Englar í stuði og sveitalykt Jesú

…að boð kom frá Ágústus keisara um að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina… Alla, hverja einustu stelpu og strák í heiminum – karla og konur, Kínverja, Rússa? Er hægt að muna eftir öllum?

Boð  frá … keisara. Það er blákaldur hljómur í þessum orðum. Járnbragð kemur í munninn og meiðslaverkur í putta. Ekki góður keisari, sem neyðir ófríska kona að fara að heiman, langa leið á asna og milli gistihúsa í myrkri?

María og Jósep fóru fóru út úr heimi keisarans, inn í bláleita veröld flakkandi stjörnu, undurveröld vitringa og engla í stuði, kærleiksríkra kinda og jórtrandi kúa. Það var örugglega sveitalykt af heimi Jesú. Þar er allt hægt, allt satt, allt gott.

Keisarinn þarf að skrifa til að muna, en þó er alltaf einhver útundan. Guð man eftir öllum. Hjá Guði er allt gott.

Dýrð sé Guði í upphæðum og friður. Já, það var það, sem þurfti að skrifa í heiminum. Ekki friður keisarans, heldur friðurinn sem skrifaður er í lífið.  Boð kom frá Guði handa strákum og stelpum heimsins að skrifa sína stafi.

(Fann þetta við tiltekt í tölvunni – samdi einhvern tíma á jólakort til vina – svo þetta er ofurlítil aðventuleiðsla).

 

Viðtal um matseld í Fréttablaðinu 15. desember. 

„Vinir okkar hjóna voru alltaf að biðja um þessa eða hina uppskriftina svo við gáfum bara út matreiðslubók eitt árið,“ segir Sigurður Árni Þórðarson, sóknarprestur í Hallgrímskirkju.

Matreiðsluáhuga Sigurðar Árna Þórðarsonar, sóknarprests í Hallgrímskirkju, má rekja til æskuáranna þegar hann gerði sér grein fyrir því að elda mætti silung með mismunandi hætti og að krydd væri undraefni. „Foreldrar mínir ræktuðu fjölbreytilegt grænmeti. Svo var ég á unglingsárum stórveiðimaður norður í Svarfaðardal og týndi marga tugi lítra af berjum á haustin. Það er platveiðimaður sem ekki lærir að gera að fiski og elda.“

Inn á vef sínum www.sigurdurarni.is, birtir Sigurður m.a. greinar, pistla og hugvekjur en líka ýmsar ljúffengar uppskriftir. „Vinir okkar hjóna voru alltaf að biðja um þessa eða hina uppskriftina svo við gáfum bara út matreiðslubók eitt árið og gáfum vinum og fjölskyldumeðlimum í jólagjöf. Þar sem óskirnar héldu áfram og ég var með heimasíðu var auðvelt að smella inn uppskriftum sem eru þarna í bland við hugleiðingar um lífið, prédikanir, þjóðmál og annað sem prestur skrifar um.“

Mikilvægt að borða saman

Eiginkona Sigurðar, Elín Sigrún Jónsdóttir, er að hans sögn betri bakari en hann og líka næmari á uppskriftir. „Hún veit að ég er mikill matfaðir og vil helst elda og hafa marga í kringum mig og gefa mörgum að borða. Því sendir hún mér uppskrift um miðjan dag eða kaupir hráefni og tilkynnir mér að hún hafi fundið þessa góðu uppskrift. Ég verð kátur þegar maturinn er góður, allir borða og standa upp frá borðum með hrós á vörum.“

Starf sóknarprests getur verið mjög annasamt og vinnudagar langir. Góður matur í góðum félagsskap skiptir því Sigurð miklu máli. „Í kirkjunni stöndum við prestarnir við borð, altarið. Og í safnaðarheimilum kirkna eru borð og samfélag. Jesús Kristur var veislukarl. Hann er minn maður. Kirkja er í þágu lífsins. Að borða saman er mikilvægt, samtölin eru mikilvæg og við snertum hvert annað tilfinningalega þegar við eigum samfélag. Það vissi Jesús Kristur og ég tek mark á því, líka heima.“

Áhugi á Biblíumat

Miðjarðarhafsmaturinn, bæði hráefnin og kryddin, eru uppáhald Sigurðar. „Biblíumatur er sértækt áhugaefni og mig langar til að dýpka þekkingu mína á klassísku hráefni fornaldar því það er heilsufæði nútímans. Ég verð í Berkeley í Kaliforníu næstu mánuði og mun örugglega fara á heilsumarkaðina á San Fransisco-svæðinu.“

Uppskriftin sem Sigurður gefur lesendum er Maríukjúklingur sem hann segir  vera biblíumat. „Mig grunar að María, móðir Jesú, hafi verið hrifin af svona mat. Hún hefði getað eldað réttinn því hráefnin voru til í þessum heimshluta á uppvaxtarárum Jesú Krists. Og biblíumatur er alltaf hollur og rímar við heilsufæði nútímans.“ 

Maríukjúklingur

Maríukjúllinn er biblíumatur. Mig grunar að María, móðir Jesú, hafi verið hrifin af svona mat. Hún hefði getað eldað réttinn því hráefnin voru til í þessum heimshluta á uppvaxtarárum Jesú Krists. Og biblíumatur er alltaf hollur og rímar við heilsufæði nútímans. 

Fyrir fjóra:
4 kjúklingabringur
4-6 hvítlauksgeirar
1 tsk kúmmín
1,5 tsk túrmerik
1 tsk kanill malaður
Salvía, helst fersk annars þurrkuð
1 stór rauðlaukur
3 skalottulaukar (sbr. Askelon)
Sítrónubörkur (helst lífrænni) rifin með rifjárni
Safi úr einni sítrónu ca 70 ml. má líka vera appelsínubland
150 gr. spínat
300 ml. grænmetiskraftur
10 döðlur langskornar. Mega líka vera fíkjur/sveskjur í staðinn.
Maldonsalt
Heslihnetur til skreytingar

Maldonsalt og olía á heita pönnu. Kjúklingurinn á pönnuna og meira maldon yfir sem og salvían. Laukurinn skorinn fínt og steiktur, settur við hlið kjúklingabitanna. Kryddað yfir allt, grænmetiskraftinum hellt yfir og sítrónubörkurinn einnig yfir. Ekki síðra að leyfa síðan standa í sólarhring í kæli. Sítrónuvökvi, spínat og hnetur yfir og síðan fært í ofn eða pott og látið malla í fjörutíu mínútur. Gæta að vökvinn fari ekki allur, bæta við vatni ef sósan er að verða of þykk. Borið fram með soðnu bulgur (eða byggi eða kúskús). Svo má afhýða appelsínu eða mandarínu, þverskera og koma hálfri fyrir á hverjum diski. Litirnir fara fallega með matnum og sætur ávöxtur passar vel með. 

Borðbæn: Þökkum Drottni þvi að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu. (Sálm 106.1 og 107.1).

#Metoo

Myllumerki og metoo er tákn fyrir þær sögur, sem sagðar eru um kynferðilega áreitni og ofbeldi. Miklar umræður urðu um ofbeldi gegn konum í forsetakosningum í Bandaríkjunum árið 2016 og skerptu athygli fólks og fjölmiðla á víðtækum vanda. Og svo var það Harvey Weinstein, trölli í kvennaheimum Hollywood. Fæstir töldu mögulegt að snúast gegn kvikmyndapáfanum því hann var svo valdamikill og stýrði að auki her spæjara og stjörnulögmanna. En upplýsingarnar um dólginn söfnuðust upp og New York Times var tilbúið að sýna sorann. Fréttirnar voru svo rosalegar að það var eins hamfarir hefðu orðið. Valdakerfið og þagnarmúrinn í kringum þetta kynferðislega rándýr féll. Upplýsingarnar um atferli mannsins, aðstoðarmenn hans og rotinn menningarkima voru hörmulegar. Í ljós kom að í kringum Weinstein var fjöldi fólks sem þagði. Þau vildu ekki eða þorðu ekki að mótmæla ofbeldinu sem allir vissu þó um. Gerendur eru sekir, en hvað um hin? Eru þau, sem þegja saklaus eða meðsek?

Dólgurinn féll og bylgja reis. 15. október síðastliðinn hvatti Alyssa Milano konur á twitter til að segja frá ofbeldi og nota #metoo. Á nokkrum dögum varð til heimshreyfing. Allt í einu fengu konur vettvang til að tala og segja reynslusögur sínar. Þær gátu allt í einu sagt frá káfi, orðasora, áreitni og kynferðisofbeldi. Þessar sögur um er stærsti sagnabálkur ársins. Sannar sögur samtímans og samfélagsmiðlarnir loguðu. Konurnar sem byrjuðu #metoo eru persónur Time þetta árið og stíliseruð myndin á forsíðu tímaritisins er táknræn.

Um allan vestrænan heim hafa hryllingssögur úr raunheimum verið sagðar, sögur um rándýr í stjórnmálum, vísindasamfélaginu, réttargæslukerfinu, listaheiminum, íþróttahreyfingunni og öðrum menningarhópum. Vargarnir, margir karlkyns en líka kvenkyns, eru alls staðar, í líka í góðgerðarfélögum og trúfélögum. Þolendur eru konur, börn, líka karlar, þau sem standa höllum fæti gagnvart einhvers konar valdi, sem gerendur notfæra sér. Hver á sökina: Gerendur eða þolendur? Og hvað svo?

Réttlæti er mál trúar

Á aðventu er skoðað hvað er gott og hvað vont. Aðventa er að vænta þess sem Guð er og Guð megnar. Það er fagnarefnið – dásemdin. Við væntum hins góða og því er aðventan hreinsunartími – undirbúningstími. Það kemur fram í textum kirkjunnar á þessum tíma. Jesús minnir okkur á að huga að breytingu í tíma, vorkomunni. Og þessi texti er lesinn um miðjan vetur. Í lexíu dagsins er minnt á, að gott mannfélag virðir réttlæti. Réttlæti og friður eru systur. Þegar þær dafna ríkir jafnvægi kraftanna. Börnin leika sér við holu nöðrunnar og stinga hendi inn í bæli höggormsins. Enginn gerir illt því að allt landið verður fullt af þekkingu á Drottni“ segir þar.

Hvernig er samfélag okkar? Eru engin stungin af nöðrum og höggormum? Jú, mörg eru áreitt, misnotuð og verða fyrir yfirgangi eða ofbeldi. Og það varðar trú og gott mannlíf. Margir karlkyns prestar og djáknar í þjóðkirkjunni hafa sent frá sér yfirlýsingu gegn áreitni og ofbeldisseggjum. Konur í hugbúnaðar- og auglýsingageiranum eru sama sinnis. Á fimmtudaginn síðasta birtu 333 konur í Kítón, félagi kvenna í tónlist yfirlýsingu um að þær vilji fá að vinna vinnu sína án áreitni, ofbeldis eða mismununar. Um liðna helgi tjáði Steinunn Valdís Óskarsdóttir, að nafgreindir Íslendingar hefðu hvatt til að henni yrði nauðgað. Ekkert var gert í málinu á sínum tíma, dólgarnir voru ekki dregnir til ábyrgðar en hún og fjölskylda hennar urðu þolendur.

Flestum þykir áreitni og ofbeldi vera alvörumál, sem sporna verði við. En spyrja má: Hvernig tengist það trú, kirkju og aðventu? Og svarið er einfalt: Trú og kirkja standa með þolendum. Það er skilgreiningaratriði kristninnar, að Guð sér þolendur, kemur og hjálpar. Fólk, sem játar kristna trú, lætur sig alltaf varða heill og hamingju fólks. Trú er ekki og má aldrei vera flótti frá lífinu. Trú er og á að vera stefna til lífs og fyrir líf. Trú, sem ekki lætur sig fórnarlömb varða, er sjúk trú og á flótta bæði frá Guði og mönnum.

Spámenn gamla testamentisins voru óþreytandi að benda á, að heill samfélagsins væri mál trúar. Trú skv. þeirra boðskap var samfélagsmál. Jesús Kristur sá alltaf einstaklinga og beitti sér í þágu barna og kvenna – allra. Hann tók sér stöðu með þeim, sem hallað var á. Ef þú ert efins skaltu lesa sögu hans um miskunnsama Samverjann. Trúin á Jesú Krist leitar þolenda og stendur með þeim gegn ofbeldismönnum. Ef þú efast skaltu lesa Nýja testamentið.

Skuggaverur í mannheimum

#Metoo leitar á huga margra okkar þessa aðventu. Já, við sem trúum á Guð eigum að standa með þolendum. Og hvað svo? Dólgarnir þykjast saklausir og axla sjaldnast ábyrgð. Þeir ljúga og halda áfram káfi, áreitni og sóðakjafti. En við viljum betra mannlíf. #Metoohreyfingin hefur ekki breytt heiminum enn, en hún hefur vakið athygli okkar allra á, að við verðum að standa gegn tröllunum. Dólgarnir eiga aldrei að vera óhultir í valdakerfum sínum og skúmaskotum. Eflum með okkur virðingu fyrir frelsi og gildi fólks. Þorum að ganga gegn fólki í valdastöðum sem brýtur af sér. Sviftum álögum af menningu okkar og samfélagi.

Hvers konar karlar virða ekki mörk kvenna og brjóta á þeim? Það eru ekki raunverulegir karlmenn heldur veikir menn, skuggamenn. Káf gegn vilja og kynferðisleg áreitni er merki um karlmennsku á villigötum. Dólgar eru ekki karlmenn heldur tröll. Jesús Kristur er fyrirmyndarkarl, sem virti konur, karla og börn. Hlutverk okkar í samtíð okkar er að hafna þeirri skuggakarlmennsku sem virðir ekki mennsku kvenna og mörk. Og við erum kölluð til að ala upp drengina okkar til ábyrgrar karlmennsku sem virðir mörk fólks.

Dólgshátturinn fer ekki í manngreinarálit. Það eru auðvitað til margar konur líka sem níðast á öðrum, konur í valdastöðu sem nota í eigin þágu hrædda og þjónustulipra. Slíkir vargar eru ekki heilar heldur skuggaverur.

Þessa síðustu mánuði þessa árs hefur #meeto orðið heimshreyfing, sem við eigum að taka alvarlega. Á aðventu er góður tími til að staldra við og hlusta og taka sögurnar alvarlega. Hvað svo: Það er mikilvægt að taka ákvörðun um hvort við ætlum framvegis að standa með Jesú og þolendum eða með dólgum, þöggun og meðvirkni. Í guðspjallinu minnir Jesú okkur á að gæta að lífsmerkjum. Guð kallar okkur til að standa með lífinu. Metoo-hreyfingin er hreyfing til lífs og í þágu lífs. Hvers væntum við? Aðventan minnir á að Guð kemur og kallar til lífs – hið innra – en líka í samfélagi okkar.

Amen.

Hugleiðing í Hallgrímskirkju, 10. desember, 2017. 2. sunnudag í aðventu. A-textaröð.

Til hvers aðventa?

Sex ára drengur sat í kirkju. Söngvar aðventunnar og jólaundirbúnings seitluðu inn í vitund hans. Og minnið brást honum ekki, textarnir frá því í fyrra komu úr sálargeymslunni og hann söng með. Barnakórarnir heilluðu líka alla í kirkjunni. Augu drengsins ljómuðu þegar hann sneri sér að mömmu sinni og sagði með barnslegri einlægni: “Mikið er gaman að lifa.” Mamman sagði mér svo frá þessari jákvæðu upplifun barnsins.

Aðventan er komin. Þessi tími sem er “bæði og” en líka “hvorki né.” Aðventan er samsettur tími, sem krefst ákvörðunar um hvað skal vera í forgangi. Álagið getur verið mikið og margt sem þarf að framkvæma fyrir jólin. Kröfur, sem fólk gerir til sjálfs sín og sinna á þessum tíma, geta verið miklar og úr hófi. Áður en þú druknar í verkum er ráð að þú staldrir við og spyrjir: “Til hvers? Má ekki sumt af þessu bíða? Er ekki allt í lagi að fresta því, sem er ekki alveg aðkallandi?” Á aðventu er ráð að muna eftir tvennunni: Að vera eða gera. Hvort er mikilvægara að lifa eða strita, klára verk eða njóta lífs, upplifa eða puða? Við prestar heyrum oft á fólki tala um við ævilok að dótið og eignirnar hafi ekki fært þeim djúptæka lífshamingju. Dýrmæti lífsins væri fólkið þeirra, maki, börn, barnabörn og vinir. Getur verið að á aðventu sé mikilvægast að vera með sjálfum sér, fólkinu sínu og vænta hins guðlega?

Veistu hvað aðventa þýðir? Orðið er komið af latneska orðinu adventus. Það merkir koma, að eitthvað kemur. Við, menn megum leyfa okkur að hlakka til og vona. Það er einn af undraþáttum lífsins að við megum í læstum aðstæðum vinna að því mál leysist, vænta að lausnin komi. Í aðkrepptum aðstæðum megum við vona að úr rætist, að inn í myrkar aðstæður nái ljós að skína.

Aðventan þarf ekki að vera puðtími heldur getur verið tími hins innri manns. Aðventan má vera tími eftirvæntingar þess að lífið verði undursamlegt. Boðskapur jólanna er um þá dásemd að allt verður gott. Og á aðventunni megum við undirbúa innri mann, skúra út hið óþarfa og vænta komu hins fagnaðarríka. Aðventan er tími til að núllstilla lífið til að við getum tekið við undri lífsins, að hið guðlega verði. Og við getum sagt við fólkið okkar, sem við elskum. Mikið er gaman að lifa.”