Greinasafn fyrir merki: þorskhnakkar

Steikt­ur þorsk­ur með kremuðu byggi og rjóma-hvítvínssósu

Nýr þorskhnakki er dásamlegur matur. Kremað bygg og beurre blanc-sósa passa vel við.  Uppskriftin er miðuð við fjóra. Kolefnissporið er líka lágt með því að nota sem mest innlent hráefni. 

Þorsk­ur­

800 g þorsk­hnakki

10 ml steikingarolía

30 g smjör

Krydd og salt eft­ir smekk

Skerið þorsk­hnakk­ann í hæfilega bita. Steikarolía er sett á pönnu. Þegar pann­an er orðinn fun­heit eru þorsk­stykkin sett á pönn­una og steikt. Þegar önn­ur hliðin er orðin vel brúnuð er fisk­in­um snúið við. Þá er smjör­inu bætt á pönn­una og lokið við að elda fisk­inn. Steikingin ætti að taka um fimm mín­út­ur.

Kremað bygg

200 gr perlu­bygg (gerið svo vel að nota bygg frá Vallanesi. Það er dásamlegt. Meðfylgjandi mynd tók ég á akrinum í Vallanesi)

400 ml vatn

150 ml rjómi

50 gr par­mes­an

50 gr graslauk­ur

50 gr skalot­lauk­ur

Krydd og salt skv. smekk. 

Byggið er soðið í 20 mín­út­ur. Meðan byggið er soðið er graslaukur og skalottlaukur fínt saxaður. Rjómanum er síðan hellt í byggið og eldað þar til það byrjar að kremast. Þá er parmesanosti, graslauk og skalot­lauk blandað sam­an við og smakkað til með salti og pip­ar.

Beur­re blanc-sósan

200 ml hvít­vín

200 ml rjómi

200 gr smjör (skorið í kubba)

30 gr capers

Hvítvínið er soðið niður þar til lítið er eftir í pott­in­um. Rjóminn er þá settur í pottinn og saman við hvítvínsleifarnar. Þegar rjóm­inn byrj­ar að sjóða er smjör­inu hrært saman. Einn og einn smjörkubburút í einu og hræra sem næst stans­laust. Bætið capers við í lokin og smakk síðan sós­una til með salti.

Blóm­kál­stopp­ar

1 stk blóm­káls­haus

20 ml olía

niðurrifinn parmesan

10 g salt

Skera blóm­kálið í toppa og gufusjóða þá í tíu mínútur. Hita ofn­inn í 180°C. Eftir gufusuðuna eru blómkálstopparnir settir í eld­fast mót. Oa, salt, parmesan og uppáhaldsgrænmetiskrydd sett á blóm­kálið og bakað inni í ofni í um það bil 10 mín­út­ur á 180°C hita.

Þessi réttur er afar bragðgóður en ekki litríkur. Ég mæli með að poppa með litum. Á sumrin þegar við ræktum bergfléttur og fjólur skreytum við salöt og mat með þeim. Á veturna er litríkt paprikusalat tækt, fallegt salatblað eða blöð eða eitthvað annað sem gleður auga og rímar við matinn. Svo eru litríkir diskar alltaf ævintýralegir.

Uppskriftin upprunalega í mbl og frá Úlfari Erni Úlfarssyni en ég lagaði hana skv. eigin smekk.  

Þökkum Drottni því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu.

Þorskur í paprikusósu

Þegar ég var búinn að puða í ræðuskrifum síðdegis skaust ég í fiskbúðina og keypti góðan þorsk. Tvistaði fiskuppskrift úr mbl. Skemmtileg uppskrift fyr­ir fjóra.

800 g þorsk­hnakk­ar

100 gr. smjör

1 stór gul­ur lauk­ur

6 hvít­lauksrif

2 rauðar paprik­ur

2 msk. tóm­at­þykkni – pa­ste

2 tsk. papriku­duft – notaði ofurlítið reykta papriku líka

1 tsk sumac

400 gr niðursoðnir tóm­at­ar

300 ml mat­reiðslur­jómi

1 tsk. grænmetiskraft­ur

1 msk. sæta t.d. hunang

salt og pip­ar

fersk­ur graslauk­ur að smekk

kirsu­berjatóm­at­ar

Skerið fisk­inn í pass­lega bita, saltið og piprið létt og setjið til hliðar.

Saxið paprik­ur, lauk og hvít­lauk fremur smátt og steikið á pönnu upp úr smjör­inu þar til allt mýk­ist.

Bætið við kryddinu, tóm­at­þykkni, niðursoðnu tómöt­unum og mat­reiðslur­jómanum á pönnuna og hleypið suðunni upp.

Kryddið með grænmetiskraftinum, sætunni, salti og pip­ar eft­ir smekk og leyfið að malla í 8-9 mín­út­ur eða þar til sós­an þykkn­ar vel.

Leggið fisk­bit­ana í sós­una og ýtið aðeins niður.

Dreifið kirsu­berjatómöt­um yfir eft­ir smekk og leyfa að sjóða við væg­an hita í 6-7 mín­út­ur eða þar til fisk­ur­inn er eldaður í gegn. Hægt að setja lok á pönnuna ef þið viljið að tómatarnir maukist og vökvinn verði meiri í réttinum. 

Stráið síðan fersk­um graslauk yfir og síðan eru herlegheitin borin fram.

Meðlæti góð hrísgrjón og grænt salat.

PS Meðmælanlegt: Hægt að nota sósuna og grænmetið í sósunni daginn eftir í rækjurétt. Tveggja daga matur og góður í bæði skiptin.