Greinasafn fyrir merki: confirmation

Hvað er ferming?

Ég fermdist í Neskirkju haustið 1966. Við systkinin erum tvö og stutt á milli okkar. Ákveðið var að hafa eina fermingu og eina veislu. Systir mín er eldri og hún seinkaði sinni fermingu og ég fermdist hálfu ári á undan jafnöldrum mínum, var bara 12 ára. Við systkinin mættumt á miðri leið og vorum fermd 23. október. Ég sótti því fermingarfræðslu með krökkum á undan mér í aldri og þótti skemmtilegt að kynnast þeim. Þau komu úr Hagaskóla en ég úr Melaskóla. Sr. Frank M. Halldórsson lauk upp víddum trúarinnar. Við lærðum fjölda sálma, Biblíuvers og fræði Lúthers og vorum ágætlega undirbúin.

fermingEn til hvers að fermast? Ég hafði heyrt að orðið ferming væri þýðing á latneska orðinu confirmatio sem kæmi svo fram í ýmsum tungumálum, confirmation á ensku, konfirmation á germönskum málum. Og merking orðanna væri að staðfesta. Já, auðvitað – ferming væri komið af firmatio og merkti að skírnin væri staðfest. Svo var ég spurður um hvort ég vildi leitast við að hafa Jesú Krist að leiðtoga lífsins. Ekkert er sjálfgefið – hvorki í trúarlegum efnum né öðru. Já með vörum og í fylgsnum hugans þarf að fara saman. Það er æviverkefni að orð og afstaða séu eitt. Fermingarungmenni nútímans spyrja líka gagnrýninna spurninga og skoða trúarmálin með opnum huga. Þau eru raunverulega að glíma við Guð og mennsku sína.

Er ferming? Er það að fermingarungmenni segi já? Þegar ég var tólf ára í kirkjunni vissi ég að trú er ekki einhliða mál. Samband Guðs og manna er tvíhliða. Já á jörðu verður hjáróma ef ekki er mótsvar í himnesku já-i. Í fermingunni hljóma ekki aðeins já fermingarbarna heldur já, já, já Guðs. Guð staðfestir skírnina, líf barnsins, bænirnar og óskir. Við erum oft með hugann við mannheima en gleymum guðsvíddinni. Mesta undrið í fermingunni er sama undrið og í skírninni. Guð gefur lífið og lofar að vera alltaf nærri. Guð svarar fermingarspurningunni ekki aðeins með fermingaryfirlýsingu: „Vertu trú(r) allt til dauða, og ég mun gefa þér kórónu lífsins.“ Guð svarar með því að gefa allt sem við þurfum til að lifa vel og með hamingju. Hvað er ferming? Já á jörðu og já á himni hljóma saman. Fermingarungmenni staðfesta lífið sem Guð gefur, staðfestir og viðheldur.

Og nú hlakka ég til allra ferminganna framundan. Ég hlakka til að heyra áttatíu já í kirkjunni og við megum hlakka til allra jáyrðanna í kirkjum þjóðarinnar á næstu vikum. Ferming er já fyrir lífið.