Greinasafn fyrir merki: knústar kartöflur

Lax og marðar kartöflur

Þessa dásamlegu laxuppskrift fann kona mín í færeysku heimilistímariti – Búumvel þeirra Færeyinga. Mér þótti skemmtilegt að lesa uppskriftina og meðlætið er knúst epli. Það eru ekki trjáepli heldur jarðepli sem eru notuð. Karföflurnar eru marðar lítillega þegar búið er að forsjóða þær.

Byrjið á kartöflusuðunni. Sjóðið í 10-15 mínútur allt eftir stærð kartaflanna . Kveikið á ofninum og stillið á 175°C. Vindið ykkur síðan í maukgerðina. Ég viðurkenni að ég íslenskaði uppskriftina lítillega að eigin geðþótta og kryddunarsmekk. 

Fyrir fjóra

4 laxastykki eða 800 gr – helst villtur lax

2 skalottulaukar

1 púrrulaukur

4 vorlaukar

3 hvítlauksrif

½-1 fennikel

300 gr rjómaostur

1 dl mjólk – eða matreiðslurjómi

1 msk sítrónusafi

1 dillbúnt

1 tsk salt

½ tsk nýmalaður pipar

1-2 tsk capers

Hreinsið fiskinn og skerið í stykki. Saxið púrrulaukinn, skalottulauk og vorlauk þokkalega fínt og hvítlauk fínt. Fennel skorið örþunnt. Steikja síðan allt hið skorna í olíu á pönnu í þrjár til fjórar mínútur. Færið síðan yfir á olíuborið og hitaþolið fat. Laxstykkjunum er komið fyrir ofan á lauk og fennel-maukinu. Sítrónusafinn fer yfir laxinn og síðan er saltað og piprað eða kryddað með uppáhalds laxkryddi kokksins. Saxið svo dillið. Hellið mjólkinni/rjómanum í matvinnsluvél og rjómaostinn. Setjið síðan megnið af dillinu út í en það sem eftir er af dillinu verður notað sem skreyting þegar maturinn verður borinn fram. Blandið saman og smyrjið síðan rjómaostblöndunni yfir fiskinn. Fatið er síðan sett í ofninn og steikt í ca. 15 mínútur. Skoðið þykkasta stykkið til að fylgjast með steikingunni og steikið hvorki of lítið né of mikið.

Marðar kartöflur

800 gr – 1 kg karföflur– helst litlar

100 gr smjör

möndlukurl eftir smekk

2 hvítlauksrif

Eftir suðu á kartöflunum eru þær færðar í smurt ofnfast fat. 100 gr smjör brætt á pönnu og tvö marin hvítlaukslauf sett út í. Þegar búið er að forsjóða kartöflurnar eru þær færðar í smurt ofnþolið fat og lítillega marðar. Þá saltaðar og kryddað ofurlítið og síðan er hvítlaukssmjörinu hellt yfir og möndlukurli líka. Þá er fatið með krömdu eplunum – kartöflunum – sett inn í ofninn síðustu tíu mínúturnar þegar laxinn er að steikjast. Svo eru lax og kartöflur sett á disk og dilli og capers dreift yfir fiskinn.

Bæn: Þökkum Drottni því hann er góður og miskunn hans varir að eilífu.

Verði ykkur að góðu – og lof sé Færeyingum.