Vigdís Finnbogadóttir á afmæli

Alla mína tíð hefur Vigdís verið álengdar, stundum nær og stundum fjær. Hún átti heima í nágrenni mínu í bernsku og var alltaf elskuleg okkur börnunum í hverfinu. Ég heillaðist eins og flestir af frönskukennslunni og svo fylgdist ég álengdar fjær með störfum hennar. Meðan atkvæði voru talin eftir forsetakjörið var ég í húsinu við hlið heimilis hennar, hjá Þóri Kr. og Bíbí. Svo þegar dagaði fórum við út á stétt og fögnuðum þegar Vigdís gekk út (sjá mynd Þóris Guðmundssonar). Svo varð Vigdís nánast heimilisvinur þegar fóstri minn Halldór Reynisson varð óvænt forsetaritari. Hún var gjöful í samskiptum þegar ég bjó í Skálholti, studdi starfið og staðinn þar. Svo þegar ég og fjölskylda mín bjuggum á Þingvöllum þjónaði ég Vigdísi oft í opinberum heimsóknum. Aldrei bar nokkurn skugga á því Vigdís hafði lag á að lyfta formsamverum í hæðir hlýju og gleði.

Einu sinni var ekki hægt að fara með Noregskonung í Borgarfjörð vegna veðurs. Þá varð stórkostlegt skrall í stofunni heima hjá okkur. Davíð Oddsson og Jón Baldvin fóru á kostum og Vigdís stýrði gleðinni. Þau konungshjónin söguðu að þau hefðu aldrei upplifað slíka partígleði. „Þið eruð svo fullkomlega afslöppuð í kátínu ykkar“ sögðu þau við mig og leið svo vel í hlýjunni handan formalismans. Oft voru börnin nærri opinberum gestum og alltaf hafði Vigdís lag á að leyfa þeim að vera þátttakendur. Hún nýtti alltaf möguleikana til lífsbóta og gleðiauka – og allir nutu.

Yngri drengirnir mínir fylgdust svo með Vigdísi þegar hún heimsótti Ástríði, dóttur sína, og fjölskyldu hennar á Tómasarhaganum. Svo þegar þeir fengu reiðhjól vorum við, fjölskyldan, einu sinni að koma frá Norræna húsinu hjólandi. Vigdís rölti úti með dótturbörnum sínum og svo illa vildi til að annar drengjanna hjólaði á hana. Þeim brá báðum en Vigdís var meira með hugann við hræðslu drengsins en eigin áverka. Hún fullyrti að hún væri óslösuð, en drengurinn fylgdist reglulega með hvort hún stingi nokkuð við þegar hann sá hana síðar. Svo var ekki, honum til léttis. Honum þykir ekki gott að vera strítt á að hafa hjólað Vigdísi niður. Vigdís hefur líklega kysst fleiri karla á Íslandi en aðrar konur en enginn karlanna hefur hjólað hana niður nema sonur minn. Vigdís efldi alltaf alla, stækkaði fólk í kringum sig og gaf íslendingum trú á möguleika sína og getu. Takk Vigdís – Guð geymi þig.

Svart hvíta myndin er mynd Þóris Guðmundssonar. Hina myndina tók ég í dag er við Hörður Áskelsson vorum á leið frá Hallgrímskirkju á leið heim og gengum fram hjá heimili Vigdísar, Aragötu 2. Við blessuðum íbúann. Einhver höfðu stráð blómum á stéttina. Fagurt.