Guð blessi Ísland

Textar þessa sunnudags eru áleitnir og tala beint inn í tíu ára afmæli bankahrunsins. Í guðspjallinu er sagt frá manni sem var í miklum vandkvæðum, en Jesús líknaði honum og reisti hann á fætur til nýs lífs. Pistillinn hvetur til endurnýjunar og í lexíunni segir: „Fáið ykkur nýtt hjarta og nýjan anda. Hvers vegna viljið þið deyja … Snúið við svo að þið lifið.“ Þetta er kjarnyrt samantekt á erindi kristninnar í veröldinni, verkefni hvers manns og orð í tíma töluð þegar hugað er að uppgjörum áfalla – já allra hruna heimsins.

Geir og Guð

Í gær voru rétt tíu ár frá því sá merki stjórmálamaður Geir Haarde, forsætisráðherra, flutti áhrifaríka ræðu 6. október árið 2008. Ræðan var öll birt á forsíðu Fréttablaðsins í gær. Erindi hennar er skýrt og Geir endaði ræðu sína með því að segja: „Guð blessi Ísland.“ Íslenskir stjórnmálamenn hafa ekki ofnotað Guð í kveðjum. En það er skýr og jákvæð kveðja að biðja mönnum blessunar Guðs. Og hefur aldrei skaddað nokkurn mann – en alltaf bætt. Amma mín og móðir sögðu við alla, sem þær kvöddu: „Guð blessi þig.“ En þessi blessun Geirs Haarde varð eins og táknsetning um ótrúlega atburði þessara haustdaga fyrir tíu árum, þegar bankakerfi Íslands hrundi.

Ekki gjaldþrota á meðan

Stórar stundir brenna minningu í huga. Og Guð blessi Ísland – kveðja Geirs var „aha-stundin“ þegar raunveruleiki hrunsins dagaði á okkur og brenndist í vitund flestra. Mörg eigum við sterkar minningar, sem tengjast þessum tíma. Við kona mín vorum vorum á leið til útlandi og líka uggandi um stöðu bankamálanna. Og hún hringdi í starfsmann í þjónustudeild bankans og tjáði áhyggjurnar. Hann sagði við hana vinalega og hughreystandi: „Elín mín, hafðu engar áhyggjur. Þó þú farir til útlanda verður Kaupþing ekki gjaldþrota á meðan.“

Þegar við lentum í Barcelona opnuðu margir símana sína á leiðinni út úr flugvélinni. Og það varð mikið uppnám í landgangnum, hróp og köll. Glitnir hafði fallið og ríkið tekið yfir reksturinn meðan við flugum í suðurátt yfir úthafið. Ræða Geirs Haarde hitti okkur og við fylgdumst með fréttum og svo féll Landsbankinn. Daginn, sem við fórum heim, féll Kaupþing. „Elín mín, hafðu engar áhyggjur. Þó þú farir til útlanda verður Kaupþing ekki gjaldþrota á meðan.“ Jú, Kaupþing féll, allir stóru bankarnir féllu. Fjármálakerfi Íslands hrundi. Tugir þúsunda urðu fyrir fjárhagstjóni, samfélagið lemstraðist, stjórnálaumræðan eitraðist og þjóðin varð fyrir áfalli. Guð blessi Ísland.

Álagahamur peninganna

Og nú lítum við til baka og rifjum upp. Og það er mikilvægt að fara yfir tilfinningarnar, þó sumar séu sárar og íþyngjandi. Eins og mörg önnur hlustaði ég – fyrir hrun – á helstu fjármálasérfræðinga þjóðarinnar lofa getu, fjárfestingasnilld, íslenskra útrásarmanna. Flestar trommur voru slegnar til að magna trúna á velgengnina. Forsetaembættið var notað og stjórnmálamennirnir voru líka málaliðar. Blekkingarvefurinn varð álagahamur Íslands. Það var nístandi sárt þegar háskaleikurinn endaði með skelfingu og í ljós kom að fataskápar keisaranna voru tómir. Þeim, sem treyst var, brugðust, hvort sem það var með vilja eða vegna álaganna. Eldarnir loguðu, harmurinn var mörgum mjög þungur. Við prestarnir heyrðum margar sorgarsögur fólks í miklum vanda.

Hliðrun – veiklun

Vandinn var vissulega margþættur: Oflæti í fjárfestingum, getuleysi stjórnmálastéttarinnar, hræðsla embættismanna, háskólafólksins og líka kirkjunnar. Teflonhúðin var álagayfirborð stétta og hópa. Guð blessi Ísland. En gerðir eða getuskortur einstaklinga eða hópa er ekki eina ástæða hrunsins heldur fremur hliðrun í menningunni, sem stóð í langan tíma. Að fjármálamenn, stjórnmálamenn, embættismenn og við öll skyldum lenda í hruninu var niðurstaða þróunar í heila öld. Gamla Ísland var ekki fullkomið, en í menningu okkar hafði kristin mannsýn stýrt meðferð fjármuna. Raunsæji var um styrkleika, en líka breiskleika fólk. Fyrr og síðar hafði verið hamrað á í prédikun, bókum og stjórmálum, að menn væru samfélag en ekki samsafn einstaklinga, um mikilvægi þess að standa með náunganum og öðru fólki. Samstaðan var aðall menningar okkar. Um aldir var hamrað á, að peningar væru ekki markmið, heldur tæki til að þjóna öðrum. Gróði væri ekki í eigin þágu, heldur til að bæta líf heildar. Við erum ekki eyland fyrir okkur sjálf – eða fyrir fjölskyldu okkar og ættmenni. Við erum ábyrg fyrir velferð þeirra sem hafa lítið, þeirra sem eru líðandi – allra. Guð blessi þig merkti alltaf á fyrri tíð að Guð hefði áhuga á velferð allra. Það var þessi sýn og vitund, sem hafði spillst í vaxandi velsæld tuttugustu aldar Íslands. Hið trúarlega var alla liðna öld æ ákveðnar flæmt úr almannarýminu og lokað inn í kirkjuhúsunum og helst á skrifstofum prestanna. Íslensk þjóð gleymdi, að Guð blessar ekki bara þjóðkirkjuna, heldur vill efla uppeldi og blessa atvinnulíf, banka og móta útrásarvíkinga. Siðferðisveiklun samfélags er vond menningarhliðrun. Og þegar Geir Haarde sagði Guð blessi Ísland hljómaði það ekki eins og góð kveðja um að við öll nytum góðs, heldur fremur eins viðvörunaróp. „Nú er allt komið til fjandans og búið ykkur undir það versta.“

Blessun en frelsi manna

Við getum spurt: Blessaði Guð Ísland? Ég segi já. Guð var og er með. Við treystum frekt, gerðum mistök, fórum of hratt, trúðum bláeyg og hrundum öll. En alltaf var Guð þó með. Guð er alltaf nærri, Guð blessar einstaklinga, gefur líf, ljós, mat og drykk, vind og sól, veröld til að lifa í – og róttækt frelsi til starfa og að gera gott. En þótt Guð blessi allt og alla tekur Guð aldrei frá okkur ákvörðunarvaldið, hið rótttæka frelsi til að ákveða okkar stefnu, vinnu, fjárfestingar, líf og lífshætti. Við getum ákveðið, að halda í þau gildi sem hafa reynst vel í samfélagi manna um aldir. En við getum líka ákveðið að sleppa þeim og bara græða og grilla.

…svo að þið lifið

Geir Haarde sagði í ræðunni merku: „Ég hvet ykk­ur öll til að standa vörð um það sem skipt­ir mestu máli í lífi hvers ein­asta manns, standa vörð um þau lífs­gildi sem stand­ast það gjörn­inga­veður sem nú er að hefjast…  …Guð blessi Ísland.“

Bæn Geirs virkaði.  Björgunaraðgerðirnar skiluðu ótrúlegum árangri. Víða hefur verið tekið faglega og vel á málum. En við erum ekki búin að vinna grunnvinnuna við að ákveða hvað við ætlum að gera í siðferðisefnum okkar, menningarhliðrun og uppeldi barnanna. Guð blessi Ísland gekk eftir í flestu hinu ytra. En það er okkar að vinna með blessunina í okkar lífi og okkar menningu. Það varðar nýjan anda, nýtt hjarta.

Ég kalla eftir þeim nýja anda, því nýja hjarta. „Snúið við svo að þið lifið.“ Guð blessi Ísland og í Jesú nafni – Amen.

Hallgrímskirkja 7. október, 2018. 19. sunnudagur eftir þrenningarhátíð. Tíu ára afmæli hruns.

Lexía: Esk 18.29-32
En Ísraelsmenn segja: „Drottinn breytir ekki rétt.“ Er það breytni mín sem ekki er rétt, Ísraelsmenn, eruð það ekki öllu fremur þið sem breytið ekki rétt? Því mun ég dæma ykkur, Ísraelsmenn, sérhvern eftir sinni breytni, segir Drottinn Guð. Snúið við, hverfið frá öllum afbrotum ykkar svo að þau verði ykkur ekki að falli. Varpið frá ykkur öllum þeim afbrotum sem þið hafið framið. Fáið ykkur nýtt hjarta og nýjan anda. Hvers vegna viljið þið deyja, Ísraelsmenn? Því að mér þóknast ekki dauði nokkurs manns, segir Drottinn Guð. Snúið við svo að þið lifið.

Pistill: Ef 4.22-24
Þið eigið að hætta hinni fyrri breytni og afklæðast hinum gamla manni sem er spilltur af tælandi girndum en endurnýjast í anda og hugsun og íklæðast hinum nýja manni sem skapaður er í Guðs mynd og breytir eins og Guð vill og lætur réttlæti og sannleika helga líf sitt.

Guðspjall: Matt 9.1-8
Þá sté Jesús í bát og hélt yfir um og kom til borgar sinnar. Þar færa menn honum lama mann sem lá í rekkju. Þegar Jesús sá trú þeirra sagði hann við lama manninn: „Vertu hughraustur, barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar.“ Nokkrir fræðimenn hugsuðu þá með sjálfum sér: „Hann guðlastar!“ En Jesús þekkti hugsanir þeirra og sagði: „Hví hugsið þið illt í hjörtum ykkar? Hvort er auðveldara að segja: Syndir þínar eru fyrirgefnar, eða: Statt upp og gakk? En til þess að þið vitið að Mannssonurinn hefur vald á jörðu að fyrirgefa syndir þá segi ég þér,“ -; og nú talar hann við lama manninn: „Statt upp, tak rekkju þína og far heim til þín!“Og hann stóð upp og fór heim til sín. En fólkið, sem horfði á þetta, varð óttaslegið og lofaði Guð sem gefið hafði mönnum slíkt vald.

Lax Ottolenghi og Bridget Jones

Þetta var laxinn sem Bridget Jones var lofað frá Ottolenghi (í Bridget Jones’ baby). Var reyndar ekki á matseðlinum þegar myndin var gerð  en uppskriftin var bara búin til þegar myndin var sýnd; bragðgóður, heilsusamlegur og einfaldur réttur. Dásamlegur í andstæðum sínum. Eftir tvær ferðir á staði Ottolenghi-staði í London í októberbyrjun 2018 kíkti ég í Simple-bókina og eldaði þennan rétt fyrir mitt heimalið. Dásamlegur réttur og fékk mikið lof. Ég laga rétti að eigin bragði og fordómum og þetta er ekki alveg kórréttur Ottolengi heldur tilbrigði við uppskriftina í Simple. Perlubygg er ljómandi með þessum lukkurétti. 

Fyrir fjóra.

Hráefnið

100 gr kúrenur eða litlar rúsínur

4 laxaflök – ca 800 gr 

100 mk ólífuolía

4 sellerístönglar (laufið af þeim notað til skreytingar). Skorið í cm-langa bita.

30 gr furuhnetur grófsaxaðar

40 gr capers (og tvær matskeiðar af safanum)

40 gr grænar ólífur, saxaðar í ca 1 fersm smælki

Ofurlítið af saffran-þráðum (1/4 tsk) sett í 1 msk af heitu vatni

20 gr steinselja – grófsöxuð

1 sítróna, hluti saxaður til að fá 1 tsk og pressa safa í 1 tsk

Salt og pipar, limepipar

Matseldin

Setjið kúrínur/rúsínu í sjóðandi vatn og leyfið að vatnsmettast í amk tuttugu mínútur.

Setjið tvær teskeiðar af ólíuolíu, salt og pipar á flökin.

75 m af ólífuolíu í pönnu við háan hita. Sellerí og furuhnetur á pönnuna og steikja í 4-5 mínútur en ekki líta á annað, því allt gæti brunnið. Slökkva svo undir pönnunni.

Blanda saman kapers og capersvökvann, ólífurnar, saffran og saffranvatnið og slettu af salti. Þerra vatnið af kúrínunum/rúsínum og bæta þeim við, sem og steinselju, sítrónuvökvanum og niðursöxuðu sítrónunni.

Setja afganginn af olíunni (eða smjöri sem ég nota gjarnan til fisksteikingar) – á steikarpönnuna.  Þegar pannan er oðin heit er laxinn steiktur, fyrst í þrjár mín roðmegin. Minnka pönnuhitann og snúa flökunum og steikja 2-4 mínútur í viðbót. Taka af pönnunni.

Setja laxinn á diska og setja allt hráefnið yfir. Og skreyta með sellerílaufinu.

Verði ykkur að góðu. 

Þökkum Drottni því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu. Amen

 

Verði ljós

 

 

Í Hallgrímskirkju er ljósberi með sætum fyrir bænakerti. Þangað leitar fólk og kveikir á kertum, vitjar ástvina í huganum og biður bænir. Á hnattlaga ljósberanum eru sæti fyrir 61 bænakerti. Í honum miðjum er stórt kerti sem er tákn fyrir heimsljós Guðs, Jesú Krist.

Hallgrímskirkja er ekki aðeins mest myndaða hús og fjölsóttasti ferðamannastaður landsins, heldur helgistaður alls heimsins. The Guardian útnefndi Hallgrímskirkju sem eitt af tíu mikilvægustu íhugunar- og bænahúsum veraldar. Alla daga situr fólk í kyrru kirkjunnar og íhugar og biður. Bænahnötturinn í kirkjunni laðar að og fljótlega eftir opnun kirkjunnar að morgni loga ljós í öll sætum ljósberans. Þá hefur fólk tyllt kertum sínum á aðra hluta ljósberans. Vegna fjöldans, sem reynir að koma ljósum fyrir, hafa kerti fallið niður á gólf. Það er fólki sárt að sjá bænaljósin sín hrynja. Og það er líka mikil vinna fyrir starfsfólk kirkjunnar að þrífa gólf og stjaka. Spurningarnar hafa oft leitað á starfsfólkið. Var bænahnötturinn orðinn of lítill?

Velgerðarfólk Hallgrímskirkju gaf kirkjunni ljósberann í ársbyrjun 1996. Hönnuður var Gunnsteinn Gíslason, myndlistarmaður og Þuríður Steinþórsdóttir, járnsmiður, vann stjakann. Í gjafabréfi segir: „Víða höfum við ferðast og ávallt á feðrum okkar leitum við til kirkju og hlýðum messu eða sitjum í kyrrð og þökkum þá miklu gleði sem börnin okkar þrjú hafa veitt okkur. Á þessum stundum höfum við kveikt á litlum kertum og látið á bænastjaka sem þar hafa verið. Við hjónin höfum margt að þakka. Því gleður það okkur mikið að ljósberinn fái að standa í Hallgrímskirkju sem þakklætisvottur okkar fyrir þá miklu gæfu sem börn okkar hafa fært okkur. Við biðjum þess jafnframt að margir finni sér stund til að tendra ljós á stikum hans og að þessi litlu ljós megi veita birtu í sál á tímum sorgar og hlýju þakklætis á tímum gleði.“

Ljósberar eru víða til í kirkjum og fólk staldrar við og hugsar um líf sitt og sinna og biður fyrir fólki. Hnattlaga ljóshnettir þjóna sama hlutverki og ljósberi Hallgrímskirkju.

Ljósberinn er Hallgrímskirkjufólki kær og enginn hefur viljað breyta honum þótt aðsókn og hreingerningavinnan væri mikil. Til að þurfa ekki að láta gera stærri ljóshnött smíðaði Járnsmiðja Óðins járnbaug undir stjakann. Hlaðbær Colas gaf marga poka af ljósum mulningi sem var hellt í bakkann. Flestum kom á óvart hve ljósberinn naut þessa nýja samhengis, eiginlega lyftist í rýminu. Sandmulningsbaugurinn rímaði vel við fótstykki Kristsstyttu Einars Jónssonar.

Hvernig brást fólk svo við sem kom í kirkjuna? Það var spennandi að fylgjast með hvernig ljósafólkið færi að. Þegar flest kertasætin voru fullnýtt var enginn sem tyllti aukaljósum á ljósberann eins og áður var. Kertunum var komið fyrir í sandinum. Sumir mynduðu handarfar og komu ljósinu sínu þar fyrir. Aðrir teiknuðu hjarta í sandinn sem varð eins og amen við bænirnar. Hin nýja undirstaða ljóshnattarins kemur til móts við þarfir ljóssækins bænafólks. Fleiri ljós, fleiri bænir, aukið þakklæti og meiri birta. Velkomin í Hallgrímskirkju. Verði ljós.

 

 

 

 

 

Af hverju er Guð ekki í tísku?

Ég talaði við vinkonu mína í vikunni. Hún sagði mér að hún hefði farið að bera kross um hálsinn og hefði fengið harkaleg viðbrögð við þessum krossburði. Nánast verið skömmuð, eins og hún hefði gert eitthvað rangt! Viðbrögðin hefðu verið slík að hún hefði farið yfir mörk vina sinna. Kross hennar vekti álíka viðbrögð eins og hún væri múslimakona með búrku! Kross, sem tákn, allt í einu óleyfilegur? Er trú jaðarsett? Er fólk sem staðsetur sig innan kristinnar trúarhefðar allt í einu orðið geislavirkt – menningarlega hættulegt? Trú sem nútíma líkþrá? Eru syndir klerka og trúmanna slíkar að vinsældir Guðs hafi hrapað og fólk, sem merkir sig sama trúartákni og er í þjóðfánanum sé jaðarsett? Vinkona mín brást við áreitninni með því setja á sig annan kross í viðbót. Hún ber því tvo krossa!

Merkingarferð í opnu rými

Eitt er trú einstaklings og annað opinber staður. Hallgrímskirkja er ekki á jaðrinum heldur í miðju borgarlífs og líka logó Reykjavíkur og túrisma. Kirkjuturninn er táknmynd um uppstefnu alls sem íslenskt er. Á hverjum degi kemur fjöldi fólks í kirkjuna, raunar þúsundir. Þetta fólk kemur ekki aðeins af því kirkjan er ferðamannastaður, ljóshús eða hreinn helgidómur með bjartan hljóm. Það kemur ekki aðeins af því að hér eru listaverk, gott orgel og fínn útsýnisstaður. Flestir koma vegna þess að þetta fólk er á ferðalagi – á lífsleið hamingjunnar. Og slíkt ferðalag varðar ekki aðeins skemmtilegar upplifanir eða fallegt umhverfi, heldur það sem rímar við djúpa þrá hið innra. Þetta sem trúmenn hafa kallað hið heilaga og aðrir merkingu eða tilgang lífsins.

Á hverjum degi sest fólk niður í kirkjunni til að njóta kyrrðarstundar. Margir íhuga og biðja, flestir hugsa um líf sitt og sinna. Margir fara svo og kveikja á kerti, koma fyrir á ljósberanum og biðja bæn. Hallgrímskirkja er eitt af tíu mikilvægustu íhugunarhúsum heimsins er mat the Guardian. Hér er gott samband – í allar áttir, til hliða, inn á við og út á við. Og við trúmenn vitum að hér er ekki aðeins gott samband við innri mann heldur frábært samband við Guð. Þetta er heilagur staður.  

Hvað er heilagt?

Hvaða hugmyndir eða skoðanir sem við höfum um Guð og trúarefni eigum við öll löngun til þess sem er heilt, friðsamlegt, viturlegt og lífgefandi. Það er þráin eftir hinu heilaga. Þar hittir Guð okkur.

Ég hef mætur á rithöfundinum Karen Armstrong sem hefur skrifað af viti og þekkingu um trúarbrögð, vanda þeirra og vegsemd. Í bókinni Jerusalem, one city, three faiths ræðir hún m.a. um að meðal okkar, Vesturlandabúa, sé Guð kominn úr tísku. Af hverju? Jú, í viðbót við makræðið og efnishyggjuna hafi of margir trúmenn verið slæmir fulltrúar Guðs, notað Guð til að réttlæta eigin geðþótta, eigin vilja, þarfir, pólitík og hernað. Reynt að hagnýta sér Guð. Trúmenn hafi komið óorði á Guð. Þeirra vegna hafi Guð hrapað á vinsældalistanum. Og við getum bætt við – vegna frétta liðinna vikna – að prestar og áhrifamenn í menningarlífi – hafa gerst sekir um skelfilega glæpi, m.a. ofbeldi gegn börnum. Þeir hafa komið óorði á Guð, átrúnað og trúfélög. En þrátt fyrir að spilltir prestar séu til, illskan teygi sig víða og Guð fari úr tísku heldur manneskjan þó áfram að leita að hinu heilaga.

Armstrong bendir á, að allir menn leiti að hinu stórkostlega í lífinu. Margir reyna eitthvað einstakt í náttúrunni, aðrir eigi sínar stærstu stundir í faðmi ástvina. Listin er mörgum uppspretta unaðar. Allir leita að samhengi, sátt, að því sem sefar dýpstu þrá hjartans og veitir samhengi fyrir líf, þerrar sorgartárin og veitir tilgang. Þetta er það sem margir kalla hið heilaga.

Og hvernig sem trúfélögum reiðir af og Guð fellur á vinsældakvarðanum geta menn aldrei slitið þörfina fyrir heilagleikann úr sálinni, eytt strikamerki hins heilaga úr anda sínum. Ef myndin af Guði hefur orðið smærri í samtímanum vegna mannlegrar spillingar brýtur mannsandinn þó ávallt af sér fjötra og leitar hins stórkostlega. Við leitum alltaf út fyrir mörk og skorður. Við þolum ekki fangelsi hins lágkúrulega, segir Armstrong. Og þetta heillar guðfræðinginn í mér: Hið heilaga er heillandi. Við megum gjarnan spyrja okkur gagnrýnið: Er Guðsmynd okkar of smá? Eru kreddur okkar til hindrunar? Erum við of lítillar trúar? Viljum við frekar hafa Guð í vasanum, en að opna fyrir stórkostlegum Guði, sem gæti ógnað eða sprengt heimatilbúið öryggi okkar og smáþarfir?

Guð á ferð

Efasemdarmenn aldanna hafa haft nokkuð til síns máls. Við náum aldrei að galopna sálar- og lífsgáttir okkar nægilega mikið gagnvart veru og merkingu Guðs. Mál okkar megnar ekki að lýsa Guði nema með líkingamáli sem stækkar skynjun, en nær þó aldrei að lýsa fullkomlega hinu guðlega. Engin kirkja, kirkjudeild eða átrúnaður megnar að umfaðma algerlega hið heilaga. Hið heilaga er alltaf meira, hið heilaga er alltaf í plús. Kannski er erindi okkar trúmanna hvað brýnast að fara að baki Guði – þ.e. okkar eigin túlkunum og til hins heilaga? Það merkir að fara að baki einföldum hugmyndum og kenningum og opna – svo hinn heilagi fái að snerta okkur í líkþrá huga eða líkama okkar. Og Heilagleiki Guðs færir sig um set þegar trúmenn bregðast og spilling læðist inn í huga fólks og musteri. Guð er ekki fasteign kirkjunnar – heldur Guð á ferð, lifandi Guð.

Og nú ert þú á ferð? Hvað er þér heilagt? Og hver er vandi þinn? Meistari, miskunna þú oss kölluðu hin sjúku í texta dagsins. Þegar þú biður um hjálp, leitar að merkingu, opnar og kallar í djúpum sálar þinnar ertu á heilögum stað, í heilögum sporum. Krossar eða ekki krossar, kirkjur eða ekki kirkjur, gamlar hugmyndir eða nýjar – Guð er þar sem fólk er, púls sköpunarverksins. Heilagleiki Guðs hríslast um veröldina, guðlaus maður nær líka sambandi. Vinsældafall Guðs hefur ekkert með Guð að gera heldur fremur flekkun manna. Guð er ekki fortíð og stofnun heldur framtíð og líf. Það erum við, sem köllum á hjálp en ekki Guð. Guð er ekki háður mönnum heldur menn Guði. Erindi Jesú varðar mannelsku, að Guð elskar, styður, hjálpar. Guð er alltaf lífsmegin – nærri okkur öllum.

Hugleiðing í Hallgrímskirkju 2. sept. 2018. Norrænar Maríusystur í kirkju ásamt söfnuði.

+ Lovísa Bergþórsdóttir +

Lovísa var traust og hlý. Þegar ég kynntist Lovísu, börnum hennar og fjölskyldu fylltist ég gleði og þakklæti yfir hlýjunni í samskiptum, virðingu í tengslum og samstöðu hennar með fólki og góðu mannlífi. Þegar maðurinn hennar Lovísu, Jón Pálmi Þorsteinsson, lést fyrir liðlega þremur árum íhuguðum við í útför hans trú og tengsl. Og traust eða skortur trausts er aðalmál í lífi allra, í samfélagi og í vef heimsbyggðarinnar. Einn merkasti sálfræðingur Bandaríkjamanna á tuttugustu öld, Erik Eriksson, setti fram merka kenningu um traust, og sú viska hafði mikil áhrif í fræðaheiminum og hafði áhrif á uppeldismál, skólaskipan, sálfræðimeðferð, kirkjustarf og aðrar greinar og víddir mannheima. Erikson dró saman efni úr umfangsmiklum rannsóknum og hélt fram að til að barn njóti eðlilegs þroska þurfi það að hafa tilfinningu fyrir að andlegum og líkamlegum þörfum þess sé fullnægt og að veröldin sé góður og viðfelldin staður. Þegar að þessara þátta er gætt getur orið til frumtraust – sem er afstaða til lífsins, fólks, veraldar og lífsins.

Manstu eftir hve Lovísu var annt um að öllu fólkinu hennar liði vel? Mannstu að henni var velferð fólks aðalmál? Hún vildi að líf ástvina hennar væri traust og hamingjuríkt. Traust er veigamikill þáttur í trú – og trú verður aldrei skilin, ræktuð eða þroskuð nema í anda trausts. Trú deyr í vantrausti. Og þegar dýpst er skoðað er mál Guðs að tryggja traust fólks til að lífið lifi og þroskist – að allir fái lifað við óbrenglaða hamingju. Það var erindi Jesú Krists í veröldinni að treysta grunn tilveru manna og alls lífs – að menn megi lifa sem börn í traustu samhengi.

Upphafið í Þingholtunum

Lovísa Bergþórsdóttir fæddist í Reykjavík inn í haustið þann 7. september, árið 1921. Og hún lést þann 14. ágúst síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Bergþór Vigfússon húsasmíðameistari og Ólafía Guðrún Einarsdóttir, húsfreyja. Hún var nefnd Sigríður Lovísa við skírnina, en það voru svo margar Sigríðar fyrir í fjölskyldunni, að hún notaði helst Lovísunafnið. Sigríðarnafnið hvarf vegna notkunarleysis. Fjölskylda Lovísu bjó í húsinu nr. 12 við Þingholtsstræti, rétt hjá Menntaskólanum í Reykjavík og KFUM-og K. Bræður Lovísu voru: Sigursteinn, sem lést ungur, og Einar Sigursteinn, en hann lést fyrir þrjátíu árum. Einar var árinu eldri en Lovísa.

Miðbærinn og Þingholtin voru skemmtilegur uppvaxtarreitur á milli-stríðsárunum. Lovísa naut góðra uppvaxtarskilyrða, hlýju og kærleika. Hún fylgdist vel með umhyggju foreldranna fyrir samferðafólki og hve vökul móðir hennar var gagnvart kjörum og aðstöðu fólks. Og Lovísa lærði gjafmildi, umhyggju og ábyrgð í foreldrahúsum. Hún fór stundum með lokuð umslög út í bæ til aðkreppts fólks og vissi að í þessum umslögum voru peningar, sem móðir hennar sendi. Og alla tíð síðan vissi Lovísa að fjármunir væru til eflingar heildarinnar og vandi annarra væri ekki einkamál þeirra heldur samstöðumál og tilkall. Þökk sé Lovísu og hennar fólki fyrir lífsvörslu þeirra – trausta framgöngu í þágu lífsins.

Lovísa þurfti ekki langt til að sækja skóla. Miðbæjarskólinn var skammt frá og Lovísa skokkaði niður og suður götu. Hún var námfús og vildi læra meira en grunnskólinn gat veitt henni. Og þegar Lovísa hafði aldur til fékk hún inni í öðrum skóla í nágrenninu, Verslunarskóla Íslands. En þá urðu skil, sem höfðu afgerandi áhrif á skólagöngu Lovísu. Móðir hennar missti hægri handlegg vegna krabbameins og heimilis- og fjölskyldu-aðstæður urðu til þess að Lovísa sagði sig frá námi, tók við heimilinu og ýmsum verkefnum sem á hana voru lögð. Hún annaðist móður sína vel og til enda. Lífsverkefnin tóku við og veigamikill þáttur þeirra tengdust Jóni Pálma Þorsteinssyni. Og þá erum við komin að ástalífinu.

Jón Pálmi Þorsteinsson

Þau Lovísa og Jón sáumst ekki á rúntinum í Lækjargötu í Reykjavík eða á síldarplani norður á Siglufirði heldur á Oxfordstreet í London! Margir hafa farið á Oxfordstreet í verslunarerindum, en fáir hafa verið eins lánsöm og þau Lovísa og Jón að finna hvort annað á þeirri merku verslunargötu í heimsborginni.

Það var mjö gaman að sjá ljómann í augum Lovísu þegar hún sagði okkur söguna um fyrsta fund þeirra. Þau Jón voru á sama hóteli eins og ástmögurinn á himnum hefði laðað þau saman með snilldaráætlun. Og Lovísa mundi líka nákvæmlega hvernig Jón hafði verið klæddur og þekkti hann jafnvel á fötunum. Svo kynntust þau, fundu traustið, festuna, í hvoru öðru, ástin kviknaði og þau luku árinu 1950 með því að ganga í hjónaband, þann 30. desember. Síðan áttu þau stuðning og voru hvors annars í 65 ár. Það er ekki sjálfsögð gæfa eða blessun. En þau ræktuðu traustið og virðinguna og það er gæfulegt veganesti til langrar samfylgdar.

Þau Jón og Lovísa nutu láns í fjölskyldulífi sínu og eignuðust tvö börn og afkomendafjöldinn vex þessi misserin. Pálmi er eldri og fæddist í október árið 1952. Pálmi er læknir og prófessor í fræðum sínum. Kona Pálma er Þórunn Bára Björnsdóttir, myndlistarmaður. Þeirra börn eru Lilja Björnsdóttir, Jón Viðar, Vala Kolbrún og Björn Pálmi.

Lilja er læknir og hennar maður er Einar Kristjánsson hagfræðingur. Þau eiga börnin Kristján, son Einars af fyrra sambandi, Lilju Þórunni, Sóleyju Kristínu og Birtu Lovísu.

Jón Viðar er hagfræðingur og kona hans er Lára Kristín Pálsdóttir, sérfræðingur í stjórnarráðinu. Börn þeirra eru Björk, Freyja, Lilja Sól – af fyrra sambandi Láru – og Hallgerður Bára.

Eins og mörg önnur í fjölskyldunni er Vala Kolbrún læknir. Hennar maður er Jón Karl Sigurðsson, stærðfræðingur. Þau eiga Pálma Sigurð.

Björn Pálmi Pálmason er tónlistarmaður og tónsmíðameistari eins og kona hans einnig. Hún heitir Veronique Vaka Jacques.

Jóna Karen er yngra barn þeirra Jóns og Lovísu. Hún er vorkona, fæddist í maí 1955. Hún er hjúkrunarfræðingur. Hennar maður er Ólafur Kjartansson, læknir og prófessor. Þau eiga þrjú börn: Lovísu Björku, Kjartan og Davíð.

Lovísa Björk er læknir.

Kjartan er rafeinda- og verkfræðingur.

Davíð er læknir og kona hans er Ramona Lieder, líftæknifræðingur. Og það er ánægjulegt að segja frá því að þau eru nýgift og sögðu sín já í Þingvallakirkju á laugardaginn síðasta. Hjónavígsludag þeirra er alltaf hægt að muna – því hann er menningarnæturdagurinn, Reykjavíkurmaraþondagurinn. Börn þeirra Davíðs og Ramonu eru Anna Lovísa og Ólafur Baldvin.

Lovísa helgaði sig heimilinu og börnum sínum og velferð fjölskyldunnar var henni aðalmál. Þegar börnin voru fullorðin fór Lovísa að starfa utan heimilis, og þá við lyfjagerð og umbúðaframleiðslu. Eftir að eiginmaður hennar féll frá hugsaði Lovísa um sig sjálf þar til fyrir tæpu einu og hálfu ári að hún flutti frá Tjarnarstíg 3 og á hjúkrunarheimilið Sóltún og naut þar góðrar umönnunar, sem hér með er þökkuð.

Minningar

Við skil er mikilvægt að staldra við og íhuga. Við fráfall ástvinar er ráð að kveðja, að fara yfir þakkarefnin, rifja upp eigindir og segja eftirminnilegar sögur. Og varðveita svo í huga og lífi það sem við getum lært til góðs og miðla áfram í keðju kynslóðanna. Og það er svo margt sem Lovísa skildi eftir til góðs og í lífi fólksins hennar, ykkar sem hér eruð.

Manstu gæsku hennar? Hve kærleikur og umhyggja hennar var innileg? Lovísa var ástrík móðir, sem umvafði fólkið sitt og heimili kyrrlátum friði. Hún lagði börnum sínum í huga metnað, dug, vilja til náms, vinsemd til fólks og virðingu fyrir lífinu. Lovísa kenndi þeim visku – t.d. að ekki væri hægt að gera meiri kröfur til fólks en það stæði undir. Hver og einn yrði að gera eins hægt væri, en meira væri ekki hægt að krefjast.

Manstu hve fallega og vel Lovísa talaði til fólks og blessaði? Manstu hve Lovísa ávann sér virðingu? Og manstu að hún þorði og gat talað um tilfinningaefni og trúmál? Það er ekki öllum gefið og þakkarefni þegar fólk hefur í sér þroska til slíkra umræðna. Lovísa var óspör á að segja börnum sínum og ástvinum sögur frá fyrri tíð og var góð og gjöful sagnakona. Manstu skerpu Lovísu og greiningargetu hennar? Og svo var hún fjölhæf. Og Lovísa staðnaði ekki, hún hélt áfram að hugsa um þjóðmál og velferðarmál samfélagsins og varð róttækari með árunum. Mannvirðing bernskuheimilisins og umhyggja fyrir velferð fólks varð Lovísu leiðarvísir um hvað og hver gætu orðið fólki, menningu og þjóð til gagns.

Manstu hve skemmtileg Lovísa var? Hve bjartsýn og ljóssækin hún var? Svo hafði hún þokka, útgeislun, gætti vel að fötum sínum og klæðnaði. Og var afburða húsmóðir og rækti hlutverk sín og verkefni af alúð. Henni lánaðist að gera mikið úr takmörkuðum efnum. Og hún tók viðburðum lífsins með æðruleysi. Hún var góður kokkur. Lovísa talaði einhvern tíma um að hún sæi eftir að hafa ekki eignast börnin fyrr, til að hafa notið samvisanna enn lengur! En vísast hefði sagan þá orðið öðru vísi, og Jóna Karen og Pálmi ekki orðið til heldur eitthvað annað fólk! En hún naut samvistanna við fólkið sitt lengi og hlúði að því alla tíð.

Manstu dýravininn Lovísu? Þegar börnin hennar og fjölskyldur þeirra voru að flytja til útlanda fengu þau Jón hundinn Ponna að gjöf. Hann var nánast himingjöf. Og samstillt voru þau Lovísa um að gleðja Ponna og veita honum hið besta samhengi. Hann varð þeim líka góður heilsuvaki því þau stunduðu hundagöngur og fóru skemmtiferðir saman með Ponna.

Manstu lestrarkonuna sem fylgdist vel með? Hún las t.d. bók um Hillary Clinton og aðrar slíkar á ensku! Lovísa hafði áhyggjur af fátækt heimsins og stríðsrekstri og vildi leggja sitt af mörkum til að sem flestir nytu lífsgæða og friðar. Hún var friðarsinni og verndarsinni í afstöðu.

Inn í eilífðina

Nú eru skil. Leyfið myndunum að þyrlast upp í huga. Lovísa brosir ekki framar við þér, grennslast eftir líðan þinni eða fer út í garð til að lykta af angandi rósum. Hún fer ekki framar upp að Esjurótum til að hleypa hundi og tjáir þér ekki framar þakklæti. Lovísa átti gott og gjöfult líf, sem er þakkarvert. Nú er hún horfin inn í traustið sem ekki bregst, rósagarð himinsins. Hún fer blessuð og þakkir ykkar er ilmur eilífðar.

Guð geymi Lovísu og varðveiti um eilífð. Guð geymi þig og gefi þér traust og trú.

Amen.

Útför Lovísu var gerð í kyrrþey frá Fossvogskapellu fimmtudaginn, 23. ágúst, 2018. Bálför og því jarðsett síðar í duftgarðinum Sóllandi, K – 10 – 10. Erfidrykkja í Hótel Radisson Blu við Hagatorg.