Í ofsa og ógn

Páll og strandHvað tekur kórfélagi með sér í upphitun fyrir messu? Í morgun sá ég að einn tók með sér bangsann sinn. Það hef ég ekki séð fyrr! En þau sem syngja í Neskirkju í dag eru ung að árum – sum mjög ung. Tveir barnakórar syngja, annar er Barnakór Neskirkju en hinn er frá Friðriksbergskirkjunni í miðborg Kaupmannahafnar. Danski kórinn er komin hingað vegna þess að Selma bjó einu sinni á Tómasarhaga og mikill samgangur var milli hennar fjölskyldu og minnar. En nú býr hún og fjölskylda hennar í Kaupmannahöfn og Selma syngur í Fredriksbergkirke Juniorkor. Þegar við, fjölskylda mín, vorum á ferð í Kaupmannahöfn, var okkur boðið að hlusta á kórinn syngja í kirkjunni. Þá kviknaði hugmyndin að hópurinn heimsækti Ísland. Nú eru þau komin, gista í kjallara Neskirkju, syngja í messu og á nokkrum stöðum höfuðborgarsvæðinu. Þau syngja um lífið, eilífðina og fegurðina. Bangsinn fær að vera með – á æfingu – og okkar eigin kór svarar með söngvum af sama tagi.

Það er dásamlegt að söngvar unga fólksins – raddir framtíðar – hljómi á sjómannadegi eftir kosningar – söngur um líf og von. Lítil stúlka með bangsann sinn á leið inn í kirkju er tákn um mannkyn í þörf fyrir öryggi. Dramatískir biblíutextar dagsins minna á að í lífi er Guð er alltaf nærri.

Guð – líka á kantinum

Í pistli sjómannadagsins er sagt frá viðburðaríkri ferð Páls postula. Hann var á ferð við eyjuna Krít. Hann hafði reyndar illan bifur á íbúum hennar. Fram kemur t.d. í fyrra bréfi hans til Tímótesuar þessi óskaplega umsögn: „Krítarmenn eru síljúgandi, óargadýr og letimagar!“ Og gott fólk – þetta stendur í Biblíunni! En Páll átti ekki sökótt við Kríteyinga í þetta sinn. Hann var fangi Rómverja og um borð í rómversku skipi. Páll var vanur að fara beint á torgin til að tala um Jesú Krist, mesta kraftaverk heimsins. Þess vegna var honum oft kastað í fangelsi. Enn á ný var hann dreginn fyrir dóm, en vegna stöðu sinnar sem rómverskur borgari átti að senda hann til Rómar. Veðurofsi skall á, magnaður af krítverskum snæfjöllum. Allt virtist stefna á versta veg. En Páll var draumamaður, svefnmyndirnar voru farvegur í boðmiðlun milli himins og hans. Hann hóf upp raust sína að morgni, talaði spádóms- og huggunarorð, talaði kjark í áhöfn og lagði til góð ráð og stefnu. Mark var tekið á orðum hans og því fórst enginn þegar skipið strandaði.

Þessi magnþrungna saga í 27. og 28. kafla Postulasögunnar er merkileg og inntaksrík. Þetta er lítil saga af stóru skipi, fjölmennri áhöfn og úr öllum heimshornum hins þekkta heims þeirrar tíðar. Skip á siglingu frá útkjálka og á leið til miðjunnar í Róm. Sagan er smámynd um stóran heim. Í hættunni hljómar boðskapurinn um björgun.

Hver biblíutexti á sér eigin rök og eigin merkingu. En síðan hefur hver lesari möguleika á að lesa með nýjum augum, frá öðrum sjónarhól, með nýjum gleraugum, ekki til að afskræma merkingu textans, heldur til að nýta hann til andlegs fóðurs. Biblíutextar eru máltíð með dásamlegum desert – bónus til lífs. Hægt er að sjá í mynd Páls kristniboðann, sem má verða okkur fyrirmynd um siðferðisstyrk og siðvit. Hann er fordæmi um samskipti kristins manns og samfélagsábyrgð. En við getum dregið lærdóminn lengra og séð allan heim speglast í þessu sögulega og biblíulega sjávarlöðri.

Einstaklingar og samfélög lenda í raunum. Enginn maður hefur lifað án átaka. Í sögunni um Pál kemur fram að í sjávarháskanum hafi mönnum fyrst dottið í hug að drepa fangana. En það er þó einn fanganna sem sér lausnina, leysir vandann og talar máli lífsins. Þannig er það oft. Í háska bregðast valdsmenn oft og björgun verður með óvæntu móti – að neðan. Í sögu dagsins – pistlinum – eru það fangarnir sem bjarga þeim sem gæta þeirra. Þannig starfar Guð gjarnan. Guð starfar ekki aðeins með viðurkenndum lögum og kerfistækni heldur opnar lífið, hjálpar með óvæntu móti og með hjálp hinna vanmetnu. Guð er líka neðst, á kantinum og meðal hinna fyrirlitnu. Hjálpin er að handan og verður til góðs ef menn opna í auðmýkt og virða heilagleika fólks og lífs. Sagan er þrungin merkingu og er til íhugunar.

Sjórinn

Já, í dag er sjómannadagur – merkilegur dagur sem minnir okkur á upphaf okkar Íslendinga, lífsbaráttu fólksins okkar og þjóðar. Við erum flest komin af sjósóknurum. Sjávarútvegur hefur verið Íslendingum mikilvægur og mun verða meðan menn spilla ekki lífríkinu. Hafið gaf og hafið tók – fæstar þjóðir í veröldinni hafa tapað eins mörgum hlutfallslega í stríðum og Íslendingar í glímunni við sjóinn. Neskirkjuglugginn – Stóribláinn – sem varpar lit á kórvegginn á sólardögum minnir á lífsbaráttu fólk við sjávarsíðuna, sjósóknina, lífsbjörgina og stóran himinn sem umlykur allt, allan heiminn og lífið.

Úrslitin

Svo er þetta dagurinn eftir kosningar. Margir hafa stundað atkvæðaveiðar síðustu vikurnar, reynt að skýra mál sín til að afla atkvæða til stuðnings. Stjórnmál er ein tegund útgerðar. Pólitíkin er mikilvæg og á að þjóna því göfuga markmiði að stýra málum samfélags til réttlætis og farsældar. Nú er dómur fallinn – hvort sem hann hugnast mönnum eða ekki. Síðan er að vinna úr og stýra vel og vinna úr aflanum til lífs.

Skip kirkjunnar

Í kirkjum eru oft skipstákn og við tölum um kirkjuskip. Í mörgum kirkjum heimsins eru skip hengd upp til að minna á að við erum fólk á ferð, við erum á siglingu frá tíma og inn í eilífð. Við erum á ferð – með bangsann okkar – þrána eftir öryggi og blessun sem Guð einn getur í raun gefið. Jesús Kristur lét sig fólk varða, kallaði til lífs og gleði og lofaði að vera með hvað sem kæmi fyrir. Pólitík, óveður, sjómennska, söngur og samskipti eru mál sem varða Guð. Hann vill vera með og býður alltaf til veislu.

Þegar Páll lenti í sjávarháska við Krít bauð hann til máltíðar, gerði sjálfur þakkir og braut brauðið. Þekkir þú orðalagið – þekkir þú aðferðina og gjöfina? Og þá erum við í skyndi komin heim, að altarinu, að borði Drottins, hingað. Við erum komin með þrá okkar um velferð, vináttu og öryggi. Um allan heim brjóta menn brauð, í snarvitlausu umhverfi, óskaplegum aðstæðum – undir góðri stjórn eða vondri og tjá með þessari táknathöfn að Guð kemur til manna, blessar og bjargar.

Textaröð: A

Lexía: Slm 107.1-2, 20-31

Þakkið Drottni því að hann er góður,
 því að miskunn hans varir að eilífu.
 Svo skulu hinir endurleystu Drottins segja,
 þeir er hann hefur leyst úr nauðum sendi orð sitt og læknaði þá
og bjargaði þeim frá gröfinni. 
Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans 
og dásemdarverk hans við mannanna börn,
 færa honum þakkarfórnir
og segja frá verkum hans með fögnuði. 
Þeir sem fóru um hafið á skipum 
og ráku verslun á hinum miklu höfum
 sáu verk Drottins 
og dásemdarverk hans á djúpinu.
 Því að hann bauð og þá kom stormviðri 
sem hóf upp öldur hafsins. 
Þeir hófust til himins, hnigu í djúpið,
 og þeim féllst hugur í háskanum. 
Þeir skjögruðu og reikuðu eins og drukkinn maður 
og kunnátta þeirra kom að engu haldi. 
Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni
 og hann bjargaði þeim úr þrengingum þeirra.
 Hann breytti storminum í blíðan blæ 
og öldur hafsins lægði. 
Þeir glöddust þegar þær kyrrðust 
og hann leiddi þá til þeirrar hafnar sem þeir þráðu.
 Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans 
og dásemdarverk hans við mannanna börn,

Pistill: Post 27.13-15, 20-25


Nú rann á hægur sunnanvindur. Hugðust þeir þá hafa ráð þetta í hendi sér, léttu akkerum og sigldu fram með Krít nærri landi. En áður en langt leið skall á af landi ofan fárviðri, hinn illræmdi landnyrðingur. Skipið hrakti og varð því ekki beitt upp í vindinn. Slógum við undan og létum reka.

Dögum saman sá hvorki til sólar né stjarna og ekkert lát varð á ofviðrinu. Tók þá að þrjóta öll von um að við kæmumst af. 
Nú höfðu menn lengi einskis matar neytt. Þá stóð Páll upp meðal þeirra og mælti: „Góðir menn, þið hefðuð átt að hlíta mínu ráði og leggja ekki út frá Krít. Þá hefðuð þið komist hjá hrakningum þessum og tjóni. En nú hvet ég ykkur til að vera vonglaðir því enginn ykkar mun lífi týna en skipið mun farast. Því að á þessari nóttu stóð hjá mér engill þess Guðs sem ég heyri til og þjóna og mælti: Óttast þú eigi, Páll, fyrir keisarann átt þú að koma. Guð hefur gefið þér alla þá sem þér eru samskipa. Verið því vonglaðir, góðir menn. Ég treysti Guði, að svo muni fara sem við mig hefur verið mælt.

Guðspjall: Matt 8.23-27


Nú fór Jesús í bátinn og lærisveinar hans fylgdu honum. Þá gerði svo mikið veður á vatninu að bylgjurnar gengu yfir bátinn. En Jesús svaf. Þeir fara til, vekja hann og segja: „Drottinn, bjarga okkur, við förumst.“
Hann sagði við þá: „Hví eruð þið hræddir, þið trúlitlir?“ Síðan reis hann upp, hastaði á vindinn og vatnið og varð stillilogn.
Mennirnir undruðust og sögðu: „Hvílíkur maður er þetta? Jafnvel vindar og vatn hlýða honum.“

Uppstigning

Einu sinni var ungur og reynslulítill prestur beðinn að prédika í messu. Venjan í kirkjudeild hans var að prédika blaðalaust. Klerkur steig í stólinn en var varla byrjaður á ræðunni þegar hann fór á taugum og mundi ekki hvað hann ætlaði eða átti að segja næst. Í guðfræðináminu hafði hann lært að ef minnið brysti væri gott að endurtaka síðustu setninguna meðan hann væri að rifja upp eða ákveða framhaldið – rétt eins og pólitíkusar gera oft í ræðustól. Klerkur nýtti sér trikkið og sagði með þunga það síðasta sem hann hafði áður sagt: “Sjá, ég kem fljótt!” En ræðuframhaldið kom ekki – hvorki í hug né munn. Aftur endurtók hann og með enn meiri þunga: „Sjá, ég kem fljótt.“ Og ekkert kom hvorki fljótt né seint. Síðan í þriðja sinn og þá með því að baða út höndum, berja í stólinn og halla sér fram með þunga: „Sjá, ég kem fljótt.“ Ekki vildi betur til en svo, að prédikunarstóllinn gaf eftir – hliðin datt niður og prédikarinn steyptist fram af og í fangið á konu, sem sat á fremsta bekk, horfði á prest og hlustaði í ofvæni en átti sér einskis ills von. Klerkur var skiljanlega í öngum sínum vegna þessa skyndilega falls síns, hafði áhyggjur af konunni og stundi upp: „Fyrirgefðu.“ “Já auðvitað, sagði konan þegar hún hafði náð sér og bætti við. “Ég hefði auðvitað átt að vera búin að koma mér í burtu. Þú varst nú búinn segja þrisvar sinnum að þú værir að koma!”

Tilgangur lífsins

Í dag er uppstigningardagur, hátíð 40 dögum eftir páska og tíu dögum fyrir hvítasunnu. 50 gleðidagar. Á þessum hátíðatíma eftir páska er minnt á gildi lífsins. Hvaða leið förum við? Fyrir hvað lifum við og í krafti hvers? Hver er tilgangurinn?

Mér hefur alla æfi þótt vænt um þetta orð tilgangur. Það er samsett úr til og gangur. Og gangurinn varðar hreyfingu, ferðalag og svo er forliðurinn um stefnu. Orðið er gegnsætt og ljóst. Tilgangur – gangur til einhvers. Það felur í sér að stefnt sé eitthvað, gengið í áttina að einhverju, einhverju markmiði. Í hvaða átt stefna menn? Í hvaða átt stefnir þú? Þitt hlutverk er ekki að hrapa niður og ofan á aðra mannveru.

Uppstigningardagur hefur í seinni tíð hefur orðið dagur aldraðra í kirkjunni. Það er gott og mikilvægt að taka frá daga til að lyfta sérstaklega upp kjörum, lífi og verkefnum. Á uppstigningardegi er gott fyrir alla aldurshópa að íhuga lífið almennt og í hverju það er fólgið. Við megum gjarnan fínstilla okkur hið innra og ígrunda fyrir hvað við lifum – hver sé tilgangur okkar. Hver er tilgangur þinn?

Ég fagna hverju árinu sem við bætist við æfi mína. Það er gjöf og gleðiefni að vakna til nýs dags. Hver tíð færir ný verkefni og tækifæri. Raunar sannfærðist ég snemma að það væri eftirsóknarvert að eldast. Þegar ég var barn þótti mér augljóst að með tímanum yrði ég lífsreyndari og vitrari. Lærdómstími ævin er. Ég held að við séum stöðugt að læra. Sonur minn sagði þegar hann var lítill: „Pabbi þú verður að vera duglegur að kenna mér því ég er svo nýkominn!“ En við erum alla ævi nýkomin, alltaf í nýjum aðstæðum og upplifum eitthvað nýtt og bregðumst við nýjungum.

Auðvitað hef ég – eins og við öll – uppgötvað að viskan staflast ekki upp hið innra af sjálfri sér. Lífið er köflótt, oft flókið og erfitt – en alltaf opið og veitir tækifæri til góðs og vaxtar. Mér var innrætt strax í bernsku þessi frumafstaða að fagna dögum og árum sem opnum veruleika. Ég aðhyllist róttækt frelsi en ekki niðurnjörvað líf og einhver skipuleggi líf okkar eins og við værum dúkkur í leikhúsi einhverra yfirskilvitlegra stjórnenda. Vissulega hafa erfðir og aðstæður áhrif – en þitt er valið. Það er okkar ábyrgðarmál að bregðast við lífinu. Við megum velja hvort við tökum lífinu og vekefnum þess með jákvæðum og skapandi hætti – eða ekki. Við getum valið að  verða til góðs, þjóna öðrum og fara mjúklega með ungt og viðkvæmt líf. Þú velur lífssýn og lífsafstöðu.

Móðir mín sagði gjarnan að það erfiðasta við að eldast væri að sjá á bak vinum sínum og fólkinu sínu. Missir er fylgifiskur þess að eldast. Þegar okkur er gefið að lifa lengi tapast okkur fólk og eiginleikar – alltaf fleiri og fleiri sem maður sér hverfa í gröf heims og himinn Guðs. Og ef það eru ekki vinir sem hverfa – þá heyrn, snerpa, tilfinning, geta til þess eða hins. Sigurbjörn Einarsson sagði eitt sinn við mig með gáska í augum að heyrnin hans væri farin á undan honum til Guðs. Það er eftirbreytniverð afstaða til missis. Ég finn hvernig næmni fingugóma minna breytist, eyru mín hafa tekið upp á að bjóða ekki lengur ákveðið tíðnisvið – svo þau hljóð mega eiga sig sjálf! Við breytumst öll. Líkamar okkar verða eftir sjö eða átta ár aðrir en þeir eru nú. Þá verður ekkert eftir af efnum sem við höfum í okkur núna. Fyrir nokkrum árum var ekkert í þér af því efni sem er í dag. Aðeins hið andlega samhengi, minningarnar, varðveita samhengi þitt. Hver ertu og til hvers?
Á hvaða ferð ertu? Hvað ertu?

Lífið – ferðalag

Dr. Haraldur Matthíasson á Laugarvatni var hnittinn og líkti lífinu við ökuferð: „Þegar ég var ungur sat ég og horfði út um framrúðuna. Síðar – um miðjan aldur horfði ég út um hliðarrúðurnar. Þegar ég er orðinn gamall horfi ég út um afturrúðuna og hraðinn er ótrúlega mikill.”

Þetta er mikilvæg íhugun. Við skyldum hugsa um í hvaða átt við horfum? Hvert við stefnum stýrir svo mörgu í skynjun, lifun okkar og viðbrögðum. Börnum þykir hægt ganga og horfa fram á veginn og lítt miða. Þegar þú varst barn beiðstu eftir því að eldast? Var ekki óþreyjan í hjarta og eftirvæntingin óþolinmóð? Alltof mörg börn flýta sér svo að fullorðnast að þau ná aldrei fullkomnum þroska. Að verða fullorðinn krefst tíma, að byggja upp þroska krefst næðis og úrvinnslu.

Þegar þú eltist varð meira jafnvægi og þú gast horft út um hliðarrúðurnar. Á miðjum aldri þegar horft er til hliða sýnist fólki hraðinn talsverður og hratt farið hjá ýmsu merkilegu, sem óðar er að baki.

Afstaða og tími

Horfir þú fram á veginn eða ertu farin að líta út um hliðarrúðurnar í lífinu? Eða ertu búin að snúa alveg til baka, og horfir á lífið þeytast inn í fortíðina og þykir óþægilegt af hverju allt verður svona hraðfleygt en þú hægur eða hæg.

Heilar þjóðir geta litið aftur, þegar þær harma glæsta fortíð sína. Þannig voru Ísraelsmenn til forna, þannig voru Íslendingar fram á tuttugustu öld. En síðan sneru ísraelskir spámenn fortíðar ásjónum sínum og landa sinna frá þátíð og fram á veginn.

Í þessu er viskumál fólgið. Það er mikilvægt að snúa ekki bara aftur í lífinu, heldur njóta þess sem gerist í umhverfi okkar, upplifa hin sem eru á leiðinni og eru samfylgdarfólk, vera næm og glöð gagnvart litum og viðburðum daganna. Og við megum gjarnan opna gagnvart framtíð og möguleikum hennar. Hersu gömul sem við verðum eigum við alltaf framtíð. Trúin gefur þá sýn og vídd. Lúther minnti gjarnan á að hann myndi sá til eplatrés jafnvel þótt hann vissi að heimsendir yrði á morgun! Ég á orðið meira en tug eplatrjáa – ekki af því ég haldi að veröld sé komin að lokum heldur vegna gleðinnar yfir lífinu sem Guð gefur í heiminum.

Blessunin í lífinu

Lítil bók hefur verið ein af sölubókum síðustu ára. Hún heitir Bæn Jabezar. Þar er íhugunarsaga af manni nokkrum sem dó, fór til himna og hitti Pétur postula, sem fór með hann í skoðunarferð um himininn. Þeir komu að risastóru húsi, sem Pétur ætlaði að fara framhjá. „Hvaða hús er þetta?“ spurði hinn nýkomni. Pétur reyndi að draga athyglina að öðru. Vegna þrábeiðni hins nýlátna gaf Pétur að lokum undan og opnaði dyrnar inn í mikla hvelfingu. Inni voru sem næst endalausar raðir af hvítum kössum, sem bundið var um með rauðum böndum. „Hvað er þetta?“ spurði maðurinn. Hann sá að allir kassarnir voru merktir einstaklingum og spurði: „Er kannski einn merktur mér?“ Svo þaut hann að stað og fann eftir nokkra leit sinn kassa, reif af honum rauða bandið og kveinaði svo þegar hann gerði sér grein fyrir innihaldinu. Í kassanum voru allar gjafirnar og dýrmætin, sem Guð hafði ætlað að gefa honum meðan hann var á jörðinni, en honum hafði aldrei hugkvæmst eða gefið sér tóm til að biðja Guð um hvað þá að taka við.

Hvert horfir þú í lífinu? Um hvað biður þú? Hver eru gildi þín? Má bjóða þér að opna og öðlast hin mestu og bestu gæði? Þau gæði varða bæði fortíð, nútíð og framtíð. Í því ríkidæmi er líka eilfífðin.

Amen

Uppstigningardagur 2014 – Hugleiðing í Neskirkju 29. maí, 2014.

Hallgrímur í lit

HP3 2Hver er þjóðardýrlingur Íslendinga? Skáldpresturinn Hallgrímur Pétursson fengi eflaust flest atkvæðin ef kosið væri. Hann hefur jafnvel verið kallaður fimmti guðspjallamaður Íslands. Myndin af Hallgrími er sem íkón Íslandskristninnar. En hvað tjáir hún? Hann brosir ekki, er sorglegur og svartklæddur. Hæfir þjóðardýrlingi að vera bara í svart-hvítu?

Fagnaðarerindi?

Í bernsku þótti mér kristindómurinn skrítinn á föstunni fyrir páska. Passíusálmarnir hafa verið sungnir eða lesnir á þessum tíma í meira en þrjár aldir. Þeir segja passíu – píslarsögu Jesú og túlka merkingu hennar. Sálmarnir og íhugun tímans færðu drunga yfir trúarlíf, mannlíf og kirkjuhús. Það var eins og trúin væri í fjötrum. Af hverju öll þessi pína og jafnvel kæfandi drungi? Ég spurði mig stundum: Getur sorgarerindi verið fagnaðarerindi? Eru Passíusálmarnir bara um pínu, þjáningu og sorg? Hver er gleðifréttin?

Þjáningin

Fjögur hundruð ár eru frá fæðingu Hallgríms Péturssonar og ráð að spyrja á þessum tímamótum: Hentar helgimyndin af Hallgrími nútímafólki? Er Hallgrímur of einhæfur þjóðardýrlingur? Hvaða afmælisgjöf gætum við gefið honum?

Ímynd Hallgríms Péturssonar er of dimm. Sjónum hefur um of verið beint að hörmulegum þáttum í lífi hans. Visslega lenti hann í klandri. Örgeðja unglingurinn átti líklega í útistöðum við heimamenn á Hólum þar sem hann var um tíma. Hann klúðraði málum af því hann varð ástfangin af og tengdist giftri konu. Þar með hvarf draumurinn um nám og frama. Hann sá á eftir börnum sínum og annarra í gröfina. Svo rotnaði hann lifandi sem holdsveikur maður.

Allt í plús

Er sorgarsvipur og svört hempa allt sem einkennir Hallgrím? Nei, hann var í lit og kunni örugglega að skellihlæja og strjúka blítt. Hallgrímur var skemmtilegur, klár, fjölhæfur, húmoristi og vel menntaður eldhugi. Hann var laghentur, natinn og líklega góður pabbi. Þau, sem hafa lesið kveðskap hans, geta ímyndað sér líflegan og ævintýralegan mann.

Píslarmaðurinn var líka elskhugi, ræðujöfur, sem talaði stórkostlega, bunaði úr sér skemmtilegheitum, var góður granni, slyngur félagsmálamaður og eftirlæti allra sem kynntust honum. Hallgrímur var allur í plús. Hann var sjarmerandi góðmenni, hrífandi stórmenni og magnaður listamaður. Nútímakarlafræði sér í honum „súperkall.“

Það eru fordómar manna sem hafa skapað hina svörtu mynd af skáldprestinum. Þeir hafa – að mínu viti – varpað yfir á Hallgrím og mynd hans sorg sinni, eigin þjáningu og vansælu. Við megum gjarnan frelsa Hallgrím úr fangelsi harmkvælanna. Það væri góð afmælisgjöf.

Líf en ekki dauði

Í Passíusálmunum fimmtíu er Jesús í hlutverki himinkóngs, sem kom til að þjóna. Það er ekki dauðinn, sem er hvati og frumvaldur í lífsskoðun Passíusálmana, heldur ástin. Jesús kom ekki til að deyða heldur leysa menn og heim til lífs, frelsa frá vonleysi og þjáningu. Erindi sálmanna er ekki dauði heldur líf. Ekki uppgjöf gagnvart hinu illa heldur sigur. Þeir boða Guð, sem kemur og fer á undan fólki um lífsdalinn. Sá Guð er tengdur og elskar.

Passíusálmar eru ekki masókistísk bók um myrka trúarafstöðu. Saga þeirra er góð og um líf, þrátt fyrir þjáningu. Sálmarnir eru ástarsaga, margþætt og bjartsýn saga um afstöðu Guðs og raunhæfar aðgerðir. Í orðahafi Passíusálmanna er grunnstefið að Guð elskar, Jesús elskar alla menn – okkur. Það er fagnaðarerindið. Jesús er ástmögur sem tjáir að lífið er elskulegt og að eftir dauða kemur líf. Hallgrímur var vinur og aðdáandi þess Jesú Krists sem kveikir það líf.

Hvernig er kristin trú? Er hún gleðileg – fagnaðarerindi?  Hallgrímshelgimyndin í sauðalitunum er of dapurleg. Þjóðardýrlingurinn Hallgrímur má brosa. Þannig íkon hæfir Íslandskristninni. Besta afmælisgjöfin er Hallgrímur í lit.

Til starfa á kirkjuþingi?

kirkjuthingsbjalla-100x100Brátt verður kosið til kirkjuþings. Ég býð mig fram til þjónustu á þinginu næstu fjögur ár, en ég mun ekki óska endurkjörs að fjórum árum liðnum. Ég hef verið kirkjuþingsfulltrúi djákna og presta í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra í fjögur ár. Átta ár á kirkjuþingi er að mínu viti hæfilegur tími!

Verði ég kjörinn nú mun ég einnig bjóða mig fram til starfa í kirkjuráði, enda varamaður í ráðinu. Enginn vígður kirkjuþingsfulltrúi af suðvesturhorninu er nú í kirkjuráði sem er óheppilegt. Við kjör í kirkjuráð n.k. nóvember verður að gæta hagsmuna þéttbýlissvæðis okkar og að vígðir úr okkar kjördæmi verði kosnir í kirkjuráð.

Á liðnu kjörtímabili hef ég lagt fram margar tillögur að starfsreglum, verið virkur í störfum þingsins og gætt hagsmuna kirkju og kristni. Framundan er spennandi val til þings sem hefur mest vald í stjórn þjóðkirkjunnar.

Hvað er ferming?

Ég fermdist í Neskirkju haustið 1966. Við systkinin erum tvö og stutt á milli okkar. Ákveðið var að hafa eina fermingu og eina veislu. Systir mín er eldri og hún seinkaði sinni fermingu og ég fermdist hálfu ári á undan jafnöldrum mínum, var bara 12 ára. Við systkinin mættumt á miðri leið og vorum fermd 23. október. Ég sótti því fermingarfræðslu með krökkum á undan mér í aldri og þótti skemmtilegt að kynnast þeim. Þau komu úr Hagaskóla en ég úr Melaskóla. Sr. Frank M. Halldórsson lauk upp víddum trúarinnar. Við lærðum fjölda sálma, Biblíuvers og fræði Lúthers og vorum ágætlega undirbúin.

fermingEn til hvers að fermast? Ég hafði heyrt að orðið ferming væri þýðing á latneska orðinu confirmatio sem kæmi svo fram í ýmsum tungumálum, confirmation á ensku, konfirmation á germönskum málum. Og merking orðanna væri að staðfesta. Já, auðvitað – ferming væri komið af firmatio og merkti að skírnin væri staðfest. Svo var ég spurður um hvort ég vildi leitast við að hafa Jesú Krist að leiðtoga lífsins. Ekkert er sjálfgefið – hvorki í trúarlegum efnum né öðru. Já með vörum og í fylgsnum hugans þarf að fara saman. Það er æviverkefni að orð og afstaða séu eitt. Fermingarungmenni nútímans spyrja líka gagnrýninna spurninga og skoða trúarmálin með opnum huga. Þau eru raunverulega að glíma við Guð og mennsku sína.

Er ferming? Er það að fermingarungmenni segi já? Þegar ég var tólf ára í kirkjunni vissi ég að trú er ekki einhliða mál. Samband Guðs og manna er tvíhliða. Já á jörðu verður hjáróma ef ekki er mótsvar í himnesku já-i. Í fermingunni hljóma ekki aðeins já fermingarbarna heldur já, já, já Guðs. Guð staðfestir skírnina, líf barnsins, bænirnar og óskir. Við erum oft með hugann við mannheima en gleymum guðsvíddinni. Mesta undrið í fermingunni er sama undrið og í skírninni. Guð gefur lífið og lofar að vera alltaf nærri. Guð svarar fermingarspurningunni ekki aðeins með fermingaryfirlýsingu: „Vertu trú(r) allt til dauða, og ég mun gefa þér kórónu lífsins.“ Guð svarar með því að gefa allt sem við þurfum til að lifa vel og með hamingju. Hvað er ferming? Já á jörðu og já á himni hljóma saman. Fermingarungmenni staðfesta lífið sem Guð gefur, staðfestir og viðheldur.

Og nú hlakka ég til allra ferminganna framundan. Ég hlakka til að heyra áttatíu já í kirkjunni og við megum hlakka til allra jáyrðanna í kirkjum þjóðarinnar á næstu vikum. Ferming er já fyrir lífið.