Hönnuð saga

ummyndunTrúir þú virkilega svona sögu um “ljósashow” upp á fjalli í fornöld? Er þessi ummyndunarsaga ekki bara skröksaga, bull sem þjónaði því hlutverki að blekkja auðtrúa fólk? Er ekki eðlilegast að efast um ótrúlega Jesúsögu?

Efi og túlkun

Hvað með efann? Viltu hugsa rökrétt – líka í málum Jesú, Biblíu og trúar? Efinn og trúin eru ágætar systur og líka vinir þegar viskan ræður. Í vökulum heila pælir efinn þann akur sem ber góða ávexti heilastarfseminnar. Efinn greinir, gagnrýnir og leitar þekkingar. Heilbrigð trú hræðist ekki efann, heldur gleðst yfir getu hans og tekur þátt í að kanna túlkanir, möguleika, nýjar hugmyndir um það sem máli skiptir. En hvað um Biblíuna? Eigum við að trúa sögum hennar eins og fréttum af mbl, guardian eða bbc?

Það er skynsamlegt að skoða Biblíuna með velviljaðri gagnrýni og spyrja: Hver eru skilaboðin? Getur þessi ræða eða saga kryddað líf mitt í allt öðrum aðstæðum en til forna? Biblíuna þarf að lesa með köldum en opnum huga og trúarlærdóma þarf að skoða í sögulegu samhengi. Kirkjustofnun er ekki og má ekki vera óbreytanleg. Forn heimsmynd og úreltir samfélagshættir eru ekki aðalmál trúarinnar.

Ég álít að allt sem tengist trú og trúariðkun eigi skoða með opnum huga. Ekkert undanskilið. En ég trúi og þótt ég meti skynsemina, heilann, efann og gagnrýnina mikils trúi ég á Guð. Ég upplifi að Guð er upphaf mitt, tjáir mér elsku sína í hjartslætti mínum, í frumum líkamans, hrifningu daganna – faðmlögum ástvina minna og furðum heimsins. Og ég álít, alveg í samræmi við hefð okkar Vesturlandamanna allt frá tíma Immanuel Kant og upplýsingarinnar, að við skoðum veröldina út frá ákveðnum forsendum og með „rósrauðum“ gleraugum.

Við erum takmörkuð og túlkun okkar á raunveruleikanum er alltaf takmörkuð og hið sama gildir um hið trúarlega. Túlkun á hinu guðlega verður ekki annað en ágiskun og tilraun til að tjá hið ósegjanlega, t.d. með hjálp líkinga, frásagna og vísana. Við trúmenn berum Guði vitni en tölum um samskiptin við Guð með hjálp dæma, sagna og hliðstæðna úr heimi manna. En skyldi Guð verða reiður yfir þeim óbeinu og ónákvæmu lýsingum? Nei, ekki frekar en við foreldrar pirrum okkur ekki á börnum okkar þegar þau eru að læra að tala. Guð gleðst vonandi yfir tilraunum okkar. Og Guð stressar sig – held ég – ekki yfir óvitaskap okkar manna þegar við gerum okkur fávíslegar hugmyndir um Guð.

Reynsla kallar á form frásagnar

En þessi ótrúlega saga af fjallinu? Hvað heldur þú að þessi ljósagangur þýði? Og til hvers þessir zombíar sem allt í einu birtast? Já, sagan af fjallinu er furðuleg. Hún er kölluð ummyndunarsagan enda ummyndaðist eða umbreyttist Jesús Kristur.

Eitthvað gerðist? En hvað? Hvernig á að segja frá því sem enginn annar hefur upplifað? Þegar fólk upplifir eitthvað mjög sérstakt er því vandi á höndum. Stundum segir fólk mér sögur sem það segir engum öðrum en mér, prestinum, og alls ekki kunningjum eða fjölskyldu. Fólk segir ekki sögur ef það á von á því að sá kvittur fari á kreik að það sé orðið kúkú, andlega bilað. Fólk er viðkvæmt fyrir orðspori sínu. Svo var í fornöld einnig. En í öllum menningarkimum verða til mynstur eða leyfilegar fyrirmyndir um hvernig sagt er frá hinu sérstæða eða ótrúlega. Hefðir marka ramma hins leyfilega og einnig mystur orðræðu.

Tákn og saga

Þeir voru fjórir á ferð, Jesús, Pétur, Jakob, Jóhannes og puðuðu upp á fjall. Þar gerðist eitthvað dularfullt. Áhorfendum þótti eins og aðrir kæmu til fundar og komumenn væru ekki af þessum heimi. Félagarnir brugðust við, þeir túlkuðu söguna í anda hefðarinnar og héldu að komnir væru frægir karlar úr fortíðinni, Móse og Elía. Það væri svona álíka og ef við værum að klífa Esjuna og allt í einu væru komnir þar til fundar við okkur Jón Sigurðsson og Snorri Sturluson. Í einhverju kasti – væntanlega stresskasti – býðst lærisveinn til að tjalda fyrir meistara þeirra og komumennina einnig.

Öll sagan er samsett táknum og táknmáli. Þeir voru á fjalli. Móse fékk lögfræði Ísraels á fjalli eins og Íslendingar fengu sín lög í fjallasal. Fjall er tákn um hið guðlega. Þessir nafngreindu foringjar og fyrirmyndir Ísraelssögu, Móse og Elía, eru tákn um lög, hefð og sögu. Að þeir komu til fundar þjónar hlutverki gjörningsins til að opna nýja skynjun, tilfinningu og túlkun. Jesús er hinn nýji sem tekur við og umbreytir hebreskri hefð og sögu. Svo voru postularnir samverkamenn sem tóku við og túlkuðu. Þeir brugðust við en skildu ekki, voru mannlegir, en þrátt fyrir flónskuna var þeim samt treyst til að hlusta á, meðtaka og endurflytja.

Þrennan – rosi, sýn og skilaboð

Til að skilja sérstæða sögu er mikilvægt að þekkja bókmenntalegt mynstur hennar og gerð og hlutverk í menningarheimi fornaldar. Það er þarft að greina milli þriggja tegunda af sögum sem tjá birtingu hins yfirskilvitlega. Ein hefur einkenni rosa, önnur varðar sýn og sú þriðja hefur skilaboð – rosi-sýn-boð.

Þeófaía – rosinn

Í fyrsta lagi eru guðsbirtingarsögur rosans, sem tjá komu eða návist Guðs með hjálp náttúruhamfara – t.d. jarðskjálfta, þrumuveðurs og öðru í þeim dúr þó guðinn sjáist ekki í eigin persónu. Þetta eru þeófaníurnar – dramatísku guðsbirtingarnar – sem tjá einfaldlega að Guðinn er nálægur. Þær sögur lýsa hughrifum fólks og oft miklum ótta við nánd hins ógurlega guðs. Ummyndunarsagan sem segir frá í Matteusarguðspjalli er ekki slíkrar gerðar. Þar eru engar náttúruhamfarir. Stíllinn er annar.

Sýn – hið sjónræna

Í öðru lagi eru sögur um sýnir. Sögur um sýnir greina jafnan frá útvöldum hópi fólks sem fær að sjá eitthvað sem er ekki vanalegt í mannaheimi. Fólk sér eitthvað óvenjulegt sem ber fyrir augu – en ekki er miðlað neinni sérstakri þekkingu eða skilaboðum. Vissulega er sýn í ummyndunarsögunni en í þessari sögu er talað og skilboðum er komið áleiðis til þeirra sem upplifðu. Saga dagsins er því ekki sýn af tagi birtingarsögu.

Skilaboðasögur

Þriðja gerð guðsbirtinga eru skilaboðasögur og sem segja frá skyndilegri og óvæntri guðsbirtingu sem einhver eða einhverjir útvaldir verða fyrir. Mikilvægum boðskap er komið á framfæri og skilaðboðin eru heyranleg. Þannig saga er ummyndunarsagan. Skilaboðin eru um persónu og hlutverk Jesú Krists sé og hvaða afleiðingar það hafi. Því er sagt sem svo: Hlustið á hann, takið eftir því sem hann segir. Það eru skilaboðin. Ummyndunarsagan er um skilaboð Guðs til manna. Móse og Elía þjóna aðeins hlutverki dýpkunar. Þeir eru aukapersónur og gefa samhengi en táknum en aðalpersónan er hinn nýji fulltrúi Guðs, Jesús Kristur. Merkingin er að við eigum ekki að staldra við lögmál fortíðar heldur elskuboðskap guðssonarins. Rödd úr guðsvíddinni tjáir: Jesús Kristur er Guðsfulltrúinn – hlustið á hann og hlýðið honum.

Boðskapurinn mótar og knýr á

Og hverju getum við þá trúað? Er þetta skröksaga? Þegar við erum búin að greina söguna kemur í ljós að hún er færð í stílinn vegna þess að sagan er umgjörð um ákveðin skilaboð. Hún hönnuð saga, lituð með ákveðnu móti, með ákveðnum atriðum og í ákveðnni fléttu. Þú mátt hafa allar heimsins skoðanir á hvort sagan hafi tekist eða ekki, hvort hún er trúleg eða ekki, hvort hún er leiðinleg eða skemmtileg en skilaboðin eru skýr. Boðskapurin er að Jesús Kristur sé trúverðugur, áheyranlegur og ákjósanlegur. Spurningin er ekki hvort sagan sé bull og skröksaga heldur hvort Jesús Kristur sé fulltrúi Guðs eða ekki. Trúir þú því – með efasemdum og mannlegum breiskleika þínum? Þar er efinn og þar er trúin.

Neskirkja 9. febrúar, 2014.

Textar síðasta sunnudags eftir þrettánda A-röð

Lexían er úr 5. Mósebók

Spámann slíkan sem ég er mun Drottinn, Guð þinn, láta fram koma úr hópi ættbræðra þinna. Á hann skuluð þið hlýða. Fyrir þá mun ég láta fram koma spámann slíkan sem þú ert úr hópi bræðra þeirra. Ég mun leggja honum orð mín í munn og hann mun boða þeim allt sem ég býð honum. Og hvern þann sem ekki hlýðir á þau orð, sem spámaðurinn flytur í mínu nafni, mun ég sjálfur draga til ábyrgðar.

Pistillinn er úr 2. Pétursbréfi

Þess vegna ætla ég mér ávallt að minna ykkur á þetta enda þótt þið vitið það og hvikið ekki frá sannleikanum sem þið nú hafið öðlast. Ég álít mér líka skylt, á meðan ég er í þessari tjaldbúð, að halda ykkur vakandi með því að rifja þetta upp fyrir ykkur. Ég veit að þess mun skammt að bíða að tjaldbúð minni verði svipt. Það hefur Drottinn vor Jesús Kristur birt mér. Ég vil einnig leggja kapp á að þið ætíð eftir burtför mína getið minnst þessa. Ekki notaði ég uppspunnar skröksögur er ég kunngjörði ykkur mátt og komu Drottins vors Jesú Krists heldur hafði ég verið sjónarvottur að hátign hans. Því hann meðtók af Guði föður heiður og dýrð þá er raust barst honum frá hinni dýrlegu hátign: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á.“ Þessa raust heyrði ég sjálfur koma frá himni þá er ég var með honum á fjallinu helga. Nú getum við enn betur treyst orði spámannanna. Það er rétt af ykkur að gefa gaum að því eins og ljósi sem skín á myrkum stað þangað til dagur ljómar og morgunstjarnan rennur upp í hjörtum ykkar. Vitið það umfram allt að enginn þýðir neinn spádóm Ritningarinnar af sjálfum sér. Því að aldrei var nokkur spádómur borinn fram að vilja manns heldur töluðu menn orð frá Guði, knúðir af heilögum anda.

Guðspjall úr Matt. 17.1-9

Eftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes, bróður hans, og fer með þá upp á hátt fjall að þeir væru einir saman. Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra, ásjóna hans skein sem sól og klæði hans urðu björt eins og ljós. Og Móse og Elía birtust þeim og voru þeir á tali við Jesú. Pétur tók til máls og sagði við Jesú: „Drottinn, gott er að við erum hér. Ef þú vilt skal ég gera hér þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina.“ Meðan Pétur var enn að tala skyggði yfir þá bjart ský og rödd úr skýinu sagði: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á. Hlýðið á hann!“ Þegar lærisveinarnir heyrðu þetta féllu þeir fram á ásjónur sínar og hræddust mjög. Jesús gekk til þeirra, snart þá og mælti: „Rísið upp og óttist ekki.“ En er þeir hófu upp augu sín sáu þeir engan nema Jesú einan. Á leiðinni ofan fjallið bauð Jesús þeim: „Segið engum frá sýninni fyrr en Mannssonurinn er risinn upp frá dauðum.“

Hulda Gunnarsdóttir – minningarorð

Hulda GunnarsdóttirMyndir eru mikilvægar. Sögur líka. Hvaða myndir af Huldu vakna í þínum huga við kveðjuathöfn?Hvaða sögur sagði hún þér? Nokkrar myndir verða dregnar upp og sögur sagðar.

1. Hulda var eins og hálfs árs og byrjuð að ganga með. Hún hreifst af tóbaksklútum föður síns. Án þess að pabbinn tæki eftir tók hún klútinn hans og faldi og þótti skemmtilegt að faðir hennar hringsnerist og leitaði. Hann þusaði yfir hvað orðið hefði af klútnum – og uppgötvaði auðvitað þátt hinnar stuttu. Hulda lærði að saklausir hrekkir geta orðið til skemmtunar.

2. Hulda var glaðsinna og leiksækinn. Þegar hún var fermd dró Útskálaprestur í nokkrar vikur að taka hin nýfermdu til altaris. Hulda hafði verið ráðin í vist og vildi móðir hennar að hún færi í vistina strax. Það vildi stúlkan þó ekki og benti móður sinni á að hún færi ekki svona hálf-fermd og ekki búin að ganga til altaris! Og svo bætti hún við í minningum sínum: „Undirniðri vildi ég fá að vera einni viku lengur heima til að leika mér.“ Hulda var sniðug.

3. Hulda sagði skemmtilega frá. Hún hafði enga þörf fyrir að gera sig breiða og draga að sér athygli í fjölmenni. En heima og á fundum fjölskyldunnar var Hulda ávallt kát og gladdist í góðra vina hópi. Hún sagði skemmtilegar sögur – frá sérkennilegum körlum og eftirminnilegum konum, sérstæðum atburðum, dramatískum örlögum og fór með skemmtilegar vísur. Um helgar vöknuðu börnin hennar jafnvel upp við hlátrana úr eldhúsinu. Hún sagði bónda sínum frá og hlustaði á sögur hans, skellti sér á læri og hló hjartanlega. Það eru kjöraðstæður fyrir börn að alast upp í húsi þar sem nótt og dagur kyssast í hlátri húsmóðurinnar.

Hulda var framúrskarandi sagnakona – „frábær sagnamaður“ sagði Ingólfur, dóttursonur hennar og þótti ekki verra, að hún var sem þrautþjálfaður spunaleikari og breytti sögum að þörfum hnokkans. Hulda var lestrarforkur og drakk í sig ævintýri og bókmenntir, ræktaði næmi fyrir hinu mannlega, framvindu góðrar söguflækju og lagði svo til glettni og gáska. Örlagasögum fólks miðlaði hún við eldhúsborð eða barnakodda með innlifun og tilheyrandi látbragði.

4. Hulda vann í veitingastofu Alþýðubrauðgerðarinnar, Laugavegi 63. Hún segir sjálf frá í æviminningunum sem Pálmi, sonur hennar, skrifaði upp eftir henni (Ævi óbreyttrar alþýðustúlku á fyrri hluta tuttugustu aldar. Handritið er á Kvennasögusafninu): „Einn morguninn kom inn ungur maður í rykfrakka með brúnköflóttan trefil um hálsinn og með stúdentshúfu. Þetta var laglegur maður, góðlegur og kurteis. Hann pantaði mjólk og vínarbrauð og bað um „lakrís“ sem hann bar fram með norðlenskum hreim, sem mér fannst skemmtilegt og ég brosti dálítið. Við töluðum lítið annað saman þennan vetur. Hann pantaði og ég afgreiddi. Svo áttum við eftir að hittast á balli í Iðnó haustið eftir (1942). Hann bjó á Njálsgötunni. Ég vissi ekki hvað hann hét fyrr en Borgþór, bróðir minn og piltur, sem var með honm mættu honum í dyrunum. Hann spurði hvort þeir þekktu þessa stúlku sem var að afgreiða þarna inni. Já, já, þeir héldu það nú að þeir þekktu þessa. Þegar Borgþór kom inn sagði hann: „Við höfum líklega eyðilagt eitthvað fyrir þér. Ingólfur Pálmason var að spyrja hvort við þekktum þig, og létum líklega yfir því.“ Svo sagði Borgþór mér hver hann væri og að hann væri að stúdera íslensku við háskólann. Mér leist vel á manninn.“

Þannig sagði Hulda frá fyrstu kynnum þeirra hjóna. Hulda tók viðburðum daganna með gleði og þorði að lifa í drama lífsins.

Upphaf og ævi

Málfríður Hulda Gunnarsdóttir kom í heiminn síðla vetrar meðan enn geisaði stríð í Evrópu. Hún fæddist á Gerðabakka í Garði þann 18. mars 1917 og var því á 97. aldursári þegar hún lést 22. janúar síðastliðinn.

Hulda var dóttir Guðrúnar Jónsdóttur (1895 – 1971) og Gunnars Jónssonar (1886 -1975). Móðir hennar var húsmóðir og faðir hennar sjómaður. Á heimilinu var barnafjöldi. Hulda var elst níu systkina og þar af lést eitt þeirra í fæðingu. Eftirlifandi er aðeins Jóhannes. Hin systkinin eru öll látin. Þau eru Ásta, Helga, Borgþór Valtýr, Sigurlaug, Jónfríður og Sigríður.

Hulda var skírð í lok apríl og nefnd Málfríður Hulda. Fyrra nafnið kom úr mannheimum en hið seinna úr draumheimi. Móðir hennar var send til vandalausra ung að árum. Sex ára var hún í hjásetu vestur á Mýrum, leiddist og sofnaði einu sinni við klettaborg. Hulda segir svo í minningum sínum: „Dreymdi hana þá að hún væri fyrir framan bæ og var gluggi á stofunni. Sér hún inn um gluggann unga stúlku sem er að sandskúra borð undir baðstofuglugganum og syngur hún svo yndislega að þegar mamma vaknaði þá er henni horfin leiðindi og kvíði. Mörgum árum seinna er hún var gift kona í Garðinum og nýbúin að eiga sitt fyrsta barn, þá 21 árs var hún í döpru skapi, því hún horfði með kvíða til framtíðarinnar af ýmsum ástæðum. Var hún milli svefns og vöku og fannst þá að inn kæmi kona og þekkti hún aftur ungu stúlkuna sem hana dreymdi í hjásetunni. Henni fannst hún ganga að vöggunni og færi að syngja gæfuljóð yfir barninu. Henni fannst að konan hefði elst eftir því sem árin sögðu til frá draumnum í hjásetunni. Mamma ákvað að barnið skyldi heita í höfuðið á huldukonunni og einnig Málfríður í höfuðið á vinkonu sinni sem dó ung.“

Huldunafnið festist svo við hana og var hún ánægð með nafn sitt.

Hulda sótti skóla í Garðinum, var fljót til bókar og naut hvatningar heima. Hún laumaðist gjarnan í bókakistilinn til að afla sér andlegrar næringar. Heimili Huldu var bókaheimili og hún var jafnan fyrst til að lesa bækurnar sem þangað komu. Móðir Huldu hvíslaði líka að Ingólfi, mannsefni hennar, að hann yrði að gæta þess að Hulda týndist ekki alveg í bókunum, svo bóksækinn hafði hún verið.

Foreldrar Huldu, sem höfðu bæði átt erfiðan uppvöxt, vildu tryggja börnum sínum góða æsku. Hulda fékk því líklega lausari taum í uppvexti en mörg önnur börn og naut elskusemi. Sjálf andaði hún ekki í hálsmálið á börnum sínum, heldur veitti þeim frelsi og óskaði þeim aga og hamingju. Af æviminningum er ljóst að Hulda fékk í æsku næði til leikja, tilrauna, þroskaverkefna og gleðiferða. Garðsminningar hennar eru bjartar, gleðilegar og góðar. Og í þessu minningasafni kemur vel fram fásinnisminni hennar, tilfinning fyrir veðri, litum og þeirri menningu sem miðlað var.

Hulda var elst í stórum barnahópi og axlaði leiðtogahlutverk sitt vel. Hún var áttviss í lífi og störfum. Hún hafði enga þörf fyrir að trana fram sínum skoðunum en átti heldur ekki í neinum erfiðleikum með að setja mörk, hvorki sjálfri sér, vinnuveitendum eða viðmælendum. Hún vissi hvað hún vildi og kunni sig vel, fékk fram það sem eðlilegt var og svo kryddaði hún með kímni eða leik ef með þurfti. Þegar Hulda hafði aldur til fór hún í vist til að gæta barna og sinna bústörfum. Hún var barnagæla, kunni að lúta að ungviði og efla til manns. Hún sótti ekki aðeins vinnu í Garðinum heldur réði Hulda sig til vinnu víða um land til að geta skoðað sem flesta hluta Íslands.

Haustið 1936 fór Hulda norður á Blönduós og hóf nám í Kvennaskólanum. Þar var hún til vors og raunar tók hún svo þátt í námskeiði haustið 1938 eftir kaupavinnu í Langadal um sumarið. Hafi hún ekki verið góður kokkur fyrir Blönduóstímann var hún það síðan. Næstu ár urðu vinnuár. Sumarið 1941 réðust hún og vinkona hennar til hótelstarfa austur á Reyðarfjörð – „tækifæri til að sjá landið“ segir í Hulduminningum. Ekki var staðið við samninga um kaup, kjör og vinnu. Og Hulda átti ekki í neinum erfiðleikum með að horfast í augu við mál lífsins og vinkonurnar sögðu strax upp vinnunni. En þær voru þó endurráðnar, á mun hærri launum og fengu að auki nokkra frægð af framgöngu sinni. Áratugum seinna frétti Hulda að sagan um „þær fínu“ sem ekki vildu vinna bretavinnuna hafi meira segja borist upp á Hérað. Þær vinkonur voru því í frásögur færðar.

Svo fór Hulda suður, með drýgri peningasjóð en hún hafði átt von á og hótelstjórinn gaf henni að skilnaði Hundrað bestu ljóð á íslenskra tungu. Hún var fullveðja. Minningin um ákveðnu stúlkuna með gulgrænu augun lifði þar sem hún hafði verið.

Hjúskapur

Og svo kom Ingólfur til hennar með bestu skáldsögur heimsins og ást sína. Hann kom í veitingastofuna á Laugaveginum með brúnköflóttan trefilinn. Svo dönsuðu þau síðar saman í Iðnó. Hulda lýsti fótaburðinum með orðinu „kálfastikl“ – að það hafi verið hjá þeim eitthvað „kálfastikl!“ Og drengurinn að norðan – frá Gullbrekku í Saurbæjarhreppi – átti einhvert gull í buddunni því hann bauð Huldu upp á kaffi á ballinu. Síðan röltu þau og nokkrir vinir upp á Smáragötu til að rabba saman. Ingólfur stundaði sitt íslenskunám í háskólanum, þau Hulda færðust nær hvoru öðru og svo urðu þau par.

Hulda og Ingólfur gengu í hjónaband 23. apríl árið 1948. Pálmi fæddist á sólríkum degi 19. júní sama ár. Gunnar fæddist svo tæpum fjórum árum síðar, 2. febrúar. Guðrún er yngst, fæddist 1. maí árið 1959. Pálmi starfar sem rannsóknarmaður hjá Raunvísindastofnun Háskóla Íslands. Gunnar – sem var örverufræðingur – lést árið 1990. Hann var kvæntur Liv Ringström Hansen. Þeirra dóttir er Marianne Tonja Ringström Feka. Hún er gift Daniel Feka og eiga þau soninn Dennis. Guðrún er íslenskufræðingur og doktor í sínu fagi. Eiginmaður Guðrúnar er Eiríkur Rögnvaldsson og sonur þeirra er Ingólfur.

Huldu var mjög annt um fólkið sitt og ræktaði það hið besta og tók fagnandi við ömmuhlutverkinu og þjónaði fús ungviðinu. Mér hefur verið falið að bera þessum söfnuði kveðju Marianne sem er búsett í Noregi og er ekki við þessa athöfn.

Maðurinn hennar Huldu

Ingólfur og Hulda voru sálufélagar. Hún hafði áhuga á viðfangsefnum hans, kennslu og þýðingarverkefnum. Hún ræktaði ekki aðeins tengsl við vinkonur sínar heldur tók skáldum og bókajöfrunum, vinum Ingólfs, hið besta og gerði vel við þá. Hulda hafði gaman af manni sínum og gerði líf hans ævintýralegt. Hann naut hennar og hún átti í engum vandræðum með að gera grein fyrir hvað hann var að sýsla. Ef ekki með nákvæmri útlistun þá með kátlegu móti. Þegar hún var spurð um hvað Ingólfur væri að aðhafast í Kaupmannahöfn eftir stríðið svaraði hún skýrt og ákveðið að hann væri að ná í handritin. Þótti erindi hans því stórmannlegt. En Ingólfur var alsaklaus við nám en heim komu handrit um síðir.

Ingólfur bara alla tíð mikla virðingu fyrir kostum og hæfni konu sinnar. Þau deildu jafnan skoðunum um menningarmál, stór mál og smá. Þau gengu erinda réttlætis í samfélagsmálum og voru samstiga í fjölskyldumálum sínum.

Þegar Ingólfur var að þýða eitthvert stórvirkið í bókmenntum heimsins leitaði hann til Huldu með vandasöm úrlausnarefni. Hún brást vel við, varð honum innblástur og sagði óhikað skoðun sína. Heimilislífið var gleðilegt, frjálslegt og jafnan var glatt á hjalla og mikið rætt.

Laglegi, góðlegi og kurteisi Ingólfur lést fyrir aldur fram í nóvember árið 1987.

Mannvinur

Frá 1963 vann Hulda á næturvöktum á Kleppsspítala. Hún lét af störfum þar í júní 1992 – þá 75 ára að aldri. Hulda varð sem lífsengill vistmönnum og hafði lag á góðri reglu og samskiptum. Hún þurfti ekki að aga sjúklingana, heldur gaf þeim sem ekki gátu sofið mjólkursopa eða sígarettu. Vinnustíll Huldu þótti helst til frjálslyndislegur og yfirvaldið óskaði að hún hætti aðferðinni “sopi-sígaretta.” En Hulda var lagin, líka við þau sem ætluðu að sveigja hana. Nei, það mætti alveg segja henni upp, en hún hefði ekki hugsað sér að svipta vini sína og skjólstæðinga því sem sefaði og friðaði. Síðan var ekki meira rætt um hennar hátt – en sjúklingarnir prjónuðu marga sokka og vettlinga handa börnum Huldu og voru plöggin sem tákn um hæfni hennar í samskiptum. Þetta þykir mér vera helgisaga um Huldu.

Að leiðarlokum

Nú eru skil. Sú Huldusaga sem hófst í Garðinum fyrir nærri öld er lokið. Hulda steikir ekki lengur schnitzel eða býr til eðalkjötsúpu fyrir sitt fólk. Hún dramatíserar engar örlagasögur og fer ekki í dagstúra lengur með Pálma austur fyrir fjall. Hún hlýðir engum framar yfir námsbækurnar, hvíslar ekki skemmtiyrði í eyra eða rifjar upp kátleg atvik frá síldarævintýri á Sigló forðum. Engir bókakassar koma lengur frá Borgarbókasafninu til hennar. Hún gefur ekki oftar stórmannlegar gjafir en minningar lifa. Ekki situr hún framar á leikhúsbekk, opineyg og næm kvika.

Nú er það stóra leikritið, stóra sviðið, stærsta sagan. Hún kenndi börnum sínum bænir, kunni að signa sig og þekkti Jesúsöguna vel – stóra dramað sem Guð segir mannkyninu um sig. Hulda naut þess að upplifa sögur, ferðast og vera með fólkinu sínu. Ferðin inn í himininn fléttar saman það sem gladdi hana. Og þið megið sleppa, leyfa Huldu að fara inn í ljósið þar sem allt er gott – inn í Garð eilífðar. Þar er fullkomið skjól og þar eru börnum manna sungin gæfuljóð.

Guð geymi hana alla tíð – Guð geymi þig.

Amen.

Minningarorð við útför Huldu Gunnarsdóttur. Kapellan í Fossvogi, 31. janúar, 2014.

Bálför – jarðsett á afmælisdegi Huldu 18. mars. Eftir útfararathöfnina verður erfidrykkja í Víkingasal 4 á hótel Natura.

Lygi eða sannleikur?

vitringarSagan um vitringana er ekki goðsaga heldur helgisaga. En er helgisagan lygi eða sannleikur?

Jólatímanum er að ljúka og við jólalok er sagan um vitringana gjarnan íhuguð. En hvers konar saga er hún og hvað merkja vitringar og atferli þeirra? Er saga þeirra goðsaga, helgisaga, dæmisaga eða eitthvað annað – eða kannski bara lygisaga, bull og vitleysa?

Það skiptir máli hvernig lesið er til að fólk greini með viti og skilji þar með. Í Biblíunni – og líka í trúarbrögðum og menningarhefðum – eru margar sögur sem kallast kallast helgisögur. Þær eru oft nefndar með slanguryrðinu legendur því þær kallast á ensku legends og eru ólíkar og gegna öðru hlutverki en svonefndar goðsögur um uppruna heimsins.

Helgisögur eru gjarnan um efni á mörkum raunveruleikans. Þær eru oft sögur um einstaklinga, sem gætu hafa verið til og um líf eða viðburði sem eiga jafnvel við eitthvað að styðjast í raunveruleikanum. Áhersla helgisögu er ekki á nákvæma rás viðburða og söguferlið sjálft, staðreyndir eða ytra form atburðanna, heldur fremur á dýpri merkingu og táknmál. Svona greining á formi og flokkum skiptir máli til að merking sögunnar sé rétt numin og skilin. Bókmenntafræðin, þjóðfræði og greinar háskólafræðanna eru hjálplegar til að skilja svona sögur. Inntak og form verður að greina rétt. Inntakið kallar alltaf á form til að ramma inn og miðla með merkingu. Reglan er einföld: Svona sögur á ekki að taka bókstaflega heldur alvarlega og skilja þær í ljósi eigin forsendna. Svona sögur á ekki að kreista því þá brotnar allt, líka skilningurinn. Og vitringasagan er helgisaga en ekki goðsaga.

Vitringar?

Hvað vitum við um þessa vitringa sem komu til Jesú? Af hverju var sagan sögð af þeim? Hvaðan komu þeir? Hvað hétu þeir og hvað gerðu þeir? Hvað voru þeir margir?

Vitringarnir hafa gjarnan verið þrír í sögum og á myndum og nefndir Baltasar, Melkíor og Rafael. En í guðspjallinu segir ekkert um fjöldann þó okkur finnist að svo hafi verið. Í austrænni kristni eru þeir taldir allt að tólf. Ekkert í guðspjöllunum er heldur um nöfn þeirra.

Voru þetta konur eða karlar – eða bæði? Um það getum við ekki fullyrt heldur. Sú hnyttni hefur löngum gengið í kristninni, að vitringarnir hljóti að hafa verið karlkyns því ef þetta hefðu verið konur hefðu þær byrjað á að fá sér almennilegar leiðbeiningar um hvar Jesús myndi fæðast, þær hefðu verið á staðnum á réttum tíma, þrifið húsið til að undirbúa fæðinguna, hitað vatn, hjálpað til og gefið barninu og foreldrunum eitthvað nothæft s.s. bleyjur, mat og föt en ekki ónothæft dót eins og gull, reykelsi og myrru!

Uppruni og eðli

Margar tilgátur eru um uppruna vitringanna. Um aldir hafa menn séð í þeim tákn mismunandi hluta hins þekkta heims. Ýmsar sögur hafa gengið: Einn þeirra átti að vera svartur og frá Eþíópíu, annar frá Indlandi og einn frá Austurlöndum fjær. Enn í dag er álit margra kristinna manna í Kína, að einn vitringanna hafi verið frá Kína. Um þetta er ekkert vitað með vissu.

Þegar rýnt er í textann eru mennirnir nefndir á grískunni magos (μάγος) og í ft. magoi. Magusar gátu verið töframenn og af þessu orði er magic sprottið t.d. í ensku. Líklega ber að skilja söguna sem svo að komumenn, hversu margir sem þeir voru, hafi ekki átt að vísa til töframanna heldur svonefndra mágusa, presta í norðurhluta þess svæðis sem við köllum Íran í nútímanum. Þeir hafi verið fræðimenn, kunnáttumenn í stjörnufræði og lagt sig eftir táknmáli stjarnanna. Kannski hafi þeir verið úr þeim væng Zóróastrían-átrúnaðarins, sem var opinn gagnvart guðlegri innkomu eða birtingu hins guðlega.

Víkkun – fyrir alla

Matteus guðspjallamaður var ekki upptekinn af jólasögunni sem lesin er á aðfangadegi úr Lúkasarguðspjalli. Af hverju sagði Matteus aðra útgáfu jólasögunnar? Ástæðan varðar stefnu og tilgang rits hans. Í guðspjalli Matteusar er áhersla á opnun hins trúarlega. Matteus taldi að Jesús Kristur og kristnin ætti ekki aðeins erindi við lokaðan hóp Gyðinga heldur allan hinn þekkta heim manna. Guð væri ekki smásmugulegur heldur stór. Guð veldi ekki aðeins litinn hóp heldur hugsaði vítt og útveldi stórt. Guð léti sig ekki aðeins varða einn átrúnað heldur allt líf, hugsun og veru allra. Vegna þessa er eðlilegt, að í þessu guðspjalli, sem býður að kristna allar þjóðir, skíra og kenna öllum, komi prestar við sögu utan úr heimi trúarbragðanna. Erindi vitringanna er m.a. að tjá opnun og alþjóðavæðingu hins trúarlega. Hrepparígur og bókstafstrú passar ekki við trú þessarar gerðar, trúin er fyrir alla. Guð starfar í þágu allra. Guð er alveg laus við snobb og er ekki hrifnari af sumum en síður af öðrum. Guð er ekki bara Guð einnar þjóðar heldur allra manna.

Kóngavæðingin

Táknleitandi hugsuðir aldanna hafa lesið í táknmál vitringasögunnar, stækkað hana og lesið í hana. Kóngavæðing sögunnar er einn þáttur flókinnar túlkunarhefðar. Þegar veraldlegir konungar fóru að trúa á Jesú Krist var að vænta, að kóngarnir vildu koma sér að í guðssríkinu – valdið vill alltaf meira. Sögur fengu byr um að hinir vitru og gjafmildu ferðalangar hlytu að hafa verið konungbornir. Í ýmsum þýðingum Biblíunnar var gjarnan skrifað (t.d. í ýmsum enskum biblíuþýðingum), að vitringarnir hafi verið kóngar og eðli og tilgangur gjafa þeirra breyttist þar með. Danska biblíuhefðin var í anda þessarar konungatúlkunar. Á dönsku er t.d. talað um þrettándann sem helligtrekongersdag. En ég held þó að ef komumenn hefðu verið konungar hefðu þeir verið nefndir öðrum nöfnum en magos og magoi í Biblíunni.

Íslenska hómilíubókin, sem er prédikanasafn frá fyrstu öldum kristni á Íslandi, segir berlega að komumenn hafi verið “Austurvegskonungar.” En hins vegar þýddi Guðbrandur Þorláksson orðið magos með orðinu vitringur í Guðbrandsbiblíu og þannig hefur verið þýtt allar götur síðan á 16. öld og vitringarnir eru vitringar en ekki kóngar í núgildandi Biblíuþýðingu. 

Hvenær?

Flestir halda, að vitringarnir hafi vitjað Jesú á fæðingarkvöldinu í Betlehem af því þannig eru myndirnar og helgileikirnir, sem við setjum upp t.d. helgileikur Melaskólans sem sýndur hefur verið í marga áratugi hér í kirkjunni. En ekkert er sagt í guðspjallinu um, að vitringarnir hafi vitjað Jesúbarnsins þegar það var nýfætt. Ekkert er sagt hvenær þeir komu heldur það eitt að þeir hafi opnað hirslur sínar og gefið góðar gjafir.

Lestur helgisögunnar

Hvað eigum við að gera við helgisöguna um vitringana? Svarið er að sagan er kennslu- eða mótunarsaga. Sagan tilheyrir áhrifasviði mannlífsins. Hún á sér hugsanlega sögulega stoð. Engu skiptir þó hvort svo er eða ekki, en þó hefur hún engu að síður merkingu fyrir raunverulegt líf. Við þurfum ekki að trúa, að vitringarnir hafi verið þrír eða tólf. Við þurfum ekki að vita hvort þeir voru frá Eþíópíu, Íran eða Kína. Við verðum ekki að trúa þessari sögu frekar en við erum neydd til að trúa Hamlet eða Njálu. En helgisögur hafa merkingu eins og aðrar mikilvægar sögur mannkyns. Helgisaga er ekki lygi heldur opnar möguleika í lífinu, varðar sannleik viskunnar. Hlutverk helgisagna – eins og annarra klassískra sagna og þmt skáldsagna – er ekki að lýsa staðreyndum eða segja nákvæma frétt á vefnum heldur segja segja sannleikann á dýptina, lýsa því sem er mikilvægt og hjálpa fólki við að lifa vel.

Að lúta barninu með vitringunum

Hin táknræna merking helgisögunnar um vitringana er m.a. að menn séu – og það á við okkur öll – ferðalangar í tíma. Lífsferð allra manna er lík langferð vitringanna til móts við barnið. Aðalmál lífs allra manna er að fara til fundar við Jesú. Okkar köllun eða hlutverk er að mæta honum og gefa það, sem er okkur mikilvægt, af okkur sjálfum, okkur sjálf – eins og vitringarnir – og snúa síðan til okkar heima með reynslu og lífsstefnu í veganesti.

Við erum frjáls að því að túlka þessa vitringa og helgisöguna að okkar hætti, en tilvera þeirra er eins og tilvera mín og þín. Þú ert í sporum eins þessara manna. Engin nauðsyn knýr að þú trúir að þeir hafi verið þrír eða tólf. Fjöldi þessara vitringa getur verið allur fjöldi allra manna á öllum öldum. Þín er vænst í hóp þeirra. Þú mátt vera þarna við hlið þeirra og með þeim.

Þegar þú íhugar og innlifast helgisögunni um vitringana er þín eigin saga endursköpuð. Þegar þú lýtur Jesú í lotningu – eins og þeir – breytist líf þitt með þeim. Helgisaga er utan við lífið og lygi – ef hún er skilin bókstaflega – en eflir lífið ef hún fær að tjá merkingu. Þegar þú viðurkennir mikilvægi þess að lúta barninu – veruleika Jesú Krists – verður þú einn af vitringunum. Þá verður lífið töfrandi – ekki bull eða lífsflótti – heldur undursamlegt. Helgisagan er til að efla fólk til lífs – skapa farveg fyrir heill og hamingju.

Hugleiðing við lok jóla.

Ásdís Jóhannesdóttir – minningarorð

Ásdís mynd 1b_ppÁsdís fór á bak hestinum. Vinkonur ætluðu í útreiðartúr. Svo lögðu þær af stað í góðviðri og sumarhita. Ásdís sat hestinn vel og alveg óþarfi að láta hann fara bara fetið. Grannur stúlkulíkaminn var léttur á baki, fingur héldu um taum og hestarnir fóru fljótt yfir, gangþýðir og viljugir – út tungurnar, alla leið út að Norðurá. Og svo fóru þær niður að ánni óhræddar. Þær þekktu Hábrekknavaðið og styttu sig ef áin næði upp á kvið hestanna. Svo fóru þær yfir, óttuðust ekki að falla í ána og svo upp á bakkann í Ytri-tungu og síðan alla leið heim til ömmu á Laxfossi. Þar var þeim vel tekið og bornar fyrir þær veitingar og gert við þær sem héraðshetjur.

Það er birta og yndisleiki í þessari mynd frá fjórða áratug tuttugustu aldar. Ásdís á ferð á heitum sumardegi, frjáls, fagnandi, skynug og meðvituð. Hún sá blómin, þekkti sögu umhverfisins, las landið, naut ferðarinnar, kunni að varast hættur, dró að sér ilm landsins og lyktina af heitum hestinum og gætti að sér að horfa ekki í struminn á vaðinu til að hana svimaði ekki. Svo heilsaði sínu fólki stefnuföst og frjálshuga. Það er gaman að gæla við þessa björtu ferðamynd og sjá í henni táknmynd um Ásdísarævina. Hún fór það sem hún vildi, var tengd gildum, sögu, landi og samhengi. Hún ræktaði tengslin við ættmenni og vinafólk, henni mátti alltaf treysta og hún stóð með lífinu.

Viturt hjarta

Matthías Jochumsson hreifst af nítugasta Davíðssálmi og orti út af þeim sálmi Lofsönginn árið 1874 sem síðar varð þjóðsöngur Íslendinga. Davíðssálmurinn er ljóð um mannlíf, samhengi og hlutverk mennskunnar í heiminum og er jafnan lesinn í kirkjum við áramót. Í fyrradag voru þessi orð lesin í kirkjum landsins og svo var þjóðsöngurinn víða sunginn í sömu athöfn, tvær útgáfur sama boðskapar. Í Davíðssálminum segir:

„Drottinn, þú hefur verið oss athvarf frá kyni til kyns.
Áður en fjöllin fæddust og jörðin og heimurinn urðu til,
frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.
Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins
og segir: „Hverfið aftur, þér mannanna börn.“
Því að þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn, já, eins og næturvaka.

Kenn oss að telja daga vora,
að vér megum öðlast viturt hjarta.“

Ævi manns er ekki aðeins það fæðast, að slíta barnsskóm, fara í skóla og sinna ástvinum og vinnuverkefnum lífsins – heldur hvað? Að lifa vel. Kynslóðir koma, kynslóðir fara – athvarf frá kyni til kyns. Börn fæðast og vaxa úr grasi, öðlast vit til sjálfsbjargar eða ná aldrei þroska. Og ívaf allrar sögu er: “Hverfið aftur þér mannanna börn.” Orðstír manna lifir vissulega, en allt mannlegt er sem grasið eða blómgróðurinn, sem lifnar – “hverfið aftur…” Hvað gerum við gagnvart því boði? Stöldrum við og biðjum bænina í þessu ljóði guðsmannsins Móse: “Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta?” Ásdís lifði vel og nýtti hæfni sína til að þroskast. Hún er þér fyrirmynd og til þroska.

Ævistiklur

Ásdís Jóhannesdóttir fæddist 21. október árið 1925. Foreldrar hennar voru Hildur Áslaug Snorradóttir og Jóhannes Jónsson. Áslaug var fædd á Laxfossi við Norðurá og Jóhannes á Hömrum í Þverárhlíð. Þeim Áslaugu og Jóhannesi varð tveggja barna auðið. Eldri var Snorri sem var liðlega þremur árum eldri en Ásdís. Þau Jóhannes og Áslaug bjuggu í Efranesi í æsku þeirra systkina, bjuggu góðu búi og voru dugmiklir og framsýnir bændur. Heimilið var rismikið menningarheimili. Jóhannes var gagnfræðingur frá Akureyri og hann var kennari í sinni sveit og kenndi einkum í skólahúsinu í Hlöðutúni.

Ásdís var efnisbarn, bráðskörp, fljót til bókar og bóksækinn. Jóhannes faðir hennar var umsjónarmaður lestrarfélagsins og sá um að bæta bókakost og lestrarefni sveitunga sinna. Ásdís hafði því þegar í bernsku góðan aðgang að bókum, hafði áhuga á þeim og inntaki þeirra og efni alla tíð. Hún lagði á sig að ná sér í bækur þegar komið var fram yfir svefntíma, lærði meira að segja að forðast brakandi gólffjalir þegar hún var að laumast í bækurnar seint á kvöldin.

Foreldrar Ásdísar kenndu henni og hún tók vel við. Þær mægður voru samstiga og Ásdís var alla tíð góð móður sinni. Pabbinn studdi og efldi dóttur sína til náms og kom vel til móts við námsgetu dóttur sinnar. Í foreldrahúsum lærði Ásdís strax að eitt eru gáfur og annað hvað menn gera úr. Lífshamingjan er áunninn. Þekkingu afla menn sér með því að nýta getu og gáfur og viskan er ávöxtur þekkingar, íhugunar – þroskuð úrvinnsla lífsefna, menningar og lífsreynslu. „Kenn oss að telja daga vora að vér megum öðlast viturt hjarta.“ Hlöðutúnsskólinn reyndist Ásdísi vel og þar var hún í fjögur ár eins og jafnaldrar hennar.

Reykholtsskóli var í héraðinu. Héraðsskólarnir voru íslensk útgáfa hinna norrænu lýðháskóla og Reykholtsskóli var lengi góð menntastofnun. Foreldrar Ásdísar vildu að hún nyti góðrar menntunar og sendu hana í Reykholt. Þar var hún í þrjú ár. Hún átti auðvelt með nám og henni leið vel með bækur á milli handa. Hún fór suður vel undirbúin og margfróð og fór í Kennarskólann og beint í annan bekk. Ásdís lauk kennaraprófi árið 1946 og var strax ráðinn kennari til hins merka Laugarnesskóla. Þar starfaði hún sem barnakennari alla starfstíð sína og þar til hún lét af störfum árið 1993. Hún kenndi því börnum í Laugarneshverfinu hátt í hálfa öld.

Kennarinn

Og hvað er það að kenna börnum? Er það að tryggja að börnin kunni lágmark í reikningi, draga til stafs og geta lesið skammlaust af bók? Mann- og menntunarafstaða Ásdísar var ríkulegri en svo. Jú, hún kom þeim börnum til manns sem henni voru falin. En hún gerði meira, hún leit eftir hvernig börnunum liði, hvort þau nytu stuðnings og væru vel nærð. Ef ekki vann hún umfram alla skyldu, leyfði þeim að koma í skólann snemma til að gefa þeim matarbita sem voru vannærð og hjálpa þeim sem þurftu stuðning. Ásdís kennari var ekki aðeins menntunarstjóri heldur iðkaði það sem í kristninni hefur verið kallaður kærleikur. Hún hafði augun á fólki sem henni var falið að efla, sá það sem á vantaði, greindi geðslag og möguleika, styrkti þau sem hún gat og nærði með því móti sem henni sýndist best. Ásdís var því nálæg nemendum sínum og tengdist þeim vel. Mörg þeirra höfðu samskipti við hana í mörg ár eða jafnvel áratugi. Ásdís á þökk fyrir allt hennar starf að kennslu og mannrækt unga fólksins í Laugarnesskóla. Og falleg og lýsandi er sagan um að einn nemandi hennar nefndi dóttur sína Ásdísi til heiðurs kennara sínum.

Heimilið

Jóhannes faðir Ásdísar brá búi og hætti kennslu um miðjan aldur vegna heilsubrests. Foreldrar Ásdísar fluttu til Reykjavíkur og héldu heimili með henni. Fyrstu árin bjuggu þau í Hlíðunum en síðan keyptu þau saman hæðina á Silfurteigi 2. Jóhannes lést árið 1953 og síðan bjuggu þær mægður saman og með góðri samvinnu næstu tíu ár en Áslaug lést árið 1963. Var Ásdís alla tíð afar natin og umhyggjusöm dóttir og sá um að foreldrum hennar og síðar móður liði vel og nyti alls sem hún þurfti og vildi.

Heimili Ásdísar er prýtt bókum. Þar eru eiginlega fallegri bækur en á heimilum okkar hinna því flestar þessar bækur eru í fallegu bandi og bera vitni menningarafstöðu og öguðu fegurðarskyni. Bókakosturinn er eins og á vænu bókasafni. Og fallegar myndir eru á veggjum, myndir af fólki og dýrum í fallegu náttúruumhverfi. Svo eru húsgögnin falleg og heimilið ber smekkvísum fagurkera vitni.

Eigindir og tengsl

Hvernig manstu Ásdísi? Jú í henni bjó skapfesta, mannúð og reglusemi. Hún var merk kona og heiðarleg. Hún umvafði fólkið sitt elskusemi og afkomendur Snorra nutu vel og þeirra fólk. Þau hafa líka á síðari árum verið vakandi fyrir velferð hennar og gengið erinda hennar. Þau endurgjalda því að Ásdís var alla tíð vakandi fyrir þeirra velferð. Umhyggjan verður best þegar hún er gagnvirk.

Hvað er efst í hug þér er þú kveður Ásdísi? Hún hafði vakandi áhuga á öllu því sem íslenskt er. Hún lagði rækt við íslenskan menningararf, las mikið og á mörgum sviðum, s.s. sagnfræði, ljóð, skáldsögur, þjóðlegan fróðleik, náttúrufræði, byggðasögu. Og svo fór hún um landið í menningar- og sögu-rannsóknarferðir. Eitt sinn skiptu vinkonurnar Þuríður og Ásdís landinu í þrjá hluta og luku yfirferð eins-þriðja á ári. Í þessu þriggja ára Íslandsverkefni fóru þær yfir margar ár, margar tungur og hálsa, skoðuðu fjöll og byggðir, lásu land og menningu – „…að vér megum öðlast viturt hjarta.“

Ferðarlok og upphaf annarar

Stúlkan sem sveiflaði sér upp á hest í Efranesi til að heimsækja ömmu fer ekki fleiri ferðir í þessum heimi. Engir litlir munnar fá mat eða nammi frá henni. Hún kennir ekki fleirum íslensku – hvorki í skóla eða símafjarkennslu. Ásdís fer ekki í fleiri rannsóknarferðir og fólkið hennar getur ekki lengur hringt í hana eða heimsótt hana. Bækurnar hennar eru eftir, myndirnar hennar og minningar um hana. Þær minningar má gæla við í huga og leyfa þeim að bera ávöxt í lífinu. „Kenn oss að telja daga vora að vér megum öðlast viturt hjarta.“

Í þessari útfararathöfn umlykja okkur textar Íslandsástar – textar um smávini í náttúru Íslands, litskrúðug blómin – söngvar um ást til heimahaga og hins ögrum skorna Íslands. Og svo eru það líka undursamlegir textar jóla: Fögur er foldin, um göngu pílagrímsins, fram um víða veröld. Og kynslóðir koma, kynslóðir fara. Nú eru bæði systkinin frá Efranesi farin inn í himininn, foreldrarnir líka. En boðskapurinn sem var fyrst fluttur fjárhirðum lifir enn, textarnir um frið á foldu eru enn sungnir. Fagna þú maður, frelsari heimsins fæddur er. Já, við getum efast en áfram lifir vonin um að lífið sé ekki bara leikur þessa heims heldur eigi tíminn sér fang í eilífðinni og dauðinn sé aðeins för yfir vað til landsins hinum megin – himneskar Stafholtstungur og uppsveitir eilífðar – þar sem amma er, afi líka, pabbi og mamma og öll þau sem við elskum. Það er boðskapur kristninnar sem við megum trúa – vonarboðskapur – boðskapur um lífið.

Guð geymi Ásdísi.

Guð geymi þig og blessi.

Amen.

Jarðsett í Kópavogskirkjugarði. Erfidrykkja á Silfurteigi 2.

Sigurður Árni Þórðarson, s@neskirkja.is og s@sigurdurarni.is

Heimasíða: www.sigurdurarni.is

Hamingjan er heimilisiðnaður

heimilisiðnaðurHvað skiptir máli í lífinu? Stór spurning í upphafi nýs árs. Hugsaðu þig um hvað þér er mikilvægt. Spurningin er ekki flókin en þó reynist mörgum snúið að svara henni. Að svara er þó þarft því það hefur áhrif á líf og getur orðið afgerandi um lífsgæði þín og hamingju. Hvað eitt er þér allra mikilvægast á þessu nýja ári? Hvernig gengur þér í einkalífinu? Og hvernig líður þér í vinnunni? Langar þig kannski að sækja á nýjar slóðir og gera eitthvað nýtt?[i] Ertu á krossgötum og þráir að breyta en ert ekki viss um hvort þú getur eða jafnvel þorir?

Ein af bókunum sem hefur verið uppi við á mínu heimili á liðnu ári er The Happinessproject – sem er bók um hvernig hægt er að vinna að hamingjunni og rækta hana.[ii] Þetta er bók fyrir þau sem vilja bæta og langar til að lifa vel. Meðal þess sem lagt er til er að fólk sé meðvitað um stefnu og setji sér markmið – ekki bara almenn markmið heldur sértæk. Flestir vita vel að hægt er að setja sér markmið til langs tíma og skilgreina síðan með hvað hætti hægt er að ná þeim markmiðum, setja niður skref og gæta þess síðan að taka þau. Að setja sér markmið til skamms tíma sem og lengri tíma er til góðs. Hin marksæknu ná alltaf árangri – ef ekki öllum markmiðum þá mikilvægum áföngum.

Hvað skiptir máli í lífinu? Til að svara þeirri stóru spurningu er líka hægt að leita í sjóð annarra, njóta hjálpar þeirra sem hafa þegar svarað. Líklega er blóðríkasti og áhrifaríkasti sjóðurinn – sem ganga má í – vitnisburður þeirra sem hafa ekki getað vikið sér undan að svara þessum spurningum. Og hver eru þau? Hin deyjandi, þau sem hafa verið við dauðans dyr og hafa haft tækifæri til að gera upp lífið og undirbúa hinstu för sína í þessum heimi.

Deyjandi en mest lifandi

Prestar eru oft kallaðir til fólks áður en dauðinn kemur. Mér hefur þótt það merkileg og lífshvetjandi reynsla að tala við hin deyjandi. Mörg hafa trúað mér fyrir dýpstu vonum og sorgum. Og það merkilega er að lífsþorsti þessa fólks er oft óbugaður. Mörg þeirra tjá svo djúpa lífsvisku að allt lifnar í návist þeirra. Deyjandi fólk er stundum best lifandi fólkið. Og tilfinningar þeirra, vonir, gildi og þrá geta veitt okkur hinum sjónarhól eða sjónarhorn sem getur hvatt og stutt okkur til lífs.

Meira af hverju?

Hvað ætli sé hinum deyjandi mikilvægast? Ég nefni fimm atriði sem gætu orðið þér til íhugunar þegar þú mótar stefnu þína á nýju ári.

1. Trú sjálfum sér

Í fyrsta lagi er deyjandi fólk sorgmætt yfir að hafa ekki verið trútt sjálfu sér, ekki staðið með eigin löngunum – heldur látið undan þrýstingi annarra – fremur reynt að uppfylla væntingar þeirra en að virða eigin þrá. Þegar fólk uppgötvar að lífinu er að ljúka minnka varnir, afsakanir verða tilgangslausar og brostnar vonir leita á með fullum þunga. Fólk spyr sig af hverju það fylgdi ekki ástríðu sinni, þrá, löngun og von? Og: „Af hverju lét ég aðra ráða en hlýddi ekki innri rödd, því sem ég hafði þörf fyrir, mínum innri manni?“

Er kannski verkefni þitt á nýu ári að virða innsæi þitt? Það er þitt og er mikilvægt. Það er kall þíns innri manns um lífshamingju og að þú standir með þér. Er það mikils virði?

2. Of mikið puð – of lítið líf

Í öðru lagi kemur stundum fram við lífslok samviskubit vegna vinnu og þrældóms. Mörg harma að hafa látið peninga ráða og ekki þorað að breyta til og gera það sem þau raunverulega langaði til. Þetta er stundum kallað gullhandjárn. Og þau halda mörgum föstum. Mörg syrgja að vinnan varð of tímafrek og tíminn sem fór í puðið var tekinn frá ástvinum, að fylgjast með börnunum vaxa úr grasi og kyssa og faðma maka sinn. Hvað setur þú í forgang á nýju ári og í lífinu? Viltu vera með fólkinu þínu? Og hvað gerir þér gott og veitir þér hamingu?

3. Að virða líka tilfinningar

Í þriðja lagi segja hin deyjandi að þau hefðu gjarnan viljað leyfa tilfinningum að blómstra. Kannski hefði mátt virða þær og tjá þær betur. Margir deyfa tilfinningar sínar og tjá þær ekki – til að særa ekki aðra eða halda friðinn. En allir ættu að skilja að bæla tilfinningar getur skaðað andlega heilsu, orðið meinvaldur og til tjóns. Við ráðum ekki hvernig fólk bregst við orðum okkar en hreinskilni er jafnan til góðs til lengdar og eflir þroskuð samskipti. Viltu gangast við þínum innri manni og taka mark á þér?

4. Vinirnir

Í fjórða lagi syrgja margir við lífslok að hafa ekki ræktað samband við vini betur. Vinna og verk hafa oft spillt góðum og gefandi tengslum svo fólk hefur í ati lífsins misst sjónar á þeim sem hafa verið þeim mikilvægir og viljað halda tengslum við. Fólk syrgir vini við æfilok. Það er fólk sem skiptir máli við lífslok en ekki hlutir, fjármunir eða vegtyllur. Hvað þykir þér um slíkar fréttir?

5. Hamingjan

Og í fimmta lagi syrgja margir að hafa ekki leyft sér meiri lífshamingju og hamingjusamara líf. Þegar dauðinn nálgast dagar oft á fólk að hamingja er ekki slys eða tilviljun heldur afrakstur ákvörðunar og stefnu. Hamingjan er ákveðin og raunar ávöxtur ákvörðunar. Hamingjan er meðvitaður heimilisiðnaður. Hvað aðrir segja, gera eða hugsa tryggir fólki ekki lífsfyllingu heldur það sem fólk ákveður sjálft með góðri sjálfsþekkingu og yfirvegun. Lífið er val og þitt er valið hvort þú velur hamingjuna eða eitthvað annað.

Kenn oss að telja daga vora

Í nótt var annar drengurinn minn – átta ára – yfirkominn af tímaöng, eftirsjá yfir að gamla árið væri farið og kæmi aldrei til baka. Hann var harmþrunginn yfir að gleðitími væri farinn og aldrei væri hægt að lifa hann aftur. Foreldrarnir tóku drenginn í fangið til að tala um möguleika lífsins. Og þá er gott að geta minnt á að amma drengsins lagði upp úr að nýársdagur væri hvítur dagur, dúkaði borð með hvítu, keypti hvít blóm til að tákna að dagurinn væri upphaf nýs og óspjallaðs tíma. Og þessa gætum við á mínu heimili og mörg ykkar líka. Til hvers? Til að minna á og innlifast að hið liðna er liðið.

Nýr tími merkir að við erum öll frjáls – þú líka ef þú vilt. Hvað bindur þinn hug og líf? Hvað langar þig og hvað ætlar þú að gera við tíma þinn, við eigið sjálf og við líkama þinn? Hvernig viltu nota tíma nýs árs – í vinnu, í einkalífi og í samskiptum.

Skáldið og vitringurinn sem samdi lexíu dagsins, nítugasta Davíðssálm, biður til Guðs: „Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.“ Það er verkefni okkar allra. Viturt hjarta – fyrir líf og dauða, fyrir gleðistundir og hörmungartíma, stefna hamingjunnar. Nú er framundan nýr tími, algerlega ómengaður og hreinn tími. Þú mátt velja lífið og lífsgæðin.

Ertu við stjórnvöl eigin lífs eða ertu jafnvel bara farþegi? Viltu móta stefnuna, vera við stýrið? Varðandi framtíðina máttu gjarnan spyrja þig: Af hverju viltu verða stoltust eða stoltastur?

Nýr tími, nýtt ár. Engir aðrir en þú eiga að ákveða stefnu þína á nýju ári. Þarftu að stilla kompásinn að nýju? Guð hefur sent þér verkfærakistu til að vinna verkin, vit til að greina úrræðin og mátt sinn til að þú lýjist ekki. Og Guð hefur skapað tímann og þig svo listilega að það er gerlegt. „Kenn oss að telja daga vora að vér megum öðlast viturt hjarta.“

Amen.

Íhugun í Neskirkju á nýársdegi 2014.

Lexía Sl 90.1-4, 12

Bæn guðsmannsins Móse.
Drottinn, þú hefur verið oss athvarf frá kyni til kyns.
Áður en fjöllin fæddust og jörðin og heimurinn urðu til,
frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.
Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins
og segir: „Hverfið aftur, þér mannanna börn.“
Því að þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn, já, eins og næturvaka.

Kenn oss að telja daga vora,
að vér megum öðlast viturt hjarta.