Maríuerla

Maríuerlan – motacilla albaer – er dásamlegur fugl. Fyrir fjórtán árum gerði maríuerlupar hreiður á leynistað sem við fjölskyldan þekkjum. Síðan hefur verið orpið þar á hverju ári. Öll vorin hef ég velt vöngum yfir hvort þau kæmu og vitjuðu heimahreiðursins. Eitt vorið komu þau seint en komu þó að lokum og mér var létt.  Ekki veit hvort það eru sömu fuglarnir sem hafa ratað svona vel og áfallalaust frá V-Afríku á hverju ári eða bara fundvísir snilldarfulgar sem leita að fallegum, fæðuríkum stað með góðu útsýni og færum leiðum fyrir smáfugla í flugnámi eða á flótta undan ránfuglum. Kannski er þetta ættaróðal sem kynslóðir vitja. En dásamlegir eru ungar þessa árs sem störðu á mig þegar ég færði símann að þeim til að taka mynd. Mamman var skelkuð álengdar fjær – með gogginn fullan af mat til að færa ungviðinu. Ég flýtti mér því og sagði henni að óttast ekki. Hún flaug strax til þeirra þegar ég fór. Lífið lifi.

Myndin hér að neðan er frá sama stað árið 2010. Þá voru sex ungar í hreiðrinu en fimm í ár.