Jóna M. Snævarr – minningarorð

Hvað er hamingja? Hvað þarf til að líf sé gott og gjöfult? Þessar spurningar hafa laumast að mér þessa daga stríðsfrétta. Myndirnar af fólki á flótta að heiman eru átakanlegar. En íhugun um líf Jónu hefur orðið mér sem sefandi blessun þegar tíðindin af heimshörmungum hafa borist. Það hefur verið nærandi hugsa um gleðiefni hennar og hvernig hún þjónaði af umhyggju og lipurð. Hún var heima, hamingjusöm og veitandi. Heima var auðvitað fyrir norðan, í öndvegi íslenskra dala, eins og segir í svarfdælasálminum. En heima var þar sem Stefán og Jóna voru. Hamingjan var þeim heimafengin og eðlilegur heimilisiðnaður. Heima er þar sem við náum að samstilla krafta hið innra og ytra. Heima er þar sem fólki og ástvinum líður vel, börn dafna og gamla fólkið finnur til öryggis. Heimaslóð er þegar nágrannar hafa frelsi og möguleika til að njóta lífs og búa við gleðilegan frið. Þannig var Svarfaðardalur á uppvaxtartíma Jónu, uppbyggingarsveit og bóklesandi samfélag. Þar var fólk sem bjó til vegi og brýr, efndi til leiksýninga, sagði litríkar sögur, rauk á fjöll til þess að gleðjast eða ná hærri sjónarhóli, greina plöntur, ljóða um lífsins undur, drauma og gróandi þjóðlíf.

Jóna naut þess að vera í fjölmenni og gleðskap. Hún var gleðisækin, hógvær, umhyggjusöm og nærgætin. Í henni bjó djúp mannvirðing. Hún vildi gleðja fólk og gera því vel. Jóna var gestrisin og efndi fúslega til mannfagnaðar. Svo skipulagði hún og framkvæmdi. Þess var aflað sem þurfti, svo var eldað og bakað. Þegar komið var að því að dúka sætti Jóna sig ekki við annað en það besta. Hún hefði auðvitað getað látið nægja að leggja aðeins á borð og undirbúa veitingar og láta þar við sitja. Nei, lágmarksviðbúnaður var ekki hennar stíll. Hún fór lengra, hugsaði um hvað dagurinn gæfi. Hún fór gjarnan út, svipaðist um í garðinum eða umhverfinu og notaði hið óvænta og fagra sem tíminn hafði skapað. Fagrir voru reyniberjaklasarnir, blómin eða haustlaufin sem urðu skraut á borði hennar. Gestir Jónu glöddust yfir yndisaukanum og fegurð borðhaldsins. Íslensk gestrisni, glaðværð og öguð fegurðarsókn fléttaðist saman í Jónu og íslenskir og erlendir gestir fóru frá heimili hennar með fegurð í augum, hlátur í eyrum og vitund um að lífið væri gott. Jóna var velgerðarkona í lífi, störfum, afstöðu og þjónustu við fjölskyldu. Presturinn átti því alltaf stuðning í konu sinni. Jóna var fulltrúi Guðs í veröldinni og verndari heimilis síns og sveitunga.

Sökkuupphafið

Jóna Magnea Snævarr fæddist á Sökku í Svarfaðardal 9. febrúar árið 1925. Foreldrar hennar voru sæmdarhjónin Rósa Þorgilsdóttir og Gunnlaugur Gíslason. Jóna var elst í systkinahópnum. Hin fjögur systkinin eru Dagbjört Stephensen, Halldóra Gunnlaugsdóttir, Þorgils Gunnlaugsson og svo fósturbróðurinn Halldór Arason, sem var tekinn í fóstur sem kornabarn. Af systkinunum eru tvö látin, þau Halldóra og Halldór.

Sökkuheimilið var fjölmennt menningarheimili. Rósa og Gunnlaugur höfðu gestrisni fyrir börnum sínum, vinnusemi, manndóm, sjálfstæði og dug. Uppeldisbragurinn var glaðvær og lífsafstaðan var sókn mót sólu. Sökkubærinn stóð hátt en var þó í skjóli Hamarsins fyrir norðanáttum. Útsýn Sökkufólksins í þessu öndvegi íslenskra dala var glæsileg. Stutt var milli bæja og félagslífið ríkulegt og metnaður ríkti í menningarstarfi þessarar þéttbýlu sveitar. Gunnlaugur var forystumaður í mörgum efnum. Hann beitti sér fyrir vegarlagningu fram dalinn og unga fólkið lærði að ekkert kemur af sjálfu sér. Ég heyrði sögur í bernsku af því þegar fólkið kom af bæjunum á Austurkjálkanum með skóflur og haka til að gera veg saman. Brautin var gerð og til góða fyrir samskipti og búskap. Enn njóta íbúar framsýni hugsjónafólksins fyrir einni öld. Sökkufólkið hafði einnig getu og dug til að vinna með náttúrunni til að auka gróðurvöxt og heyfeng. Áveitukerfi var gert á Sökkubökkum og engjum með stíflum, flóðgáttum og brúm. Hægt var að veita vatni víða. Áveitubakkarnir urðu grasgefnari en ella. Ég fór oft um bakkana í veiðiferðum bernskunnar og alltaf dáðist ég að Sökkumönnum sem voru ekki aðeins dugmiklir heldur urðu fyrirmynd öðrum sveitungum um metnað og stórvirki.

Jóna var efnisbarn og lærði snemma að taka til hendinni. Hún var handlagin og henni var treyst. Faðir hennar vildi gjarnan að hún væri með honum í störfunum. Alla tíð síðan var Jóna atorkusöm, lagin, fyrirhyggjusöm og skilaði því sem henni var falið. Hún var mögnuð Jóna. Í kraftmikilli og fjölmennri stórfjölskyldu varð Jóna læs á fjölbreytileika mannlífsins. Hún var félagslega hæf alla tíð, sem kom henni að notum þegar hún varð ung prestskona á mannmörgu og gestkvæmu heimili á Völlum þar sem þrjár kynslóðir fólks bjuggu saman, sterkir og stöndugir einstaklingar.

Nám og skólar

Svarfdælingar voru svo lánsamir að barnakennar í sveitinni voru góðir fræðarar. Jóna var þakklát fyrir að hafa notið kennslu hins rómaða kennara Þórarins Eldjárns á Tjörn. Eftir skólun í heimabyggð stefndi Jóna í Menntaskólann á Akureyri. Þá var kominn til starfa bráðungur prestur í Velli, Stefán Valdimarsson Snævarr. Hann var svo elskulegur að taka frændsystkin í kennslu til að undirbúa Akureyrarskólagönguna, þau Gísla Jónsson á Hofi og heimasætuna Jónu á Sökku. Eitthvað fleira en skilningsljósin hafa lifnað í þessari prestskennslu því þegar Jóna var kominn í MA nefndi Sigurður skólameistari í hópi fólks Jónu sem kærustu Stefáns Snævars. Jóna roðnaði út að eyrum vegna þessarar opinberunar trúlofunar og vildi helst sökkva í gólf. Jóna var tvö ár í MA og ákvað að ljúka námi með gagnfræðaprófi og fara í húsmæðraskóla. Kannski hefur kærustuparið verið búið að ráðslaga um framtíð á Völlum og álitið að húsmóðurfræðin væru hagnýt ekki síður en beyging latneskra sagna. Jóna hóf nám í nýjum húsmæðraskóla. Hún var ein af 48, sem hófu nám fyrsta árs skólans árið 1945 í nýju húsi sem Guðjón Samúelsson hafði teiknað. Jónu leið vel í þessu nýja umhverfi og var metin að verðleikum. Hannyrðir höfðu verið stundaðar og víða af listfengi á bæjunum í Svarfaðardal. Amma Jónu sem bjó á Hofi vann t.d. til verðlauna á heimilisiðnaðarsýningu í Reykjavík. Jóna lærði að vefa hjá Soffíu, föðursystur sinni, og þegar hún byrjaði nám í húsmæðraskólanum var ljóst að hún var svo vel að sér við vefstólinn að henni var falið að kenna samnemendum sínum.

Stefán og barnalánið

Stríði var lokið. Jóna lauk námi frá húsmæðraskólanum og ástin blómstraði. Þau Jóna og Stefán Snævarr ákváðu að vera ekki bara umtalað par heldur að festa ráð sitt. Það gengu í hjónaband 1. júní árið 1947. Svo hófst liðlega tuttugu ára hamingjutími á Völlum. Þar hafði Guðmundur góði verið prestur, líka Páll Jónsson sálmaskáld og höfundur Ó, Jesú bróðir besti. Einnig höfðinginn Stefán Kristinsson, sem var einn af þremur guðfræðingum sem luku guðfræðiprófi á tuttugustu öld með ágætiseinkunn. Vallaheimilið hafði því verið menningarsetur í uppvexti Jónu. Hún vissi um stærð staðar og dúp sögu. En hún var tilbúin, sagði já við bónorðsósk og flestum lífs- og vinnuóskum Stefáns, bónda síns. Hún var tilbúin að gera fólkinu sem kom til kirkju gott, hvort sem var í gleði-og sorgarerindum. Hún var reiðubúin að þjóna öldruðum tengdaforeldrum og líka föðursystur Stefáns, sóknarfólkinu, sveitungum og ferðafólki. Vellir voru staður um aldir og þau Jóna og Stefán sátu staðinn með sóma og gáskafullri sæmd. Þökk sé þeim og lof.

Þau bjuggu líka við barnalán og voru svo skipulögð að öll börnin fæddust á föstudegi, Gunnlaugur Valdemar m.a.s. á föstudeginum langa! Elst barna þeirra Jónu og Stefáns er Stefanía Rósa. Hún er kennari að mennt. Maður hennar er Ingimar Einarsson, félags- og stjórnmálafræðingur. Börn þeirra eru Stefán Þór og Inga Jóna. Stefán Þór Ingimarsson er lögmaður. Kona hans er Anna Guðrún Birgisdóttir, viðskiptafræðingur, og synir þeirra eru Stefán Gunnar, Birgir Hrafn og Valdemar Björn.

Inga Jóna Ingimarsdóttir er hjartalæknir. Maður hennar er Gunnar Jakob Briem, verkfræðingur. Stjúpsynir hennar, synir Gunnars, eru Baldur Fróði, Jakob Orri og Ari Sigurður.

Gunnlaugur V. Snævarr var annað barn Jónu og Stefáns. Hann lést í september á síðasta ári. Gunnlaugur var kennari og yfirlögregluþjónn. Kona hans var Auður Adamsdóttir, kennari. Dóttir hennar og  stjúpdóttir Gunnlaugs er Þórhildur Erla Pálsdóttir, kennari.

Ingibjörg A. Snævarr, leikskólakennari, er þriðja barn þeirra Jónu og Stefáns. 

Vallaheimilið og prestsheimilið

Heimilislífið á Völlum var litríkt. Þó svarfdælsku Alparnir væru háir vissi Vallafólkið vel að mannlíf og menning væri handa þeirra. Tímarit heimsins komu í bæinn. Vellir voru beintengdir útlöndum. Danir voru gjarnan á heimilinu og börnin lærðu dönsku við bústörf og eldhúsborð. Heimilisandinn var frjáls og opinn. Þau Jóna og Stefán tóku þátt í nýja tímanum og bíll prestshjónanna var einn af þeim fyrstu í dalnum. Ef sækja þurfti ljósmóður eða hjálpa til við fæðingu eða læknisstörf var alltaf hægt að leita til þeirra Stefáns og Jónu. Gamla fólkið á Vallabænum lagði til skólunar ungviðisins. Svo var sungið, hlegið og glaðvær menning ræktuð. Kirkjan var og er við Vallabæinn. Það sem var til á heimilinu var notað í þágu kirkjustarfsins líka. Meira að segja jólatréð var fært út í kirkju í jólamessuna. Einu sinni fauk jólaskrautið í kirkjuferðinni út í buskann þegar verið var að færa tréð milli húsa. Börnin lærðu snemma að hjálpa til og Jónu þótti gott að fá hjálp í bakstri og undirbúningi athafna og hátíða. Til Valla var gefin mikil kirkjuklukka sem kallaði á stórt klukkuport. Á gamlárskvöldi dreif að fólk í Velli til aftansöngs og gleði. Börn sem fullorðnir fengu þá að hringja nærri tveggja tonna Íslandsklukku Svarfdælinga. Það var sjón að sjá þegar krakkapíslir sem hin eldri flugu upp, hangandi í kaðlinum, í kampanólógískum æfingum áramótahringinga. Það er gaman að eiga slíkar og bjartar minningar. Yfir öllu vöktu þau Jóna og Stefán og brostu.

Fyrstu árin ráku þau Vallahjón búskap meðfram prestsstarfinu. Skepnuhaldi var þó sjálfhætt þegar heilsu Stefáns var ógnað. Dalvík stækkaði sem þorp og árið 1968 fluttu þau Jóna til Dalvíkur og bjuggu þar síðan meðan Stefán þjónaði sem prestur og prófastur Eyjafirðinga. Jóna var alla tíð fús að reka fjölbreytilegt og gestrisið prestsheimili. Þangað áttu sóknarbörn fjögurra kirkjusókna oft erindi, í gleði og sorg, og reyndi þá á hlutverk og hæfileika. Jóna hafði áhuga á velferð fólks. Þau hjón voru samstillt um nýta hæfileika beggja í þágu samfélagsins. Þau voru líka samstillt að styðja þau sem þörfnuðust fjáraðstoðar, líka í Frakklandi og í Noregi. Siðferðisafstaða þeirra var hinn klassíska samstöðuafstaða kristninnar. Árið 1984 urðu starfslok Stefáns og Jónu nyrðra. Börn og ástvinir bjuggu fyrir sunnan og þau fluttu suður á Seltjarnarnes. Syðra varð heimili þeirra Jónu dekurreitur fyrir barnabörnin og jafnvel nágranna líka. Eftir lát Stefáns bjó Jóna í skjóli barna sinna þar til hún futti á Dvalar- og hjúkrunarheimilið Grund, haustið 2017.

Minningarnar

Hvernig manstu Jónu? Hvað lærðir þú af henni? Hvað var það eftirminnilegasta sem hún sagði við þig? Hvað gildum blés hún þér í brjóst og hvað siðvit hafði hún fyrir þér? Manstu smiðsauga hennar og góða rýmisgreid? Manstu listaverk hennar og handverk? Áttu jafnvel eitthvað sem hún prjónaði og gaf þér? Manstu hreinlæti hennar, þennan ríka og góða arf sem hún hafði frá Sökkuheimilinu. Manstu hvernig hún þjálfaði huga, mundi fréttir og staði og fletti upp í Landabréfabókinni? Svo kunni hún þessi ókjör af ljóðum, öll tuttugu og átta erindin af Sveini dúfu, Gunnarshólma og Skúlaskeið og fleira og fleira. Jóna ræktaði það sem kallað var fásinnisminni, að muna mikið magn af upplýsingum, muna framvindu og samhengi og tengja svo rétt. Jónu þótti gaman að spila. Hún var góð í vist og svo þjónaði hún dóttur sinni og spilaði við hana marías. Jóna var fróð á mörgum sviðum. Hún var eins og margir sveitungar hennar kunnáttusöm um jurtir og gat á gamals aldri sagt frá tugum blóma í Gerðamóunum í suðurhlíðum Hamarsins. Jóna var blómakona og ræktunarkona. Rósirnar hennar blómstruðu fagurlega, Hawairós og hortensíur. Aldrei kvartaði hún, aldrei hrutu styggðaryrði af hennar vörum. Áhugasvið Jónu var breitt. Hún var meira að segja mjög kunnáttusöm um fótbolta og gat romsað upp úr sér nöfn helstu leikmanna Manchester United. Svo gat hún líka upplýst, eins og slyngur umboðsmaður, hvað Ryan Giggs og hinir leikmennirnir höfðu kostað! Svo fylgdi hún KA í handboltanum.

Jóna var eftirminnileg, glæsilegur fulltrúi íslenskrar sveitamenningar og kristni. Mér þótti hún dásamlegur nágranni sem allir virtu og mátu. Hún var þjónn síns svarfdælska samfélags. Hún var heima í menningu Íslands. En nú er Jóna farin inn í birtuna hinum megin stórfjallanna, inn í menningu himinsins. Þar þarf ekki að skafa toppskaflinn lengur til að sjá út í Sökku bernskunnar. Engin skyndileg útköll vegna fæðinga eða slysfara. Ekki lengur sungið, spilað eða hlegið. En hún skilur eftir sig mynd verndara Svarfdælinga. Sú ímynd hvetur okkur til að gera fólki gott og búa til heimlislega og friðsamlega veröld. Glettið bros hennar lifir í minni. Hún fer ekki framar í berjamó eða ræsir út sitt lið til að bjarga aðalberjum fyrir frost. Hún nær ekki framar í fagurrauða reyniberjaklasa til að leggja á borð og gleðja fegurðarskyn heimafólks eða gesta. Hún gleðst ekki lengur yfir árituðum landsliðstreyjum eða spyr um veðrið heima. Hún er heima, hjá Stefáni sínum, Gulla og stórfjölskyldunni – á Völlum eilífðar.

Guð geymi Jónu, Guð styrki þig og efli. Amen.

Minningarorð í útför í Neskirkju 23. mars, 2022. Kistulagning sama dag. LBE, Félagar í Fóstbræðrum, EHH, F&H ÚH. Landslagsmyndir úr Svarfaðardal SÁÞ en hinar myndirnar úr myndabók fjölskyldu Jónu og Stefáns. 

Kveðja frá Þorgils Gunnlaugsyni, bróður Jónu

Til þín sendi tregatón

tengdan dalnum þínum.

Minning  þín fær mæta sjón

í mynd úr huga mínum.

 

Um götu þína glói sól

á grænum hlíðum fjalla,

með ljúfum ilm úr laut og  hól

þér lykti tíma alla.

 

 

Ásthildur Sveinsdóttir – minningarorð

„Mamma var með íslenskuna upp á tíu“ sögðu synir Ásthildar. Í henni bjó rík málvitund, sem hún fékk í arf frá fjölskyldufólki sínu og úr öguðum málheimi hins unga lýðveldis Íslands. Þegar hún fór að vinna fyrir sér varð málageta mikilvæg í starfi hennar. Svo urðu þýðingar að atvinnu hjá henni. Þýðingar: Hvað er það? Er það ekki bara að finna út orð í einu máli og hliðstæðu í öðru? Jú, vissulega í sumum tilvikum er hægt að þýða beint, en við sem höfum prufað google-translate og smellt á þýðingartilboð á vefnum vitum að hráþýðing er grunn, tilfinningaskert og skilar litlu nema vísbendingum. Raunveruleg þýðing krefst fegurðar, næmni, skilnings, innsæis, menningarlæsis og málvitundar upp á tíu – eða alla vega upp á níu. Merking er aldrei einnar víddar og yfirborðsleg. Tilfinningar mannanna verða ekki afgreiddar með einfeldni. Miðlun merkingar er list. Ásthildur lifði áhugaverða tíma þegar íslenskt samfélag breyttist hratt. Hún lifði áhugaverðu lífi og okkar er að ráða í merkingu lífs hennar, þýða viðburði, orð og lífsferli með alúð. Og kveðja hana með fegurð og virðingu.

Sólvallagata og upphafið

Ásthildur Sveinsdóttir fæddist á aðventunni árið 1942, laugardaginn 5. desember. Kjörforeldrar hennar voruhjónin Sveinn Þorkelsson og Jóna Egilsdóttir á Sólvallagötu 9. Þar ólst hún upp ásamt eldri bróður sínum Agli Sveinssyni. Egill var tólf árum eldri en hún, fæddist árið 1930. Í fjölskylduhúsinu á Sólvallagötu var litríkt mannlíf. Sveinn og Jóna höfðu byggt húsið og ráku verslun á jarðhæðinni. Líf fjölskyldunnar var með ýmsu móti bæði hvað varðaði rekstur og mannlíf. Þetta stóra hús, með margar vistarverur, var umgjörð um líf stórfjölskyldunnar. Þau systkin, Ásthildur og Egill, áttu þar lengi athvarf. Egill starfaði sem bankamaður en í honum bjó líka listamaður og hann lærði útskurð hjá Einari Jónssyni og einnig málaralist í Florence.

Bernska Ásthildar var hamingjurík. Foreldrar hennar báru hana á höndum sér. Hún var skemmtilega, fallega barnið í stóra húsinu og naut athygli og aðdáunar. Á hana var hlustað og við hana var talað. Æskuárin voru góð en stóra sorgarefnið var að faðir hennar lést þegar hún var enn ung. Eftir að námi lauk með hefðubundu grunnskólanámi stóðu Ásthildi ýmsar leiðir opnar. Hún fór m.a. til Englands til enskunáms. Málakonan lagði sig eftir málum. Seinna fór hún í kennaraskólann um tíma og enn síðar í sálfræði í HÍ. Áhugasvið hennar var víðfeðmt og Ásthildi var gefinn opinn hugur.

Ásthildur var dugmikil í vinnu og þjónaði vinnuveitendum sínum vel. Hún nýtti hæfni sína og skerpu. Um tíma vann hún hjá Póstinum, þá starfaði hún um tíma í banka og einnig við afgreiðslustörf í búð. Um nokkurra ára skeið vann Ásthildur í Domus Medica, sem þá var á Klapparstíg, og svo hjá Vita-og hafnamálastofnun og var síðan ritari borgarlæknis. Læknaritarinn varð slyngur höfundur og létti læknum og samverkamönnum mjög lífið við frágang á skýrslunum. Svo tóku við þýðingarnar, sem gáfu Ásthildi möguleika á að nýta alla færni sína og gáfur til að opna víddir merkingar og möguleika. Hún miðlaði milli heima mála og menningar.

Hjúskapur og drengirnir

Svo var það ástin. Þau Hilmar Guðjónsson, teiknari, felldu hugi saman. Þau voru ung og atorkusöm og gengu í hjónaband árið 1962. Drengirnir komu svo í heiminn. Fyrstur var Pétur Sævald. Hann er viðskiptafræðingur og kona hans er Margrét K. Sverrisdóttir. Börn þeirra eru Kristján Sævald og Edda. Næstir komu tvíburarnir Axel Viðar og Snorri Freyr. Axel er byggingaverkfræðingur. Dætur Axels og Þórnýjar Hlynsdóttur eru Sunna og Álfrún. Snorri Freyr er leikmyndateiknari og hönnuður. Kona hans er Anna Söderström. Dætur þeirra eru Hilda Sóley og Eyvör. Börn Snorra og fyrri eiginkonu hans, Láru Hálfdanardóttur, eru Skarphéðinn og Unnur.

Þau Ásthildur og Hilmar skildu, en voru áfram vinir þó þau væru ekki lengur hjón. Þau stóðu saman vörð um hag þriggja sona sinna. Það er mikil gæfa þegar skilnaður veldur ekki vinslitum. Hilmar fór en drengirnir voru fyrstu árin hjá móður sinni. Þeir lærðu snemma að bjarga sér, urðu skemmtilegir og nýttu vel möguleika og hæfni. Ásthildur hélt áfram vinnu utan heimilis til að sjá sér og sínum farborða. Svo potuðust drengirnir upp, hún óx í starfi og þeir öxluðu ábyrgð. Svo kom að því að Sævar Þór Sigurgeirsson kom inn í líf hennar. Þau Ásthildur gengu í hjónaband árið 1978. Sævar Þór starfaði við endurskoðun. Sonur þeirra Ásthildar er Ívar Sturla. Hann er húsasmiður og býr með Anastasiu Podara. Þegar Ásthildur og Sævar Þór giftust flutti hún með drengina sína upp í Engjasel í Breiðholti. Þar bjó hún í nokkur ár en flutti, þegar þau Sævar skildu, yfir í Flúðasel. Þar bjó Ásthildur á annan áratug og flutti svo í einbýli við Hamarsbraut í Hafnarfirði. Síðustu árin bjó Ásthildur á Álftanesi.

Minningarnar

Við skil er gjöfult en líka þarft að hugsa um ástvin, sem er horfinn sjónum. Hvað einkenndi Ásthildi? Hvernig manstu hana og hvað sagði hún, sem var þér mikilvægt? Manstu dýravininn Ásthildi? Heyrðir þú hana spila á píanóið ? Drengirnir muna eftir Bach og Chopin-leik er þeir voru að festa svefninn! Manstu smekkvísi hennar í fatavali og hve nákvæm hún var varðandi klæðnað? Manstu eftir einhverju sem hún saumaði? Strákarnir töluðu um röndóttar smekkbuxur og mér þykir skemmtilegt að hugsa um þá bræður dressaða í smekkbuxur og með hatta! Manstu Ásthildi með Burda-snið á milli handa? Manstu Ásthildi á þönum úr vinnu til að tryggja að drengirnir hennar fengju næringu í hádeginu? Manstu fjör og stemmingu þegar hún var með vinkonum sínum heima? Svo var Ásthildur ráðdeildarsöm og komst vel af. Manstu hvað hún var klár, viðræðugóð og að enginn kom að tómum kofum hjá henni?

Litið til baka

Miklar breytingar urðu á lífi íslensks samfélags á líftíma Ásthildar. Einhæfnisþróun úr sveit í borg varð fjölbreytilegri. Vesturbæjarþorpið splundraðist á árum seinni heimsstyrjaldar. Á Melum, Högum og Holtum voru hermenn í stríði. Þó peningarnir flæddu um æðar samfélagsins rötuðu þeir þó ekki alltaf til Ásthildar og drengjanna hennar. Hún lærði að lífið er barátta en líka undursamlegt, fjölbreytilegt og fullt af vonarefnum. Í lífi Ásthildar speglaðist umbreytingarsaga þjóðar hennar. Jafnvel upphaf hennar var flóknara en margra okkar. Ásthildur var lánssöm að eiga natna og elskuríka kjörforeldra. En blóðforeldrar hennar voru Kristín Jóhannesdóttir og Kristján Davíðsson, sem á síðari árum varð kunnur sem einn helsti myndlistarjöfur þjóðarinnar. Hvað merkir það, að vita að þú ert þessara en líka hinna? Ásthildur var þegar í bernsku margra vídda. Svo missti hún föður sinn átta ára gömul. Hvað merkir það í lífi barns og móður hennar þegar pabbinn og eiginmaðurinn deyr? Heimurinn hrundi en lífið hélt þó áfram. Þegar Ásthildur eltist kannaði hún svo tengsl við ættmenni sín sem hún hafði ekki verið í samskiptum við í bernsku og náði að kynnast sumum. Hún tengdist m.a. blóðföður sínum sem hún mat mikils. Við fráfall Kristjáns fyrir tæpum áratug skrifaði Ásthildur í minningargrein. „Við endurnýjum kynnin í samvistum á sæluströnd. Hvíl í friði faðir minn.“ Það er mikilvægt að geta tjáð tilfinningar svo vel og orðað frið með slíkum hætti.

Í lífinu hafði Ásthildur fangið fullt af verkefnum. 22 ára var hún orðin móðir þriggja drengja. Við, sem höfum verið með þrjú börn á heimili, vitum að verkefnin eru mörg og oft krefjandi. Ásthildur varð að læra allt sem þurfti til búrekstrar, líka að sjóða kartöflur, afla fjár til að reka heimili og standa straum af öllu því sem stækkandi strákahópur þurfti. Ásthildur var svo gæfusöm að hún átti athvarf í fjölskylduhúsinu á Sólvallagötunni. Þaðan lá leiðin austur fyrir læk og í Breiðholtið. Ásthildur tók þátt í útþenslu borgarinnar og var ekki bundin bara við velli og götur norðan Hringbrautar. Hún hélt áfram og líka í vinnu- og heimilis-málum. Mögnuð saga merkilegrar konu.

Ásthildur þýddi á milli heimanna. Tengdi og túlkaði og lifði í sjálfri sér umbreytingu alls. Í lífi hennar var aldrei bara fortíð heldur líka opnun. Hún vonaði, hafði löngun, þráði, vildi svo gjarnan – sem sé þorði að lyfta sér upp yfir nútímann og skygnast víðar um. Við getum skilið það með margvíslegum hætti. En þegar dýpst er skoðað má líka túlka það sem trúarlega dýpt. Að tilveran er ekki bara lokuð og læst heldur má vænta einhvers meira. Trúmennirnir tala um handanvídd sem er kennd við Guð og himinn. Þegar synir Ásthildar kveðja móður sína þá mega þeir tengja þrá og von hennar í lífinu við að nú hafi allir draumar hennar ræst og allt gengið upp. Ekkert tapast í yfirfærslunni. Það er þýðingarsnilld himinsins.

Nú þýðir Ásthildur ekki lengur. Dýrin njóta ekki lengur athygli hennar og natni. Hún kemur ekki framar í heimsókn á heimili sona sinna. Nú er hin fallega og glæsilega kona farin inn í málheim himinsins. Þar eru engar ambögur, málvillur eða þýðingarvillur, ekkert „lost in translation.“ Þar er málið og himneskan upp á tíu. Þar eru samvistir á sæluströnd eins og Ásthildur orðaði það sjálf. Og Sólvellir himinsins. Guð geymi Ásthildi og Guð styrki ykkur ástvini.

Kveðjur

Ég hef verið beðinn um að bera ykkur kveðju frá vinkonu Ásthildar, Sofiu Thors, og fjölskyldu hennar sem búsett er í Þýskalandi. Auk Sofiu eru Dieter Wendler-Johannsson, Haukur Thor, Óli og Carola.

Minningarorð í Neskirkju 10. mars. 2022. Kistulagning í kapellunni í Fossvogi 8. mars. Erfidrykkja í safnaðarheimili Neskirkju. SÞ. GPG og Voces masculorum.

HINSTA KVEÐJA 
Manstu, er saman við sátum 
við sorgþungan úthafsins nið? 
Úr djúpanna dulræðu gátum 
við drógum hinn skammvinna frið,

því eftir var aðeins að skilja, 
og yfir þig skugganum brá 
og eitt er, að unna og dylja, 
og annað, að sakna og þrá. 

 

Jakob J. Smári

Fiski-tacho / besta uppskriftin?

Hráefni – fyrir 4

1 piklaður laukur

1 rauðlaukur og 2 límónur. Laukurinn helmingaður. Ysta lagið skrælt af og síðan er hvor helmingur þverskorinn fínt. Límónur kreistar og vökvinn settur yfir laukinn. Piklað í amk 20 mínútur og ekki verra að leyfa lauknum að vera í vökvanum yfir nótt.

Chili-mayo-sósa

125 gr mayones. 2 tsk chilisósa út í. Hrært vel saman og bragðað til.

Maísblanda með kóríander og chili

200 gr maís.

Hálfur rauður chili fínskorinn.

3 msk fínskorinn kóríander. Blandað saman og smá maldonsalt yfir.  

Fiskur og kryddun

Þrjú til fjögur roðflett þorskflök

1 tsk malað kúmmín (cumin en ekki kúmen)

½ tsk paprikuduft

1 tsk maldonsalt

3 hvítlauksrif, smátt skorin eða pressukramin

3 msk góð ólífuolía

Avocado – í bitum

2 þroskaðir avocado smábitaskorinn

1 límóna, safi.

2 límónuur skornar í rif.

Salat

Salatblöð

2 msk kóríander

Matreiðslan

Stillið bökunarofn á 220 °C. Meðan ofninn er að hitna er meðlætið tekið til. Byrjað á að pikla laukinn. Síðan er chili-mayosósan tekin til sem og maísblandan. Þá er komið að því að gera kryddblöndun á fiskinn. Fiskurinn þverskorinn í þumla og kryddblandan sett yfir og fiskbitunum velt til þar til allur fiskurinn hefur verið kryddaður. Síðan er fisknum komið fyrir í ofninum í hitaþolnu fati og steiktur í 10-12 mínútur eða þar til hann er gegnsteiktur(passa að ofsteikja ekki). Álpappír settur um tortillurnar og pakkinn settur í ofn.

Vökvanum hellt af lauknum og hann settur í skál. Maísblandan í aðra skál og sett á borð. Sem og avocado í einni og chilli-mayo í annarri. Þegar tortillurnar eru orðnar heitar eru þær teknar úr ofni og úr álumbúðum. Ein tortilla sett á hvern disk og síðan er bara að byrja að smyrja með chili-mayo og svo allt hitt sett ofan á. Síðan rúllað upp og auðvitað hægt að setja servéttu utanum svo maturinn leki ekki yfir hendur. Svo eru hnífapör hentug líka. 

Frumuppskriftin er frá Nigellu Lawson.

 

Neyðaróp sem frumóp

Hvað gerir fólkið í Mariupol í stríðshrjáðri Úkraínu þessa dagana þegar skothríðin er nánast samfelld? Hvað gerði Mariana Vishemirsky, slösuð, barnshafandi konan á fæðingardeild, þegar barnasjúkrahúsið var rústað og hún var komin að fæðingu? Hvað gera tugir milljóna Úkraínumanna sem búa við sprengjuregn? Hvað gera milljónir fólks á flótta? Fólkið hrópar á hjálp. Óp þeirra eru ekki bara til hjálparaðila, hjálparstofnana eða vinveittra ríkja. Vissulega hljóma þannig neyðaróp. En skerandi hjálparveinin eru meira en pöntun á plástrum og byssum. Köll fólks í algerum vanda eru frumóp. Jafnvel trúlausir æpa upp í himininn. Úkraínsk kona sagði fyrir nokkrum dögum að þetta væru trúarleg sálaróp. „Ég er trúlaus,“ sagði hún. „Ég trúi ekki á Guð. En núna er ég farin að biðja, eiginlega æpa til Guðs um að hjálpa okkur.“ Hið úkraínska frumóp er: Hjálp Guð. Hjálpaðu okkur með börnin, aldraða foreldra, með mat, eldivið og vatn. Okkur er kalt, við erum hrædd og svöng. Við erum reið og máttvana. Hjálp. Hvar ertu Guð? Vestrænu makræði hefur verið ógnað þessa daga Úkraínustríðs. Við erum vissulega ekki í ísköldum kjallara í Mariupol án vatns, hita, salernis og matar. Við getum ekki kafað í djúp tilfinninga fólks í þessum hræðilegu aðstæðum stríðs, en getum þó skilið að afkróað fólk kallar upp í himininn: „Guð minn góður bjargaðu fólkinu mínu.“ Þegar allt hrynur og lífi er ógnað æpir fólk. Það er viðbragð lífsins. Hjálpaðu er sama bænin og „Drottinn, miskunna þú mér.“ Frumóp lífsins.

Miskunna þú oss

Í guðspjalli dagsins segir frá Jesú á ferð utan Gyðingalands og eiginlega við endimörk heimsins. Hann heyrði að hrópað var til hans: „Hjálp Jesús.“ Kallarinn var kanversk kona, sem sé útlendingur. Hún var stefnuföst og vildi úrlausn mála. Erindið var brýnt. Dóttir konunnar var hættulega veik. Þessi móðir hefur vafalaust verið búin að reyna alla lækna og kraftaverkameðul. Þegar börn heimsins eru í lífshættu reyna foreldrar allt til að bjarga þeim. Ekkert hafði dugað og nú var Jesús einn eftir. Hún setti allt sitt traust á hann. Þar sem konan var útlensk vildu Gyðingar sem minst hafa með hana að gera og var illa séð, að Jesús væri að skipta sér af henni. Jesús minnti konuna á að hlutverk hans væri að þjóna Gyðingum. Konan var hins vegar ákveðin og sprengdi öll viðmið  og hlutverk. Hún bað um hjálp, að Jesús miskunnaði henni. Jesús herti vörn sína og sagði að það sem hann hefði fram að færa ætti að gefa börnum en ekki kasta fyrir hunda. En konan var glögg og hnyttið skopskynið var í góðu lagi. Hún þekkti atferli hunda og minnti á, að þeir næðu í molana sem féllu af borðum húsbændanna og ætu þá. Í konunni spratt fram frumóp lífsins. Hún var einbeitt og lausnamiðuð. Þá gaf Jesús eftir. Þegar eftir er leitað og æpt er upp í himininn er alltaf opnað. Guð heyrir. En heyrum við frumópin? Skiljum við þau?

Í upphafi þessarar athafnar og í upphafi allra messugerða segjum við eða syngjum: „Drottinn, miskunna þú oss. Kristur, miskunna þú oss. Drottinn, miskunna þú oss.“ Er þessi söngur bara eitthvað sem við raulum, setningar sem við meinum ekkert með, aðeins orðaleppar? Er þetta merkingarlaus og blóðlaus þula án svita og tára? Ef svo er þurfum við að endurskoða fordóma okkar. Messan er alvöru en ekki glans. Kirkjuorðin tengjast lífi fólks, vonum og þrá, áföllum og stríðum. Allt, sem er sagt og tjáð í messunni, varðar lífsviðburði, tengist atburðum í lífi fólks og því sem við erum og reynum. Orðin eru ekki himneska, utan við heiminn í dauðhreinsuðu helgirými, heldur varða okkar allt líf fólks, líka barnshafandi konur austur í Mariupol – já allt í margbreytileika sögu og samtíðar. „Drottinn, miskunna þú okkur.“ Orðin á grísku eru Kyrie eleison. Þau birtast eða hljóma okkur í tónverkatextunum, kirkjuversunum, bókmenntum og menningarefni kristninnar. Í þessari setningu er orðuð þrá lífs í landi dauðans. Miskunn er orð um hjálp, sem fólki veitist til að það geti lifað af og náð friði og heilsu. Miskunn er ekki eitthvað á himni, heldur á jörðu og varðar mat, hjálp í hamförum, þegar börnin deyja, maki ferst eða brjálaðir einvaldar æða. Að njóta miskunnar er að vera bjargað. Beiðnin um að verða miskunnað merkir að fólk nái heilsu, fái svalað svengd maga og sálar. Kanverska konan var ekki ein um þessa bæn. Hún er beðin í messum þessa dags, bæði í íslenskum kirkjum og í messum í Úkraínu, líka í Rússlandi og öðrum kirkjum heimsins. Allir kórar, sem syngja kirkjuleg stórverk læra að syngja Kyrie eleison. Þau orð tjá kjarnabæn kristninnar ásamt með Faðirvorinu. Þetta er ópið: Guð hjálpaðu! Það er frumtjáning sálarinnar. Kyrie eleison. Orðið Kyrie – það er orðið á bak við orðið “kirkja.” Orðið eleison vísar í heim olíunnar sem er notuð til að hreinsa sár, elda mat og njóta til heilsu. Orðið á við ólífuolíu. Það er ljómandi tenging fyrir okkur – heimili og kirkja tengjast. Lífsháski og lífslausn líka, líf mitt og þitt saman í einni samtengingu. Þegar þú eldar með ólífuolíunni má frumbænin stíga upp yfir pönnunni: „Guð hjálpaðu.“

Hvernig tengir þú?

Fjöldi Úkraínumanna var í Hallgrímskirkju fyrr í þessari viku til að taka þátt í friðargjörningi. Höfuðbúnaður þeirra var fallegur og þjóðbúningarnir líka. Frá þeim barst neyðaróp. Á eftir syngjum við syngjum í bænagerðinni Kyrie eleison með lagi frá Kiev. Um allan heim er sungið:Drottinn, miskunna þú okkur.“ Við höldum áfram að biðja með kanversku konunni, mæðrum, feðrum, fólki í Úkraínu og Rússlandi og fæðandi konum á fæðingardeildum sem skotið er á og fólki á flótta. Endir sögunnar í guðspjallinu, hver var hann? „Kona, mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt.“ Dóttir hennar varð heil frá þeirri stundu. Jesús hlustaði, heyrði og svaraði. Hin blóðuga, særða og þungaða kona, Mariana í Mariupol, lifði af árás á fæðingardeildina. Myndirnar af henni þegar hún staulaðist milli hæða í húsarústunum fóru um allan hinn rafræna heim. En Mariana fæddi lifandi barn, þrátt fyrir að fæðingardeildin hefði verið eyðilögð. Það var dóttir sem lifði. Í gær var tilkynnt að hún hafi verið nefnd Veronika. Hvað þýðir það nafn: Boðberi sigurs. Stórkostlegt. Lífið heldur áfram. Framtíðin er opin af því Guð heyrir lífsóp, frumóp fólks. „ … mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt.“

Lexía: 1Mós 32.24-30, pistill: Jak 5.13-16, guðspjall: Matt 15.21-28

Prédikun í Hallgrímskirkju 13. mars, 2. sunnudag í föstu, 2022. Myndin er af bænatré Hallgrímskirkju. Mismunandi litir tákna mismunandi bænir og fánlitir Úkraínu eru áberandi en líka rauður litur umhyggju og kærleika. Tíminn er tími opnunar og frumópa! Myndina tók ég 11. mars. 

Rússnesk óróðursyfirvöld héldu fram að Maríana í Mariupol hefði tekið þátt í leikriti sem hefði verið fals og uppspuni. Um spunann allan fjallar BBC í grein að baki þessari smellu. 

Megi þau …

Hugsum til Úkraínumanna sem ráðist var á – megi styrkur þeirra verða óskertur.

Hugsum til kvennanna og barnanna sem eru á flótta – megi gæfan umlykja þau.

Hugsum til allra þeirra sem geta ekki flúið eða farið – megi æðruleysið efla þau.

Hugsum til þeirra sem syrgja og gráta – megi þau finna frið.

Hugsum til allra þeirra sem eru kvíðin og stríðandi – í Úkraínu og um allan heim –  megi samheldni okkar umvefja þau.

Hugsum til þeirra Rússa sem eru ósátt við árásarstríð – megi þau finna farveg fyrir afstöðu og friðarsókn.

Hugsum um okkur sjálf, okkur sem hóp, samfélag og þjóðfélag –  megi okkur lánast að efla hvert annað til dáða, aðgerða, fegurðar, söngs, ástar og lífs.

Meðfylgjandi mynd: Sigurður Páll Sigurðsson.