Uppstigning

Einu sinni var ungur og reynslulítill prestur beðinn að prédika í messu. Venjan í kirkjudeild hans var að prédika blaðalaust. Klerkur steig í stólinn en var varla byrjaður á ræðunni þegar hann fór á taugum og mundi ekki hvað hann ætlaði eða átti að segja næst. Í guðfræðináminu hafði hann lært að ef minnið brysti væri gott að endurtaka síðustu setninguna meðan hann væri að rifja upp eða ákveða framhaldið – rétt eins og pólitíkusar gera oft í ræðustól. Klerkur nýtti sér trikkið og sagði með þunga það síðasta sem hann hafði áður sagt: “Sjá, ég kem fljótt!” En ræðuframhaldið kom ekki – hvorki í hug né munn. Aftur endurtók hann og með enn meiri þunga: „Sjá, ég kem fljótt.“ Og ekkert kom hvorki fljótt né seint. Síðan í þriðja sinn og þá með því að baða út höndum, berja í stólinn og halla sér fram með þunga: „Sjá, ég kem fljótt.“ Ekki vildi betur til en svo, að prédikunarstóllinn gaf eftir – hliðin datt niður og prédikarinn steyptist fram af og í fangið á konu, sem sat á fremsta bekk, horfði á prest og hlustaði í ofvæni en átti sér einskis ills von. Klerkur var skiljanlega í öngum sínum vegna þessa skyndilega falls síns, hafði áhyggjur af konunni og stundi upp: „Fyrirgefðu.“ “Já auðvitað, sagði konan þegar hún hafði náð sér og bætti við. “Ég hefði auðvitað átt að vera búin að koma mér í burtu. Þú varst nú búinn segja þrisvar sinnum að þú værir að koma!”

Tilgangur lífsins

Í dag er uppstigningardagur, hátíð 40 dögum eftir páska og tíu dögum fyrir hvítasunnu. 50 gleðidagar. Á þessum hátíðatíma eftir páska er minnt á gildi lífsins. Hvaða leið förum við? Fyrir hvað lifum við og í krafti hvers? Hver er tilgangurinn?

Mér hefur alla æfi þótt vænt um þetta orð tilgangur. Það er samsett úr til og gangur. Og gangurinn varðar hreyfingu, ferðalag og svo er forliðurinn um stefnu. Orðið er gegnsætt og ljóst. Tilgangur – gangur til einhvers. Það felur í sér að stefnt sé eitthvað, gengið í áttina að einhverju, einhverju markmiði. Í hvaða átt stefna menn? Í hvaða átt stefnir þú? Þitt hlutverk er ekki að hrapa niður og ofan á aðra mannveru.

Uppstigningardagur hefur í seinni tíð hefur orðið dagur aldraðra í kirkjunni. Það er gott og mikilvægt að taka frá daga til að lyfta sérstaklega upp kjörum, lífi og verkefnum. Á uppstigningardegi er gott fyrir alla aldurshópa að íhuga lífið almennt og í hverju það er fólgið. Við megum gjarnan fínstilla okkur hið innra og ígrunda fyrir hvað við lifum – hver sé tilgangur okkar. Hver er tilgangur þinn?

Ég fagna hverju árinu sem við bætist við æfi mína. Það er gjöf og gleðiefni að vakna til nýs dags. Hver tíð færir ný verkefni og tækifæri. Raunar sannfærðist ég snemma að það væri eftirsóknarvert að eldast. Þegar ég var barn þótti mér augljóst að með tímanum yrði ég lífsreyndari og vitrari. Lærdómstími ævin er. Ég held að við séum stöðugt að læra. Sonur minn sagði þegar hann var lítill: „Pabbi þú verður að vera duglegur að kenna mér því ég er svo nýkominn!“ En við erum alla ævi nýkomin, alltaf í nýjum aðstæðum og upplifum eitthvað nýtt og bregðumst við nýjungum.

Auðvitað hef ég – eins og við öll – uppgötvað að viskan staflast ekki upp hið innra af sjálfri sér. Lífið er köflótt, oft flókið og erfitt – en alltaf opið og veitir tækifæri til góðs og vaxtar. Mér var innrætt strax í bernsku þessi frumafstaða að fagna dögum og árum sem opnum veruleika. Ég aðhyllist róttækt frelsi en ekki niðurnjörvað líf og einhver skipuleggi líf okkar eins og við værum dúkkur í leikhúsi einhverra yfirskilvitlegra stjórnenda. Vissulega hafa erfðir og aðstæður áhrif – en þitt er valið. Það er okkar ábyrgðarmál að bregðast við lífinu. Við megum velja hvort við tökum lífinu og vekefnum þess með jákvæðum og skapandi hætti – eða ekki. Við getum valið að  verða til góðs, þjóna öðrum og fara mjúklega með ungt og viðkvæmt líf. Þú velur lífssýn og lífsafstöðu.

Móðir mín sagði gjarnan að það erfiðasta við að eldast væri að sjá á bak vinum sínum og fólkinu sínu. Missir er fylgifiskur þess að eldast. Þegar okkur er gefið að lifa lengi tapast okkur fólk og eiginleikar – alltaf fleiri og fleiri sem maður sér hverfa í gröf heims og himinn Guðs. Og ef það eru ekki vinir sem hverfa – þá heyrn, snerpa, tilfinning, geta til þess eða hins. Sigurbjörn Einarsson sagði eitt sinn við mig með gáska í augum að heyrnin hans væri farin á undan honum til Guðs. Það er eftirbreytniverð afstaða til missis. Ég finn hvernig næmni fingugóma minna breytist, eyru mín hafa tekið upp á að bjóða ekki lengur ákveðið tíðnisvið – svo þau hljóð mega eiga sig sjálf! Við breytumst öll. Líkamar okkar verða eftir sjö eða átta ár aðrir en þeir eru nú. Þá verður ekkert eftir af efnum sem við höfum í okkur núna. Fyrir nokkrum árum var ekkert í þér af því efni sem er í dag. Aðeins hið andlega samhengi, minningarnar, varðveita samhengi þitt. Hver ertu og til hvers?
Á hvaða ferð ertu? Hvað ertu?

Lífið – ferðalag

Dr. Haraldur Matthíasson á Laugarvatni var hnittinn og líkti lífinu við ökuferð: „Þegar ég var ungur sat ég og horfði út um framrúðuna. Síðar – um miðjan aldur horfði ég út um hliðarrúðurnar. Þegar ég er orðinn gamall horfi ég út um afturrúðuna og hraðinn er ótrúlega mikill.”

Þetta er mikilvæg íhugun. Við skyldum hugsa um í hvaða átt við horfum? Hvert við stefnum stýrir svo mörgu í skynjun, lifun okkar og viðbrögðum. Börnum þykir hægt ganga og horfa fram á veginn og lítt miða. Þegar þú varst barn beiðstu eftir því að eldast? Var ekki óþreyjan í hjarta og eftirvæntingin óþolinmóð? Alltof mörg börn flýta sér svo að fullorðnast að þau ná aldrei fullkomnum þroska. Að verða fullorðinn krefst tíma, að byggja upp þroska krefst næðis og úrvinnslu.

Þegar þú eltist varð meira jafnvægi og þú gast horft út um hliðarrúðurnar. Á miðjum aldri þegar horft er til hliða sýnist fólki hraðinn talsverður og hratt farið hjá ýmsu merkilegu, sem óðar er að baki.

Afstaða og tími

Horfir þú fram á veginn eða ertu farin að líta út um hliðarrúðurnar í lífinu? Eða ertu búin að snúa alveg til baka, og horfir á lífið þeytast inn í fortíðina og þykir óþægilegt af hverju allt verður svona hraðfleygt en þú hægur eða hæg.

Heilar þjóðir geta litið aftur, þegar þær harma glæsta fortíð sína. Þannig voru Ísraelsmenn til forna, þannig voru Íslendingar fram á tuttugustu öld. En síðan sneru ísraelskir spámenn fortíðar ásjónum sínum og landa sinna frá þátíð og fram á veginn.

Í þessu er viskumál fólgið. Það er mikilvægt að snúa ekki bara aftur í lífinu, heldur njóta þess sem gerist í umhverfi okkar, upplifa hin sem eru á leiðinni og eru samfylgdarfólk, vera næm og glöð gagnvart litum og viðburðum daganna. Og við megum gjarnan opna gagnvart framtíð og möguleikum hennar. Hersu gömul sem við verðum eigum við alltaf framtíð. Trúin gefur þá sýn og vídd. Lúther minnti gjarnan á að hann myndi sá til eplatrés jafnvel þótt hann vissi að heimsendir yrði á morgun! Ég á orðið meira en tug eplatrjáa – ekki af því ég haldi að veröld sé komin að lokum heldur vegna gleðinnar yfir lífinu sem Guð gefur í heiminum.

Blessunin í lífinu

Lítil bók hefur verið ein af sölubókum síðustu ára. Hún heitir Bæn Jabezar. Þar er íhugunarsaga af manni nokkrum sem dó, fór til himna og hitti Pétur postula, sem fór með hann í skoðunarferð um himininn. Þeir komu að risastóru húsi, sem Pétur ætlaði að fara framhjá. „Hvaða hús er þetta?“ spurði hinn nýkomni. Pétur reyndi að draga athyglina að öðru. Vegna þrábeiðni hins nýlátna gaf Pétur að lokum undan og opnaði dyrnar inn í mikla hvelfingu. Inni voru sem næst endalausar raðir af hvítum kössum, sem bundið var um með rauðum böndum. „Hvað er þetta?“ spurði maðurinn. Hann sá að allir kassarnir voru merktir einstaklingum og spurði: „Er kannski einn merktur mér?“ Svo þaut hann að stað og fann eftir nokkra leit sinn kassa, reif af honum rauða bandið og kveinaði svo þegar hann gerði sér grein fyrir innihaldinu. Í kassanum voru allar gjafirnar og dýrmætin, sem Guð hafði ætlað að gefa honum meðan hann var á jörðinni, en honum hafði aldrei hugkvæmst eða gefið sér tóm til að biðja Guð um hvað þá að taka við.

Hvert horfir þú í lífinu? Um hvað biður þú? Hver eru gildi þín? Má bjóða þér að opna og öðlast hin mestu og bestu gæði? Þau gæði varða bæði fortíð, nútíð og framtíð. Í því ríkidæmi er líka eilfífðin.

Amen

Uppstigningardagur 2014 – Hugleiðing í Neskirkju 29. maí, 2014.