Greinasafn fyrir merki: Árni Svanur Daníelsson

Árni Svanur 47

Afmælisdagur. Vinur minn og velgerðarmaður, Árni Svanur Daníelsson á afmæli. Hann er vitur, fjölfræðingur, óáreitinn, tillitssamur, vinnuforkur og samviskusamur. Hann hefur góða baksýn og menningarlæsi. En svo hefur hann líka áhuga, tilfinningu fyrir hræringum tíma, kirkju og samfélags. Hann les vel mynstur, strauma og fólk og er alltaf opinn gagnvart breytingum og möguleikum. Ég hef löngum dáðst að hve vel Árni Svanur þolir álag, áreiti, streitu, hrokafullt fólk og alls konar vitleysisgang. Í miðju ati hefur hann húmor, yfirsýn og sér leiðir úr vandkvæðum og möguleika. Gefst aldrei upp. Það er einstakt og eftirsóknarvert að vera í liði með honum. Í fyrirstöðu sér hann jafnvel möguleika. Hann er leiðtogi. Svo er hann flestum tölvuglöggari og gott að njóta kunnáttu hans þegar vélarnar skrölta, símarnir klikka og öppin skelfa. Árni Svanur byggði upp vefi þjóðkirkjunnar, uppfærði prestastéttina um mörg tækniþrep og í guðfræðiopnun og menningarlæsi. Svo varð hann snemma afar skarpur guðfræðingur. Það var mikið lán að hann gekk í þjónustu þjóðkirkjunnar og jafnframt missir þegar hann fluttist erlendis. En Lútherska heimssambandið hefur notið visku hans og kunnáttu. Ég er sá lánsmaður að hafa notið vináttu Árna Svans Daníelssonar og notið hæfileika hans og velvildar. Guð laun. Hamingju- og blessunaróskir til þín, Kristínar Þórunnar og barna.

Myndir Sig. Árni