Gangan í Ásbyrgi

Ég hafði ekki hugmynd um gönguleiðina frá gestastofunni í Ásbyrgi. Við fórum með Jöklu vestanmegin og komum í Ásbyrgi. Fyrst fórum við í sjoppuna og nærðumst. Afgreiðslufólkið var fjölþjóðlegt og þegar ein konan var búin að afgreiða stóran ferðahóp settist hún niður og fór að hekla jólasveina sem voru í röðum í gluggakistum. Hrífandi. Södd og sæl settumst við inn í bíl til að keyra á bílastæðið nærri tjörninni. En þar sem við áttum langa dagleið fyrir höndum spurðum við hvort hleðslustöð væri í sveitinni. Já, mikil ósköp, hún væri við gestastofuna. Þangað fórum við og landvörðurinn lagði til að við legðum bílnum við hleðstöðina og gengjum inn að tjörn. Hún skoðaði okkur og mældi upp og niður og sá að við vorum öll göngufær! „Þið farið bara yfir golfvöllinn og þarna sést gönguleiðin,“ sagði hún og benti til vegar. Við smelltum hleðslutittnum, klónni, í bílinn og gengum af stað, yfir golfvöll, í átt að 60 metra háu klettastálinu og síðan inn í dásamlegan skóg. Sól, söngur skógarþrasta, ymjandi og fjölbreytilegur skógargróður, ljósfangandi rjóður, hamingjusamur hundur og brosandi fólk. Blágresi, einiber, aðalberjakoppar og fýll í klettum auk auðnutittlinga í skógi! Þvílík gönguleið – og ég hafði ekki hugmynd um hana! Alltaf hefur verið gaman að fara að Botnstjörn, fosshylnum stóra, en gönguleiðin jók mjög á Ásbyrgisunaðinn í þetta sinn. Þar sem margt var að skoða undi mitt fólk sér vel meðan ég skaust útúr til að sækja bíl. Reyndar húkkaði ég mér far út að gestastofu. Það voru elskuleg hjón frá Akureyri sem leyfðu mér að sitja í húsbíl þeirra á útleiðinni. Hann hafði verið í skóla á Laugum og sagði mér skemmtisögur af stjóra, þ.e. Sigurði frænda mínum (sem ég heiti í höfuðið á) og Stefaníu fóstru minni, Sigurði á Grenjaðarstað og fleirum. Bíllinn okkar var orðinn fullhlaðin og við líka og ókum af stað til nýrra ævintýra. Þetta var óvænt og óskipulagt ævintýri í Ásbyrgi og ég mæli svo sannarlega með Ásbyrgisgöngu. Og ljómandi að hlaða bílinn á meðan.