegri köllun. Sú er þó ekki raunin.

Hellgum er fyrst og fremst dæmi um mælskan einstakling sem kann að notfæra sér aðstæður. Um leið er hann verkfæri í annars höndum. Honum tekst að gefa ráðvilltu sveitarsamfélagi ramma til að túlka veruleika sinn út frá. Sá rammi er hins vegar allur málaður með svörtum og hvítum litum. Ábyrgð sterks leiðtoga er mikil. Hann getur fallið í þá gryfju að hlutgera syndina í aukaatriðum og jafnvel leitast við að þurrka út persónueinkenni áhangenda sinna í stað þess að leiða fólk fram til þroskðarar trúar sem tekur Guð alvarlega mitt á sviði hins daglega lífs.

Ingmar er aumkunarverð persóna. Á honum hvílir sú mikla ábyrgð að feta í fótspor föður síns og verða leiðtogi bændanna í héraðinu. Aðstæður haga því þannig til að hann þarf að gera upp á milli ábyrgðarinnar gagnvart sveitarsamfélaginu og eigin tilfinninga til Gertrud. Það uppgjör hefur mikil áhrif bæði á líf hans sjálfs og fjölda annarra. Greinilegt er að Ingmar vill bæði gera það sem hann telur rétt en líka forðast að særa nokkurn. Að ná hvoru tveggja í senn er ekki einfalt mál fyrir hann fremur en aðra sem lenda í svipuðum aðstæðum. Að axla ábyrgð á eigin mennsku og manndómi er aldrei einfalt og sjaldnast augljóst í hverju skylduræni og manndómur felst.

Þrjár konur setja sterkan svip á myndina. Þar fer Gertrud fremst í flokki. Leikur Mariu Bonnevie er áhrifamikill. Með svipbrigðum og látæði sýnir hún vel sálarástand Gertrud og þær tilfinningar sem búa undir yfirborðinu, bæði vonir hennar og trúarvissu og ekki síður sársaukann, vonbrigðin og þunglyndið sem fylgja höfnuninni. Trúarleg einlægni blandast síðan sjúklegu ástandi og hún virðist ekki alltaf greina á milli raunveruleika og draums. Athyglisvert er að bera saman mynd hennar við upphaf myndarinnar og lok. Hún er einlæg, saklaus og lífsglöð í upphafi en við endi hefur erfið reynslan sett mark sitt á hana og sakleysið og lífsgleiðin virðast horfin.

Barbro er einnig áhugaverð persóna. Henni hafði hlotnast það sem hún hélt að væri ómögulegt, þ.e. óðalið og Ingmar, en sér jafnframt hverju hún hefur komið til leiðar með því að fótumtroða tilfinningar hans og Gertrud. Líf hennar er því óbærilegt, ást hennar til Ingimars fjötrar og henni finnst hún vera ofurseld ættarbölvun. Hún skilur þó að lokum mikilvægi þess að gera upp og vill jafnframt gera gott á ný það sem hún hafði eyðilagt, jafnvel þótt það kosti hana allt sem henni hafði hlotnast. Barbro er þannig margbrotin og sérstæð persóna sem dregur lærdóm af gjörðum sínum. Innst inni þráir hún sátt við sig og umhverfi sitt. Þegar þeirri sátt er náð er hún laus úr fjötrum ótta og bölvunar.

Þriðja konan er Karin, eldri systir Ingmars. Hún hefur þurft að þola marga raun og virðist líða vegna óuppgerðs sársauka og sorgar og óheilinda við bróður sinn. Hún þráir frið og tekur því fegins hendi á móti boðskap Hellgum og lítur á hann sem bjargvætt í lífi sínu. Hún væntir lausnar í Jerúsalem en verður fyrir enn meiri raunum og vonbrigðum þegar hún missir það sem henni er kærast, dóttur og eiginmann. Var vonin um frelsun og frið í Jerúsalem þá bara blekking? Í Karin endurspeglast þrá fólks eftir að finna vilja Guðs sem oft reynist svo torskilinn, þrá eftir ást Guðs sem virðist svo fjarri í hörðum heimi, þrá eftir að finna þá „Jerúsalem“ sem býr yfir lausn sem gefur frið við Guð og menn.

Myndin Jerúsalem lyftir upp og spyr fjölda spurninga um líf og samskipti fólks á öllum tímum, trú þess, von og kærleika, örlög þess og hinstu rök tilverunnar. Undir lok myndarinnar er lítið barn skírt. Í þeim gjörningi er svar við mörgum spurningum myndarinnar. Ósjálfbjarga menn í hörðum heimi finna sátt og frið við Guð, sjálfa sig og sín á milli vegna elsku Guðs, hverjar svo sem ytri aðstæður þeirra og örlög eru.

Leikstjóri: Bille August

Handritshöfundur: Bille August eftir samnefndri skáldsögu Selmu Lagerlöf.

Helstu leikarar: Maria Bonnevie, Ulf Friberg, Pernilla August,  Lena Endre,  Sven-Bertil Taube, Reine Brynolfsson, Jan Mybrand, Max von Sydow, Olympia Dukakis, Björn Granath, Viveka Seldahl, Sven Wollter, Johan Rabaeus, Mona Malm, André Beinö

Framleiðsluland: Svíþjóð

Framleiðsluár: 1996

Lengd: Kvikmynd: 168 mín. Sjónvarpssería: 220 mín.

Trúartextar:1M 2, Sl 52:2, Sl 139:9, Mt 7:14, Mt 10:37, Mt 18:3, Mt 28:18-20, Mk 13:13, Jh 10:12, Jh 20:29, Rm 6:23, Opb 19:7-8, Opb 21:10, Opb 22:17

Hliðstæður: 1M 2, Mk 6:48, Opb 21-22

Persónur í trúarritum: Jesús Kristur, Jóhannes skírari, Jóhannes postuli, Pontíus Pílatus

Guðfræðistef:

brúður Krists, bölvun, Eden, efi, eftirfylgd, eilíft líf, eldur, endurkoma Krists, engill, falsspámaður, freistingar, frelsun, fyrirgefning, glötun, heilagur andi, heimsslit, helvíti, hin nýja Jerúsalem, hreinleiki, iðrun, kraftaverk, kross Krists, kærleikur, köllun Guðs, lífsins vatn, náð, náðargjöf, opinberun, paradís, refsing Guðs, réttlæti, rödd Guðs, satan, sekt, sköpun, synd, trú, útvalning, vantrú, vegir Guðs, yfirbót, þrenningin

Siðfræðistef: Andleg kúgun, félagslegur þrýstingur, fórn fyrir aðra, flokkadrættir, fyrirgefning, heimshöfnun, náungakærleikur, ofbeldi, óvinátta, réttlæti, ritskoðun, skilnaður, útskúfun

Trúarbrögð: gyðingdómur, helgunarfjölskyldan, islam, kristni, lútherska kirkjan

Helgistaðir: kirkja, moska, trúboðshús, vígð mold

Trúarleg tákn: harpa, kross, skeifa

Trúarembætti: prestur, predikari, spákona

Trúarlegt atferli: bæn, fyrirbæn, pílagrímsför, píslarganga, sálmasöngur, skírn, trúarsamkoma

Trúarleg reynsla: afturhvarf, köllun, opinberun, sýn

Upprunalega skrifað fyrir kvikmyndavefinn www.dec.is

Kennimyndin að ofan er af Grátmúrnum í Jerúsalem. 

Loksins?

Eftir seinni heimstyrjöld voru haldin stríðsréttarhöld í Nürnberg. Vitni var leitt fram. Hann hafði flúið fangabúðir nasista með gasklefunum, farið huldu höfði og leitað afdreps í gyðingakirkjugarði í Wilna í Póllandi. Saga mannsins var rosaleg. Hann varð vitni að fæðingu barns í grafhýsi. Ung kona, sem einnig fór huldu höfði, hafði ekki í önnur hús að venda en þessa friðarhöfn dauðans. Þar ól hún barn sitt í þessari undarlegu fæðingardeild. Starfsmaður kirkjugarðsins, áttræður grafari, var eina tiltæka ljósmóðirin. Þegar barnið hafði rekið upp fyrstu grátrokuna muldraði hinn aldraði Gyðingur og trúmaður: „Mikli Guð hefur þú loksins sent okkur Messías? Hvar ætti Messías að fæðast ef ekki í gröf?” Þremur dögum síðar sá vitnið í Nürnberg barnið og móður þess á nýjan leik. Hungruð og örvæntingarfull móðirin gat ekki mylkt barni sínu. Eina fæða barnsins voru tárin, sem hrutu af hvörmum hennar. Mikli Guð hefur þú loksins sent okkur Messías? Hvar ætti Messías að fæðast ef ekki í gröf?

Sagan frá Wilna rífur í. Okkur hættir til að gleyma að við erum óendanlega mikils virði. Ástæðan er sumpart sú, að við skiljum ekki tilveru okkar dramatískt. Grafarinn í Wilna var nauðbeygður til að stara opineygður á nakta veröld, heim hinna mestu átaka lífs og dauða. Hann tók á móti barni í myrkri. Hann túlkaði tilveruna róttækt, annað hvort sem myrkur eða ljós, annað hvort líf eða dauða.

Merking píslarsögunnar

Skírdagur. Að skíra merkir að hreinsa. Í kirkjunni voru ölturu þvegin og þrifin á þessum degi. Allt á þetta rætur í að Jesús þvoði fætur lærisveinanna og undirbjó þá til máltíðar. Enn í dag verða þessir kyrruvikudagar tilefni kristnum lýð, að íhuga merkingu píslarsögunnar. Hvaða máli skiptir okkur dauði og þjáning Jesú? Hefur okkur yfirsést að við og Jesús erum samferðamenn? Hefur okkur lærst að skilja hvaða gildi það hefur að fylgja honum á göngunni? Hvernig getur krossfesting manns orðið öðrum að gagni? Hvernig getur þjáning eins manns skipt aðra sköpun, hvernig geta afbrot verið bætt með aftöku? Hvernig getur sátt við Guð grundvallast á hinu mesta ranglæti? Er þjáning og pína Krists frábrugðin písl annarra? Var Jesús maður eða var hann meira en maður? Var hann Guð-maður, var hann Guð? Hvað þýðir það, að hann hafi verið Guð? Þetta eru þær spurningar sem leita á og hafa verið viðfangsefni kristinna manna frá öndverðu. Allar hreyfingar í guðfræðinni fyrr og síðar hafa verið tilraunir til að svara þeim. En skilningur er skertur. Skiljum við til fullnustu ást okkar til barna, maka eða náttúru? Hvernig er hægt að skilja grimmd nauðgarans og valdslosta kúgarans? Illskiljanleg öfl eru að verki í lífi manna.

Guðsaugun

Mestu máli skiptir að hverfa frá eigin sjónarhóli. Við megum læra að horfa með augum Guðs, sjá sálf okkur og veröldina frá sjónarhæð himinsins. Á föstunni og í kyrruviku göngum við á vit sögu Jesú. Með því að fylgja Jesú eftir með íhugun förum við smátt og smátt að sjá heiminn með Guðsaugum. Förum að sjá að saga Jesú er saga Guðs um okkur og heiminn. Þá förum við að skynja að Guð segir sögu um sig og afstöðu sína gagnvart okkur öllum.

Með Jesú

Að nálgast Guð er ekki að skilja heldur ummyndast. Að fylgja Kristi er ekki að skilja þjáningu hans heldur fara með honum. Jesús hefur gengið um öldudal mannlegrar þjáningar og þjáist áfram meðan einhver hinna minnstu systra eða bræðra líður. Líf Jesú einnkenndist ekki af uppgjöf. Allur ferill hans markaðist af vilja til lífs og umsköpunar. Það líf sem Jesús hvatti til var ekki eitthvað hulið einkamál eða blíð og átakalaus barnatrú og vilji til að sætta sig við allt misrétti. Sú hvatning og sá kraftur, sem Jesús miðlaði var kvaðning til baráttu gegn öllu því sem heftir gott og gleðiríkt líf. Að fylgja Jesú getur ekki þýtt aðgerðarleysi né uppgjöf. Þvert á móti er Jesúfylgdin virk og starfarík afstaða, sem einkennist af þori og kjarki til að horfast í augu við lífið eins og það er og vilja og afli til að breyta þeim aðstæðum sem brjóta í bág við vilja Guðs. Kristnir menn kalla þetta fagnaðarerindi og það eru gleðifréttir um frelsi hinna fátæku, lausn hinna þjáðu og kúguðu, lækningu hinna sjúku, frelsun hinna pyntuðu og styrking hinum hrelldu. Þessi boðskapur á að vera okkur öllum hvatning til að svipta hulunni af blekkingarvefum sem umvefja okkur á vinnustað, út í hinum stóra heimi stjórnmála, syrjalda, arðráns og kúgunar. En einnig í heimilislífinu og inn í sjálfum okkur. Það er okkur kannski erfiðast að viðurkenna og opinbera sjálfsblekkingu okkar.

Guð fer fyrir

„Mikli Guð hefur þú loksins sent okkur Messías?“ Lítið barn fæddist í Wilna. Þremur dögum síðar hafði það ekki fengið neina mjólk úr móðurbrjóstum. Vonir öldungsins kulnuðu enn einu sinni. Skírdagspísl og dauði á föstudeginum fyrir páska. Hefur þú loks sent okkur lausnara og leiðtoga? Barnið dó, en Kristur reis.

Líf manna er stöðug barátta milli nætur og dags, vonar og vonbrigða. Lífið á engan ódýran endi. Úr grafhvelfingu sprettur fram það nýja líf, sem binda má von við. Sú saga varð ekki aðeins einu sinni heldur er hún táknræn saga um sögu okkar.

Skírdagshugleiðing í Neskirkju 2005.

Elska og aggiornamento

Þessa ræðu flutti ég í Neskirkju skömmu eftir dauða Jóhannesar Páls II páfa árið 2005. Í ræðunni kemur fram afstaða mín til hlutverks kirkju, kirkjuhirða og merkingu trúar. Slagorð annars Vatikanþingsins er notað sem leiðarstef til að minna á að kirkja og trú eru ekki aðeins söguleg fyrirbæri heldur verða sífellt að endurnýjast. 

Jóhannes Páll II er dáinn. Blessuð veri minning hans. Þar fór góður maður og gegn biskup kirkju sinnar, bæði á pólskri heimaslóð og einnig í Róm. Páfi Rómarkirkjunnar er dáinn og grafinn. En hvað svo? Hvernig munu kardínálarnir velja? Hvernig verður stefna Rómarkirkjunnar? Verður einhver stefnubreyting? Auðvitað skiptir páfaval miklu, ekki síst vegna þess að rómversk-kaþólska kirkjan er stærsta kirkjudeild kristninnar og þar að auki miðstýrð og lagskipt.

Okkur lútherana skiptir einnig máli hvernig páfinn í Róm hugsar og starfar. Deilur kaþólskra og evangelísk-lútherskra voru gerðar upp í veigamiklum atriðum þegar hið merka plagg um “réttlætingu af trú” var undirritað á árinu 1999. En strax eftir undirritun kom þó í ljós að ekki voru allir yfirmenn kirkjunnar sammála um útfærslu stefnubreytingar. Skoðanir páfa skipta aðrar ekki-kaþólskar kirkjur máli vegna samskipta, vegna einingar kirkju Krists í heiminum og vegna vægis og áhrifa hins kristna boðskapar í veröldinni. Páfi getur haft mikil áhrif eins og sást í uppstokkun og uppgjöri í Austur – Evrópu og falli kommúnismans. Í þeim snúnu málum lagði Jóhannes Páll þung lóð á vogarskálar. En páfinn markar einnig stefnu í flestum málum, gefur út páfabréf um hverju kaþólikkar skuli trúa, hvernig þeir eigi að breyta og hvers þeir eigi að vona. Aggiornamento.

Pétur og Jesús

Guðspjallstexti dagsins varðar páfann, Róm og alla kirkju Krists í heiminum því Jesús spyr um heilindi og afstöðu. Textinn er úr elskuguðspjallinu Jóhannesarguðspjalli. Í því er oft vikið að elskunni, t.d. í því sem við nefnum litlu Biblíuna: “Svo elskaði Guð heiminn að hann gaf son sinn eingetinn…” Guð elskar og gefur í ákveðnum björgunartilgangi. Í Guði ríkir sá kærleikstilgangur að gefa líf.

Texti þessa sunnudags í kirkjuárinu er elskutexti. Nokkuð óvænt spyr Jesús Pétur Jóhannesson, vin sin: “Elskar þú mig?” Sjálfsagt hefur Pétur verið hissa á þessari spurningu og fer undan á flótta segir að Jesús viti um afstöðu hans. En Jesús lætur sig ekki og þríspyr Pétur.

Settu þig í þessi spor. Jesú er umhugað um hvað taki við, hver muni halda áfram því verki, sem hann hafi hafið, hver muni stýra hópnum sem hafi aðhyllst kenningu, skilning og leiðsögn hans. Jesús þekkti bresti Péturs, vissi um hverflyndi, ístöðuleysi og hræðsluflýti hans. Samt vildi hann efla hann til starfa og þjónustu við Guðsríkið. Aggiornamento.

Hlutverk kirkju og trúar

Hvað er það að gæta sauðanna? Hvað merkir að gæta lamba Jesú? Jóhannes Páll II varð páfi skömmu áður en ég lauk guðfræðiprófi frá HÍ. Ég fór sem næst beint frá prófborði vestur um haf til framhaldsnáms. Sundurleit hjörð var við nám í guðfræðideild Vanderbiltháskóla. Skólinn og þar með deildin var óháð kirkjum og fólk með ólíkan trúarlegan bakgrunn sótti til hennar í akademískum tilgangi. Margir kaþólikkar voru þarna á kafi í skruddunum. Einna merkilegast þótti mér að kynnast Jesúítaprestunum og nunnum úr ýmsum reglum sem voru í doktorsnámi. Þau opnuðu fyrir mér furður kaþólsku kirkjunnar, fjölbreytileika hennar og skipulag. Þau voru flest trygg köllun sinni til prestsþjónustu og einlífis, en voru jafnframt í góðu sambandi við samfélagsbreytingar og þarfir tímans. Öll voru þau sammála um að kaþólska kirkjan þyrfti að nútímavæðast, koma til móts við félagslegar, menningarlegar, pólitískar og fjölbreytilegar lífsþarfir fólks.

Þau voru jákvæð á val Carol Wojtyla sem varð Jóhannes Páll II. páfi. En þau minntu á að hann hefði hlotið mótun í baráttu við pólitísk einræðiskerfi og því væri ekki að vænta að hann myndi vinna nein stórvirki utan þess ramma sem uppvöxtur hans hefði skapað. „Það verður ekki fyrr en eftir hans dag, að einhverja breytinga verður að vænta. En þá verður að stokka upp að nýju, nútímavæða málin,“ sögðu þau. Sem sé Aggiornamento.

Hinn nýlátni páfi var lengur páfi en nær allir Rómarpáfar og gætti sauðanna. Ég held að hann hafi gert vel í flestu, t.d. í samskiptum við trúmenn annarra hefða, múslima og Gyðinga, lagt góð lóð á skálar friðar í heiminum o.s.frv. En á páfatíð hans hefur kaþólska kirkjan þó ekki tekið mörg kirkjupólitísk eða trúfræðileg skref inn í samtíðina. Kenning hennar, stefnumál og atferli er í flestu í takt við gamla hætti. Hún heldur fast í gömul samskiptaform kynjanna, veitir ekki konum aðgang að prestsþjónustu, leyfir ekki prestum sínum að kvænast eins og flestar aðrar kirkjur og er íhaldsöm og í ýmsu afturhaldssöm í siðferðisefnum.

Þrátt fyrir upphaf og mótun hefur Jóhannes Páll II. bent á gamlar lausnir og hefur beitt sér fyrir skipan gamalhugsandi kardínála og biskupa. Þegar yfir lauk var páfinn búinn að ákveða hvernig páfi framtíðar hugsar, verður og starfar því hann sat svo lengi að hann var búinn að skipa flesta yfirmenn kaþólikka í heiminum. Gátin á yfirsauðunum var alger og því verður þess að vænta að kardínálarnir muni velja einhvern sem verður með sama marki og Jóhannes Páll II. Aggiornamento eða hvað?

Uppfærsla og hluterk

Hvert er hlutverk kirkjunnar í heiminum? “Elskar þú mig?” spurði Jesús Pétur. Páfinn í Róm er arftaki þess Péturs sem á að hafa verið fyrsti biskupinn í Róm. Jóhannes Páll II. skildi vel spurningu Jesú og streittist við að þjóna meistara sínum allt til enda, gæta sauðanna eins vel og hann gat allt þar til heilsan bilaði algerlega. Ekki lét hann Parkinson aftra, ekki hrumleika ellinnar. Auðvitað elskaði hann Jesú, en var þetta samt ekki um of? Hvað merkir að elska Jesú og gæta hjarðar hans? Það er alveg örugglega ekki fólgið í að viðhalda kirkjustrúktúr sjálfs hans vegna; ekki fólgið í að tryggja að aðeins að karlar einir geti þjónað að sakramentum kirkjunnar; ekki fólgið í því að tryggja forræði Rómar í allri kaþólsku kirkjunni; ekki fólgið í því að stjórnkerfi kaþólskra sé í samræmi við alda-hefðir og -venjur og örugglega ekki fólgið í því að meina fólki að nota getnaðarverjur!

Að elska Jesú er að opna tilveru sína gagnvart hinu mesta, stærsta og besta – Guði. Það er að opna fyrir elskuna í öllum myndum. Vissulega munum við menn eiga í erfiðleikum með að vita í hverju elskan er fólgin þegar hún er tengd og túlkuð að ákveðnum aðstæðum í tíma, menningu, félagslífi og skyndilegum kreppum.

Kirkjur eru mikilvægar en koma ekki stað trúarinnar. Páfi er mikilvægur en getur aðeins svarað fyrir sjálfan sig þegar Jesús spyr um elskuna. Jesús spyr biskupa allra alda um elskuna. En þeir ruglast illilega ef þeir halda að þeir svari vel ef þeir bara gæta þess að sauðirnir sem þeir gæta hugsi enga nýja hugsun, fari aldrei í nýja haga og á andleg engi. Trúmennska biskups á rót í því að biskup svari grunnspurningunni, sem Jesús spyr: “Elskar þú mig?” Þar er forsenda hirðisstarfsins. Þeirri spurningu verður prestur að svara játandi. Þjónusta prests snýst í andhverfu sína, ef hann eða hún getur ekki svarað meistara sínum með elskuyrði.

Kirkja, hvort sem hún er kaþólsk, evangelísk-lúthersk, Fíladelfía eða Vegurinn, – kirkja er á rangri braut ef hún aðeins reisir girðingar umhverfis fólk, skilgreinir siðferði og rétt líf, skipar fyrir um skoðanir og atferli en hjálpar fólki ekki til að svara vel frumspurningunni: Elskar þú Jesú? Ertu ástvinur Guðs?

Þá erum við komin inn í okkar veröld. Texti dagsins varðar Róm, en líka kirkjur á Íslandi, alla biskupa, presta, djákna, organista, sóknarnefndarfólk, starfsmenn, sjálfboðaliða, fólk sem sækir kirkju en líka hin sem ekki sækja kirkju. Umfram allt varðar spurningin þig. Jesús Kristur spyr alla: „Elskar þú mig?” Þá spyr hann þig ekki um kreddu, siðferði eða stjórnmálaviðhorf heldur um afstöðu – það sem kallast trú. Ef þú átt í vandræðum með þá spurningu þarftu að ræða við þennan Jesú og kannski líka fá hjálp hjá þeim trúmönnum sem þú treystir til samtals. Til þeirra starfa erum kirkjulegir starfsmenn valdir og falið að þjóna því hlutverki.

Aggiornamento

Þegar einn merkasti páfi síðari tíma Jóhannes 23. kallaði saman kirkjuþing á sjötta áratug síðustu aldar, gerðu fæstir sér von um nokkur mikilvæg tíðindi. En kirkjuþingið varð hið merkasta og margt var rætt sem virtist benda til að vortíð væri hafin meðal kaþólikka. Þá var talað um að nú væri verið að færa mál kaþólskunnar til nútímans. Aggiornamento varð slagorð þingsins og meðal kaþólikka um allan heim. Það þýðir bókstaflega að færa til dagsins í dag, færa til nútímans. Það merkir að uppfæra, hugsa og lifa í samræmi við þarfir samtímans. En uppfærslan varð fljótt úrelt, aldraðir leiðtogar kirkjunnar hræddust breytingar. Það er alltaf auðveldara að vera eins og menn hafa “löngum” verið, en opna fyrir því, sem enginn veit hvernig lyktar.

Kirkjan býr alla tíma við þá kröfu að bregðst við þörfum samtíma síns, líka nú. Á miðöldum voru oft miklir áhyggjutímar og prestar sem páfar voru hræddir. Nótt eina dreymdi Leó páfa að honum fannst kirkja Krists væri að hrynja. Páfinn varð hræddur. En svo sá hann í draumnum að fátæklega búinn maður kom til hjálpar. Páfinn gerði sér grein fyrir að þar fór góðmennið og munkurinn Frans frá Asissi. Kirkjuyfirvöld höfðu ekki haft mikla trú á starfi hans og fylgismanna hans. En páfinn veitti Frans þót leyfi til starfa eftir þennan draum sem varð til mikils góðs.

Hverjir halda uppi kirkju Krists á jörðinni? Það eru ekki aðeins einhverjir útvaldir heldur þau sem vilja þjóna, vilja varðveita lífið, vilja styðja við þjónustuna við Guð. Elskar þú mig? Spurningunni verða allir að svara, kardínálar við páfaval, þau sem velja hirða sína og við sem erum hér í dag.

Aggiornamento.

Annar sunnudagur eftir páska, 2005. 

Merðfylgjandi mynd málaði Salvador Dali þegar Jóhannes 23.  páfi kallaði saman annað Vatikanþingið á sjöunda áratug aldarinnar. Dali – eins og margir aðrir – gerði sér von um að þingið breytti kaþólsku kirkjunni í átt við þarfir nútímans. Myndina af málverki S.  Dali tók ég í Dali-safninu í St. Petersburg á Flórída 29. desember 2023.