Er líf Guðs þess virði að lifa því?

Hvað er það merkilegasta í lífi okkar? Jostein Gaarder þorði að spyrja þeirrar spurningar og skrifaði svo bókina Appelsínustelpan. Í sögunni er sagt frá Georg sem fékk bréf sem látinn faðir hans hafði skrifað. Drengurinn var fimmtán ára en pabbinn hafði dáið mörgum árum áður. Sagan er ástarsaga og fjallar um mann sem heillaðist af stúlku sem rogaðist með appelsínur þegar hann sá hana fyrst. Þau urðu ástfanginn og urðu par en hann dó ungur. Áður en hann lést skrifaði ástarsögu sína fyrir drenginn þeirra. Enginn vissi um að maðurinn var dauðsjúkur þegar hann ritaði þetta opinskáa og tilfinningaþrungna bréf til drengsins því hann faldi það. En svo fannst það ellefu árum síðar og þá var Georg var kominn á unglingsaldur.

Sagan er grípandi. Hin áleitna meginspurning sem pabbinn vill fá drenginn sinn til að hugsa um er: Hvað gerir lífið þess virði að lifa því? Menn hafa pælt í þeirri gátu frá árdögum manna. Aristóteles glímdi við hana, sjáendur Gamla testamentisins líka. Jesús Kristur vann með þá spurningu með ýmsu móti. Við komust ekki heldur undan því að svara henni eða bregðast við henni, jafnvel þó við flýjum eða viljum ekki horfast í augu við hana. Við svörum með atferli, vinnu, tómstundum, hugðarefnum – og líka hvernig við strjúkum og föðmum ástvini okkar – eða látum það vera.

Tengdar spurningar eru: Hvað þarf maður að hafa reynt og lifað til að vera sáttur við líf sitt? Er stutt líf minna virði en það sem er langt og jafnvel ekki þess virði að lifa því? Niðurstaðan er hin sama fyrir fólk allra alda og allra heimsvídda að lífið er mikils virði vegna þess að fólk elskar, fólk upplifir ástina, upplifir að lífið er í ástvinunum. Ekkert okkar sleppur við einhverjar raunir – líka vegna ástvina okkar. Við missum ástvini og syrgjum þá. Öll lifum við mótlæti en lífið er stórkostlegt og gjöfult vegna þess að við fáum að elska og vera elskuð.

Við getum víkkað sjónsviðið og skynjað í elskutjáningum manna tákn eða speglun þess að Guð teygir sig til manna. Af því Guð elskar erum við mikils virði, eigum í okkur gildi og erum markmið í sjálfum okkur. Guð er forsenda alls sem er, allra gilda, sjálfsvirðingar manna og ástarinnar þar með. Ástarsögur manna eru geislar eða eins og örútgáfur af ástarsögu Guðs.

Menn geta elskað þótt þeir trúi ekki á Guð en trúmaðurinn sér í þeirri elsku afleggjara Guðs. Menn geta elskað börnin sín og maka óháð trú en trúmaðurinn sér í þeirri elsku ávöxt himinelskunnar sem er hið stóra samhengi þegar lífsferð manna lýkur. Við erum elskuð.

Guð og ungbarn virðast í fljótu bragði vera fullkomnar andstæður en eru þó meginmál kristninnar. Spurningin um hvað geri mannlífið þess vert að lifa því er áleitin. Hin hlið þeirrar spurningar er hvað geri líf Guðs þess virði að lifa því. Já, af hverju lætur Guð sig varða þennan útnára geimsins sem jörðin og mannheimur er? Af hverju lýtur stórveldið að smælkinu? Af hverju er Guð ekki bara upptekinn af sínu eigin jólaboði í eilífðinni, heldur tekur eftir fólki, heyrir jafnvel í þér, finnur til með sjúkum frumum þínum, fagnar með þér þegar gleðin hríslast um þig, líður með þér angist þína og kemur til þín þegar þú ert komin í öngstræti? Það er vegna þess að Guð er guð ástarinnar. Guð er vanur að elska í fjölbreytni samfélags guðdómsins. Guð er ekki innilokaður og sjálfhverfur heldur stór og útleitandi í ástalífi sínu. Guð er ríkur og fangvíður. Sagan af Guði er ástarsaga.

Hvernig horfir þú á veröldina? Er hún þér smá og lokuð eða stór og skapandi? Getur þú hugsað þér að túlka jörð og stjörnur, heimsferla og vetrarbrautir, líf þitt og líf í fjarlægð sem ástarsögu, sögu sem á sér rætur í guðlegu drama?

Í ástarsögum heimsins sjáum við Guð. Veröldin er frá upphafi alin í ástareldi. Allt efni, öll tilveran kraumar af ást eins og við sjáum t.d. í kvikmyndinni Love actually. „Það er gott að elska“ söng þjóðarpopparinn Bubbi. „All you need is love“ sungu Bítlarnir. „Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi“ söng Páll postuli. Því svo elskaði Guð heiminn segir í Jóhannesarguðspjalli. Það er inntaksboðskapur jólanna og að ástin er alls staðar, þér líka. 

Hluti íhugunar jóladags, sjá Ástin, trú og tilgangur lífsins, 353-356.

Sjálfboðaliðar

Mér er minnistæð umræða í flugvél vestur í Bandaríkjum fyrir nokkrum árum. Nokkur glæsileg ungmenni komu sér fyrir við ferðarupphaf. Þau voru sólbrennd og áberandi vel á sig komin. Þarna virtist kominn íþróttaflokkur á heimleið. Einn úr hópnum settist við hlið mér, var óragur og spurði snaggaralega hvaðan ég væri og hverra erinda. Samtalið spannst auðveldlega og hann sagði að hann og félagar hans væru læknar, sem væru að koma frá Afríku. Þar hefðu þau verið í hálfan mánuð sem sjálfboðaliðar og stýrt miklu bólusetningarátaki. Mér þótti sagan áhugaverð. Jú, jú, hann viðurkenndi að það væri spennandi og merkilegt að ferðast um fjarlæga heimsálfu. En það væri þó ekki aðalatriði hjá þessum hópi. Sameigilegt markmið væri að láta gott af sér leiða.

Í ljós kom að þessi ungi læknir var ekki aðeins að líknarstarfi í Afríku í sínum frítíma. Heima lagði hann góðum félagsmálum lið með sjálfboðaliðastarfi. Tvo klukkutíma í viku var hann að störfum að félagsstarfi unglinga í hverfinu sínu. Af hverju? Það væri skylda hans að leggja mennskunni lið. Hann var gagnrýninn á samfélagsskipan, misskiptingu auðs, misrétti alls konar. Hann átti sjálfur allt til alls og gat veitt sér það sem hann þarfnaðist, en skylda hans sem manneskju væri meðal annars fólgin í því að verja tíma og orku til að byggja upp, það væri eðlilegur þáttur í trúrækni hans. Hann sæi ekki eftir því að vera í launalausu starfi, yrði raunar gæðaríkari og vonaðist til að hann gerði gagn.

Íhugunin lifði og mér var sagt síðar að það væru milljónir Bandaríkjamanna sem hefðu tamið sér að verja tíma til sjálfboðaliðastarfa af mismunandi tagi. Ég veit að margir af mínum gömlu háskólakennurum vestra og fóru úr fílabeinsturnum sínum til samfélagsþjónustu. Meira að segja Andy Warhol, sérvitringurinn, sem málaði hinar kunnu Marilyn Monroemyndir fór í dularklæðum til matvæladreifingar meðal götubarna. Bandarískt samfélag er með öðru sniði en hið íslenska og við getum ekki yfirfært kerfi að vestan, það sem mér finnst hins vegar mikilvægt er þessi mótaða sjálfboðaliðahefð. Þar er nokkur lærdómur fólginn, sem við getum dregið heim til okkar.

Kirkjan þarnast sjálfboðaliðanna

Starf sjálfboðaliða er mikilvægur þáttur kirkjustarfs og ein af forsendum trausts kirkjulífs. Þúsundir Íslendinga sinna slíkum störfum innan íslensku þjóðkirkjunnar. Milli tvö og þrjú þúsund eru í sóknarnefndum og líklega nærri fimm þúsund í kórum. Það er alveg sama hversu marga starfsmenn kirkjan og einstakir söfnuðir ráða til starfa. Sjálfboðliðastarf, eða ólaunað kirkjustarf fellur aldrei úr gildi. Því má jafnvel halda fram að kirkja sem ekki nýtur þjónustu sjálfboðaliða sé veil og veik. Þó íslenska kirkjan muni á næstu árum ráða æ fleiri til launaðra starfa mega launastörfin ekki útrýma sjálfboðaliðastarfi. Erindi hennar er slíkt og svo altækt, að sem flestir verða að koma við þá sögu. Kirkjan þarfnast ykkar, kirkjan þarnast sjálfboðaliða. Og hún þarf að afla fleiri og efla þá til starfa. Því þurfum við jafnan að spyrja okkur hvernig á að efla sjálboðaliða til starfa og tryggja, að þeir hverfi ekki frá störfum vegna óánægju eða brenni út. Hér á eftir verða nokkur atriði nefnd, sem þjóna því markmiði – og þau eru af hagnýtistaginu.

Þarfir og skýr verkaskipan

Þið eruð fólk með þarfir, sem muna verður eftir og taka tillit til. Þið eruð mikilvægar manneskjur en ekki ódýrt vinnuafl. Í hinum stóru söfnuðum kirkjunnar hittist hópur þeirra sem laun þiggja á fundum, sem sjálfboðaliðarnir sækja ekki. Launuðu starfsmennirnir taka flestar ákvarðanir um hvað gera skal og hvernig. Prestar og starfsmenn eru flestir mjög ásettir og hafa lítinn tíma aflögu fyrir sjálfboðaliðana. Gap á milli fólks myndast því snöggt ef ekki er að gáð.

Til að fyrirbyggja vandkvæði er mikilvægt að koma á skýrri starfsskipan og vinnufyrirkomulagi sjálfboðaliða. Til að starfsheildir dafni og eflist er nauðsynlegt að samhengi allra starfa sé skýrt, ljóst sé að hverju er unnið, hver markmiðin eru sem og leiðirnar.

Ef safnaðarstarfið er ekki skipulagt sem heild er mun líklegra að sjálfboðaliðastarfið verði í lausu lofti, tengslalítið og án festu. Það er eðlileg krafa sjálfboðaliða, að þeir fái í hendur skipurit og starfsskrá safnaðarins og geti séð starf sitt í því samhengi.

Tímarammi, yfirmaður og erindi

Þessu tengt er tímarammi. Mikilvægt er að sagt og ljóst sé, hversu lengi starf sjálfboðaliðans er vænst: Hvenær verkið hefst, hversu lengi í hvert sinn og hvenær því ljúki. Fólk á siðferðilega og hagnýta kröfu að vita, hvort um er að ræða tveggja tíma starf á viku, eitt síðdegi í mánuði eða þriggja daga törn á einhverjum ákveðnum tíma.

Þá er mikilvægt, að ljóst sé hver sé yfirmaður eða tilvísunaraðili. Hverjum starfsmanni ætti að setja skriflegt erindisbréf. Ef ekki er hægt að rita niður slíkt bréf er allt eins líklegt að annað sé óljóst í safnaðarstarfinu og öllum líði illa.

Manneskjan fyrst verkefnið svo

Ekkert mannlegt félag er svo illa komið, ekki kirkjan heldur, að ekki séu einhver óunnin verkefni. Freistandi er, þegar viljinn til verka er mikill en verkefnin óþrjótandi, að reyna að finna einhvern sem hægt er að lokka til starfa. Nútímasamfélagið vill gjarnan verkefnagreiningu, sem er skiljanlegt og réttmætt. En velferð kirkju sem og sjálfboðaliða krefst sértæks vinnulags – eiginlega þarf að snúa öllu á hvolf. Í stað þess að spyrja hvern sé hægt að virkja til þessa eða hins, ætti að byrja á fólki, hæfni þess og fegurð. Það er líklega gert hér, ef ég skil rétt.

Hvernig geta hæfileikar þínir orðið til sem mests gagns fyrir samfélgið?

Huga verður vel að líðan fólks og afstöðu. Margir vinna launalaust að góðu málefni árum saman af siðferðisástæðum einum. Það er vissulega göfugt og merkilegt. En best er þegar gagn og gleði fara saman. Fólk vinnur einfaldlega betur og lengur meðan það vinnur með skemmtilegu fólki, í góðum hópi og eflist sem einstaklingar. Reisið ykkur ekki hurðarás um öxl, takið ekki að ykkur verkefni, sem eru of erfið. Vissulega er ágætt að glíma við það sem eflir færni og þroska þess. Þegar munað er eftir vaxtar- og gleðiþættinum er líklegra að þú viljir starfa í mörg ár og smitir aðra með gleði þinni. Þetta sjá menn gerast í sterkum sjálfboðaliðahreyfingum.

Afmarkað verkefni en ekki allt

Fólk verður seint algerlega sammála um öll markmið og alla starfshætti kirkjunnar eða starfsmenn hennar. Þannig er og í smæstu og stærstu sóknum. En þó fólk sé ekki sammála öllu í kirkjustarfinu getur það lagt einhverju máli lið. Þú hefur kanski ekki jafn miklar mætur eða áhuga á öllu í söfnuðinum og starfi hans. Það þurfa prestarnir og annað forystufólk kirkjunnar að skilja. En kanski viltu leggja einhverju sértæku eða nokkrum starfsþáttum lið. Það er fullgott. Og þegar þú virkjar fleiri til liðs við verkefni þitt ertu ekki að biðja fólk um að vera í öllu starfi kirkjunnar, eða dragast inn í meira en beðið er um. Þetta er mikilvægt að muna.

Heiðarleiki

Heiðarleikinn er aðalatriði og einn meginþáttur hans er að rugla ekki, hvorki sjáfan sig eða aðra. Í kirkjulegum efnum gildir sem annars staðar: Blekkið ekki sjálf ykkur eða hvert annað. Gerið ykkur skýra grein fyrir umfangi vinnu og álags. Ef þörf er á kvöldfundi í hverri viku í 66 vikur er afar mikilvægt að það sé sagt í upphafi. Ef verkefnið krefst fjögurra helga á ári er nauðsynlegt að það sé klárt frá byrjun. Sjálfboðaliðar mega aldrei fá tilfinningu fyrir að kirkjan táldragi. Afstaðan „þetta tekur engan tíma“ er ekki góð, heldur er mikilvægt að raunveruleikinn sé klár. Ef fólk almennt sýnir áhuga en víkur sér undan verkum vegna þess að það hefur ekki svo mikinn tíma, er ráðlegt að finna fremur verk handa því sem eru ekki eins tímafrek. Þú ert ekki neydd eða neyddur til starfa. Og starf kirkjunnar á allt að vera starf í frelsi og til gleði. Þá verður að muna eftir ábyrgð. Að taka að sér ákveðinn þátt þýðir ekki að þú eigir þar með að ganga í öll störf.

Í upphafi starfs

Það er mikilvægt að muna eftir því að þegar maður byrjar í nýju verkefni eða starfi þarnast maður sérlegs stuðnings eða aðlögunar. Oft gera menn þá skyssu fá einhvern til að setjast í stjórn, taka kosningu í nefnd eða lofa að sinna einhverjum starfsþætti og svo er ekkert gert til að hjálpa fólki að taka fyrstu skrefin. Sjálboðaliðar þurfa þjálfun, upplýsingar og stuðning. Kirkjan má ekki vera eins og net sem veiðir og hendir síðan aflanum hugsunarlaust í starfspottinn. Æskilegt er að margir hópar sjálboðaliða séu að störfum í söfnuðum, alla vega þeim fjölmennari. Ef svo er er nauðsynlegt að hverjum hóp sé settur tengill sóknarnefndar til halds og trausts. Þetta er ómetanlegt. Þetta þjónar starfsgæðum og starfsgildi en einnig einstaklingsvexti, og gefur ykkur einnig aukið öryggi í störfum. Þetta er þekkt meðal þeirra sem sinna æskulýðsstörfum, en ætti að innleiða gagnvart fólki á öðrum starfssviðum kirkjunnar. Þið þurfið og eigið að fá stuðning og ráð.

Sjálfboðaliðar eru fólk með þarfir og réttindi

Starf sjálboðaliða er ekki sjálfsagt mál. Það ber að þakka, sem má gera á margvíslegan hátt. Þið sem eruð starfsmenn safnaðarins: Sýnið sóknarnefndarfólkinu og sjálfboðaliðum þá virðingu að grennslast fyrir um starf þeirra, hvernig gangi, hvernig sé hægt að efla þau til starfa. Misvirðið aldrei fólk á þann hátt að stinga skýrslu ólesinni eða án viðbragða í tunnu eða tætarann. Finnið fólki verk við hæfi. En umfram allt munið að þið erum öll fólk sem gerið ykkar besta, en þið þurfið að fá strokur, huggun, klapp og einnig gagnrýni. Vettvangurinn er mikill og stór og það er rúm fyrir ykkur öll og þið hafið öll hlutverkum að gegna. Þetta er og í anda okkar lúthersku kirkjudeildar. Lúther minnti gjarnan á að bóndinn og húsmóðirin gerði jafn mikið gagn og presturinn. Allir hafa hlutverkum að gegna til góðs fyrir fólk og kirkju.

Kirkjan þarnast þín – ykkar allra.

 

Bréfið frá Bessastöðum

Guðni Th. Jóhannesson er skrifandi forseti og að auki vel skrifandi. Hann kann ágætlega á lyklaborð á tölvu og notar það þegar hann skrifar bækur. En hann notar penna til að skrifa persónuleg bréf. Eitt slíkt barst mér í dag inn um bréfalúguna á heimili mínu.

Þegar útgáfan auglýsti bók mína Ástin, trú og tilgangur lífsins var Guðni Th. sá fyrsti – af miklum fjölda – til að panta bókina. Mér fannst það skemmtilegt. En svo kom forsetabréf í dag og það var elskulegt bréf til að þakka fyrir bókina góðu sem hann sagði glæsilega að innihaldi og útliti. Og taldi að gott væri að grípa í hana – fyrir sálarheill og líka þegar semja þyrfti ræður og ávörp! Fallegt rit og notadrjúgt. 

Þvílíkur þjóðhöfðingi sem sest niður með penna, hugsar með hlýju til viðtakanda og skrifar svona vermandi texta! Fallega sagt og vænt þætti mér um ef bókin eflir þjóðhöfðingja í ræðugerðinni. Ég bað um hljóð við kvöldverðarborðið, tilkynnti að ég ætlaði að lesa upp bréf sem hefði komið fyrr um daginn og það væri ljómandi gott. Fagnaðarlæti brutust út við lestrarlok og meira að segja hundurinn gelti líka. Guðni Th. er einstakur. Bréfið verður geymt. Ljósmynd af texta forsetans er hér að neðan en forsíðan hér að ofan. 

forsetabréfið

 

Lambaskankar

Lambakjöt er stundum á borðum í mínum bæ. En skankar eru almennt vannýtt hráefni og hér er góð og auðveld uppskrift. Þetta er matarmikill réttur fyrir kalda vetrardaga og á að vera stórskorinn! Skanka má alltaf fá í Melabúðinni.

Hráefni

1-2 kíló skankar eða magurt súpukjöt

4-5 eða fleiri hvítlauksrif stungin í kjötið

salt og pipar eftir smekk

2 eggaldin

3 paprikur, í mismunandi litum

vorlaukur

rauðlaukur

púrrulaukur

3-4 stilkar sellerí

1 fennikel

allt saxað mjög gróft / 3-5 cm bitar – alls ekki í smábita 

Tómatsósa:

1-2 fínhakkaður laukur – steiktur í ólífuolíu

2 dósir niðursoðnir tómatar

hunangssletta

2 lárviðarlauf

Tímían

1/2 dós ansjósur

2 hvítlauksrif

1 bolli rauðvín

salt og pipar

látið malla

 Saxaða grænmetið fer á botn á  stóru olíusmurðu ofnfati (lokanlegu). Tómatsósan fer síðan yfir og kjötið þar yfir. Lokið á og fatið síðan sett í ofninn. Bakað fyrst í 15 mínútur við 250 gráður en hitinn síðan lækkaður í 200 gráður og bakað áfram í 1-1 1/2  tíma.

 Borið fram með kúskús eða byggi.

Borðbæn: Þökkum Drottni því að hann er góður / og miskunn hans varir að eilífu. Amen

 

Uppskriftabók að hamingjuríku lífi

Sr. Elínborg Sturludóttir er afburðaprédikari og einn öflugasti prestur okkar Íslendinga. Elínborg hélt tölu á örþingi í Neskirkju 11.11. um Ástin, trú og tilgangur lífsins. Ræðan birtist hér að neðan og svo birti hún ritdóm í Kirkjublaðinu 29.11. Greinin er að baki þessari smellu

Það eru þrjátíu ár frá því að það tókust kynni með okkur Sigurði Árna. Það var hending að ég fór með félagi guðfræðinema í heimsókn í Þjóðgarðinn á Þingvöllum vorið 1993, því á þeim tíma var ég  heimspekinemi sem sótti tíma í guðfræði en ég svindlaði mér með. Þar hitti ég Sigga Árna fyrst og heimsóknin var svo ánægjuleg að ég sótti um vinnu á Þingvöllum í kjölfarið og næstu sjö sumur var ég viðloðandi staðinn og eignaðist vináttu Sigurðar Árna.

Oft sátum við á skrifstofunni í Þingvallabænum snemma morguns, drukkum ofsasterkt kaffi og heimspekilegar samræður áttu sér stað í hnausþykkum vindlareyk.

Ég kynntist því strax þarna fyrir þrjátíu árum hve Sigurður Árni býr yfir ríkri frásagnargáfu, hve auðvelt hann á með að gera hversdagslega hluti að ævintýrum í frásögn sinni og hve gaman hann hefur af því að eiga samtal við fólk og spyrja áleitinna spurninga.

Sigurður Árni gaf ekki aðeins uppskrift að því hvernig mætti fara með fólk um Þingvelli, heldur að því hvernig hægt væri að fanga athygli á nýstárlegan hátt, beina sjónum að litlum og hversdagslegum hlutum en vera á sama tíma skemmtilegur og ögrandi.

Einmitt þessir hæfileikar Sigurðar Árna njóta sín svo vel í þessari fallegu postillu.  

Frásagnargáfan, hverdagslegu ævintýrin og áleitnu spurningarnar einkenna prédikanir Sigurðar Árna og gera þær einmitt svo innihaldsríkar. 

Stíll hans er persónulegur án þess að vera sjálfhverfur. Hann deilir af örlæti af eigin lífsreynslu ef það getur varpað ljósi á efnið sem hann er að fjalla um og margar sögur er hér að finna sem eru undursamlegar, eins og um barnið sem féll í gjótu á Þingvöllum en var bjargað og um bróðurinn frá Kvískerjum sem söng sig út úr íshellinum.  

Það væri aldrei hægt að ræna ræðu frá Sigurði Árna án þess að það kæmist upp um mann.  Það væri eins og að fara með ómerkta mynd eftir Kjarval í Fold og halda því fram að maður hefði sjálfur málað hana. Fingraför hans í textanum og sérkennin eru svo skýr.

Siggi Árni leikur sér listilega með tungumálið og býr til ný orð og ný hugtök, hann er orðasmiður.  Á sama tíma eru orðin gegnsæ og auðskiljanleg og oft mjög guðfræðileg.

Við fáum að heyra um  „smyrslakonuna“ og  „fótaþvottamennina“. Við fáum líka að heyra um  „föstudagsfólk“ og „sunnudagsfólk“. og svo er það „páskafólkið“ sem sér sólina dansa,

Oft nálgast Sigurður Árni umfjöllunarefnin úr óvæntri átt þannig að áheyrandinn kemst ekki upp með að dotta undir ræðunni og við það fær maður óvænt nýja sýn. Gott dæmi um þetta er setningin: „Hallgrímur Pétursson var aðalpoppari þjóðarinnar, ekki bara í nokkur ár heldur um aldir.“

Hafði einhver áður hugsað um sr. Hallgrím sem poppara? Eða um Passíusálmana sem „guðspjall Íslands“ og „vegabréf“ fyrir himinhlið? Og er hægt að vera með meira lýsandi fræðslu um bæinn Betaníu en að hann sé n.k. Garðabær í nágrenni Jerúsalem? Og hver annar en dr. Sigurður Árni Þórðarson hrífur okkur með sér  frá mettunarfrásögninni á Fjallinu  og vekur hugrenningatengsl við útihátið norður í landi?

Hann vefur listilega vel saman túlkun og heimfærslu inn í ræður sínar þannig að okkur finnst sjálfsagt að Jesús sé kominn norður í land með fiskana og brauðin og allir eru saddir og sælir og við bíðum bara eftir að Stuðmenn byrji að spila.

Það er ekki óalgengt að fólk spyrji: Hvaða erindi eiga eldgamlir textar við nútímafólk? Góð og gild spurning. Í Biblíunni er fullt af forneskju og þar birtist stundum heimsmynd sem er liðin undir lok. Sigurður Árni forðast ekki óþægilegu textana sem stuða okkur og við vildum helst fela, heldur tekst á við þá af hugrekki og einlægni. – Og hafnar líka þeim Guði sem stundum er að þvælast um á síðum biblíunnar og er dyntóttur og geðstirður. Guð Sigurðar er ástríkur, nærandi og skilningríkur Guð sem byggir upp lífið og sá Guð er á miklu fleiri blaðsíðum í Biblíunni. 

Siggi Árni talar beint við áheyrandann. Spyr hann spurninga sem snerta prédikunarefnið og hvetur þannig til ígrundunar. Hann færir manni ekki endilega svörin því þau geta verið persónubundin en það að spyrja spurninganna og leitast við að svara þeim gæti ýtt undir framfarir í lífsleikni og aukið lífsgleði.

Ég hlakka til að handfjatla þessa veglegu postillu, grípa í hana mér til uppbyggingar og lesa mér til gagns.

Ég sé hana eins og góða matreiðslubók sem gaman er að skoða, fá nýjar hugmyndir að réttum og hlakka svo til góðs samfélags við vini og vandamenn við borðið.

Ástin, trúin og tilgangur lífsins er uppskriftabók að hamingjuríku lífi. Njótið hennar, lesið og látið boðskapinn auðga dagana. 

Til hamingju Siggi Árni!

Meðfylgjandi mynd tók ég af sr. Elínborgu í safnaðarheimili Dómkirkjunnar á tuttugu ára vígsluafmæli hennar í september 2023.

 

 

 

 

 

.