Guð sem yrkir heiminn, líf og menn

Bókmenntaunnendur þekkja orðið “póesía,” Orðið, sem notað er um ljóð í mörgum tungumálum, er af sömu rót. En að baki öllum póetískum ljóðnefnum og ljóðafleggjurum er hið fallega gríska orð poiesisποίησις. Það er ekki aðeins snoturt á blaði, heldur þrungið fallegri merkingu. Það táknar ekki aðeins að stafla orðum í ljóð, heldur líka hitt að búa til með höndum, vinna, kalla fram líf og hlúa að því. Að ljóða er að gera, að skapa, framkvæma. Að ljóða er líka það að tengja himin og heim.

Meðal Grikkja og Hebrea var póesía ekki aðeins huglægt verk, heldur náði til fóta, handa, starfa, sköpunar, já raunveruleika og lífsbaráttu fólks. Handverk fólks var aldrei sálarlaus iðja heldur átti sér líka andlegar víddir. Þessi speki er hagnýt. Handverk við tölvu, í eldhúsi, garði, námi, við bleyjuskipti, já öllu ati lífsins á sér andlega hlið. Hin dýpsta speki sem við kunnum að hugsa lifir ekki nema hún eigi sér hagnýta skírskotun í pólitík, í listum og í deiglu samfélagsins. Lífið er eitt og fólk fornaldar vissi að lífið á sér framvindu, bæði andlega og efnislega. Allt er tengt og allt er á hreyfingu. Lífið var og er gjörningur, samfelld póesía.

Í öllum bókum Biblíunnar er minnt á, að Guð er ekki fjarlæg, upphafin vera, heldur ástríðupersóna, sem elskar, grætur, faðmar, gleðst og syrgir. Samkvæmt kristninni er Guð svo tengdur að þegar allt var brotið í mannheimi sat Guð ekki hjá heldur kom til að þurrka tár, lækna mein og skapa grundvöll lífsins. Guð skapar fólk til frelsis og yfirgefur okkur aldrei þrátt fyrir okkar bresti. Já, Guð er stórskáldið sem yrkir heiminn, yrkir mennina, nýtur lífsins, er sjálfur hin mikla póesía lífsins, líka þegar allt er þrotið, búið, týnt og brotið. Fagnaðarerindið er hin mikla póesía Guðs að lífið er góður gerningur, póesía elskunnar. Þegar lífi lýkur er þessi ljóðmögur mættur, opnar fangið og leyfir öllu fólki, já allri sköpun sinni inn í himininn.

Textinn er úr minningarorðum frá 2008. Meðfylgjandi mynd tók ég á sýningu á verkum Birgis Andréssonar.