Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

Pistlayfirlit er aðgengilegt á trú.is. Þá er talsvert af pistlum einnig á sigurdurarni.annall.is

Porvoo-kirknasambandið

Fundur höfuðbiskupa Porvoo-sambandsins var haldinn í Kaupmannahöfn 12.-14. október 2017 (sjá skýringu afast í greininni). Ætlunin hafði verið að funda í Litháen, en fundurinn var færður til Danmerkur og var haldinn í Andrésarkirkjunni í Kaupmannahöfn. Helgihald var þar og í Frúarkirkjunni. Tengslahópurinn samtakanna, PCG, hélt fund sinn til undirbúnings og úrvinnslu í húsakynnum biskupsstofu Kaupmannahafnar. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, boðaði forföll og ég var því eini Íslendingurinn á fundinum.

Trúarlöggjöfin

Hans Gammeltoft Hansen sagði frá löggjöf um trúmál í Danmörku og greindi að löggjöf um stofnanir og einstaklinga. Margt hljómaði kunnuglega íslenskum eyrum þegar rætt var um sögu kirkju- og trúarlöggjafar, Grundloven 1849 og löggjöf um trúfélagafrelsi í Danmörk fyrir liðlega öld, sem hafði mikil áhrif á þróun kirkju og trúarlöggjafar á Íslandi. En Danir hafa ekki tekið sömu stóru sjálfstæðisstökk í kirkjumálum og Ísland, Noregur og Svíþjóð og hlustuðu því grannt á reynslu okkar hinna Norðurlandaþjóða. Anglikönunum þótti þetta einnig áhugaverður jús.

Kirkja á tali

Marianne Christensen sagði að brýnasta hætta kirkjunnar nú væri að draga sig í hlé, staðsetja sig utan samfélags og lifa þar í eigin menningarkima. En kirkjan eigi ekki gera forsendur hins veraldlega samfélags sínum nema þær rími við hið kristna erindi. Hún ræddi m.a. um búrkur og fatnað kvenna og sagði að valdamenn sem vildu alltaf líka stjórna tísku og fatnaði kvenna. Þá ræddi hún um pílagrímastaði og minnti á að níu milljónir manna sæktu heimsaltarið í Fatíma. Fólk á ferð væri alltaf fólk í leit að merkingu. Þá ræddi M. Christensen – til upplýsingar anglikönum – um hið jákvæða og gleðilega í lútherskunni. Hún minnti á áherslu lútherana á tónlist, sem ræki burt hið djöfullega og hleypti gleðinni að. Guð væri alltaf gleðimegin – lífsmegin skv. lútsherskunni – og styður hið góða. Hlutverk kirkjunnar er að tala við Guð. Kirkjan á ekki aðeins að starfa í söfnuðunum eins heldur líka að vera í lifandi samvinnu eða samtali við samfélagið. Hún eigi beita sér fyrir velferð fólks, að allir séu virtir og heyrðir. Kirkjan eigi ekki aðeins að vera vörður hinna andlegu og þröng-trúarlegu efna, heldur einnig að sinna samfélagslegri gildavörslu. Hún væri siðferðisvörður hverrar samtíðar. Hún eigi að þora að gagnrýna, rífa niður og byggja svo upp. Í krafti Jesú á kirkjan að þora að vinna í samtíð og í miðju samfélagsins og líka varpa upp gildum og knýja framgang hins góða fyrir framtíð.

Lútherskan

Helga Byfuglien talaði um framlag lútherskunnar í post-modern samfélagi. Á tíma uppþota og gríðarlegra breytinga halda lúthersk upp á fimm hundruð ára afmæli siðbótar. Og nú er fullkomin tími til að vera kirkja – einmitt vegna ástandsins í heiminum. Lútherska fjölskyldan vex í suðri, en í norðri eru allt aðrar aðstæður. En áherslan á öllum tímum er á hið sama, fagnaðarerindið. Frelsuð vegna náðar Guðs. Það er erindið, sem kirkjan á við allt fólk og alla aldurshópa. Frelsuð vegna elsku Guðs. Erindi kirkjunnar er ekki að gera sjálfa sig að forsendu heldur lifa í krafti tengslanna við Guð. Kirkjan hættir ekki að eiga erindi til lífs þó hið opinbera hafi tekið að sér mörg hlutverk sem kirkjan gegndi áður. Enn hefur kirkjan ómengaða skyldu að tala spámannlega – um öll hin jaðarsettu, flóttamenn, öll þau sem líða og eru vanvirt. Það verður bara að hafa það þó nokkrir stjórnmálamenn í Noregi telji kirkjuna vera vinstri sinnaða. Meðan hún er trú hinu kristna erindi munu alltaf einhverjir uppnefna kirkjuna og gera lítið úr málstað hennar.

Kölluð til nýs skilnings

Justin Welby talaði um Brexit og breytingar á tengslum Englands og Evrópu. Hann líkti kirkjunni við áhöfn Titatnic eftir að skipið rakst á ísjakann. Brexit verður og verkefnið er ekki að gera hið besta úr ómögulegum aðstæðum, heldur vera blessun í kreppunni. Bretar fara úr Evrópusambandinu en ekki út úr Evrópu. Menningarleg og kirkjuleg tengsl hafa verið mikil og um aldir. Bretar hafa alltaf verið smeykir við meginland Evrópu. Er það ástæðan þess, sem knýr áfram Brexit-ferlið? Guðfræði er oft mótuð af staðsetningum, sérstökum aðstæðum og samhengi. Brexit er hin hliðin á hinu breska. Bretar voru um aldir með augu á fleiru en menginlandi Evrópu. 1/3 heimsins var lengi breskur, þ.e. undir yfirráðum Englands. Bretar réðu stórum hluta hins múslimska heims og hagsmuni og gróðasjónarmið voru hreyfiaflið að baki. Kristindómur og trúboð voru oft aðeins viðhengi við fjármálahagsmuni. Kristnin á nú undir högg að sækja í hinum breska heimi. Aðeins 1,8% sækja kirkju – að vísu 6 milljónir á jólum. En þótt sóknin sé lítil er bergmál kristninnar hljómmikið í menningunni. Kirkjurnar í Evrópu verða að styrkja samstarf – Porvoo er ekki markmið heldur áfangi. Við erum kölluð til að vera með þeim sem eru okkur ósammála. Svo það er eins gott að fólk sætti sig við það og hugi að því hvernig er hægt að umlíða þau sem eru ósammála. Við, guðfræðingar og kirkja, erum kölluð til nýs skilnings á því hvað merkir að trúa, vera andleg vera og þar með að vera kristin kirkja.

Trú í samfélögum Evrópu.

Af þessum upptöktum urðu líflegar umræður. Dæmi voru nefnd úr héraði og undirritaður sagði frá gliðnun og þróun íslenskrar menningar sem á sér hliðstæður víða í hinu evrópska samhengi. Margir hugsuðu síðan upphátt um breytingar kirkjulífs og trúartúlkunar og iðkunar í Evrópu og sögðu sögur úr sínu heimasamhengi. Rætt var um breytingar á mannskilningi, þ.e. aukna einstaklingshyggju í hinum evrópsku samfélögum. Fundarmenn voru sammála um að kirkjustjórnir lútherskra og anglikanskra gætu haft meira samráð um stór siðferðileg, trúarleg og pólitísk mál. Raunar ættu kirkjurnar að koma sér upp samtalsvettvangi.

„Við eigum að hræðast fólk sem ætlar að ýta Guði inn í horn og verja Guð þar fyrir heiminum.“ Við erum vön að vera í miðjunni á samfélögum okkar, en munum þurfa að venja okkur við að vera á grensunni – periferíunni. „Ef ljósið kemur inn up bakdyrnar – þá verum bakdyrnar. Ef ljósið kemur inn um aðaldyrnar. Þá verum aðaldyrnar.“ Minnt var á vanda allra kirkna Evrópu varðandi borgirnar: Fólk er á hreyfingu í borgunum og raunar hverfur kirkjunum í þeytingnum. „Drop-in“ skírnir og giftingar eru tilraunir kirkna á Norðurlöndum til að svara þörfum, lækka þröskulda og tryggja ódýra kirkjulega þjónustu. Þar sem vel er unnið er ekkert “ódýrt” – í merkingunni lágkúrulegt – við þessa „drop-in“ þjónustu.

Bænaefni

Thy kingdom come – Gott efni sem Church of England heimilar Porvoo-kirkjunum að nota að vild. https://www.thykingdomcome.global/prayerresources#individuals

https://www.thykingdomcome.global/resources/33

Drop-in á menninganótt

10 þúsund manns fóru í Frúarkirkjuna á menningarnótt. Þetta var opin kirkja. Prestar voru til viðtals, ljósstafir á gólfi til að lýsa upp myrkvaða kirkjuna. Allir gátu komið og verið í sínum bæna- eða íhugunarheimi. http://koebenhavnsdomkirke.dk/event/3513415 Opin kirkja af þessu tagi gæti verið í Dómkirkjunni og Hallgrímskirkju á menningarnótt.

Bænalisti

Porvokirknasambandið er biðjandi samfélag. Beðið er

. 11. júní er beðið fyrir kirkjulífi á Íslandi og biskupum þjóðkirkjunnar. 

Porvoo – fundir framundan

2018 verður ráðstefna haldin í Eistlandi um meirihluta og minnihluta.

2019 PCG og Church leaders munu hittast Portúgal. Ungt forystufólk í kirjunum verður boðið til fundarins auk leiðtoga í kirkjunni.

2020 Guðfræðiráðstefna. Um samfélag – Communion. Stefnan verði “úthverf” frekar en “innhverf” – þ.e. rætt um samfélagsköllun kirkjunnar.

2021 Porvoo – 25 ára hátíð kirknasambandsins og fundur höfuðbiskupa.
Porvoo-fundir eru jafnan gefandi þeim sem sækja. Hlutverk og stöður hverfa í opnu flæði og samtali ólíkra einstaklinga. Og þar sem fundarmenn eru úr tveimur kirkjufjölskyldum eru þeir jafnan fjölskrúðugir og ríkulegir. Fundunum er ætlað að þjóna kirkjuleiðtogunum, ekki síst biskupunum. Fullur trúnaður ríkir um viðkvæm mál, en þau eru rædd hispurslaust og farið yfir mismunandi kosti. Anglikanarnir hafa t.d. hlustað vel á reynslusögur lútherskra og lært mikið af norrænu kirkjunum um meðferð mála samkynhneigðra. Brexit-umræðan á Kaupmannahafnarfundinum var mjög opin og hinar ólíku áherslur voru opinberaðar, allt eftir því hvort átt var við hagsmuni Englendinga, Íra, Walesbúa eða Skota. Vandi kirknanna var ræddur, en trúarviskan var ómenguð. Hrædd eða smæðarleg trú kom ekki við sögu heldur styrk, björt og framtíðarleitandi viska af hæðum. Það er því þakkarvert að fá að vera með. Porvoo-samfélagið hefur náð að vera opið og þroskað samfélag, sem á eftir að skila meiri samvinnu á næstu árum.

Peder Skov Jakobsen, Kaupmannahafnarbiskup, er með skemmtilegustu mönnum og tryggði að kvöldsamverur væru gleðilegar. Fólki var raðað saman og svo endurraðað til að tryggja að kynni yrðu margvísleg og sem mest. Við Justin Welby voru t.d. settir saman í hálftíma og áttum djúpsækið og mjög persónulegt samtal en líka skemmtilegt. Welby er kátur sögumaður og fór yfir ekki aðeins eigið upphaf, heldur gaf innsýn baksvið stórmála í enskri pólitík. Kvöldsamverurnar í biskupsgarði voru miklar söngsamverur og anglikanar voru mótmælalaust dregnir í færeyskan hópdans. Þetta var allt gert í lútherskum anda, enda fagnaðarerindið tilefni til fögnuðar og lífsgleði.   

Porvoo-kirknasambandið er kennt við Borgå eða öðru nafni Porvoo í Finnlandi en þar var sambandsaðild undirrituð. 

Sigurður Árni Þórðarson, fulltrúi íslensku þjóðkirkjunnar í tengslahóp Porvoo-kirknasambandsins, Porvoo Contact Group.

Jólahandritið þitt

Jólin eru komin, undrið er loksins orðið, þessi tilfinningatími, sem hefur svo margvísleg áhrif á okkur og vekur svo margar kenndir. Mig langar að spyrja þig persónulegrar spurningar: Hvernig er handrit þitt að jólunum? Hvað er þér mikilvægt? Hvaða tilfinningapakka opnar þú? Hvað gerir þú til að hleypa að þér því, sem er þér mikilvægt? Hvað viltu og hvað ekki? Hvað gerir þú til að halda burtu frá þér því sem þér þykir vont? Hvað eru jólin þér? Og hvert er þitt jólahandrit?

Plastjól undir pálmum

Tvenn jól var ég erlendis, þegar ég var við nám í suðurríkjum Bandaríkjanna. Ég fór suður á bóginn skömmu fyrir jól, til Flórída. Alla leið til Key West, rétt norðan við Kúbu. Veðrið var dásamlegt og gott að slaka á eftir próf. Svo kom aðfangadagskvöld. Við, þýskur félagi minn, vorum sammála um að við værum báðir jólabörn. Á aðfangadagskvöldi vildum við borða vel. Við fórum því á gott veitingahús og hófum máltíð kl. 6. Maturinn var góður, en samt var ólag á þessari máltíð sem jólamáltíð. Við vorum ekki í neinu jólastuði og héldum út í jólanóttina hugsi og þegjandi. Við okkur blasti stór ofurrauður Coca-cola-jólasveinn með kuldakinnar. Hann stóð í vagni og hreinar í fullri stærð hnykluðu vöðvana. Snjór var á jörðinni. Þessari miklu jólaskreytingu var komið fyrir undir risastórum pálmatrjám. Hlý Karíbahafsgolan blés um hár okkar, granahár hreinanna og skegg sveinsins. En snjórinn bráðnaði ekki, því myndin var öll úr plasti. Það litla, sem var af jólastemmingu lak af okkur félögum niður í malbikið. Engin jól, engin stemming, engin kirkjuferð, engin fjölskylduhátíð, ekkert guðspjall, allt ein samfelld andupplifun. Handritið innan í okkur passaði ekki settinu. Heimþrá og söknuður helltist yfir okkur.

„En það bar til um þessar mundir…“ ómaði textinn í höfði mér. Við fórum heim á hótel og ég rölti niður í flæðarmálið. “Hvað er það í jólahaldinu, sem skiptir máli?” tautaði ég með sjálfum mér. Af hverju varð ég svona óhemjulega dapur? Ég horfði á hvernig aldan glettist við smásteina, sem sungu jólasálma sína í ölduleik fjörunnar. Steinarnir, eins og mannfólkið í tímanum, hugsaði ég, og rifjaði upp ljóðið, að við værum sandkornin á ströndinni og kærleikur Guðs hafið. Svo lagði ég hlustir við hljóðum hinnar helgu nætur og fór yfir jólalíðanina. Eru jól háð stemmingunni heima, við ákveðnar aðstæður? Eru jólin háð umgerðinni eða rista þau dýpra en plasthreinar eða yfirspenna barnsins? Hvert er inntak og flæði jólanna? Hver er andi handrits jólanna?

Jólalíðan

Mörg börn standa í miðjum jólapappírshaugnum á aðfangadagskvöldi og spyrja: Eru ekki fleiri gjafir? Fullorðnir upplifa kannski ekki slík vonbrigði, en glíma þó við tómleika. Þegar stormur aðfangadagskvölds líður hjá snjóar tilfinningum í logni sálarinnar. Hvað kemur til okkar þá? Hvað býr innra með okkur, sem við mættum gjarnan hlusta á? Hvað er þetta jólamál og hvernig varðar það tilfinningarnar? Eru einhverjir plastjólasveinar og hreinar í lífinu? Hvað skiptir þig máli? Hvað ætti að vera í jólahandritinu þínu?

Jól hinna fullorðnu

Það er bara hálfsannleikur að jólin séu hátíð barnanna. Jólin eru fyrir alla, líka þig. Jól hins fullorðna eru engu síðri en jól barnsins, en þau eru öðru vísi. Við erum ekki lengur börn að aldri. En við erum ekki of gömul til að lifa. Og við megum leyfa okkur að upplifa jól með öðrum hætti en barnið. Mál jólanna er einfalt: Guð kemur til þín. Guð finnur þig – hvar sem þú ert. En til að þú getir upplifað jólin er mikilvægt að þú skiljir hvaða aðstæður skilgreina og móta þig – þitt handrit, þetta sem stýrir hvernig þú upplifir Guðskomuna. Jólasagan talar til dýptar þinnar, til langana þinna og þarfa. Hvernig getur Guð snortið þá kviku, sem er að baki umbúðunum? Hvernig getur Guð komið til þín í þitt innsta inni? Já, jólin eru ekki aðeins hátíð barnanna heldur hátíð lífsins. Og inntak þess lífs er að Guð segir við þig: „Ég elska þig. Þú ert óendanlega mikils virði.“ Það er jólahandrit himinsins um þig, veröldina og lífið.

Vonbriðgin og ný skynjun

Þegar vonbrigðin voru alger á strönd Key West og jólahald okkar félaga fullkomlega misheppnað – varð mér litið upp í himinhvelfinguna. Stjörnurnar glitrðu á festingunni. Loftsteinn skaust inn í sjónsvið mitt og brann á örskotsstundu. Í austri titraði stjarna. Og það var um þennan himinskjá, sem andi jólanna fór að tala til mín. Eitthvað kviknaði, stjarna jólanna seig inn í sálina og boðskapur guðspjallsins fór að koma.

Í djúpi hugans heyrði ég rödd pabba lesa: „En það bar til um þessar mundir….“ Svo kom sagan um boð keisarans um manntalið, um ferð fólks til borganna, för Jóseps og Maríu, um plássleysið og síðan fæðingu barnsins í gripahúsi, bændurna á völlunum og englasöngva.

Allt í einu kom djúp tilfinning sem ég leyfði að hríslast um mig. Sársaukinn dofnaði og þá hætti að skipta máli að einhverjir plasthreinar væru undir pálmatrjám – eða að ég væri fjarri kokkhúsi móður minnar. Jólin komu til mín – Jesús fæddist í mér. Og þá féll einn stofn bernskunnar, ritúal barnsins opnaðist og goðsagan féll. Bernskuatferli aðfangadags gat ekki lengur verið eina nauðsynlega forsenda inntaksupplifunar. Jól í lífi hins fullorðna varðar inntak og upplifun á dýptina. Og þar er lykillinn að því að lifa merkingu jólanna, þegar Jesús fæðist í mér.

Á þessum jólum skýst stjörnugeisli inn í líf þitt alveg óvænt og býður þér að gera ferð þína að jólaferð í lífinu, að Jesús fæðist þér, ekki sem barn í jötu, heldur sem Guð sem kemur og fyllir líf þitt, sál þína og gerist félagi þinn á lífsgöngunni. Handrit þitt og handrit Guðs tengjast og fara saman.

Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu með öllum mönnum. Guð gefi þér gleðileg jól.

Bæn

Dýrð sé þér Guð í upphæðum, sem kemur til manna. Við fögnum þér.

Kenn okkur að njóta lífsgjafanna sem þú gefur og heyra og skynja að þú elskar og kemur til okkar sjálfur.

Blessa þau sem eru sjúk og aðþrengd á þessum jólum. Við nefnum nöfn þeirra í hljóði í huga okkar. ——-

Umvef þau – Guð.

Vitja fjölskyldna okkar og okkar allra sem erum í þínum helgidómi.

Dýrð sé þér Guð í upphæðum og verði þinn friður á jörðu.

Amen.

Englar í stuði og sveitalykt Jesú

…að boð kom frá Ágústus keisara um að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina… Alla, hverja einustu stelpu og strák í heiminum – karla og konur, Kínverja, Rússa? Er hægt að muna eftir öllum?

Boð  frá … keisara. Það er blákaldur hljómur í þessum orðum. Járnbragð kemur í munninn og meiðslaverkur í putta. Ekki góður keisari, sem neyðir ófríska kona að fara að heiman, langa leið á asna og milli gistihúsa í myrkri?

María og Jósep fóru fóru út úr heimi keisarans, inn í bláleita veröld flakkandi stjörnu, undurveröld vitringa og engla í stuði, kærleiksríkra kinda og jórtrandi kúa. Það var örugglega sveitalykt af heimi Jesú. Þar er allt hægt, allt satt, allt gott.

Keisarinn þarf að skrifa til að muna, en þó er alltaf einhver útundan. Guð man eftir öllum. Hjá Guði er allt gott.

Dýrð sé Guði í upphæðum og friður. Já, það var það, sem þurfti að skrifa í heiminum. Ekki friður keisarans, heldur friðurinn sem skrifaður er í lífið.  Boð kom frá Guði handa strákum og stelpum heimsins að skrifa sína stafi.

(Fann þetta við tiltekt í tölvunni – samdi einhvern tíma á jólakort til vina – svo þetta er ofurlítil aðventuleiðsla).

 

Viðtal um matseld í Fréttablaðinu 15. desember. 

„Vinir okkar hjóna voru alltaf að biðja um þessa eða hina uppskriftina svo við gáfum bara út matreiðslubók eitt árið,“ segir Sigurður Árni Þórðarson, sóknarprestur í Hallgrímskirkju.

Matreiðsluáhuga Sigurðar Árna Þórðarsonar, sóknarprests í Hallgrímskirkju, má rekja til æskuáranna þegar hann gerði sér grein fyrir því að elda mætti silung með mismunandi hætti og að krydd væri undraefni. „Foreldrar mínir ræktuðu fjölbreytilegt grænmeti. Svo var ég á unglingsárum stórveiðimaður norður í Svarfaðardal og týndi marga tugi lítra af berjum á haustin. Það er platveiðimaður sem ekki lærir að gera að fiski og elda.“

Inn á vef sínum www.sigurdurarni.is, birtir Sigurður m.a. greinar, pistla og hugvekjur en líka ýmsar ljúffengar uppskriftir. „Vinir okkar hjóna voru alltaf að biðja um þessa eða hina uppskriftina svo við gáfum bara út matreiðslubók eitt árið og gáfum vinum og fjölskyldumeðlimum í jólagjöf. Þar sem óskirnar héldu áfram og ég var með heimasíðu var auðvelt að smella inn uppskriftum sem eru þarna í bland við hugleiðingar um lífið, prédikanir, þjóðmál og annað sem prestur skrifar um.“

Mikilvægt að borða saman

Eiginkona Sigurðar, Elín Sigrún Jónsdóttir, er að hans sögn betri bakari en hann og líka næmari á uppskriftir. „Hún veit að ég er mikill matfaðir og vil helst elda og hafa marga í kringum mig og gefa mörgum að borða. Því sendir hún mér uppskrift um miðjan dag eða kaupir hráefni og tilkynnir mér að hún hafi fundið þessa góðu uppskrift. Ég verð kátur þegar maturinn er góður, allir borða og standa upp frá borðum með hrós á vörum.“

Starf sóknarprests getur verið mjög annasamt og vinnudagar langir. Góður matur í góðum félagsskap skiptir því Sigurð miklu máli. „Í kirkjunni stöndum við prestarnir við borð, altarið. Og í safnaðarheimilum kirkna eru borð og samfélag. Jesús Kristur var veislukarl. Hann er minn maður. Kirkja er í þágu lífsins. Að borða saman er mikilvægt, samtölin eru mikilvæg og við snertum hvert annað tilfinningalega þegar við eigum samfélag. Það vissi Jesús Kristur og ég tek mark á því, líka heima.“

Áhugi á Biblíumat

Miðjarðarhafsmaturinn, bæði hráefnin og kryddin, eru uppáhald Sigurðar. „Biblíumatur er sértækt áhugaefni og mig langar til að dýpka þekkingu mína á klassísku hráefni fornaldar því það er heilsufæði nútímans. Ég verð í Berkeley í Kaliforníu næstu mánuði og mun örugglega fara á heilsumarkaðina á San Fransisco-svæðinu.“

Uppskriftin sem Sigurður gefur lesendum er Maríukjúklingur sem hann segir  vera biblíumat. „Mig grunar að María, móðir Jesú, hafi verið hrifin af svona mat. Hún hefði getað eldað réttinn því hráefnin voru til í þessum heimshluta á uppvaxtarárum Jesú Krists. Og biblíumatur er alltaf hollur og rímar við heilsufæði nútímans.“ 

Til hvers aðventa?

Sex ára drengur sat í kirkju. Söngvar aðventunnar og jólaundirbúnings seitluðu inn í vitund hans. Og minnið brást honum ekki, textarnir frá því í fyrra komu úr sálargeymslunni og hann söng með. Barnakórarnir heilluðu líka alla í kirkjunni. Augu drengsins ljómuðu þegar hann sneri sér að mömmu sinni og sagði með barnslegri einlægni: “Mikið er gaman að lifa.” Mamman sagði mér svo frá þessari jákvæðu upplifun barnsins.

Aðventan er komin. Þessi tími sem er “bæði og” en líka “hvorki né.” Aðventan er samsettur tími, sem krefst ákvörðunar um hvað skal vera í forgangi. Álagið getur verið mikið og margt sem þarf að framkvæma fyrir jólin. Kröfur, sem fólk gerir til sjálfs sín og sinna á þessum tíma, geta verið miklar og úr hófi. Áður en þú druknar í verkum er ráð að þú staldrir við og spyrjir: “Til hvers? Má ekki sumt af þessu bíða? Er ekki allt í lagi að fresta því, sem er ekki alveg aðkallandi?” Á aðventu er ráð að muna eftir tvennunni: Að vera eða gera. Hvort er mikilvægara að lifa eða strita, klára verk eða njóta lífs, upplifa eða puða? Við prestar heyrum oft á fólki tala um við ævilok að dótið og eignirnar hafi ekki fært þeim djúptæka lífshamingju. Dýrmæti lífsins væri fólkið þeirra, maki, börn, barnabörn og vinir. Getur verið að á aðventu sé mikilvægast að vera með sjálfum sér, fólkinu sínu og vænta hins guðlega?

Veistu hvað aðventa þýðir? Orðið er komið af latneska orðinu adventus. Það merkir koma, að eitthvað kemur. Við, menn megum leyfa okkur að hlakka til og vona. Það er einn af undraþáttum lífsins að við megum í læstum aðstæðum vinna að því mál leysist, vænta að lausnin komi. Í aðkrepptum aðstæðum megum við vona að úr rætist, að inn í myrkar aðstæður nái ljós að skína.

Aðventan þarf ekki að vera puðtími heldur getur verið tími hins innri manns. Aðventan má vera tími eftirvæntingar þess að lífið verði undursamlegt. Boðskapur jólanna er um þá dásemd að allt verður gott. Og á aðventunni megum við undirbúa innri mann, skúra út hið óþarfa og vænta komu hins fagnaðarríka. Aðventan er tími til að núllstilla lífið til að við getum tekið við undri lífsins, að hið guðlega verði. Og við getum sagt við fólkið okkar, sem við elskum. Mikið er gaman að lifa.”