Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

Pistlayfirlit er aðgengilegt á trú.is. Þá er talsvert af pistlum einnig á sigurdurarni.annall.is

Sonur minn

Guilli er öðru vísi en hinir strákarnir í Barcelona. Hann hefur ekki áhuga á fótbolta, forðast boltaleiki en er glaður, brosmildur og þorir að lifa sig inn furður lífsins. Kennarinn í skólanum spurði í tíma hvað krakkarnir vildu verða þegar þau yrðu stór. Svörin voru fyrirsjáanleg nema svar Guilli. Krakkarnir vildu gjarnan verða leikarar, íþróttahetjur eða annað álíka. En Guilli vildi verða Mary Poppins, ekki eins og Mary Poppins heldur raunverulega ofurhetjan sjálf. Kennarinn varð forvitinn, skildi að það var eitthvað að baki sem vert væri að ræða. Hún fékk skólasálfræðinginn í lið með sér. Sagan er síðan sögð frá mismunandi sjónarhornum, kennarans, sálfræðingsins, Guilli og Manúel, pabba hans. Við fáum tilfinningu fyrir fjarverandi Amöndu, hinni heillandi, ensku, móður Guilli sem var flugfreyja og hafði yfirgefið þá feðga til að vinna í Dubai. Svo er veitt innsýn í venjulegt skólalíf í Barcelona og hve vel starfsfólkið vinnur og gengur í hin flóknustu og vanþakklátustu verk. Vandi fjölmenningarsamfélagsins er kynntur með hlýju og næmni. Lesandinn fær að skyggnast í líf, hætti og verkefni barns í pakistanskri fjölskyldu í næsta húsi við Guilli. Þar ríkja gamlir siðir hins múslímska feðraveldis og níu ára dóttir á heimilinu var lofuð gömlum frænda. Vandi Manúels, pabbans, er kynntur og æ ljósar verður að sonurinn Guilli er getumikill og skynugur. Hann reynir að halda öllum þráðum saman sem pabbinn megnar ekki. Leyndarmálið er opinberað sem verður til að feðgarnir ná saman, fara að vinna með tilfinningar sínar og líf fólksins heldur áfram. Sonur minn er marglaga, heillandi og litrík saga um fólk sem reynir að fóta sig í flóknum aðstæðum.

Höfundur er Alejandro Palomas. Þýðandi Sigrún Á. Eiríksdóttir. Drápa 2021.

Bless 333

Langri, góðri og fullkomlega átakalausri sögu lauk í dag, 2. febrúar, kyndilmessu, 2022. Faðir minn hafði snemma á tuttugustu öld leigt sér bankahólf nr. 333 í Landsbankanum í Austurstræti í Reykjavík. Hann fór einstaka sinnum með verðmæti – eða sótti – sem hann taldi vísara að geyma á góðum stað. Aldrei voru seðlar, demantar, gull eða mynt geymd í þessu hólfi heldur fjölskylduskjöl og tilfinningadýrmæti. Þegar faðir minn lést axlaði móðir mín ábyrgðina og leigði hólfið áfram. Svo þegar hún lést tók ég við. En bankahólf fóru úr tísku meðal fólks af minni kynslóð. Því sagði bankinn upp þessum viðskiptum við okkur hólfafólkið. Í síðasta sinn opnaði ég bankahólf foreldra minna í dag, tók fjölskylduskjal úr kassanum, kom honum svo fyrir í hólfinu að nýju og afhenti starfsmanni bankans báða lyklana, sem gengu að hólfinu.  Þar með var sögunni lokið. Lips 333 hefur lokið þjónustu sinni. 

Það var alltaf gaman að fara niður í bankahvelfingu LÍ. Hólfin brostu við komufólki og mig grunaði að það sem væri í þeim gæti sagt mikla sögu og jafnvel blóðríka. Stundum var þar neðra fólk sem fór leynt með gerðir sínar og var alvarlegt og jafnvel flóttalegt við frágang sinna hólfa. Lips í Dordrecht gerði þessi þjófheldu hólf, sem aldrei hafa verið rænd. Það væri nú kannski ástæða til að taka upp svo sem eitt innbrot í banka áður en bankinn lætur kasta burt þessum miklu hirslum? Hugmynd fyrir kvikmyndafólk? Svo ættu gullsmiðirnir að geta fengið parta til að geyma dýrmætin? Ég tók mynd af lyklunum tveimur sem voru afhentir í dag. Undir þeim er krónubudda föður míns sem hefur varðveitt lyklana síðustu áratugina.

Takk Landsbanki Íslands. Bless 333.

Kyndilmessa

Við tendrum ljós á kyndilmessu. Ljós fyrir Guð sem gefur ljósið, ljós fyrir Maríu, guðsmóðurina, ljós fyrir Guðssoninn sem er kominn og ljósið lýsir fyrir öll þau er leita heimsljóssins. Ljósið er okkur öllum tákn um samhengi lífsins og að við lifum í ljósinu. En kyndilmessa í hinum vestræna heimi er líka veðurdagur og spádagur um árferði. Groundhogday er slíkur dagur vestan hafs og meðal germanskra þjóða er víða spáð í veður sbr. húsgangurinn: „Ef í heiði sólin sést / á sjálfa kyndilmessu, / vænta snjóa máttu mest / maður uppfrá þessu.“ En kyndilmessa er ekki aðeins spádagur um veðurfar næstu mánaða, snjóalög eða vorkomu heldur dagur ljóssins. Í hinu kristna túlkunarsamhengi er kyndilmessa fjörutíu dögum eftir jól. Þar er rammi í kristninni, sem á sér reyndar mun eldri rætur í hreinsunarreglum hins hebresk-gyðinglega samfélags. Fjörutíu dagar voru mæðraorlof kvenna í Palestínu við upphaf hins kristna tímatals. Þá fóru foreldrar nýbura upp til Jerúsalem til að fara í musterið og tákna helgun, þökk og gleði yfir hinu unga lífi. Í sagnasveignum um Jesú er djúpfögur saga um Maríu og Jósef sem fóru upp til Jerúsalem til musterisferðar vegna fæðingar Jesúbarnsins. Þar hittu þau ekki bara prestana heldur líka aldurhnigið fólk sem var eins mikið í musterinu eins og þau gátu, fannst gott að vera í guðshúsinu. Anna Fanúelsdóttir var ein þeirra og Símeon annar. Símeon hafði notið þeirrar vitrunarvisku að hann skyldi ekki fara af heimi fyrr en hann hefði séð Messías. Þegar María og Jósef komu tók Símeon sveininn í fangið og hóf upp lofsönginn sem kenndur er við Símeon. „Nú lætur þú, Drottinn, þjón þinn í friði fara eins og þú hefur heitið mér því að augu mín hafa séð hjálpræði þitt, sem þú hefur fyrirbúið í augsýn allra lýða, ljós til opinberunar heiðingjum og til vegsemdar lýð þínum Ísrael.“ Þessi gjörningur var undarlegur og vakti furðu foreldranna. Kyndilmessa, candlemas, er ljóshátíð. Ljós voru kveikt og voru notuð sem tákn á föstutímanum sem fer í hönd. Ljósin voru gjarnan helguð og blessuð á þessum tíma. Ljósin minna á ljós heimins, Jesú Krist sem kom og kemur. Hinum megin föstu verður svo borið ljós í hlið himins þegar páskarnir koma, tákn um að dauðinn dó en lífið lifir. María bar barnið í musterið. Aldraða fólkið söng Guði dýrð og vitnaði um framtíðina. Ljósið var komið í heiminn. Kyndilmessa er fyrir ljóskveikingu. Tákn um ljósið sem Guð gefur.

Fyrir nokkrum árum sagaði ég niður mörg tré og gerði úr einu þeirra nokkra kyndla. Meðfylgjandi mynd er af einum. 

Jón Dalbú Hróbjartsson 75

Þá dettur mér Jón Dalbú Hróbjartsson í hug þegar ég heyri góðs manns getið. Í dag er hann 75 ára. Ég hef þekkt hann í nær sextíu ár og notið leiðsagnar og vináttu hans allan þann tíma. Hann er ekki aðeins mannkostamaður, dugmikill, framtakssamur frumkvöðull og hugmyndaríkur leiðtogi heldur líka þroskaður trúmaður. Í honum býr hrein og hrífandi þjónustulund sem nýttist prestsþjónustu hans með einstöku og eftirbreytnilegu móti. Manngæska Jóns Dalbú hefur alla tíð blasað við öllum sem hafa kynnst honum. Góðvildin er honum gefin í vöggugjöf og uppeldi en hann ræktaði með sér einstaka mannvirðingu sem hrífur alla sem sjá gullið í fólki. Því hefur Jón Dalbú verið svo elskaður og farsæll í einkalífi og opinberum störfum. Hann þjónaði sem prestur í fjörutíu ár og gegndi afar mörgum ábyrgðarstörfum. Vegna mannvirðingar hans hefur hann alltaf lyft öðrum og lofað. Með hug og dug samfara mannelsku hefur Jón Dalbú alla tíð komið málum áfram og hvatt til stórvirkja. Kona Jóns Dalbú er Inga Þóra Geirlaugsdóttir, sömuleiðis einstök mannkostakona. Takk og til hamingju með daginn kæri vinur.  

Myndin er tekin þegar prestaskipti urðu í Hallgrímskirkju í lok árs 2014. Jón Dalbú lét af störfum eftir 17 ára þjónustu í Hallgrímskirkju  og ég hóf þjónustu 1. desember 2014. 

Ástríki

Róbert, prestur, kom til Íslands í fyrsta sinn eftir fjörutíu og fjögur ár erlendis til að jarðsyngja vinkonu sína. Saga hans og vina hans er um leitina að merkingu, hamingju, tengslum, sambandi og ást. Enginn er dæmdur í þessari sögu heldur eru mismunandi aðstæður fólks túlkaðar af hispurslausri mannúð. Í henni er hlý mýkt þótt söguhetjurnar hafi gert margt misjafnt í aðkrepptum aðstæðum.

Bókin er ástrík. Hún  er margþátta spennusaga en líka þroskasaga og glæpasaga. Flækjan er þétt. Allt á sér samhengi og aðrar og dýpri skýringar en hinar yfirborðslegu. Fjölskyldan á Sóleyjargötunni er væn og heimilið athvarf vinum dótturinnar á heimilinu. Bernska vinanna var erfið. Annar hafði misst föður og hinn fór á mis við pabba. Föðurleysið í sorg eða fjarveru er eitt af íhugunarstefjum þessarar bókar. Við Njarðargötu býr þýsk móðir annars vinanna og með mörg leyndarmál, mikla upphafssögu og líka ástarsögu. Svo er það MR, JB-vískí menntaskólaáranna og mótun í flóknum og ógnandi aðstæðum. Miðbæjarlífið var og er alls konar. Framtíð ungmennannan mótaðist af ytri og innri rökum. Einn fór eftir stúdentsprófið til náms í kaþólskum prestaskóla í München, annar í lögfræði og ein í listnám. Svo eru sögur allra listilega fléttaðar saman. Sagan er að sumu leyti menningarsaga Reykjavíkur í hálfa öld.

Mér þótti áhugavert að fylgjast með söguhetjunum fara um Þingholtin, á Sóleyjargötu, í hús við Njarðargötu, í kirkjur bæjarins og líka Hallgrímskirkju. Þau fóru í ferðir að styttum bæjarins. Vera klerksins í Heidelberg færði lykt af rósum í vit mín og minningar frá skóladögum hrísluðust um mig þegar ég reyndi að staðsetja prestinn í samhengi þeirrar dásamlegu borgar. Eldamennska kemur oft við sögu og skemmti matmanninum en svo urðu afkomendur kokkanna vegan! Vínþekking er orðinn fasti í íslenskum bókum og svo er í þessari líka það ríkulegur húmor að sommelierinn skýrir út bragðgæði appelsíns og malts jólanna.  Miðbæjarlýsingar eru okkur hagvönum í þessum hluta Reykjavíkur gleðigjafar. Göturnar eru þræddar, farið um Hljómskálagarð, Hólavallagarð, að Köllunarstyttunni við Landakotskirkju og Pomona skoðuð í Einarsgarði, kaffihúsin nýtt í Miðbænum sem og skautasvellið á Ingólfstorgi.

Eftir „fjörutíuogfjögur“ ár kemur klerkur svo “heim ” – til baka til að embætta en líka kveðja vinkonu sína, leita að svörum og gera upp. Við kynnumst persónum í gegnum bréfin sem gengu á milli og smátt og smátt opnast stór og mikil saga, mikil leyndarmál, djúptæk átök, miklar tilfinningar og flókin örlög sem eru túlkuð og skýrð. Vel mótaðar persónur og eðlileg viðbrögð þeirra í ólíkum hlutverkum sem smellpassa.

Sagan fór vel af stað og hreif. Ég undraðist hvernig hverju laginu á eftir öðru var svipt frá og óvæntar víddir opnuðust og skýrðu jafnframt af hverju það gerðist sem fyrr var kynnt í bókinni. Sem besti reyfari hélt sagan spennu allt til enda. Síðustu blaðsíðurnar galopnuðu, flækjan gekk upp, púslið lagði sig og heildarmyndin blasti við og öðru vísi en búast mátti við.

Þetta er saga um ást. Útleitandi ást og innleitandi líka. Ástarsókn einstaklinga er vel teiknuð og líka þessi þvert á mæri. Svo er ást Guðs einn af ástarþráðum sögunnar. Manneskjan verður ekki bara til við mök heldur í flóknum vef samskipta. Samskipti eiga sér einnig mörk. Sum eru brotin í þessari sögu og þá verða átök, blóð rennur og sorglegir atburðir verða. Slíku tengist þögn, hylming, ótti, kaupskapur, misnotkun, ofbeldi, þjónusta, fyrirgefning og önnur stórstef mennskunnar og þar með kristninnar. Óvæntasta bók ársins sem ég mæli með. Bókaútgáfan Ástríkur gefur út þessa ástríku bók. Til hamingju Steindór Ívarsson. Ég bíð eftir næstu bók.