Ég elska þig

IMG_8904Guð gefi þér gleðileg jól. Og jólagleðin má berast á milli fólksins hér í kirkjunni. Gerðu svo vel að rétta fólkinu sem situr við hlið þér í bekjunum hendina og bjóða gleðileg jól!

Já, gleðileg jól eru komin, undrið er loksins orðið. Í kyrru þessa hliðs himins máttu láta fara vel um þig og hugsa: Hvað skipir þig mestu máli á þessum jólum?

Fyrst um pakkana: Á mörgum heimilum er á þessari stundu verið að rífa upp fyrsta pakkann núna, svona til að róa ungviði og kannski einstaka eldri, sem ekki ráða við sig! Hvað mun koma upp úr pökkunum þínum? Nýturðu hlýjunnar að baki gjöfunum? Eru einhverjir skyldugjafir – án hjartahlýju? Færðu kannski pakka sem kosta lítið en snerta þig þó djúpt og verða þér mikils virði af því þeir tjá ást og alúð? Pakkar eru mismunandi og gildi þeirra líka. En hvaða gjöf dreymir þig um?

Hvað skiptir þig mestu máli í lífinu? Útilokunaraðferðin getur stundum gagnast. Hugsaðu um hvað þú mátt missa. Hvað má hverfa? Eru það hlutirnir þínir, vinnan eða er það fólkið þitt? Hvað er það, sem þú getur alls ekki án verið?

Vegna starfa minna á ég trúnað margra og ég sperri eyru þegar fólk er á krossgötum lífsins – og stundum við ævilok – gerir upp og talar um stóru málin. Hvað skiptir fólk máli þegar allt er skoðað? Það er lifandi fólk, maki, börn, ástvinir – ekki dótið. Og oft er stærsta sorgin við lífslok að hafa ekki haft meira næði til að vera með ástvinunum.

Bestur

Pakkarnir þínir – hvernig verða þeir? Þegar drengirnir mínir voru litlir skrifuðu þeir orð á blað, og líka setningar frá hjartanu, áhrifaríkar tilkynningar með stórum og barnslegum stöfum. Á blöðunum stóð: “Pappi er bestur” eða “Mamma er best í heiminum.” Þetta voru ekki lýsingar á staðreyndum, sem allir eru sammála um, heldur fremur tjáningar á tilfinningum, afstöðu og trausti. En við, sem fengum svona ástarbréf glöddumst. Á einum sneplinum stóð: “Ég elska þig, pabbi.” Þessi setning varðar lífshamingju mína. Þegar maður er búinn upplifa margt og sjá flest sem þessi veröld býður og sjá inn í lífskima þúsunda fólks, þá veit maður að það er þetta sem skiptir öllu máli. Ég elska þig – þetta undur að fá að elska og vera elskaður. Það er það sker úr um líf og hamingju. Miðinn sem drengurinn minn skrifaði  – Ég elska þig, pabbi – verður ekki  metinn til margra króna, en varð mér óendanlega dýrmætur.

Elskar þig einhver?

Um hvað er jólaboðskapurinn? 

Og þá erum við komin að erindi jólanna. Hverju leyfum við að komast að okkur? Erum við til í að opna tilfinningapakkann líka? Jólasagan, helgisagan í Lúkasarguðspjalli, varðar það mál. Hvernig eigum við að bregðast við þessari upphöfnu sögu um hirða, engla og ungt par á ferð og í miklum vandræðum. Það er engin ástæða til að taka skynsemi og sjálf úr sambandi þótt þú njótir jólanna. Jólaboðskapurinn er ekki um meyjarfæðingu, ekki heldur um vitringa, englaskara eða að Jesús fæddist í Betlehem. Allt þetta kemur við sögu, en þau mál eru fremur rammi en meginmál. Erindi jólanna er ekki heldur um hvort Jesús Kristur fæddist árið 1, eða árið 0, eða 4 árum eða 6 fyrir tímatal okkar, sem er vissulega kennt við Kristsburð.

Helgisögur eigum við ekki að taka bókstaflega heldur alvarlega. Trúin varðar ekki bókstaf sögunnar heldur inntak hennar, sem er persónulegt og raunar persóna.

Jólaboðskapurinn er um að Guð elskar og elskar ákaft – af ástríðu. Guð tjáir þá ást með róttæku móti, ekki aðeins bréflega eða í bók heldur kemur í persónu. Er þetta ekki að skræla jólaboðskapin um of? Nei, vegna þess að efni og form helgisögu þjónar ákveðnum tilgangi – að sýna hið guðlega samhengi, hina persónulegu nálgun. Hið ytra þjónar hinu innra. Aðferð helgisögunnar er að nota stef, ímyndir og minni, sem þjóna boðskap eða skilaboðum. Við megum alveg skræla burt það, sem ekki hefur lengur skiljanlega skírskotun til að taka eftir hinu guðlega.

Kraftaverk voru á fyrri öldum tákn um Guðsnánd, en eru það varla lengur, jafnvel hindrun trúar. Vitringar þjónuðu ákveðnu hlutverki til forna til að tjá mikilvægi. Svo var þjóðmenning og þjóðarhefð að baki í Biblíunni, sem var eins og stýrikerfi, sem stjórnaði hvaða atriði urðu að vera í sögunni til að merkjakerfið og sagan gengi upp og hvernig átti að segja hlutina til að samhengi og algert mikilvægi væri ljóst. Þetta var túlkunarrammi helgisögunnar.

Með hjartanu

Í spekibókinni Litla Prinsinum (eftir Antoine de Saint-Exupéry) segir refurinn við drenginn að skilnaði þessi merkilegu orð: “Hér er leyndarmálið. Það er mjög einfalt: maður sér ekki vel nema með hjartanu.”

Við þurfum ekki að leggja augu og eyru við öllu eða taka allt bókstaflega. En við ættum að leggja okkur eftir inntaki fremur en umbúnaði, merkingu en ekki ásýnd, persónu fremur en sögu.

Jólajafir eru jafnan í umbúðum. Svo er einnig með jólasöguna en þegar búið er að taka umbúðir helgisögunnar burtu kemur gjöfin í ljós, það sem máli skiptir. Stærsta gjöf jólanna, sem við getum öðlast og opnað, er lífsundrið, að tilvera þín er ekki leiksoppur myrkra afla og tilvera til endanlegs dauða. Þvert á móti – nóttin er rofin með gráti Guðsbarnsins, sem er ljóssveinn og merkingarvaki allrar veraldar. Þú mátt taka upp lífspakkann og munt uppgötva að alla tíð þráði persónudjúp þitt svörun.

Dýpstu sannindi lífsins eru með þeim hætti að hvert barn getur skilið og með hjartanu. Stærsta lífsgjöfin er “Ég elska þig.”

Guð er elskhugi, ástmögur, sem elskar ákaft og tjáir þér alltaf – á öllum stundum lífsins, á álagstundum, á hátíðum, með börnum, í fangi ástvina og alls staðar: “Ég elska þig. Mig langar til að vera þinn og langar til að þú sért mín og minn.”

Njóttu gjafanna þinna í kvöld, efnislegra og óefnislegra, horfðu í augun á fólkinu þínu og sjáðu í þeim undur lífsins. Gjöf lífsins er að Guð sér þig, gefur þér jólagjöf í ár og segir við þig:

„Ég elska þig.“

Amen. – í Jesú nafni.

Bæn.

Dýrð sé þér Guð í upphæðum, sem kemur til manna. Við fögnum þér.

Kenn okkur að njóta lífsgjafanna sem þú gefur

og heyra og skynja að þú elskar og kemur til okkar sjálfur.

Blessa þau sem eru sjúk og aðþrengd á þessum jólum. Við nefnum nöfn þeirra í hljóði í huga okkar. ——— Umvef þau – Guð.

Vitja fjölskyldna okkar og okkar allra sem erum í þínum helgidómi.

Dýrð sé þér Guð í upphæðum og verði þinn friður á jörðu.

Íhugun og bæn – aftansöngur á aðfangadagskvöldi, 2015. Sigurður Árni Þórðarson.

Lexía:  Mík 5.1-3

En þú, Betlehem í Efrata,
ein minnsta ættborgin í Júda,
frá þér læt ég þann koma
er drottna skal í Ísrael.
Ævafornt er ætterni hans,
frá ómunatíð.
Því verður þjóðin yfirgefin
þar til sú hefur fætt er fæða skal.
Þá munu þeir sem eftir lifa ættmenna hans
snúa aftur til Ísraels lýðs.
Hann mun standa sem hirðir þeirra
í krafti Drottins,
í mætti nafns Drottins, Guðs síns,
og þeir óhultir verða.
Þá munu menn mikla hann
allt til endimarka jarðar.

Guðspjall:  Lúk 2.1-14

En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. Þetta var fyrsta skrásetningin og var gerð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar. Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs, að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni sem var þunguð. En meðan þau voru þar kom sá tími er hún skyldi verða léttari. Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu af því að eigi var rúm fyrir þau í gistihúsi. En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar. Og engill Drottins stóð hjá þeim og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir en engillinn sagði við þá: „Verið óhræddir, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og liggjandi í jötu.“ Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita sem lofuðu Guð og sögðu:
Dýrð sé Guði í upphæðum
og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum.

+ Guðmundur Kristinn Klemenzson +

List fagfólks er að læra hlutverk sitt vel, skilja það og vera því svo innlifað að afstaða sé skýr og viðbrögð fumlaus og eðlileg í breytilegum og oft krefjandi aðstæðum. Lögfræðingurinn lærir sín lög, túlkanir og þjálfast í að beita hinni lögfræðilegu nálgun. Sagnfræðingurinn skýrir aðstæður í nútíma með hjálp sögutúlkunar. Verkfræðingurinn greinir snarlega tæknivíddirnar og hvernig hlutirnir virka. Við lærum okkar fag ef við leggjum á okkur erfiði mótunarinnar og kunnum svo að beita hinum fræðilegu tólum og tækjum. Þegar best lætur verðum við listamenn í okkar grein, vissulega bundin af kvörðum og óbrotnum hefðum greinarinnar en þó frjáls til að skapa og í samræmi við ferla fræða og iðnar.

Kannt þú þitt hlutverk?

Hvert var hlutverk Guðmundar Kristins Klemenzsonar? Læknarnir, hjúkrunarfræðingarnir og sjúkraliðarnir segja sína sögu. Hann kunni svo sannarlega sín fræði, var afburðamaður á sínu sviði, jafnvel listamaður í lækningum. Svo valdi hann sér önnur hlutverk líka og gegndi ýmsum. Hann var afar vel að sér á sviði sagnfræði, lagði m.a.s. á sig að læra alla röð rómversku keisaranna og ártölin líka! Þekking hans var svo mikil og nákvæm að hann gat leiðrétt kennarana í menntó í ýmsum greinum. Hann átti sér ýmis hlutverk í einkalífinu, var undursamlegur og natinn sonur, umhyggjusamur bróðir og frændi. Svo lagði hann sig eftir að iðka hinar gúrmetísku listir og þó hann ætlaði sér ekkert aðalhlutverk þar nutu vinir hans veislunnar – og fjölskyldan einnig.

Hlutverk Guðmundar

Af hverju var hann svona góður í því sem hann tók sér fyrir hendur? Af hverju gat hann svona margt? Ég hlustaði á sögurnar sem ástvinir hans sögðu og svo staldra ég alltaf við uppeldið. Faðir hans var þessi mikli leikhúsmaður og móðir hans stóð öflug við hlið manns síns. Þau lögðu upp úr að börnin þeirra nytu góðrar menntunar, næðu að virkja máttinn hið innra, lærðu til hvers væri ætlast, næmu framvindu lífsþáttanna, skildu samhengi hlutanna, kynnu til verka, nærðu sinn innri mann – lærðu hlutverk sín vel. Og Guðmundur hlaut miklar gáfur í vöggugjöf. Í hann var mikið lagt og af honum var mikils að vænta. Fyrr var sagt um mikinn Íslending – og það er við hæfi að sletta latínu þegar Guðmundur, Rómarsögusnillingur, er kvaddur. Hann var “ingenio ad magna nato.” Þeim er nóg er skilja.

Hver voru hlutverk Guðmundar? Hvert er hlutverk þitt? Hvernig lifir þú? Undrastu lífið? Er lífið þér kraftaverkalaust – eða samfellt, undursamlegt drama og kraftaverk? Lifir þú lokað eða opið? Guðmundur kunni öll hlutverk hinna afmörkuðu ferla – hann var góður vísindamaður – en svo átti hann í sér opnanir, skynjanir og vitund um það sem meira er. Tilvera hans var ekki rulla á sviði sem maður romsar upp úr sér eða iðkar, heldur stærri. Líf hans var líf í plús og í anda plúsa hins stórfenglega. Við getum vissulega lært hlutverk okkar en ef við lifum þröng förum við á mis við dramað og hið merkilega. Köllun þín er hver? Þorir þú að lifa, en ekki bara skrimta – þorir þú að njóta, upplifa og ganga á nýjar slóðir? Það er hin trúarlega nálgun – hlutverk trúarinnar.

Nú kveðjum við Guðmund Klemenzson og hugsum um af hverju, til hvers og hvernig getum við lifað stórt og mikið? Gagnvart áfallinu er mikilvægt að staldra við, þakkar fyrir allt það sem Guðmundur lagði til og leyfa því að verða þér til lífs og lífsbóta.

Ævistiklur

Guðmundur Kristinn fæddist 9. nóvember árið 1969 og var því aðeins 46 ára er hann lést. Foreldrar hans voru Guðrún Guðmundsdóttir og Klemenz Jónsson. Hún var fulltrúi á skrifstofu Þjóðleikhússins og hann leikari og einn af burðarstólpum í leikhúslífi þjóðarinnar, við Þjóðleikhúsið, hjá Ríkisútvarpinu og víða um land. Guðrún og Klemenz eignuðust þrjú börn og á löngum tíma. Það var því mikið lagt í hvert þeirra þriggja. Elstur er Ólafur Örn, hagfræðingur, sem fæddist árið 1951. Hann er kvæntur Ingu Aðalheiði Valdimarsdóttur. Sæunn fæddist árið 1956. Hún er starfsmaður Landsbanka Íslands og maður hennar er Hallur Helgason. Guðmundur var langyngstur og fæddist þegar systir hans var komin á unglingsár og stóri bróðir að hverfa til útlanda í heim fræðanna. En vel var hlúð að drengnum og hann fékk það í veganesti sem dugði vel. Og eldri systkinin gættu stubbsins og tengdust honum því nánum böndum, sem aldrei slitnuðu þó þau væru langdvölum langt frá hverju öðru. Og Guðmundur tengdist systkinabörnum sínum og hafði hug við velferð þeirra.

Guðmundur var vesturbæjarmaður, Reykvíkingur og heimsborgari. Fyrstu æviárin bjó fjölskylda hans á Bræðraborgarstíg og síðan á Eiðismýri. Og af því foreldrarnir vildu börnum sínum góða menntun og Klemenz þekkti skólastarfið í Ísaksskóla fór Guðmundur þangað eftir upphafs-ögun á leikskólanum Grænuborg. Svo tóku við hamingjuár í skólum vesturbæinga, Melaskóla, Hagaskóla og síðan MR.

Og hann fékk líka hlutverk í leikhúsinu. Klemenz, faðir hans, leikstýrði leikritinu Dýrin í Hálsaskógi og var á höttum eftir skýrmæltu barni í hlutverk bangsastráksins. Og hann fann leikarann heima við eldhúsborðið. Og Guðmundur lærði ekki aðeins hlutverk sitt heldur líka með hvaða hætti öll dýrin í skóginum geta verið vinir og hvernig sú vinátta getur rofnað. Og leikurinn lagði grunn að fjárhagslegu sjálfstæði drengsins. Eftir fyrsta leiksigurinn voru ýmis hlutverk í boði. Guðmundur lék í nokkrum barnaleikritum og í bíómyndinni Veiðiferðin. Og þó einhver ykkar eigið erfitt með að ímynda ykkur eða sjá Guðmund fyrir ykkur sem pönkara lék hann einn slíkan í gamanseríunni: Fastir liðir, eins og venjulega: Léttur fjölskylduharmleikur í sex þáttum sem sýndur var í Sjónvarpinu haustið 1985. Hann gat því brugðið sér í ýmis hlutverk.

Guðmundur varð öflugur námsmaður. Hann var marksækinn og einbeittur í námi. Það sem fangaði hug hans varð honum mikils virði og því brilleraði hann í öllu sem honum þótti skemmtilegt. Og hann var alhliða í námsgetu sinni, mundi allt sem hann vildi leggja á minni, skildi vel stærðfræði og tungumálanám lá líka vel fyrir honum. Ingenio ad magna nato. 

Menntaskólaárin voru honum gleðilegur tími, hann eignaðist góða og trausta vini og Gummi Klemm ræktaði vináttuna. Guðmundur horfði í kringum sig með áhuga, íhugaði pólitík og hafði skoðanir í þeim efnum sem öðrum, las ítarefni utan skólabókanna og drakk í sig menningarefnin.

Þar sem Guðmundur var afburðanemandi stóðu hönum allar fræðdadyr opnar eftir að hann lauk stúdentsprófi frá náttúrufræðideild MR árið 1989. Hann fór í læknisfræði og lauk prófi frá lænadeild HÍ árið 1995. Hann hafði engin orð um námsárangurinn sjálfur og þegar bróðir hans hans spurði: „Hver var hæstur“? þá svaraði Guðmundur hálfsnúðugt: „Hver heldurðu“ og meira þurfti ekki að segja í þeim málum.

Svo var kandídatsárið og Guðmundur vann sem deildarlæknir og umsjónardeildarlæknir á svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítalans í tvö ár. „Farðu vestur, ungi maður“ var sagt vestra og Guðmundur fór til Madison og stundaði framhaldsnám í University of Wisconsin og lauk námi þar árið 2002.

Og Guðmundur var ekki aðeins á toppnum á Íslandi. Þegar hann tók ameríska læknaprófið varð bið á að hann fengi niðurstöðu úr prófinu. Ástæðan var sú að hann var svo hár að það þurfti að tvífara yfir prófið til að sannreyna að einkunnin væri rétt. Síðan tóku við tæplega 2 ár á Mayo Clinic í Rochester, Minnesota. Svo fór Gummi Klemm heim og frá 2003 starfaði hann sem svæfinga- og gjörgæslu-læknir á Landspítala við Hringbraut og m.a. var í hjartasvæfingateyminu.

Síðustu árin var Guðmundur í sérnámi á vegum norrænu svæfinga og gjörgæslusamtakanna og beindi sjónum sérstaklega að svæfingum og deyfingum þungaðra kvenna. Guðmundur hafði gaman af veru og vinnu á Ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn sl. veur þar sem hann starfaði um tíma í tengslum við nám sitt. Hann skrifaði greinar í sínu fagi. Hann hafði ætíð mikinn faglegan metnað og þótti gott að fá birt efni  – sem hann og samstarfsfólk hafði unnið – í bestu læknablöðunum.

Hvaða hlutverki gengdi Guðmundur á spítalanum? „Hann var einn af okkar bestu mönnum,“ sagði læknir á svæfinga- og gjörgæsludeildinni. Hann hafði gott samband við fólk, deildin var eins og stórfjölskylda sem hann naut. Hann var ákveðinn, vel tengdur, mikill fagmaður og lét sig fólk varða, hikaði ekki við að taka erfiðar ákvarðanir í þágu lífsins – og tók nærri sér veikindi og bágindi fólks. Kollegar í Félagi svæfinga- gjörgæslulækna hafa stofnað minningarsjóð til  að styðja lækna til framhaldsnáms í greininni. Sjóðurinn ber heiti Guðmundur Klemenzsonar. Það er vel og loflegt framtak vina hans og samstarfsfólks.

Að kveðja og gera upp 

Það er sárt að kveðja góðan félaga, öflugan fagmann, hlýjan fjölskylduvin sem fellur frá á miðjum aldri. Hvernig gerir þú upp og hvaða áhrif hefur uppgjörið á líf þitt? Kveddu fallega og notaðu færið til að íhugaða þín hlutverk. Leyfðu minningunum að flæða og vitjaðu allra víddanna. Kallaðu fram í huga og hið innra allar myndirnar af Guðmundi.

Manstu ferskleikann sem fyldi honum, jafnvel gustinn? Manstu fagurkerann, matgæðinginn og sommelier-þekkinguna? Tókstu eftir næmni og viðkvæmu fegurðarskyni hans? Og merktir þú fínu strengina í sál hans sem hann flíkaði ekki? Og vissir þú af nægjusemi hans?

Manstu hinn faglega styrk en líka hina persónlegu hógværð. Manstu þekkingu hans á orustum og Rómarsögu? Hann var líka vel heima í tónlistarsögu – auðvitað – því hann hafði ríkulega listaæð sem hann virti og naut.

Manstu hinar ákveðnu pólitísku skoðanir Guðmundar? Hann tók virkan þátt í starfi Sjálfstæðisflokksins. Hann var ekki aðeins bundin við torfuna heldur las sér til og var vel heima í alþjóðastjórnmálum.

Og svo voru allar ferðirnar sem hann fór um heiminn eins og pílagrímur í leit að merkingu, já kraftaverki sögu og samtíðar. Hann var tilbúinn að fara um langan veg og milli landa til að gleðja foreldra sína og styðja þau eða vini þeirra á ferðalögum. Guðmundur var einstaklega natinn sonur og líka vinur foreldravinanna. Hann sótti í suður – ekki til að flatmaga á ströndinni heldur í menningarheima sögunnar. Hann skoðaði ekki bara borgir og minjar frá rómverskum tíma og þrautkannaði sögu hins mikla pólitíska veldis sem kennt er við Róm. Og það er miður að hann skyldi ekki hafa verið fenginn til að stýra námskeiði í Rómarsögu í háskólanum. En hann var ósínkur á sýn sína, staðreyndir og túlkun um minjar, sögu og samtíð.

Mannstu mannvirðingu Guðmundar? Hann setti sig aldrei á háan hest heldur við hlið fólks, virti alla, sjúklinga, kollega, samstarfsfólk, ástvini og börn. Hann gerði aldrei grín að fólki heldur lagði fremur gott til en hitt.

Og nú er hann farinn. Hann fer aldrei í göngutúr með hundinum Galdri og Ólafi bróður til að ræða stjórnmálaviðhorfið. Hann veiðir ekki lengur harðfisk úr vasanum til að gleðja hvutta. Og hann grillar ekki nautalundir fyrir þig eða býr til sósu frá grunni, flettir ekki upp Gordon Ramsey eða Michelin. Hann bjargar engum framar í aðgerð á Lansanum. Hann hlustar aldrei framar á undaðsmúsíkina í the Godfather eða hlustar og horfir á Monicu Belucci. Hann fer ekki framar í rannsóknarferðir um Berlín, Taormina, New York eða á stjörnuveitingastaði heimsins. Nú er það stórsagan og gastronomía himins.

Og það er vert að þú vitir sem ekki var öllum ljóst að Gumundur Kristinn Klemenzson leit svo á að lífið væri stærra en efnaferlar og efnisveruleiki. Hann hafði í sér undur barnsins gagnvart lífinu, trúði að til væri meira en það sem séð verður. Hann var trúaður. Hann hafði hlutverk í því stóra drama sem þessi veröld er og hinn trúaði stækkar með afstöðu sinni.

Jesús Kristur fór vel með hlutverk sitt og breytti tragedíu heimsins í huggulegra stykki sem hefur meira að segja góðan endi. Mummi – Gummi Klemm – lék ekki aðeins mismunandi hlutverk heldur var í burðarhlutverki í drama margra. Og nú er hann farinn – burt af skurðstofunni og úr eldhúsinu og upp á stóra sviðið í eilífðinni. Þar eru allir vinir, veislan er mikil, dramað gengur upp, allir lifa og hlægja – líka Guðmundur.

Guð geymi hann og styrki ástvini hans. Guð geymi þig.

Amen.

Kveðjur hafa bortist frá Deisu Karlsdóttur og bróður hennar Jóni Karlssyni og fjölskyldu í Gautaborg. Þá biðja fyrir kveðju Þorsteinn Gíslason og fjölskylda en þau eru erlendis.

Minningarorð í útför Guðmundar K. Klemenzsonar, Hallgrímskirkju, 21. desember, 2015. Bálför. Erfidrykkja á Grand hótel við Sigtún.

Sálarskúringar

Ég íhugaði mynd af manni með samviskubit í vikunni, smellti henni inn á facebook og spurði um leið hvort samviskubit væri úrelt. Nokkrir vina minna brugðust við og einn lagði til að samviskubit væri það að sjá eftir einhverjum færslum á facebook. Það væri commenta-sektarkennd. Annar sagði að aðalmál samviskubits væri hugarhreinsun, kaþarsins. Hvað eru mörg ykkar sem fáið samviskubit? Ég bið ekki um að þið réttið upp hendi heldur fremur að þið íhugið eigin mál.

Samviskubit

Einar Jónsson, myndhöggvari gerði ekki aðeins Kristsstyttuna í Hallgrímskirkju heldur fjölda annarra verka. Hann gerði magnaða mynd af manni með samviskubit. http://www.lej.is/news/35/57/Samviskubit-1911-1947/ Einhver vera rígheldur í augnalok mannsins og heldur augunum uppglenntum. Önnur vera hvíslar í eyra vesalings mannsins, sem virðist frávita af skelfingu. Samviska heilbrigðs fólks hefur áhrif.

Hvernig er samviska þín? Þarftu stundum að gera hreint hið innra? Heilbrigt fólk reynir að gera upp sín mál og mistök, en óheilbrigt fólk kann bara að þykjast. Flest okkar þekkjum einhver sem hafa beðist afsökunar en þó án þess að hjarta fylgi með. Þegar upp kemst að fyrirtæki, stofnanir eða einstaklingar hafi brotið af sér eru oft ráðnir spunameistarar til að draga athygli frá hinu ranga og reyna að upp á ímyndina. Volkswagensvindlið fyrr á árinu er nærtækt dæmi. Varajátningar iðka margir af því að þeim hefur verði ráðlagt af almannatenglum að lágmarka skaða.

En rangt er rangt og að allir lenda í einhverju misjöfnu einhvern tíma. Allir lenda í einhverju klúðri á ævinni. En mér hefur komið á óvart hve mörg reyna – óháð réttlæti og heiðarleika – að vernda hagsmuni, stjórnmálaöfl, félög eða fjölskyldu með því að tjalda sýndartjöldum. Þegar menn hafa brotið af sér eða gert mistök eiga menn að taka sinnaskiptum og biðjast afsökunar. Ekki til að lágmarka skaðann í hinu ytra heldur af því að þannig hegðar heilbrigt fólk sér. Það er lífsverkefni ábyrgs manns og alger köllun hins trúaða. Við eigum að vera heillynd í samskiptum við ástvini okkar, fjölskyldu, vini, vinnufélaga og samfélag. Óhreinindi safnast í lífi allra og hreinsun þarf að fara fram.

Jóhannes

Þess vegna sprettur Jóhannes skírari fram á aðventunni sem málsvari heiðarleikans. Hann er skúringameistari sálarinnar. Skírarinn þótti svo rosalegur útlits og honum hefði verið hent út alls staðar nema á grímuballi. Hann var girtur úlfaldahárskápu og með belti um sig miðjan, bruddi engisprettur, fór í villibýflugnabúin til að ná sér í hunang og flugnasveimurinn fylgdi honum líklega. Við yrðum smeyk að mæta slíkum manni á Grettisgötunni.

Á aðventunni skúrum við íbúðir okkar og hreinsum fyrir jólin. En frásögnin um Jóhannes skírara varðar ekki Ajax, Þrif eða brúnsápu. Nei, boðskapur Jóhannesar er að við þörnumst sálarskúringa. Iðrumst, gerum gott, verum heil og göngum ekki á rétt annarra. Jólatrúin er ekki góður fílingur eða hástemmdur tilfinningabrími heldur varðar ábyrgð og gera gott. Við sjáum ekki barnið vel í Betlehem ef sálarsjónin er léleg. Því sprettur þessi Jóhannes fram í kirkjum heimsins á aðventunni til að minná að við þörfnumst þess að losa okkur við það sem er vont. Hann rífur í augnlokin og glennir upp augun, hvíslar í eyru okkar sannleikanum. Viljum við hreinsa?

Víddir iðrunar

Iðrun getur verið opinber eða á einkasviðinu. Þjóðir og hreyfingar reyna að gera upp hræðileg mál, forystumenn hafa tjáð iðrun, beðist afsökunar eða fyrirgefningar. Forsætisráðherra Breta baðst t.d. afsökunar á, að Bretar hefðu ekki staðið sig þegar kartöflufár herjaði á Írland á sínum tíma. Bandaríkjaforseti viðurkenndi, að svartir menn hefðu verið misnotaðir í opinberri rannsókn á sífilis. Hann baðst afsökunar á athæfninu. Norska kirkjan, sem brást Sömum, hafði síðar dug til að viðurkenna brot sín og baðst fyrirgefningar. Kirkja Krists á að standa með fórnarlömbum ofbeldis og iðrast ef hún bregst.

Þrenna iðrunar – inn, út og upp

Svo eru einkajátningarnar, sem við prestarnir heyrum þegar fólk kemur til að létta á sér og reyna að rísa upp að nýju. Stór hluti þjóðarinnar hefur farið í meðferð vegna einhverrar fíknar. Sá hópur og öll þau er vilja vinna með sinn innri mann eru meðvituð um að sálarskúringar eru mikilvægar. Það er hollt að muna eftir að iðrun á sér margar víddir.

Fyrst er innhliðin, hvernig við játum afbrot okkar gagnvart sjálfum okkur. Engin iðrun gengur upp nema einstaklingurinn vilji horfa á misgerðir sínar. Mörg eru svo sjálfhverf, að þau megna ekki að viðurkenna brot sín heldur kenna alltaf öðru um. Þekkir þú einhver sem forðast að axla ábyrgð með því að kenna öðrum um eigin mistök? Það þarf sálarstyrk til að viðurkenna afbrot og biðjast afsökunar.

Svo er úthlið iðrunar – að játa út á við, gagnvart öðru fólki, félögum þjóð, veröldinni.

Síðan er uppvídd iðrunarinnar. Það er þriðja víddin og hún varðar Guð. Trúlaus maður hefur ekki þetta algera viðmið en trúmenn reyna að rækta með sér þá vitund að varajátning og sýndariðrun séu einskis virði. Guð sér og er hið endanlega viðmið.

Þetta er þrennan – iðrunarþrennan, inn, út og upp! Allir sem þekkja 12-sporin vita að fólk sem iðrast reynir að gera upp afbrotin með því að bæta fyrir gerðir sínar. Iðrunarþrennan ber ávöxt.

Styrkur og úthverfing

Margir halda, að ef maður tekur samviskubit alvarlega og iðrast verði maður aumingjalegur og lúkkið verði slæmt. Þá sé maður eins og ræfill. En að iðrast er alls ekki það að gera lítið úr sjálfum sér, heldur þvert á móti að vaxa, vera svo mikill að þora að horfast í augu við bresti sína, viðurkenna athæfi sem er rangt, vera maður til að tala um það ranga sem hefur verið gert – og þar með þroskast og eflast.

Á málum Vesturlanda eru ýmis hugtök um það að iðrast, orð sem merkja eftirsjá, sorg, einhvers konar eftirádepurð (repentance, contrition, regret, remorse, remorsefulness, ruefulness, sorrow, sorrowfulness, pangs of conscience, self-reproach, shame, guilt, compunction). Ég held, að íslenska orðið iðrun sé það myndrænasta og besta af öllum þessum orðum. Það er tengt orðinu iður, innyflum, því sem er innan í okkur. Að iðrast er að fara inn á við og úthverfa, að leyfa öllu sem er hið innra að koma í ljós. Hinu illa – hversu ógeðslegt sem það kann að vera – er komið út í dagsljós sannleikans. Þegar búið er að kasta því upp er það nefnt og þau, sem hafa orðið fyrir barðinu eru beðin fyrirgefningar.

Trúarvíddin

Jóhannes skírari vildi fá menn til að skilja, að Guð horfir á hjarta mannsins. Guð vill, að menn séu meira en tæki í leikriti samfélagsins. Jesús horfði aldrei á útlit manna, heldur í djúp augna, leit á innræti að baki varnarháttum. Trúin setur innri mann í forsæti og spyr um heiðarleikann. Við getum flikkað upp á status á facebook en flýjum aldrei kærleiksdóm Guðs. Menn geta með brelluviti lengt leik í samfélagsleikritinu, en aldrei aukið hamingju sína með prettakúnst gagnvart Guði.

Aðventan er hreinsunartími. Við reynum að ná blettunum. Ekkert þrifafyrirtæki tekur að sér að þrífa sál þína, engir sálfræðingar, ekki AA hreyfingin, ekki A. Smith og ekki kirkjan. Aðeins Guðs góði andi kann og getur þrifið sál þína, þinn innri mann. Og þau þrif verða ekki nema þú viljir og leyfir hreingerninguna. Í þessari messu förum við með syndajátninguna. Þá getur þú opnað og sagt Guði: „Ég er til, þú mátt koma og gera allt skínandi hreint.“ Iðrun er fólgin í að sjá að sér, hverfa af villu síns vegar og hefja nýtt líf. Það er á þínu valdi og Guð er góður skúrari, lagar commentasektarkenndina og kann sálarhreinsun. Hefur þú sektarkennd – Jóhannes bendir á leið til bóta. Sálarskúringarnar eru verk Guðs.

Hallgrímskirkju 13. desember, 2015. 3. sunnudagur í aðventu.

Sigríður H. Þorbjarnardóttir – minningarorð

Sigríður ÞorbjarnardóttirFulltrúar heimsbyggðarinnar ræða fótspor og framtíðarskref í París. Sigríður Helga Þorbjarnardóttir var aldrei í vafa um að við menn bærum ábyrgð. Hún þekkti sitt eigið umhverfisspor og okkar allra. Hún var ábyrg – ekki aðeins gagnvart sjálfri sér heldur umhverfi sínu og verkefnum lífsins.

Á Tröllaskaga

Ég kynntist Siggu á Tröllaskaga í ágúst árið 1998. Reyndar hafði ég séð hana á röltinu í Vesturbænum en við urðum ekki málkunnug fyrr en í Ferðafélagshóp sem kannaði hina norðlensku Alpa. Sigga kom hýreyg í hús í Ytri-Vík á Árskógsströnd þar sem hópurinn gisti í skjóli Sveins í Kálfsskinni. Og enn bjartleitari var hún daginn eftir í morgunbirtunni, sólskininu, við Reistará þegar eftirvæntingarfullur hópur safnaðist saman, hugaði að gönguskóm, herti á stöfum og gegndi kalli fararstjóra Ferðafélagsins. Og þar var Sigga við hlið Helga Valdimarssonar, hins fararstjórans. Svo var lagt í hann, rölt upp hlíðar Kötlufjalls, sem er gott fyrstadagsfjall. Sigga vaktaði allan hópinn, gætti að þeim sem ráku lestina og sérhæfðu sig í Alpagöngulagi. Svo þegar upp var komið herti Sigga á, kátína hópsins jókst og gönguhrólfarnir innlifuðust unaði íslensks sumars. Svo var skokkað niður hrísmóa og heim í náttstað. Slegið var upp veislu. Og þetta voru dýrðardagar, stórkostlegar göngur og ríkulegt félagslíf. Sigga skáskaut augum á samferðafólkið, tók sposk þátt í fjörinu, kættist af einbeittri gleðisókn og safnaði rekasprekum í strandeld. Sigga varð fjallamóðir mín í þessari ferð og við erum mörg sem höfum notið leiðsagnar hennar, fræðslu og félagsskapar í bláfjallageimi. Þar naut hún sín vel, þar átti hún sér friðland, þar var musteri hennar – þar var himinn henni opinn.

Upphafið

Þegar Sigga var komin upp á toppana á Tröllaskaga sá ég hana líta til austurs. Þegar við vorum á Rimum benti hún til Grenivíkur: “Þarna fæddist ég – ég er þaðan,“ sagði hún og ljómaði. Já, Sigríður Helga fæddist á Grenivík -inn í vorið árið 1948, 13. maí. Foreldrar hennar voru hjónin Anna Guðmundsdóttir og Þorbjörn Áskelsson. Anna var frá Nýjabæ í Kelduhverfi og var ljósmóðir og Þorbjörn var útgerðarmaður á Grenivík. Hún sá um að lífið fæddist og hann um að mannfólkið nyti fæðu. Báðum lánaðist vel.

Þorbjörn var frá Austari Krókum á Flateyjardalsheiði og hafði stofnað útgerðarfyrirtækið Gjögur tveimur árum áður en Sigríður fæddist. Þau Þorbjörn og Anna eignuðust sex börn. Elstur systkina Sigríðar er Guðmundur sem kvæntur er Auðbjörgu Ingimundardóttur. Njáll var næstur í röðinni. Hann er kvæntur Jónu Jónsdóttur. Laufey er gift Jóni Sigurðssyni. Guðbjörg er gift Jónasi Matthíassyni og Guðrún gift Guðmundi Sigurðssyni.

Fjölskylda, flutningur og nám

Dymbilvikan árið 1963 varð Íslendingum þungbær. Þá fórust á þriðja tug Íslendinga í slysum á hafi og á landi. Þorbjörn Áskelsson var einn þeirra. Hann var aðeins 58 ára þegar hann lést þegar Hrímfaxi fórst í flugslysi við Fornebu sem þá var aðalflugvöllur Oslo. Þorbjörn hafði tekið við nýjum fiskibát í Hollandi og var á heimleið. Fráfall hans breytti allri sögu fjölskyldunnar og Anna ákvað að selja Ægissíðu, fjölskylduhúsið á Grenivík, og flytja suður. En útgerðarfyrirtækið lifði áfram og varð í höndum ættingja Siggu Grenvíkingum mikið bjargræðisfélag. Ekki þarf að fara mörgum orðum um að fráfall föður var öllum í fjölskyldunni mikið högg og unglingnum þungbært.

Sigríður hóf skólagöngu fyrir norðan og lauk fullnaðarprófi frá Barnaskólanum á Grenivík árið 1962. Hún flutti svo suður með fólkinu sínu og settist að í húsi á horni Tómasarhaga og Hjarðarhaga. Hagar og Melar urðu hennar vettvangur á unglingsárunum. Hún fór í Hagaskóla, eignaðist félaga sem hún naut síðan. Henni gekk vel í námi og fór svo í menntaskóla. Þá lá leið flestra þeirra sem fóru úr vesturbænum í framhaldsskóla í MR og þaðan varð hún stúdent.

Háskólanám, störf og félagsmál 

Sigga hafði alla tíð mikinn áhuga á öllum greinum nátturufræði og virti áhugasvið sitt. Hún innritaðist í BS-nám í líffræði sem þá var nýhafið í HÍ. Því námi lauk hún árið 1973 og fór síðan til Englands í mastersnám og útskrifaðist með M.Sc. próf í örverufræði frá háskólanum í Warwick í Englandi.

Sigga var í fyrstu bylgju líffræðinga á Íslandi og var svo lánssöm að hún fékk strax vinnu við hæfi. Nýúskrifaður meistarinn hóf störf hjá Guðmundi Eggertssyni, prófessor, við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og varð hans hægri eða vinstri hönd í rannsóknum og helsti samstarfsmaður. Sigga var ráðin sérfræðingur við Líffræðistofnun háskólans. Rannsóknir hennar lutu að erfðafræði bakteríunnar E. coli. Síðar rannsakaði hún hitakærar bakteríur og kuldavirk ensím.

Kennslustörf urðu hluti af starfsskyldum Siggu. Hún var ekki aðeins fjallamóðir margra heldur einnig fóstraði hún fjölda líffræðinema í fræðunum. Hún kenndi flestum líffræðinemum sem útskrifuðust frá Háskóla Íslands síðustu fjörutíu ár. Hún var því n.k. ljósa þeirra í fræðum og námsmamma.

Og af því henni mátti alltaf treysta til allra starfa var Sigga eftirsótt í félagsstörfum einnig. Hún var í stjórn Líffræðistofnunar háskólans um árabil og vegna áhuga á mannlegu inngripi í gang náttúrunnar hafði Sigríður huga við eðli og áhrif erfðabreytinga. Hún var í ráðgjafanefnd umhverfisráðuneytisins um erfðabreyttar lífverur. Sigríður tók virkan þátt í starfi Ferðafélags Íslands og var þar í stjórn árin 1992-2001 og hafði mótandi áhrif á nýsköpun í ferðatilboðum félagsins.

Minningar og þakklæti

Og þá er komið að minningunum um Sigríði Helgu Þorbjarnardóttur. Við hefðum viljað njóta hennar lengur, fara fleiri fjallaferðir með henni, njóta fleiri fræðslustunda og sjá hana hverfa, sadda lífdaga, inn í blóðrautt sólarlag ellinnar. Margir hafa sagt við mig að eitt að því ömurlegasta við að eldast sé að sjá á eftir vinunum. Og því yngri sem þeir eru – því dapurlegra. Sorgin er skiljanleg og tilfinningar funa í lifandi fólki. Ekkert okkar á þó tryggt að geta klifið alla tinda sem við viljum eða notið samfylgdar allra til enda.

Í stað þess að harma tindana sem við náum ekki – getum við í frelsi okkar umtúlkað lífsafstöðu. Ef við lifum í afstöðu skortsins missum við vini, líf, möguleika og vegtyllur og ölum á eftirsjá. En þroskuð lífsafstaða nær stóra tindinum því hún staldrar við hrifningu og elsku og nærir þakklæti. Líf í fyllingu elur þakklæti. Þökk er farsælli lífsháttur en hyggja skortsins.

Í stað þess að hugsa um allar stundirnar með Siggu sem við förum á mis við og syrgja þær – gerum við betur með því að þakka það sem hún var og gleðjast yfir því sem við nutum. Við getum hyllt hana og megum lofa hana í huga og sál fyrir það sem hún gaf okkur og var okkur, fjallamóðir, fræðari, vísindakona, traustur vinur, nærgætinn leiðsögumaður, lífsglöð og umburðarlynd frænka eða systir.

Verkefni þitt er að gera upp og leyfa Siggu að fara. Fyrir hvað viltu þakka og hvað getur þú lært af henni þér til lífs og eflingar? Getur þú rifjað upp einhverja dýrmæta minningu um hana? Manstu eftir þegar hún fór á hnén og skoðaði blómjurt með nákvæmni vísindamannsins og í bland við fagurkerann sem elskaði liti, fjölbreytni og lykt? Manstu hve tillitsöm hún var í samskiptum, traust og áreiðanleg, nákvæm og samviskusöm? Manstu að alltaf var hægt að treysta henni og því sem hún ætlaði sér að gera? Hún reyndi alltaf að standa við sitt.

Manstu eftir bernskuleikjum hennar, að hún sótti út í náttúruna, féll í hið risastóra fang landsins, hlustaði á hvísl í sumarþey, fann í lyngi hlé og leikvang í mjöll eða fönn vetrarins? Manstu að hún var snemma klettasækinn? Hún fór á bernskuárum vestur í Skælu og klifraði í klettum.

Og lífið í sjónum átti hug hennar einnig. Hún réri stundum út á víkina og skoðaði fiskana á grunnsævinu. Og hún var tengd Ægissíðu á Grenivík og keypti svo með ættmennum sínum húsið að nýju þegar það var falt.

Mantu tryggðina, fjallstyrka traustið í henni, – kyrrláta skaphöfn eins og hún átti kyn til? Sigga lét ekki þvæla sér eða draga sig í einhver gönuhlaup og mannlífsfen.

Manstu hve annt henni var um að fara vel með og skemma ekki? Manstu meðvitaða og agaða nægjusemi hennar? Sigga velti vöngum yfir umbúðum og matvælum, hvort hún ætti að kaupa þetta eða hitt af því hún tók siðferðilega ábyrgð alvarlega. Hún vissi að þó hún gæti ekki bjargað heiminum ein gæti hún lagt sitt af mörkum. Er það okkur til eftirbreytni.

Þekktir þú hiklaust þor Siggu þegar hún tók stefnu? Hún var t.d. óhrædd við vélar. Hún prílaði snemma upp á Farmal Cub og náði ágætum tökum á græjunni. Vissir þú að hún keypti sér skellinöðru þegar hún var í námi í Englandi? Þegar hún var að þjálfa sig í akstrinum endaði hún reyndar ofan í ruslagám. Sigga hló þegar hún sagði frá þeirri þeysireið og sjálfskaparvíti. Hún gat gert grín að sér.

Áhugasvið Siggu var vítt. Hún hafði breiðan áhuga á menningarmálum, var fjöl- og víðlesin, hlustaði á alls konar tónlist, hafði opin hug til ýmissa greina mannvísinda. Hún virti fegurðar- og sannleiks-leit manneskjunnar í litríkum heimi og fjölbreytilegri náttúru. Hún var alin upp við klassískt og íslenskt menningarlæsi. Manstu hvað Sigga sagði um gildi, heim og ábyrgð manna í umhverfismálum? Það var grundvallað á þeim gildum sem henni voru blásin í brjóst í foreldrahúsum og rímuðu við náttúrujákvæðni og mannást íslenskrar kristni.

Manstu hve Sigga var gætin en þó óhrædd á ferðum í faðmi íslenskra fjalla? Hún gekk og fór um landið sumar sem vetur og í öllum veðrum. Hún fór margar svaðilferðir og stundum sá ekki úr augum í vetrarbyljum en aldrei fór hún sér að voða. Manstu styrka nærveru hennar, stundum orðlausa en hlýja?

Skilin

Og nú er komið að skilum. Og nú hefur hún tekið sín skref – ekki í París heldur inn í Paradís. Þar er mesta og besta umhverfisvitundin og verndarelska, sem er fólgin í Guði. Þar mun Sigga finna sig heima. Við megum kveðja hana með þakklæti, þakka náttúrumömmu, ljósu í fræðunum, þakka nærgætni við ástvini, frænkur og frændur. Þakka fyrir brosið, hláturinn og verkin. Hún slær ekki lengur lúpínu í Skaftafelli, stiklar um Nepal eða Madeira,  smellir ekki á sig sandölum, né mun hún ganga yfir hálendið á skíðum. Hún ver ekki mosató í hættu eða melgrasskúf en við megum minnast hennar með því að verja náttúruna.

Þegar við föllum í fang Bláfjallageims í náttúrumusteri heimsins getum og megum við syngja þakkarsálma fyrir allt það sem hún var okkur og leyfa þeim að verða okkur brýning til að verja lífið, helga lífið með góðri umgengni og með óáreitinni festu Siggu, sem aldrei skemmdi heldur varði og gætti. Hún fer ekki framar norður í Ægissíðu á Grenivík. Nú er hún á tindinum, bendir yfir landið og brýnir okkur – nú er hún komin í Ægissíðu eilífðar.

Guð geymi hana og Guð geymi þig.

Í Jesú nafni – Amen.

Ég hef verið beðin um að bera ykkur kveðju frá Önnu Birnu Jónasdóttur og fjölskyldu í Kanada.

Róbert og Jórunn Eyfjörð biðja einnig fyrir kveðju en þau eru erlendis.

Minningarorð við útför í Neskirkju, miðvikudaginn 2. desember, 2015, kl. 15.

Bálför. Erfidrykkja í Neskirkja. Jarðsett í Fossvogskirkjugarði.

Eðli kirkjunnar er að endurnýjast

MoggamyndFyrir einu ári birti Sigurður Bogi, eðalblaðamaður Moggans, viðtal um kirkjuna og hlutverk hennar. Tilefnið var vistaskipti mín. Viðtalið við nafna minn er hér að neðan:

“Kirkjan hefur orðið fyrir gagnrýni og þarf að þola hana. Hlusta vel þegar fólk talar af sársauka og réttlætisþrá. Kirkjan þarf líka að vera tilbúin að breyta starfsháttum. Stofnanaóþol í samfélaginu er útbreitt. Allar hreyfingar, líka kirkjan, eiga á hættu að frjósa í stofnanafjötrum. Það er hins vegar er eðlið að endurnýjast,” segir sr. Sigurður Árni Þórðarson.

Á morgun, sunnudag, kveður Sigurður söfnuð sinn í Nessókn í Vesturbæ Reykjavíkur eftir tíu ára þjónustu þar. Og um næstu helgi, 30. nóvember, verður hann settur í embætti sóknarprests í Hallgrímskirkju. Valnefnd við sóknina kaus á dögunum að þau sr. Sigurður og Irma Sjöfn Óskarsdóttir yrðu prestar kirkjunnar, embætti sem biskup Íslands hefur nú skipað þau í.

Hallgrímskirkja skipar sess í borginni. Er þjóðarhelgidómur og miðstöð kirkjutónlistar á Íslandi. Fjölsóttir tónleikar og athafnir eru í kirkjunni sem erlendir ferðavefir hafa útnefnt hana sem eina merkilegustu í heimi, enda er hún mikið aðdráttarafl túrista. En þeta er jafnframt sóknarkirkja íbúa á Skólavörðuholti og nærliggjandi hverfum.

“Miðbæjarkirkjulíf er öðru vísi en safnaðarstarf í hverfiskirkjum eða dreifbýlinu.  Kirkjan þarf því að mæta misvísandi og fjölbreytilegum óskum,” segir Sigurður Árni sem telur að nú þurfi að fara yfir áherslur og leggja nýjar ef þarf. Kirkjan eigi að vera í sókn en ekki í vörn. Almennt starf og tónlistarlíf í Hallgrímskirkju hafi notið krafa góðs fólks á öllum sviðum – en allaf megi brydda upp á einhverju nýju. Í þessu sambandi víkur Sigurður að hinu sérviskulega áhugamál sínu, mat. Því þeim áhuga deila þeir Jesús Kristur, en sá síðarnefndi  gerði borðið að miðju kristninnar á þann veg að söfnuður Jesú er samfélag fólks um veislu.

“Mig dreymir um að fá bestu kokka þjóðarinnar til að elda með mér á kirkjuhátíðum. Vonast líka til að í framtíðinni verði Hallgrímskirkja og veraldarvefurinn enn betri vinir og helgihaldinu verði fjölmiðlað. “

Sigurður Árni Þórðarson hefur þjónað sem prestur í um þrjátíu ár. Þjónustu sína hóf hann í Skaftártungu, var seinna prestur norður í Þingeyjarsýslum, rektor Skálholtsskóla, fræðslustjóri í Þingvallaþjóðgarði og er þá sitthvað ónefnt. Við Neskirkju hefur hann þjónað frá vormánuðum 2004. Hann segir prestsstarfið og menninguna á stöðunum þar sem hann hefur starfað gjörólíka. Samfélagið hafi sömuleiðis breyst mikið síðustu ár. 

“Í þéttbýlinu er vitund um hið sameiginlega að hverfa og einstaklingshyggjan vex. Fólk er æ sjálfmiðaðra í neyslusamfélagi nútímans og þar með berskjaldaðra. Í dreifbýlinu er víða varðveitt styrk samfélagvitund, að enginn er eyland og fólki er þörf á að vinna vel saman. Presturinn hefur tengsl við flesta og það er ómetanlegt á stóru stundum lífsins,” segir Sigurður Árni og heldur áfram.

“Í stóru þéttbýlissöfnuðunum þekkir presturinn ekki nema hluta sóknarfólksins vel. Í athöfnum, áföllum og þjónustu eru þó sömu kröfur gerðar til presta.”

En þótt fjölmenningarsamfélag nútímans sé í stöðugri deiglu og staða kirkjunnar talsvert breytt frá því sem áður var, segir Sigurður Árni fólk þó jafnan leita mikið til kirkjunar í gleði sem sorg. Fermingarbörn sín í Vesturbænum á síðustu tíu árum séu orðin nærri þúsund. Velvilji fólks gagnvart hverfiskirkjunni sinni sé mikill

“Ég hef engar áhyggjur af framtíð kristninnar því lífið hríslast í fólki – og allt líf er frá Guði. Þau sem verja aðeins stofnun daga uppi og Guð stendur alltaf með lífinu. Boðskapur Jesú Krists er í þágu gleði og hamingju lifandi fólks, “segir Sigurður Árni og heldur áfram. “Þjóðkirkjan er ekki lengur í bakslagi heldur sókn. Hún er kölluð til að breytast, vera kraftmikið þátttökusamfélag sem gleðst yfir fjölbreytileika, heldur vel utan um fólk, er rammi um mestu gleði og sorg þess og mætir fólki með trú, góðu viti, hlýju og fagmennsku.”

Sigurður Bogi Sævarson