Hallgrímur í lit

HP3 2Hver er þjóðardýrlingur Íslendinga? Skáldpresturinn Hallgrímur Pétursson fengi eflaust flest atkvæðin ef kosið væri. Hann hefur jafnvel verið kallaður fimmti guðspjallamaður Íslands. Myndin af Hallgrími er sem íkón Íslandskristninnar. En hvað tjáir hún? Hann brosir ekki, er sorglegur og svartklæddur. Hæfir þjóðardýrlingi að vera bara í svart-hvítu?

Fagnaðarerindi?

Í bernsku þótti mér kristindómurinn skrítinn á föstunni fyrir páska. Passíusálmarnir hafa verið sungnir eða lesnir á þessum tíma í meira en þrjár aldir. Þeir segja passíu – píslarsögu Jesú og túlka merkingu hennar. Sálmarnir og íhugun tímans færðu drunga yfir trúarlíf, mannlíf og kirkjuhús. Það var eins og trúin væri í fjötrum. Af hverju öll þessi pína og jafnvel kæfandi drungi? Ég spurði mig stundum: Getur sorgarerindi verið fagnaðarerindi? Eru Passíusálmarnir bara um pínu, þjáningu og sorg? Hver er gleðifréttin?

Þjáningin

Fjögur hundruð ár eru frá fæðingu Hallgríms Péturssonar og ráð að spyrja á þessum tímamótum: Hentar helgimyndin af Hallgrími nútímafólki? Er Hallgrímur of einhæfur þjóðardýrlingur? Hvaða afmælisgjöf gætum við gefið honum?

Ímynd Hallgríms Péturssonar er of dimm. Sjónum hefur um of verið beint að hörmulegum þáttum í lífi hans. Visslega lenti hann í klandri. Örgeðja unglingurinn átti líklega í útistöðum við heimamenn á Hólum þar sem hann var um tíma. Hann klúðraði málum af því hann varð ástfangin af og tengdist giftri konu. Þar með hvarf draumurinn um nám og frama. Hann sá á eftir börnum sínum og annarra í gröfina. Svo rotnaði hann lifandi sem holdsveikur maður.

Allt í plús

Er sorgarsvipur og svört hempa allt sem einkennir Hallgrím? Nei, hann var í lit og kunni örugglega að skellihlæja og strjúka blítt. Hallgrímur var skemmtilegur, klár, fjölhæfur, húmoristi og vel menntaður eldhugi. Hann var laghentur, natinn og líklega góður pabbi. Þau, sem hafa lesið kveðskap hans, geta ímyndað sér líflegan og ævintýralegan mann.

Píslarmaðurinn var líka elskhugi, ræðujöfur, sem talaði stórkostlega, bunaði úr sér skemmtilegheitum, var góður granni, slyngur félagsmálamaður og eftirlæti allra sem kynntust honum. Hallgrímur var allur í plús. Hann var sjarmerandi góðmenni, hrífandi stórmenni og magnaður listamaður. Nútímakarlafræði sér í honum „súperkall.“

Það eru fordómar manna sem hafa skapað hina svörtu mynd af skáldprestinum. Þeir hafa – að mínu viti – varpað yfir á Hallgrím og mynd hans sorg sinni, eigin þjáningu og vansælu. Við megum gjarnan frelsa Hallgrím úr fangelsi harmkvælanna. Það væri góð afmælisgjöf.

Líf en ekki dauði

Í Passíusálmunum fimmtíu er Jesús í hlutverki himinkóngs, sem kom til að þjóna. Það er ekki dauðinn, sem er hvati og frumvaldur í lífsskoðun Passíusálmana, heldur ástin. Jesús kom ekki til að deyða heldur leysa menn og heim til lífs, frelsa frá vonleysi og þjáningu. Erindi sálmanna er ekki dauði heldur líf. Ekki uppgjöf gagnvart hinu illa heldur sigur. Þeir boða Guð, sem kemur og fer á undan fólki um lífsdalinn. Sá Guð er tengdur og elskar.

Passíusálmar eru ekki masókistísk bók um myrka trúarafstöðu. Saga þeirra er góð og um líf, þrátt fyrir þjáningu. Sálmarnir eru ástarsaga, margþætt og bjartsýn saga um afstöðu Guðs og raunhæfar aðgerðir. Í orðahafi Passíusálmanna er grunnstefið að Guð elskar, Jesús elskar alla menn – okkur. Það er fagnaðarerindið. Jesús er ástmögur sem tjáir að lífið er elskulegt og að eftir dauða kemur líf. Hallgrímur var vinur og aðdáandi þess Jesú Krists sem kveikir það líf.

Hvernig er kristin trú? Er hún gleðileg – fagnaðarerindi?  Hallgrímshelgimyndin í sauðalitunum er of dapurleg. Þjóðardýrlingurinn Hallgrímur má brosa. Þannig íkon hæfir Íslandskristninni. Besta afmælisgjöfin er Hallgrímur í lit.