Greinasafn fyrir merki: Sigurjón Björnsson

Erasmus – upphefð og andstreymi

Vinur minn mælti með Erasmusi og ég varð hissa. „Meinarðu þennan sem kenndur var við Rotterdam?“ spurði ég. Og svarið var „já – í útgáfu Stefan Zweig.“ Ég vissi ekki af þýðingu þeirrar bókar en ábendingin fór á bak við betra eyrað. Svo brosti Zweig-Erasmus feimnislega við mér á bókmarmarkaðnum í Laugardalshöll. Og ég keypti kverið og fór að lesa um heimsmanninn, lærdómsjöfurinn, gunguna og friðflytjandann Erasmus. Hann átti vini í viskusetrum Evrópu og gat – þrátt fyrir munkaheftingarnar – flakkað á milli góðbúa spekinnar og valdasetra álfunnar, látið ljós sitt skína, heillað fróðleiksþyrsta og lagt gott til skilnings og tengsla. Svo opnaði hann mörg hlið fyrir Martein Lúther og aðra jöfra siðbótarinnar á sextándu öld og breytti þar með heiminum.

Stefan Zweig skrifar fjörlegan, litríkan en einnig upptjakkaðan texta um persónuvíddir Erasmusar og líka gunguskap hans. Hann lýsir heilsufari meistarans, viðkvæmni, kvíða og hugleysi, fræðasókn hans, vinnusemi og löngun hans til að láta gott af sér leiða. Svo fáum við innsýn í lagskiptingar miðaldasamfélagsins, áhrifavalda, menningarstjóra og hvernig búblur Evrópu þess tíma voru. Zweig teiknar vel persónugerð Erasmusar og hvernig hann myndar andstæðu við persónu Marteins Lúthers sem heillaðist af ýmsu því sem Erasmus hafði skrifað og kynnt. Mér þóttu lýsingar Zweig á Erasmusi skemmtilegri, trúverðugri og merkilegri en það sem hann skrifaði um Lúther. Lúthersprófíllinn er eiginlega aðlagaður þörfum Erasmusarlýsingarinnar. Erasmusi er lýst fyrst og Lúther síðan sem andstæðu til að styrkja eða dýpka lýsingu á Erasmusi. Bókin er ekki sagnfræðirit heldur ætlað að vera fjörleg og litrík túlkun. Hún er bókmenntaverk og jafnvel áróðursrit. Það er styrkur verksins að lýsa tveimur mikilvægum áhrifavöldum í Evrópu á fyrri hluta sextándu aldar til að skýra gerjun og þróun evrópskra stjórnmála, átaka og þar með menningarsögu næstu alda.

Stefan Zweig var af gyðingaættum, vinur margra gáfu- og menningarljósa Evrópu á fyrri hluta 20. aldar og meðal þeirra var Sigmund Freud. Uppgangur nasismans eftir fyrri heimsstyrjöld magnaði bál gyðingahaturs í Evrópu. Stefan Zweig varð ekki vært í álfunni, fannst hann missa heimili sitt og var eiginlega flæmdur að heiman eins og fjöldi annarra. Hann varð landflótta og lífsflótta og framdi að lokum sjálfmorð árið 1942. Hvernig líður manni sem er sviptur æru, manngildi og heimili? Í harðnandi menningardeiglu Evrópu var eiginlega óhjákvæmilegt að hann íhugaði ofbeldissókn manna og átök, hatur, andúð, frið, menntun, menningu og ólíka gerð mannfólksins. Í Erasmusi sá Zweig húmanista, boðbera friðar, mann lausna og sátta og fyrirmynd um margt það besta sem heimur og mannkyn þarfnast. Erasmus var merkileg og þörf fyrirmynd fyrir sextándu öldina en jafnvel líka þá tuttugustu og samtíma okkar. Með vísan í þróun stjórnmála samtíðar sinnar furðaði Zweig sig yfir hrottalegum kenningum Machiavelli í stjórnhörkuritinu Prinsinum. Af hverju svona hryllingsboðskapur og köld stjórnargrimd en ekki mildi og friðarsókn Erasmusar? Morðæði Pútíns gagnvart rússneskum og úkraínsku borgurum, Hamasæðið og Netanyahu-hryllingurinn þessara daga kallar fram stóru spurningarnar um menntun, menningu, frið og réttlæti. Það eru spurningarnar sem lágu svo þungt á Stefan Zweig og kölluðu fram bókina um Erasmus. Því er hún ekki aðeins um sögupersónur heldur almennt um lífsbaráttu fólks, eigindir, viðbrögð og gildi. Stórmerkilegt rit, ekki gallalaust og vissulega skrumskæling á ýmsu í persónum og söguhetjum ritsins en ávirkt og lyftir upp miklu fleiru en málum siðbótartímans og 16. aldar. Erasmusbókin er um okkur líka, fólk á 21. öld sem glímir við rosalega mengun, vond stjórnmál, þegjandahátt menntafólks og getuleysi leiðtoga þjóða. 

Lof sé Sigurjóni Björnssyni sem þýðir Erasmus – upphefð og andstreymi svo vel og Skruddu fyrir útgáfuna. Takk Ómar fyrir að mæla með bókinni. Hún situr í mér. Erindið er blóðríkt og klassískt.

Meðfylgjandi kennimynd er málverk Holbein af Erasmus frá Rotterdam. Myndin er einnig notuð á framhlið íslensku útgáfunnar.

31. mars, 2024.