Biblíuvers – minnisvers fyrir fermingu og lífið

Fermingarungmenni velja oft minnisvers fyrir fermingarathöfn. Hér er einn listi sem velja má úr en hann er þó er ekki tæmandi. Á hverju ári velja fermingarungmennin vers utan allra lista og vegna þess að þau hafa lesið eitthvað í Biblíunni sem hefur snert þau eða hrifið.

1Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gerir. Fil. 4:13

2Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera. Því að þetta er lögmálið og spámennirnir. Matt. 7:12

3Ákalla mig á degi neyðarinnar, og ég mun frelsa þig, og þú skalt vegsama mig. Sálm.50:15

4Biðjið, og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða. Matt. 7:7

5Drottinn er góður, miskunn hans varir að eilífu og trúfesti hans frá kyni til kyns. Sálm. 100:5

6Drottin er ljós mitt og fulltingi, hvern ætti ég að óttast? Drottinn er vígi lífs míns, hvern ætti ég að hræðast? Sálm. 27:1

7Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta. Sálm. 23:1

8Drottinn er réttlátur á öllum vegum sínum og miskunnsamur í öllum verkum sínum.. Sálm. 145:13b

9Drottinn er vörður þinn, Drottinn skýlir þér, hann er þér til hægri handar. Sálm.121:5

10Drottinn er öllum góður og miskunn hans hvílir yfir allri sköpun hans. Sálm. 145:9

11Drottinn mun vernda þig fyrir öllu illu, hann mun vernda sál þína. Sálm. 121:7

12Drottinn, þú ert minn Guð. Ég vegsama þig, ég lofa nafn þittþví að þú hefur unnið furðuverk, framkvæmt löngu ráðin ráð sem í engu brugðust. Jes. 25:1

13Ef Drottinn byggir ekki húsið erfiða smiðirnir til ónýtis. Sálm. 127:1

14En Guði er enginn hlutur um megn. Lúk. 1:37

15Engill Drottins setur vörð kringum þá er óttast hann og frelsar þá. Sálm. 34:8

16Ég er góði hirðirinn. Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina. Jóh. 10:11

17Ég hef Drottin ætíð fyrir augum, þegar hann er mér til hægri handar hnýt ég ekki. Sálm. 16:8

18Ég vil lofa Drottin á meðan ég lifi, lofsyngja Guði mínum meðan ég er til. Sálm. 146:2

19Ég vil þakka þér, Drottinn, af öllu hjarta, kunngjöra öll máttarverk þín. Sálm. 9:2

20Ég vil vegsama Drottin alla tíma, ætíð sé lof hans mér í munni. Sálm. 34:2

21Fel Drottni vegu þína og treyst honum, hann mun vel fyrir sjá. Sálm. 37:5

22Gott mannorð er dýrmætara en mikill auður, vinsældir eru betri en silfur og gull. Orðskv. 22:1

23Guð er oss hæli og styrkur, örugg hjálp í nauðum. Sálm. 46:2

24Hann veitir kraft hinum þreytta og þróttlausum eykur hann mátt.  Jesaja 40:29

25Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig. Jóh. 14:1

26Hjálp mín kemur frá Drottni, skapara himins og jarðar. Sálm. 121:2

27Í friði leggst ég til hvíldar og sofna því að þú einn, Drottinn, lætur mig hvíla óhultan í náðum.  Sálm. 4:9

28Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð. Jóh. 1:1

29Í þínar hendur fel ég anda minn, þú frelsar mig, Drottinn, þú trúfasti Guð! Sálm 31:6

30Jesús mælti: „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi.” Jóh. 11:25

31Jesús sagði: „Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér, mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins. Jóh 8:12

32Jesús segir við hann: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins, nema fyrir mig.” Jóh. 14:6

33Kenn mér að gera vilja þinn því að þú ert Guð minn, þinn góði andi leiði mig um slétta braut. Sálm. 143:10

34Kærleikurinn breiðir yfir allt, trúir öllu , vonar allt, umber allt. Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi. I. Kor 13:7

35Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld. Matt. 11:28

36Lát engan líta smáum augum á æsku þína en ver fyrirmynd trúaðra í orði og hegðun, í kærleika, trú og hreinlífi. I. Tim. 4:12

37Leitið Drottins meðan hann er að finna, ákallið hann meðan hann er nálægur. Jesaja 55:6

38Lítið ekki aðeins á eigin hag heldur einnig annarra. Verið með sama hugarfari sem Kristur Jesús var. Fil. 2:4-5

39Lofa þú Drottin, sála mín, og gleym eigi neinum velgjörðum hans. Sálm 103:2

40Náð mín nægir þér því að mátturinn fullkomnast í veikleika. II. Kor. 12:9

41Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur. Sálm. 145:8

42Og Jesús sagði við alla: „Hver sem vill fylgja mér afneiti sjálfum sér, taki kross sinn daglega og fylgi mér. Lúk. 9:23

43Óttast eigi því að ég er með þér, vertu ekki hræddur því að ég er þinn Guð. Ég styrki þig, ég hjálpa þér, ég styð þig með sigrandi hendi minni. Jes. 41:10

44Sá sem ástundar réttlæti og kærleika öðlast líf, velgengni og heiður.  Orðskv. 21:21

45Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð, og veit mér nýjan, stöðugan anda. Sálm. 51:12

46Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf. Jóh 3:16

47Sælir eru friðflytjendur, því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða. Matt. 5:9

48Sælir eru hjartahreinir, því að þeir munu Guð sjá. Matt. 5:8

49Sælir eru hógværir, því að þeir munu jörðina erfa. Matt. 5:5

50Sælir eru miskunnsamir, því að þeim mun miskunnað verða. Matt. 5:7

51Sælir eru þeir, sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu, því að þeir munu saddir verða. Matt 5:6

52Varðveit mig sem sjáaldur augans, fel mig í skugga vængja þinna. Sálm. 17:8

53Varðveit mig, Guð, því að hjá þér leita ég hælis. Sálm. 16:1

54Vegur Guðs er lýtalaus, orð Drottins er hreint, skjöldur er hann öllum sem leita hælis hjá honum. Sálm. 18:31

55Vísa mér veg þinn, Drottinn, að ég gangi í sannleika þínum, gef mér heilt hjarta, að ég tigni nafn þitt. Sálm. 86:11

56Þakkið Drottni því hann er góður, því miskunn hans varir að eilífu. Sálm. 107:1

57Þér eruð vinir mínir ef þér gerið það sem ég býð yður. Jóh. 15:14

58Þitt orð er lampi fóta minna og ljós á vegum mínum. Sálm. 119:105

59Þótt ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt því að þú ert hjá mér, sproti þinn og stafur hugga mig. Sálm. 23:4

60Þótt ég talaði tungum manna og engla, en hefði ekki kærleika, væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla. I. Kor. 13:1

61Þú ert von mín, Drottinn, þú, Drottinn, ert athvarf mitt frá æsku, Sálm. 71:15

62þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum. . . . Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Mark. 12:30-31

63Því að ég þekki sjálfur þær fyrirætlanir sem ég hef í hyggju með yður, segir Drottinn, fyrirætlanir til heilla en ekki til óhamingju, að veita yður vonarríka framtíð. Jer. 29:11

64Því að ég, Drottinn, er Guð þinn, ég held í hægri hönd þína og segi við þig: „Óttast eigi, ég bjarga þér.“Jesaja 41:13

65Því að orð krossins er heimska þeim er stefna í glötun en okkur sem hólpin verðum er það kraftur Guðs. I. Kor 1:18

66Því að þín vegna býður hann út englum sínum til þess að gæta þín á öllum vegum þínum. Sálm. 91:11

Kanntu þetta?

05Merkilegar og mikilvægar stiklur í kristninni eru.

Gullna reglan: Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera. (Matt. 7.12)

Litla Biblían
: Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf. (Jóh. 3.16)

Tvöfalda kærleiksboðorðið
: Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum og náunga þinn eins og sjálfan þig.
 (Lúkas 10.27)

Signing: Í nafni Guðs + Föður og Sonar og Heilags anda. Amen.

Bæn Jesú Krists 

Faðir vor, þú, sem ert á himnum. Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni. Gef oss í dag vort daglegt brauð. Og fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum. Eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá illu. Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin að eilífu. Amen. (Matt. 6.9-13)

Trúarjátningin: 

Ég trúi á Guð, föður almáttugan, skapara himins og jarðar. Ég trúi á Jesú Krist, hans einkason, Drottin vorn, sem getinn er af heilögum anda, fæddur af Maríu mey, píndur á dögum Pontíusar Pílatusar, krossfestur, dáinn og grafinn, steig niður til heljar, reis á þriðja degi aftur upp frá dauðum, steig upp til himna, situr við hægri hönd Guðs föður almáttugs og mun þaðan koma að dæma lifendur og dauða. Ég trúi á heilagan anda, heilaga almenna kirkju, samfélag heilagra, fyrirgefningu syndanna, upprisu mannsins og eilíft líf. Amen.

Boðorðin tíu: 

  1. Ég er Drottinn Guð þinn. Þú skalt ekki aðra Guði hafa.
  2. Þú skalt ekki leggja nafn Guðs þíns við hégóma.
  3. Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan.
  4. Heiðra skaltu föður þinn og móður.
  5. Þú skalt ekki mann deyða.
  6. Þú skalt ekki drýgja hór.
  7. Þú skalt ekki stela.
  8. Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum.
  9. Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns.
  10. Þú skalt ekki girnast konu náunga þins, þjón, þernu, uxa, asna né nokkuð það sem náungi þinn á. (2.M 20.1-17)

Bænvers

Bænin má aldrei bresta þig,

búin er freisting ýmislig.

Þá líf og sál er lúð og þjáð,

lykill er hún að Drottins náð.

 

Vaktu, minn Jesú, vaktu í mér,

vaka láttu mig eins í þér.

Sálin vaki, þá sofnar líf,

sé hún ætíð í þinni hlíf.

 

Vertu, Guð faðir, faðir minn,

í frelsarans Jesú nafni,

hönd þín leiði mig út og inn,

svo allri synd ég hafni.

Jesús er sætt líf sálnanna

heimild sagnaheimarÞegar ég kom frá messugerð í Hallgrímskirkju og loknum viðtölum 1. sunnudags eftir þrettánda beið mín póstur frá Báru Grímsdóttur, tónskáldi. Hún var í messu og hlustaði grannt, ekki bara á góðan söng Mótettukórsins og spilerí Björns Steinars Sólbergssonar, heldur líka á ræðing klerks í stól. Og prédikunin fjallaði um myndir og Jesúnálgun og trúarskiling fólks, sem er mismunandi og áhrifatengdur tímanum. Íhugunarsálmur sr. Jóns Þorsteinssonar í Kirkjubæ kom í hug hennar og því sendi hún hann áfram. Sr. Jón var merkisklerkur, vel skáldmæltur, og er kunnur í sögunni vegna píslarvættis hans í Tyrkjaráninu. Jón var prestur í Eyjum þegar Alsíringar réðust á Eyjar og var hann hálshöggvinn. Íhugunarsálmur Jóns sýnir innlilega trúarinnlifun, frumlútherska Jesúáherslu og líríska getu höfundarins. Klifunin er vissulega sérstæð, hugnast ekki öllum en Hallgrímur notaði það besta og fór vel með aðferðina síðar. Jón er augljóslega fyrirboði , forgengill, en ekki eftirmaður Hallgríms Péturssonar, sem breytti öllum Jesúkveðskap Íslendinga til skerpu og batnaðar. Barnsleg einlægni Jóns Þorsteinssonar hreif mig.

Jesús er sætt líf sálnanna

eftir sr. Jón Þorsteinsson (1570 – 1627) frá Kirkjubæ í Vestmannaeyjum

Jesús er sætt líf sálnanna,
Jesús er best ljós mannanna,
Jesús er hunang hjartnanna,
Jesús er unan eyrnanna.

Jesús er lömdum lækning dýr,
Jesús er veikum hressing hýr.
Jesús klöguðum kvittan skír,
Jesús hræddum kastali nýr.

Jesús er villtum vegur beinn,
Jesús sárum græðari hreinn.
Jesús er aumum aðstoð einn,
Jesús er Guðs húss styrktarsteinn.

Jesús er ríkum æran fest,
Jesús er aumum upphaf mest.
Jesús er ekkjum aðstoð flest,
Jesús er börnum forsvar best.

Jesús er gleði guðhræddra,
Jesús er huggun sorgmæddra.
Jesús er líf endurfæddra,
Jesús er styrkur nýgræddra.

Jesús er höfuð limana,
Jesús er víntréð kvistanna.
Jesús er hænan unganna,
Jesús er hirðir sauðanna.

Jesús er góðra frelsari,
Jesús er illra dómari.
Jesús er Satans sigrari,
Jesús er dauðans eyðari.

Jesús er fæðan hungraðra,
Jesús er friður ofsóttra.
Jesús er brunnur örþyrstra,
Jesús er kraftur vanfærra.

 

Jesús er ungum menntin mæt,
Jesús er gömlum girndin sæt.
Jesús bugnuðum björg ágæt,
Jesús allra vor allt umbæt.

Ó, Jesú, sanna andarlíf,
ó, Jesú, vert mín staðföst hlíf,
ó, Jesú, hjá mér ætíð blíf,
ó, Jesú, frá mér Satan dríf.

Ó, Jesú góði, unn mér fá,
ó, Jesú, þína dýrð að sjá.
Ó, Jesú, haf mig æ þér hjá,
ó, Jesú, svo þig lofi eg þá.

Ó, Jesú, girnd mín innilig,
ó, Jesú, prýði minnilig.
Ó, Jesú fríði, eigðu mig,
ó, Jesú blíði, eg á þig.

Ó, Jesú sálna eilíft hnoss,
ó, Jesú, fyrir þinn deyð á kross,
ó, Jesú, fyrir þinn undafoss,
ó, Jesú Kristi, hjálpa oss.

Ó, Jesú, þína annastu hirð,
ó, Jesú, þína kvölunum firrð.
Ó, Jesú, sé þér ætíð skýrð,
ó, Jesú, heiður, lof og dýrð!

Þinn Jesús?

táningurinn JesúsMenn hafa leitað að Jesú um aldir. Sumir hafa fundið Jesú en aðra hefur Jesús fundið. En allir sem verða vinir Jesú túlka samskiptin með einhverjum hugmyndum, lýsingum og nokkrir síðan með kenningum um hver hann sé og hafi verið. Og nálgun fólks og kenningar eru með ýmsum hætti og hver samtíð þráir og túlkar ákveðin tengsl í samræmi við þarfir. Eitt sinn var það ímyndin af siðvitringnum sem hreif. Í annan tíma var það kraftaverkamaðurinn eða orðsnillingurinn. Í sumum kirkjuhefðum var lögð áhersla á fórnarhlutverk og endurgjald hins krossfesta, í öðrum á upprisuljóma páskanna. Kristur, hinn stríðandi konungur, höfðar til sumra einstaklinga, hópa og tíma. Mjúklátur mildingurinn er öðrum nærstæðari. Stundum hefur Jesús verið í mynd andófsmannsins og sósíalistarnir sáu í honum fyrsta kommúnistann, jafnréttisaktívistar skapandi frelsispostula og bróður hinna kúguðu og fátæku. Ó, Jesú bróðir besti. Myndir Jesú Krists eru margar. Hver er mynd þín af Jesú? Hvers leitar þú? Hvað hefur áhrif á þína Jesúmynd? Eru það þarfir, samfélagsstraumar, menningarviðhorf eða eitthvað djúptækt í þér? Ertu til í að hitta hann?

Fermingarstrákurinn Jesús

Guðspjallstexti fyrsta sunnudags eftir þrettánda fjallar um leit, margþætta og margvíslega leit. Fyrir það fyrsta voru María og Jósef að leita að Jesú. Reyndar er kostulegt, að það hafi tekið þau a.m.k. heilan dag að uppgötva að hann væri týndur. Margar skýringar eru til um af hverju þau voru svona sein að átta sig á stöðunni. Var Jesús vanur að týnast og kom alltaf aftur? Þau sneru við og voru svo þrjá daga að leita að strák. Að finna Jesú getur verið tímafrekt!

Jesús var orðinn 12 ára og bar eins og jafnöldrum hans að fara til Jerúsalem til að taka þátt í manndómsathöfn, hliðstæðu fermingar í okkar hefð. Jórsalaferðin var undirbúin og farin. Jesúfjölskyldan komst klakklaust á leiðarenda og sveinninn hefur gengið í gegnum ritúalið.

Síðan heimferð, konur og börn fóru gjarnan á undan körlunum, hvort sem það hefur verið vegna þess að þeir fóru hraðar yfir – eða að þeir höfðu einhver aukahlutverk umfram hin. Kannski voru þeir bara að skemmta sér! Við getum ímyndað okkur, að foreldrar Jesú hafi treyst strák, hafa haldið, að hann væri á heimleið, allt þar til þau María og Jósef hittust á leiðinni. Þá kom í ljós að hann var týndur og þau neyddust til að snúa við. Leitin hófst.

Jesús týndur

Hvernig lýsir maður eftir drengnum Jesú þegar hann týndist? Hvað gæti best lýst honum svo þau sem hefðu séð til hans kveiktu á perunni og seegðu? „Já, það er einmitt strákurinn sem ég sá.“ Tólf ára gutti, engin barnastjarna í Palestínu og því algerlega óþekktur. Ekki hafa þau sagt, að hann væri frelsari heimsins eða að hann væri mannssonurinn. María hefur ekki vogað sér að segja frá, að þegar hann hafi fæðst hafi harðstjórinn Heródes orðið svo hræddur, að hann hafi látið deyða alla nýbura á svæðinu sunnan Jerúsalem. Ekki hafa þau sagt, að hann væri herkonungurinn Messías. Það hefði sent þau beina leið í fangelsi Rómverja.

Væntanlega hafa þau bara lýst venjulegum unglingsslána, íhugulum og spyrjandi. Þau hafa kannski óttast að búið væri að limlesta hann eða jafnvel myrða. Allir foreldrar geta sett sig í þeirra spor, ímyndað sér kvíðann. Í hverju hafði hann lent? Hvað hafði komið fyrir? Hafði hann gert eitthvað af sér?

Þau hafa farið á lögreglustöðina. Nei, enginn hafði rekist á hann. Þau þekktu leitandi hug hans og hafa vonast til, að hann kynni að laðast að guðsmönnunum og því farið í musterið. Viti menn, sat ekki Jesús þar eins og prútt fermingarbarn, spurði greindarlega, reyndi fræði þjóðar sinnar, ræddi álitaefni í trú og siðferði og vildi svör! Saga dagsins er því ekki morðsaga eða saga um aula vikunnar, heldur heillandi þroskasaga um skarpan ungling í leit að svörum við rosalegum spurningum. Hvað hann borðaði og hvar hann svaf vitum við ekki. Síðar minnti hann á, að matur hans var nú að gera vilja þess, sem sendi hann. Og mannsonurinn væri heimilislaus og ætti engan höfuðhvílustað.

Leit Jesú að eigin sjálfi

Hvað ræddi unglingurinn við fræðimennina? Hann vildi skýringar, ekki aðeins á pólitík eða menningarmálum, á trúarlegum skyldum, heldur á enn róttækari málum, hver hann sjálfur væri. Jesús óx örugglega ekki upp með einhverja barnatrúarvissu um, að hann væri Messías, frelsari heimsins, læknirinn besti, ljós heimsins, brauð veraldar o. s. frv. Hann bjó í smiðshúsi í Nasaret, reyndi að fá botn í hvað grunurinn í djúpum hugans merkti, hvað upphaf hann hefði og hvernig hann gæti brugðist rétt við í upplifunum, af hverju máttur hans stafaði og hvað hvötin merkti. Kannski hefur mamman talað við hann um reynslu sína og vangaveltur. Kannski hefur Jósef líka rætt málið og frændfólkið minnt á sérstakar aðstæður í frumbernsku. Svo hefur lífsreynslan bætt í sjóðinn.

Hann vildi svar við meginspurningunni: Hver er ég? Til hvers lifi ég og hvert er hlutverk mitt í lífinu? Guðsmennirnir gátu veitt honum sértæk svör um ákveðin atriði, en hann varð sjálfur að vinna úr efninu, og marka stefnu sem vörðuðu sjálf hans, þetta sem við getum kallað sjálfsskilning og þar með lífsstefnu. Jesús átti val, naut algers frelsis. Heillandi saga um ungan mann í leit að lífsstefnu.

Foreldrar fundu – en unglingur Guð

Meðan foreldrarnir leituðu að unglingnum var Jesús að leita að sjálfum sér. Þau fundu tryggan og góðan son, en hann fann Guð hið innra, í sjálfum sér. Svör hans við spurningum foreldranna virðast harkaleg en skiljanleg, þegar guðsvitund Jesú og vitund um hlutverk og köllun er höfð í huga. Nokkra þætti í sjálfsvitund Jesú getum við greint í ræðum hans. Á henni byggir síðan íhugun guðfræðinga og trúmanna um allar aldir.

Þegar við förum yfir guðspjöllin sjáum við, að sagan um unglinginn í musterinu er eina bernskufrásagan um Jesú. Engin önnur saga frá æsku Jesú og unglingsárum er til. Jólasöguna og upphafssöguna þekkjum við og næst á eftir henni kemur svo þessi musterisferð og leitin að Jesú. Síðan ekkert annað fyrr en meira en löngu síðar, þegar Jesús byrjaði starf sitt með formlegum hætti. Við eigum því enga ævisögu Jesú í guðspjöllunum. Til að fá fyllri mynd verður að leita í aðrar heimildir utan Biblíunnar, s.s. Tómasarguðspjall. En margir hafa efast um heimildagildi þess og annarra rita um Jesú, þ.e. utan Biblíunnar.

Jesúveruleikinn

Guðsvitund Jesú var ríkuleg, en hann hafði meiri áhuga á lífsiðkun en að skilgreina sjálfan sig fræðilega. Hann hafði minni áhuga en miðaldaguðfræðingar á frumspekilegum skilgreiningum. Við vitum ekki hvað María sagði honum. Enginn Biblíufræðingur mun halda fram að Betlehemsatburðirnir séu lýsandi sagnfræði. Allt er þetta á sviði táknmáls.

Sjálfsvitund helstu jöfra menningarsögunnar er eitt og hugmyndir fylgjenda stundum aðrar. Sjálfsvitund Jesú er um margt greinanleg, en þó er margt á huldu.

Björgin góða

Forsenda þess, að við getum gengið inn í guðsreynslu og innlífast guðsveru Jesú, er að við viðurkennum okkar eigin leit, sem er æviverk, förum í musterið með honum, göngum inn í angist hans og líka traust. Er Jesús forgöngumaður, vinur þinn, bróðir sem heldur í hendi þína?

Hver er Jesús? Jesús er í húsi föður síns. En finnur þú hann þar? Þú finnur hann ekki í fræðunum um hann. Ég get útlistað kenningarnar um hann, en aðeins þú getur farið og fundið hann, lifandi persónu. Að trúa er persónulegt mál, það að hitta Jesú og verða vinur hans. Það gerir enginn annar fyrir þig.

María og Jósef hlupu til Jerúsalem og leituðu að Jesú og höfðu sinn skilning. Við erum lík þeim, við leitum að ákveðnum Jesú, en svo mætir okkur annar. Þar er viskan, þegar við gerum okkur grein fyrir, að við finnum annan en við leitum að. Jesús er meira en ímynd okkar af honum, líka annað og meira en ímynd guðfræðinnar um aldir. Mannleg orðræða og lýsingar spanna aldrei það sem er guðlegt.

María og Jósef spurðu hvort menn hafi séð Jesú. Spurningin í nútíð okkar varðar ekki hvar hann er, heldur hvort og hvernig hann lifir meðal okkar og í okkur. Líf okkar varðar hvort við erum vinir Jesú Kristi og leyfum honum að vera Guð í okkur. Algert frelsi, algert val. Gildir fyrir alla, mig og þig.

Prédikun í Hallgrímskirkju 9. janúar, 2016.

Lexía: Slm 42.2-3

Eins og hindin þráir vatnslindir

þráir sál mín þig, ó Guð.

Sál mína þyrstir eftir Guði, hinum lifanda Guði,

hvenær mun ég fá að koma og sjá auglit Guðs?

Pistill: Róm 12.1-5

Því brýni ég ykkur, systkin, að þið vegna miskunnar Guðs bjóðið fram sjálf ykkur að lifandi, heilagri, Guði þóknanlegri fórn. Það er sönn guðsdýrkun af ykkar hendi. Fylgið ekki háttsemi þessa heims. Látið heldur umbreytast með hinu nýja hugarfari og lærið svo að skilja hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna.

Fyrir þá náð sem mér er gefin segi ég ykkur öllum: Enginn hugsi hærra um sjálfan sig en hugsa ber heldur í réttu hófi, og hver og einn haldi sér við þann mæli trúar sem Guð hefur úthlutað honum.

Við höfum á einum líkama marga limi en limirnir hafa ekki allir sama starfa. 5Eins erum við, þótt mörg séum, einn líkami í Kristi en hvert um sig annars limir.

Guðspjall: Lúk 2.41-52

Foreldrar Jesú ferðuðust ár hvert til Jerúsalem á páskahátíðinni. Þegar hann var tólf ára fóru þau upp þangað eins og þau voru vön og tóku Jesú með sér. Þau voru þar út hátíðisdagana. En þegar þau sneru heimleiðis varð sveinninn Jesús eftir í Jerúsalem og vissu foreldrar hans það eigi. Þau hugðu að hann væri með samferðafólkinu og fóru eina dagleið og leituðu hans meðal frænda og kunningja. En þau fundu hann ekki og sneru þá aftur til Jerúsalem og leituðu hans.

Eftir þrjá daga fundu þau hann í helgidóminum. Þar sat hann mitt á meðal lærifeðranna, hlýddi á þá og spurði þá. En alla, sem heyrðu til hans, furðaði stórum á skilningi hans og andsvörum. Og er þau sáu hann þar brá þeim mjög og móðir hans sagði við hann: „Barn, hví gerðir þú okkur þetta? Við faðir þinn höfum leitað þín harmþrungin.“

Og hann sagði við þau: „Hvers vegna voruð þið að leita að mér? Vissuð þið ekki að mér ber að vera í húsi föður míns?“ En þau skildu ekki það er hann talaði við þau.

Og Jesús fór heim með þeim og kom til Nasaret og var þeim hlýðinn. En móðir hans geymdi allt þetta í hjarta sér. Og Jesús þroskaðist að visku og vexti og náð hjá Guði og mönnum.

Ó, Guð vors lands – hvar?

ljóskrossÓ, lands vors Guð. Hver og hvar er hann? Ertu í sambandi við þann Guð sem hefur tímaflakk á valdi sínu? Hverjir lofa hið heilaga nafn? Er það til einhvers? Og hvað munu þúsundir Íslendinga syngja í Frakklandi þegar landsleikir Evrópumótsins byrja? Lofsöng til Guðs! Og þeir munu leggja allt í sönginn og líka í leikinn. En hvað með trúna og stöðu hennar í samfélagi okkar. Trúin er ekki dauð heldur sækir fram – og Guð heldur áfram að elska þig og allan heim – hvaða afstöðu sem þú hefur.

Trúin á innleið

Kirkjusókn um þessi jól var víða mjög mikil. Hallgrímskirkja er stór helgidómur en í guðsþjónustum á aðfangadagskvöldi var stemming í kirkjunni, hvert sæti skipað og margir stóðu – og mál starfsfólks að aldrei hafi jafn margir komið og þessi jól. Ekki veit ég hve stór hluti þjóðarinnar sótti í kirkjur Íslands á þessari hátíð, en víða var aukning á kirkjusókn miðað við undanliðin ár. Fólk í jólaboðum spurði af hverju koma svona margir í kirkju? Er kannski aukinn trúaráhugi meðal þjóðarinnar? Er trúin á innleið í samfélaginu en ekki útleið?

Molnun – samstaða

Í samtölunum í skírnarveislum, fjölskylduboðum og jafnvel erfidrykkjum í liðinni viku hafa viðmælendur mínir teiknað upp fyrir mér breytt Ísland. Að allt fljóti – segja þau – fólk segi skilið við hefðbundnar hugmyndir um stjórnmál, menningarmál og trúmál. Æ stærri hluti Íslendinga sé á breytingaskeiði hugmyndanna. Þeim fjölgi sem segi skilið við hefðbundna flokka, stofnanir og hugmyndakerfi. Kirkjan verði fyrir sömu breytingum. Hafi einhvern tíma verið til einsleit menning Íslendinga sé hún að baki og  merkingarkerfi og menning Íslendinga hafi brotnað í marga mola.

Einn sagði:  „Kirkjusóknin vex því hluti þjóðarinnar stendur með kristni og fólk gerir sér grein fyrir gildi trúar og kristinnar siðfræði.“ Ein var á því að andstæðurnar yrðu meiri í samfélagi okkar. Sá hópur stækkaði sem berðist gegn trú, en hinn hópurinn efldist líka sem gerði sér grein fyrir að trú væri svo mikilvæg einstaklingum og samfélagi að slá yrði skjaldborg um líf hennar. Er menningin brotin og aðeins eftir menningarkimar sem ekki tala saman heldur berjast um völd og áhrif.

Trú: Samtöl og umfjöllun

Mér kom reyndar ekki á óvart að kirkjusókn myndi aukast því á þessu ári sem er að líða hef ég heyrt í svo mörgum sem hafa tjáð samstöðu um trú og gildi í samfélagsbreytingum. En ég hef líka hlustað á fólk tjá andstöðu við trú og orðað efasemdir um kirkjuna. Ég hlusta, ræði málin og deili helst ekki við fólk um trú því það rímar illa við mannvirðingu kristins manns. Ég hef líka þjónað mörgu fólki á árinu sem hefur ekki farið í felur með guðleysi sitt. Það er ákvörðun í hvert sinn að óska skírnar barns og foreldrar ekki alltaf sammála. Og útför í kirkju er ekki sjálfsögð.

Mér virðist ákveðin breyting hafi orðið í borgarsamfélaginu. Í samtölum í tengslum við athafnir, kemur í ljós að æ færri fela hugmyndir sínar. Þau sem eru ekki guðstrúar ræða oft afstöðu sína til trúar við prestinn. Trú eða trúleysi eru ekki lengur feimnismál og í öllum fjölskyldum eru ólíkar skoðanir og trúarhugmyndir. Skoðanafrelsi er mannfélaginu dýrmætt og þarf að verja. Tjáningarfrelsið er gull samfélags.

Samfélagsmiðlarnir

Umræður um trúmál hafa aukist á samfélagsmiðlunum. Sumt sem þar er sagt er af viti, annað léttvægt. Nokkur hella úr koppum yfir kirkju og trú og ljóst að sumt af því er óuppgerð reiði vegna einhvers annars en kirkju. Almennt er til bóta að trú og umræður um átrúnað hafi verið leyst úr viðjum hafta og þmt. tabúa. Að ræða um trú á forsendum kirkju eða átrúnaðar þjónar ekki sjálfkrafa Guði. Guð er óbundinn og frjáls og við eigum að leyfa okkur frelsi í trúarhugsun okkar. Marga hef ég heyrt gagnrýna þjóðkirkjuna en ekki þar með hafna trú eða Guði. Og þarft er að greina á milli kirkjustofnunar og trúar. Hver stofnun og mannlegt fyrirtæki gerir mistök sem á að gagnrýna. Þjóðkirkja er ekki hafin yfir gagnrýni, ekki frekar en dómstólar, Alþingi, sveitarstjórnir, hreyfingar og fyrirtæki. Þjóðkirkjan á ekki að fara í vörn, þarf að bæta starf sitt og breytast eins og hinar hreyfingarnar og stofnanir samfélagsins. Kristin guðfræði hefur alla tíð kennt af raunsæi að menn séu sjálfhverfir og breyskir. Trúmenn eru jafn ófullkomnir og aðrir menn. Lifandi kirkja sem vill þjóna fólki í framtíð fagnar því rýni til gagns.

Út úr almannarýminu?

En svo eru hins vegar til árásir á trú og guðstengsl sem hafa ekki með skynsemi eða raunveruleika að gera. Vaxandi hópur samfélagsins hefur óþol gagnvart hinu trúarlega, fer á límingunni þegar trú kemur við einhverja sögu. Mikið hefur verið rætt um samskipti kirkju og skóla á liðnum misserum. Tilgangur margra þeirra sem hafa hæst er að ýta málum trúar út af stóra sviði almennings og inn á litla svið heimilis og einkalífsins. Trú sé eins og kynlíf, það eigi bara að iðka innan vébanda einkalífsins. Það er auðvitað rétt að trú er mjög persónuleg en hún er þó allt annars eðlis en kynlíf og mun aldrei lúta líkum reglum. Trúin leitar alltaf inn á torg mannlífsins vegna þess að trú er samfélagsleitandi, leitar til margra. Trú verður aldrei ýtt inn fyrir dyr og glugga hins einkanlega því eðli trúar er samfélagsskapandi. Þegar reynt er að þrengja að trú sprengir hún af sér fjötra og teygir hendur til fólks.

Í íslenskri kristni hefur um aldir verið alið á mannvirðingu. Passíusálmar, Vídalínspostilla, hugvekjubækurnar og sálmarnir kenna fólki að virða aðra og bera hag þeirra og samfélags fyrir brjósti. Siðfræði kristninnar hefur kennt í þúsund ár að menn eigi að virða mannhelgi hvers manns. Eitt af því gæfulegasta og gleðilegasta í samfélagi Íslendinga síðasta áratuginn er að nú ríkir sátt meðal okkar um að virða kynhneigð fólks. Það er vel því allir eiga að njóta manngildis og öllum á að sýna mannvirðingu. En þegar kynhneigð fólks er virt er stækkandi hópur sem gerir gys að, tortryggir og hæðist að trúhneigð fólks og trúariðkun. Þegar tabúin losna varðandi kynhneigðina er hópur að reyna að þrengja að trúnni og troða inn í skáp þöggunar. Það er sorglegt því engum líður vel í skápum. Samkynhneigðu fólki leið ekki vel þar. Trúmenn – og allt heilbrigt fólk – óskar eftir mannvirðingu en ekki mannfyrirlitningu, marglitu samfélagi en ekki einlitu, opnu en ekki þröngu.

Trúin í lífinu

Á árinu 2016 munum við ekki aðeins vinna, borða, elska, kjósa og elta fótbolta í Frans. Við munum búa við hernað, hermdarverk, flóttafólk og líka fólk með óþol gagnvart trú. Við munum sem einstalingar og hópar taka skref og jafnvel ákvarðanir um mörk trúar, hvar trúin má vera og hvernig hún eigi eða geti blandast samfélagsvefnum. Við getum lagt niður eða eytt trúarstofnunum en enginn einræðisherra heimsins eða menningarafl megnar að útrýma trú. Það er virðing við trú að reyna hana með rökum en mannfyrirlitning að reyna að ýta henni út af rönd samfélagsins. Flestir heilbrigðir menn leita að lífsdýptum og margir finna engan frið fyrr en í tengslum við þann mátt sem trúmaðurinn kallar Guð.

Á lokadegi ársins gleðst ég yfir hversu víða er talað um trú og hve margir vilja ræða um hvað er gilt og hvað er úrelt. En þegar rætt er um framtíð íslensks samfélags með aukinni menningarlegri fjölbreytni, fjölgun innflytjenda til landsins og æ meiri blöndun, er mikilvægt að taka upplýst gæfuskref. Við gerðum mistök í efnahagsmálum sem leiddu til hruns. Og við höfum ekki efni á að gera menningarleg misstök með því að ana fram af samfélagslegri einfeldni. Allir verða að beita sér með viti og yfirvegun í málum menningar og trúar. Hið mikilvæga er að viðurkenna að trú gefur einstaklingum stað, gildi og stefnu, áttvísi í veröldinni. Og slíkir leita inn í almannarými með siðvit sitt og afstöðu. Trú er mál torgsins.

Opna – loka – torgþrá – skápur

Viljum við menningarlega einsleitni? Viljum við banna erlendu fólki að koma til landsins? Einangrunarhyggja er ekki til gagns. Það er til farsældar að íslenskt samfélag megi njóta hins besta úr menningu heimsins en afar mikilvægt að skera burt hið illa, hvort sem það er innlend vitleysa eða erlend. Mannvirðing er mikilvæg og mannfyrirlitningu á ekki að líða.

Við höfum tvo kosti hvernig við viljum skipa trúmálum okkar í framtíðinni. Annar kosturinn er að þrengja að hinu trúarlega og ýta iðkun hennar inn á svið einkalífsins. Ef trúnni er hins vegar þrengt í skápa samfélagsins, henni haldið í gettóum, elur hún bókstafshyggju, þröngsýni og þegar verst lætur ofbeldi. Trú og trúariðkun þarf að vera hægt að skoða og skilgreina.

Hinn kosturinn er að virða torgþrá trúar og sókn hennar inn í almannarýmið. Trú þarf að fá að dafna í almannarýminu til að þroskast með heilbrigðu móti. Trú leitar alltaf inn í miðju samfélags og menningar. Trú getur vissulega lifað á jaðrinum. En vegna þess hve umbreytnadi, lífsfyllandi og gefandi Guðsnándin er mörgum sækir trúin í mannlífsmiðjuna. Í trú er fólginn kraftur til góðs. Í almannarýminu er hægt að tala um trú, greina hana og gagnrýna til góðs, rökræða hana, grínast með hana og gleðjast yfir fjölbreytni hennar og lífsgæðum.

Flóttamenn koma til okkar með ólíka menningu, trú og siði. Hvað viljum við gera þessu fólki? Viljum við búa til skápa, menningarkima, sem eru aðgreindir og lokaðir frá öðrum kimum íslensks samfélags?

Heimsbyggðin verður æ tengdari. Átök í Asíu og Afríku hafa bein áhrif í París og Reykjavík. En það er okkar eigið val er hvort við veljum að lifa sem opið, gagnrýnið samfélag eða lokað og aðþrengjandi þjóðfélag. Hvort er betra? Hvort hentar lífi og fólki betur?

Söngur þjóðar

Svo eru áramót. Við syngjum þjóðsönginn og á stóru stundum Íslands. Þessi mikli söngur þjóðarinnar opnar gáttir og víddir til dýrðarsmáblóma landsins, til ofurfléttu tíma og sólkerfa. Guð vors lands og lands vors Guð, við lofum þitt heilaga, heilaga nafn. Sú trú verður ekki lokuð í skáp heldur leitar hún út í víðerni náttúru, mannheima, alheims. Guð kemur til þín sem trúir á Guð, vilt trúa á Guð, finnur fyrir guðlegri nánd í náttúrunni og upplifir eitthvað dásamlega guðlegt í lífinu.

„Með Jesú byrja ég, með Jesú vil ég enda.“ Guð geymi þig á nýju ári og varðveiti þig, heima, á torgum, í áhorfendastúkum, skólum, búðum, í vinnu og samskiptum og gefi þér trú og mátt til að lifa í mannvirðingu og sátt við þitt eigið sjálf, fólkið þitt, heimsbyggðina og Guð.

Guð gefi þér gleðiríkt ár.

Hugleiðing í Hallgrímskirkju við áramót. Aftansöngur 31. desember, 2015. Hljóðsrká fra´RÚV er aðgengileg um tíma á bak við þessa smellu.