Trúir þú á Guð?

Blaðamaður vildi tala við prest og kom svo í Hallgrímskirkju. Samtal okkar var skemmtilegt. Í lokin fórum við inn í kirkjuskipið og kvöddumst að lokum við ljósberann hjá Kristsstyttunni. Á leiðinni fram að dyrum sneri blaðamaðurinn allt í einu við, skaust fram hjá ferðamönnunum og kom aftur til mín og spurði: „Trúir þú á Guð?“ Spurningin var frá hjartanu, einlæg spurning en ekki eftirþanki eða grunur sem braust fram. Svarið var: „Já, ég trúi á Guð. Ég væri ekki prestur ef ég tryði ekki á Guð.“ Ég stóð þarna með logandi kerti í hendi og kom því fyrir hjá ljóshnettinum. Nýtt samtal hófst og risti djúpt. Ferðamenn heimsins fóru hjá með sínar spurningar um tilgang, líf og hamingju.

Trúir þú á Guð? Spurningin laumast að okkur á vitjunarstundum og krossgötum lífsins. Þegar við glímum við breytingar verða spurningar um Guð og trú stundum ágengar. Þegar lífi fólks er ógnað verður hún að spurningu um möguleika lífs. Hvað er hinum megin dauðastundarinnar? Nánd dauðans kallar á líf. Þegar dauðinn sækir að blossar upp lífsþrá. Þegar fólk undirbýr dauða sinn og kallar til prest verða himindjúp samtöl. Á dánarbeði spyr fólk mig stundum um trú mína, hvort ég sé hræddur við dauðann og hvert framhaldið verði. Það eru ekki bakþankar heldur alvöru spurningar úr sálardjúpum.

Margir endurmeta guðstrú sína, tengsl eða tengslaleysi við Guð einhvern tíma á æfinni, sumir oft. Trú er ekki fasti heldur breytist. Trú er gjöf tengsla og trú er traust. Menn bila og geta líka tapað trausti og tengslum við Guð. Ég get ekki verið prestur í kristinni kirkju ef ég tryði ekki eða væri ótengdur Guði. Ég myndi segja af mér prestsstarfinu ef ég missti trúna. Það hafa prestar gert þegar trúin hefur horfið þeim. Guðssamband er ekki fasteign heldur lifandi samband. Það geta orðið breytingar og skil í þem tengslum rétt eins og í samböndum fólks.

Blaðamaðurinn vildi vita hvernig guðstrú tengdist öðrum lífsefnum. Mín afstaða er að trú sé ástarsamband og að trú sé best túlkuð sem ástartengsl. Tjáskipti Guðs og manns eru samskipti elskunnar. Í sambúð fólks getur ást dvínað og trú getur með hliðstæðum hætti linast og jafnvel horfið. Ástartengsl geta líka dafnað og trú getur styrkst. Trú er samband lifandi aðila eins og ástin er lífssamband. Svo var ég spurður um bæn. Svarið var og er að ég bið. Ég gæti ekki hugsað mér orðalaust ástarsamband. Mér þykir óhugsandi að tala t.d. ekki við konuna mína. Bæn er tjáning elskunnar, hlý og óttalaus. Þannig lifi ég trú sem dýpstu tengsl lífsins, að Guð er mér nær en meðvitund mín. Anda Guðs túlka ég sem áhrifavald, ekki aðeins í ferlum og lífvefnaði náttúrunnar heldur líka í tækni, veraldarvefnum, lífspúlsum menningar og öllu því sem verður í veröldinni. Svona túlka ég veruleika Guðs og það er ekkert ódýrt í þeirri nálgun.

Efi og trú eru að mínu viti tvíburasystur og vinir. Ég glími stöðugt við efasemdir mínar. Efinn hjálpar við að greina hið mikilvæga frá hinu sem er úrelt í trúarefnum. Forn heimsmynd er ekki aðalmál trúarinnar og trúmenn hljóta að fagna vísindum og aukinni þekkingu. Hlutverk Biblíunnar er ekki að færa okkur til baka í tíma heldur opna okkur framtíð. Biblíuna þarf að lesa með köldum en opnum huga. Trúarlærdóma þarf líka að skoða og skilja í sögulegu samhengi. Kirkjustofnanir breytast og jafnvel hrynja því verk mannanna eru skilyrt og stundum afar sjálfhverf. Því er vert að skoða allt sem tengist trú og trúariðkun með gagnrýnum huga. Ég dreg ekki á eftir mér gömul og úrelt fyrirmæli Biblíunnar. Ég er frjáls undan hvers konar kúgandi og lífshamlandi valdi. Ég hvorki kannast við né þekki stressaðan, skapstyggan Guð, sem er viðkvæmur fyrir mistökum og ranghugmyndum fólks. Guð reiðist ekki óvitaskap okkar manna þegar við gerum okkur rangar hugmyndir um Guð. Ég er afar gagnrýninn á lífsheftandi guðshugmyndir en ég trúi. Guð tjáir mér elsku sína í hjartslætti mínum, frumum líkamans, hrifningu daganna, faðmlögum og furðum og fegurð heimsins. Trúarspurningin berst öllum einhvern tíma. Hvernig er trú þín eða vantrú? Er allt búið þegar síðasti andardrátturinn hverfur? Hver eru ástartengsl þín við lífið? Trúir þú? Guð talar við þig því ástin orðar afstöðu og þarfnast alltaf samtals.

Messi pistill birtist í Morgunblaðinu fimmtudaginn 5. maí, 2022. Meðfylgjandi mynd er af neðri hluta ljósbera kirkjunnar.

Rósir og páskar

Kristur er upprisinn. Kristur er sannarlega upprisinn.

Skammt frá München í Þýskalandi er Dachau. Þar voru fangabúðir sem nazistar notuðu til að aflífa fólk. Þegar ég kom til München í fyrsta sinn fór ég líka til Dachau. Ég vissi ímislegt um búðirnar. Starfskona á háskólabókasafni í Nashville hafði sagt mér sögur af ættingjum hennar sem höfðu dáið þar og svo fann hún til bækur sem nýttust í námskeiði sem ég sótti. Það er reyndar sálarslítandi að lesa helfararfrásagnir, hvort sem er úr fortíð eða nútímasögur frá Úkraínu, sem halda stíft að manni grimmd og illmennsku. Meðal þess sem ég las á Þýskalandstíma var viskubókin Leitin að tilgangi lífsins. Höfundurinn, Viktor Frankl, var um tíma fangi í Dachau-búðunum. Yfir hliðinu þar stóð: Arbeit macht frei – vinna er til frelsis. En veruleikinn var annar og myrkari hinum megin hliðs og innan girðingar. Auk Gyðinganna höfðu margir pólitískir fangar verið þar vistaðir, fólk sem hafði það eitt til saka unnið að vera ósammála stefnu valdhafa Þýskalands. Meðal þeirra var hinn merki prestur Martin Niemöller, en Sigurbjörn Einarsson þýddi stólræður hans meðan Sigurbjörn var prestur hér á Skólavörðuholtinu.

Skálarnir, húsin og minnismerki Dachau-búðanna sögðu hljóðláta sögu sem var ávirk þeim sem höfðu næði til að hlusta á nið sögunnar og höfðu einhver tengsl við hana. Sláandi var minnismerkið um kristna menn, sem höfðu dáið á þessum stað. Það var róða, Jesús Kristur hékk á krossinum. Þetta var kaghýddur og vannærður Jesús, bróðir harmkvælamanna. Gyðingaminnisvarðinn er hús en í mynd stórs bjargs. Til að komast inn í þá byggingu varð að fara niður í jörðina og þegar inn var komið sást að veggirnir voru bognir en komu saman á einum stað. Veggir og loft hækkuðu til þeirrar áttar, sem veggir komu saman. Þar var því hæst. Augu leituðu upp og hátt uppi var hringlaga op. Þar sást upp í himininn . Öll var byggingin myrk, tilfinningin fyrir grjóti var sterk. Þetta var eins og grafhvelfing. Umhverfi hins dána Jesú leitaði á hugann. Ein ljósleið var þarna og það var leiðin upp í himininn. Sjónlínan var sem vonarslóð – páskaleiðin.

Rósir

Á skírdagskvöldinu var altari þessarar kirkju strípað og borðbúnaður veislu himinsins fjarlægður og borinn út. Fimm rósir voru lagðar á altarið til tákns um síðusár Jesú Krists. Blómin liðu langan föstudag í kirkjunni. Nekt altarisins var sem tákn um hörmungar í lífinu. Allir menn verða einhvern tíma fyrir andstreymi, sorg og áföllum. Að flýja og grafa ógæfu og sorgarefni hefur aldrei verið gæfulegt ráð eða til bóta. Japanska skáldið, Miyasawa Kenji, benti á eins og vitringar aldanna, að til að vinna sigur á þjáningu megum við menn ekki flýja, heldur ættum fremur að viðurkenna hana, umfaðma og nýta síðan til lífsbóta. Í þessu er fólgin mikilvæg leiðarlýsing til góðs. Kenji orkti ljóð um rósaburð. Í einfaldri samantekt segir í ljóðinu: Ímyndaðu þér að þú haldir á fölnuðum, dauðum rósum. Þyrnarnir stinga og freistandi er að sleppa særandi blómunum. En í stað þess að gefast upp gengurðu af stað og í átt að eldstæðinu. Þú hendir rósavendinum í eldinn. Í þeim kviknar. Eldurinn lifnar, vermir og lýsir.

Í þessum rósaburði birtast stig sorgarvinnu. Hið fyrsta er að viðurkenna vanda, ganga síðan með hann og varpa honum í eldinn. Allir, sem hafa átt við eldstæði í köldu rými, kannast við hve vermandi er þegar eldur lifnar, hiti vex og lífsaðstæður batna. Rósaburðurinn er ferli manna í bata og við getum notað það ferli til innsæis á afstöðu Guðs. Rósaburðurinn getur hjálpað okkur til að sjá líf og veröld frá sjónarhóli Guðs. Rósir eru sem tákn heimsins. Guð viðurkennir vanda veraldar, tekur menn og heim í fangið eins og rósabúnt – faðmar veröldina, leggur af stað með meinvaldinn, heldur út sársaukann, fer alla leið og sleppir síðan öllu sem særir. Bálið lifnar, lausn verður, meinið er frá, lífið lagast. Glóðin lifnar, eldur funar, hiti vex til hagsbóta fyrir líf í vanda og sorg. Páskar eru undur himinsins eftir að gert hefur verið upp við sorg og höfnun. Því hefur verið eytt sem menn ollu. Allt böl er uppgert, reikningar sléttaðir og lífið bætt. Mál mannheima hefur verið gert upp í máli guðsheima.

Heimssýn

Hvað hefur reynst þér erfiðast í lífi þínu? Þínir föstudagar eiga sér samfellu í máli bænadaganna. Nú er allt nýtt, allt er breytt. En hefur eitthvað breyst? Hver er heimssýn þín? Fjöldi fólks sér í páskviðburðinum ekkert annað en óra, viðurkennir ekki boðskap sjónarvotta og allra þeirra sem sáu hinn látna Jesú Krist lifandi. Hvaða skoðun hefur þú á páskamálinu að lífið lifir? Allir þeir sem aðhyllast lokaða og sjálfstilvísandi heimsmynd viðurkenna ekki annað líf en það sem efnisvísindi geta staðfest. Þar með er öllu hafnað sem er utan seilingar fræðanna. Slíkir menn munu aldrei viðurkenna upprisu nema sem óefnislegan upplifunarþátt, tilfinningamál og blekkingu. Jesús Kristur hafi ekki risið upp nema í tilbeiðslu frumkristninnar. Líkami hans hafi rotnað, en andi hans orðið til vegna samsinnis, samtals, samfélags og samskynjunar. Allt annað megi síðan skýra og túlka með hjálp mannvísinda, t.d. fagurfræði, sálfræði, mannfræði og félagsvísindum og hafi ekkert með efnisvísindi að gera.

En þótt menn skilgreini vísindi þröngt er ástæðulaust að smætta heiminn. Óþarft er að þrengja túlkun heims. Við megum leyfa okkur að vera opin gagnvart öðrum víddum en hinum efnislegu. Raunvísindi hafa ekkert með að gera hvort Guð er til eða ekki, hvort tilgangur ríki í veröldinni eða ekki og hvort ástin eigi sér djúpa skírskotun handan æxlunarþarfa. Raunvísindi geta ekkert sagt um Guð og eiga ekkert að segja um þann veruleika, sem er og má vera utan seilingar þeirra. Ef Guð er ekki til eru engir páskar. En ef Guð er til og elskar þig og heiminn er von. Í því ljósi nálgast kristinn maður boðskap páskanna. Á þeim forsendum túlka ég líf og nálgun Guðs í boðskap um að Jesús Kristur lifnaði og birtist. Mér hefur verið innrætt í háskólaheiminum að gera kröfur til fræða, en ég held að það séu skottuvísindi sem krefjast þess, að Jesús Kristur liggi enn í gröf sinni. Slík fræði eru á villigötum.

Sjónarhóll

Í lestinni frá München til Dachau voru með mér í klefa nokkur ungmenni. Þau sögðu mér að þau væru á lestarreisu í Evrópu. Þegar inn í búðirnar kom fóru þau hraðar yfir en ég og voru snögg að skoða fábrotna svefnskálana. Þau sögðu hissa hvert við annað: „Hér er ekkert að sjá.” Þau settust niður og fengu sér smók og fóru svo. Þau sáu aldrei neitt annað en nakta skála og nokkrar byggingar. Þau sáu aldrei hinn krossfesta, sáu aldrei grafarminnismerkið um Gyðingana, þetta með ljósopinu til himins. Þau höfðu ekkert heyrt um þennan stað annað en að þetta hefðu verið fangabúðir. Þau voru snögg að sjá að það var ekkert að sjá. Það var ekkert gert til að auka áhrifin, sem aðeins voru í huga þeirra sem komu. Ef maður vill ekki sjá sér maður ekkert, fær sér bara sígó og fer svo.

Svo er það með líka með páska. Við getum orðið föst í kyrruviku lífsins, misst sjónar á hve dramatískt lífið er, farið á mis við að skoða möguleika í lífi okkar og lífshætti. Við getum tamið okkur lokaða heimssýn í stað opinnar. Við getum orðið föst í einhverri sprungu föstudagsins langa eða lokast á laugardegi og aldrei upplifað páska. Páskarnir eru opnun, að horfa upp, komast upp úr byrginu, að sjá að bjargið sem hefur verið okkur farartálmi eða fyrirstaða er farið og hefur verið velt frá. Okkur getur jafnvel lánast að sjá engil sitjandi á grjótinu. Boðskapur hans er: Jesús er ekki hér, hann er farinn, hann er farinn á undan ykkur, farin heim! Það merkir að lífið er stórkostlegt. Guð er annarrar víddar en við en þó nálægur. Það merkir líka að þú ert svo mikils virði að Guð er alltaf með þér, Guð vill vera með þér í stóru og smáu.

Guð hefur þegar lagt sprekin á eldinn og ljósið leikur um veröldina. Frá erkiarni heimsins leggur bæði hita og ljós. Það er til að efla lífsgæði okkar allra. Hver sem þú ert, hvað sem þú hefur gert, hvernig sem þú hefur iðjað, hversu djúpt sem þú hefur sokkið, hversu miklar sem raunir þínar hafa orðið er samt ljós þarna uppi. Von. Það ljós er úr arni himinsins, sem yljar allri veröld. Þú ert minn og ég er þinn er mál þeirrar birtu og elsku. Við upphaf heims sagði Guð: Verði ljós. Í starfi og lífi Jesú Krists var það endurtekið. Í þínu lífi, líka í myrkrinu, er hvíslað: „Verði ljós.“ Það er mál upprisunnar. Dauðinn dó en lífið lifir.

Kristur er upprisinn – Kristur er sannarlega upprisinn.

Páskadagur 17. apríl, 2022.

Tré í kirkju og pálminn í Hallgrímskirkju

„Af hverju er tré í kirkjunni?“ spurði barn og benti á pálmatré Hallgrímskirkju. Ég mundi líka að ég spurði foreldra mína sömu spurningar þegar ég var í guðsþjónustu í Hallgrímskirkju á sjötta áratug síðustu aldar. Stórar pálmagreinar blöstu við okkur og mér þótti gaman að horfa á þær. Mamma sagði mér að þetta væri pálmi sem vinafólk hennar hefði gefið. Pálmar væru merkileg tré og það væri líka talað um pálma í Biblíunni. Fólk hefði lagt greinar á götuna þegar Jesús reið á asnanum inn í borgina. Svo spurði hún: „Manstu eftir biblíumyndinni sem þú átt heima með mynd af fólkinu að setja greinar á jörðina?“

Carl og Guðrún Ryden gáfu Hallgrímskirkju pálmann þegar helgihald hófst í kór Hallgrímskirkju árið 1948. Guðrún og mamma voru vinkonur. Mamma talaði oft við Guðrúnu í síma og þegar hún talaði um hana bætti hún alltaf frú framan við Guðrúnarnafnið. Þau Rydenhjón studdu kirkjulíf af krafti, studdu byggingu Hallgrímskirkju og lögðu fé til tækjakaupa, t.d. til kaups á klukkuspilinu í turninum. Guðrún Ryden tók þátt í kvenfélagsstarfinu og einnig starfi kristniboðsfélags kvenna. Þar sem þau hjónin ráku kaffibrennsluna Rydenskaffi gáfu þau gjarnan kaffi þegar eitthvað mikið stóð til og verið var að safna fé til framkvæmda eða útbreiðslu hins góða boðskapar í heiminum. Þegar mér var sagt að stofupálmi Hallgrímskirkju væri gjöf þeirra Rydenhjóna tengdi ég ilm af rjúkandi kaffi við pálmann. Pálmi Hallgrímskirkju var í kórkapellunni frá 1948 og til 1974. Þá var Suðursalur kirkjunnar tekinn í notkun sem guðsþjónustusalur og pálminn var færður þangað. Þar var hann til 1986 er kirkjan var vígð og farið var að nota kirkjuskipið. Þá fór Hallgrímskirkjupálminn í enn eitt ferðalagið og var komið fyrir í kirkjunni. Þar hefur hann verið síðan.

Á síðari öldum hafa pálmar og greinar þeirra verið tákn um frið og velsæld. Í frumkristninni voru pálmagreinar tákn um píslarvætti trúmanna. Meðal Gyðinga voru pálmagreinar tákn um sjálfstæði og sjálfræði. Þess vegna lagði fólk sem þráði politískt frelsi frá Rómverjum greinar fyrir fætur Jesú. Þau vonuðu að hann færði þjóð sinni hernaðarsigur. En velsæld er marglaga og margs konar. Hernaður er ekki trygging friðar. Ég sá einu sinni mynd af rómverskum peningi sem er táknræn fyrir harmsögu Gyðinga. Rómverjar slógu mynt eftir að Gyðingauppreisn hafði verið barin niður. Á peningnum er mynd af stórum pálma sem var táknmynd Palestínu og hluti hins frjósama hálfmána. Pálmar voru einkennistré og allt svæðið fyrir botni Miðjarðarhafs var kallað Pálmaland – Fönikía. Þetta var Palm Beach þeirra Rómverja! Á rómverska pálmapeningnum var öðrum megin við tréð mynd af konu í hnipri. Hinum megin var mynd af stórum og ábúðarmiklum hermanni sem gætti konunnar. Konan var tákn um Gyðingaþjóð sem var ekki aðeins hersetin heldur líka kúguð. Hermaðurinn var fulltrúi þess valds sem líður ekki uppreisn. Þannig varð pálmapeningurinn tákn um gjaldþrot hinnar gyðinglegu uppreisnarstefnu sem aðeins ól hörmungar en enga von. Fólkið með pálmagreinar í höndum vænti herkonungs. Það varpaði eigin hugmyndum og þrá yfir á Jesú og vildi að hann uppfyllti sínar vonir. Það gerði hann ekki, því voru þessir pálmamenn tilbúnir að æpa hann til dauða nokkrum dögum síðar.

Alla helga daga berum við kross inn í helgidóminn í upphafi messu. Krossberi fer fyrir og heldur krossinum hátt á loft. Krossburður er tákn um að Jesús Kristur kemur til safnaðar síns.  Krossinn er tákn um Jesúnánd. Í dag veifum við tveimur pálmagreinum sem voru skornar af pálma í Suðursal kirkjunnar. En við veifum líka íslenskum pálmum, þ.e. birkigreinum til að fagna komu Jesú. Hann var þó ekki á stríðsfáki eins og konungi hefði sómt, heldur reið ösnufola. Biblíufróðir rifjuðu upp hin fornu spádómsorð úr Sakaríabók að konungurinn kæmi sigursæll, lítillátur og ríðandi á ungum asna (Sak. 9.9). Fólkið veifaði pálmagreinum en innreið Jesú var ekki pólitísk eða veraldleg sigurganga. Lengi hafði þjökuð þjóð Gyðinga beðið lausnara, sem gæti hrakið burt hervald. Lengi hafði hans verið beðið sem nefndur var í spádómsbókum Gyðinga. Jesús reið ösnufola inn í samfélag vona, ekki aðeins himneskra heldur líka pólitískra, menningarlegra og hernaðarlegra. Alla fyrstu öld hins kristna tímatals kraumaði uppreisnarbál í Palestínu og er hið ógurlega samhengi sögu Jesú. Þorstinn eftir frelsi undan valdi Rómar endaði í skelfilegri baráttu Gyðinga um fjórum áratugum eftir atburði kyrruviku. Uppreisn Gyðinga var brotin á bak aftur með svo algeru móti að Gyðingar dreifðumst um allt hið rómverska ríki og áttu ekki afturkvæmt úr dreifingunni fyrr en nær tvö þúsund árum síðar með stofnun Ísraelsríkis.

Pálmi Hallgrímskirkju er fallegur. Hann er líka vitnisburður um elskusemi fólks í garð guðsríksins. Hann er eldri en kirkjuhúsið. Hann var þegar kominn til ára sinna þegar hann kom fyrst í kirkjuna. Hann er líka eldri en kirkjumunirnir. Að pálminn hefur lifað af flutninga, ryk og hitabreytingar er vitnisburður um að gott fólk hefur gætt pálmans vel og hlúð að honum. Enn hugsa ég um Rydenhjónin þegar ég sé hann í kirkjunni. Þegar ég kem að honum finnst mér ég finna daufan kaffilm af honum. En þegar ég hugsa um pálmann finnst mér mikilvægast að hugsa um hann sem Jesútákn. Ekki sem sigurtákn heldur tákn um gott líf. Flestir hafa tilhneigingu til að varpa eigin draumum á tilveru sína og vilja að allt gangi upp samkvæmt eigin skilningi. Þegar illa fer verða til ofbeldismenn sem með ofbeldi varpa eigin hugmyndum yfir á aðra og veröldina. Það er ekki leið trúarinnar. Þegar við fögnum Jesú á pálmasunnudegi hættir okkur til að fagna eigin draumi. En köllun okkar er að fagna Guði. Trúmaðurinn gengur ekki neinna annarra erinda en Guðs. Á pálmasunnudegi ættum við að leggja niður okkar eigin pálma og eigin blekkingar og opna augun fyrir djúpmálum lífsins. Nú hefst tími íhugunar á lífsdrama kristninnar sem eiginlega er um okkur, líf okkar og val. Ekkert okkar er án vanda og áfalla, en sagan er þó um að lífið er gott, Guð er nærri og sagan endar gæfulega. Af hverju er tré í kirkju? Til að minna okkur á að Guð elskar veröldina, lífríkið og mannfólkið.

2022, 10. apríl. Pálmasunnudagur.

Lexía: Sak 9.9-10
Fagna mjög, dóttirin Síon,
lát gleðilátum, dóttirin Jerúsalem.
Sjá, konungur þinn kemur til þín.
Réttlátur er hann og sigursæll,
lítillátur og ríður asna,
ungum ösnufola.
Hann útrýmir hervögnum úr Efraím
og víghestum úr Jerúsalem.
Öllum herbogum verður eytt.
Hann mun boða þjóðunum frið
og ríki hans mun ná frá hafi til hafs
og frá Fljótinu
til endimarka jarðar.

Pistill: Fil 2.1-11
Fyrst Kristur veitir kjark, fyrst kærleikur hans uppörvar, fyrst andi hans skapar samfélag, fyrst þar ríkir hlýja og samúð gerið þá gleði mína fullkomna með því að vera einhuga, hafa sama kærleika, einn hug og eina sál. Gerið ekkert af eigingirni eða hégómagirnd. Verið lítillát og metið hvert annað meira en ykkur sjálf. Lítið ekki aðeins á eigin hag heldur einnig annarra. Verið með sama hugarfari sem Kristur Jesús var. Hann var í Guðs mynd. En hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur. Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur. Hann kom fram sem maður, lægði sjálfan sig og varð hlýðinn allt til dauða, já, dauðans á krossi. Fyrir því hefur og Guð hátt upp hafið hann og gefið honum nafnið, sem hverju nafni er æðra, til þess að fyrir nafni Jesú skuli hvert kné beygja sig á himni, jörðu og undir jörðu og sérhver tunga játa Guði föður til dýrðar: Jesús Kristur er Drottinn.

Guðspjall: Jóh 12.1-16
Sex dögum fyrir páska kom Jesús til Betaníu þar sem Lasarus var, sá er hann vakti frá dauðum. Þar var honum búinn kvöldverður og Marta gekk um beina en Lasarus var einn þeirra sem að borði sátu með honum. Þá tók María pund af ómenguðum, dýrum nardussmyrslum og smurði fætur Jesú og þerraði með hári sínu fætur hans. En húsið fylltist ilmi smyrslanna. Segir þá Júdas Ískaríot, einn lærisveina hans, sá er mundi svíkja hann: „Hví voru þessi smyrsl ekki seld fyrir þrjú hundruð denara og gefin fátækum?“ Ekki sagði hann þetta af því að hann léti sér annt um fátæka heldur af því að hann var þjófur. Hann hafði pyngjuna og tók af því sem í hana var látið. Þá sagði Jesús: „Lát hana í friði. Hún hefur geymt þetta til greftrunardags míns. Fátæka hafið þið ætíð hjá ykkur en mig hafið þið ekki ávallt.“ Nú frétti allur fjöldi Gyðinga af því að Jesús væri í Betaníu og þeir komu þangað, ekki aðeins hans vegna heldur og til að sjá Lasarus sem hann hafði vakið frá dauðum. Þá ákváðu æðstu prestarnir að taka einnig Lasarus af lífi því vegna hans sneru margir Gyðingar baki við þeim og fóru að trúa á Jesú. Degi síðar frétti hinn mikli mannfjöldi, sem kominn var til hátíðarinnar, að Jesús væri að koma til Jerúsalem. Fólk tók þá pálmagreinar, fór út á móti honum og hrópaði: „Hósanna! Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins, konungur Ísraels!“ Jesús fann ungan asna og settist á bak honum, eins og skrifað er: Óttast ekki, dóttir Síon. Konungur þinn kemur og ríður ösnufola. Lærisveinar hans skildu þetta ekki í fyrstu en þegar Jesús var dýrlegur orðinn minntust þeir þess að þetta var ritað um hann og að þeir höfðu gert þetta fyrir hann.

Helgi Ásgeirsson – Göngumaður Reykjavíkur

Nú er Helgi Ásgeirsson kominn í þessa kirkju í hinsta sinn. Oft kom hann í þetta ljóshús vegna sóknar í birtuna. Hann átti alla tíð heima í nágrenni kirkjunnar. Þau urðu eiginlega til samtímis Hallgrímskirkja og Helgi. Kirkjubyggingin var bara hugmynd til umræðu þegar móðir Helga var barni aukin og hann var í gerðinni. Svo þegar hann kom í heiminn var farið að grafa fyrir kór kirkjunnar. Síðan fylgdist Helgi með byggingu guðshússins. Helgi varð miðborgarmaður, Reykjavíkurmaður og heimamaður í Hallgrímskirkju. Hann sótti í kórkjallarann meðan hann var hverfiskapella. Svo tók Suðursalurinn í turnvængnum við kirkjuhlutverkinu og síðan gladdist hann þegar kirkjusalurinn var vígður árið 1986. Hann sótti í kirkju sína. Helgi var eftirminnilegur maður sem kom með friði, áreitnislaust og með hlýju í augum. Hann settist í kirkjubekk og naut kyrrðar, helgi, orða og tóna og fór svo þakkandi frá þessu hliði himins. Nú kveðjum við Helga hinsta sinni og þökkum honum samfylgdina, blessum minningarnar um hann og biðjum honum friðar í ljósríki eilífðar.

Helgi Ásgeirsson fæddist 10. maí árið 1944. Hann var vormaður hins unga lýðveldis, fæddist í Danaveldi og á stríðstíma en varð svo liðlega mánaðargamall einn af yngstu borgurum nýs lýðveldis og friðartíma. Foreldrar hans voru Kristín Helgadóttir og Jón Ásgeir Jónsson. Bæði voru af miklu dugnaðarfólki komin. Foreldrar beggja voru framkvæmdafólk og kunn fyrir húsin sem þau byggðu og voru stærri en annarra. Kristín var að vestan og fæddist á Suðureyri við Súgandafjörð. Faðir hennar var kunnur sjósóknari og aflaskipstjóri á Suðureyri og síðar á Flateyri. Helgi fékk nafnið frá þeim afanum. Amma Helga lést þegar Kristín, móðir hans, var aðeins fjögurra ára. Kristín fór þá til vandalausra í vist og flutti um síðir að vestan og giftist föður hans Ásgeiri, vélvirkjameistara. Helgi var eina barn þeirra hjóna. Ásgeir var úr Borgarfirði. Foreldrar hans, Jón Jónsson og Sigríður Guðmundsdóttir, bjuggu í Galtarholti í Borgarhreppi. Jón, afi Helga, var landpóstur, kunnur garpur og happamaður. Ásgeir sótti skóla á þeim merka lýðskóla, Hvítárbakkaskóla, áður en hann flutti suður, lærði vélvirkjun og stundaði iðn sína. Ásgeir var sagður ljúfur maður og dagfarsprúður. Þegar Helgi var að komast á legg vann Ásgeir faðir hans hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur og var virtur og mikils metinn.

Helgi var einbirni og naut því allrar athygli og verndar elskuríkra foreldra. Fyrstu árin bjó fjölskyldan á Spítalastíg, um tíma á Hverfisgötu síðan á Njálsgötu – á sitt hvorum endanum. Síðustu áratugina bjó Helgi á Njálsgötu 5, fyrstu árin þar með móður sinni og síðan einn þegar hún lést árið 2002. Foreldar Helgan voru samrímd og samstiga. Helgi skrifaði síðar í minningargrein um móður sína að foreldrar hans hefðu bæði verið náin honum, og „ … svo nátengd voru þau hvort öðru, að þar mynda miningarnar eina órofa heild.“ Foreldrar Helga höfðu skýrar reglur og stefnu í uppeldinu og pössuðu vel upp á drenginn sinn. Þau höfðu fyrir honum formlegan fatastíl sem Helgi lærði og tileinkaði sér. Við getum ímyndað okkur að eina barnsins hafi verið vel gætt. Kristín, mamma Helga, hafði misst móður sína ung og tvo bræður í frumbernsku og faðir hans var af hugumstóru en gætnu fólki komið. Með þennan bakgrunn og háskareynslu íslenskra kynslóða í erfðavísunum voru Ásgeir og Kristín samstiga í að gæta sonar síns vel.

Helgi var eftirtektarsamur og minnugur. Hann fékk ríkulega hvatningu að heiman til sjálfshjálpar. Á árinu 1957 kom t.d. frétt í dagblaði að Helgi Ásgeirsson á Spítalstíg 2 hefði orðið dugmesti sölumaður í happdrætti KSÍ. Á þessum tíma var mikið kapp í sölubörnum og hússala og dagblaðasala var helsta leiðin til að afla sér nokkurra króna. Að mynd af Helga og frétt birtist í blaði merkir að það hefur verið talið til tíðinda að hann skyldi selja svona vel í þágu knattspyrnusambandsins. Helgi hefur því verið gæfusmiður og lagt til velferðar íslenskum fótbolta. Helgi var ekki lokaður heima og inni heldur fékk hvatningu til dáða. Hann gekk um hverfin og seldi. Hann lærði að fara um og handfjatla fé. Síðan kunni hann til verka að innheimta, rukka og hafa gaman af röltinu í Reykjavík og fylgjast með mannlífi og stækkandi bæ verða að borg.

Helgi naut ágætrar skólagöngu. Eftir grunnskóla sótti hann Gaggó Vest og lauk síðan prófi og einnig stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands. Þar á eftir hóf hann nám í lögfræði við HÍ. Hið sérkennilega og eftirtektarverða er að Helgi lauk öllum prófum í lögfræði nema einu. Hann féll í Réttarsögu og náði þar með ekki lágmarkseinkunn til að útskrifast. Helgi sendi lagadeildinni erindi eftir prófin, fór yfir námsferil sinn, próf og stöðu og skýrði út líðan sína í prófi. Helgi bað um miskunn og að hann fengi annað tækifæri. Bréfið er merkilegt, skýrt og vel grundað (Reykjavík 8. sept. 1975). En Helgi naut engrar náðar eða undanþágu. Hann sagði skilið við háskóla eftir langt nám en þó próflaus. Þau úrslit og lyktir urðu honum áfall. En hann gafst ekki upp og leitaði á ný mið. Helgi hafði síðan atvinnu af innheimtustörfum fyrir ýmsa aðila, bókaútgefendur, útgfendur tímarita og dagblaða, m.a. Frjálsa Fjölmiðlun og þmt Svein Eyjólfsson. Helgi gekk gjarnan um bæinn í innheimtuerindum, með tösku sína, og fór víða. Hann varð einn af kunnustu göngumönnum Reykjavíkur og efasamt að margir fleir hafi stigið fleiri spor í borginni en hann. Á göngu fylgdist Helgi vel með, vissi hver verslaði hvar og hverjir ráku fyrirtæki og hvar. Hann þekkti ferðavenjur samborgaranna, skildi púlsa mannlífsins í bænum og hafði nánast ensyklópedíska þekkingu á lífi borgaranna, menningu borgarinnar, veðrum og dyntum veraldarinnar. Helgi var næmur og lærði vel að lesa stöðu fólksins sem hann átti samskipti við. Rukkarastarfið þroskaði með honum tilfinningu hvenær hann varð að sækja fram og hvenær hann ætti að gefa eftir til að styggja ekki fjárlitla eða aðkreppta skuldara. Helgi var ljúfur í samskiptum sem efldi farsæld hans í störfum og samskiptum. Hann var traustsins verður.

Helgi var eftirminnilegur maður. Hann var reglusamur í öllum efnum, neytti hvorki tóbaks né áfengis. Hann hafði góða reiðu á öllu því sem honum var falið. Færði í kompur sínar og stílabækur hverjir borguðu hvenær og hvað og stóð skil á öllu með skilvísum hætti. Helgi var alinn upp af fólki úr menningu fyrri hluta tuttugustu aldar og hann braust eiginlega aldrei út úr skipulagi fortíðar fyrr en eftir sextugt þegar foreldrar hans voru látnir. Síðustu árin voru eins og unglingsár í lífi hans. Hann var þá orðinn vel stæður og hafði efni á að kaupa það sem hann hafði hug á. Helgi var góður við vini sína og samferðafólk. Hann hitti gjarnan félaga sína í bænum og oft fór hann í Kolaportið til að næla sér í bók eða kaupa eitthvað smálegt sem hann fór með heim.

Helgi var elskulegur í samskiptum, mannvinur og dýravinur. Hann lagði gott til fólks, talaði það fremur upp en niður, minntist á hið jákvæða en sleppti hinu. Hann studdi þau sem hann taldi vert að styrkja og var í því fulltrúi samábyrgðarsamfélags og kristninnar. Helgi var eins og foreldrar hans sérlega natinn við dýr. Kötturinn Keli Högnason var reyndar nokkrir kisar. Þeir áttu skjól í Helga og á heimil hans og voru svo frægir og um þá var ritað í Morgunblaðinu. Helgi var líka umhyggjusamur gagnvart mannfólkinu. Þegar einhverjir áttu óvissan samastað var oftast hægt að fara til Helga sem skaut skjólshúsi yfir fólk. Helgi var vinur vina sinna og vildi alltaf standa vel skil á því sem til hans friðar heyrði. Í því var hann framúrskarandi. Helgi var fróleiksfús, las talsvert, safnaði þjóðlegum fróðleik, var vel heima í ættfræði og héraðasögu síns fólks. Hann mundi það sem hann hafði áhuga á og gat þulið daga og eftirminnilega atbgurði.

Nú kveðjum við Helga. Hann er kominn í kirkju í hinsta sinn. Í minningargrein um móður sína, Kristínu, tjáði Helgi fallega trú sína sem og trú foreldra sinna. Hann skrifaði: „Ég vil aðeins kveðja þau sem voru mér svo kær með bæn um að Drottin Guð verndi þau að eilífu.“ Svo bætir Helgi við vísun í orð Jesú og skrifar í minningargreinina versin tvö úr 11. kafla Jóhannesarguðspjalls: „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi. Og hver sem lifir og trúir á mig, mun aldrei að eilífu deyja.“ Þessa afstöðu og von gerði Helgi að sinni. Í þeim krafti lifði hann og til þeirrar birtu hverfur hann úr þessum heimi. Það er trú kristninnar.

Guð geymi Helga Ásgeirsson og Guð geymi okkur öll.

Ég vil þakka öllum þeim sem hafa verið Helga góðir vinir og félagar. Þökk sé vinum hans og vinkonum sem voru honum öflugir og góðir félagar. Þökk sé öllum sem vitjuðu hans og gerðu honum gott til. Guð laun. Í lok þessarar athafnar verður efnt til erfis í Suðursal Hallgrímskirkju.

Minningarorð SÁÞ í útför Helga í Hallgrímskirkju, föstudaginn 8. apríl, 2022. Kistulagning sama dag. Jarðsett í Gufuneskirkjugarði. Útf. Sverrir Einarsson. BSS og Schola cantorum. Eggert Reginn Kjartansson. Erfi í Suðursal Hallgrímskirkju eftir útför. Þórólfur Árnason hélt snjalla ræðu í erfinu um Helga, líf hans, tengsl og þjónustu við fólk og fyrirtæki. Myndin úr Hallgrímskirkju var tekin um það leyti sem kista Helga var borin í kirkju. 

 

 

 

Brauð lífsins

Ég spurði móður mína einu sinni hvort hún hefði einhvern tíma fengið svo lítið að borða í uppvextinum að hún hefði svelt. Hún svaraði neitandi og sagðist vera af fyrstu kynslóð Íslendinga sem hefði ekki soltið. En foreldrar hennar hefðu oft verið svöng. Og afi og amma pabbamegin hefðu soltið líka. Hún minnti mig svo á að það væri ástæða fyrir því að í Faðirvorinu er beðið: „Gef oss í dag vort daglegt brauð.“

Hungur er skelfilegt og hefur fylgt mannkyninu allar aldir. Það er hræðilegt þegar fólk sveltur. Daglegt brauð, sultur aldanna, hungur heimsins. Þessar vikur lifum við bakfall í tíma. Vegna Pútínstríðsins er brauðskortur allt í einu yfirvofandi í veröldinni. Hveitiverð hefur skyndilega hækkað ógnvænlega síðustu daga. Hveitiskortur verður víða í heiminum á þessu ári, jafnvel brauðþurrð. Úkraína og Rússland eru ekki aðeins brauðkörfur Evrópu heldur heimsins einnig. Hveitið sem þar er ræktað er mikilvægt allri heimsbyggðinni. Ársásarstríð Pútínstjórnarinnar drepur ekki aðeins fólk og sprengir hús heldur skaddar brauðgerð alls heimsins. Pizzubakstur veraldar mun raskast en er þó ekki aðalvandinn, heldur að hungrið. Sultur mun læðast um veröldina og sérstaklega meðal öreiganna. Þau sem eru fátæk og á jarðrinum munu svelta. Við munum borga meira fyrir hveitið en hin fátæku munu ekki hafa efni á pizzum, súrdeigsbrauði, rúnnstykkjum, pítubrauði eða bara einföldu venjulegu brauði.

Kornþurrð og hveitiskortur er í nútíð eins og í fornöld alvörumál. Jesús kenndi okkur að minna Guð á daglega brauðið. „Gef oss í dag vort daglegt brauð.“ Þegar kornuppsprettan íPalestínu brást svalt fólk og dauðinn kom í kjöfarið. En þegar kornakrar náðu þroska var víst, að allir myndu njóta næringar og lifa. Brauð er tákn lífs. Ólíkt Pútín er Jesú ekki minnst fyrir stríð, heldur fyrir að gefa fólki mat og drykk. Hann gaf og útdeildi brauði, kenndi gjafmildi og að við værum systkin sem bærum sameiginlega ábyrgð. Hann bauð fólki að gefa með sér. Brauð handa hungruðum heimi er stefna kristinna manna. Ölturu í kirkjum minna á, að allir þarfnast næringar, ekki aðeins andlegrar heldur líkamlegrar einnig, venjulegrar fæðu, sem gerir fólki gott. Að allir fái að borða og lifa vel er hinn kristni boðskapur. Það eru mannréttindi að allir fái notið friðar og fæðu. Svo róttækt er erindi kristninnar og svo árangurstengt er það líf, sem okkur er boðið að lifa. Þegar við brjótum brauðið í kirkjunni boðum við frið, frelsi, réttlæti og mannvirðingu. Það er sprengikraftur í því táknræna atferli. Einfaldur gjörningur en varðar alla heima, víddir og veraldir.

Brauðundur á fjalli

Texti dagsins er í sjötta kafla Jóhannesarguðspjalls. Sagt er frá útihátíð norður í landi, hátíð sem nærri því endaði með ósköpum. Fyrirhyggjuleysið var talsvert og maturinn búinn. Mótshaldararnir urðu verulega skelkaðir og vissu ekki hvernig væri hægt að leysa málið. Kostnaðurinn við matarkaup var nærri árslaun og fjárráðin voru lítil samkvæmt budduskoðun lærisveinanna. Sagan greinir frá því, að Jesús notaði tækifæri til kennslu í lífsleikni. Ungur drengur eða þræll var vel nestaður. Í poka hans voru fimm byggbrauð og tveir fiskar. Þetta blessaði Jesús og lagði saman. Útkoman af tveir plús fimm var ekki sjö, heldur matur fyrir fimm þúsund karla auk ótilgreinds fjölda kvenna og barna. Öll guðspjöllin segja margföldunarsöguna en með mismunandi móti. Jóhannesarguðspjall segir Jesúsöguna ávallt með sínum ákveðna hætti. Tvendir einkenna þetta guðspjall. Í því er ógjarnan sagt frá bara einu heldur fremur pörum í spennu. Ekki er bara talað um ljós, heldur par ljóss og myrkurs. Lífsáhersla guðspjallsins er í andófi gegn dauða. Svo er trú rædd með vísan til veruleika vantrúar. Jóhannes var dramadrottinn. Tilgangur þessa dramatíska ofurstíls guðspjallins er að beina sjónum fólks til Jesú, að gera sér grein fyrir að í honum var og er lausn lífsgátunnar, ljós í myrkri, sannleikurinn.

Á fjallinu með fólkinu

Fólkið á fjallinu var komið með sultarverk. Þau vissu að enginn skyndibitastaður var í nágrenninu, engar pítur eða pizzur. Svo báru Jesúsveinarnir körfur um og útdeildu fátækrabrauði og fiskmeti líka. Nóg handa öllum. Gyðingar þekktu sögu sína og vissu, að svona máltíðarundur vísaði beint til sögu hungraðra hebrea á leið frá Egyptalandi og um eyðimörk. Til þeirra hungruðu ferðalanga fauk brauðefni af himni. Inntak mettunarsögunnar í eyðimörkinni var að þegar kraftaverk yrði og fólk fengi að borða væri Guð að baki undrinu.

Þegar allir verða svo mettir er farið að hugsa um hvað eigi að gera við undramanninn, sem margfaldaði brauð og fisk. Ekki vissu þau að hann yrði brátt krossfestur, hæddur og deyddur. Þau þekktu ekki sögu Vesturlanda í kjölfar reynslunnar af lífgun hans. Ekki gátu þau ímyndað sér kenningarnar um hann, sem heimsbyggðin býr við. Hver var þessi Jesús? Hann var flottur í brauðgerðinni. Hann gæti kannski orðið fínn landbúnaðarráðherra, nema bara fyrir þá sök, að hann gerir sig sekan um offramleiðslu. Hvað gerir saddur múgur við mann, sem hefur gefið þeim brauð og sögur? Jú, hyllir og vill gera hann að leiðtoga, jafnvel að einvaldi. En þegar menn ætluðu að krýna hann hvarf hann bara. Þegar menn vildu veita Jesú Kristi veraldarvöld gufaði hann upp. Jesús hafði engan áhuga á valdi þessa heims. Hann var ekki, er ekki og verður ekki eins og Hitler, Stalín og Pútín.

Jesús gefur lífið

Þegar Jóhannesarfrásögnin er skoðuð sést, bæði í guðspjallstexta dagsins og líka í öllum sjötta kaflanum, að Jesús túlkar líf sitt og tilveru með ákveðnu móti. Í þessum kafla segir hann um sig: „Ég er brauð lífsins.” Það merkir hvorki meira né minna en að Jesús efli líf. Hann er forsenda lífs og næring þess lífs. Hvaða afstöðu höfum við til hans? Trúum við því eða er Jesús eitthvað annað, t.d. góðmenni, siðferðisviðmið eða spekingur?

Samfélagsmyndun – hópur – kirkja

Annað stóratriði í þessum texta er, að lífgjöf Jesú hefur félagslegar afleiðingar. Jesús skapar hópkennd, tengir fólk saman og hvetur til að fólk líti á sig sem einn lífshóp. Það hefur líka afleiðingar í starfi kirkjunnar. Öllum, sem koma í þessa kirkju, er ljóst að borðið í kirkjunni, altarið, er miðja hússins. Altarisgangan er endurtekning máltíðar á fjallinu, máltíðum Jesú, þegar hann braut og brýtur brauðið og gefur sínum lærisveinum. Sú máltíð er máltíð hans. Þegar við göngum til altaris erum við samfélag Jesú Krists, vinir hans.

Brauðið og kærleikurinn

Hið þriðja í textanum eru hagnýtar afleiðingar í lífi þeirra, sem trúa og eru hluti hópsins. Það eru verkin, sem oft er nefnt kærleiksverk. Brauð handa hungruðum heimi, brauð handa fólki. Allir eiga að njóta grunnréttinda t.d. matar, öryggis, vatns og annarra lífsgæða. Vegna þess að við njótum lífgjafar Jesú, gefum við af gæðum okkar til að hungraðir fái næringu og þyrstir fái drukkið gott vatn. Aðferð Jesú er okkur fyrirmynd. Hann sendir ekki fólk frá sér svangt, heldur notar allt sitt til að gefa það sem fólk þarfnast. Með sama hætti látum við fólk okkur varða og gefum þeim mat og gæði til lífs.

Hvað gerir þér gott? Fjölbreytilegt fæði og í hæfilegum skömmtum. Allir þarfnast tengsla við fólk, tilfinninganæringar, líkamlegrar hreyfingar, gæfu í lífi og starfi. Þú þarfnast þess að einhver sjái þig og meti og játi þér mikilvægi þitt. Svo er hin hlið sama máls. Hvað getur þú gert til að aðrir njóti lífsins? Getur þú sagt eitthvað jákvætt og nærandi við samferðafólk þitt og ástvini? Getur þú bakað brauð og fært einhverjum syrgjandi, einmana eða þurfandi? Getur þú umlukið einhver með kærleiksríkum bænum? Öll getum við fært öðrum eitthvað sem verður þeim til góðs, næringar og hlýju. Jesús gaf brauð og var lífgjafi. Við erum brauðberar Guðs, friðflytjendur, málsvarar réttlætis og góðs lífs. Sprengjur Pútíns slasa og deyða. En sprengikraftur brauðs og víns er mun meiri því þar birtist máttur lífsins sem er sterkari en dauðinn.

4. sunnudagur í föstu 2022. 27. mars. Lexía 5. Mós. 8.2-3. Pistill Róm. 5.1-5. Guðspjall Jóh. 6.1-15.  Myndina af brauðinu tók ég í brauðhúsi í Gautaborg.