Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is. Þá var talsvert af pistlum einnig á sigurdurarni.annall.is Sá vefur er nú lokaður.

Heillaóskaskrá og afmæliskveðja

Prédikanasafn mitt Ástin, trú og tilgangur lífsins verður gefið út í byrjun nóvember. Í þessu safni verða 78 prédikanir helstu helgidaga og hátíða ársins. Hallgrímskirkja styður þessa útgáfu. Þetta verður stórbók og forlagið, Bjartur-Veröld-Fagurskinna, vandar útgáfuna. Ragnar Helgi Ólafsson, rithöfundur og grafískur hönnuður, býr ritið til prentunar og mér sýnist bókin muni verða falleg. Það hefur verið skemmtilegt að vinna með Ragnari Helga en hann er sjálfur tilnefndur til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Á sínum tíma hannaði Ragnar Helgi biblíuútgáfu JPV – þessa sem notuð er í öllu helgihaldi íslenskrar kristni síðustu fimmtán árin.

Bókin er gefin út við starfslok og sem afmælisrit. Í henni verður heillaóskaskrá. Frestur til að skrá nöfn er 10. september. Þau er vilja setja nafn eða nöfn (t.d. hjóna eða systkina) í skrána eru beðin að senda nöfnin í tölvupósti og ganga frá greiðslu. Pétur Már Ólafsson, forleggjarinn, tekur við nöfnum og netfang hans er pmo@bjartur.is. Síðan er greitt á sölusíðu útgefanda sem er að baki þessari smellu. Forsöluverð er 11.990 sem er þrjú þúsund krónum lægra en verður eftir útgáfudag. Skrifið TABULA á afsláttarkóðann og þá fæst afslátturinn við frágang á netinu. Skráningarfrestur vegna heillaóskaskrár verður stuttur svo gerið svo vel að verið snögg til ef þið viljið nota skrána til að gleðja höfundinn. Besta afmælisgjöfin. Svo verður auðvitað útgáfuhátíð og afmælisteiti sem stefnt er að halda 11. nóvember. Þið eruð öll boðin til veislu. 

Af hverju gefa út prédikanir? Þær eiga erindi og sá mikli fjöldi sem les staðfestir áhugann. Teljarinn á heimasíðunni minni sýnir að þúsundir og í nokkrum tilvikum tugir þúsunda hafa lesið sumar prédikanirnar. Prédikanir verða til fyrir lifandi fólk hvers tíma og tjá viðfang og þarfir. Best er þegar útleggingin verður fólki erindi til fagnaðar og blessunar. Vinur minn spurði: „Ertu ekki hræddur við að gefa svona út og einhver fari að nota þessar ræður?“ En svarið er einfalt. Fluttar ræður í kirkju eru eign kirkjunnar og erindi þeirra má nota og margnota. Vonandi verður Ástin, trú og tilgangur lífsins hagnýt bók í lífi og starfi kirkjunnar, kristni á Íslandi og trúarglímu einstaklinga.

Með ástarkveðjum, Sig. Árni

 

 

 

Sigurþór Smári skírður

Ekkert prestsverk er skemmtilegra en að skíra og kitlandi gaman í himnesku veðri og nánast í fjörunni. Sigurþór Smári Sigríðarson Corno var blessaður í garðinum við Garðabæinn við Ægisíðu sunnudaginn 20. ágúst.

Ég hef oft gengið að heiman í hempunni til athafna og stundum frá kirkjunni líka. Hlaupararnir, vinir mínir á stígnum, kölluðu til mín og spurðu hvort mér væri ekki heitt í prestaúlpunni! Ísak sonur minn sem gekk með mér að heiman og út að Görðunum kímdi og hvíslaði að mér að allir yrðu svo formlegir við að mæta klerki á gangi og byðu góðan daginn. Þennan dag ákvað ég að embætta upp á danska stílinn – í hempunni. Það væri í stíl við sögu Garðanna og Grímsstaðaholtsins. 

Garðagarðurinn varð helgidómur, gleðin skein úr augum. Önnur amman bauð alla velkomna og stýrði umferð því svo margir komu til athafnar að helst líktist útihátíð. Guðmóðirin spilaði fagurlega á fiðlu og hélt á drengnum undir skírn. Bachhljómarnir fléttuðust að lágværum ölduklið. Fjörulyktin blandaðist gróðurilmi jarðar. Annar afinn las texta og hinn hélt ræðu, ekki fjallræðu heldur fjöruræðu. Amma hellti vatni í gullbryddaða skál sem guðfaðirinn hélt á. Allir sungu. Foreldrarnir geisluðu og Sigurþór Smári svaf værðarlega allt þar til klerkurinn lyfti honum – allir klöppuðu.

Mikið er af hvönn milli Garðanna og Lambhóls og ég náði í hvannafræ og setti í vatnið þegar vatnið var helgað. Talaði um mikilvægi náttúruverndar og minnti á að hvönnin væri ekki aðeins lækningajurt heldur héti því táknræna nafni angelica archangelica. Okkar verk væri að bregðast við kalli um að vernda náttúru og mannfólk – til að skírnardrengurinn fengi að njóta heilbrigði, náttúran og við öll.

Sigurþór Smári er heppinn með foreldra, Sigríði Regínu og Davíð. Það er vermandi að fylgjast með þeim þjóna syni sínum. Nú er bæði búið að skýra frá nafni hans og hann er skírður líka. Hann er drengur tíma og eilífðar. Svo fer ég upp í Neskirkju eftir helgi til að fá drenginn skráðan í kirkjubók enda var ég búinn að afla heimildar sóknarprests. Uppgjafaprestur vinnur jú engin prestsverk í leyfisleysi. Guð og menn blessi sólardrenginn Sigurþór Smára. Megi tuttugu gráðu blíðudagar verða margir í lífi hans og hans fólks. 

Palma er í plús

Íslendingar tala um Majorkaveður og flestir skilja að það er gott veður. Frá 1958 fóru Íslendingar í sólarlandaferðir til „Mallorca.“ Veðrið var lofað, ódýrt vín líka og líflegt strandlíf. En er það allt og sumt? Eru íbúar eyjarinnar ódýrt vinnuafl í þjónustu sólarþyrstra N-evrópubúa? Við, fjölskyldan, höfum farið í sólarferðir til Florída, Kanarí, meginlands Spánar, í Eyjahafið gríska og til Portúgal og Ítalíu en aldrei til Majorku. En svo opnaðist möguleiki. Elín Sigrún, kona mín, fann fallega íbúð í Palma sem eigandinn vildi gjarnan lána okkur. Svo við slógum til og fórum í viku.  

Við vorum heppin. Íbúðin var í hjarta gömlu Palma, rétt hjá Chopin-torginu og við Nikulásarkirkjuna við Mercat-torg. Í þessum borgarhluta er engin bílaumferð. Göturnar eru þröngar og skýla vel gegn brennandi sólarhitanum í ágúst. Borgin er svo miklu ríkulegri en mig óraði fyrir. Sagan er þykk og fjölbreytileg enda Palma siglingaborg frá því í fornöld og stjórnsýslumiðstöð stórrar eyjar með tengsl við nærliggjandi stórveldi. Márarnir byggðu glæsilegar byggingar á miðöldum og þegar þeir misstu völdin var byggt áfram í stórveldisstíl. Þessar byggingar eru áhugverðar og skemmtilegt og lærdómsríkt að skoða. Baðstrendur eru nálægar og fljótlegt að ganga eða hjóla frá bænum á ljómandi strendur með góðri þjónustu. Sigling með fallegri og klettóttri strönd flóans er meðmælanleg. Við fórum eins slíka ferð á katamaran og nutum veislu um borð og syntum í sjónum. 

Majorka tengist íslenskri sögu fyrri alda. Þegar leysingjar „Tyrkjaránsins“ komu úr barbaríinu í Norður-Afríku voru þeir sendir til Palma á leið til Kaupmannahafnar. Ég hugsaði því um Guðríði Símonardóttur, konu Hallgríms Péturssonar, þegar ég gekk um hafnarsvæðið (og ég mæli með hinni frábæru reisubók Guðríðar eftir Steinunni Jóhannesdóttur). Glæsilegar byggingar hafa verið á Majorku um aldir og allt til þessara daga hefur verið bætt við. Nýja ráðstefnuhöllin er eins og Harpan í Reykjavík – mikið mannvirki. Kirkjurnar eru stórkostlegar og stutt á milli þeirra. Skoðunarferðatemun geta verið ólík og mörg. Palma verður seint fullkönnuð. 

Ég heillaðist af íbúðinni okkar. Hún er lokuð út mót götum og veröldinni en skipulögð í kringum ljóskjarna sem veitir birtu í öll herbergi. Húsagerðin þjónar því að halda hita úti á sumrin og hita inni á vetrum en tryggja ljósflæði um allt. Í hjarta Palma fara allir ferða sinna fótgangandi. Því er kyrrð í borgarhlutanum. Stutt er í allar verslanir og stórmarkaðir eru nærri. 

Palma var svo miklu ríkulegri en mig hafði órað fyrir. Þjónustan við okkur aðkomufólkið var slök og óáreitin, byggði á gömlum merg. Veitingahúsin eru mörg, alls konar, ekki aðeins í miðborginni heldur á Granda – hafnarsvæði – þeirra Palmabúa líka. Eldamennskan mjög góð og víða heillandi. Palma hefur flest sem ferðafólk við Miðjarðarhaf óskar eftir. Listalífið er fjölbreytilegt og hvergi í heiminum hef ég séð eins mikið af góðum listagalleríum á litlu svæði og í Palma – og hef ég farið víða. Áhugaverðar sérverslanir eru ótrúlega margar og staðfesta þykka og söguríka menningu. Palma er snyrtileg, vel skipulögð hafnar-, ferðamanna- og menningar-borg. Hún er litrík, glaðvær, slök, vellíðandi, glæsileg og elskuleg. Palma er ekki bara borg hins góða veðurs heldur borg gæða á svo mörgum sviðum. Alicante er fín, Valencia og Kanarí líka en Palma er betri. Við vorum öll sammála um að Palma var mun ríkulegri en við áttum von á. Okkur leið vel í hjarta Palma – gömlu borginni – og við viljum gjarnan koma aftur og dvelja þá í sama hjarta Palma – gönguhlutanum fremur en á hótelasvæðinu. Palma er í algerum plús. Takk Púma og takk Palma . 

Myndir okkar frá Palma eru á slóðinni að baki þessari smellu.

 

 

 

Ljóskeilan í miðjunni

Í miklum hita sá ég einu sinni nunnur og presta í Assisi forðast að ganga í sólinni og þau gættu þess að vera alltaf í skugganum. Það var dálítið fyndið en ég skildi að með hoppum og stikli reyndu þau að forðast hitann. Ég hef gengið um Jerúsalem, Akka, Genúa, Róm, Malaga, Palma og fleiri suðrænar borgir og furðað mig á hve þétt húsin standa. Svo uppgötvaði ég að í þrúgandi hita er hagkvæmt að stutt sé milli húsa því þau verða fólki, dýrum og húsum skjól. Þau standa svo þétt svo sólskinið skíni sem minnst á vegfarendur og byggingar. Í skuggasundunum er þægilegra að ganga og sitja en í brennandi sólskini og steikjandi hita. Á suðrænum slóðum er mikilvægara að huga að hita og kulda en birtu. Því eru borgirnar í suðrinu með merkjum hugsandi skipuleggjenda. Á norrænum slóðum er mikilvægara að tryggja sem mest ljós en vörn gegn hita. Því er ólánlegt að byggja þéttstæð háhýsi í okkar heimshluta. Þá er ofuhitaarkitektúr ranglega laumað inn eða smyglað í ljósþurfandi byggðir. Þorp og borgir á að skipuleggja til að þjóna fólki og góðri líðan þess.

Í sumar fengum við fjölskyldan lánaða íbúð í gamla hluta Palma, hjarta borgarinnar. Húsið er aldrað, líklega nokkur hundruð ára. Hverfið er enn eldra og með þröngum götum sem halda brennandi sumarhitanum frá og hindra skyndikælingu á vetrum. Íbúðin er dásamleg og hefur verið gerð upp nostursamlega og smekklega. En ég furðaði mig á skipulagi hennar og húsanna í þessum gamla borgarhluta. Litlir gluggar með opnanlegum hlerum eru götumegin og mót suðri og allir svo gerðir að hægt er að loka þeim, bæði til að hindra ofurbirtu og hitamók sumardaganna en líka hitamissi í vetrarkuldum. Í miðju íbúðarinnar er enginn miðjugangur eins og í mörgum íslenskum íbúðum tuttugustu aldar. Í miðju húsanna í Palma er hins vegar ljóskeila. Húsin eru með miðjustrokk sem opinn er frá neðstu hæð og uppúr – tvær til fjórar hæðir. Gler er allan hringinn kringum ljóskeiluna. Á hæðunum hafa íbúar komið fyrir blómakerjum í strokknum og við hann. Innan við gluggana er síðan gangur sem nær í kringum ljóskeiluna og gengið er í herbergi, eldhús, baðherbergi og stofur þaðan í frá. Vissulega voru margar íslenskar íbúðir skipulagðar með hringgöngu en án ljóskeilu í miðju. Vissulega eru til síðari tíma ljóskeiluhús, eitt er í götunni þar sem ég bý og oft hef ég komið í hús með “japanskri” miðju. Þessi Palma-útgáfa er áhugaverð og íhugunarefni. Brunahita haldið úti, vetrarkulda líka en ljósflæðið tryggt inn með ljóskeilu. Ljós frá miðju og svo inn í vistarverur. Skipulagið rímar við sólmiðju og guðsmiðju veraldar. Heillandi.

 

 

Þunglyndi, sorg og Davíð konungur

Ég var beðinn um að skrifa greinarstubb um sorg og fór að skoða nokkra biblíutexta. Löngum hefur mönnum verið ljóst mikilvægi þess að geina á milli þunglyndis og sorgar. Ekki aðeins í hinum klassíska gríska og rómverska heimi heldur líka hebresk/gyðinglega. 

Ástæður þunglyndis og sorgar eru yfirleitt ólíkar og úrvinnslan líka. En auðvitað geta þunglyndi og sorg ofta fléttast saman. Davíð konungur var tilfinningavera og hægt er að sjá í sögu hans tvær víddir tilfinningaúrvinnslu. Ég mun ekki ræða sögu Davíðs eða tilfinningaúrvinnslu í Biblíunni í greininni í vinnslu en mér þótti áhugavert að sjá að Biblían er svona kostarík. 

Í Davíðssálmi 38 er þunglyndi lýst:

Ekkert er heilbrigt í líkama mínum
vegna reiði þinnar,
ekkert heilt í beinum mínum
sakir syndar minnar.
Misgjörðir mínar hafa vaxið mér yfir höfuð,
þær eru byrði sem ég fæ ekki borið.
Ódaun leggur af sárum mínum,
það grefur í þeim sakir heimsku minnar.
Ég er beygður og mjög bugaður,
eigra um harmandi daginn langan.
Brunasviði er í lendum mér 
og ekkert er heilbrigt í líkama mínum.
Ég er lémagna og sundurkraminn,
styn í hjartans angist.

Ljóðið hefur oft verið eignað Davíð konungi. Hver höfundur er skiptir ekki máli fyrir túlkunina en Davíðssálmarnir tjáir allar tilfinningar manna. Þunglyndi hefur verið kunnugt og þungbært öllum kynslóðum mankyns. En sorg og sorgarferli er annað en depurð. Þegar Sál konungur og Jónatan vinur Davíðs dóu syrgði hann þá ákaflega og samdi sorgarljóð en ekki þunglyndisljóð. Í 2. Samúelsbók segir svo í fyrsta kafla:

Hetjurnar eru fallnar
mitt í orrustunni,
Jónatan veginn á hæðunum.
Ég harma þig,
Jónatan, bróðir minn.
Þú varst mér mjög kær.

Síðan er unnið úr áfallinu, brugðist við dausföllunum og stefnt fram á veginn. Áfallið var raunverulegt, tilfinningauppnámið mikið, tár féllu og vinna varð úr sorginni. Þunglyndi þarf að vinna með til að ná jafnvægi í lífinu. En sorgarhús verða oft fæðingardeildir visku. 

Veit einhver vina minna hvort greint er á milli sorgar og þunglyndis í forn-íslenskum bókmenntum?

Myndina tók ég af pálma við Jaffastræti í Jerúsalem.